Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Hvað hefur orðið um landhelgina okkar og aðrar þjóðareignir ?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að öll einkavæðing fer fram með þeim hætti að fyrst er rekinn áróður fyrir því að allt muni batna fyrir neytendur, fyrir allan almenning, þegar slíkt fyrirkomulag er orðið að veruleika. Það komist á eðlileg samkeppni sem muni leiða til þess að þjónusta lækki í verði og allir njóti góðs af !

En þetta hefur aldrei sannast og það sem verra er, niðurstaða mála hefur alltaf orðið þveröfug. Græðgin sem liggur að baki kröfunni um einkavæðingu er svo hömlulaus að hún kann sér ekkert hóf. Verðlagning verður því aldrei eins og gyllingar upphafsins hljóða upp á, samkeppnin verður aldrei raunhæf og flestir Íslendingar vita núorðið að markaður er miklu meira tengdur við samráð en samkeppni.

Átta árum eftir lok landhelgisbaráttunnar var búið að einkavæða landhelgina til ágóða fyrir eina svívirðilegustu og hrokafyllstu auðklíku sem þekkst hefur í þessu landi. Hverjir stóðu að því, af hverju finnur enginn fræðingurinn hvöt hjá sér til að rannsaka það ? Er ekki löngu tímabært að almenningur átti sig á þeirri aðför sem þar var gerð með lúmskum hætti - að heildarhagsmunum landsmanna ? En nei, þeir eru færri en fáir sem vilja fara í það að rannsaka slíkt. Það þýðir allra handa kostnað og óþægindi og auðvaldsherrar landsins verða nú ekki par hrifnir af slíku verkefnavali. Svo fræðingarnir snúa sér að öðru, einhverju sem verður auðveldlega verðlaunað af þeim sem ekki má anda á og skapar enga hættu á misgengi á ferlinum !

Og peningar samfélagsins safnast stöðugt á færri hendur í litlu Ameríku eins og í þeirri stóru. Samfélagsþjónustan dregst saman því það er svo margt í þeim geira sem ekki þykir arðvænlegt og er jafnvel klofið frá upphaflegri rekstrareiningu þegar einkavæðingin er þar að baki. póstþjónustan var þannig skilin að frá Símanum svo hámarka mætti gróðann hjá þeim síðarnefnda. Áður efldi Síminn póstþjónustuna í þágu samfélagsins, öllum til hagsbóta en græðgisandi einkavæðingarinnar leyfði ekkert slíkt. Og nýjum starfsháttum var komið til skila, jafnvel í stórum sendingum. Allt varð þar að þjóna Mammoni !

Og pósthúsum hefur verið lokað og verður áfram lokað, bankaútibúum er lokað og áður sjálfsögð þjónusta er ekki lengur sjálfsögð því markmiðið er nú aðeins eitt – að græða sem mest. Það er ekki lengur þjónusta við fólkið sem er í fyrirrúmi, enda ekki verið að stela eignum fólksins til þess að auka hana eins og gefur að skilja. Nei, ríkið á að koma rekstri á með tilheyrandi stofnkostnaði, svo á að yfirtaka og fleyta rjómann ofan af öllu !

Og hvað er það sem stendur heilbrigðiskerfinu okkar mest fyrir þrifum ? Það - að í raun er búið að einkavæða það, líklega að meira en hálfu leyti. Helmingur þjónustunnar er kominn út í bæ, inn á stofur sérfræðilækna. Sjúklingum er jafnvel ráðstafað þangað frá spítala af sama aðila og tekur á móti þeim þar. Og allt er að sjálfsögðu orðið miklu dýrara því græðgi er líka sest að í heilbrigðiskerfinu, eins og sveppir og annað sem þar til vansa er. Það styrkir ekkert kerfi sem sett hefur verið upp til almenningsheilla að allur ágóði fari í einkavasa. Jafnvel mislukkaðar lýtalækningar eru bókaðar á almannatryggingar svo kostnaður sé þar sem kostnaður á að vera en ágóðinn þar sem hann á að vera. Þannig hugsa afætur samfélagsins !

Og í raun fækkar þeim gildum stöðugt sem eiga að undirstrika að hér sé rekið mannvænt samfélag, miklu heldur má segja að hér sé búið að setja á valdakoppinn hrokafulla elítuklíku sem étur allt frá öllum og kann ekki að skammast sín fyrir eitt né neitt. Þar er bölvun lands og þjóðar á ferð enn á ný, uppvakningur frá fyrirhrunsárunum, viðbjóður alls sem gott getur talist !

Og hvort sem við tölum um yfirstandandi mál Landsbankans og Borgunar, þar sem sumir vissu greinilega allt en aðrir lítið sem ekkert eftir því sem þeir segja, eða milljónabónusamál til gæðinga hjá gjaldþrota fyrirtækjum sem farið hafa í nauðasamninga, sjáum við glöggt hvernig ákveðinn frjálshyggjuhugsandi hópur ráðamanna í viðskiptalífinu hegðar sér. Þar sést ekki neinn lærdómur af hruninu, síður en svo. Þar sést hinsvegar einbeittur brotavilji gagnvart öllu eðlilegu siðferði. Og fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi tala hver um annan þveran um að þetta og hitt sé kannski löglegt en samt algerlega siðlaust !

Hverjir setja lög í þessu landi ? Er það ekki hlutverk þingmanna að sjá til þess að lög þjóðarinnar séu í samræmi við siðvitund okkar og mælikvarða á það hvað sé rétt og hvað sé rangt. Af hverju eru æ fleiri lagasetningar orðnar þannig að það er eins og þær hafi verið sérpantaðar af ákveðnum hagsmunaaðilum ? Er það ekki vegna þess að þeir sem eiga að sjá um að slíkt gerist ekki, hafa ekki gætt skyldu sinnar ?

Hvernig er landkynning sumra ferðaþjónustuaðila, erlendum ferðamönnum er uppálagt að drekka vatn úr sérmerktum hótelflöskum í höfuðborg hins hreina ferðamannalands ? Og hótel geta sjáanlega reynst helmingi stærri við athugun en leyfi er fyrir ! Víðasthvar virðist græðgin setja sín óþverraspor og margir reyna að hámarka gróða sinn með lögleysu og svínaríi !

Og maður spyr sig jafnvel nú orðið, hvað víða skyldi mansal vera til staðar í landinu ? Hvað getur ekki viðgengist í landi þar sem yfirvöld eru meira og minna sofandi sauðir og sérhver opinber stofnun virðist á stöðugum flótta frá sérhverri ábyrgð sem hún á að axla ? Jafnvel neyðarlínan er farin að klikka !

Það mætti halda, að unnið væri fyrst og fremst að því takmarki, innan kerfisins í óðaþéttbýlinu syðra, að koma alfarið í veg fyrir að landsmenn geti verið stoltir af því að vera Íslendingar !

Og því miður, það virðast öll teikn á lofti með það að því takmarki verði náð innan tíðar !

 


Tyrkneski Trójuhesturinn !

Hin fornfræga borg Trója var staðsett í Litlu Asíu og rústir hennar eru því innan landamæra Tyrklands. Flestir vita hvernig Grikkjum tókst að vinna borgina eftir að hafa setið um hana – að sagt er – í tíu ár. Það var ekki hugrekki Grikkja sem réð úrslitum því Trójumenn voru þeim ekki síðri í þeim efnum, jafnvel hinn ósigranlegi Akkilles varð að lúta þar í gras. Nei, það var grísk slægð sem varð borginni að falli. Og slægðin er víða til staðar enn í dag og gerir mörgum grikk !

Sumir vilja nú veita Tyrkjum aðild að Evrópusambandinu, hleypa 80 milljón Tyrkjum þar inn. En margir gjalda varhug við því og jafnvel Giscard gamli d´Éstaigne, fyrrverandi forseti Frakklands, harðsoðinn Evrópusambandsmaður, hefur sagt að það myndi þýða endalok sambandsins. David Cameron forsætisráðherra Bretlands hefur hinsvegar gefið yfirlýsingar um að hann sjái ekkert athugavert við inngöngu Tyrkja í sambandið svo framarlega sem þeir uppfylli sett skilyrði !

Það er því ljóst að skoðanir eru skiptar meðal evrópskra ráðamanna varðandi þetta stóra mál og margir þeirra virðast hreint ekki átta sig á því að Tyrkir eru ekki Evrópuþjóð og verða það líklega seint. En Tyrkir eru slægir og pólitík þeirra í meira lagi lúmsk og þeir hafa spilað á ýmsa strengi í samskiptum sínum við ríki Evrópu til þessa og sumir átt erfitt með að sjá við bragðvísi þeirra.

En það þarf enginn að velkjast í vafa um það að Tyrkjum er vel í minni fyrri stórveldistíð og sagan segir okkur að full ástæða sé til þess fyrir ríki Evrópu að vera á verði gagnvart þeim. Það er ekki lengra síðan en 1683 sem 200.000 manna tyrkneskur her flæddi yfir ungversku sléttuna og réðist inn í Austurríki, hóf umsát um Vín, og munaði minnstu að borgin félli. Í heila tvo mánuði vörðust íbúar hennar herskörum soldánsins sem gerðu 16 sinnum áhlaup á lága borgarveggina. Hverja nótt blossuðu neyðar-raketturnar án afláts frá turni Stefáns-dómkirkjunnar og margt virtist benda til að Vín hlyti sömu örlög og Konstantinópel 1453, það er að segja að önnur Evrópuríki gerðu ekkert í málum og enginn kæmi til hjálpar !

En hættan af yfirgangi Tyrkja var þá orðin svo mikil, að Evrópuríkin áttuðu sig í tíma. Þau lögðu margskonar ágreiningsmál sín til hliðar og mynduðu öflugan her sem flýtti sér til hjálpar. Þann 12. september náði þessi evrópski varnarher fram og frelsaði Vínarborg með afgerandi sigri í stórorustunni við Kahlenberg. Hálfmáninn fjarlægðist sjóndeildarhringinn sem ógn við Evrópu og allir drógu andann léttar. En þegar orustur vinnast ekki, kemur slægðin oft til skjalanna og þá fellur kannski borg sem ekki vannst í orustu !

Á 18. og 19. öld urðu Tyrkir samt fyrir áframhaldandi bakslagi á fyrra veldi sínu og ýmis lönd sem þeir höfðu lagt undir sig náðu að verða sjálfstæð á ný. Balkanskaginn tapaðist þeim en þeir höfðu samt sett sitt mark á þjóðlíf manna þar. Albanska þjóðin til að mynda sneri baki við kristinni arfleifð þjóðhetjunnar Georgs Kastriota, sem Tyrkir kölluðu Iskender Bey eða Skanderbeg, og tók Múhameðstrú að mestu og hluti serbnesku þjóðarinnar afneitaði kristni og gerðist múslimsk til að geta lifað í náð tyrknesku drottnaranna !

Í 500 ár þoldu kristnir Serbar hinsvegar kúgun og þrælkun Tyrkja meðan samlöndum þeirra sem höfðu gerst múslimar var hyglað í bak og fyrir. Vestrænt fylgi við serbneska múslima í Bosníu og Herzegovinu í uppgjöri suðurslava fyrir síðustu aldamót, var þó lagt út sem mannréttindaskylda, en enginn studdi kristna Serba í 500 ára þolraun þeirra undir harðstjórnaroki Tyrkja. Í riti sínu Fjallakransinum lýsir Peter Negos þeirri baráttu sem þá var háð af þjóð, sem var gleymd af öðrum þjóðum Evrópu, baráttu sem stóð um aldir við ofurefli múslima sem studdust við serbneska þjóðsvikara og yfirlýsta trúníðinga !

Í lok 20. aldar var samúð vestur-evrópskra ríkja hinsvegar öll með afkomendum þessara serbnesku trúskiptinga og saga hins liðna söltuð í gleymsku með allri þeirri þjáningu sem hún býr þó yfir. Þessvegna var alltaf vísað til deiluaðila í öllum fréttaflutningi með þeim hætti sem gert var, talað um Serba og Króata og múslima ! Þriðji hópurinn fékk ekki þjóðlega tilvísun heldur trúarlega ! Skýringin var sú að hefði þar líka verið talað um Serba hefði það líklega kallað á réttar sögulegar upplýsingar og áróðursmálalið múslimavina í evrópskum fjölmiðlum, sem sumir eru jafnvel í eigu múslima, gerði sér ljóst að þær skýringar myndu ekki koma sér vel !

Þess má svo geta varðandi Georg Kastriota (Skanderbeg), að þann 27. október 2005 samþykkti þing Bandaríkjanna heiðursályktun vegna þess að 600 ár voru þá liðin frá fæðingu hans. Þar er Kastriota lýst sem stórbrotnum pólitískum leiðtoga og hernaðarlegum snillingi og honum þakkað fyrir hans hlutverk í því að bjarga Vestur Evrópu frá því að verða hernumin af tyrkneska stórveldinu !

Seint verður þó hægt að hrósa Bandaríkjunum fyrir að sinna hliðstæðu hlutverki nú á tímum, en þau hafa löngum sleikt sig upp við Tyrki. En allir hafa viljað nýta sér orðspor Skanderbegs. Þýskaland nazismans stofnaði árið 1944 sérstaka fjallaherdeild innan SS sem látin var bera nafn hans. Uppistaðan í þeirri herdeild voru 6491 Kosovo Albanir ! Þeir börðust þá með nazistum eins og til dæmis hin illræmda Ústasjahreyfing Króata !

Samúð manna virðist býsna oft hallast að röngum aðilum, ekki síst þegar ekki er mikill áhugi fyrir því að kynna sér sögu þá sem liggur að baki þeirri atburðarás sem á sér stað í nútímanum og skýrir hana oft að miklu leyti. En löngum vill það verða svo, að áróður á ekki mikla samleið með sannleikanum !

Þó að Tyrkir hafi farið að nútímavæðast eftir að soldánsdæmið var afnumið og Mustafa Kemal náði völdum, hafa þeir samt enn í dag aðra sýn á flest mál en þjóðir Evrópu. Stóraukinn hernaðarmáttur þeirra hefur hinsvegar valdið því að áhrif þeirra eru talsverð og ekki síst vegna þess að þeir eru aðildarþjóð að Nato. Evrópsk ríki og yfirstjórn Nato forðast að styggja þá !

En Tyrkir eru býsna tvöfaldir í roðinu sem fyrr segir og átökin í Sýrlandi hafa til dæmis sýnt fram á það að margra mati að tyrknesk yfirvöld hafi þar leikið tveim skjöldum og hreint ekki sýnt sig í neinum takti við vestræn sjónarmið. Hugsanlega geta líka verið ýmis tengsl milli islamska ríkisins og tyrkneskra yfirvalda þó leynt fari og seint munu Tyrkir veita Kúrdum liðsinni !

Það þarf því enginn að efast um að allt sem stækkar hlut Kúrda í átökunum þarna austurfrá er og verður eitur í beinum Tyrkja. Kúrdar hafa lengstum verið landlaus þjóð og þurft að berjast hart fyrir tilverurétti sínum og ekki síst gegn tyrkneska valdinu. Þeir hafa í mörgu borið hitann og þungann í stríðinu við hið svokallaða islamska ríki og verðskulda stuðning frá Vesturlöndum og Nato, en Tyrkir munu reyna allt sem þeir geta til að halda Kúrdum utan við allt.

Ef Tyrkland verður aðili að Evrópusambandinu mun það þýða að Trójuhestur hafi verið dreginn inn í Brussel-kastalann, sem líklegur er til að hafa sömu verkanir þar og fyrirrennari hans forðum hafði í Tróju. Tyrkland mun ekki efla Evrópusambandið – heldur þvert á móti auka misklíð og sundrungu innan þess og skýringin er ósköp einföld – Tyrkland á ekki og mun ekki eiga samleið með ríkjum Evrópu !

 

 


Hin úthverfa hjálparstefna !

Það er í rauninni mjög umhugsunarvert hvað fjölmiðlar landsins gera sér alltaf mikinn mat úr málum innflytjenda og hælisleitenda. Linnulaust er fjallað um slíkt og það virkar sýnilega á marga sem hreinn og beinn heilaþvottur. Það má heita að stöðugt séu í gangi þættir um innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur og þá sem koma hingað sem slíkir. Alsæla þeirra sem komast hingað til fyrirheitna landsins virðist vera eins og þeir telji sig með því komna nánast á næsta bæ við Himnaríki !

Maður er eiginlega mest hissa á því að það skuli ekki hafa verið gefið upp ennþá í fjölmiðlum hvað oft þetta fólk fer á klóið yfir daginn. Það er nánast það eina sem ekki hefur verið skýrt frá. Það ætti þó að skipta máli því það segir í góðri íslenskri vísu að á klóinu sé griðastaður, staður sem býr yfir friði og ró. Þar ætti því að geta talist þónokkuð mikilvægur staður og staður sem ætti að vera þeim sem leita að friði frá ófriði jafnvel hugstæðari en öðrum !

Og það er sannarlega ekki í kot vísað þegar þessir innflytjendur koma til landsins utan úr hinum hrjáða heimi. Á Íslandi er auðvitað enginn hrjáður til muna og spilling er hvað eftir annað reiknuð hérlendis af erlendum sérfræðingum með því minnsta sem þekkist. Og Íslendingar virðast vilja trúa því upp til hópa að svo sé, jafnvel þó bankarnir séu eins og þeir eru og samráð nánast alls staðar þar sem það á ekki að vera og eftirlitskerfið eins og gjörónýtt gatasigti !

En varðandi hjálpina og fyrirgreiðsluna við innflytjendur og hælisleitendur. Það er auðvitað allt haft til reiðu fyrir þetta fólk sem hingað kemur. Íbúðir fyrir það eru gerðar klárar frá A til Ö og heill húsbúnaður fylgir að sjálfsögðu með. Og íslenska ríkið borgar allt slíkt með gleði sem aldrei kynnir sig þó þegar þarfir landans eiga í hlut. Það þykir hinsvegar svo spennandi og fjölmiðlavænt að hjálpa útlendingum við að koma sér fyrir hér - að fólkið sem er alltaf að bjarga heiminum, virðist standa í röðum hjá Rauða krossinum og öðrum hjálparbatteríum til að fá að hjálpa til. Þar þykir sannarlega munur að mannsliði. Og blessað fólkið sem er verið að hjálpa sést auðvitað í fjölmiðlunum aftur og aftur margþakka hinum frábæru Íslendingum og hinu frábæra Íslandi fyrir að taka á móti sér. Allir eru svo dæmalaust góðir við alla !

En samt eru til önnur mál sem hvorki þykja fjölmiðlavæn eða eftirsóknarverð varðandi hjálparstarf. Það er í sambandi við fátæka fólkið á Íslandi. Já, fátæka fólkið á Íslandi ! Það eru mál íslenskra barna sem lifa undir fátæktarmörkum og eru andlega og líkamlega vannærð í allri velferðarumræðunni hér. Það þykir ekkert spennandi að sinna þeim enda er enginn sleginn til riddara fyrir að vilja hjálpa þeim. Það fer enginn góðhjartaður atvinnurekandi í það á fullu – í fjölmiðlum - að reka kerfið til að hressa upp á slíka aumingja. Athyglissjúkt fólk fer ekki á stúfana þegar slíkt er annarsvegar enda engar myndavélar nærri !

Og þegar náttúrulega er talið að bara sé fyrir hendi venjulegur íslenskur aumingjaskapur þegar einhverjir eiga bágt hér, er svo sem engin gild ástæða sögð til að hjálpa. Fólk á bara að læra að hjálpa sér sjálft. Og þeir sem eru að væla í velferðinni hér eru auðvitað bara heimatilbúnir skammarblettir á hinu vel rekna samfélagi þeirra silfurskeiðunganna Sigmundar og Bjarna. Hér á ekki að þurfa að hjálpa neinum Íslendingi. Almennilegir Íslendingar eru sjálfbjarga að sjálfsögðu og hjálpa sér auðvitað sjálfir eins og þeir hafa alltaf gert – eða þannig !

„Það er gott að búa í Kópavogi“ var einu sinni sagt og það er auðvitað líka talið gott að búa á Íslandi. Hér á að vera kappnóg bjargræði fyrir duglegt fólk sem kann að bjarga sér og veit og skilur að flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum er eitt af því sem bjargar best. Og slíkt fólk sem er gjarnan með alla sína heilastarfsemi í veskinu veit svo sem öllum fremur að það er engin spilling til á Íslandi. Að fólk skuli bara láta sér detta slíkt í hug. Það hljóta að vera einhverjir vinstri grænir sem hugsa þannig – eða þá þessir píratar, nýja ógeðið !

Það er nú eiginlega orðin skýlaus stefna íslenskra stjórnvalda að hjálpa verði nauðstöddum út á við en ekki inn á við. Stórauðugir ráðamenn lands og þjóðar telja að við verðum helst að sinna því sem eykur orðstír okkar úti í hinum stóra heimi. Einmitt þessvegna fór Sigmundur silfurskeið til Mið-Austurlanda, varinn í bak og fyrir af sérsveitarmönnum og lífvörðum. Hann var að fara þar í mjög mikilvæga ferð og átti ekki að verða fórnarlamb í henni eins og annar mikill manngæsku-postuli á sínum tíma í sinni ferð þangað, Folke Bernadotte. Sigmundur fór utan með boðskap íslenskra stjórnvalda, sem hljóðar í hrárri þýðingu eitthvað á þessa leið : „Við getum og viljum hjálpa öllum útlendingum, flóttamönnum og hælisleitendum sem hingað vilja koma, öllum sem flýja lönd sín, sama hvað liggur þar að baki, sama hver fortíð manna er, við viljum að allir geti byrjað nýtt og fallegt líf á Íslandi. Við undirstrikum – að ALLIR eru velkomnir til Íslands“ !

Jahá ! Þeir eru víst orðnir býsna margir klepparnir í heiminum en þeir þykja samt misgóðir, en nú er alveg ljóst að kleppurinn í norðri klikkar ekki. Þar eru allir svo fjarskalega aumingjagóðir, það er að segja, ef útlendingar eiga í hlut. Það er nú öllum opin leið til frama að byrja að vinna sig upp í gegnum hjálparstarf hjá Rauða krossinum - eða réttara sagt Rauða hálfmánanum, sem ræður nú ferðinni þar sirka 80% - með sínum séráherslum. Þegar fólk er svo orðið stimplað sem stórgæðamanneskjur fara hjólin að snúast !

Íslenska stjórnkerfið lætur hinsvegar ekki heimatilbúna aumingja snúa á sig. Það þekkir þá á löngu færi. Og þegar slíkir biðja um hjálp, sem auðvitað hlýtur að vera á röngum forsendum, þarf bara harkan sex að gilda. Það má auðvitað ekki ýta undir aumingjaskap meðal afburðaþjóðarinnar. Viðhorfið virðist því eiga að vera gagnvart slíkum - ef hérlendir aumingjar taka sig ekki á, hvort sem við tölum um fátæk börn, fólk sem þykist fatlað eða veikt, öryrkja, gamalmenni eða annað undirmálslið, þá geti það bara flutt úr landi. Það er hvort sem er síkvartandi hér yfir öllu og alltaf að skemma móralinn. Aumingjaskapur er ekki íslenskur heimagróður. Hreppstjórarnir í gamla daga kunnu lagið á því að grisja garðinn. Þeir báru bara aumingja þeirrar tíðar út á skip í bóndabeygju og sögðu höstugir: „Farið þið, svona bara, hundskist til Ameríku. Gott að losna við ykkur" !

Íslenskt samfélag sættir sig auðvitað ekki við innlendan aumingjaskap. Við flytjum slíkan gróður miklu frekar inn erlendis frá og af skiljanlegum ástæðum, því þá þykir það fínt að hjálpa og þjóðinni til hróss. Þá erum við að vekja athygli úti í hinum stóra heimi og ráðamenn fá lof í eyru og klapp á bakið fyrir að gera góða hluti á höfðatöluvísu. Þá er tekið eftir því hvað við erum góðir við þá sem eiga bágt og allir tala um hvað Íslendingar séu flottir í mannréttindum og hinsegin málum og næmir fyrir heims-samviskunni !

En þó flest breytist eiginlega í sífellu, má líklega enn segja að hinn sanni Íslendingur sé beggja handa „bisnissmaður“, heildsali eða lögfræðingur, fæddur inn í Sjálfstæðis-lygina eða Framsóknar-illgresið, og þar af leiðandi enginn aumingi !

Sú þjóð sem í myrkri gengur sér því miður ekkert ljós - ennþá !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband