Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Um aðskilnað og endurfundi – páskapistill !

 

Öll vitum við trúlega innst inni að lífið er Guðs gjöf og þó að margur kjósi að vera í uppreisn gegn Skapara sínum, ekki síst nú á tímum, gera flestir sér grein fyrir því - að hið jarðneska líf er aðeins upphaf og inngangur að hinu raunverulega og varanlega lífi og getur ekki verið annað !

 

Við fáum líka öll að finna fyrir því að það fylgja margar sorgir því lífi sem ekki er varanlegt, því lífi sem býr fyrr en varir við líkamlega hrörnun og þverrandi mátt. Það eitt ætti að kenna okkur að skilja að líf án hrörnunar og dauða sé og hljóti að vera eftirsóknarvert og raunar takmarkið mikla í hugsun hvers lifandi manns !

 

En eins og Drottins Orð segir, fyrst þarf að fullna skeiðið. Það þarf að berjast góðu baráttunni, fylgja Guðs boðorðum, standa fyrir sannleika og réttlæti, því það kostar að vera maður. Til að geta stigið inn í það sem er æðra líf, þurfum við að komast heil frá því prófi sem við eigum að taka með lífi okkar hér á þessari jörð. Það er undirbúningsferlið að því sem æðra er og getur helgast eilífu gildi !

 

En í þessum grunnskóla lífsins sem jarðlífið er, verðum við flest fyrir margvíslegum áföllum. Og þau áföll skilja oft eftir sig sár sem gróa seint. Við verðum fyrir ýmsu sem okkur finnst erfitt að fyrirgefa. Oft erum við særð af þeim sem síst skyldi. Það er margt sem getur komið fyrir og margt sem er þungt að bera. En við þurfum að vaxa sem manneskjur í gegnum það allt og það gerum við aðeins með Guðs hjálp !

 

Öll fáum við að reyna það að missa ástvini. Oft fylgir slíkum missi sársauki sem sker sálina að dýpstu rótum. Harmurinn í slíkum tilfellum er oft ólýsanlegur.

En aðskilnaður í jarðnesku lífi þarf ekki að vera endanlegur !

Við eigum vonina um endurfundi á landi lifenda, þar sem enginn dauði er til. Sú von er af Guði gefin sem líknandi huggunarefni anda og sálar meðan við erum hér !

 

Þannig styrkir Guð okkur – þegar ástvinur kveður, - að við getum látið huggast við fyrirheitin sem í Orði hans búa og fagnað í þeirri gleðinnar von og þeirri hjartans trú að aðskilnaðurinn verði ekki endanlegur, – að ljós hins æðra lífs skíni enn sem fyrr með lausnarkrafti sínum og leiði saknandi sálir til þráðra endurfunda - til sigurs á landi lifenda !

 

Páskarnir eru og eiga að vera mikil hátíð. Þeir eru hátíð hinnar miklu kærleiksfórnar, þeir eru hátíð upprisunnar frá dauðanum – þeir staðfesta og undirstrika sigur lífsins !

GLEÐILEGA PÁSKA !

 


Skrípal – eikur !

 

Alltaf er leiðinlegt að verða vitni að því að sorglegum atburði sé snúið upp í farsakenndan pólitískan hagsmuna-ágreining. Sú virðist raunin hafa orðið með tilræðið sem einhver virðist hafa sýnt rússneskum feðginum í Bretlandi í byrjun marsmánaðar !

 

Einhverntíma var það meginatriði í lagagerð, ekki síst á Vesturlöndum, að enginn væri sekur nema sekt hans væri sönnuð. Í pólitík virðist hinsvegar ekki þörf á miklum sönnunum í slíkum tilfellum enda tilgangurinn löngum látinn helga meðalið. Það er hinsvegar alltaf afturför þegar níðst er á góðum gildum vegna einhverra hagsmuna sem taka ekkert mið af réttarfarslegum meginreglum !

 

Dagar breska heimsveldisins eru ekki lengur það sem þeir voru. Allir skilja og viðurkenna þá staðreynd nema bresk stjórnvöld. Þau halda enn að þau hafi það áhrifavald sem þau höfðu á Viktoríutímanum. Svo langt virðast þau á eftir í allri hugsun. En það er löngu liðin tíð að Bretar geti vaðið yfir allt og allt. Heimsmálin eru í allt öðrum farvegi nú og Bretar leika þar ekki neitt sérstakt aðalhlutverk lengur. Þeir eru fyrir löngu orðnir tiltölulega ómerkilegt viðhengi við Bandaríkin !

 

Vandræðagangur Breta með Brexit virðist vera að leiða þá í einhver undarleg aukaverkefni, ef til vill til að draga athyglina frá því sem virðist vera óleysanlegt mál fyrir þá. En tilraunir þeirra til að gera sig gildandi á gamla vísu eru dæmdar til að mistakast jafnvel þó einhverjir kunni að ana á eftir þeim út í ófæruna !

 

Breska stjórnkerfið hefur löngum þótt stirðbusalegt, vélrænt og gamaldags og formúlur þess eru oft meira og minna úr takt við veruleikann. Þetta er sama kerfið og taldi sjálfsagt að setja hryðjuverkalög á okkur Íslendinga, sem seint mun gleymast !

 

Bretar verða einfaldlega að gera sér grein fyrir því að Þjóðverjar eru nú í þeirri valdastöðu sem þeir höfðu fyrr í Vestur Evrópu, og ekki hygg ég að Theresa May dragi Angelu Merkel langt út í eitthvað sem erfitt er að sjá fyrir endann á !

 

Hagsmunir Þjóðverja liggja mikið í góðum samskiptum við Rússa og þessar þjóðir hafa reynt þolrifin í hvor annarri með þeim hætti að líklega vill hvorug þeirra endurtaka þann leik eða auka mikið viðsjár sín á milli !

 

Augljóst er þó að Theresa May er með einhverja Thatcher stæla eins og Trump er sýnilega með uppskrúfaða Reagan stæla. En jafn augljóst er - að þó fyrirmyndirnar hafi ekki verið merkilegar, eru eftirlíkingarnar verri !

 

Öll meðferð breskra stjórnvalda, - á þessu tilræðismáli gegn rússnesku feðginunum, - er eindæma klaufaleg og byggist að því er virðist fyrst og fremst á getgátum og yfirmáta löngun til að koma sök á æskilegan aðila !

 

Það virðist hinsvegar liggja fyrir að einhver hefur viljað Sergej Skrípal feigan og hafi rússnesk stjórnvöld staðið að baki umræddu tilræði verður að segjast að ekki er verkhæfnin mikil. Margir á Vesturlöndum hafa lengi talið rússneskar stofnanir og yfirvöld flestum fremri í öllu sem tengist illum verkum, en ef umrætt tilræði er þeirra verk, er það sannarlega vitnisburður um mjög klaufaleg vinnubrögð !

 

Einhver hefði nú einhverntíma bent á að notkun þessa rússneska eiturefnis sem notað var, væri líklegra til að þjóna því hlutverki að klína hlutunum á Rússa frekar en hitt. Hver aðili með einhverja glóru myndi forðast að viðhafa svo augljósa tengingu ef hann hygðist fremja glæp. Það er eins og að skilja eigandamerktan hníf eftir í sári !

 

Nei, það er eitthvað í meira lagi hárugt og loðið við meðferð þessa máls og enn sem fyrr vekur það - eins og ýmislegt annað - upp efasemdir um gáfnafar þeirra sem veljast til valda og hæfni þeirra til rökréttra ályktana !

 

Annars skiptir það sjálfsagt ekki miklu máli hvernig ríki heims koma fram hvert við annað, jafnvel þó ábyrgðarleysi og ögranir séu þar meira áberandi en flest annað. Afleiðingin getur aldrei orðið verri en þriðja heimsstyrjöldin !

 

Slík styrjöld myndi náttúrulega eyðileggja heiminn, en erum við ekki að eyðileggja hann hvort sem er með því virðingarleysi sem við sýnum umhverfi okkar, náttúrunni og öllum þeim gildum sem hafa gert okkur fært að lifa á þessum hnetti hingað til ?


,,Gerum lífið betra” ?

 

Kjörorð landsfundar Sjálfstæðisflokksins “ Gerum lífið betra “ var varla nema hálfsögð setning. Í raun hefði það átt að vera “ Gerum lífið betra fyrir okkur “ því þá hefði sérgæskan sem flokkurinn gengur fyrir fengið að njóta sín til fullnustu í kjörorðinu. Í meiningunni væri þá náttúrulega átt við að gera lífið betra fyrir þá sem þjóna undir hið eina og sanna máttarvald – Sjálfstæðisflokkinn !

 

Og svo að ekki sé nein tæpitunga viðhöfð, er rétt að geta þess strax að Sjálfstæðisflokkurinn er alls ekki flokkur sem vinnur fyrir almannahag og almenningsheill. Hann hefur aldrei gert það og er til annars ætlaður !

 

Þessi forherti hagsmunagæsluflokkur afturhalds og forréttinda var leiddur á legg af valdaforustu fjármagns-aflanna til að vera varðhundur hinna betur megandi, hinna ríku, þeirra sem lifa helst og mest á því að arðræna aðra í þessu landi. Flokkurinn hefur alltaf haft það höfuðmarkmið að tryggja vald slíkra aðila yfir kjötkötlum ríkis og sveitarfélaga. Og einmitt þessvegna hefur almannahagur hér aldrei verið neitt í líkingu við það sem þekkst hefur á hinum Norðurlöndunum !

 

Raunar væri Sérhagsmunabandalagið réttara nafn á þessum ömurlega og hugsjónalausa flokki, enda hefur hann alla tíð þjónað því sem komið hefur Íslandi verst, allt frá því að hann var stofnaður – illu heilli !

 

Fjöldi ungs fólks, ekki síst menntafólks, gengur enn til liðs við þennan flokk, ekki af hugsjón, ekki af réttlætisástæðum, ekki til að verða landi og þjóð að neinu sérstöku gagni, heldur til þess fyrst og fremst að þjóna eigin sjálfi og eigin afkomumöguleikum !

 

Slíkt fólk hefur átt það til að segja með bersöglum hætti : ,,Það er hagstæðast fyrir mig og framtíðar ferilskrá mína að ganga í Sjálfstæðisflokkinn” !

Þvílík uppgjöf, þvílík yfirlýsing um andlegan aumingjaskap og sálarlega vangetu til að þjóna því sem rétt er !

Og slík afstaða virðist orðin algeng í samfélagi sem sagt er upplýst og tilheyra 21. öldinni. Og þetta unga fólk er sagt vera vaxtarbroddur nýrrar þroskasóknar !!!

 

Líklega hefði einnig mátt hafa umrætt kjörorð þessa landsfundar hinnar alræmdustu Sérhagsmunastórklíku landsins - ,,Gerum lífið betra fyrir Engeyjarættina” ?

Gerum lífið betra fyrir arðránsöflin, Kolkrabbann, fjölskyldurnar fjórtán eða hvað sem þær eru nú margar – einmitt núna ! Það árar vel á Íslandi fyrir vargahjörðina !

Þar andar í brjóstunum umhyggjan fyrir hákarlahópnum, þar talar viljinn til að láta alla forstjóra fá N1 forstjóralaun. Skítt með starfsfólkið, það á bara að vinna og skapa verðmætin svo forréttindaliðið geti notið fríðinda fyrir erfiði þess og puð !

 

Gerum okkur fulla grein fyrir því að það væri engin ofurlauna stefna eða staða á Íslandi ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki til. Hann er gróðrarstía allrar mismununar og að minni hyggju ekkert nema bölvun fyrir heilbrigða velferð lands og þjóðar !

Sannleikurinn er hvergi þar sem áróðri og lygi er stöðugt hampað í blekkingarskyni.

Hvar sem sérgæskan ræður ríkjum, þar drottnar blóðsugueðli og andavald íhaldsins !

 

Sagði ekki mesti auðmaður landsins eftir hrun, að hann myndi gera allt sem hann gæti til að vinna Ísland upp aftur ? Skyldi kannski fjármagn frá honum hafa bjargað einhverju ? Sennilega eru nú einhverjir til sem trúa því af öllu sínu íhaldshjarta, en við sem enn höfum frjálsa og óselda hugsun, vitum auðvitað að þarna voru bara innantóm orð á ferðinni, að sumir halda svo fast um sinn ránsfeng að þar er líf þeirra allt, hjarta, hugur og sál !

 

Sérgæskuöflin innan hvítu úlfasveitarinnar munu aldrei verða almenningsvæn nema í augum blindra fylgjenda. Takmarkið er og verður að nýta fjármagn þjóðarinnar í þágu hinna útvöldu. Fjármagn sem fer til almennings er álitið tapað fé !

 

Hinn yfirlýsti konungsréttur forréttindaklíkunnar stendur alltaf grár fyrir járnum gegn almennum mannrétti. Það sagði Abraham Lincoln á sínum tíma og sú staðhæfing er í fullu gildi enn í dag og mannkyninu enn sem fyrr til háborinnar skammar !

 

Það verða alltaf til menn sem þjóna undir íhaldið, en flestir gera það gegn betri vitund. Samviskubitið er þó löngum svæft með sporslum, bitlingum og allskyns kjöttægjubeinum frá veisluborði auðvaldsins. Við þær aðstæður þykir býsna mörgum það bara gott að vera í hlutverki hundsins, enda ekki ætlast til að þeir séu uppréttir menn. Í sumum flokkum hefur alltaf þurft mikið af hundum til að þjóna þeim útvöldu !

 

,,Gerum lífið betra“! Heyr á endemi ! Valið kjörorð á allsherjar-samkundu sérhagsmuna-klíkunnar ! Innantóm og öfugsnúin áróðursorð þeirra afla sem stöðugt gera lífið verra fyrir almenning í þessu landi ! Alltaf er verið að blekkja og gylla það sem rangt er og óásættanlegt frá öllum mannlegum og mannsæmandi viðmiðum !

 

Þarna leikur hákarl hákarlanna, úlfur úlfanna, vargur varganna, sér í kringum þjónustubundnar sardínur sem hamast við að skeina hann á alla kanta til að halda honum hreinum, þó það dugi enganveginn til !

 

Framkoman er svona hliðstæð því og þegar Djöfullinn er sagður kalla á menn með eftirfarandi tilboð á tungu : - ,,Hjá mér er Himnaríki fyrir ykkur, þið þurfið ekkert að gera nema að afhenda mér sál ykkar !”

 

 


Að taka undir !

 

Það er afskaplega ríkt í allri umræðu núorðið að ef eitthvað verður þar ofarlega á baugi, fara allir að taka undir. Ég velti því stundum fyrir mér hvort einhver marktæk skoðunartjáning sé þar að baki þegar allt kemur til alls. Í ýmsum tilfellum virðist nefnilega öllu fremur um að ræða einhverja hugsunarlausa meðvirkni !

 

Það er eins og fólk vilji taka þátt í umræðunni sér til einhvers framdráttar. Að það vilji vera með þegar um er að ræða að taka undir eitthvað sem til vinsælda virðist fallið. Ef svo er, má telja að slík afstaða sé umhugsunarverð og segi sitt um þá vöntun sem virðist vera á allri dýpri hugsun varðandi álitamál þau sem eru á ferð hverju sinni í umræðuferli dagsins !

 

Fólk virðist sem sagt tjá sig mikið með tækifæris-sinnuðum hætti, án þess að kynna sér málin í afgerandi máta og komast að grundvallaðri niðurstöðu - allt fyrir viljann til að vera með og taka undir það sem vinsælt er í rétthugsunarferli nútímans !

 

Og ef þetta er nú svona, vaknar sú spurning: Af hverju eiga margvísleg réttlætismál svo erfitt uppdráttar hér á landi ? Af hverju þarf venjulegt fólk alla daga að vera að berjast fyrir því sem ætti að vera sjálfsagt mannréttindamál og fara langan þrautaveg í gegnum kerfið til að sækja sinn rétt ? Og það gerist löngum án þess að nokkur telji sér málið skylt, án þess að nokkur taki undir !

 

Af hverju er þetta afskiptaleysi gagnvart augljósum brotum á almennum mannrétti og af hverju vantar oft svo mikið á samstöðuna í slíkum tilfellum ? Er það kannski vegna þess að það þyki ekki til vinsælda fallið og fólk vilji ekki skipta sér af hlutum sem gætu valdið því vandræðum og hugsi bara : Hver er sjálfum sér næstur ?

 

Það vilja margir taka undir vinsældamálin, enda er þess ekki krafist að þar sé neinu til fórnað. En að taka sér stöðu með einhverjum sem hefur verið brotið á og hefur enga áheyrn fengið um leiðréttingu þess, það kallar greinilega ekki á neinn fjöldastuðning !

 

Slík afstaða krefst fórnar og við vitum öll að fórnarlund er hverfandi dyggð í ríki sem hefur umfaðmað steingerða nýfrjálshyggju og auðgildishugsun einhyggju-sinnaðra Mammonsþræla í nærri 30 ár. Samfélag okkar  hefur af þeim ástæðum orðið andlegri geldingu að bráð, orðið sálarlega ómannlegt og heillum horfið, græðgisvætt í merg og bein og máli og sinnu !

 

Til að vinna upp fórnarlund í hugsun manna þarf félagshyggju-sjónarmið, en þau eru fjarlæg þeim sálum sem hugsa allt sitt á mælistiku eigingirninnar og gróðafíkninnar og hafa fyrir sitt lífsstef sérgæskufrasann – Ég um Mig frá Mér til Mín !

 

Það er skynsöm afstaða að venja sig á að taka ekki undir neitt sem maður hefur ekki kynnt sér fyrirfram því grundvölluð skoðun heldur best í allri umræðu. Og að styðja eitthvað sem getur beinlínis verið rangt af þeirri einu ástæðu að maður vilji vera með og taka undir með vinsældakór dagsins er ekkert nema sálarlegt gjaldþrot !

Sá vinsældakór getur verið horfinn fyrr en varir svo gjörsamlega að enginn finnist sem viðurkennir að hafa verið í honum og samraddað þar vitleysu augnabliksins !

 

Það þarf hug og dug til að standa á því sem rétt er og oft gengur slík afstaða þvert á allar vinsældir. Jaurés galt fyrir slíka afstöðu með lífi sínu og það hafa fleiri gert.

Zola fékk að reyna andstreymið, þegar hann reis upp til varnar Dreyfus og réttlætinu og hafði sagt hin frægu orð ,, J´accuse ” - ég ákæri. Hann var svívirtur og auri ausinn uns hann varð að fara í útlegð. En hann sagði í þeim sviptingum: ,, Þegar sannleikurinn er grafinn, er brautin rudd fyrir hörmulegustu stórslys !”

 

Og Zola sagði líka: ,, Það verður að fást úr því skorið, hvort mannkynið á að snúa aftur og ganga á vald endurrisnum öflum þjökunar og þrældóms !”

 

Hvar búa slík öfl betur um sig nú til dags en í nýfrjálshyggjunni, auðgildiskenningum þeirrar sérgæsku sem heggur allt manngildi niður frammi fyrir altari Mammons ? Þar er því valdi þjónað sem vill viðhalda þrælahaldi og kúgun og misskiptingu um allan heim ?

 

Ætlar fólk áfram að þræða nærri 30 ára ógæfuspor hérlendis til móts við höfuðdjöful helvítis ? Er það kannski aðalinntakið í því nú til dags – að vera með !

 

Emile Zola lést við undarlegar aðstæður í september 1902, rúmlega sextugur að aldri. Sögusagnir gengu lengi um að hann hefði verið myrtur af hægrisinnuðum öfgamönnum út af afskiptum sínum af Dreyfus-málinu. Það hefur hinsvegar aldrei verið sannað með óyggjandi hætti.

 

En það verða alltaf einhverjir sem vilja drepa menn eins og Zola. Raddir slíkra manna eru of hættulegar fyrir þá sem níðast á réttlætinu og eru illir í eðli sínu. Slíkir mannvesalingar hata menn eins og Emile Zola !

 

En Zola hvílir nú samt - þrátt fyrir hatur þeirra - í Pantheon, meðal ýmissa annarra mikilmenna Frakklands, og fórnarlund hans fyrir málstað réttlætisins verður metin meðan til eru menn sem eru menn !

 

Það var eðlilegt og í alla staði við hæfi að Anatole France skyldi taka svo til orða í útfararræðu hans 1902 : ,, Zola var í samvisku mannkynsins ! ”

Hvar skyldi sú samviska vera nú ?


Er Natóríkið Ísland á leið í stríð ?

 

Athyglisvert er að heyra að hermenn tveggja Natóþjóða séu nú að berjast í andstæðum fylkingum í Sýrlandi. Bandarískir hermenn berjast þar með Kúrdum sem hafa á margan hátt borið hitann og þungann í stríðinu gegn hermdarverkaher Íslamska ríkisins. Tyrkir hafa hinsvegar ráðist yfir landamærin og farið gegn Kúrdum í Sýrlandi og þar með bandarískum liðssveitum sem berjast með þeim !

 

Öll er þessi staða með ólíkindum og líklega vandséð hvað verður. En það undarlegasta er að Natóforustan þegir þunnu hljóði þó svo virðist komið að Tyrkjaforseti valti yfir reglugerðir bandalagsins eins og honum sýnist og gefi skít í það sem þar er tekið fram !

 

Eitthvað rámar mig nefnilega í að hafa lesið að í stofnsáttmála Nató, nánar tiltekið 5. grein, sé talað um að árás á eitt ríki bandalagsins jafngildi árás á þau öll. Ef svo er, þá hefur Natóríkið Tyrkland ráðist á bandaríska hermenn sem eru í stríði í Sýrlandi sem fulltrúar sinnar þjóðar, og það ætti að jafngilda árás á Natóríkið Bandaríkin !

 

Þá hefur líklega einnig verið ráðist á Natóríkið Ísland samkvæmt stofnsáttmálanum svo það er eins gott að yfirvöld hér fari að græja varðskipin okkar í slaginn. Þau eru nú orðin vön því að vera að þvælast fram og aftur um Miðjarðarhafið svo æfingin er trúlega fyrir hendi varðandi siglingar á þeim slóðum !

Admiral George er sjálfsagt farinn að hugsa sitt !

 

Önnur Natóríki munu sjálfsagt athuga vel viðbrögð Bandaríkjanna og Íslands gagnvart yfirgangi Tyrkja og trúlega fylgja þeim að málum jafnvel þó í hart fari !

 

Íslendingar muna enn svokallað Tyrkjarán 1627, og vígreifir forustumenn eins og Bjarni Ben og Guðlaugur Þór gætu sjálfsagt vel hugsað sér að jafna fornar sakir við útlenda ránsmenn og Sigríður Andersen réttlætismálaráðherra mun sjálfsagt taka því með þökkum að geta litið upp úr dómsmálaþvarginu um stundarsakir !

 

Þessi – að öllum líkindum - væntanlega innanbandalags-styrjöld í Nató gæti því sem best orðið íslenskri heimapólitík hinn ágætasti hvalreki. Stjórnvöldum þykir oft best þegar illa gengur heimafyrir að hvolfa sér yfir erlend málefni og jafnvel fara í stríð ef þurfa þykir !

 

Sjálfsagt myndi þjóðin við slíkar aðstæður sameinast út á við, gegn aðsteðjandi vanda, og þá undir forustu Bjarna og Guðlaugs Þórs og náttúrulega Sigríðar Andersen, sem getur nú flaggað pólitísku stuðnings og heilbrigðisvottorði frá Hreinsunardeild Kötu Kobba, - sem er nú ekki lítilsvirði á þessum síðustu og verstu tímum, já, tímum sem skapað hafa viðsjárverða óeiningu á kærleiksheimilinu Nató !

 

Kata Kobba mun trúlega halda sig til hlés í komandi átökum því fortíð hennar er kannski ekki eins vel séð og hinna þriggja hjá Nató, en hún er nú samt sem óðast að reyna að bæta fyrir fyrri syndir gagnvart bandalaginu enda sýnilega farin að hugsa öll mál upp á nýtt !

 

Tyrkjaforseti veit áreiðanlega ekki hvað hann er hugsanlega að kalla yfir sig með því að ráðast gegn Bandaríkjamönnum í Sýrlandi og gera sig beran að fjandskap við Ísland þar að auki. Sumir kunna sér bersýnilega ekkert hóf og ráðast sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur – eða þannig !

 

En þeir sem hegða sér með slíkum hætti munu fljótt fá að kynnast því að þegar Bandaríkin og Ísland leggja saman krafta sína gegn yfirgangi þeirra, þá er ekkert grín á ferðum heldur fúlasta alvara, því þegar umrædd stórveldi eru komin af stað verður of seint fyrir þá að iðrast gerða sinna og beiðast miskunnar !

 

Bandaríkin og Ísland munu verja Nató og einingu þess öllum öðrum þjóðum fremur, enda vita það allir um allan heim að í þessum tveimur mikilvægu aðildarríkjum bandalagsins eru og hafa alltaf verið - mestu Natósleikjur veraldar !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 602
  • Frá upphafi: 365500

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 515
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband