Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2022

Hernaðarhyggja leiðir ekki til friðar !

 

Það er útbreiddur misskilningur að hernaðarbandalög efli frið. Þvert á móti stuðla þau að því að viðhalda ótryggu ástandi því forsendan fyrir tilvist þeirra er viðvarandi stríðshætta. Og stundum hefur tilhneiging þeirra viðhalda mátulegri spennu farið úr böndunum og þá hefur brotist út stríð !

 

Og stríð er viðbjóður hvar sem það er. Fréttamenn á öllum rásum velta sér upp úr hryllingnum og manndrápunum og allt er þetta efni sent á færibandi fjölmiðlaáróðurs og pólitískra lyga inn í stofur heimila okkar sem eiga þó að heita friðhelg. Ég er hættur að horfa á sjónvarps-fréttir af þeim sökum. Tel mig geta nýtt tíma minn til heilbrigðari hluta en að hanga yfir slíku !

 

Það ættu flestir að vita, að til að hernaðarbandalög geti haldið fullum dampi þurfa þau fjárframlög og þau nokkuð rífleg. Aðildarríki hernaðarbandalaga eru flest í þeirri stöðu að telja sér ógnað og óttast stríð. Þessvegna hafa þau gerst aðilar. Sá ótti fæðir af sér aukin fjárframlög til viðkomandi hernaðarbandalaga frá þjóðþingum og ýmsum ráðandi hagsmunaaðilum. Og hann elur jafnframt á meiri hernaðarhyggju !

 

Ef varanlegt friðarástand skapast verður fljótlega farið að tala um að minnka framlög til hernaðarmála og hernaðarbandalaga. Það verður jafnvel farið að tala um að leggja hernaðarbandalög niður. Það er alls staðar svo, að hægt er að nota peningana í nóg annað og þarna er um mikla peninga að ræða. Þetta vita stríðshaukar og æsingamenn mætavel !

 

Slíkir menn líta því svo á að stöðugt verði að skapa markaðsaðstæður til að rífleg framlög til hernaðarmála skili sér. Stríðsmálaráðuneytin sjá til þess að þau geri það. Þau eru sköpuð með sífelldum yfirlýsingum sem vekja ótta og ugg. Flestir hljóta að kannast við þá síbylju í fréttum hvers dags !

 

Óvinurinn sem verður að vera til, er sagður vera að gera þetta og hitt. Hann sé kominn fram úr í vopnabúnaði. Það verði að bregðast við því. ,,Og hvernig þá ?“ spyrja illa upplýstir þingmenn og fjölmiðlamenn. Og þá er hið himneska svar gefið með grátklökkum bænarrómi : ,,Okkur vantar meiri peninga, bara svo við getum tryggt öryggi ykkar !!!“

 

En það eru tómar blekkingar í gangi. Vopnaframleiðslan er löngu orðin svo snar þáttur í efnahagsmálum fjölmargra þjóða að veröldin er full af vopnabúnaði og sú staða heimtar áframhaldandi markaðsaðstæður fyrir framleiðsluna. Og hvert er þá svarið ? Jú, stríð, ekki samt allt of stórt, bara svona til að efnahagsmálin gangi vel og framleiðslan seljist. Þannig er raunstaða þess öryggis sem okkur er talin trú um að við búum við og sú staða er fölsk, rammfölsk. Við erum höfð að fíflum allan ársins hring !

 

Það má með öðrum orðum ekki skapa of friðsamlegt ástand. Þá þornar peningalindin upp fyrir hernaðarhyggjuna og fólk fyllist öryggi og vongleði um framtíð heimsins. Það má ekki gerast. Nei, halda verður við stöðugum ótta um stríð og það er líka miskunnarlaust gert !

 

Stríðshætta er oftast mögnuð upp með ágengni. Þannig byrjaði ástandið líka í Úkraínu. Ágengnin var bæði að austan og vestan. Hinum utanaðkomandi öflum var auðvitað skítsama um sjálfstæði Úkraínu !

 

Markmiðið var að ná landinu og auðlindum þess undir sig, með fjármálavaldi (að vestan) eða í versta falli beinu hervaldi (að austan). Tekjustig almennings í Úkraínu hefur lítið lagast á þessum 30 árum frá sjálfstæði, enda enginn að hugsa þar um almannahag, en forsetar landsins og fleiri ráðamenn í lykilstöðum hafa orðið margmilljónerar. Hvaðan skyldu þeir hafa haft þær tekjur sínar ?

 

Spyrja má : Hverjir eru að kaupa og yfirtaka landið og réttinn til nýtingar auðlinda þess frá fólkinu sem byggir það, í gegnum falska forustusveit ? Er aðferðin ekki sú sama og verið er að beita gegn Íslandi með orkupökkum, þjónustustyrkjum og allskyns ágangi gegn sjálfstæði okkar og íslenskum yfirráðum yfir íslenskum auðlindum ? Er asninn gamli gulli klyfjaður ekki enn á ferð um borgarhlið og landamæri þar sem allt er til sölu !

 

En við skulum líka gera okkur grein fyrir því að græðgi verður ekki til af engu. Það er eitthvað í sigti sem þarf að komast yfir með einhverjum ráðum. Það væri engin ágengni við Ísland ef við ættum ekki auðlindir. Það væri heldur engin ágengni við Úkraínu ef landið ætti engar auðlindir. Það væri ekkert stríð í Úkraínu ef ekki væri eftir neinu að slægjast þar !

 

Látum ekki villa og trylla okkur út í styrjaldaræsingar. Verum ekki með í því að hleypa einhverju brjálæði af stað sem ekki verður stöðvað. Gamalt spakmæli segir : Í upphafi skyldi endinn skoða !

 

Tökum ekki þátt í svínaríi áróðurs og fjölmiðlalyga og styðjum ekki uppbyggingu hernaðarhyggju og hernaðarbandalaga. Slíkt hlýtur fyrr eða síðar að leiða til þess að allt fer í bál og brand í þessari veröld okkar !

 

Styðjum frið á hreinum forsendum og tölum aldrei með stríði eða málstað þeirra sem lifa og þrífast á hernaðarhyggju !

 


Röndóttur sprellikarl ?

 

Páll Vilhjálmsson ofurbloggari kemst stundum skemmtilega að orði. Hann lýsti nýlega Loga fráfarandi Samfylkingarformanni með þeim orðum sem eru fyrirsögn þessa pistils. Það virðast vera nokkurskonar dómsorð um feril formannsins. Og víst er þarna hnittilega að orði komist !

 

En hvernig stendur annars á því að Samfylkingin hefur aldrei getað komið sér upp bitastæðum formanni ? Ég hef áður sagt að jafnaðarmennskan virðist vera svo jafngróin í flokknum að enginn geti staðið þar öðrum framar. Þar virðist enginn geta orðið fremstur meðal jafningja, primus inter pares. Þannig hefur það verið allar götur frá stofnun flokksins !

 

En það eru sennilega sprellikarlar víðar en hjá krötum og jafnvel sprelli-kerlingar að auki, hvort sem þar er um röndótt eða skræpótt lið að ræða. Sumt af stjórnmála-liðinu gæti sem best unnið í ódýrum skemmtana-bransa og ætti auðvitað aldrei að koma nálægt pólitík !

 

Þjóðin væri þá líkast til í ólíkt skárri stöðu en hún er. Hinn pólitíski atgervisleki virðist orðinn stórhættulegur fyrir land og þjóð. Við eigum sjáanlega orðið fátt af frambærilegu fólki til að sitja á þingi með orðstír !

 

Þetta fólk sem þar situr virðist sitja í einhverju egómettuðu hugarbúri sem fær það til að hugsa um flest annað en það sem því er ætlað að hugsa um. Oft virðist það til dæmis upptekið af því að gera aukatriði að aðalatriðum. Það er því sjaldnast hægt að vita upp á hverju tekið verði næst – hvaða aukaatriði verður sett upp næst með tilheyrandi auglýsinga-tilburðum !

 

Kannski það verði sett röndótt girðing utan um Austurvöll til þess að þar fjölgi ekki svörtum keilum á næstunni ? Borgaraleg óhlýðni er aldrei vel séð af yfirvöldum og síst þeim hægrisinnuðu. Sumir þingmenn virðast fá óbragð í munninn ef eitthvað minnir á slíkt í nágrenni þingsins !

 

Það er líka margt orðið skrítið innan borgarhirðarinnar. Nú virðast víst almennir Íslendingar vera orðnir svo ómerkilegir í augum elítumanna í borgarkerfinu að það verði að sækja Reykvíkinga ársins til Einaristan, eins fjarlægasta og minnst þekkta ríkis hins huglæga heims. Og sá undarlegi gjörningur er meira að segja sagður vera framsóknarmál !

 

Það virðist ekki líklegt til að bæta mikið þó einhverjir hástökkvarar úr fjölmiðla-geiranum skelli sér í pólitíkina, enda höfum við ófá dæmin um það hvernig slíkt hefur skilað sér. Sporin hræða þar vissulega frekar en hitt !

 

Kjarni málsins er auðvitað sá, að við þurfum ekki röndótta sprellikarla inn á þing eða í sveitarstjórnir, við þurfum að hafa þar fólk með hjarta fyrir landi og þjóð. Það á ekki að vera með hjartað út í Brussell eða annarsstaðar þar sem annarleg sjónarmið ráða gagnvart íslenskum þjóðarhagsmunum !

 

Það virðist því miður vera átakanlegur skortur á góðu mannvali á þingi og víðar nú um stundir og það sem verra er, litlar líkur á því að það lagist í bráð. En við verðum samt, sem frjálsir Íslendingar, standa áfram vörðinn fyrir sjálfstæðri stöðu þjóðarinnar þó forustu-sveitin sé eins ömurleg og hún er og líklega enn frekar vegna þess !


Um hugarfarslega afturför frá fullveldi !

 

Við Íslendingar sækjum margt til annarra þjóða. Eiginlega allt of margt. Og við höfum sleikt býsna margt upp erlendis frá sem ekki hefur fært mikla blessun með sér, hvorki hér né þar. Oftast hefur þá verið um eitthvað að ræða sem hefur auðgað fáa en farið illa með marga !

 

En því miður höfum við aldrei lært neitt af slíku. Gerum áfram sömu vitleysurnar og erum farin að ástunda hroka og hræsni sem þjóðaríþróttir. Það mun kalla á vísa brotlendingu fyrr en síðar !

 

Eitt af því sem við gerum alrangt er að koma upp ómannlegum kerfum í nafni hagsmuna þjóðarinnar. Eitt versta dæmið á síðari tímum um slíkt er hið alræmda kvótakerfi. Það er hábölvað mismununarkerfi sem hefur skekkt og ruglað réttlætiskennd fjölmargra Íslendinga. Margir virðast af þeim sökum ekki vita lengur hvað er rétt og hvað er rangt !

 

Hagsmunagæsla með sérgæsku í fyrirrúmi veldur oft algerri siðblindu. Það telja margir að sannast hafi á kvótakerfinu. Krónuharkið í því sambandi hefur sett mark sitt á hjónaskilnaði og allt mannlífið landinu með illum og afleitum hætti. Menn virðast leggja sál sína hiklaust að veði í þeim hráskinnaleik sem þar er oft stundaður !

 

Menn eltast við peningana og gera sig að öpum fyrir vikið. Og í lokin blasir það við að þeir eiga ekki peningana heldur eiga peningarnir þá. Og sem lík í kirkjugörðum verða þeir ekki áfram ríkir því lík eiga ekki neitt. Erfingjarnir munu sjá til þess !

 

Það er með ólíkindum hvernig ranglætið sáir sér í kringum öll mismununar kerfi þar sem eðlilegri réttlætishugsun er hallað. Og þar sést líka einna best hvað mannseðlið er spillt þegar í spillingargírinn er komið. Jafnvel bestu menn frá fyrra fari virðast geta gengið þar í björg með sálarlausum svartálfum seðlaríkisins. Þar er ekkert til eftirbreytni !

 

Mér virðist nokkuð ljóst, að flest meginmarkmið þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem þjóðin háði fyrir um og eftir aldamótin 1900, hafi smám saman skolast burt í snobbi og hégóma kerfislegrar tildurmennsku sem fór strax að hreiðra um sig eftir að fullveldið var talið í höfn. Það er slæmt vitni um það hvernig haldið hefur verið á málum þjóðarinnar síðustu hundrað árin !

 

Við höfðum tækifæri til að marka okkur sérstöðu í samfélagi þjóðanna. Við gátum gengið þar inn með hreinan skjöld og gefið gott dæmi til eftirbreytni. En það tækifæri var ekki nýtt og það skrifast fyrst og fremst á afar lélegt forustulið og stórsnobbað embættis-mannalið. Síðan hefur margt verið unnið þjóðinni til skaða af þessum öflum. Sérgæskan tók yfir og samgæskan varð að víkja og allt það sem tók til heildarhagsmuna !

 

Þó alltaf sé verið að reyna að fegra sögu okkar og allskonar gyllingar viðhafðar þar, er ljóst að við höfum ekki gengið götuna til góðs. Ef við hefðum gert það, væru fyrirbæri eins og kvótakerfið ekki við lýði í þessu landi. Við eigum sýnilega enn langa leið fyrir höndum að því marki að hér geti ríkt sátt og samhugur !

 

Hagsæld Íslands getur aldrei legið í því að efla stöðugt sérgæskuna á kostnað almannaheilla !


Hvað er verið að gera við fjallið okkar ?

 

 

 

Við Skagstrendingar eigum innan marka okkar sveitarfélags fjall sem við teljum náttúrulega gersemi. Við elskum þetta fjall og það er unun í lífi okkar að hafa það óbreytt fyrir augum. Megi svo áfram verða !

 

Fyrir allmörgum árum var tekið upp á því að sá lúpínu í fjallið og hefur það leitt það af sér að Borgin okkar verður blá að lit um hásumarleytið. Margir voru mjög ósáttir við þá breytingu sem þetta framkallaði á hinni svípfríðu ásjónu fjallsins og töluðu ljótt um þá sem þar höfðu verið að verki. Aðrir sögðu minna, en voru engu að síður lítt ánægðir !

 

En nú er kominn nýr og stærri þáttur í þeim gjörningi sem virðist eiga að fela það í sér að breyta fjalli. Og það virðist eiga að gerast án þess að eigendur fjallsins, íbúar Skagastrandar, séu spurðir álits eða einhver raunhæf grenndarkynning eigi sér stað. Hver stendur eiginlega að baki því umrótsverki sem sýnilega er verið að fremja á fjallinu okkar ?

 

Er þarna um einhverja framkvæmd að ræða sem byggist á einhverju framhjáhlaupi frá eðlilegu lýðræði eða hvað er þarna á ferðinni ? Það er beitt jarðýtu á fjallið og gerðar vegrásir um það eins og það sé bara einhver ómerkilegur malarhóll. En þetta er Borgin okkar ?

 

Hver stjórnar þessu og hver leyfir sér að heimila þetta ? Hvað liggur að baki þessu uppátæki ? Er Skógrækt ríkisins kannski orðin viðurkennd sem einhverskonar ríki í ríkinu ?

 

Ég veit svo sem ekki hver afstaða hvers og eins er í þessu máli, en ég veit að ég vil hafa Borgina okkar eins og hún er og ég veit að margir eru sama sinnis. Ég tel að það hefði átt að kjósa um þetta mál samkvæmt eðlilegu íbúalýðræði eða erum við kannski alveg hætt að kjósa á Skagaströnd ? Erum við orðin svo andlega sljó eða talin vera það, að við látum fegurstu perluna okkar, gersemina okkar, fjallið okkar, Borgina okkar, umyrðalaust í einhverjar spellvirkjahendur ?

 

Við svona aðstæður finnst mér að fólk eigi að láta heyra í sér og mótmæla lögleysu sem getur ekki átt sér nokkra forsvaranlega stoð í lýðræðisgrundvelli lands og þjóðar. Einhver peningaöfl eiga ekki að fá að valta yfir perlur okkar og fjöregg eins og þeim sýnist og ekki heldur yfirgangssinnuð kerfisklíka með ráðríka ríkishönd !

 

Fólkið í landinu á sinn rétt og við Skagstrendingar eigum ekki að vera þar nein undantekning. Hvar á vegi erum við eiginlega stödd þegar svona gjörningamál eru í gangi ? Borgin okkar á ekki undir neinum kringum-stæðum að vera fórnarmál í framandi höndum !

 

Á þjóðréttardegi Íslendinga vil ég leyfa mér að vekja máls á þessu, því hvað erum við ef réttindi okkar eru flegin af okkur hvenær sem einhver arðránshönd krefst þess ? Gersemar okkar eiga að fá að vera friðhelgar !

 

Einu sinni var sagt við góðan mann sem var maður fólksins í landinu:,,Vígðu nú ekki meira, einhvers-staðar verða vondir að vera ! Er kannski svo komið, að þeir sem vilja ekki góðar vígslur, séu sendir til Skagastrandar til að standa þar að illum athöfnum ?


Af hverju sukkum við í snobbið ?

 

 

 

Þegar Ísland varð fullvalda ríki að nafninu til 1918, tók undirlægjusinnuð, danskmenntuð embættismannaklíka við völdum í landinu. Og í stað þess að byggja hið nýstofnaða íslenska ríki upp eftir sögulegum íslenskum forskriftum, var þegar í stað farið að apa eftir annarra þjóða ósiðum og einkum þó dönskum. Það var kannski bara það sem búast mátti við af því hrokafulla og hræsnisblindaða embættismannaliði sem öllu fékk að ráða !

 

Og einmitt þessvegna voru gerð mörg mistök og sum hafa elt okkur fram á þennan dag. Við hefðum til dæmis aldrei átt að taka upp svonefnda Fálkaorðu. Það var ógeðsleg eftiröpun embættislegrar goggunarraðar í Danmörku og víðar sem hefði aldrei átt að fá að festa rætur í því sem heita átti nýfrjálst þjóðfélag Íslendinga. Við sváfum þar illa á ætluðum manndómsverði okkar gagnvart innantómu titlatogi hégómans !

 

Við áttum að hafa þjóðveldið okkar gamla sem nokkurskonar fyrirmynd að nýskipan mála hér eins langt og það náði. Byggja kerfi okkar og lagasetningu á víðtækum þjóðfrelsisákvæðum. Við áttum að sýna öðrum þjóðum að við værum óhrædd við að troða nýjar slóðir til velferðar lands og lýðs. En þess í stað fylgdum við fast í skítaspor nágrannaþjóðanna !

 

Seinna meir við stofnun lýðveldisins hefðum við auðvitað aldrei átt að búa til þetta ömurlega og einskisnýta forsetaembætti. Það voru meiriháttar mistök og uppsetning á tómri yfirborðsmennsku og hégómaskap !

 

Við höfðum auðvitað ekkert að gera með einhvern toppskarf í tauhálsgervi, til þess eins að eltast við snobbið og erlendar flibbadúa-elítur. Forsetaembættið hefur aldrei skilað neinu raunhæfu gagni fyrir þjóðina. Það hefði aldrei átt að taka það sýndarmennskuferli upp !

 

Og gagnsleysi hégómans varðandi það og annað hefur löngum verið okkur dýrt spaug. Þegar við skoðum kerfisuppbygginguna á Íslandi sjáum við fljótt að það er ótrúlega mikil stéttaskipting í landinu. Það er embættisleg stéttaskipting og tekjuleg mismunun í meiri mæli en flestir gera sér grein fyrir. Öll manngildisleg viðhorf eru yfirleitt hundsuð því snobbið ræður !

 

Og með hliðsjón af því hverskonar lið það var sem tók hér við völdum eftir fullveldið, þarf enginn að undrast neitt þó konungskórónan sé enn á Alþingishúsinu. Stærstur hlutinn af kerfisklíkunni hefði áreiðanlega viljað hafa kónginn áfram !

 

Þá hefði verið hægt að deila út ennþá fleiri orðum og heiðursmerkjum en Fálkaorðuforsetarnir okkar hafa komið í verk þó viljugir hafi verið þar til útdeilingar. Og hverjir skyldu helst slíkar ,,viðurkenningar" – yfirleitt einhverjir embættismenn, flokksgæðingar, stórviðskiptagreifar og lögfræðingar !

 

Það er óþjóðleg skítalykt af því þegar embættismenn eru í raun að hengja orður og krossa hver á annan í upphafinni sjálfumgleði, svo þeir geti borið alla dýrðina framan á sér í næstu diplómataveislu og auglýst embættislegt gildi sitt með þeim rammfalska hætti !

 

Af hverju þræddum við keldur og kviksyndi annarra í stað þess að láta víti þeirra okkur til varnaðar verða og skapa eitthvað heilbrigt og gott í staðinn ? Af hverju urðum við aldrei sú þjóð sem við ætluðum að verða ? Höfðum við kannski aldrei í okkur merginn til þess ?

 

 


Hinn gífurlegi orkuvandi í Evrópu !

 

 

 

Nútímaþjóðfélag þarfnast mikillar orku til nánast allra hluta. En þjóðir Evrópu eru mjög misvel búnar til að mæta þar sínum eigin þörfum. Sú spurning kann því að vera tímabær hvort sú þjóð sem enganveginn getur staðið undir orkuþörf sinni geti talist sjálfstæð ?

 

Ef einhver nágrannaþjóð þarf bara að skrúfa fyrir krana til að sjálfstæð þjóð verði ósjálfbjarga, er þá viðkomandi þjóð í þeirri stöðu að geta talist sjálfstæð ? Miðað við stóraukna orkuþörf þjóða í seinni tíð má spyrja hvort sumar þjóðir Evrópu geti í raun staðið undir yfirlýstu sjálfstæði sínu einar og sér ? Það virðist í sumum tilfellum mikið vafamál !

 

Og áfram má spyrja, hverskonar þjóðarsjálfstæði er það sem byggist á því að einhver nágrannaþjóð skaffi það sem þjóðina vantar og helst fyrir lítið ?

Evrópusambandið er til dæmis afskaplega þurfandi fyrir innflutta orku frá Rússlandi. Það fær 26,9% af olíu sinni þaðan, 46,7% af kolum sínum og 41.1% af gasinu. En nú ætlar það að refsa sjálfu sér um leið og það refsar Rússum. Spurningin er - hvorum aðilanum skyldi blæða meira ?

 

Hitaorkan til heimilisnotkunar í Evrópusambandinu er að þrem fjórðu hlutum fengin með olíu og kolum. Staðan er nú ekki beysnari eða grænni en það í hinu ætlaða kerfis-knúða farsældarríki framtíðarinnar !

 

Sæstrengsorka flutt frá Íslandi til meginlands Evrópu myndi hafa það í för með sér að orkuverð til íslenskra heimila myndi hljóða upp á mörg hundruð prósenta hækkun. Það myndi nánast þýða efnahagslegt hrun !

 

Staðan á hinum Norðurlöndunum er afleit og hafa Danir og Norðmenn fengið þar ófá kjaftshöggin og þeim mun fjölga. Ríkisstyrkir vegna aukins orkukostnaðar víða um Evrópu hljóða nú upp á tugmilljónir evra og verða brátt milljarðadæmi. Enginn veit hvernig hægt er að leysa vandann !

 

Þjóðverjar sem eru að mörgu leyti þjóða duglegastir að bjarga sér, þurfa að mæta orkuþörf sinni með innfluttri orku upp á 63.7%. Aðrar þjóðir Evrópu eru margar hverjar í miklu verri stöðu. Innflutt orka á Möltu er 96,7% !

 

Og ef við lítum frekar á stöðuna, þá flytur Luxemburg inn 92,5% sinnar orku, Ítalía 73,5%, Spánn og Portúgal 67,9%, Grikkland 81,4% og Frakkland 44,5% þrátt fyrir öll kjarnorkuverin í landinu !

 

Á netinu er hægt að afla sér þessara og annarra upplýsinga um stöðu mála varðandi orkudæmið í Evrópu. Það liggur þegar fyrir að raforkuverð til heimila í álfunni er að stórhækka og sé litið til komandi ára er staðan blátt áfram ógnvænleg og það í alla staði !

 

Balkanskagaríkin virðast búa við heldur lægra orkuverð eins og sakir standa, en það er enganveginn víst að þau geti haldið þeim ávinningi til lengdar. Þar getur margt spilað inn í og spillt dæminu !

 

Lægsta raforkuverðið í álfunni var á seinnihluta ársins 2021 í Kosovo og það var þannig meira en helmingi lægra en á Íslandi, í sjálfu gnægtalandi hinnar hreinu raforku. Það vekur furðu og krefst skýringa ?

 

Af hverju skyldum við Íslendingar aldrei fá að njóta auðlinda okkar ? Það er ekki hvað síst vegna ránshandar ríkisins og svívirðilegrar sérgæsku íslenskra dollara-prinsa til sjávar og sveita !

 

Öll lönd sem kunna að geta boðið upp á hagkvæmt orkudæmi eru nú mjög í sigti stórra aðila sem stefna að arðráni og yfirtöku á slíkum landkostum. Við Íslendingar þurfum því mjög að gæta okkar á innlendu sem erlendu auðvaldi. Það er stöðugt reynt að kaupa okkur upp með margvíslegu móti !

 

Þegar talað er eingöngu um Evrópusambandslöndin í ljósi orkuvandans, var verðið á seinni helmingi ársins 2021 á orku til heimilisnota um 92% hærra að meðaltali í ESB löndunum en á Íslandi. Það segir okkur einfaldlega að Evrópusambandið er ekkert nema sísoltin og orkuhungruð ófreskja sem reynir sífellt að svelgja í sig auðlindir annarra ríkja !

 

Það þarf víst engan að undra að sumir vilji hraða afgreiðslu orkupakkanna hér sem mest og koma okkur sem fyrst inn í Brussel-paradísina sína !

 

Verum því á verði og höfum það jafnan hugfast hver hættan er, því að í hugarheimi djöfla er helvíti paradís !!!

 

 

 

 

 

 


Þriðja heimsstyrjöldin og sú síðasta ???

 

 

Hvað er að gerast ? ,,Er komið að endalokunum?“ spyr fólk víða um heim, einkum þó í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar er líka að mestu leyti uppspretta þess sem er að gerast. Eigum við kannski að skoða málið svolítið í ljósi þess sem hefur gerst og er að gerast ?

 

Margir héldu lengi vel að Sovétríkin myndu hefja þriðju heimsstyrjöldina. Allan kaldastríðs tímann var því haldið að fólki með linnulausum áróðri í Vestur Evrópu og Bandaríkjunum, að Sovétmenn væru til alls vísir. Þeir voru sagðir villimenn og barbarar og eins og það væri ekki nóg, væru þeir þar að auki bölvaðir kommúnistar. Það var nú það versta. Ekki þótti blandan góð !

 

En nógir voru til að trúa þessu og gengu fölir og vansvefta um vegna þess. Það er hægt að hræða lífið úr besta fólki með áróðri. Þá henda háttsettir menn sér jafnvel út úr gluggum á háhýsum !

 

En svo merkilegt sem það er, liggur nú fyrir að hin kommúnistísku Sovétríki hófu aldrei þessa umræddu gjöreyðingarstyrjöld og gera það ekki úr þessu. Og raunar var kannski hættan á því aldrei mjög mikil þegar allt kom til alls, nema þá fyrir tæknilega slysni !

 

Þjóðir Sovétríkjanna fundu nefnilega allra þjóða mest fyrir því í Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari hvað stríð er. Það gerðist í Landvarnarstríðinu mikla sem háð var gegn nazistum frá 1941 til 1945. Meira en 20 milljónir þegna landsins féllu í því stríði. Reyndar er talan oftast sögð allt frá 18 til 24 milljónir. Til samanburðar má geta þess að Bandaríkjamenn misstu líklega næstum 300.000 manns og Bretar um 360.000 !

 

Sovétríkin báru hita og þunga baráttunnar gegn Nazista-Þýskalandi og áttu drýgstan þáttinn í því að sú mannkynsógn var að velli lögð. En það kostaði sitt eins og tölurnar sýna. Og samt áttu Sovétríkin að vera æst í áframhaldandi stríð – með allan vesturhluta landsins í rústum og yfir 20 milljónir fallnar ? Fæstir myndu nú telja að slíkt kallaði eftir meira stríði !

 

Hverjir fjármögnuðu Hitler og hvað var honum ætlað að gera ? Breskt, franskt og bandarískt auðvald byggði nazistaríkið upp og því var ætlað að leggja Sovétríkin að velli. Sigrast á kommúnismanum sem var mesta ógnunin við auðvaldið í heiminum. Það var stríðið sem stefnt var að !

 

En vopnin snerust illilega í höndunum á auðvalds-ríkjunum. Eftir allan fjármagns-austurinn fór svo að Hitler lét ekki að stjórn. Hann vildi ólmur taka Frakka í gegn. Hann fór því ekki í austur. Hann fór í vestur !

 

Og í framhaldinu urðu Vesturveldin og Sovétríkin bandamenn sem hvorki mátti eða átti að gerast. Hvernig í ósköpunum gat svo farið ? Hvaða vald lét það gerast sem átti ekki að geta gerst ? Sannarlega var það ekki pólitík þessarar plánetu sem stjórnaði þeim furðu-snúningi. Þar var eitthvað á ferð sem enginn skildi !

 

Hin svokallaða síðari heimsstyrjöld fór við þetta alveg úr böndunum og í allt annan farveg en henni var ætlað af þeim sem hrundu henni af stað. Þar kom sannarlega vel á vondan. Vesturveldin komust þar líklega að þeirri íslensku þjóðsagna-staðreynd að það er ,,vont að vekja upp draug og verða að kveða hann niður“ eins og þar stendur !

 

Það tókst þó að lokum að koma kommúnismanum og Sovét-ríkjunum fyrir kattarnef. En það gerðist af því að forustumenn sovéska ríkisins voru hættir að vera kommúnistar og voru orðnir kapítalistar. Fjármálavaldið og peningahyggjan gerði þá að sama hyskinu og þrífst í Wall Street og öðrum Mammonshöllum heimsins þar sem hjörtu manna slá eftir dollaragengi !

 

Og var þá eitthvað í vegi fyrir friðsælli heimi ? Var þá ekki hið svonefnda heimsveldi hins illa sigrað og bara góðir kapítalistar komnir þar við völd ? Nei, það vantaði víst eitthvað ennþá í samstöðuna og vináttuna milli þjóða. Það hófst nefnilega mjög fljótt mikil valdatogstreyta um það sem við getum kallað dánarbú Sovétríkjanna sálugu !

 

Rússland sem taldi sig vera réttmætan aðalerfingja í því dæmi, gat ekki fyrst um sinn varið sinn ætlaða rétt þar. Kremlarheimilið var allt í upplausn meðan oligarka-innherjar og önnur arðránskvikindi fóru hamförum í ránskap sínum á ríkiseignum, í skjóli vanhæfra leiðtoga sem tóku þar áreiðanlega sínar prósentur. Það var veisla í gangi eins og hér fyrir hrunið. Allt fyrra skipulag fór til fjandans í þeim skollaleik sem þar var stundaður og undirlægjuríki Sovétríkjanna hlupu í allar áttir, líklega frelsinu fegin !

 

En þegar Rússland fór að rétta við eftir sitt hrun, sáu ráðamenn í Kreml sér til skelfingar að vestræn auðvalds-krumla var að teygja sig æ lengra austur á bóginn. Hin fyrrum sovésku áhrifasvæði höfðu mörg hver þegar verið gripin af henni og lukt í dollaragreip hinnar nýju nýlendustefnu. Hver yrðu lokin á þeirri ásókn ? Hvað yrði um Rússland ef svo færi sem horfði ?

 

Og þar með breyttist allt sviðið. Hið ævagamla andspæni sögunnar tók sig upp að nýju. Kapítalistar gegn kapítalistum og nú voru engin kommakvikindi til að skekkja myndina. Valdabarátta hefur alltaf verið sér-íþrótt kapítalismans og yfirtaka landa er þar á bæ jafnan sögð færa björg í bú. Það hlakkaði því í hræfuglum auðhringanna á Vesturlöndum !

 

Og sjötíu milljarða dollara fjárfesting á úkraínsku landi og atvinnulífi frá Brusselvaldinu, sem var bara byrjunin, átti að skila fjársjóðslandinu Úkraínu á silfurfati til hins vestræna auðvalds. Þannig átti allt að smella saman til að fóðra á komandi árum botnlausa hít Evrópusambandsins !

 

En það er enginn friður þar sem auðvald ræður og getur aldrei orðið. Arðrán kallar ekki á frið. Hinn kúgaði hlýtur alltaf að rísa upp að lokum. Það er í rauninni alveg sama hvort kúgunarvaldið kallast kommúnískt eða kapítalískt, því yfirgangsstefna getur aldrei gengið til lengdar !

 

En meðan næði gefst frá beinu stríði er hægt að stunda arðrán og það er miskunnarlaust gert af öllum kapítalistum, og nú á tímum jafnt í austri sem vestri !

 

Og fjármálaleg innrás er auðvitað allt annað en hernaðarleg innrás. Peningavald leggur nefnilega undir sig fleiri lönd en hervald og það er miklu klókara að múta mönnum til undirgefni en merja þá til bana !

 

Staðreynd málanna er, að hið vestræna auðvald er að leggja undir sig lönd og ríki austar í Evrópu, ríki sem það hafði misst úr fjármálaklóm sínum þegar Sovétvaldið flæddi þar yfir allt um miðja síðustu öld !

 

Eftir hrun Sovétríkjanna var sú stefna mörkuð af auðvaldsöflum Vesturlanda að leggja bæri Austur-Evrópu-ríkin undir Brusselvaldið, Bandaríkin og Nató. Ekki þó með hervaldi heldur fjármálavaldi. Og að því hefur verið unnið síðan og nú segjast Rússar vera búnir að fá nóg !

 

Þeir segjast nú vera til í allt og hvað þýðir það – kjarnorkustyrjöld ?

 

Þjóðverjar virðast loksins hafa lært það að hernaðarinnrás er ekki leiðin til yfirráða í Evrópu, enda líka búnir að reyna það tvisvar. Að ná valdi yfir öðrum löndum með fjármálavaldi er miklu árangursríkara. Það er bara að kaupa leiðtoga þess lands sem á að leggja undir sig, gera þá að milljónamæringum, og láta þá þjóna yfirtökuvaldinu á bak við tjöldin. Það var lengi uppáhalds aðferð Vesturveldanna í Afríku og er það líklega enn !

 

Og valdið í Brussel er nú sannarlega ekki samevrópskt eins og haldið er fram – af sumum. Það er heldur ekki franskt eða breskt, það er þýskt. Bretar fóru út úr Evrópusambandinu þegar þeim varð loksins ljóst að það átti bara að vagga þeim í svefn í Brussel. Þeir áttu ekki að fá að ráða þar neinu !

 

Og aumingja Frakkarnir, þeir eru fyrir allnokkru orðnir algerar undirlægjur Þjóðverja í Evrópusambandinu og hafa alveg glatað þar hinni upphaflegu jafnstöðu sinni gagnvart Þýskalandi. De Gaulle yrði sannarlega ekki hrifinn ef hann sæi stöðu mála í dag. En hann lagði þar sjálfur sigurgrunninn fyrir þýskan framgang og hafði sýnilega ekki hugmynd um hvað hann var að gera !

 

Þýska valdið ræður í Brussel og það virðist vera takmarkið bak við tjöldin að leiðrétta mistökin sem Adolf Hitler gerði. Andinn er sá sami og hann hefur alltaf verið. Nú skal haldið í austur í anda tevtónsku riddaranna, því Putin er sannarlega enginn Alexander Nevskí !

 

Þessi þriðja tilraun Stór-Þýskalands til yfirráða í Evrópu mun líklega raska öllum friði í álfunni og spilla þar allri velmegun enn einu sinni og jafnvel til frambúðar. Í svona valdatafli er leikið á ystu nöf og allt mögulegt í stöðunni. Allir virðast líka hjálpast að við að hella olíu á eldinn. Endurtekning frá 1939 !

 

Ef núverandi átök í Evrópu leiða að lokum til þess að kjarnorkuflaugarnar verða sendar af stað er þessu öllu lokið, og það verður enginn málglaður sigurvegari til viðræðu á eftir – jafnvel ekki sjálfur Volodymyr Selensky !

 

 

 

 


Að loknum ,,ekki“ kosningum !

 

 

 

Það hefur trúlega ekki farið framhjá mörgum að aðeins einn listi var lagður fram á Skagaströnd fyrir sveitar-stjórnarkosningarnar 14. maí sl. og varð hann þar með sjálfkjörinn samkvæmt löglegum kjörreglum !

 

Þar er um að ræða H-listann, sem er reyndar víða kallaður Baðhúsalistinn. Umrætt framboð má líklega skilgreina einhversstaðar til hægri í litrófi pólitískra viðmiðana og með hliðsjón af listabókstafnum. Þó hefur það ef til vill pínulitla tengingu við miðlæga hugsun, eða það vilja sumir að minnsta kosti halda, hvað sem hæft er í því !

 

Árið 2002 gerðist það í fyrsta sinn á Skagaströnd að sjálfkjörið varð í sveitarstjórn með hliðstæðum hætti. Er pistilhöfundi það minnistætt hvað sá rammpólitíski maður Björgvin Brynjólfsson tók það sér nærri og átti hann þó vissan þátt í því að svo fór. En þá varð líka til eftirfarandi vísa :

 

Þeir sem brugðust trausti og trú,

tróðu á merki sátta.

Uppskerunnar njóti nú

frá ´98 !

 

Og svo endurtók sagan sig 2010 að kosningar féllu niður. Ekki þurfti fyrrnefndur Björgvin að lifa það, en mörgum sem það gerðu þótti ferlið miður gott og töldu að einhver undarlegur doði hlyti að vera að færast yfir kjósendur á Skagaströnd. Og svo gerist það núna í þriðja sinn, að lýðræðið fer á mis við hefðbundna frelsis-blessun kosninga í Sveitarfélaginu Skagaströnd !

 

Það liggur nú samt ljóst fyrir að Skagstrendingum þykir ekkert síður en öðrum vænt um sitt sveitarfélag og sinn heimabæ. Það viðhorf hefur skilað sér ágætlega í sumu en sjáanlega ekki eins vel í öðru. Þannig mætti gott fólk á besta aldri vera duglegra í lýðræðislegum framboðsmálum en að framan greinir, svo að kosningar falli hér ekki niður aftur og aftur !

 

Þegar aðstandendur framboðs stofna til Bæjarmálafélags og virðast hafa fullan hug á því að virkja lýðræðislegt afl kjósenda, og þá væntanlega til almenningsheilla en ekki sérþarfa, býst maður við öðru en að það verði endapunktur framboðs og starfs af hálfu viðkomandi aðila !

 

Það er þekkt með ljósaperur að þær skína skært rétt áður en slokknar á þeim. Kannski var mótframboðið við Baðhúsalistann bundið svipuðu ferli fyrir fjórum árum og kannski var Bæjarmálafélagið þannig bara einhverskonar lokaskin þess – áður en slokknaði á perunni ?

 

En hvernig sem það hefur annars verið, er það von pistilhöfundar, sem annarra lýðræðissinna á Skagaströnd, að upprisa eigi sér stað eftir fjögur ár og líf færist í leikinn á ný. Andlegur dauðyflisháttur getur ekki orðið fylgja Skagstrendinga til frambúðar. Það má telja að hljóti að vera víst !

 

Annars er þróun mála hér á Skagaströnd dálítið einkennileg og sumir vilja meira að segja meina að hér sé alls ekki nein þróun í gangi. Það er að minnsta kosti ljóst, að sumt virkar hér á undarlega snúinn hátt sé miðað við að menn séu að hugsa til framtíðar, en kannski eru menn ekki að gera það og kannski síst af öllu ráðamenn !

 

Eitt af því sem þykir nokkuð skrítið hér, er að eftir því sem íbúatalan lækkar virðist umfang stjórnkerfis sveitarfélagsins aukast. Sem sagt, íbúum fækkar en starfsliði fjölgar á skrifstofu sveitarfélagsins. Þar virðist koma fram þetta öfuga hlutfall sem svo oft ræður í kerfislegum efnum og hefur hreinlega ekkert með raunhæfar forsendur að gera !

 

En það virðist vera orðin sérstök örlaga-nauðsyn að pappírar rati í réttar skúffur og einhver verði þá að sjá um að koma þeim þangað. Hvort þeir hinir sömu pappírar hafi eitthvað gildi í sjálfu sér er svo annað mál og líklega algert aukaatriði. Rétttrúnaðarhyggja skrifræðisins fer sínu fram fyrir því og hún segir á sínu máli að pappír sé mikilvægari en fólk !

 

Niðurstöður mála, miðað við eðlilegt jarðsamband dómgreindar og fyrirhyggju, virðast þannig vera þær, að æ færri standi undir kostnaði við rekstur sveitar-félagsins sem þó virðist í stöðugri útgjaldaþenslu !

 

Það aukna þjónustustig sem sífellt er verið að prédika af utanaðkomandi yfirvöldum að eigi að koma til að vera, ekki síst í kringum boðað sameiningaferli sveitarfélaga, er líkast til aðeins framsett blekkingar-fyrirbæri í einhverjum súrrealískum sýndarveruleikastíl !

 

Þar virðist í raun ekki um neitt annað að ræða en sykraðan mútubita frá kerfisyfirvöldunum í ráðuneytunum syðra, sem á að virka vel og ganga í fólk þar til búið er að smeygja spennitreyju valdboðs og kúgunar á það !

 

Pistilhöfundur hyggur nefnilega að sú aukna þjónustu sem þar er talað um verði mikið til í skötulíki þegar þar að kemur og þær tekjur sem eigi að standa undir henni muni étast mikið til upp á skrifstofum sveitarfélaga um land allt. Kerfishítin mun sjá til þess að svo fari, jafnt á Skagaströnd sem annarsstaðar. Það yrði í engu ný saga til næsta bæjar !

 

Og ef við íbúar Skagastrandar skyldum nú þegar vera skilgreindir af fjármála og kerfisvaldinu í landinu sem utangarðsfólk gagnvart markaðslegri réttarstöðu og almennri viðurkenningu, eins og sumir vilja fullyrða, hver skyldi þá lýðræðisleg gildisstaða okkar vera í samfélaginu yfir höfuð ? Það væri vissulega mjög forvitnilegt að fá svör við því ?

 

Verður kannski í framhaldinu, í miðjum vandræðagangi óleystra mála, komið fram með þá töfralausn af hálfu ráðamanna hér, hina einu og sönnu allsherjarlausn, sem á þá að tryggja að sameiningarlegt himnaríki verði í nánd. Verður þá bara sagt :,,Við verðum að sameinast Blönduósi, það leysir allan tilvistarvanda okkar á Skagaströnd og færir okkur blessun máttarvaldanna fyrir sunnan ?“

 

Já, skyldi það nú verða svo ? Við skulum sjá hvað setur með það og þá hvað muni koma á daginn ? Það kynni nefnilega að koma mörgum illilega á óvart. Baktjöldin skýla mörgu meðan bruggið er að gerjast !

 

En nú liggur samt fyrir að staðan er sú að eitt framboð er allsráðandi í sveitarstjórn á Skagaströnd. Það sama framboð hefur reyndar fengið slíkt valdatækifæri tvisvar sinnum áður, en eftirtekjan hefur nú samt ekki orðið umtalsverð hvað almannahagsmuni hefur varðað !

 

Og nú fær þetta framboð enn einu sinni að fara með öll völd í sveitarfélaginu til næstu fjögurra ára, væntanlega til að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið hér á Skagaströnd – eða er ekki svo ?

 

En pistilhöfundur leyfir sér samt að spyrja : Skyldi sú valdastaða eiga að færa okkur íbúa Skagastrandar, senn hvað líður, undir efnahagslegt forræði Blönduóssbæjar ?

 

 

 

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 144
  • Sl. sólarhring: 190
  • Sl. viku: 713
  • Frá upphafi: 365611

Annað

  • Innlit í dag: 139
  • Innlit sl. viku: 624
  • Gestir í dag: 139
  • IP-tölur í dag: 137

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband