Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018

Bandaríski páfinn ?

 

Á öldum áður var margur kóngurinn sleiktur enda á milli af allra stétta undirsátum og lítilmennska fjölda manna sýndi sig þar með ótrúlega lágkúrulegum hætti.

Menn skriðu fyrir konungsvaldinu um alla Evrópu og er sú saga eiginlega frekar hluti af sögu dýraríkisins en mannkynssögu svo lágt var þar löngum lagst !

 

En þó skriðið væri fyrir konungum var það þó ekkert miðað við skriðdýrsháttinn sem sýndur var gagnvart manninum í Róm sem þóttist og þykist enn vera staðgengill Guðs á jörðinni, Vicarius Filii Dei svonefndur, með tölugildið 666. Þar var átrúnaður á manni til staðar sem byggðist frá upphafi á einhverjum tilfinninga-tilbúningi, blönduðum harðsoðinni pólitík, sem var óralangt frá allri eðlilegri dómgreind og á sér engan stað í Ritningunni !

 

Og eins og flestir vita, sem eitthvað hafa kynnt sér sögu páfadómsins, voru páfarnir margir hverjir engin sérstök guðsbörn. Haft er fyrir satt að yfir tuttugu páfar hafi verið myrtir og pólitíkin í páfagarði þótti löngum miskunnarlausari en flest annað. Framferði Alexanders VI. Borgia var til dæmis algerlega óboðlegt en það breytti engu um stöðu hans á páfastóli. Hann var Hans Heilagleiki fyrir því !

 

Páfinn er samkvæmt uppskrúfuðum innanbúðar heimildum biskup Rómar, staðgengill Jesú Krists, eftirmaður höfðingja postulanna, æðstiprestur hinnar almennu kirkju, patríarki vestursins, yfirbiskup á Ítalíu, erkibiskup og borgarbiskup yfir rómverska biskupsdæminu, þjóðhöfðingi yfir Vatikan-borgríkinu – dýrðlega ríkjandi, að sjálfsögðu……….!

 

En páfadómurinn er í raun þverstæðufyllsta embætti í veröldinni ; á víst að vera það altækasta en er um leið það takmarkaðasta, er það auðugasta hvað skattgjöld varðar, en fátækast að persónulegu endurgjaldi. Stofnandi þessa embættis er sagður hafa verið trésmiður frá Galíleu sem hvergi átti höfði sínu að halla, en þetta embætti er umkringt meiri viðhöfn og íburði en sæmir í hungruðum heimi. Þar er allt byggt á mannasetningum en ekkert umboð til frá Guðs hendi og hefur aldrei verið !

 

Á Vesturlöndum fóru menn eitthvað að vitkast með aukinni upplýsingaröld og kóngarnir fóru að falla eða voru spyrtir í fölskum viðtengingarhætti við þjóðþingin sem einhverskonar fulltrúar þeirra eða þjóðarinnar. Auðvitað átti að afleggja allar þær afætur og kjósa bara þjóðkjörinn forseta. En því miður, sleikjuhátturinn var ekki afnuminn, enda líklega ekki hægt að afnema hann, því svo samangróinn er hann allt of mörgum sem ganga á tveim fótum en ættu eðli málsins samkvæmt að ganga á fjórum !

 

Og páfinn situr enn í Róm þó sú sögulega skekkja sé mörgum augljósari nú á tímum en áður fyrr. En margir hrífast enn af ytra skrúði og þess ber að geta að páfadómurinn naut aðdáunar Adolfs Hitlers fyrir langtíma yfirráð sín og gífurlegt áhrifavald.

 

Og nú virðist sú undarlega staða komin upp - að valdamaður, sem kalla mætti annan páfa, sé farinn að hreiðra um sig í Bandaríkjunum. Sá maður er sambærilegur við þá sem setið hafa á páfastóli því hann nýtur greinilega átrúnaðar, samskonar átrúnaðar og fyrri tíma páfar. Það er alveg sama hvað hann gerir, átrúnaðurinn haggast ekki, enda byggður á allt öðru en tengingum við heilbrigða skynsemi eða almenna dómgreind !

 

Sú var tíðin að fólk flýði til Ameríku, til að geta notið þar frelsis. Ekki síst til að geta lifað í friði fyrir einræðissinnuðu konungsvaldi og áþján páfavalds hins gamla heims.

Þegar einhver er kominn með svo mikil völd að það skiptir engu hvað hann gerir, hvað hann brýtur af sér, hvernig hann hegðar sér, er viðkomandi orðinn handhafi að páfavaldi. Og slíkt vald í manns höndum getur aldrei undir neinum kringumstæðum verið gott. Mannlegur breyskleiki á aldrei að hefjast þannig á stall !

 

Við mennirnir eigum greinilega margt ólært enn. Við eigum enn erfitt með að losa okkur við kóngana, afsprengi fyrri tíðar ofbeldis, og réttlaust páfavald ruglar enn dómgreind manna um alla jörð. Meðan slík villa varir er hugarfrelsi milljóna manna um allan heim heft á klafa aldagamalla kreddusiða sem eiga sér enga ærlega stoð !

 

Páfi í Róm eða páfi í Washington, páfi í Moskvu eða Beijing ! Enginn af slíku tagi er eða getur orðið mannkyninu til ávinnings á sannri þroskaleið. Það þarf enga millilendingu í þeim andans efnum á þessum landfræðilegu stöðum. Átrúnaður á menn og öll manndýrkun er á kostnað Almættisins og þröskuldur í vegi fyrir hverja sál sem vill í anda og sannleika leita Guðs. Þar er aldrei neitt gott á ferðinni !

Samfélag við Guð geta menn eignast milliliðalaust, hvar sem er á jörðinni !

 

 

 


Blæjan

 

Karlmenn það ákváðu að konan gengi með blæju

svo karlar aðrir lítið af henni sæju.

Þeir sögðust hafa rétt til að ráða slíku,

en rétturinn sá var tekinn af hagsmunaklíku

einræðiskarla sem alls ekki vildu skilja

að einstaklingsréttur næði til kvenmanns vilja !

 

Og konan hlýddi - svo kúguð og undirgefin,

við klafa svo marga vönust að ganga skrefin.

Þrældómi bundin sem ambátt á öllum stigum,

afvegaleidd af stöðugum sérgæskulygum.

Hrædd við að verða gripin og grýtt til bana,

grimmd þeirrar siðvenju löngum fékk bugað hana !

 

Skyldi hún geta eignast sitt eigið frelsi,

eignast þann styrk að brjóta af sér gamalt helsi ?

Kasta af sér blæjunni – kjósa hún sjálf að vera,

karlveldistáknið ei lengur um höfuð sitt bera ?

- Eða er hún bældari en svo að hún sjái til vega,

sér hún ei neitt nema stöðuna vonleysislega ?

 

Leiksoppur karlmanna er hún í öllum málum,

einskis þar virt á huglægum metaskálum.

Í engu er hægt að verja þau rangindi er ráða

og ræna hana öllu sem veitt gæti hamingju þráða ?

Sjálfstæði hennar fær ekkert sem nálgast nægju,

nú sem fyrr er hún karlaeign, - hulin blæju !

 

Því rís hún ei upp til að rífa af sér blæjunnar fjötra,

það réttleysi er lætur sál hennar blæðandi nötra.

Er búið að kúga frá henni vit og vilja,

verður hún aldrei fær um að sjá og skilja ?

Er stundin ei komin – stundin sem veitt getur frelsi,

stundin sem velt getur aldanna þungbæra helsi ?

 

Langtíma þrælkunarsiðir nú verða að víkja,

víðsýni andlegrar hugsunar fái að ríkja.

Réttlætisboðorðin greind verði í gildandi máli,

gangi þar enginn til fundar með svikum og táli.

Frjáls verði móðir og frjáls verði sérhver dóttir,

með frelsinu dýrustu kostirnir verða sóttir !

 

Búi að jöfnu við réttindi börn okkar jarðar,

blæjan sem tákn fyrir yfirgangsreglurnar harðar,

hverfi og frjáls verði manneskja sérhver að sínu,

sú verði staðan að veraldar ráðandi línu.

Samtengist höndum í einingu karlar og konur,

kærleiksskjól foreldra eigi hver dóttir og sonur !

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Um þjóðfélagsleg þolmörk !

Það hefur líklega lengstum verið til svokallað hinsegin fólk í veröldinni, en krafan nú til dags virðist vera sú að það fólk sem er það ekki verði að vera það líka ! Meðan barist hefur verið með almennum stuðningi gegn samfélagslegum fordómum, virðast hinsegin fordómar hafa farið vaxandi !


Meðan reynt hefur verið að setja skorður við yfirgangi meirihluta gagnvart minnihluta, hefur yfirgangur minnihluta gagnvart meirihluta orðið vaxandi vandamál. Meðan gagnkynhneigt þjóðfélag hefur reynt til hins ítrasta að koma til móts við samkynhneigða, virðast samkynhneigðir stöðugt ganga á lagið og setja fram meiri kröfur á hendur gagnkynhneigðum !


Og nú bendir sitthvað til þess að komið sé að þolmörkum í þessum efnum. Það sjá það stöðugt fleiri að það gengur ekki að samkynhneigðir krefjist þess af okkur, gagnkynhneigðu mannfólki, að við leggjum hugarfarslega blessun okkar yfir þeirra kynferðislega atferli. Jafnvel þó okkur sé hótað því að við verðum brennimerkt sem fordómafullt gamaldags pakk, verðum við að gera kröfu til þess að við fáum að ráða hugsunum okkar sjálf. Yfirgangur minnihlutans í þessum efnum er orðinn slíkur að það verður ekki lengur við hann unað !


Menn hafa síðustu árin, margir hverjir, þagað þegar þessi mál hafa verið til umræðu, og ekki þorað að segja meiningu sína. Fjölmiðlarnir sem jafnan eru áhrifamiklir, hafa virst vera meira og minna á hinsegin bandi. Þar virðist allt sem tengist samkynhneigð vera pumpað upp í kraftgír áróðursins. Svo virðist líka að sjá og heyra sem allmargt fjölmiðlafólk sé úr hópi hinsegin fólks. Fæ ég þó ekki séð að skoðanir þess ættu að þurfa að ráða dagskránni eins og engar aðrar skoðanir séu til !


Á meðan allt hefur snúist um réttindi þessa háværa og ágenga minnihluta, virðast almenn mannréttindi hafa goldið þess með ýmsum hætti. Það sýnist hreinlega ekki hafa gefist neinn tími til að sinna þeim af þeirri einurð sem til þarf vegna fyrirferðar hinna „sérlegu mannréttinda“!


Ég held að menn þurfi að gæta sín mjög á því að missa ekki hina almennu mannréttindabaráttu niður í meiningarlaust kjaftæði vegna þeirrar mikið til allsráðandi umræðu um „sérhagsmuna-mannréttindi“ sem virðist nú um stundir tröllríða hér öllu ! Við skulum nefnilega athuga það, að það er enn farið illa með fólk og það í vaxandi mæli út um allan heim og almenn mannréttindi eru víða fótum troðin af illum og óguðlegum yfirvöldum og allra handa auðklíkum !


Það verður auðvitað hver og einn að bera ábyrgð á sínu einkalífi, þar með talið kynlífi, og enginn á að fá að þvinga sína aðferðafræði þar upp á aðra. Berorðar frásagnir um eitt og annað sem viðgengst í einkalífi fólks eru orðnar svo algengar í opinberri umræðu að það eru allir hættir að hrökkva við í þeim efnum og það hálfa væri vissulega nóg, en yfirlýsingar margra samkynhneigðra hérlendis um hvað þeir hafi mátt þola vegna kynhneigðar sinnar, hljóta að minni hyggju, að vera mjög yfirdrifnar og líklega oftast meira í ætt við áróður en sannleika !


Mér vitanlega hafa aldrei verið neinar almennar ofsóknir í gangi hér á landi gegn samkynhneigðu fólki. Það hafa sjálfsagt verið svokallaðir fordómar til gagnvart því eins og nánast öllum sem eru eitthvað öðruvísi og marka sér einhverja sérstöðu, en að þarna sé um einhverja sérstaka píslarvotta samfélagsins að ræða tel ég ekki vera og lái mér það hver sem vill !


Í öllum samfélögum verða hinsvegar að vera einhver siðferðileg mörk og ef allar varnarlínur af slíku tagi eru afnumdar í einhverri alfrelsisvímu, þá er þjóðfélagssáttmálinn í heild rofinn – þá á fólk ekki lengur samleið á samfélagslegum vettvangi, þá er hin siðferðilega undirstaða ekki lengur fyrir hendi !


Hin svokallaða réttindabarátta homma og lesbía er að minni hyggju komin yfir strikið eins og ég tel ýmsar uppákomur af þeirra hálfu hafa sýnt á síðari árum, og það er samfélagsleg nauðsyn að fólk fari að nota dómgreindina hvað þessi mál snertir og láti ekki villa um fyrir sér meira en orðið er !


Náttúrulögmálin sjálf sjá til þess að ekkert þjóðfélag sem ætlar sér lífvænlega framtíð verður rekið á forsendum samkynhneigðar. Sú eðlilega framvinda lífsins sem tryggir að kynslóð tekur við af kynslóð er og verður í höndum gagnkynhneigðra einstaklinga. Hvað sem líður sýn fólks á það sem kallast mannréttindi og hversu öfugsnúin og vitlaus sem umræðan getur verið og orðið í þeim efnum, verður náttúrulegum staðreyndum ekki breytt !


Þegar einhver minnihlutahópur mannfélagsins krefst þess, meðal annars með áróðursherferðum, sem jafnvel eru greiddar af almannafé, að menn afsali sér hugarfarslegu frelsi sínu og skilningi á því hvað sé eðlilegt og hvað óeðlilegt, er það tilræði við mannréttindi annarra og algerlega óásættanlegt framferði. Þeir sem gerast taglhnýtingar slíkra sjónarmiða, alteknir af veglausum tíðaranda, oftast helst til að auglýsa eigið víðsýni og fordómaleysi, eru yfirleitt mestri blindu slegnir allra manna !


Ég lýsi fullkominni andúð minni á slíku háttalagi og hvet hvern og einn til að gera það upp í eigin huga, á eigin forsendum, hvaða afstöðu hann hefur til þessara mála og jafnframt til þess að hafa kjark til þess að standa vörð um eigið hugsanafrelsi þegar sú staða er uppi, að aðrir virðast hafa fulla tilhneigingu til að taka þar yfirráðin !






Trójuhestur Evrópu !

 

Herjað hefur verið á þjóðmenningar Evrópu á umliðnum árum með þeim hætti að það er löngu orðið tímabært að spyrna þar við fótum. Undir flaggi fjölmenningar hefur verið siglt á allar okkar hafnir og reynt að yfirtaka þær.

 

Beitt hefur þar verið allskonar blekkingum og svikræði með linnulausum áróðri sem hvergi fær staðist í ljósi staðreyndanna. Það undarlega ferli verður trúlega rannsakað ofan í kjölinn þó síðar verði, enda full nauðsyn á því að gera því skil með afgerandi hætti !

 

Hvað er þjóðmenning ? Það er að halda tryggð við arf feðra og mæðra, arf kynslóðanna sem okkur hefur verið fenginn til frekari ávöxtunar. Frumskylda okkar er að sinna þeim arfi og þeim garði sem hann innifelur. Það er í alla staði gott og gildisbært verk að fólk hlynni að sínum heimaarfi og vaxti hann til góðs !

 

En svo koma aðrir og vilja leggja garðinn undir sig, vilja fylla hann af öðrum gróðri og gera hann að einhverju allt öðru en hann hefur verið, jafnframt því að leggja undir sig ávextina af honum og gera sér gott af þeim. Ræktendur garðsins eiga þar engu að ráða og þeirra ágóðahlutur er stöðugt borinn fyrir borð og jafnvel gerður að engu. Og það er gert af þeim sem kosnir hafa verið til að gæta hagsmuna þeirra sem ræktað hafa garðinn. Þetta er það sem hefur verið að gerast mjög víða í Evrópu !

 

Allt mannlíf miðast við að búa í haginn fyrir sig og sína. Það er ekkert rangt við það að þeir sem safna með heiðarlegum hætti ágóða af erfiði sínu í hlöður fyrirhyggjunnar njóti þess þegar þar að kemur. En það er hinsvegar engin sanngirni í því að sá ávinningur fari í annarra hendur, einhverra sem ekkert hafa lagt til og koma bara inn í dæmið til að verða afætur og ræna aðra réttmætri eftirtekju starfs og fyrirhafnar !

 

Góð þjóðhagsleg staða sem tryggt getur þeim sem byggt hafa hana upp ásættanleg hlunnindi á efri árum er lífsmarkmið sem keppt hefur verið að og kostað hefur sitt. Þeir sem hafa lagt þar inn eiga að sjálfsögðu réttinn til að taka þar út !

 

Kenningin um fjölmenningarsamfélagið hefur snúið þar öllum eðlilegum forsendum á hvolf. Réttur þeirra sem koma að utan er allsráðandi og valtar yfir rétt þeirra sem fyrir eru. Fjárhagur samfélagsins er bókstaflega yfirtekinn í þágu þeirra sem þar hafa ekkert lagt til !

 

Sænsk stjórnvöld hafa til dæmis fórnað gífurlegum fjárupphæðum af áunnum samfélagslegum auði sínum til innflytjenda og í Noregi hefur ekki verið staðið öllu betur að málum. Hagkerfi þessara landa, ásamt allri þeirri velferð þegnanna sem byggð hefur verið upp, gætu hreinlega hrunið að lokum, ef áfram verður haldið að ausa þjóðarauðnum í þá sem ekki hafa á nokkurn hátt til hans unnið og halda áfram að leggja lítið sem ekkert til !

 

En nú virðist sem betur fer vera farið að rofa til. Víða um Evrópu er vaxandi skilningur á því að fjölmenningarstefnan bjóði ekki upp á neitt nema skipbrot þjóðmenningarlegra gilda og yfirtöku framandi menningar með allt önnur gildi, sem sum hver ganga þvert á skilning okkar á því hvað sé mannsæmandi framferði !

 

Við getum ekki meðtekið slíkt innstreymi, í þeim mæli sem það hefur verið, nema á kostnað okkar eigin gilda; með því einu að fórna því sem krafist er með sífellt meiri ágangi að fórnað sé, - og virða þannig einskis okkar eigin menningu og arfleifð ?

Hverjir vernda okkar gildi ef við gerum það ekki sjálf ?

 

Breski sagnfræðingurinn Arnold J. Toynbee sagði: ,, Menningarheimar deyja ekki vegna þess að þeir eru ráðnir af dögum, þeir deyja vegna þess að þeir fremja sjálfsmorð !” Evrópa var virkilega á leiðinni að slíku sjálfsmorði, en nú virðast menn, sem betur fer, farnir að ná áttum og virðast tilbúnir að verja það sem skylda þeirra er að verja og skila því áfram í menningarlegu samræmi við sögu okkar og arfleifð !

 

Fjölmenningin hefur sýnilega átt að verða einhverskonar Trójuhestur Evrópu, – en nú gera stöðugt fleiri sér grein fyrir því að þar hefur falsið eitt verið á ferð í formi rangrar kenningar. Nytsamir sakleysingjar mega ekki láta glepjast lengur af þeirri ginningarbeitu sem fjölmenningin hefur verið. Nógur er skaðinn þegar orðinn !

 

Hefja þarf öfluga hugarfarslega gagnsókn gegn þeim ágangi sem verið hefur á þjóðfélagslega stöðu okkar og söguleg og menningarleg gildi. Sú sókn þarf að hefjast í andlegum skilningi frá Kahlenberg, - svo verja megi Vín og aðrar borgir Evrópu í þágu þeirrar menningar sem er sameiginlegur arfur álfunnar og þjóða þeirra sem hana byggja !

 


Þjóðarleiðtogar - haldnir af lygaöndum !

 

Eitt af því sem merkir samtíðina á mjög svartan hátt - er að margir þjóðarleiðtogar hafa komið fram að undanförnu sem eru haldnir lygaöndum. Sannleikurinn er sýnilega ekkert atriði í þeirra augum. Þegar slíkir menn halda lygum og fjarstæðum fram í opinberum ræðum og fólk klappar fyrir þeim og því sem þeir halda fram, sér maður glöggt að margt stefnir á verri veg með siðferði og mannsæmandi framgöngu. Og eftir höfðinu dansa limirnir !

 

Þegar leiðtogar stórra ríkja sýna sig slíkar mannleysur að hylla lygina og tala stöðugt á kostnað sannleikans er það ills viti. Ills viti fyrir þá og ills viti fyrir þjóðina sem þeir eru fulltrúar fyrir. Hver sú þjóð sem nærist þannig á lygum og lætur sér það lynda er komin inn í blindgötu blekkinganna. Þar er aldrei gott að ganga !

 

Ef við gefum okkur það að kosinn leiðtogi endurspegli sem persónuleiki persónuleika þjóðar sinnar, er verra í efni en ella og það því frekar sem valdameiri leiðtogi á í hlut.Framferði sumra leiðtoga í dag virðist vera slíkt að Goebbels áróðursmálaráðherra nazistastjórnarinnar þýsku hefði áreiðanlega verið hæstánægður með þá, enda sýnast þeir fara mjög eftir kenningum hans !

 

Josef Goebbels var kaldrifjaður maður sem virti sannleikann einskis, maður sem spann sína lygavefi án afláts, maður án siðferðis og sæmdar. Hann virðist því miður ýmsum fyrirmynd í dag. Það ætti að geta sagt mörgum hversu mjög siðferði hefur hrakað, að slíkt ómenni frá fyrri árum skuli nánast vera komið sem goð á stall í hugsun sumra ríkjandi leiðtoga !

 

Ef veröldin á að vara áfram, verður hún að hafa einhverja gildisbæra, siðlega undirstöðu. Það fer að verða mikil spurning hvort slík undirstaða sé til staðar. Undanfarna áratugi hafa menn verið býsna iðnir við að veikja hana og grafa undan henni. Allt er það gert í nafni frelsis og fordómaleysis, en útkoman sýnir, þó fagurt sé talað, að verkinu er hreint ekki til velferðar stýrt !

 

Þegar lygin er við stýrið er ekki stefnt að höfn hamingjunnar. Það ætti að blasa við hverjum hugsandi manni, en lygin virðist samt ærið víða við stýrið í dag. Og þeirra sem trúa lyginni og vilja vera þar með í för bíður engin blessun á leiðarenda eins og nærri má geta. Og þó vill trúlega enginn í alvöru vera þar með, en margir eru svo ráðvilltir nú á tímum að þeir virðast oft vera fúsir til að ganga fyrir björg !

 

En að fylgja fölskum leiðtogum, sem hafa sýnilega enga sómatilfinningu og líta á eigin lygar sem skref að sínu metorðamarki, er aðeins sjálfsblekkingarleikur og hugarfarsleg heimska manna sem velja að blinda sig fyrir staðreyndum !

 

Lýðræðisríki nútímans mega ekki komast undir vald falskra leiðtoga sem eru úlfar í sauðargæru. Það er knýjandi þörf á því að vera á verði fyrir slíku um allan heim þegar svo er komið sem nú er. Vesturlönd verða sér í lagi að verja sín gildi miklu betur en verið hefur. Þar hefur mikið vantað á eðlilega varðstöðu á síðustu áratugum !

 

Öfugsnúnar frelsisvakningar hafa brotið mörg skörð í varnarvirki sjálfstæðs mannlífs. Þar fara jafnan lygarar lýðskrumsins í fararbroddi og þaðan er einskis góðs von. Það er því mikil nauðsyn á því að menn séu á verði og ekki síst þegar frelsishugtakið er notað með þeim andvirka hætti - að það býður upp á nýjar snörur og nýja fjötra !

 

Við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að með andavaldi lyginnar og fulltrúum þess kemur fljótlega að niðurbroti allra góðra og siðlegra gilda !

 

Ekki er seinna vænna að það verði mönnum ljóst !


Vísur í Veganesti

 

Allt er hverfult – ekkert varir,

ótalmargt þig getur blekkt.

Tíndu af þér allar spjarir

uns þú sést í þinni nekt !

 

Ertu það sem þá við blasir,

það sem nemur sjónin ein ?

Höfuð, enni, nef og nasir,

nári og læri, – hold og bein.

 

Nei, þú ert svo miklu meira

meðan sál er til í þér.

Líf í brjósti, líf í dreyra,

ljósast vitni um það ber.

 

Augnablikið er þú hefur

einhvers til sé nýtt á jörð.

Lítið vinnur sá er sefur,

síst hann stendur nokkurn vörð.

 

Þú ert hærri holdi og beinum,

hugsun ber þig upp á við.

Uns þig næra anda hreinum

ávextir sem gefa frið.

 

Það er lífsins lausnarvegur

ljós að rækta upp í sál.

Eins og draumur dásamlegur

dagur hver þá öðlast mál.

 

Þá fær kjarni sálar sýnar

sannað gæði hugar vís.

Kyssir þá á kinnar þínar

kærleikssól frá Paradís !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 89
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 658
  • Frá upphafi: 365556

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 570
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 83

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband