Leita í fréttum mbl.is

Hver verður framvindan ef fer sem horfir ?

 

 

 

Það er talað um að hafa öðruvísi jól í ár og vissulega verða þau öðruvísi. Ekki vegna þess að við höfum endilega ákveðið það, heldur vegna þess að aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Það ætti að segja okkur eitthvað !

 

Mikil þörf er orðin á því fyrir okkur að endurmeta lífsgildin og hafa betri hluti að leiðarljósi en það eitt að fjölga krónunum og deyja svo frá öllum auðnum og fara blessunarlaus úr þessum heimi !

 

Hvað sagði Andrew Carnegie á sínum efri árum ? ,, To die a wealthy man is a digrace !” Hann fann þá að það sem hann hafði eltst við alla ævina hafði bara verið eftirsókn eftir vindi. Raunveruleg lífsgildi fólust í öðru !

 

Það er ekki bara Covid-faraldurinn sem segir okkur hvað margt getur farið úrskeiðis og það á heimsvísu, heldur erum við stöðugt minnt á það á landsvísu að margt getur gerst og valdið áföllum !

 

Yfirgengileg græðgi og efnishyggjufár hefur einkennt samfélag okkar í allt of langan tíma. Það er bókstaflega hryllingur að upplifa hvernig er verið að eyða allri siðrænni ábyrgðarhugsun úr þjóðinni. Sú afstaða til mála virðist ráða mjög víða að það sé sama hvaðan gott komi, og þá er yfirleitt verið að höfða til peninga, hvernig tekna sé aflað. Jafnvel yfirlýst háborg íslenska menntakerfisins virðist tala fyrir slíkum sjónarmiðum sem og talsmenn alkunnrar mannúðarhreyfingar !

 

Ég sé á slíkum viðbrögðum að gildin hafa verið færð niður. Á endanum verður kannski allt leyfilegt ef það er hægt að græða á því. Og fólk segir til að afsaka græðgis gerðir sínar : ,,En þetta er fyrir gott málefni !” Já, er það ? Ef að hluti af ágóðanum fer í að græða sárin eftir skaðann sem unninn hefur verið, er þá allt í lagi ? Samanber það þegar brennivínssala á vegum ríkisins leggur einhverja aura í byggingu meðferðarstofnana. Ég spyr, er búið að senda alla raunverulega siðfræði í útlegð frá þessu landi ?

 

Hvernig á einhver blessun að geta fylgt samfélagi okkar þegar heilbrigð og rétt gildi eru troðin undir fótum dags daglega vegna yfirgengilegrar ágirndar ? Þurfum við ekki að standa saman um eitthvað gott og uppbyggilegt ? Getur fólk í þessu landi ekki leiðst af neinu öðru en hroka og sérgæsku ? Erum við ekki minnt á það ár eftir ár að eitthvað er að ? Af hverju eru hamfarir stöðugt að dynja á okkur ? Er það ekki hrein og klár ábending um að eitthvað sé ekki í lagi ?

 

Ég spyr, hvar eru vísbendingar um að við séum undir vernd ? Höfum við ekki verið að hrekja þá vernd frá okkur með háttalagi okkar ? Hvaða afstöðu hefur hinn almenni íslendingur til Guðs í dag ? Er yfirleitt einhver maður að velta því fyrir sér hvort gerðir hans kalli á blessun eða bölvun ? Gæti verið að almenna afstaðan til Guðs sé - ,, ég hef ekki neinn tíma fyrir þig, sérðu ekki að ég er að græða !”

 

Er dansinn um gullkálfinn það eina sem skiptir máli nú ? Að afla efnislegra fjármuna sem mest á kostnað allra góðra gilda ? Svo virðist líka sem íslenskir gullkálfar flytji stöðugt meira af misjafnlega fengnu fjármagni til útlanda og eigi sér önnur heimili og aðsetur þar. Þar er eiginlega bara um sumardvalarfólk að ræða í þjóðlegum skilningi, fólk sem er hér bara yfir blíðasta og besta tímann af árinu og varla það, fólk sem sumir myndu líklega kalla að væru bara hálfir Íslendingar !

 

Það ber að hafa í huga, að það getur oft verið stutt milli blessunar og bölvunar og ég býð ekki mikið í íslenskt samfélag ef græðgin á að stjórna því áfram á komandi árum eins og hún hefur gert síðustu þrjátíu árin eða svo. Það er tími sem hefur spillt miklum þjóðlegum gildis verðmætum !

 

Ég lít svo á, og kannski gera það fleiri, að með óbreyttu gildismati verði allt þurrkað út að lokum sem hefur blessað land og þjóð til þessa !

Hvernig skyldu jólin okkar annars verða að ári ?

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 1206
  • Frá upphafi: 318502

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 897
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband