Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

Hugleiðingar um áramót

 

Eitt af því sem mörgum þykir hvað mest ógnvekjandi við nútímann er hvað það geta skjótlega sprottið upp menn sem lítið er í sjálfu sér vitað um og þeir jafnvel orðið valdamestu menn heimsins á tiltölulega skammri stund. Áður í tímanum var slíkt sjaldgæfara og dæmið þar einna hrikalegast varðandi Hitler en í seinni tíð hafa margir smá-Hitlerar birst snögglega sem valdamenn og jafnvel ýmsir stærri en það. Hver þekkti t.d. nafnið Vladimir Putin áður en sá umdeildi maður komst á valdatoppinn í Rússlandi sem eftirmaður Jeltsins ?

 

Margs er hægt að spyrja varðandi það ferli sem undanfarið hefur leitt til valdatöku ýmissa manna. Hefði George W. Bush orðið forseti Bandaríkjanna ef eðlilegar forsendur og ærleg, lýðræðisleg vinnubrögð hefðu legið að baki kjöri hans ? Hvað með verðandi forseta Donald Trump, er hann fyrirboði þess sem verða skal ?

 

Eiga gífuryrtir, grófir og vafasamir menn eftir að eiga auðveldast með að verða æðstu menn héðan í frá ? Á Trump hugsanlega eftir að verða hættulegur leiðtogi, bæði fyrir Bandaríkin og heiminn allan ? Hvað er raunverulega um hann vitað þegar allt kemur til alls, er það ekki fyrst og fremst það að hann er ólíkindatól sem er vís til alls ef út í það fer ? Forsjónin hefði sannarlega átt að sjá til þess að nafn hans hefði byrjað á P en ekki T !

 

Hvað með ofbeldishneigða - og að því er virðist samviskulausa menn - sem komast til valda, eins og sum dæmi eru til um, menn sem jafnvel taka fanga af lífi án dóms og laga til að kenna öðrum miskunnarlausa breytni ? Eru slíkir menn nýja leiðtogatýpan, menn sem eru eins og fengnir að láni úr siðlausum tölvuleikjum samtímans ?

 

Hvað með Pólverja sem kvörtuðu í eina tíð sí og æ yfir ófrelsinu undir yfirráðum Sovétmanna, en eru nú sem sjálfstætt stjórnvald stöðugt að rýra frelsi og lýðræði eigin þjóðar ? Hvar er Solidarnosc-samstaðan núna ?

Vantar kannski fjárveitingar frá CIA í andstöðudæmið þegar pólitíska nauðsynin er ekki lengur fyrir hendi ? Er Pilsudski kannski farinn að ganga aftur í Póllandi og fasisminn þar á næstu grösum ?

 

Hversvegna eru Vesturlönd svona ágjörn sem raun ber vitni þegar um reytur dánarbús Sovétríkjanna er að ræða ? Voru þessir bitar sem nú er rifist um ekki hluti af Sovétveldinu og ekki um það deilt í eina tíð ? Hver er með ásælni og hver er í vörn ?

Hverjum dettur í hug að það hafi orðið friðvænlegra í heiminum eftir fall Sovétríkjanna ? Hverjir halda nú aftur af þeim vandræðaöflum sem þorðu þó ekki annað í eina tíð en að hlýða Moskvu ?

Halda menn að það verði friðvænlegra í heiminum eftir fall Bandaríkjanna sem verða örugglega næsta stórveldi sem hrynur ?

Hverjir skyldu koma til með að bítast um það dánarbú þegar þar að kemur ?

 

 

Bandaríkin hafa allt frá stríðslokum 1945 verið slæm fyrirmynd fyrir heiminn. Og þar sem áhrifavald þeirra hefur verið svo gífurlegt sem raun ber vitni, er heimsmyndin í dag að miklu leyti afleidd niðurstaða af þeirra framferði. Og þar hefur ekki verið um að ræða neina göfgandi þróun heldur sístækkandi brennimark bölvunar !

Þar byrjaði agaleysi og uppreisn unga fólksins, þegar óhlýðni og virðingarleysi gagnvart reynslu þeirra sem eldri voru fór að setja mark sitt á allt. Þar byrjaði allt ferlið varðandi fjölmenningu sem hefur verið eins og tilræði við allt sem er þjóðlegt !

 

Og Bandaríkin - eins og önnur heimsvaldaríki - munu vissulega hljóta sinn dóm ! Það er óhjákvæmilegt. Blóðslóðin er orðin of löng og of stór. Blóð þúsunda myrtra indíána kallar enn til himins frá jörðu og krefst réttlætis. Svívirðilegur yfirgangur dollaraveldisins um allan heim er orðinn einn efldasti hatursvaki sem til er meðal fjölmargra þjóða !

 

Bandaríkin eru Rómaveldi nútímans og vitna um sömu lestina og fyrra ríkið, ágirnd og græðgi, siðspillingu og hroka. Einn rúmur mælikvarði gildir fyrir Bandaríkjamenn, annar þröngur fyrir aðra. Nákvæmlega sama og gilti meðal Rómverja. Þegar ein þjóð hefur sig með slíkum hætti yfir allar aðrar þjóðir en fallið ekki langt undan !

 

Bandaríkin hafa í raun þegar innsiglað dóm sinn með siðlausu framferði sínu. Það eina sem eftir er, er endanleg tímasetning á uppfyllingu örlagadómsins. En það er ekki langt í hann og við þær hamfarir sem þá verða mun hin þekkta heimsmynd gjörbreytast !

 

Það er búið að fara svo illum og skítugum höndum um veröldina okkar að hún er víða að verða óheilbrigt aðsetur fyrir börn jarðar. Og þar hefur bandarískt auðmagn verið einn drýgsti gerandinn um langt skeið.

Þó sardínur heimsins komi engum lögum yfir hákarlinn sem enn fer sínu fram í blindum hroka – mun hann brátt farast í eigin soradíki.

Það kemur alltaf að syndagjöldunum !

 

 

 


Ég horfi

 

 

Ég horfi upp í himininn

og hugsa oft um leið,

svo ókyrrð fer um anda minn,

með undarlegum seið,

er lífið allt með sjónleik sinn

eitt samfellt gönuskeið ?

 

Ég horfi oft á himinský

sem hreyfast til og frá,

og spyr með harmi huga í

sem hjartað líka á,

er engin glóra í öllu því

sem augun fá að sjá ?

 

Er okkar líf ein feigðarför

frá fyrsta degi hér,

og sálin pínd við sultarkjör

uns sína leið hún fer ?

Mér finnst svo leitt að fá ei svör

sem fullnægt geta mér !

 

Samt horfi ég um himinslóð

og hlýt að telja víst

að sá er blessar gildi góð,

hann gleymi okkur síst.

Og bæn mín fer til himins hljóð

frá hnetti er ennþá snýst !

 

RK

 


Lítil hugvekja í aðdraganda jóla !

 

Þeir eru margir sem vilja leggja góðum málum lið með því að ganga í félagsskap sem hefur eitthvað slíkt á stefnuskrá sinni. Í mjög mörgum tilfellum er lítið annað en gott um slíkt að segja. En oft vill þó svo fara að margur félagsskapur sem var góðra gjalda verður í upphafi drabbast niður í innantómt hefðarstand þegar hugsjónaeldur frumherjanna er ekki lengur til staðar. Þá fara menn í upphafningu sjálfsins að lifa á fornri frægð og góðum orðstír frá liðinni tíð. Þá er kjarninn farinn og skelin ein eftir !

 

Það er vandasamt mál að viðhalda upphaflegum hugsjónaeldi í félögum og hvar sem er til frambúðar. Slíkt ferli þarf að vera nánast eins og boðhlaup, nýr maður þarf að taka við keflinu þegar sá er á undan hefur farið sýnir þreytumerki eða skilar ekki lengur því sem þörfin krefur. Allt of mörg dæmi eru um að menn sitji áratugum saman í embættum þó að þeir séu orðnir þar útkulnaðir einstaklingar fyrir löngu !

 

Flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar eru stofnaðir til að vinna að góðum málum fyrir land og þjóð. Allir vita hvernig þar tekst oftast til og hvernig hóflaus eigingirni og blind hagsmunafíkn hefur leikið marga flokka og eyðilagt þá smám saman.

 

Maður í flokksböndum er heldur ekki frjáls maður. Hann þarf að axla sinn hlut af flokkslegri ábyrgð, taka afstöðu í málum með þeim hætti að það kann að bitna á réttsýni hans, sannleiksást og siðferðisþreki. Maður í slíkri stöðu lærir fljótt að gera málamiðlanir, að lækka staðlana, svo hann geti staðið undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar sem flokksmanns. Samviska hans verður smám saman öllu heldur eign flokksins en hans. Útsýn hans til þjóðfélagslegra þarfamála tekur að fara eftir því sem hann sér í gegnum hið flokkslega skráargat. Þröngsýnin eykst að sama skapi og víðsýnin skaðast og dregst saman !

 

En þótt raunin verði býsna oft þannig, sér hagsmunagæslu hvötin jafnan til þess að ekki sé farið að grufla í alvöru út í neitt sem getur leitt til sinnaskipta. Það fær ekkert að blása skúminu burt sem safnast hefur fyrir í sálarkirnunni. Þar á ekkert að hreyfast, allt verður að fá að vera þar í föstum skorðum, í því lygalogni sem fær fljótlega að ríkja þar yfir réttlæti, sannleika og siðferðisstyrk. Allt sem kann að angra skal látið rykfalla þar og verða að engu. Þannig verða margir flokksmenn að flokksþrælum !

 

Hvarvetna þar sem menn kjósa að verða vopnabræður þeirra sem verðleggja alla hluti og versla með alla hluti, er ekki von á góðu. Þegar menn hafa komið sér í þá stöðu, hagsmuna sinna vegna, verður þeim það nauðsynin mesta að láta þá afstöðu heita eitthvað annað og betra en raunin er. Þá strax byrja menn að hafa rangt við og ljúga að sjálfum sér. Þannig geta jafnvel menn sem kunna að vera ósjálfstæðastir allra manna orðið í eigin huga sjálfstæðir menn !

 

Ég hef séð mörg dæmi um slíkt, þekki menn sem þora ekki að vera þeir sjálfir og geta ekki verið þeir sjálfir, vegna þess að hagsmunir þeirra og áhrif annarra á líf þeirra krefjast þess að þeir séu ekki sjálfum sér samkvæmir. Þeir eru leiksoppar áhrifa annarra fyrir veikleika eigin persónugerðar. Þannig eru margir menn látnir drepa sjálfa sig innanfrá, sálin er sýkt og hrakin frá því sem rétt er.

En við berum ábyrgð á lífi okkar og eigum ekki að láta aðra menn stjórna því hvernig við verjum því. Þar getur enginn vísað frá sér ábyrgð þegar öll skil verða gerð upp !

 

Sáluhjálparmál okkar verða að vera eingöngu á milli okkar og Skaparans. Við verðum að læra að sjá hið rétta með Guðs hjálp í eigin sýn á lífið og samfélagið. Hagsmunaleg samtryggingaröfl eiga ekki að koma þar nærri og mega það ekki því þau skekkja öll viðmið og blekkja manninn til rangrar breytni og þjónustuvilja gagnvart mörgu því sem enginn ætti að þjóna. Allt sem þjónar Mammon hlýtur alltaf að vera andstætt boðum Guðs !

 

Nú gengur jólahátíðin senn í garð og margt er jafnan gott um það að segja. Heyrst hefur þó að farið sé að taka upp ýmsa siði þar sem jólin sem hátíð eru slitin úr tengslum við allt sem helgast kristnum gildum. Það kemur ekki á óvart því margir eru þeir í heimi þessum sem lifa eftir boðum Mammons, lúta valdi hans og vilja ekkert af Guði vita !

Það er vissulega ekki minnsti hlutinn af frelsi mannsins að hver fái í lífinu að velja sinn veg og menn eiga auðvitað sjálfir mest á hættu varðandi afleiðingar mála af því hvað þeir velja. En eitt er víst að á einhverju stigi verður þar engu breytt lengur, hver og einn verður þá að standa í þeim sporum sem hann hefur valið sér.

Og jafnvíst er að jól án aðkomu Jesú Krists geta aldrei orðið eðlileg jól, því þar sem hann er rekinn frá dyrum verður jólahátíðin aldrei neitt annað en afskræming þess sem hún ætti að vera.

 

Leyfum jólunum að vera áfram hátíð þess friðar og þess kærleika sem þau eiga að vera og bjóðum Konung kærleikans og Friðarhöfðingjann ávallt velkominn til okkar – því aðeins í för með honum og honum einum opnast okkur hamingjuleiðin upp úr þessu lífi !

 

 

 


Um uppreisnaranda nútímans !

Margt gengur veg allrar veraldar nú til dags og þar á meðal er ærið margt sem hefur lengi staðið og jafnvel reiknast af ótal liðnum kynslóðum til undirstöðuefnis mannlegs samfélags. Það er mikið rótleysi til staðar nú á tímum í mannlegum sálum og býsna margir virðast telja sig þurfa að gera upp einhverja reikninga. Fjöldi fólks hefur vissulega átt sér fortíð sem er meinum slungin en aðrir virðast búa sér til fortíðarmynd sem hentar þeim og því uppgjöri sem þeir vilja kalla fram.

 

Margir telja sig fórnarlömb annarra eða kenna slæmum aðstæðum um ógæfu lífs síns, afar fáir líta í eigin barm í þeim efnum. Og enn færri virðast þeir vera sem eru sáttir við sitt líf og þá sem helst hafa sett mark sitt á það. Það er líklega heldur fátítt nú til dags að menn uni glaðir við sitt eins og menn gerðu víst í eina tíð – og það við aðstæður sem fáir myndu líklega telja góðar nú !

 

En þannig virkar nútíminn ! Hann hrærir í fólki og magnar upp óánægju þess með flesta hluti. Festir í mörgum þá tilfinningu að þeir séu alltaf að missa af einhverju. Hann stillir upp allskonar gyllingum og gerir fjölda fólks ósáttan við líf sitt. Fjölmiðlarnir leggja sitt til eins og vanalega og auglýsingamennskan fer hamförum. “Vertu nú einu sinni góður við sjálfan þig, “ segja freistingameistararnir sem þar gala hæst, en það vantar nú ekki í nútímanum að menn vilji vera góðir við sjálfa sig. Það vantar líklega miklu frekar, að þeirra mati, að aðrir séu góðir við þá. Það eru nefnilega margir sem halda því stíft fram að allir séu vondir við þá. Ef þeir fá ekki fram sinn vilja varðandi hlutina, er það vísast talið vegna skilningsleysis og jafnvel illmennsku annarra !

 

Nýfráskilinn karl á Íslandi segir ef til vill hundóánægður og sárbeiskur : “ Af hverju varð ég ekki kóngur í Arabíu með kvennabúr upp á sextíu gellur, það er ekkert nema blóðugt ranglæti að maður eins og ég skyldi ekki hljóta slíkt hlutskipti !”

Og kona í svipaðri stöðu gæti sem best látið út úr sér: “ Ég hefði átt að vera drottning í Fjarskanistan og allir karlmenn þar hefðu átt að þjóna undir mig, en svo fæðist ég á Íslandi þar sem ekkert er í boði, svei því !”

 

Hvar sem uppreisn nútímans er í gangi - og hvar er hún ekki í gangi, sjást afleiðingar hennar. Hjónabönd tætast í sundur, heimili sundrast og fjölskyldur splundrast !

 

Það er nefnilega verið að heyja stríð gegn aldagömlum gildum ; það er verið að brjóta niður en ekki að byggja upp. Allt sem liðnar aldir hafa sýnt og sannað - gegnum farveg reynslunnar - að sé gott og uppbyggilegt, er orðið að sárustu þyrnum í augum þeirra sem eru í uppreisn fyrir svokölluðu alfrelsi mannsins, sem er ekkert nema annað og fínna orð yfir stjórnleysi !

 

Maðurinn er kominn að eigin endamörkum. Hann er að gera veröldina alla að óvistlegu heimili fyrir eigin börn. Græðgi hans hefur ekki átt sér nein takmörk og er að eitra allt um öll heimsins ból. Orðtakið hóflegur gróði hefur vikið fyrir orðinu hámarksgróði. Allt skal spennt til hins ítrasta og auðhringar heimsins miða allt sitt við allt annað en framtíð jarðar. Þar er engin samviska eða ábyrgð til staðar. Þeir sem þeim stjórna eru sannkallaðir siðleysingjar siðleysingjanna !

 

Mikið er talað um misnotkun í nútímanum, kynferðislega misnotkun innan fjölskyldna, hjónabanda, kirkjudeilda, fótboltasambanda og nánast hvar sem fólk á sér einhvern sameiginlegan vettvang. Öll sú misnotkun felur auðvitað í sér hryggileg dæmi um siðlaust framferði, en misnotkun mannsins á jörðinni er þó alvarlegasta misnotkunin því þar er í gangi tilræði við allt skapað líf á þessum hnetti okkar.

 

Náttúran sjálf er að snúast í auknum mæli gegn þessari misnotkun og segja: “ Nú er nóg komið !” Og hún mun hefna sín – það eitt er víst og satt. Hefndin mun koma í gegnum náttúruhamfarir sem munu ekki eiga sér neina hliðstæðu í sögulegum tíma. Heimurinn í sinni núverandi mynd mun hætta að vera til. Lönd munu sökkva í sæ þegar náttúran snýst til varnar gegn rányrkju mannsins og það með fullum rétti.

 

Gildi þeirra sjónarmiða sem kalla má rétthugsun nútímans eru röng og hættuleg, þau færa manngildið stöðugt neðar og auðgildið ofar. Slík viðmið eyðileggja öll samfélög að innan. Þau éta sig upp fyrir eigin græðgi. Siðferðilegt gjaldþrot leiðir alltaf af sér banvæna uppdráttarsýki sem drepur allt sem heilbrigt er !

 

Í hvaða stöðu skyldi sálarvelferð þeirra manna vera sem kjósa að veltast um í villubylgjum guðlauss tíðaranda og halda víst að siðleysi nútímans sé besta veganestið til farsældar í framtíðinni ?

 

Er hægt að vera meira villuráfandi ?

 

 

 

 


“Ekki benda á mig !”


Launahækkunin sem Kjararáð skenkti ríkisaðlinum nýlega, er þegar orðin alræmd og verður áreiðanlega sagnfræðilega bókuð í siðleysukafla þjóðarsögunnar !

Enginn sem kemur til með að fá þessa hækkun vill þó taka ábyrgð á henni. Forsetinn segir að hann þurfi hennar ekki með, ráðherrar virðast hneykslaðir og margir þingmenn mótmæla henni, en svo nær það sjálfsagt ekki lengra. Á endanum fá allir þessir sérvernduðu yfirsamfélagsþegnar sína dúsu og gjáin milli kjara almennings og opinberra þjónustumanna þjóðarinnar breikkar enn sem því nemur !


Það er gömul varnarhefð varðandi svona ferli, að segja “ ekki benda á mig “ og gera málið jafnframt sem ópersónulegast. Láta eins og náttúrulögmálin hafi talað en ekki vallgróin embættismannaklíka hjá Ríkinu. En kerfisdraugurinn Sir Humphrey Appleby gengur líka - og ekki síður - í ljósum logum um litla ríkiskerfið á Íslandi og er þar síst fyrirferðarminni en í stórkerfum milljónaþjóðanna !


Embættismannakerfið og hin staðlaða valdaklíka þess er nánast alls staðar eins og reynist oftast til bölvunar fyrir almannaheill þegar á allt er litið. Eðli hvers manns, sem ekkert vill af Meistara sannleikans vita, spillist fljótt, og það gerist ekki síst þar sem hlynnt er einna mest að sjálfselsku mannsins og sérhyggju – í siðvilltum ríkiskerfum nútímans !


Svo hvað verður með hina alræmdu launahækkun ? Gerir forsetinn eitthvað í málinu, nei ! Gera ráðherrarnir eitthvað í málinu, nei ! Gera þingmennirnir eitthvað í málinu, nei ! Hvað gerist þá ? Umrædd blóðsuguhækkun verður vísast að veruleika og allir útvöldu alikálfarnir fá það sem embættismannakerfið vill veita þeim svo þeir verði þægir og viðráðanlegir við Humphrey gamla og hans sívolduga setulið !


Ein rökleysan við umrædda launahækkun er að ráðamenn þurfi að vera á svo góðum launum að ekki verði hægt að múta þeim ! Hafa menn heyrt annað eins ? Er nokkur maður á svo háum launum að hann vilji ekki meira í raun og veru ? Hafa menn aldrei heyrt um græðgisvæðingu hins íslenska þjóðfélags sem gengur út á það eitt að mikið vill meira. Vita menn ekki að hin öfugsnúna siðfræði íslenskrar yfirklíku og alls verslunarauðvalds kemst fyrir í einni setningu – ÉG, um MIG, frá MÉR, til MÍN !


Íslenskir háembættismenn eru eiginlega orðnir eins og rómversku munaðarseggirnir sem Seneca sagði að ætu til að æla og ældu til að éta. Ofgnótt nautnalífsins er að fara með þá. Þeir þjóna nefnilega ekki fólkinu heldur arðræna það og aféta, Þeir segjast að vísu þjóna kerfinu en sjá aðallega til þess að kerfið þjóni þeim. Þeir fylgja ekki neinni þjóðlegri hugsjón í einu eða neinu. Hver getur haldið því fram eftir það sem á undan er gengið ? Þeir hafa fallið - allir sem einn - á öllum manngildisprófum varðandi þá hluti síðasta aldarfjórðunginn !


Af hverju skyldi það yfir höfuð vera talið álitamál hvort umrædd kauphækkun eigi að standa ? Auðvitað vegna þess að siðferðileg undirstaða er ekki fyrir hendi hjá svo mörgum. Menn horfa skakkt á réttlætið og vita ekki fremur en Pílatus hvað sannleikur er. Ef það kemur spurning í Útsvari, annaðhvort úr Biblíunni eða Íslendingasögunum, standa hin gráðum prýddu lið á gati og vita ekki neitt. En ef það er spurt úr efni kvikmyndarinnar Sódóma Reykjavík, eru keppendur aldeilis með á nótunum !

 

 

Afstaða til réttlætismála tekur auðvitað mið af siðferðisþroska. Gangi siðferðisstaða manna til baka, gerir réttlætisvitundin það líka. Maður sem gengur fyrir lygum í lífi sínu á ekki til mikla ást á sannleikanum. Þjóðin er farin að dýrka falsguði í svo stórum stíl að siðagrundvöllur hennar er farinn að skekkjast meira en lítið.


Siðlaus kauphækkun til útvalinna alikálfa virkar eðlileg í augum þeirra sem hafa skekkt öll sín viðmið vegna þess að einsýn hagsmunagæsla ræður hugsun þeirra. Það er hvorki þeim né þjóðinni til ávinnings að þeir hegði sér þannig. Það kemur alltaf að skuldadögunum varðandi öll rangindi. Efnislegur hagnaður verður oftar en ekki andlegt tap !


Íslenska þjóðin býr við sárgrætilega litla og lélega forustu. Sjöföld óhamingja er nú sest að í þingsölum hennar og sundrungin vex að sama skapi. Tvær þjóðir eru vissulega nú þegar fyrir í landinu hvað öll kjör og aðbúnað snertir !

Skyldu þær eiga eftir að verða sjö ?



Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 18
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 587
  • Frá upphafi: 365485

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 500
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband