Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020

Drottinn er vor hirðir !

 

Flestir hljóta að vera farnir að sjá að allt er á hverfanda hveli í þessum veruheimi okkar. Við mannanna börn erum öll sem strá í sterkum vindi hinnar óhjákvæmilegu framvindu. Þar verður engu breytt. Við eigum í raun aðeins eina vörn, en hún nægir, ef menn játast undir hana !

 

Sú vörn felst sem fyrr í því að leita hælis og athvarfs hjá Drottni, Skapara himins og jarðar - að fá að halda í hans klæðafald. Að trúa því að upp úr djúpi dauða, Drottins renni fagrahvel, eins og Matthías segir í hinu stórbrotna kvæði sínu um hafísinn. Án Guðs Náðar er nefnilega allt vort traust farið og dauðadjúpið það eina sem tekur við okkur !

 

Allur tími endar ! Allt deyr og eyðist og hverfur og verður að engu. Allar hinar fögru byggingar heimsins og öll mannanna verk eiga eftir að molna niður og líða undir lok. Þar verður engin arfleifð lengur til staðar. Jafnvel himinninn sjálfur á eftir að vefjast saman eins og bókfell. Allt mun bráðna í eldi og ógnarhita þegar þar að kemur !

 

En til er það sem þolir slíkan eld og heldur velli. Shadrach, Mesach og Abednegó áttu þá vörn í sálum sínum sem varið gat þá gegn slíkum eldi. Þeir treystu Guði og vernd Hans. Menn virðast ekki trúa á slíka vernd í dag eða treysta á forsjá Drottins, en því er til að svara að Hinn Lifandi Guð er Hinn Sami í dag og Hann hefur alltaf verið. Þær forsendur hafa ekki breyst og munu ekki breytast og geta ekki breyst !

 

En lífið mun rísa í nýjum veruleika eftir það sem koma skal og sólbrunnar auðnir munu þá verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Drottinn hefur allt í Hendi Sinni og hið illa verður endanlega sigrað. Þau úrslit hafa alltaf verið ljós. Sá sigur var að fullu staðfestur á Golgata !

 

Hver sá sem eyra hefur, eyra sem heyrir, veit þetta og getur fagnað yfir því í hjarta sínu. Að því kemur að Brautin helga mun bíða þeirra sem endurleystir verða við lok daganna. Og gleðin sem mun leika yfir höfði þeirra verður eilíf !

 

Er það einhver spurning fyrir okkur mannanna börn að fela tímanlega og eilífa velferð okkar í hendur Hans sem gaf okkur lífið, Hans sem er eina vörnin við þeirri eldraun sem framundan er ?

 

Við hljótum að verjast allri óáran, hvort sem það er núverandi ógn eða þær sem á eftir koma. En gerum það með réttum hætti. Leitum verndar þar sem vernd er að hafa. Hjá Guði vors lands !

 

 

 

 


,,Saman byrðar berum við !”

 

Það ætti ekki að dyljast neinum eftir reynslu undanfarinna mánaða, hvað mannlegt samfélag er orðið berskjaldað á margan hátt fyrir hættulegum sóttkveikjum og veirum, eins og líka umferðin er orðin um allan heim !

Sú staðreynd undirstrikar í öllu þá miklu nauðsyn að hver einstaklingur axli sína skyldu sem trúr og ábyrgur samfélagsþegn !

 

Við höfum þegar misst allmarga einstaklinga, sem hefðu átt að eiga friðsælt ævikvöld í návist vina og vandamanna, en hafa þess í stað orðið að láta lífið af völdum þessa illskæða heimsfaraldurs og það jafnvel vegna hópsmits á sjúkrahúsi. Það er dapurt til að vita !

 

Og þó að fólk um allan heim bindi miklar vonir við væntanlegt bóluefni, er erfitt að segja um það hvernig þeir hlutir muni ganga fyrir sig þegar þar að kemur. Lyf hafa aldrei verið það ódýrasta á markaðnum !

 

Mörg ljón kunna enn að vera á veginum þar til þessi vágestur er sigraður en það er um að gera að halda samstöðunni og fylgja þeim reglum sem réttkjörin heilbrigðisyfirvöld ráðleggja hverju sinni!

 

Við erum að upplifa það sem fæstir hefðu getað ímyndað sér fyrir skömmu að gæti gerst. En sérhver sameiginleg hætta á að þjappa okkur saman og auka samstöðu og samheldni. Við erum íbúar þessarar jarðar og getum ekkert annað farið !

 

Allir þurfa því að leggja sitt til í baráttunni, hver og einn í sínu landi. Hvert land er hluti af jörðinni og hver þjóð er hluti af mannkyninu. Við erum öll á sama báti í þessu efni hvar sem við lifum og hver sem við erum.

 

Við höfum skyldur hvert við annað meðan við erum hér. Það hljótum við Íslendingar að vera búnir að læra í gegnum okkar þjóðarhörmungar, allt frá Svarta dauða og Stóru bólu til Covid í dag !

 

Saman byrðar berum við,

bægjum neyð og grandi.

Almannavarnir erum við

öll í þessu landi !

 

 


Um ýmsar söguginningar !

 

Oft hefur það vakið furðu mína hvað sögulegar uppsetningar hafa orðið að föstum viðmiðum í sögu okkar án þess að full vissa sé til staðar hvort um raunverulegar staðreyndir sé þar að ræða. Það er stundum því líkast sem einhver rómantísk hughrif hafi ráðið textanum og svo hefur hver étið upp eftir öðrum og enginn vitað með vissu hvað hann var að segja !

 

Við höfum alla tíð eignað Snorra Sturlusyni ýmis ritverk þó við höfum ekkert sem sannar það í raun að hann hafi verið þar höfundurinn. Kannski skrifaði Styrmir fróði Kárason sum þessara verka og þá hugsanlega í skjóli Snorra. Snorri er 62 ára gamall eða þar um bil þegar hann er drepinn.  

 

Alla ævi stóð hann í auðsöfnun og veraldarvafstri og maður fær varla séð hvenær hann hefði átt að sinna ritverkum sem hlutu að taka drjúgan tíma. En samt fær hann þennan höfundarstimpil þó enginn viti með vissu hvort hann verðskuldar hann eða hafi yfirleitt getað litið upp frá auragræðginni ?

 

Ingólfur Arnarson er jafnan skilgreindur fyrsti landnámsmaðurinn þó vitað sé að hann var það ekki. Þar spilar auðvitað inn í dæmið að hann var landnámsmaður Reykjavíkur, en það er ekki það sama. Íslendingar eiga það til að vera miklar ,, höfðingjasleikjur “ og fyrsti landnámsmaðurinn mátti því ekki vera venjulegur almúgamaður, hann varð að vera eitthvað meira. Náttfari kom því ekki til mála frekar en einhver tómthúsmaður á Blönduósi. En þar varð sá fyrsti auðvitað að vera danskur kaupmaður !

 

Gunnar á Hlíðarenda gekk á gerða eiða og sneri með þeim hætti aftur. Hann sveik samninga og enginn veit hvað dró hann til þess í raun ? Var hann kannski enn haldinn af girndarráðs-lönguninni til Hallgerðar eftir allt sem á undan var gengið ? Var hún kannski í raun og veru ,,fagra hlíðin hans” ?

 

Við Íslendingar lofum stöðugt hetjuna sem sveik eiða sína, en Kolskeggur bróðir hans sem átti miklu betri og mannsæmdarlegri hlut að málunum er flestum gleymdur. Ég met hann þó meira en Gunnar fyrir orð hans er þeir bræður skildu. En þau voru þessi : ,,Hvorki vil ég á þessu níðast né öðru því sem mér er til trúað o.s.frv !

 

Við látum líka mikið með sjálfstæðisbaráttu okkar og samt höfum við enn dönsk konungsmerki á alþingishúsinu sem aldrei hafa verið tekin niður ? Hvers vegna í ósköpunum eru slík þrælahaldaratákn þar enn í dag ? Hefðu Benedikt Sveinsson eldri, Skúli Thoroddsen, Bjarni frá Vogi og aðrir þekktir forustumenn sjálfstæðisbaráttunnar viljað sjá það ? Ekki trúi ég því. Spyrja má því : Til hvers var eiginlega barist ? Sjálfsagt hafa eftirsitjandi Danasleikjur í valdastöðum ráðið því að svona var staðið að málum. En slíkt hefði varla getað gerst hjá annarri þjóð !

 

Kaþólska kirkjuvaldið var að miklu leyti slæmt fyrir þjóðina, einkum þó þegar á leið og Jón Arason var gildur fulltrúi þess á sínum tíma. Hann var enginn þjóðfrelsis-leiðtogi. Hollusta hans var ekki bundin við innlent vald, hún lá öll suður í Róm – páfinn var hans konungur í einu og öllu !

 

Þegar danska konungsvaldið snerist gegn pápískunni, fylgdi Jón ekki með. Hann var sami gallharði páfatrúarmaðurinn til síðasta dags. Síðari tíma yfirgangur konungsvaldsins skapaði svo smám saman þá sögulegu gyllingu fyrir kaþólskuna sem hún átti litla inneign fyrir. Þá var Jón Arason gerður að þjóðfrelsismanni, þvert ofan í allar staðreyndir, og þar við situr !

 

Gissur biskup Einarsson hefur á sama veg aldrei verið metinn sem skyldi af íslenskri þjóð vegna þess að hann var með siðbótinni og þar með á móti kaþólskunni. Tryggi Þórhallsson sýndi þó fram á í riti sínu um Gissur að hann var miklu þjóðræknari og betri maður en flestir hafa haldið. En það verður líklega seint viðurkennt sem staðreynd í íslenskri sögu !

 

Margt fleira mætti rekja hér, enda af nógu að taka, en ég ætla að láta staðar numið við þetta. Þeir sem á annað borð vilja skoða og rannsaka geta gert það út frá þessum punktum, en þeir eru vafalaust fáir !

 

Flestir virðast þeirrar gerðar að gleypa það sem fyrir þá er sett án nokkurra athugasemda og láta sögulegar ginningar og gyllingar sig litlu skipta. En rangfærslusagnfræði er aldrei af því góða, hversu rómantísk sem hún kann að þykja !

 

 

 

 

 

 

 


Að hafna heiðurskórónu !

 

 

Lífið er almennt skilgreint, eins og það horfir við dauðlegum mönnum, sem tímabilið frá fæðingu til dauða, frá vöggu til grafar. Mannsævin er sögð vera 70 til 80 ár, sumir lifa þó lengur en aðrir skemur. Því miður deyja margir ungir og erfiðast þykir okkur að sætta okkur við það þegar börn deyja og það jafnvel nýfædd !

 

En við mennirnir höfum aldrei stjórnað örlögum okkar og munum áreiðanlega aldrei gera það. Enda fer líklega best á því að það vald sé ekki í okkar höndum, því það yrði eflaust misnotað af okkur eins og allt annað !

 

Allir komast að því að þeir verða gamlir ef þeir lifa svo lengi. Og sagt er að með aldrinum fylgi viska og reynsla sem komi sér vel. Og víðast er líka svo kennt að aldur krefjist virðingar og í Orðskviðum Biblíunnar 16 : 31 er sagt : ,, Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana !” Gráa hárið á sem sagt skilið virðingu. Þar höfum við það !

 

En ekki virðist fólk nú á dögum vera sérlega hrifið af þessari heiðurskórónu. Maður sér það til dæmis hjá blessuðum konunum, sem láta lita hár sitt svo þær sjást ekki með eitt grátt hár þó komnar séu yfir áttrætt. Og svei mér þá ef sumir karlarnir gera það ekki líka !

 

Ég man eftir ömmu minni sem var komin með svo fallegt hvítt og grátt hár. Hún var svo virðuleg og góðleg, enda þótti mér ákaflega vænt um hana. En svo gekk líklega nýr tími í garð. Einn daginn var blessunin hún amma mín komin með kolsvartan hadd og einhvernveginn strangari á að líta. Mér hnykkti við og fannst breytingin hreint ekki til bóta !

 

Þá vissi ég ekkert um heiðurskórónu gráu háranna, en fannst einhvernveginn eðlilegra og réttara að aldrað fólk væri gráhært. Mér fannst að tilraunir til að snúa þeim hlutum við væru bara plat. Það væri einhverskonar uppreisn gegn eðlilegri framvindu mála og eiginlega ekki alveg eins og það ætti að vera !

 

Svo þegar ég fræddist síðar um að gráu hárin væru heiðurskóróna hinna öldruðu, fannst mér það fullkomlega rétt, enda spekin oft nærtæk slíku fólki. Og hér áður þegar unga fólkið vildi hlusta á gamla fólkið, gat viska reynslunnar færst milli kynslóða, ólíkt því sem á sér stað í dag !

 

En af hverju eru svo margir fúsir til að hafna heiðurskórónunni ? Heldur fólk virkilega að það geti breytt staðreyndum aldurs og ára með hárlitun og öðru blekkingarferli ? Af hverju vill það ekki þiggja þann virðuleika og góðleika sem fylgir kórónunni ?

 

Jú, skyldi skýringin ekki vera nokkuð augljós. Mannlegt líf er fullt af hégóma, nánast frá vöggu til grafar. Það er alltaf verið að eltast við einhvern sýndarveruleika. Þessvegna er fólk alltaf að reyna að breyta staðreyndum og sýnast annað en það er !

 

Fjöldi fólks fer því þessa ,,yngingarleið,” líklega bara í góðri trú, því tíðarandinn ýtir undir allt slíkt, eins öfugsnúinn og hann er. Jafnvel blessunin hún amma mín fór út í þetta og fékk sér svartan hadd. Eins og hún var nú flott með kórónuna sína !

 

En konur af hennar kynslóð voru þá byrjaðar á þessu hárlitunarstandi og þannig hefur það líklega smitað út frá sér. Og heldur hefur það nú aukist á síðari árum. En staðreynd málsins er samt óbreytt og verður sú - að heiðurskórónu getur enginn sýnt nema sá sem er með hana !

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 18
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 587
  • Frá upphafi: 365485

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 500
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband