Leita í fréttum mbl.is

Hin úthverfa hjálparstefna !

Það er í rauninni mjög umhugsunarvert hvað fjölmiðlar landsins gera sér alltaf mikinn mat úr málum innflytjenda og hælisleitenda. Linnulaust er fjallað um slíkt og það virkar sýnilega á marga sem hreinn og beinn heilaþvottur. Það má heita að stöðugt séu í gangi þættir um innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur og þá sem koma hingað sem slíkir. Alsæla þeirra sem komast hingað til fyrirheitna landsins virðist vera eins og þeir telji sig með því komna nánast á næsta bæ við Himnaríki !

Maður er eiginlega mest hissa á því að það skuli ekki hafa verið gefið upp ennþá í fjölmiðlum hvað oft þetta fólk fer á klóið yfir daginn. Það er nánast það eina sem ekki hefur verið skýrt frá. Það ætti þó að skipta máli því það segir í góðri íslenskri vísu að á klóinu sé griðastaður, staður sem býr yfir friði og ró. Þar ætti því að geta talist þónokkuð mikilvægur staður og staður sem ætti að vera þeim sem leita að friði frá ófriði jafnvel hugstæðari en öðrum !

Og það er sannarlega ekki í kot vísað þegar þessir innflytjendur koma til landsins utan úr hinum hrjáða heimi. Á Íslandi er auðvitað enginn hrjáður til muna og spilling er hvað eftir annað reiknuð hérlendis af erlendum sérfræðingum með því minnsta sem þekkist. Og Íslendingar virðast vilja trúa því upp til hópa að svo sé, jafnvel þó bankarnir séu eins og þeir eru og samráð nánast alls staðar þar sem það á ekki að vera og eftirlitskerfið eins og gjörónýtt gatasigti !

En varðandi hjálpina og fyrirgreiðsluna við innflytjendur og hælisleitendur. Það er auðvitað allt haft til reiðu fyrir þetta fólk sem hingað kemur. Íbúðir fyrir það eru gerðar klárar frá A til Ö og heill húsbúnaður fylgir að sjálfsögðu með. Og íslenska ríkið borgar allt slíkt með gleði sem aldrei kynnir sig þó þegar þarfir landans eiga í hlut. Það þykir hinsvegar svo spennandi og fjölmiðlavænt að hjálpa útlendingum við að koma sér fyrir hér - að fólkið sem er alltaf að bjarga heiminum, virðist standa í röðum hjá Rauða krossinum og öðrum hjálparbatteríum til að fá að hjálpa til. Þar þykir sannarlega munur að mannsliði. Og blessað fólkið sem er verið að hjálpa sést auðvitað í fjölmiðlunum aftur og aftur margþakka hinum frábæru Íslendingum og hinu frábæra Íslandi fyrir að taka á móti sér. Allir eru svo dæmalaust góðir við alla !

En samt eru til önnur mál sem hvorki þykja fjölmiðlavæn eða eftirsóknarverð varðandi hjálparstarf. Það er í sambandi við fátæka fólkið á Íslandi. Já, fátæka fólkið á Íslandi ! Það eru mál íslenskra barna sem lifa undir fátæktarmörkum og eru andlega og líkamlega vannærð í allri velferðarumræðunni hér. Það þykir ekkert spennandi að sinna þeim enda er enginn sleginn til riddara fyrir að vilja hjálpa þeim. Það fer enginn góðhjartaður atvinnurekandi í það á fullu – í fjölmiðlum - að reka kerfið til að hressa upp á slíka aumingja. Athyglissjúkt fólk fer ekki á stúfana þegar slíkt er annarsvegar enda engar myndavélar nærri !

Og þegar náttúrulega er talið að bara sé fyrir hendi venjulegur íslenskur aumingjaskapur þegar einhverjir eiga bágt hér, er svo sem engin gild ástæða sögð til að hjálpa. Fólk á bara að læra að hjálpa sér sjálft. Og þeir sem eru að væla í velferðinni hér eru auðvitað bara heimatilbúnir skammarblettir á hinu vel rekna samfélagi þeirra silfurskeiðunganna Sigmundar og Bjarna. Hér á ekki að þurfa að hjálpa neinum Íslendingi. Almennilegir Íslendingar eru sjálfbjarga að sjálfsögðu og hjálpa sér auðvitað sjálfir eins og þeir hafa alltaf gert – eða þannig !

„Það er gott að búa í Kópavogi“ var einu sinni sagt og það er auðvitað líka talið gott að búa á Íslandi. Hér á að vera kappnóg bjargræði fyrir duglegt fólk sem kann að bjarga sér og veit og skilur að flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum er eitt af því sem bjargar best. Og slíkt fólk sem er gjarnan með alla sína heilastarfsemi í veskinu veit svo sem öllum fremur að það er engin spilling til á Íslandi. Að fólk skuli bara láta sér detta slíkt í hug. Það hljóta að vera einhverjir vinstri grænir sem hugsa þannig – eða þá þessir píratar, nýja ógeðið !

Það er nú eiginlega orðin skýlaus stefna íslenskra stjórnvalda að hjálpa verði nauðstöddum út á við en ekki inn á við. Stórauðugir ráðamenn lands og þjóðar telja að við verðum helst að sinna því sem eykur orðstír okkar úti í hinum stóra heimi. Einmitt þessvegna fór Sigmundur silfurskeið til Mið-Austurlanda, varinn í bak og fyrir af sérsveitarmönnum og lífvörðum. Hann var að fara þar í mjög mikilvæga ferð og átti ekki að verða fórnarlamb í henni eins og annar mikill manngæsku-postuli á sínum tíma í sinni ferð þangað, Folke Bernadotte. Sigmundur fór utan með boðskap íslenskra stjórnvalda, sem hljóðar í hrárri þýðingu eitthvað á þessa leið : „Við getum og viljum hjálpa öllum útlendingum, flóttamönnum og hælisleitendum sem hingað vilja koma, öllum sem flýja lönd sín, sama hvað liggur þar að baki, sama hver fortíð manna er, við viljum að allir geti byrjað nýtt og fallegt líf á Íslandi. Við undirstrikum – að ALLIR eru velkomnir til Íslands“ !

Jahá ! Þeir eru víst orðnir býsna margir klepparnir í heiminum en þeir þykja samt misgóðir, en nú er alveg ljóst að kleppurinn í norðri klikkar ekki. Þar eru allir svo fjarskalega aumingjagóðir, það er að segja, ef útlendingar eiga í hlut. Það er nú öllum opin leið til frama að byrja að vinna sig upp í gegnum hjálparstarf hjá Rauða krossinum - eða réttara sagt Rauða hálfmánanum, sem ræður nú ferðinni þar sirka 80% - með sínum séráherslum. Þegar fólk er svo orðið stimplað sem stórgæðamanneskjur fara hjólin að snúast !

Íslenska stjórnkerfið lætur hinsvegar ekki heimatilbúna aumingja snúa á sig. Það þekkir þá á löngu færi. Og þegar slíkir biðja um hjálp, sem auðvitað hlýtur að vera á röngum forsendum, þarf bara harkan sex að gilda. Það má auðvitað ekki ýta undir aumingjaskap meðal afburðaþjóðarinnar. Viðhorfið virðist því eiga að vera gagnvart slíkum - ef hérlendir aumingjar taka sig ekki á, hvort sem við tölum um fátæk börn, fólk sem þykist fatlað eða veikt, öryrkja, gamalmenni eða annað undirmálslið, þá geti það bara flutt úr landi. Það er hvort sem er síkvartandi hér yfir öllu og alltaf að skemma móralinn. Aumingjaskapur er ekki íslenskur heimagróður. Hreppstjórarnir í gamla daga kunnu lagið á því að grisja garðinn. Þeir báru bara aumingja þeirrar tíðar út á skip í bóndabeygju og sögðu höstugir: „Farið þið, svona bara, hundskist til Ameríku. Gott að losna við ykkur" !

Íslenskt samfélag sættir sig auðvitað ekki við innlendan aumingjaskap. Við flytjum slíkan gróður miklu frekar inn erlendis frá og af skiljanlegum ástæðum, því þá þykir það fínt að hjálpa og þjóðinni til hróss. Þá erum við að vekja athygli úti í hinum stóra heimi og ráðamenn fá lof í eyru og klapp á bakið fyrir að gera góða hluti á höfðatöluvísu. Þá er tekið eftir því hvað við erum góðir við þá sem eiga bágt og allir tala um hvað Íslendingar séu flottir í mannréttindum og hinsegin málum og næmir fyrir heims-samviskunni !

En þó flest breytist eiginlega í sífellu, má líklega enn segja að hinn sanni Íslendingur sé beggja handa „bisnissmaður“, heildsali eða lögfræðingur, fæddur inn í Sjálfstæðis-lygina eða Framsóknar-illgresið, og þar af leiðandi enginn aumingi !

Sú þjóð sem í myrkri gengur sér því miður ekkert ljós - ennþá !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 1183
  • Frá upphafi: 316782

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 887
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband