Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020
28.12.2020 | 13:51
Að fylgja sannfæringu sinni !!!
Það er oft gert nokkuð mikið úr sannfæringu manna, ekki síst þegar kjörnir þingmenn af flokkslista kjósa að segja skilið við flokk sinn. Það eina ærlega sem menn geta gert og eiga að gera þá, er að segja af sér þingmennsku svo varamaður, kosinn á sömu forsendum, geti tekið við !
En er það gert, nei ekki aldeilis, þá rís hin hágöfuga sannfæring viðkomandi þingmanns yfir allan rétt og heldur stöðunni. Og fer í mörgum tilfellum með hana inn í annan flokk eða jafnvel aðra flokka. !
Kjósendur sem kusu viðkomandi mann af þeim flokkslista sem hann var á, eru þar með sviknir og allt í nafni sannfæringar sem virðist fara létt með það að skipta um flokk eða flokka og þykjast samt alltaf hin sama !
Ég kann ekki að meta slík vinnubrögð eða yfir höfuð nokkuð það sem byggist á sviksemi. Og athæfi af þessu tagi er sviksemi að mínu mati. Ef menn treysta sér ekki lengur til að vera fulltrúar þess flokks sem þeir voru kosnir á þing fyrir, eiga þeir að víkja. Undir þeim fána fóru þeir fram !
Þeir buðu sig fram sem hluti af ákveðinni heild og ef þeir vilja yfirgefa þá heild, þá segja þeir af sér. Það er það eina heiðarlega í stöðunni. Flokkslistinn á atkvæðin sem féllu á hann !
En það virðist oft býsna erfitt að gera það sem ærlegt er og þá er blessuð sannfæringin kölluð til svo allt geti nú litið þokkalega út og þannig sé hægt að bjarga málinu. En rangur gjörningur er rangur gjörningur hvernig svo sem reynt er að skeina yfir hann og réttlæta hann !
Þegar fólk sem vill gjarnan láta það heyrast að það gangi fyrir hugsjónum og er svo kosið á þing sem slíkt, segir svo skilið við flokkinn út af einhverjum meintum eða tilbúnum ágreiningi, trillar um stund á eigin vegum og gengur svo í annan flokk, hvað verður þá um hinar mjög svo dýrmætu hugsjónir þess, hver er grundvöllur þeirra þegar allt kemur til alls. Ég held að egóið sé oftast mjög ofarlega og ráðandi í þeim kokkteil ?
En auðvitað þykist fólk í þessari stöðu hafa fengið uppljómun og uppgötvað, að sjálfsögðu í gegnum hina fastmótuðu sannfæringu sína, að nýi flokkurinn passi betur við þessar gullvægu hugsjónir og þar sé best að vera og vinna þeim framgang ? Hver trúir slíku endemis bulli ? Þarna er bara pólitík á ferð og hreint ekki geðsleg að mínu mati !
Það sem kemur í ljós, er að hugsjónirnar miklu halda ekki vatni. Þær byggjast ekki á fastri sannfæringu heldur miklu frekar á óstöðugu tilfinningaróti og það kemur oftast nokkuð fljótt fram. Um slík tilfelli mætti sem best yrkja eitthvað á þessa leið :
Rósa oft af reiði brann,
ruggaði mála fleyi.
En fann þó loksins Loga þann
sem lýst fékk hennar vegi.
Og ennfremur mætti kannski kveða :
Býðst í engu braut til sátta,
bresta vonir einfarans.
Andrés stendur utan gátta,
eins og forðum nafni hans.
Nei, fólk sem tekur sér stöðu undir flokksmerki þarf að hugsa vel sinn gang áður en það tekur sér þá stöðu. Og verði það kosið á þing sem slíkt, á það að gera sitt besta til að standa í þeirri stöðu sem það er kosið í. Ef það treystir sér ekki til þess, á það að segja af sér !
Það getur svo í framhaldinu boðið sig fram utanflokka ef því sýnist svo, og þá kemur væntanlega í ljós hvaða fylgi það hefur eitt og sér, - á heiðarlegum og réttum forsendum !
19.12.2020 | 20:29
Hver verður framvindan ef fer sem horfir ?
Það er talað um að hafa öðruvísi jól í ár og vissulega verða þau öðruvísi. Ekki vegna þess að við höfum endilega ákveðið það, heldur vegna þess að aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Það ætti að segja okkur eitthvað !
Mikil þörf er orðin á því fyrir okkur að endurmeta lífsgildin og hafa betri hluti að leiðarljósi en það eitt að fjölga krónunum og deyja svo frá öllum auðnum og fara blessunarlaus úr þessum heimi !
Hvað sagði Andrew Carnegie á sínum efri árum ? ,, To die a wealthy man is a digrace ! Hann fann þá að það sem hann hafði eltst við alla ævina hafði bara verið eftirsókn eftir vindi. Raunveruleg lífsgildi fólust í öðru !
Það er ekki bara Covid-faraldurinn sem segir okkur hvað margt getur farið úrskeiðis og það á heimsvísu, heldur erum við stöðugt minnt á það á landsvísu að margt getur gerst og valdið áföllum !
Yfirgengileg græðgi og efnishyggjufár hefur einkennt samfélag okkar í allt of langan tíma. Það er bókstaflega hryllingur að upplifa hvernig er verið að eyða allri siðrænni ábyrgðarhugsun úr þjóðinni. Sú afstaða til mála virðist ráða mjög víða að það sé sama hvaðan gott komi, og þá er yfirleitt verið að höfða til peninga, hvernig tekna sé aflað. Jafnvel yfirlýst háborg íslenska menntakerfisins virðist tala fyrir slíkum sjónarmiðum sem og talsmenn alkunnrar mannúðarhreyfingar !
Ég sé á slíkum viðbrögðum að gildin hafa verið færð niður. Á endanum verður kannski allt leyfilegt ef það er hægt að græða á því. Og fólk segir til að afsaka græðgis gerðir sínar : ,,En þetta er fyrir gott málefni ! Já, er það ? Ef að hluti af ágóðanum fer í að græða sárin eftir skaðann sem unninn hefur verið, er þá allt í lagi ? Samanber það þegar brennivínssala á vegum ríkisins leggur einhverja aura í byggingu meðferðarstofnana. Ég spyr, er búið að senda alla raunverulega siðfræði í útlegð frá þessu landi ?
Hvernig á einhver blessun að geta fylgt samfélagi okkar þegar heilbrigð og rétt gildi eru troðin undir fótum dags daglega vegna yfirgengilegrar ágirndar ? Þurfum við ekki að standa saman um eitthvað gott og uppbyggilegt ? Getur fólk í þessu landi ekki leiðst af neinu öðru en hroka og sérgæsku ? Erum við ekki minnt á það ár eftir ár að eitthvað er að ? Af hverju eru hamfarir stöðugt að dynja á okkur ? Er það ekki hrein og klár ábending um að eitthvað sé ekki í lagi ?
Ég spyr, hvar eru vísbendingar um að við séum undir vernd ? Höfum við ekki verið að hrekja þá vernd frá okkur með háttalagi okkar ? Hvaða afstöðu hefur hinn almenni íslendingur til Guðs í dag ? Er yfirleitt einhver maður að velta því fyrir sér hvort gerðir hans kalli á blessun eða bölvun ? Gæti verið að almenna afstaðan til Guðs sé - ,, ég hef ekki neinn tíma fyrir þig, sérðu ekki að ég er að græða !
Er dansinn um gullkálfinn það eina sem skiptir máli nú ? Að afla efnislegra fjármuna sem mest á kostnað allra góðra gilda ? Svo virðist líka sem íslenskir gullkálfar flytji stöðugt meira af misjafnlega fengnu fjármagni til útlanda og eigi sér önnur heimili og aðsetur þar. Þar er eiginlega bara um sumardvalarfólk að ræða í þjóðlegum skilningi, fólk sem er hér bara yfir blíðasta og besta tímann af árinu og varla það, fólk sem sumir myndu líklega kalla að væru bara hálfir Íslendingar !
Það ber að hafa í huga, að það getur oft verið stutt milli blessunar og bölvunar og ég býð ekki mikið í íslenskt samfélag ef græðgin á að stjórna því áfram á komandi árum eins og hún hefur gert síðustu þrjátíu árin eða svo. Það er tími sem hefur spillt miklum þjóðlegum gildis verðmætum !
Ég lít svo á, og kannski gera það fleiri, að með óbreyttu gildismati verði allt þurrkað út að lokum sem hefur blessað land og þjóð til þessa !
Hvernig skyldu jólin okkar annars verða að ári ?
15.12.2020 | 17:01
Sumir kunna ekki að tapa en tapa þó !
Það er vel þekkt atriði, að verðandi forseti Bandaríkjanna sver eið að því að framfylgja stjórnarskrá ríkisins og þeim gildum sem hún er byggð á þegar hann tekur við embætti. Auðvitað hefur sumum forsetunum orðið hált á því að standa þar við stór orð, en fram til þessa hafa þeir ekki beinlínis grafið undan þeim gildum sem þeim er ætlað að verja !
Það er hinsvegar margra mat að fráfarandi forseti hafi þar farið að þolmörkum og rúmlega það. Stundum virtist hann bara vera að stjórna eigin fyrirtæki en ekki samfélagi lýðræðislegra gilda !
Það hefur alltaf verið talinn drengskaparháttur að viðurkenna ósigur og sætta sig við úrslit mála þegar svo er komið. En að neita að viðurkenna ósigur og kasta á allan hátt rýrð á lýðræði eigin lands og kosningaskipulag þess, er eitthvað sem enginn forseti hefur áður leyft sér að gera !
Það er bara eins og afdankaður forstjóri sé í fýlu vegna þess að hann er látinn fara. Það er sannarlega ekki lítið egó sem býr á bak við slíka hegðun. Og flokksmenn hans margir hverjir virðast litlu skárri og éta upp sömu rökleysurnar og hann hefur í frammi !
Þó Biden og demókratar lofi stjórnkerfið fyrir styrk og staðfestu, og telji að lýðræði Bandaríkjanna hafi staðist ákveðið próf í gegnum þetta fargan allt og sé jafn traust og áður, er ég ekki á þeirri skoðun !
Ég held að ef svo væri, hefði hinn undarlegi skollaleikur eftir kosningarnar aldrei átt að geta komið upp. Það ferli sýnir einmitt veikleikana og hvað einn maður getur komist langt á engum forsendum og hvað margir dragast með honum, sumir áreiðanlega gegn betri vitund !
Gamla rómverska rægiaðferðin virðist duga víða enn, farðu nógu oft með lygina eða staðleysuna þar til menn fara að trúa þér. Lýðræði er ekki traust þegar menn eins og fráfarandi forseti leyfa sér að hegða sér gagnvart gildum þess eins og hann hefur gert !
Greinilegt er að skýrara orðalag og skilvirkari reglur þarf um sumt í lögum svo menn geti ekki túlkað mál með villandi og afvegaleiðandi hætti. Og það er vissulega þörf á því víðar en í Bandaríkjunum !
En þegar Bandaríkin eiga í hlut, skiptir mjög miklu máli um allan heim hvernig hlutirnir eru látnir ganga. Þessi umrædda ríkjasamsteypa vestanhafs hefur einfaldlega það mikið vægi á heimsvísu, hvað sem mönnum kann að finnast um það !
Það er því sannarlega ekki sama hver situr þar við völd og hvernig hann heldur á málum. Það ættu flestir að geta gert sér grein fyrir því. Það er til dæmis ekki gott ef þar situr ólíkindatól sem enginn botnar í !
8.12.2020 | 10:00
Um stórsöguleg heimskustrik !
Napóleon Bonaparte hefur löngum verið talinn til mikilmenna Sögunnar, en slóð hans er öll líkum þakin. Hann var ábyrgur fyrir dauða hundraða þúsunda manna vítt og breitt um Evrópu og stráði óhamingju og bölvun yfir alla álfuna. Valdagræðgi hans og yfirgangshneigð átti sér engin takmörk. Hann var Korsíkumaður og þóttist þó holdi klæddur mikilleiki Frakklands. Það er ekki nýtt að leiðtogar af slíku tagi byggi hugmyndir sínar og stefnu á fölskum forsendum !
Hitler var Austurríkismaður en þóttist vera þýskastur allra Þjóðverja. Stalín var Georgíumaður en þóttist rússneskari en nokkur Rússi. Alls staðar viðhafa slíkir ógæfuleiðtogar blekkingar og svik til að halda völdum og ráðskast með líf annarra manna af ótakmörkuðu kæruleysi !
Napóleon háði stríð um alla Evrópu til að leggja undir sig lönd sem aðrir áttu og voru fjölbyggð. Hann virtist ekki gera sér neina grein fyrir því að Frakkland taldist eiga gífurlegt landflæmi í Vesturheimi og hefði hann bara flutt franska landnema þangað í stórum stíl og byrjað að nýta það land, gat hann aukið veldi og viðgang Frakklands margfaldlega án styrjaldar og stórfelldra blóðsúthellinga.
Þannig hefði hann getað unnið landinu, sem hann þóttist vilja allt hið besta, meira gagn en nokkur annar !
En menn eru bara menn og þarna gerði Korsíkumaðurinn sín stærstu mistök. Hann virtist algjörlega blindur á þá miklu útþenslu möguleika sem franska ríkið átti í Vesturheimi. Hann var hugarfarslega negldur við Evrópusviðið og vildi heldur standa þar í styrjöldum upp á óljósan ávinning. Kom ekki hugsun sinni í víðara samhengi og því fór sem fór !
Thomas Jefferson Bandaríkjaforseti sá hinsvegar hið gullna tækifæri sem þarna bauðst þegar Napóleon vantaði fjármagn til frekari stríðsreksturs og keypti af honum lönd Frakka í Ameríku árið 1803 !
Sá gjörningur er hið svokallaða Louisiana Purchase. Um var að ræða svo mikið landsvæði að það var í raun ekki hægt að verðleggja það. Hin ungu Bandaríki fengu þarna 828.000 fermílur lands sem náði til 15 ríkja eins og þau eru nú, og tveggja landsvæða í Kanada að auki, fyrir skitnar 15 milljónir dala !
Bandaríkin næstum því tvöfölduðust að stærð við þetta og ávinningurinn fyrir þau var stjarnfræðilegur í öllu tilliti. Rúmum áratug síðar hafði Napóleon spilað öllu úr höndum sér og endaði síðan ævidagana sem fangi Breta á Elínarey. Skömm er óhófs ævi !
Árið 1867 keypti svo Bandaríkjastjórn Alaska í heilu lagi af rússnesku keisarastjórninni fyrir 7,2 milljónir Bandaríkjadala. Það vantaði víst meiri pening fyrir óhófslíf yfirklassans í Pétursborg !
Kaupin voru talin svo vitlaus af almenningi í Bandaríkjunum sjálfum að almennt var talað þar um Seward-vitleysuna, en William Seward utanríkisráðherra var helsti hvatamaður kaupanna !
Það kom svo í ljós síðar að Alaska er þvílík gullkista að auðlindagæðum að þar verður seint hægt að koma verðstimpli við. Rússar léku þar slíkan glóruleysis afleik í milliríkjasamskiptum að hann er aðeins sambærilegur við fyrrgreint heimskustrik Napóleons !
Það er alltaf þjóðum tap að eiga rotin stjórnvöld og afleita forustusauði !
3.12.2020 | 10:16
Nokkur orð um íslenskuð Biblíunöfn !
Erfitt er að segja hvaðan nöfn manna koma, hvert upphaf þeirra er. Í raun er líka alltaf verið að búa til ný nöfn með einhverjum hætti. En það fer auðvitað oftast þannig að sum festast í sessi en önnur detta fljótlega út. Margt er sérkennilegt við nafnagerð og þjóðlegar hefðir þar mjög sérstæðar. Til dæmis er ólíklegt að menn fengju nafnið Jóhannes skírari hér, en í Frakklandi hafa ótaldir menn fengið það nafn Jean Baptiste !
Athyglisvert er samt, að þrátt fyrir það sem margir vilja kalla afkristnun þjóðarinnar, virðast nöfn úr Biblíunni alltaf nokkuð vinsæl hver sem ástæðan kann að vera. Hjá okkur eru nöfnin Adam og Eva til, ekki síður en Askur og Embla, og geta menn velt vöngum yfir því hvað þar er um áþekk nöfn að ræða. Líklega tengjast þau sitthvorri útgáfunni af sama upphafinu !
Oftast virðist nú sem fólk hafi heldur kosið að láta heita eftir nöfnum hinna betri manna úr Ritningunni, má þar nefna nöfn eins og Enok, Nói, Ísak, Samúel, Daníel, Jónatan o.s.frv., en það er þó ekki einhlítt. Ekki hefur nafnið Abel til dæmis náð festu hér, en önnur nöfn orðið nokkuð algeng svo sem Jakob (hælhaldari), Aron, Davíð og Benjamín. Sérlega algengt hefur nafnið Jósef orðið, enda voru þeir menn sem það tengist helst í Biblíunni miklir mannkostamenn !
Aronsnafnið hefur orðið mjög vinsælt á seinni árum og miklu algengara en nafnið Móse (s). Kannski að það sé vegna þess hvað margir virðast helst af öllu vilja steypa og tilbiðja gullkálfa í dag ? Aron var auðvitað enginn leiðtogi eins og Móse og að því er virðist heldur veikur fyrir tíðarandanum. Það er því ekkert undarlegt þó nafni hans sé hampað nú á tímum.
Spámannanöfn eru nokkur þekkt hérlendis, Elía (s), Jóel, Jónas, Daníel, Hósea (s), Natan, Sakaría (s), og nöfn engla eins og Mikael og Gabríel !
Ekki höfum við tekið upp nöfnin Sem og Kam ( eða Ham), en Jafet höfum við hinsvegar vakið til lífs hér. Synir Jakobs eða Ísraels eru til í nöfnunum Leví, Jósef og Benjamín (Sonur Suðurlandsins, hamingjusonur). Sá síðastnefndi var reyndar nefndur Benóní (hryggðarsonur) af deyjandi móður sinni og það nafn höfum við líka meðtekið !
Nöfn guðspjallamannanna eru öll til í okkar nafnaflóru, en nafnið Lúkas er þó einna sjaldgæfast. Við höfum reyndar lagt út nafnið Jón á fleiri en einn veg, svo sem Jóhann og Jóhannes. En nafnmyndin Jón hefur þó orðið langsamlega algengust hérlendis af þeim útfærslum !
Hafa þeir sem heitið hafa Jón, og jafnframt verið Jónssynir, verið svo margir á Íslandi til þessa, að stundum hefur það valdið ættfræðisinnuðu fólki töluverðum erfiðleikum að greina þar á milli manna !
Nöfn postulanna eru sum alþekkt á íslenska vísu svo sem Símon og Pétur, Andrés, Jóhannes, Jakob, Tómas, Filippus og Páll. Önnur Biblíunöfn eru svo til hér, misjafnlega algeng þó, Salómon, Elí, Betúel, Bóas, Esra, Jósafat, Gamalíel, Job, Tímóteus, Samson, Metúsala (Methúsalem), Ebeneser (hjálparhella), o.fl. Nokkrir menn hafa fengið nafnið Abraham, en það hefur aldrei orðið algengt nafn á Íslandi !
Allmörg kvenmannsnöfn hér eiga líka að öllum líkindum rætur að rekja til Biblíunnar og þar ber nafnið María hæst. Einnig má nefna nöfnin Eva, Sara, Rebekka, Rakel, Rut, Marta, Ester, Anna, Hanna, Elísabet, Debóra o.fl. Nafnið Salóme er líka þekkt hérlendis !
Það þykir augljóslega öllu vinsælla á Fróni að halda uppi nafni Söru en Abrahams. Rakel er líka orðið nokkuð algengt nafn hér en Leu er nánast hvergi getið. Alltaf virðist hún blessunin sett hjá. Margt er hægt að hugleiða í þessum efnum út frá hverju nafni fyrir sig !
Líklegt má telja að um eða yfir 50 karlmannsnöfn hérlendis séu komin úr Ritningunni og sennilega um 20 kvenmannsnöfn. Mestur hluti þeirra nafna á sér hliðstæður í öðrum kristnum löndum á sömu forsendum !
Í arabískum heimi eru ættfeðranöfnin líka mjög algeng, Ibrahim, Ishaq, Yaqub, Yussef, enda uppruni þjóðanna sá sami þó friðsamlegra mætti vera innan þeirrar stórfjölskyldu. En máltækið segir víst ,,frændur eru frændum verstir og er það víst eitthvað sem flestir þekkja því miður.
Með þeim orðum læt ég svo þessum pistli lokið !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 69
- Sl. sólarhring: 117
- Sl. viku: 638
- Frá upphafi: 365536
Annað
- Innlit í dag: 65
- Innlit sl. viku: 550
- Gestir í dag: 65
- IP-tölur í dag: 63
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)