Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2018

Hugleiðing um lög og rétt !

 

Nú vita nokkuð margir að til eru hugtökin lög og réttur þó skilningur á þeim kunni að vera með ýmsum hætti. Þau eru líklega meðal þeirra hugtaka sem hvað mest eru misnotuð í þessum miður geðslega heimi okkar. Það sem sumir vilja kalla lög og rétt er nefnilega oft ofbeldisfull afskræming laga og réttar !

 

En hugtökin eru samt notuð mikið og það af þeim sem síst skyldi því jafnvel valdamenn sem ættaðir virðast vera úr neðri byggðum, og hafa allan sinn feril böðlast áfram í krafti ofbeldis og glæpaverka, tala gjarnan um lög og rétt !

 

Bandaríkjamenn eru sérstaklega gjarnir á það að gera út á þessi hugtök þó sýn þeirra á þau, að minnsta kosti stjórnvalda þar, sé oft undarleg í meira lagi. Fjöldi bandarískra kvikmynda, leikrita, þátta o.s.frv. ganga út á það að verið er að berjast fyrir lögum og rétti gegn ranglæti af hálfu allra handa glæpa-afla !

 

Stór hluti af vestrunum margfrægu er beinlínis byggður upp í kringum það kjarnamál að halda verði uppi lögum og reglu hvað sem það kostar og við þekkjum flest eitthvað til þeirrar myndsköpunar. Að draga stórseka ofbeldismenn fyrir dómstólana og láta þá svara til saka hefur verið mikið grundvallaratriði, ekki síst í bandarískri kvikmyndasögu. En slík saga er ekki endilega eitthvað sem endurspeglar veruleikann og í seinni tíð virðist hún fjarlægari þannig samsvörun en oftast áður !

 

Þegar Bandaríkjamenn sendu út morðsveit til að koma Osama bin Laden fyrir kattarnef, virtist það ekki neitt atriði að handtaka hann og rétta yfir honum. Það þarf ekki að segja mér að það hefði ekki verið hægt. Og víst hefði það verið miklu betur í ætt við þá stefnu að framfylgja lögum og rétti að fara þá leið en að gera bara út fyrirfram ætlaðan drápsleiðangur !

 

En gamla lögmálið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn er býsna lífseigt og það réði í þessu tilfelli en ekki vilji til laga og réttar. Það hefði þó orðið Bandaríkjunum frekar til sóma að rétta með forsvaranlegum hætti yfir hryðjuverkaforingjanum og láta alla heimsbyggðina horfa upp á það og sjá hvernig staðið væri að málum samkvæmt lögum, reglu og rétti, jafnvel þegar slíkir menn ættu í hlut !

 

En kannski vissi Osama bin Laden ýmislegt sem ekki mátti komast í hámæli og kannski var ákveðið að þagga niður í honum fyrir fullt og allt svo hann færi ekki að tala illa um ,,góðu gæjana” í þeirra eigin réttarsölum.

 

Því miður er það þannig nú á tímum að það er ekki margt Bandaríkjunum til sóma enda heimurinn þeim mun verri fyrir vikið. Ekkert ríki leggur meira til í heimsmyndina en þau og þau áhrif sem þau hafa eru miklu frekar slæm en góð eins og flestir ættu að geta séð á framvindu mála á seinni tímum !

 

Satt best að segja eru hugtökin lög og réttur ekki hátt metin víða nú á dögum og sumsstaðar má, sem fyrr segir, sjá það hjá þeim sem síst skyldi. Yfirvöld eru í sumum tilfellum farin að hegða sér með þeim hætti að óhugsandi hefði verið talið fyrir nokkrum áratugum. Forsetar Bandaríkjanna hafa til dæmis í seinni tíð sannarlega ekki verið neinir afburðamenn að hæfni og manngöfgi og siðferði sumra þeirra verið að margra mati í meira lagi umdeilanlegt !

 

Líklega verður að leita allt til FDR til að finna göfugmenni á forsetastóli þar vestra. Og kannski mætti spyrja, hvað hefur bandarískt þjóðfélag með göfugmenni að gera í æðstu stöðu eins og það virðist orðið að öllu eðli ? Slíkur maður væri náttúrulega úr öllum takti við samfélagið og yrði auðvitað aldrei kosinn til forseta !

 

Fyrir tæpum 100 árum gerðu Bandaríkjamenn upp við þáverandi forseta sinn með þeim hætti að bregðast stefnu hans sem hefði átt að geta orðið mannkyni öllu til heilla ef henni hefði verið fylgt eftir. Wilson forseti barðist fyrir þeirri stefnu við þröngsýna eigin þjóð uns hann missti algerlega heilsuna og dó skömmu síðar !

 

Þá voru republikanar erfiðir við að eiga en nú er flokkur þeirra orðinn einna líkastur sértrúarflokki sem hangir fastur í sérgæskunni eins og blóðsugan við sárið. Fátt horfir þar til betri vega !

 

Nei, lög og réttur virðast vera hugtök sem æ færri hafa ærlegan skilning á og misnotkun þeirra hugtaka fer vaxandi í þeim mæli að manni stendur ógn af.

 

Ekki sé ég neitt sem er líklegt til að breyta þeirri hrollvekjandi framvindu eins og staðan horfir við í dag ?

 

 


Lítilsháttar palladómur !

 

Maður er nefndur Brynjar Níelsson. Hann situr á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og skyldi engan undra það. Oft heyrist til hans í spjallþáttum í útvarpi og annars staðar því hann er óragur við að segja sína skoðun þó hún komi stundum heyranlega illa við marga. En hann kærir sig að öllu jöfnu kollóttan um það og tjáir sig þurrlega um mál með sínum hætti !

 

Maðurinn er sem sagt yfirleitt fremur ómyrkur í orðum og virðist eftir ýmsu að dæma bera heldur takmarkaða virðingu fyrir mannskepnunni yfir höfuð. Það er eins og hann vilji í flestu undirstrika mannlegan ófullkomleika og breyskleika, því oft má heyra hann segja efnislega eitthvað á þessa leið : ,,Menn eru bara svona og verða bara svona og við því er ekkert að gera !”

 

Ýmsir telja að Brynjar þessi sé ekki sem traustastur flokksmaður, en ég er ekki sammála því. Þvert á móti álít ég að hann sé innvígður og innmúraður flokksmaður og muni aldrei bregðast bláu línunni í neinu því sem máli skiptir. Flokkshollusta hans er áreiðanlega mikil enda veit hann vel í hvaða húsum honum er hentast að vera !

 

Maðurinn er hinsvegar að öllum líkindum nokkurt ólíkindatól og gerir sér sýnilega töluvert far um að vera það. Það virðist vera svona ákveðin hernaðartaktík hjá honum í umræðum að tala dálítið út og suður og berlegt er að það ruglar stundum ýmsa viðmælendur hans í ríminu og til þess er leikurinn sennilega gerður !

 

Sumum finnst kaldranaleg rökhyggja einkenna nokkuð málflutning Brynjars og til eru þeir - jafnvel meðal manna sem telja sig til vinstri, sem hafa sagst hafa á honum mætur. Eitthvað mun Svandís Svavarsdóttir hafa mælt á þá leið, en hún segir nú svo margt að varla er það allt að marka !

 

En hinn meinti kaldranaháttur Brynjars er honum trúlega að mestu áunnin fylgja, enda hefur maðurinn vafalaust kynnst ýmsum erfiðum og óskemmtilegum málum á lífsleiðinni sem lögmaður. Það kann svo að hafa gert honum það ljósara en ella að brynja þurfi sig fyrir ýmsum aðstæðum sem upp á geta komið og það gerir hann sýnilega með þjálfuðum hætti !

 

Seint verður það líklega sagt um Brynjar Níelsson að hann sé sléttur og felldur, miklu frekar má hann teljast hrjúfur og í mörgu virkar hann sem heldur fráhrindandi persónuleiki. Hann er í það minnsta enginn viðhlægjandi og sem fyrr segir oftast óhræddur við að segja meiningu sína þó hún sé ekki til vinsælda fallin. Ætli það megi ekki teljast hverjum manni til nokkurs gildis meðan sæmilegs hófs er gætt í bersöglinni !

 

Lögfræðingar eru varla vinsælasta stétt landsins og Brynjar Níelsson er varla vinsælasti maðurinn innan stéttarinnar, en þó mun hann líklega njóta virðingar sumra þar þó menn hafi kannski ekki beinlínis mætur á honum !

 

Ég sem vinstri maður tel að Brynjar sé að mörgu leyti sú manngerð sem gott er að láti sem mest á sér bera innan raða Sjálfstæðisflokksins. Það er nefnilega skoðun mín að hann laði ekki fólk að flokknum heldur þvert á móti !

 

Eflaust virkar hann vel á gallharða íhalds og frjálshyggjumenn sem eru í flokknum, verða í flokknum og deyja í flokknum, en mér þykir ótrúlegt að hann fiski einhverja nýliða til liðs við flokkinn !

 

Ég segi það vegna þess að ég þykist hafa tekið nokkuð afgerandi eftir því að málflutningur Brynjars í fjölmiðlum virki þannig á nokkuð marga - að þeir verði því vinstrisinnaðri sem þeir heyra meira í honum !

 

Það er skiljanlega gott mál að mínu mati og styður þá skoðun mína að afturhaldsmenn á borð við hann geti verið einkar vel til þess fallnir að rækta upp róttæka vinstrimennsku meðal þjóðarinnar og ekki er vanþörf á því !

 

Svo það getur - þannig séð - verið gagn að ólíklegustu mönnum !

 


Gústi Guðsmaður !

 

Mér skilst að nú hafi verið sett upp á Siglufirði stytta af einum fyrri tíðar borgara staðarins. Ekki er þar þó um að ræða bæjarpólitískan leiðtoga, menningarfrömuð í venjulegum skilningi þess orðs eða forustumann úr atvinnulífinu eins og víðast hvar er gert. Veraldleg framganga þess manns sem heiðraður hefur verið með þessum hætti var eiginlega með allt öðrum hætti en flestra þeirra sem styttur eru steyptar af.

 

Siglfirðingar hafa nefnilega, þvert á hefðir hégómans, reist í virðingarskyni í bæ sínum styttu af óbreyttum alþýðumanni, manni sem var sjálfum sér samkvæmur og trúr í stóru og smáu, manni sem vildi láta gott af sér leiða og gerði litlar kröfur fyrir sjálfan sig – styttan er af Gústa Guðsmanni !

 

Í dag eru menn af slíku tagi næsta fáir, enda rís sjálfhverfur tíðarandinn gegn allri óeigingirni og fórnfýsi eins og fjandinn sjálfur. Nútíðin snýst aðeins um eitt stef og það er – ég, um mig, frá mér, til mín. Svo langt hefur okkur borið af leið samstöðu, félagshyggju og samhjálpar, að flest er að verða þar í einhverju skötulíki !

 

Ég held að Gústi vinur okkar hefði átt erfitt með að stunda útgerð með Guði á Íslandi í dag. Í fyrsta lagi er Guð ekki hafður með í útgerðarmálum hérlendis nú til dags, í öðru lagi snýst útgerð landsins um auðgun í eigin þágu og í þriðja lagi er kvótakerfið ekki í neinum tengslum við himininn. Það á upphaf sitt að rekja á allt annan stað !

 

En Siglfirðingar muna þá tíð þegar Gústi rak sína útgerð í samfélagi við Guð og lét afraksturinn ganga til góðra mála. Hann var eini útgerðarmaður landsins sem gleymdi eigin hag og gerði ekki neinar kröfur í eigin þágu !

 

Sérhver fiskur sem hann veiddi var framlag til meiri manngæsku í kristnum anda um heim allan. Manni finnst eiginlega stórmerkilegt að slíkur útgerðarmaður skuli hafa verið til á Íslandi og sannarlega er sú manngerð hvergi til staðar í brimi og boðum nútíma útgerðar !

 

Sigurvin hét bátur Gústa og sá sem á Drottin að á sannarlega sigurvin. Og Guðs vegir liggja um lönd og höf allrar tilveru og hver vill ekki eiga slíkan sigurvin að á lífsleiðinni, vin sem aldrei bregst og leiðir menn heila í höfn hamingjunnar að lokinni ferð ? Svo sannarlega þurfum við öll á því að halda að eiga þann sigurvin á lífssiglingu okkar !

 

Ófáir voru þeir sem nutu betri lífsgæða af fórnfúsu framlagi Gústa og þó að hann þekkti ekki til þeirra persónulega skipti það hann engu máli. Honum var það nóg að gefa til góðs. Hann treysti Guði og vissi að hann myndi sjá til þess að starfið yrði til heilla. Og enginn vafi er á því að sú blessun fylgdi Gústa sem skilaði hlýjum náðarstraumum um hans heimaslóðir og vermdi mannlífið þar !

 

Gústi las Guðs Orð fyrir samborgara sína á Ráðhústorgi Siglufjarðar og miðlaði þar versum úr Biblíunni. Í meira en fjörutíu ár sinnti hann þeirri köllunarskyldu sinni af einlægri þjónustulund. Svo gekk hann heim í Antonsbragga, - barnslega fagnandi og glaður í hjarta – heill í trú til hinstu stundar !

 

Slíkur maður á trúlega góða heimvon í ríki því sem er hið efra og vel gera Siglfirðingar með því að minnast hans með þeim hætti sem nú hefur verið gert !

 

 

 


,,Dagur” braggans !

 

Hið spillingar magnaða braggamál í Reykjavík segir ljóta sögu. Þar kemur fram þetta síendurtekna virðingarleysi valdamanna gagnvart meðferð skattpenings og að því er virðist fullkomið skeytingarleysi um hagsmuni almennings. Þessvegna er ekki hægt að segja annað en að sagan sé ljót og enn ein sönnunin fyrir því hvað mörgu sé í rauninni ábótavant í kerfi því sem sagt er að sé byggt upp með almannahagsmuni að leiðarljósi, jafnt hjá ríki og bæjum !

 

Það er löngu vitað mál að mikið er smurt á hlutina þegar unnið er fyrir almenningspyngjuna. Það er eins og enginn velti því fyrir sér að misnotkun af því tagi komi niður á okkur öllum. Sú verktakaþjónusta sem kemur einhverju kofaskrifli eða braggaræksni í kostnað upp á tugi eða hundruð milljóna hlýtur að vera meira en lítið aðfinnsluverð. Þar er smurt svo þykkt að álagið ber sneiðina ofurliði !

 

Hver er þá ábyrgur ? Hvar er eftirlitið, sem virðist nú víða orðið nokkuð mikið, kostnaðarlega séð. Eða erum við kannski með heilu eftirlitsmannakerfin á fullu á háum launum án þess að það skili sér með heilbrigðum og eðlilegum hætti ?

Er þar kannski að sýna sig enn ein afleiðingin af því ofmenntunarstigi sem búið er að koma á í landinu. Eftirlitskerfin bólgna og þenjast út meðan framleiðslugreinarnar dragast saman ásamt allri raunverulegri verðmætasköpun ?

 

Hvað á að gera við allt þetta hámenntaða fólk sem veifar gráðunum sínum eins og flugspólandi fylgihnetti og vill ekki gera neitt nema vera í einhverskonar eftirliti ?

Hvað á að gera þegar enginn er eftir til að fylgjast með, fara þá eftirlitsherfylkin að fylgjast hvert með öðru ? Eða snýst eftirlit bara um að hafa laun og það há laun ?

 

Af hverju koma alltaf upp mál eins og þetta alræmda braggamál ? Hvernig getur slíkt gerst þegar eftirlitsaðilar eru – eða eiga að vera – á hverju strái ? Eru eftirlitskerfin ekki til að lágmarka spillingu og misnotkun ? Samt eru alltaf að gerast hlutir sem enginn botnar neitt í og ættu ekki að geta gerst !

 

Svo koma forsvarsmenn eftirlitsins fram í fjölmiðlum og segja : ,, Það verður farið yfir alla verkferla og tryggt að þetta komi ekki fyrir aftur !” Sex mánuðum síðar endurtekur sagan sig og undirstrikar að ekkert hefur breyst eða verið gert í málum !

Til hvers er eftirlitið ? Er það bara einhver braggablús fyrir alikálfa í hripleku kerfi ?

 

Það gengur auðvitað ekki að fara svona með fjármuni þjóðarinnar. Allir vita að flest nauðsynjamál okkar eru svelt og látin bíða til bölvunar vegna peningaleysis. Innviðir samfélagsins í heild eru því víða orðnir feysknir og meðan fjármálaráðherrann hrósar sér af því að grynna á skuldum erlendis er allt að grotna niður hér með tilheyrandi afleiðingum. Hvað skyldi það kosta að koma þeim hlutum í eðlilegt horf ?

 

Vegakerfið, heilbrigðismálin, félags og tryggingamál alþjóðar, allt er í hönk og ekki verið að bjarga neinu til frambúðar með skynsamlegri langtímastefnu, aðeins gjóað auga fyrir næsta horn. Ófarnaðar-sjónarmið ein virðast í fyrirrúmi hjá stjórnvöldum sem virðast alltaf með allt sitt á hverfanda hveli !

 

Líklega þurfum við að ákveða einn dag á ári sem sérstakan dag, helgaðan baráttu gegn spillingu og ekki síst kerfisspillingu. við gætum þessvegna nefnt slíkan dag - ,,Dag” braggans ! Á slíkum degi gæti fólk komið saman á ýmsum lykilstöðum í landinu, til dæmis á Austurvelli, haldist í hendur og hrópað : ,,Burt með spillinguna og látum fjármuni þjóðarinnar þjóna velferð almennings í þessu landi !”

 

Ef slík áskorun kæmist til framkvæmda, gerðist nokkuð í þessu þjóðfélagi sem í fullri raun hefur aldrei gerst áður. Það að réttur eigandi auðlinda lands og sjávar, þjóðin sjálf, nyti ávaxtanna af þeim, með heilbrigðum og sérgæskulausum hætti !


,,Dagar þínir eru taldir !”

 

Eitt sinn gerðist það, mitt í veislusal Babelkonungs, þar sem hann upphóf sig í hroka sínum og menn dvöldu við drykkju og svall, að fingur kom fram og ritaði á vegg. Skilaboðin til valdhafans voru þessi : ,,Dagar þínir eru taldir og allt verður frá þér tekið !” Og það varð á þeirri sömu nótt !

 

Heimurinn er að verða eitt markaðssvæði. Andinn frá Babylon er nánast orðinn allsráðandi í veröldinni. Maðurinn er enn kominn yfir mörk þess sem honum leyfist. Og hrokinn er refsiverðari nú en nokkru sinni fyrr. Efnishyggjan fer hamförum og andleg gildi eru lítilsvirt í kapitalísku óðakapphlaupi eftir peningum !

 

Hver veislan tekur við af annarri með tilheyrandi svínaríi og enginn vill þrífa eftir sig. Auðhringavaldið stundar gengdarlausa rányrkju út um allan heim og veröldin öll er undir vald þess sett. Græðgi þess er óstjórnleg. Heimurinn er að verða einn allsherjar skítahaugur fyrir vikið. Höfin súrna og löndin missa frjósemi sína út af allskonar lífdrepandi mengun. Hvarvetna er gengið allt of langt og náttúran öll líður fyrir það !

 

Hættumerkin greinast víða en þeim er lítið sinnt. Menn eru enn í veislusalnum, drukknir og frávita, hlusta ekki á neitt og taka ekki eftir neinu. Þeir halda að þeir hafi kjör sín og veldi í tryggu fari, en þar er allt á sandi byggt. Á einni nóttu verður allt frá þeim tekið, allt sem þeir höfðu reist veldi sitt á !

 

Þá blasir það eitt við að horfin er dýrðin, glötuð er vegsemdin. Veislusalurinn breytist á svipstundu í botnlaust helvíti. Allt sem menn höfðu viljað höndla reynist reykur einn – einskisverður hégómi. Dýrmætum ævidögum hefur verið eytt í eftirsókn eftir vindi og útkoman er núll og getur ekki verið neitt nema núll !

 

Guð lætur ekki að sér hæða ! Hann tekur í taumana með einum eða öðrum hætti. Nú á tímum er fingur hans að rita á veggi um allan heim hinstu viðvörunina. Og nú er það ekki einn kóngur sem mætir dómi sínum heldur mannkynið allt !

 

Sá dómur verður ekki umflúinn. Enginn sem situr í veislusal veraldar, meðan aðrir svelta, á skilið náðun. Enginn - sem auðgar sig á annarra eymd - verðskuldar líf. Öll mál verða gerð upp, hver og einn mun fá þær lyktir sem hann á skilið !

 

Stoðveggir vistkerfisins eru að rofna og klofna þar sem náttúran sjálf hefur uppi andmæli sín gegn illsku mannanna. Tíminn sem eftir er styttist óðum !

 

Dómsvald Hins Hæsta er óvéfengjanlegt og aðeins þar er fullt réttlæti á ferðinni. Heimur sem gengur gegn lögmáli Skapara síns, í fullri forherðingu iðrunarleysis og ofmetnaðar, er fallinn og dauðadæmdur. Hann á sér ekki viðreisnar von. Hann mun farast og í fyllingu tímans mun ný jörð og nýr himinn verða til !

 

En áður en sú endursköpun getur orðið, hljóta þær ógnir að ganga yfir sem engin orð fá lýst. Afleiðingar veisluhaldanna verða ekki umflúnar. Þrengingin mikla mun koma yfir iðrunarlaust mannkyn eins og þjófur að nóttu. Mene Tekel Ufarsin !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 16
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 585
  • Frá upphafi: 365483

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 498
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband