Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2022
25.2.2022 | 09:28
,,Vandi Eflingar og ASÍ ?
Margt hefur að undanförnu verið til umræðu varðandi málefni Eflingar, en að sumu leyti hafa mál þar ekkert verið ósvipuð hinni raunverulegu stöðu innan ASÍ eins og margir vilja meina að hún sé. Þar sé ekki síður gamalgróið setulið sem mætti og ætti að víkja !
Sumir hafa haft það á orði, að þegar fyrrverandi forseti fór frá borði, hafi hann skilið eftir í brúnni á sambandsfleyinu rótfasta viðtengingarklíku, sem væri honum mjög spottatengd !
Ekki er gott að henda reiður á því hvað rétt er í slíku, en margt bendir þó til þess að grunsemdir um slíkt eigi við drjúg rök að styðjast, því býsna oft eru valdamenn ekki sérlega fúsir að sleppa tökunum !
Það er meira að segja skoðun sumra, að núverandi forseti hafi aldrei tekið almennilega við völdum í ASÍ, hafi aldrei tekið þann slag sem þurfti til þess. Það er svo sem vel þekkt að eitt er að þurfa og annað að þora !
Svo hliðstætt setulið heimaríkrar klíku kann alveg eins að vera til staðar í ASÍ og í Eflingu, þó sitjandi forseti hafi kannski hingað til forðast að drífa sig í stjórnarstefnu-bætandi hreingerningu á skrifstofunni þar !
Eða hafa menn merkt það í einhverju, að breyting hafi átt sér stað á starfsháttum ASÍ ? Eins og ætti að verða þegar ný og fersk forustu hefur tekið við ? Hafa einhverjir nýir vendir farið sópandi þar um sviðið ?
Ef það sem hér hefur verið sagt er rétt, virðist full þörf á því að spyrja hver sé í raun forseti ASÍ og hverjir hafi hin raunverulegu völd þar á bæ ?
Og í framhaldi mætti þá líka spyrja: Eru almennir félagsmenn í verkalýðs-hreyfingunni kannski meira og minna arðrændir af innanhúss-mafíum, klíkum sem samanstanda af græðgisfullu eiginhagsmunaliði og hugsjóna-lausum afætum ? Er ef til vill sálarlaust kerfislið þar við völd ?
Mörgu breyta mætti og ætti,
mun það flestum orðið ljóst.
Alþýðan með ýmsum hætti
elur snáka sér við brjóst !
Það skyldi þó aldrei vera, að tilvistarvandi sá sem virðist ógna verkalýðshreyfingunni sé fyrst og fremst innanhússplága, heimilisböl, - sem sé eitthvað sem er þyngra en tárum taki, - mala domestica majora sunt lacrimis ?
22.2.2022 | 11:19
,,Þá vil ég tala líka !
Að leggja orð í belg, að leggja eitthvað inn í umræðu, hlýtur að vera flestum nærtækt og eðlislægt, ef þeir á annað borð hafa einhverjar skoðanir fram að færa, sem þeir geta gengið út frá. Að öllu eðlilegu ætti það að geta talist ósköp mannleg tilhneiging að vilja segja sitt !
Ástæðan fyrir mínum pistlaskrifum hefur alltaf verið mjög einföld. Ég hef viljað fylgja inntaki þekktrar vísu eftir Káinn og löngum haft hana fyrir mín einkunnarorð - en hún hljóðar þannig :
Fyrir því lítið hef ég haft
heimsku minni að flíka.
En þegar aðrir þenja kjaft
þá vil ég tala líka !
Og af hverju skyldi maður ekki láta í sér heyra, þegar tjáning orðs er orðin jafn yfirtaksmikil og hún er í samfélaginu í dag ? Ef nánast allir eru að þenja kjaft því skyldi maður ekki gera það líka ? Er það ekki frelsi og mannréttindi að tjá sig og láta hvergi deigan síga ?
Sem betur fer sitja Íslendingar ekki almennt úti í horni í fýlu og þegja. Fólk tjáir sig, lætur í sér heyra og hefur í flestum tilfellum frá mörgu að segja. Netið er þannig orðið að nokkurskonar Háskóla samfélagsins !
Í deiglu þess er því margvíslegt lærdómsefni í gangi. Og lýðræðið á að geta blómstrað í gegnum mannleg samskipti meðan þau eru heilbrigð og falslaus. Eða hvað segir hið fornkveðna en gildisbæra orðtak, maður er manns gaman !
Netið er orðinn vettvangur umræðu sem ekki verður svo auðveldlega kæfð. Rödd fólksins fær að heyrast, fólk getur sagt skoðun sína. Sennilega er flestum valdaöflum illa við netið jafnvel þó þau noti það líka !
Möguleikar umræðunnar eru orðnir svo fjölbreyttir að kúgarar valdbeitingarinnar eru í stökustu vandræðum. Allt lekur út með einhverjum hætti !
Við þurfum menn eins og Julian Assange, menn sem berjast gegn leyndarhyggjunni og myrkravaldinu í heiminum, öllu svínaríinu og ofbeldinu í kringum ríkisvæddar kúgunarstofnanir. Fólk vill fá að búa við frið en ekki stríð. Það vill fá að eiga sitt líf með frjálsum hætti !
Höldum umræðunni áfram og verjum umræðuréttinn. Orð eru til alls fyrst og látum ábyrgð fylgja orðum, okkur sjálfum til æru og uppbyggingar !
18.2.2022 | 00:09
Að ,,leiðrétta sannleikann !
Þeir eru ófáir sem hafa tekið sig til og skrifað sagnfræðilegar úttektir á einhverjum lífsþáttum liðinnar tíðar. Það er oftast hið besta mál, einkum þegar ljóst er að fullur vilji er til þess hjá höfundi að þræða veg sannleikans. En því miður er stundum vikið nokkuð langt af þeim vegi !
Það er þekkt staðreynd að mjög margar ævisögur eru skrifaðar með það fyrir augum að drýgja hlut viðkomandi söguhetju, og er þá stundum seilst nokkuð langt til fanga. Það sem aðrir eiga með réttu er þá stundum dregið í rangan dilk. Það virðist oft gert vitandi vits og er skammarlegt framferði !
Það er til dæmis athyglisvert hve margir stjórnmálamenn rita ævisögur sínar eða fá menn til þess. Kannski er þar um að ræða einn þann hóp sem telur sig þurfa að ,,leiðrétta margt og þar með bæta eigin ímynd ?
Margir leigupennar virðast skeyta lítt um ærleg vinnubrögð og skrá það eitt sem virðist þjóna þeim tilgangi sem þeir hafa verið fengnir til að gylla !
Það segir sig sjálft að slíkir höfundar hafa ekki í sér neina trúmennsku gagnvart því sem rétt er. Sannleikurinn er þeim þannig ekkert takmark !
Í seinni tíð virðist þeim hafa fjölgað mjög sem óvandaðir eru í umfjöllun mála og alveg tillitslausir gagnvart rétti þeirra sem látnir eru. Söguleg sannindi eru þannig svikin og rangfærð með ýmsum hætti !
Sjaldnast þarf langt að fara til að finna dæmi um slíka ritmennsku. Menn sem voru mjög óvinsælir á samtíðartíma sínum, verða stundum í hagsmuna-tengdum eftirskrifum einhverra, allra manna vinsælastir og vel látnir, að sögn. Þá er öllu sem rétt er snúið algerlega á hvolf !
Það er ógeðslega að verkum staðið þegar slík fölsun á staðreyndum á sér stað. Þar virðist samt ekki endilega þurfa beinan skyldleika manna til að valda slíkum afbrigðum á prenti, heldur virðast öllu fremur ráða blóðsugutengsl hugarfarsins !
Þekki ég nokkur dæmi um slík vinnubrögð og hef megnustu skömm á þeim eins og reyndar allir menn með sómatilfinningu ættu að hafa !
Það er þannig því miður býsna margt sem bendir til þess að drullusokkar fortíðarinnar verði bókaðir öndvegismenn í eftirskrifum manna sem bera enga virðingu fyrir því sem rétt er og vilja lagfæra SANNLEIKANN !!!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook
11.2.2022 | 16:10
Efling eða Kefling ?
Það hefur varla farið framhjá mörgum að það hafa verið illvíg átök að undanförnu innan verkalýðs-samsteypunnar Eflingar um það hvernig þar skuli haldið á málum !
Eftir um tuttugu ára steindauða formannstíð Sigurðar Bessasonar voru margir farnir að afskrifa Eflingu sem lifandi félag í baráttu fyrir réttindum verkafólks. En svo var Sólveig Anna Jónsdóttir óvænt kosin formaður og þá má segja að allt hafi orðið vitlaust !
Í fyrsta lagi hafði það gerst sem mátti ekki gerast, sem sé það að manneskja sem vildi standa fyrir því að Efling væri í sannleika lifandi baráttutæki fyrir verkafólk hafði komist að völdum í félaginu !
Allt í einu stóð ljósfælið lið utan og innan félagsins frammi fyrir þeirri staðreynd að Efling ætti að fara að standa undir nafni. Aldrei í lífinu skyldi það verða, hugsaði þetta sérgæðalið sem var alla daga með þjalirnar á lofti yfir eggjum félagsins til að sverfa allt bit þaðan burt !
Og af hverju skyldi þetta lið hafa tekið þannig á málum ? Af því að það var og er steindautt og félagslega gelt, með rætur sínar í gömlum dauðatíma félagsins. Af því að það er búið að lifa góðu lífi á háum launum hjá félaginu til margra ára og hafði engan áhuga fyrir verkalýðs-baráttu !
Þetta lið er því ekki frambærilegt sem fulltrúar fyrir Eflingu, það er aðeins frambærilegt sem fulltrúar fyrir Keflingu. Ef það á að hafa völdin í félaginu mun öll barátta fyrir verkalýðslegum réttindamálum þar verða kefluð eins og hún var á steindauðum stjórnunartíma Sigurðar Bessasonar !
Ég skrifaði á þessa síðu fyrir nokkru pistilinn Á Efling að vera vakandi eða sofandi ? Ég get enn vísað á þann pistil því það sem þar stendur er í fullu gildi. Sólveig Anna hefur sýnt það að hún er að berjast fyrir réttindum hinna almennu félagsmanna í Eflingu. Það verður ekki frá henni tekið !
Ég fæ hinsvegar ekki séð að hinir frambjóðendurnir séu trúverðugir hvað það snertir. Framboð þeirra eru, að minni hyggju, fyrst og fremst leidd af þeim öflum, innan félags sem utan, sem virðast vilja allt til vinna að það verði ekki neinni lifandi formennsku viðhaldið innan stjórnar Eflingar !
Spurningin er því, á hin mosagróna félagselíta að halda velli við óbreytt kjör og fríðindi, eða á að taka til í ranni félagsins og hleypa þar ferskum vindum inn ?
Það er einfaldlega verið að kjósa um framtíðarstefnu þessarar verkalýðs-samsteypu, hvort sú stefna eigi að miða að Eflingu eða Keflingu ?
6.2.2022 | 15:30
Ég man það fólk -
Ég man það fólk sem íslenskt var í anda
þó oft það hefði liðið sára nauð.
Með sinni þjóð það vildi í veröld standa
og vera þar sem skyldan helst því bauð.
Ég mætti því á leiðum lífs og anna
og löngum fannst mér bjart á dögum þeim.
Það fólk var mitt ég fann þar hugsun sanna
sem fyllti mig af trú á betri heim.
Ég man það fólk sem Davíðs kvæði kunni
og kaus að leggja þau við hjartastað.
Í dagsins önn það mælti þau af munni
og mér finnst sem ég ennþá heyri það.
Það elskaði þau kvæði af öllu hjarta
og af þeim sjóði fengið gat ei nóg.
Það sá í djúpi sálar geisla bjarta
er sindruðu um lífsins Fagraskóg.
Ég man það fólk og mun því aldrei gleyma
því minninganna sýn til þess er góð.
Það vissi hvar það átti að eiga heima
og ól þá tryggð sem frægði land og þjóð.
Það hafði í engu glatað gefnum rótum
en gekk sinn veg með sálar aukið pund.
Það var svo fjarri fölskum tíðarhótum,
það fólk var mitt og er það hverja stund.
Rúnar Kristjánsson
1.2.2022 | 08:00
,, A House Divided Against Itself Cannot Stand !
Með hvaða hætti byrjaði hinn einsýni fjölmenningaráróður síðari tíma ? Hvar voru stofnuð ríki sem ekki byggðu á þjóðmenningu og sameiginlegum rótum ? Og hvernig hafa þær tilraunir gengið ?
Hafa ekki Bandaríkin og Sovétríkin verið, hvort með sínum hætti, dæmi um slík fjölmenningarríki ?
Við getum í þessu sambandi spurt ýmissa spurninga : Hversvegna leystist Júgóslavía upp sem ríki ? Af hverju gátu Tékkar og Slóvakar ekki lifað undir sama ríkisþaki ? Af hverju er Skotland að þreifa sig áfram til sjálfstæðis ? Af hverju vill Katalónía verða sjálfstætt ríki og Baskahéruðin sömuleiðis ? Af hverju sameinuðust Vestur og Austur Þýskaland ?
Í Sovétríkjunum átti að bræða saman í eina heild meira en 100 þjóðir, stórar og litlar, með eins ólíkan bakgrunn og hugsast gat. Það átti að bræða þetta allt saman á grundvelli nýrrar hugmyndafræði. En hvernig fór ? Jafnvel mjög skyldar þjóðir gátu ekki komið sér saman um stöðu mála. Allt fór í óefni og allt rak sig þar á annars horn og sundraðist !
Stærsta ögnin í þeim fjölmenningarpotti sleit sig fyrst frá öllu saman og yfirtók svo allt að lokum. Þannig fór með þá fjölmenningu ? Nú sitja allir þar austur frá undir ægivaldi Rússa, eins og var á keisaratímanum. Til hvers var barist og ósamstæðri ríkisheild komið á ? Milljónum mannslífa fórnað fyrir ónýtan einingardraum ?
Bandaríkjanna bíða sömu örlög. Þau fá ekki staðist til lengdar. Andstæðurnar innan alríkisins eru orðnar allt of miklar og sprengja bráðlega af sér allar núgildandi lagaviðjar. Það er ekki stefnt sömu leið. Fjölmenning Bandaríkjanna gengur ekki upp öllu lengur með sína alríkiskúgun og lýðræðið þar er sjáanlega komið að þolmörkum !
Ekkert á að sameina alla Bandaríkjamenn nema fáninn, og hann dugir ekki til. Þjóðlegar rætur eru svo margvíslegar að þær vísa ekki á neina samleið. Á sínum tíma sagði Lincoln, er hann lokaði á það að Suðurríkin mættu fara sína leið : ,, A House Divided Against Itself Cannot Stand !
En þar var aldrei um eitt hús að ræða heldur þrjátíu og fjögurra húsa þorp. Tuttugu og þrjú húsanna voru undir valdi sem ellefu hús í þorpinu voru ekki lengur tilbúin að sætta sig við. Það var engin friðsamleg lausn fundin á því vandamáli. Báðir aðilar héldu fast við sitt. Það endaði með borgarastyrjöld og bræðravígum !
Sama má segja um öll ríki sem reyna að byggja tilveru sína á fjölmenningu og samsteypu þess sem á ekki samleið ,,A House Divided Against Itself Cannot Stand ! Þjóðasafn er ekki það sama og þjóð !
Árið 1861 áttu þáverandi Bandaríki ekki lengur samleið. Og reyndar var það ljóst löngu fyrr. Þau ríki sem slitu sig frá alríkinu á þeim tíma fengu samt ekki viðurkenningu á frelsi sínu til að gera það og ráða sínum eigin örlögum. Þau fengu ekki að flytja burt úr alríkisþorpinu !
Forustumenn alríkisins í Washington vildu ráða þar málum. Réttur einstakra ríkja til sjálfsákvörðunar var fótum troðinn. Því fór sem fór !
Styrjöldin sem fylgdi kostaði 600.000 manns lífið og tólf ára yfirdrottnun Norðurríkjanna yfir Suðurríkjunum varð framhaldið. Suðurríkin voru hersetin og urðu þannig fyrsta nýlenda bandaríska alríkisvaldsins og þar komust bandarískir ráðamenn á arðránsbragðið !
Norðurríkin léku í raun hlutverk Stóra Bretlands nýlendutímans gagnvart hinum sigruðu Suðurríkjum. Frelsi íbúa þar til að ráða eigin málum var virt að vettugi. Þrælahaldið hafði aldrei verið meginmálið í deilunni þó margir vilji alltaf láta sem svo hafi verið. Það var fyrst og fremst tekist á um ríkisheildina og sjálfræðisfrelsi hvers ríkis gagnvart alríkisvaldinu !
Heimsveldishugsunin fór eftir borgarastyrjöldina að verða daglegur gestur í Hvíta húsinu og að lokum settist hún þar að. Hugsjón frelsisstríðs nýlendutímans var þar með gleymd og grafin ásamt öllu því sem þá hafði verið barist fyrir. Hervaldið eitt sat eftir, grátt fyrir járnum í hásæti hrokans, í höfuðborginni sem kennd var við ,,frelsishetjuna Washington hershöfðingja !
,,A House Divided Against Itself Cannot Stand ! Sú staðreynd opinberaði sig enn og aftur með skýrum hætti í árásinni á þinghúsið í Washington fyrir rúmu ári. Enginn hefði trúað fram að því, að slíkur atburður gæti átt sér stað þar vestra. En það sem gerðist var bara staðfesting á veruleika þess sem er komið til að vera. Fólk á ekki lengur samleið !
Bandaríska lýðræðisbyggingin hefur í raun aldrei verið sérlega sterk þó hún sé stór. Í Bandaríkjunum er margt á sveimi sem byggir ekkert upp en rífur margt niður. Öfgafullur fasismi er víða til í Bandaríkjunum og hann fer vaxandi og ógnar öllu lýðræði í þessu mikla sambandsríki.
Harðlínumenn til hægri eru að missa tök sín og þeir vita það. Ætlun þeirra er að endurheimta fyrri valdastöðu sína með öllu því ofbeldi sem til þarf. Árásin á þinghúsið sannaði það afgerandi !
Hin svokallaða bandaríska þjóð er margklofin og valdamiklir hópar innan ríkisins stefna út og suður. Sundrungin eykst í alríkinu og Bandaríkin munu falla eins og önnur fjölþjóðaríki fyrir þeirri vöntun sem gerir alla innviði þeirra í raun og veru máttvana. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Burðarvirki ríkisins er þegar að miklu leyti orðið ónýtt !
Fjölmenningin í Bandaríkjunum getur þannig enganveginn skilað af sér heildstæðu öryggi til lengdar, hvorki fyrir heiminn né Bandaríkin sjálf.
Jafnvel gjörsamlega óhæfur valdamaður eins og Donald Trump vissi að Bandaríkin voru ekki mikil lengur. Hann vildi gera Bandaríkin ,, Great Again !
En slíkt getur enginn gert héðan af. Bandaríkin eru þegar vegin og léttvæg fundin. Þau hafa spillt sínum tækifærum og eru nánast rúin trausti. Spurningin er aðeins hvenær hið endanlega fall þeirra verður !
Kannski verða í framtíðinni 3 4 ríki þar sem Bandaríkin eru nú. Kannski verður til sérstakt ríki þar suðvestantil og kannski rísa Suðurríkin á ný sem sjálfstætt ríki. Kannski verður Nýja England sérríki ? Hver veit ?
Staðreyndin í veruleikanum er einfaldlega sú - að aðeins þjóðríki geta haldið velli til lengdar ; ekki ríki sem verða suðupottar átaka vegna þess að þegnarnir eiga enga samleið !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:11 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 29
- Sl. sólarhring: 78
- Sl. viku: 598
- Frá upphafi: 365496
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 511
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)