Bloggfærslur mánaðarins, september 2016
30.9.2016 | 17:33
Hver verður stefnan framsókn eða afturför ?
Frá mannlegu, þjóðlegu og siðferðilegu sjónarmiði verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Framsóknarmenn hyggjast leysa úr þeirri forustukreppu sem ríkt hefur í flokknum undanfarna mánuði. Líklegt er að málin væru núna í mun betra fari fyrir flokkinn hefði verið tekið strax á þeim í vor og Sigmundur Davíð þá einnig vikið sem formaður. En það virðist sem margt leiðandi Framsóknarfólk hafi haldið eða vonað að það sem gerðist myndi gleymast eða ganga yfir á skömmum tíma. Svo yrði hægt að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist !
En svo einfalt var dæmið hinsvegar ekki. Það tekur yfirleitt sinn tíma að vinna upp traust, en menn geta tapað því mjög snögglega ef þeir verða - til dæmis - berir að ósamkvæmni við yfirlýsta stefnu sína. Og að vinna upp tapað traust er meira en að segja það !
Vegna þess að það sem þurfti að gera var ekki framkvæmt nema að hálfu leyti í vor, fékk meinsemdin sem upp kom - trúnaðarbresturinn, að vaxa og breiða úr sér innan flokksins og valda meiri skaða en ella hefði orðið. Þannig fer löngum þegar djörfung og festa er ekki til staðar og varnarviðbrögð taka mið af röngum stöðuskilningi mála.
Sigmundur Davíð hefur - að því er virðist - talað um að hann hafi álitið sig hafa búið svo um hnútana við Sigurð Inga, að hann yrði nokkurskonar felu forsætisráðherra þó að hann neyddist til að segja af sér. Því er helst svo að skilja að Sigurður Ingi hafi átt að verða einskonar strengjabrúða í höndum hans og slík staða er auðvitað engum manni bjóðandi. Hefði Sigurður Ingi gengið inn í slíkt hlutverk, hefði hann fljótlega lent í mjög óþægilegri klemmu og sennilega glatað við þær aðstæður persónubundnu vægi sínu sem marktækur stjórnmálamaður. Að vera leppur er alltaf ógeðfellt !
Það virðist sýna ákveðinn skilningsskort hjá Sigmundi Davíð að ætlast til þess að varaformaður flokksins, í stöðu forsætisráðherra, þjóni honum í stað þess að láta skyldurnar við flokkinn verða í fyrirrúmi !
Stundum er talað um aftursætis ökumenn, menn sem vilja ráða ferðinni þó aðrir keyri. Víst er að slíkt þjónar ekki góðri umferðarmenningu, hvorki á vegum úti eða í pólitík. Sá ber ábyrgðina sem við stýrið er og þannig er best að staðan sé !
Það má lesa ljóst af ferli mála að Sigurður Ingi hefur áreiðanlega ætlað sér að standa með Sigmundi Davíð í þessum hremmingum sem hann kallaði yfir sig, en að því hlaut að koma að hann yrði að velja á milli stefnu þeirrar sem snýst um Sigmund Davíð og stefnu þeirrar sem snýst um málefni Framsóknarflokksins. Þar er nefnilega ekki um sömu stefnuna að ræða, enda hefur það verið að koma æ betur í ljós á undanförnum vikum.
Pólitískt líf Sigmundar Davíðs er alls ekki pólitískt líf Framsóknarflokksins og trúnaðarbrestur Sigmundar Davíðs er ekki og þarf ekki að vera trúnaðarbrestur Framsóknarflokksins. Þar gildir engin samsvörun nema flokkurinn ætli og ákveði að taka ábyrgð á meintum afglöpum Sigmundar - og geri hann það - geta nú vandræðin farið að vefja heldur betur upp á sig !
Sú var tíðin að einn rismesti leiðtogi Framsóknarmanna hafði færst svo mikið til hægri undir lok ferils síns, að flokkurinn átti í vök að verjast með stefnu sína. Þá var tekið þannig á málum að rjúfa þar á milli, flokkurinn elti ekki Hriflugoðann upp í fangið á íhaldinu heldur stóð með stefnu sinni !
Ef Sigurður Ingi hefði ekki að lokum svarað kalli fjölmargra flokksmanna til mótframboðs gegn Sigmundi, er mjög líklegt að hin víðtæka óánægja innan flokksins hefði leitt til alvöru framboðs af hálfu einhvers annars. Því er höfuðspurningin við þessar aðstæður, hver er líklegastur til að sameina flokkinn og stilla öldurnar ?
Sigurður Ingi lítur trúlega fyrst og fremst á sig sem þjónustumann flokks síns, og hann hefur nú sýnilega sannfærst um það, að hagsmunir flokksins liggi í því að Sigmundur Davíð víki úr formannsstólnum. Þannig verði ágreiningsefnin helst hreinsuð út og skapaður sá friður innan flokksins sem þarf að vera til staðar fyrir málefnalega sókn í komandi kosningum !
Maður sem er ekki lengur - að mati margra flokksmanna - heppilegur formaður fyrir flokkinn, er skiljanlega ekki einingarskapandi leiðtogi fyrir kosningar !
Sigmundur Davíð fékk sitt tækifæri og hefur að margra áliti farið illa með það. Nú er það spurningin hvort Sigurður Ingi fær sitt tækifæri - tækifæri til að leiða flokkinn. Hann er sagður vera maður mun nær grasrótinni - hinu almenna flokksfólki, en Sigmundur, og góðar heimildir eru fyrir því að hann hlusti betur á aðra !
Það verður sem fyrr segir fróðlegt að sjá hvernig Framsóknarmenn koma til með að vinna úr þessari erfiðu stöðu og þjóðlega séð skiptir það auðvitað alla landsmenn máli hvernig til tekst.
Engum þjóðhollum Íslendingi getur verið sama um það hverjir eru pólitískir leiðtogar í landinu og hvernig þeir séu. Völd þeirra eru það mikil að það er þjóðhagslegt höfuðatriði að þeir séu menn sem geta gengið fram til góðs.
Sérhver stjórnmálaflokkur sem sýnir vilja til þess að halda skildi sínum hreinum, er samfélaginu heilbrigð stoð, en flokkur sem ræður ekki við eigin óværu, sama hvaða flokkur það er, bætir hvorki sjálfan sig né samfélagið !
Megi Framsókn bera gæfu til að ráða málum sínum til framsóknar en ekki afturfarar !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook
23.9.2016 | 21:48
Stærsta ógnin við mannfélagið !
Eitt sinn sagði Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti: Þegar þið menntið mann í huga, en ekki siðgæði, menntið þið ógnun við mannfélagið !
Og það er einmitt það sem við skammsýnir mennirnir hófum að gera í stórum stíl á tuttugustu öldinni. Við hættum að gera kröfur um gott siðferði. Maðurinn átti að vera frjáls. Hann átti að finna það rétta í gegnum eigin getu. Hann átti ekki lengur að læra gott siðferði í gegnum kennslu og inngrip annarra. Hann átti sjálfkrafa í krafti menntunar sinnar að verða siðferðilega réttsýnn einstaklingur. Við fengum honum sem sagt í hendur vopn menntunarinnar án nokkurs leiðarvísis um hvernig þau skyldu notuð. Afleiðingarnar hafa orðið geigvænlegar, siðferðileg hnignun og andlegur dauði !
Nútímamaðurinn er fullur af hroka og ekki síst ómældum menntahroka. Hann vill ekki viðurkenna þá staðreynd að hann ræður ekki við að leysa vandamál lífsins. Hann hangir stöðugt í þeirri blekkingu að hann geti bjargað sér sjálfur og reynir að auka gildi sitt með stöðugt innihaldsrýrari lærdómstitlum.
Meistaragráðurnar eru orðnar valdamikið viðhengi manna í nútímanum, en þær virðast ekki vera að skila okkur betra samfélagi. Maðurinn hefur snúið sér í seinni tíð að siðblindum veraldleik og manndýrkun á flestum sviðum en áform hans munu öll bregðast og renna út í sandinn. Ástæðan er einföld : Án Guðs Náðar er allt vort traust óstöðugt, veikt og hjálparlaust !
Stærri hluti mannkynsins á þessari jörð gengur nú fyrir lyfjum en nokkru sinni fyrr. Milljónir manna treysta sér ekki til að mæta komandi degi án lyfja. Það er einkum svartnættið í sálinni sem stendur fólki fyrir þrifum. Margir eru sjúkir að líkamanum til og þurfa að taka lyf, en þeir eru oft andlega sterkir og sálin að því leyti í lagi. En þeir sem eru sjúkir á sálinni eru verr komnir og þar eru meinin mest.
Guðleysið er að fara með það fólk sem þannig er ástatt um, það sér enga von og ekkert nær að senda ljós inn í lokaðar sálir þess. Hinn veraldlegi hégómi sem hefur hlaðist upp í lífi þess og tekið völdin, byrgir fyrir sýn til allra átta. Oft er slíkt fólk hámenntað á heimsins vísu, en með svarthol í sálinni, einkum vegna þess að það lærði aldrei að treysta Skapara sínum. Athvarfið verður svo iðulega flaskan og óminni áfengisvímunnar !
Heimspekingurinn Nietzsche staðhæfði að Guð hefði dáið á nítjándu öldinni. Nú segja sumir að maðurinn hafi dáið á tuttugustu öldinni. Í báðum tilvikum má segja að nokkuð sé til í staðhæfingunum. Guð dó sannarlega í hjörtum margra manna á nítjándu öldinni, einkum og sér í lagi vegna ofmetnaðar þeirra sem skapaðist mest af yfirborðskenndri upplýsingu. Þeir álitu sig orðna svo menntaða að þeir töldu sig ekki lengur eiga samleið með Guði og fóru sína leið. Maðurinn dó líka frá samfélagi við Guð í meiri mæli á tuttugustu öldinni en dæmi voru til um áður !
Guðleysi tuttugustu aldarinnar undirstrikaði það snemma að Laodíkeu-tíminn væri kominn. Síðasta kirkjuöldin var gengin í garð með öllu því sem Opinberunarbókin segir um hennar háttalag og hún verður ekki löng að tíma til. Maðurinn er sannarlega kominn að lokum vegferðar sinnar í þessum heimi !
Og hvað skyldi valda því ? Sjálfsskaparvítin eru löngum verst. Maðurinn hefur fyrst og fremst orðið eigin siðspillingu að bráð. Hann hefur gert heimili sitt, þessa veröld, að forarpolli mengunar og viðbjóðs. Hinar tæknilegu framfarir hafa fengið honum í hendur eyðileggingarvopn gegn náttúrulegri framvindu. Siðferðileg staða hans var svo veik að hann gat ekki risið undir ábyrgðinni sem fylgdi því að meðhöndla slík vopn. Í græðgi sinni gekk hann of langt og raunar miklu meira en það. Af þeim sökum er vistkerfið að hrynja og náttúran að snúast gegn manninum !
Vegna þess að gildi góðs siðgæðis var gert marklaust og ekki lengur kennt vegna oftrúar á mannlegri menntun - hefur það sannast sem Theodore Roosevelt sagði. Siðlaus menntun varð að ógnun við mannfélagið og nú er hún komin á það stig að vart verður aftur snúið. Eina leiðin til bjargar er að snúa sér að hinum gömlu gildum á ný. Að ala upp nýja kynslóð í anda Guðs ótta og góðra siða. En hver gerir það nú á tímum ?
Enginn kennir það sem hann aldrei lærði !
Uppreisn tuttugustu aldarinnar er þegar orðin bölvun tuttugustu og fyrstu aldarinnar !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook
18.9.2016 | 13:00
Siðferðisstaða Framsóknarflokksins ?
Það hendir víst margan manninn að ætla sér ýmislegt sem svo reynist óframkvæmanlegt. Það var meining mín að skrifa pistil um það sem felst í fyrirsögninni, en svo áttaði ég mig á að í því sambandi virðist lítið sem ekkert efni til.
Það er einfaldlega ekki hægt að skrifa um eitthvað sem virðist ekki lengur vera fyrir hendi eða finnast áþreifanlega í umræðu dagsins !
Það sýnist þó blasa við að Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi hafi tapað einhverju frá sér sem öllum mönnum hefur hingað til verið nokkuð annt um að hafa í sínum fórum. Þetta nauðsynlega fararefni á lífsleiðinni virðist hafa orðið alveg viðskila við hugarfar manna þeirra sem funduðu nýlega á flokksins vegum í Mývatnssveit og vonandi er það ekki ávísun á meira af slíkum ófögnuði !
Manni sem ekki var stætt á því að vera forsætisráðherra, vegna þess að orð og gerðir fóru ekki saman hjá honum, og neyddist til að segja af sér, er gefin traustsyfirlýsing og þeir sem það gerðu virðast telja allt í lagi fyrir Framsóknarflokkinn að ganga til kosninga undir forustu hans.
Það segir ljóslega sitt um ýmislegt sem áður var bara óljós grunur manna og margir vildu ekki trúa og opinberar jafnframt óvenju kaldrifjaðan og tækifærissinnaðan tvískinnung !
Ef Framsóknarflokkurinn fær góða útkomu í væntanlegum kosningum mun það líklega gefa sterkar vísbendingar um það að nokkur hluti kjósenda sé ekki betur staddur í vissum efnum en meirihluti Framsóknarmanna í áðurnefndu kjördæmi, og vissulega væri það dapurlegt í andlegum skilningi hvað þjóðina varðar ef það kæmi á daginn. Ef Framsóknarflokkurinn fer hinsvegar illa út úr komandi kosningum, undir óbreyttri forustu, þurfa menn ekki að fara í grafgötur með ástæðuna !
Það skiptir auðvitað heilmiklu hvaða kröfur við gerum sem kjósendur í þessu landi til kjörinna fulltrúa okkar á þingi sem og þeirra sem starfa fyrir okkur annarsstaðar í ríkiskerfinu. Ef viðmið okkar í siðferðilegum efnum ganga til baka skapar það óhjákvæmilega gildisfall sem skaðar samfélagið allt ekki síst til lengri tíma litið.
Framsóknarflokkurinn getur ekki fremur en aðrir flokkar þó ekki væri nema sjálfs sín vegna haldið áfram með sama formann við stýrið eftir það sem á undan er gengið, því það mun kalla á viðvarandi innanskömm í flokknum. Þetta er sumum flokksmönnum ljóst, einkum þeim sem annt er um flokkinn í raun og veru !
En menn sem eru í flokknum sem 99,9% innanklúbbsmenn og horfa á öll mál í gegnum þröngt skráargat flokkslegra eiginhagsmuna og sérhyggju, sjá þetta ekki. Þeir virðast ekki skilja að Framsóknarflokkurinn er og á að vera hluti af íslensku samfélagi og hefur siðferðilegar skyldur í því sambandi. Ef siðagildi flokksins eru verðfelld mun það hafa sín áhrif á samfélagið í heild og ekki til góðs !
Flokkurinn hefur síðustu mánuðina verið undir forustu tveggja manna, annar virðist hafa alla burði til að veita flokknum þá forustu sem eðlileg þörf er á, en hinn er persónulega laskaður vegna trúnaðarbrests og sú löskun getur auðveldlega færst yfir á flokkinn ef flokksmenn ætla sér með hrokafullum hætti að lúta forustu hans áfram !
Annaðhvort stíga menn til hliðar eða ekki !!!
16.9.2016 | 20:05
Að leiðrétta lýðræðið !
Það fer að verða nokkur spurning hvort konur sem eru í pólitík séu yfir höfuð lýðræðissinnaðar ? Þegar þær bjóða sig til þjónustustarfa fyrir kjósendur og fá minna gengi en þær vonast eftir, verða þær býsna oft fúlar og kenna því um beinlínis eða óbeinlínis að verið sé að níðast á þeim vegna þess að þær séu konur !
Svo er gerð krafa um leiðréttingar á lýðræðinu vegna þess að það þjónar ekki þeirra væntingum ! Hverskonar vitleysa er þetta eiginlega ?
Eiga kjósendur ekki að birta vilja sinn í kosningu og á sá vilji ekki að ráða ? Ef svonefndur Sjálfstæðisflokkur getur til að mynda ekki borið sitt barr vegna óánægðra kvenna í flokknum eftir úrslit prófkjöra, á hann ekkert að vera að vesenast með þessi prófkjör. Hann er þá ekki fær um það. Þá verður hann bara að fara aftur í gamla klíkufarið og stilla upp, og nú eftir staðfestri kyngreiningu, kona í fyrsta sæti, karl í annað, kona í þriðja o.s.frv.
Það virðist nefnilega svo komið að fulltrúar okkar á þjóðþinginu eigi ekki að mælast út frá því sem hugsunarhæfni þeirra býr yfir heldur öllu heldur því sem aðgreinir fólk fyrir neðan nafla !
Eftir prófkjör sjalla á Suðurlandi voru kallaðir tveir stjórnmálafræðingar til umræðu um málið á Bylgjunni. Þar var um tvær konur að ræða, enginn karl kvaddur til, heldur tvær konur, og þær töluðu náttúrulega eins og við var að búast, konum væru bara vanþökkuð frábær störf o.s.frv !
En hvernig er það með almenning, kjósendur þessa lands, er þar ekki bæði um karla og konur að ræða ? Af hverju fá þá konur ekki betra brautargengi og af hverju þola þær svo illa - sem raun ber vitni - dóm almennings ?
Ef það gengur illa hjá þeim, segjast þær hættar í pólitík, neita að taka unnið sæti á listanum af því þær stefndu hærra, eru grátbólgnar og grútfúlar í viðtölum og kvarta yfir því að vera af hinu vanmetna kyni !
Og hvernig stendur á því að kynsystur þeirra meðal kjósenda bera ekki meira traust til þeirra en mælist í þessum prófkjörum ?
Á að sveigja og beygja lýðræðið svo að framaþyrstar konur fái það upp í hendurnar sem aðrir hafa hingað til þurft að berjast fyrir ?
Ef fólk telur sig eiga erindi í pólitík, verður það að taka þann slag sem því fylgir, hvort sem í hlut eiga konur eða karlar. Það þýðir ekkert að skæla þegar blæs á móti. Ein konan sem bauð sig fram, orðaði það svo eftir prófkjörið sem sló hana niður, að hún tæki úrslitunum af karlmennsku !
Hvernig hún fer að því veit ég ekki, en ég vona að þeir karlmenn sem sitja á þingi hafi eitthvað af þeim eiginleika til að bera - og það vil ég líka vona að kvenmennska vaxi svo að dáð að konur geti sagt í mótlæti að þær taki ósigrum ekki með karlmennsku heldur með lifandi og lýðræðishollri kvenmennsku !
Þessi endalausa síbylja um kynja-jafnrétti í öllu er algerlega gengin sér til húðar og á þeirri leið að gera alla vitræna umræðu að tómri vitleysu.
Við kjósum flest það fólk í ábyrgðarstöður fyrir land og þjóð sem við treystum best til verka, fyrst og fremst vegna þeirrar hæfni sem við teljum það hafa til hugar og handa en ekki hvort viðkomandi er karl eða kona !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.9.2016 kl. 16:45 | Slóð | Facebook
13.9.2016 | 21:48
HINSTU RÖKIN
Hvað heyrir þú eyra mitt veröld sem veinar,
veröld sem grætur og stynur og kveinar ;
veröld sem hrópar í angist og æpir,
af því að hvarvetna fylla hana glæpir !
Hvað sérð þú auga mitt heim sem er hrelldur,
heim sem að stöðugra afbrota geldur ;
heim sem vill afneita öllum þeim skyldum
sem eiga að byggjast á mannlegum gildum ?
Séð er hvert uppreisnin okkur mun leiða,
alls konar blekkingar tæla og seiða.
Öfuga framvindan athöfnum ræður,
áfram er blásið í helvítis glæður !
Mannkynið allt er á hverfanda hveli,
hvatirnar ráða með sérgæskuþeli.
Kærleikur allur er kvistaður niður,
kropið við skurðgoð og eyddur hver friður !
Jörðin er menguð af eitruðum efnum,
áfram sem blinduð í dauðann við stefnum.
Enginn vill heim okkar hreinsa af slíku,
hagkerfin stjórnast af blóðsugnaklíku !
Hvað er til hjálpar á helvegi slíkum ?
Horfurnar engar á batnandi líkum.
Uppskera fengin af svikulli sáningu
sífellt mun leiða af sér margfalda þjáningu !
Þolraun er margt fyrir augu og eyru,
áfram til bölvunar hrúgað upp meiru.
Augljós að verða hér endalok mála,
að sér því gæti hver lifandi sála !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook
9.9.2016 | 21:35
Nokkur orð um stóra smáþjóð !
Ýmsu má velta fyrir sér varðandi það hvernig íslensk þjóð varð til ? Varð hún kannski til vegna þess að nokkrir mikilmennskubrjálaðir stórbændur og þrælahaldarar flýðu Noreg á sínum tíma undan komandi alkonungsvaldi og miðstýringu ? Erum við ekki bara Norðmenn undir öðru nafni ? Svona og í svipuðum dúr mætti svo sem lengi spyrja !
En í alvöru talað, tíu, tólf aldir, hvað er það á heildarborði tímans ?
Við íslensku Norðmennirnir eða norsku Íslendingarnir, erum hvað sem öðru líður skilgreindir sem sérstök þjóð í dag, og teljum okkur alveg hafa öll skilyrði til þess að vera fullgild þjóð. Jafnvel þótt mælikvarðar á slíkt séu nú reyndar mjög á reiki og mörg dæmi til um hreinar og beinar villur í þjóðlegum skilgreiningum nútímans, verður líklega að teljast að við Íslendingar fullnægjum að mestu leyti þeim skilyrðum sem ætti að vera krafist í þeim efnum.
En hversvegna við flýðum frá Noregi vegna hins komandi stórkonungs-valds, til að setja hér upp þjóðfélag þar sem smákóngar vildu sitja á hverri þúfu, það ætti að segja flestum að allt frá byrjun hafi þónokkur böggull fylgt skammrifi í margrómaðri frelsisleit landans !
Íslenska þjóðveldisuppsetningin endaði náttúrulega með styrjöld milli smákónganna sem fór með land og þjóð beint í konungsginið sem menn þóttust vera að forða sér frá tæpum fjórum öldum fyrr. Og vistin þar varð íslenskri þjóð síður en svo farsæl. Sú ófarnaðarsaga skrifast alfarið á reikning íslenskra smákónga !
En svo kom að því að Noregur sjálfur hrökk í fangið á Danmörku með Ísland í farteskinu og allöngu síðar í fangið á Svíþjóð, en skildi þá Ísland eftir í Danaveldi eins og hvern annan aumingja !
Eini maðurinn sem reyndi að frelsa okkur á öllum þessum langa ófrelsis- tíma var danskur, en hann var gerður að athlægi í þjóðarsögunni fyrir vikið, uppnefndur og úthrópaður. Samt var hann meiri Íslendingur í sér í þeirri viðleitni en margur Íslendingurinn var, enda oft á fyrri tíð talað um danska Íslendinga og slíkum jafnan líkt við verstu menn, saman ber það sem segir í Íslendingabrag Jóns Ólafssonar.
Svo kom fram á tuttugustu öldina. Þá kom loks að því, fyrst og fremst vegna breyttra aðstæðna í evrópskum veruleika, að þjóðin fékk fullveldi, en laut þó áfram danska kónginum. Fegursta ákvæðið í fullveldis-samningnum var um hlutleysi gagnvart pólitík og deilum annarra þjóða.
Aldrei hefur betra framlag verið lagt fram sem leiðsögn fyrir íslenska þjóð inn í framtíðina og hefði því verið fylgt af heilindum hefði Ísland átt að geta orðið virðingarvert Sviss norðursins í samfélagi þjóðanna !
En þau mál fóru allt öðruvísi en til var stofnað 1918 og það er raunaleg saga og sýnir kannski í hnotskurn efni þessa pistils.
Árið 1944 varð íslenska lýðveldið til - á breskum og bandarískum forsendum - og þar með var hlutleysisákvæðinu fagra frá 1918 fargað.
Lýðveldis-ábyrgðarmennirnir bresku og bandarísku kærðu sig ekkert um slíkt ákvæði og þeir réðu á bak við tjöldin. Íslenska mikilmennskan var nefnilega við það tækifæri sem löngum endranær ósjálfstæð og undir erlendri stýringu !
Og enn í dag sýna fjölmörg dæmi okkur - að undir allri stórmennskunni kúrir lítil þjóð með þrúgandi minnimáttarkennd, þjóð sem veit ekki enn hvernig hún á að halda á málum í síbreytilegum heimi, þjóð sem snýst í stöðuga hringi og á erfitt með að taka ákvarðanir og einkum þó farsælar ákvarðanir. Einmitt þessvegna bíða svo mörg samfélagslega knýjandi mál úrlausnar og fást ekki afgreidd. Hvað með flugvallarmálið, hvað með hátæknispítalann, hvað með þetta og hvað með hitt ?
Hvað er að því að vera smáþjóð og viðurkenna það sem einfalda staðreynd og hegða sér í eðlilegu og vitrænu samræmi við stærð og getu ?
Við hegðum okkur oft heimskulega og eigum sennilega margt óskemmtilegt skilið fyrir vikið, en þó á ég erfitt með að trúa því að við eigum skilið svo afleitt forustulið sem raun ber vitni, lið sem er vita gagnslaust til góðra verka en fullt af lýðskrumi.
Það eina sem þetta ráðsmennskulið okkar virðist geta tekið höndum saman um í núinu, er að hrúga múslimum inn í landið og leggja þeim allt upp í hendurnar á alblindum forsendum þess sem kallað er fjölmenningarlegt fordómaleysi en er bara rakin heimska !
Næsta kynslóð sem mun glíma við afleiðingarnar af þeirri vitleysu, mun vita hverjir eiga sökina í þeim efnum, þegar fyrir liggur að fólkið í landinu á ekki samleið lengur og friðurinn er úti !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook
3.9.2016 | 15:24
Nokkuð sem ekki má gleymast !
Sú var tíðin að Þjóðhagsstofnun var aflögð vegna þess að almælt var að pólitískum keisara með ótrúleg alræðisvöld líkaði ekki við hana. Sumir gætu nú velt því fyrir sér hvort hrunið hefði orðið eins og það varð - komið eins og þjófur á nóttu yfir andvaralausa menn - ef Þjóðhagsstofnun hefði verið starfandi ?
Hvað var líka gert við hið svokallaða Fjármálaeftirlit, á hinum allt um grípandi frjálshyggjutímum sem fóru í hönd undir forustu hins óskeikula leiðtoga ? Þeim ágirndartímum sem settu Mammon í hásæti allra stjórnunarmála Íslands og hófu að trekkja upp milljarðaveltutalið mikla í aðfarandi spilavítisumhverfi viðskiptalífsins ?
Fjármálaeftirlitið var slitið úr sambandi við Seðlabankann og síðan látið róa einskipa - í sælli sjálfumgleði - á þokuhafi þekkingarleysis og hroka !
En það er svo sem ljóst að tengslin við Seðlabankann hefðu ekki bjargað neinu eins og Seðlabankanum var stjórnað, en hefði honum verið stýrt af festu og öryggi góðrar hagstjórnar, hefði Fjármálaeftirlitið átt að geta verið skilvirkt varnartæki í réttum og eðlilegum tengslum við öryggiskerfi Ríkisins. Þar vantaði hinsvegar mikið á !
Sérstaklega er athyglisvert að fá það fram svart á hvítu, að leiðtoginn mikli, kominn í stöðu formanns bankaráðs Seðlabankans, skyldi hafa heimilað stofnsetningu Icesave án stofnunar dótturfélags og haldið svo stýrivöxtum í landinu nógu háum til að slík viðskipti gætu gengið, auk annarra stórtækra vaxtamunaviðskipta sem beinlínis léku sér að íslenska hagkerfinu !
Sami maður varði Icesave reikningana sérstaklega snemma árs 2008 og skrifaði undir samkomulag við Breta og Hollendinga sem var miklu óhagstæðara Íslendingum heldur en hinir yfirlýstu allra vitleysislegustu Svavars-samningar sem íhaldsmenn hafa haft mikið á milli tannanna ! Auk þess voru keypt innistæðulaus verðbréf af bönkunum fyrir um 300 milljarða sem glötuðust þannig í hruninu !
Og þetta var gert á örlagastund af óskeikulum leiðtoga sem ítrekað hefur sagst hafa varað við því hvernig komið var fyrir bönkunum og vitað fullvel að í algert óefni var komið ? Jafnvel Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins komst að þeirri niðurstöðu að sú lánastarfsemi hefði verið alvarleg mistök !
Ofan á þetta má svo nefna 500 milljóna evrulánið ( um 75 milljarða íslenskra króna )sem var afgreitt sem neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings 6. október 2008, rétt áður en bankinn fór í þrot. Kunnugir fullyrða að á því láni beri leiðtoginn mikli sem varaði við alla ábyrgð !
Þetta eru nokkur veigamikil atriði af fjölmörgum sem ættu að geta sagt bæði mér og öðrum, að maður sem staðið hefur svona að verkum hafi auðvitað aldrei haft neinn skilning á því að hér væri þörf á því að reka öryggisbatterí eins og Þjóðhagsstofnun var ætlað að vera.
Þegar umræddur einvaldur seldi ríkisbankana til algjörlega óhæfra en vel tengdra Íslendinga, sem keyrðu þá í kaf skömmu síðar og þjóðina með, var ferli einkavæðingarinnar slíkt að fulltrúi í einkavæðingar-nefndinni sagði af sér í september 2002 í mótmælaskyni og sagðist aldrei hafa upplifað önnur eins vinnubrögð !
Fyrr á sama ári hafði formaður nefndarinnar einnig sagt af sér störfum þar og ekki viljað koma nálægt málum eins og þau voru rekin !
Svo kom sá tími að hinir útvöldu alikálfar leiðtogans urðu í munni hans sjálfs að óreiðumönnum , sem þjóðin ætti ekki að bera neina ábyrgð á. Samt voru þetta menn sem fengu beinlínis frá honum alla aðstöðu og öll vopn í hendur - til að auðga sjálfa sig og eyðileggja hag annarra !
Væri allt í lagi með dómgreind og andlegt heilsufar þjóðarinnar hefði frambjóðandi af þessu tagi ekki átt að fara yfir 2% fylgi í neinni almennri kosningu hérlendis. Þó ber vissulega að fagna því að 86 Íslendingar af hverjum 100 hafi þegar gert sér grein fyrir staðreyndum þessara mála. Um hina sem á vantar að hafi gert það, er hinsvegar lítil sem engin von um sinnaskipti.
Heilaþvottur virðist vera til víðar en í Norður Kóreu nú á tímum !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 35
- Sl. sólarhring: 84
- Sl. viku: 604
- Frá upphafi: 365502
Annað
- Innlit í dag: 32
- Innlit sl. viku: 517
- Gestir í dag: 32
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)