Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023

Um sálarlega stöðu hvers og eins !

 

 

 

Hver maður er sérstök sköpun. Sumir halda því fram að allir eigi sér tvífara, en það er útilokað í þeim skilningi að svo geti verið að öllu leyti. Menn geta verið furðu líkir, en engir tveir eru 100% eins. Maðurinn er nefnilega ótrúlega flókið líf-fræðilegt fyrirbæri, til anda, sálar og líkama. Og vegferð hans virðist afskaplega mikið bundin allskyns villuráfi fram og aftur í falsheimi blekkinga !

 

Því er það hverjum manni mikil nauðsyn að þekkja sjálfan sig sem best. Það vissu Grikkir til forna og lögðu á það mikla áherslu. Sjálfsögun og sívökul ábyrgðar-kennd einstaklingsins skiptir auðvitað miklu varðandi velferð hans í lífinu. Að vera nægjusamur og fylla ekki líf sitt af óteljandi gerviþörfum er líka nauðsynlegt !

 

En hvernig gerum við tíðarandann úr garði ? Við fyllum hann af öllum þeim kröfum sem ganga frekast gegn velferð okkar allar stundir. Við gerum tíðarandann að kúgunar-tæki gegn okkur sjálfum. Er eitthvað vit í því ? Auðvitað ekki, en af hverju hegðum við okkur þá svo heimskulega ? Líklega meðal annars vegna þess að við þekkjum okkur sjálf svo lítið. Okkar eigin vankantar komu okkur sífellt á óvart og við lærum seint að beita okkur sjálfsaga !

 

Íslenskt samfélag virðist á margan hátt hafa skekist til og hrasað út af betri leiðum á seinni árum. Kannski vegna þess að léttari lífsbarátta fyrir nauðþurftum í seinni tíð og aukin þægindi hafa framkallað í okkur heimtufrekju og til-ætlunarsemi sem var ekki til staðar í þeim tíma sem réði þar á undan. Sumir myndu hiklaust halda því fram að fólk hefði þá verið heilbrigðara í hugsun og opnara fyrir eðlilegum og fjölskylduvænni lífsháttum !

 

Nú eru allir í tímahraki. Unga fólkið kvíðir því að verða þrítugt, þá sé lífið búið. Þeir sem eru þrítugir fara að kvíða því að verða fimmtugir af sömu ástæðu og þeir sem orðnir eru sjötugir sjá ekkert fyrir augum nema kistu og gröf. En lífið á hverjum tíma er þroskaferli sem skilar sér ef menn taka því með réttum hætti !

 

Það þarf enginn að vera í tímahraki ef það er gert. Þá hefur hver tími og hver aldur sinn sjarma, og menn þurfa að meðtaka þá gjöf lífsins sem er í gangi sem ævintýri hinnar ríkjandi stundar !

 

Þá finna þeir að bikar þeirra er barmafullur og gæfa og náð fyrir höndum, ekki síst vegna þess að þeir hafa þá lært að þekkja sjálfa sig og vita að full hamingjustund þeirra er til staðar, ef þeir vilja njóta hennar með heilbrigðum hætti eins og þeim stendur til boða !

 

Hver sem ætlar að þeysast um lífsgötuna, heltekinn tímahraki, fer á mis við það sem þarf að lærast meðan staðið er við hérna megin tjaldsins. Að vera í skóla og læra ekki neitt skilar ekki neinu. Það gildir jafnt um alla skóla og ekki síst sjálfan lífsskólann. Og Skólastjórinn mikli sem þar ræður, verður ekki ánægður með þann lærisvein sem lærir ekki neitt. Við erum hér til að mannast og vaxa að andlegu manngildi til vegferðar í þeirri vídd sem við tekur !

 

Þessvegna þarf sálarleg staða hvers og eins okkar að taka framförum meðan hið andlega nám stendur yfir, sem á að gera okkur hæfari til þess sem framundan er, í því lífsferli sem er og verður ávallt í Guðs hendi !

 

 

 

 

 


Hátíð ljóssins er gjöf Guðs !

 

 

 

 

Einu sinni ákvað ég að yrkja jólaljóð nákvæmlega kl. 18 á aðfangadag. Það var árið 1973. Ég settist niður í herberginu mínu, að norðaustan á efri hæðinni heima í gömlu Grund, og beið spenntur komu jólanna, var tilbúinn með blýant og blað !

 

Svo glumdi hringingin við frá kirkju-klukkunum í útvarpinu og ég fékk þann innblástur sem til þurfti og orti á næstu mínútum lítið jólaljóð sem mér hefur þótt vænt um allar götur síðan. Svo vænt hefur mér þótt um það, að ég hef aldrei séð ástæðu til að endurtaka leikinn. Þetta litla jólastef birti ég svo í fyrstu bók minni sem út kom 1991. Það hljóðar svo :

 

Til dýrðar Guði nú er hátíð haldin

og heimsins þjóðum dýrmæt blessun færð.

Það vermir friður hjörtu ung og aldin

sem áður voru döpur eða særð.

Og bjarmi vonar lýsir lífsins vegi,

og ljúfur straumur fer um hverja sál.

Við fögnum öll með gleði Drottins degi

er dýpsta sæla hrekur fals og tál.

 

Mér fannst þetta segja það sem segja þurfti. Ef mannkynið sameinaðist bara um frið og hegðaði sér eins og það ætti að gera, þyrfti heimurinn ekki að vera sá ógnarstaður sem hann hefur verið gerður að – allt of víða, fyrir allt of marga. En rétt hegðun manna er nú bara það sem lengstum hefur vantað. Menn virðast vilja stríð en ekki frið. Og helst virðast menn vilja að aðrir búi við stríð, bara ekki þeir sjálfir. Þar er sérgæskan að verki eins og löngum fyrr og síðar og sérgæskufullir menn eru hættulegir öllu umhverfi sínu !

 

Mannkynið er sýnilega enn jafn óþroskað og það hefur lengstum verið. Því hefur sannarlega ekki farið fram nema síður sé. Og 21. öldin sem nú er senn liðin að einum fjórða hluta til, hefur sýnt að maðurinn hefur ekkert lært og kemur ekki til með að læra neitt við óbreyttar aðstæður. Allur hryllingur síðustu aldar hefur þar ekki haft neitt að segja. Það mun þannig ekkert breytast nema þá við beint inngrip Skaparans, enda hlýtur að fara að koma að skuldadögunum. Það getur ekki hjá því farið !

 

Víða er hart í heimi, það vantar marga mat og nauðsynjar, en umfram allt vantar fólk frið og öryggi. Það er þungbært að verða að horfa upp á þjáningar milljóna manna enn einu sinni á þessum tímamótum. Hvenær skyldu þær enda ? Það var víða fagnað um síðustu aldamót og talað um hina nýju friðaröld ? Varð hún sjálfdauð á sínu fyrsta ári ?

 

Senn er hún farin að fjórðungi til

og friðurinn hvergi til staðar.

Enginn sér nálgast þau skuldanna skil

sem skapað fá aðstæður glaðar !

 

Það er nöturlegt fyrir allt mannkynið þegar allt stendur í stað og andlegar framfarir verða allar í skötulíki eins og nú hefur verið á heimsvísu – lengi !

 

En þrátt fyrir allt er það svo, að enn er hægt að gleðjast við þá hátíð í íslenskum veruleika sem helguð er ljósi og kærleika. Það ber vissulega að þakka, þó við Íslendingar eigum auðvitað ekkert skilið í raun og veru umfram aðra. Vonandi færir árið sem framundan er, hrjáðu mannkyni einhverjar lausnir á þeim vandamálum sem dómgreindarleysi og vanhugsun ríkjandi valdamanna hefur hlaðið upp að undanförnu !

 

Megi sem flestir finna fró í því að horfa til hækkandi sólar og meðtaka inn í sál sína hinn friðelskandi fjölskylduanda jólanna – og verða betri og meiri manneskjur fyrir vikið. Látum börnin með sakleysi sínu kenna okkur að rata veginn sem liggur til himnaríkis. ,,Slíkra er himaríki“, segir Kristur í Orði sínu !

Gleðileg jól !

 

 

 


Að greina rætur vandamálanna ?

 

 

Hvar eru rætur vandamálanna og hverjar eru þær ? Það er oft mikil spurning ? Rætur vandans í jarðhræringunum á Reykjaness-skaga hafa ekki verið og eru ekki endilega bara undir Grindavík. Þær eru nánast undir öllum skaganum. Það getur hinsvegar oltið á miklu hvar vandinn brýst upp á yfirborðið. Hvar gosið verður ef það verður gos og hvað gosin koma til með að verða mörg í allt ? Enginn veit það, en Grindavík verður draugabær um hátíðarnar vegna gildandi bannlýsingar af hálfu Almannavarna gegn því að íbúar fái að snúa heim. Það verða ekki haldin jól í Grindavík !

 

Rætur vandans í Úkraínu eru og hafa verið í Brussel, rætur vandans á Gaza eru líklega að talsverðu leyti austur í Íran, deiluvandi Kína og Bandaríkjanna er á Taiwan og svo má lengi telja. Þegar stórveldapólitíkin skekkir alla greiningu á hverjum vanda, er ekki við því að búast að hann verði leystur. Og það verður að hafa það í huga, að það eru oftast einhverjir sem telja sig hafa hag af því að búa vandann til og viðhalda honum !

 

Við slík tilbúin vandamál þurfum við börn þessarar jarðar stöðugt að búa. Við eigum yfirleitt ekki leiðtoga sem leysa vanda-mál, við eigum miklu frekar leiðtoga sem búa til vandamál. Sjáiði bara Kötu Jakk og Bjarna bakk ! Árið 2003 sagði Katrín Jakobsdóttir í viðtali í Frétta-blaðinu, að Keanu Reeves væri miklu betra idol en stjórnmálamenn. Þeir væru svo óáreiðan-legir........ ! Og sjáið svo hvernig hún er að standa sig sem slíkur !!!

 

Bjarni virðist kominn í bakkgír og vera nánast á pólitískum hrakhólum. Hann hrekst milli ráðuneyta og sér varla handa sinna skil fyrir glimmer. Í hans huga virðast til dæmis fulltrúar íslenska ríkisins erlendis ekki endilega þurfa að hafa mikla reynslu og hæfni til að bera. Helst þurfa þeir líklega að hafa logafallegt look. Algjör skortur á nothæfum eftirmanni er líklega orsök þess að maðurinn situr árin út, einsýnn eins og Óðinn í Valhöll, á formannsstóli úrkynjaðrar og deyjandi ósjálfstæðisklíku. Hann er þar sýnilega í bili - alveg bakk !

 

Íslendingar búa því miður við algeran atgervisskort hvað forustulið snertir. Það er enginn að vinna sér traust á þeim vettvangi, hvorki karlar né konur. Þetta fólk nýtur þess sýnilega bara að lifa á kerfinu og egóast þar í sjálfsánægju og sérgæsku allar stundir. Og á meðan fúna innviðirnir niður, hver máttarstoðin af annarri. Haltir virðast leiða blinda í öllu ríkiskerfinu !

 

Og hvar eru ræturnar í því kerfi ? Þær liggja í gömlum spillingar-hefðum sem aldrei hefur mátt hagga við. Og spilling sem fær að vera óáreitt vex og verður að ógeðslegu æxli á þjóðarlíkamanum.Við síverkandi stjórnleysisástand liggur leiðin frá hruni til hruns. Þar sem ekkert er lagfært hlýtur allt að hrynja að lokum !

 

Rannsóknarskýrsla alþingis greindi svo sem spillinguna, en það mátti ekki taka á henni. Hún var látin óáreitt, æxlin voru víst allt of mörg.Yfirhyskið hristi sína tómu kolla og var líklega allt sammála um það að þarna mætti bara alls ekki taka neitt til !

 

Og af hverju ekki ? Nú, þá færi öll valda undirstaða þess til fjandans. Skítur spillingar og allra handa uppsafnaðra brotalama yrði að fá að viðhaldast. Því fór þannig, að þó að kerfið þarfnaðist sárlega uppskurðar eftir síðasta hrun, var því bara gefin kæruleysispilla. Og þannig hefur það verið alla tíð síðan og ekkert batnar nema síður sé !

 

Það var ekkert læknað eða lagað. Við hjökkum því í sama spillingarfarinu í ríkislegu tilliti ár eftir ár og forustu-klíkan gerir hver mistökin eftir önnur sem bitna á okkar heildarhag. Fjármagn alþjóðar flæðir út úr landinu í skatta-skjól, til stríðsátaka á vegum Nató, í ráðstefnu-fríðindi út um allan heim, í allskonar vitleysu. Um leið er fjármagni ausið í innflytjendur og allar tegundir flótta-manna í galopnu landi. Stór hluti af því liði sem kemur inn í landið myndi hvergi vera talinn aðlögunarhæfur annars staðar en hér !

 

Afgangsaurarnir eru kannski látnir ganga til barna Íslands, en þeir verða minni með hverju árinu. Lífeyrissjóðafjárfestingar skila sér algerlega með öfugum hætti, á meðan heil hjörð af afætum mjólkar þessa sjóði þjóðarinnar, svo að þeir rýrna stöðugt í höndum umsjónaraðilanna !

 

Fátækt fer vaxandi ásamt glæpatíðni sem virðist aukast sem innflutt afurð. Hér þykir útlendum vafagemlingum sýnilega gott að vera, enda hópast þeir hingað í fjársjóðaleit og setjast að í undirheimum höfuðborgarinnar til að mala þar gull, sennilega við alfrjálsustu aðstæður á heimsvísu !

 

Sitjandi ríkisstjórn er ein sú lélegasta sem í landinu hefur verið frá upphafi og gjörsamlega óhæf sem slík. Það liggur orðið ljóst fyrir, að sumir ættu bara að skrifa glæpasögur !


Fullveldið fellt og svikið – inngangan í Nató !

 

Mesta ógæfa Íslands á tuttugustu öldinni var að svíkja hlutleysisstefnuna frá 1918 og ganga í Nató. Frá þeim tíma höfum við átt mjög erfitt með að vera Íslendingar með hreinræktuðum hætti. Ákvörðunin um þessi svik var framkvæmd með löglausum hætti og sjálfstæði Íslands fótum troðið !

 

Séð var til þess með pólitískum bola-brögðum að málið færi ekki í þjóðar-atkvæðagreiðslu, en þá hefði það vísast verið fellt. Síðan hafa í sama óræktaranda öll stærstu sjálfstæðismál okkar verið leidd framhjá þjóðinni. Það er arfurinn frá hinni löglausu inngöngu í hernaðar-bandalagið Nató !

 

Síðan 1949 hefur Ísland ekki verið sjálf-stætt ríki nema að nafninu til. Við höfum í raun verið ómerkilegt viðhengi við Bandaríkin og Nató. Virðing okkar í þjóða-samfélaginu er miklu minni en hún hefði getað verið, ef við hefðum ákveðið að ganga uppréttir og halda fast við full-veldisyfirlýsingu okkar frá 1918. ,,Allt verður Íslands óhamingju að vopni“ var einu sinni sagt, og aldrei höfum við lagst eins lágt eins og við gerðum 1949 og aldrei hafa verið gerð meiri mistök í allri þjóðarsögu okkar frá upphafi !

 

Það er sárgrætilegt að lesa ræður eftir menn sem voru í forustu hægriflokkanna á þeim tíma, ræður sem þeir fluttu rétt áður en þeir urðu múlbundnir og gerðir að þjónustumönnum Nató. Þar töluðu þeir sem sjálfstæðir Íslendingar, en svo hættu þeir allt í einu að vera það !

 

Það finnst svo greinilega á því sem þeir sögðu eftir það, að þeir voru ekki lengur frjálsir menn. Þeir voru komnir undir erlent vald og máttu ekki lengur tala sem frjálsir Íslendingar. Þaggað var niður í Einari Þveræing og Grímsey var gefin !

 

Svokallaðir sjálfstæðismenn, fluttu ræður 1. desember í stríðslokin og fóru mikinn. Þeir voru miklir landvarnarmenn í tali sínu þá. En skömmu síðar skitu þeir í allt sem þeir höfðu sagt sem uppréttir Íslendingar og hafa gengið bognir og mannskemmda-skakkir allar götur síðan, ásamt þeim sem með þeim sviku réttindi lands og þjóðar. Það var sannarlega brotlending allrar þjóðlegrar reisnar !

 

Þessir fullveldisfötluðu menn töpuðu öllum manndómi sínum í hendur utan-landsöflum 1949 og urðu aldrei samir eftir það. Þeir reyndu að byrgja inn í sér skömmina, en vissu það flestallir eftir reynsludóminn, að þeir höfðu brugðist helgustu skyldum sínum !

 

Þessvegna komu þeir alltaf fyrir sjónir eftir það sem flóttalegir og sakbitnir menn og þannig fóru þeir af sviðinu. Íslendingur án frelsis og sjálfstæðis, getur aldrei orðið annað en skugginn af því sem hann ætti að vera - sem maður !

 

Hvort við Íslendingar náum aftur eðlilegu og virðingarverðu sjálfstæði sem þjóð er mikið vafamál. Mestur hluti þjóðarinnar hefur verið alinn upp við blekkingar hvað það snertir í áratugi og hefur aldrei skilið hvað við misstum 1949 !

 

Þjóðhollusta og sjálfstæðisvitund hefur því lotið afbrigðilegum vaxtarskilyrðum um langt skeið í landinu og það hefur brenglað heilbrigð viðhorf til þjóðlegra gilda. Það sem vaxið hefur upp er að miklu leyti kræklótt og bogið. Sú útkoma hefur valdið ómælanlegum þjóðlegum skaða !

 

Enginn veit hinsvegar hvað verður og kannski verður hægt að græða sárin og leiðrétta glapræðið frá 1949. Hver veit nema eitthvað það gerist sem gefur þjóðinni vit sitt aftur og það frelsi til hugar og sálar sem sérhver þjóð verður að eiga til að hún geti notið virðingar meðal þjóða heimsins. Vonandi getur það gerst, en ekki er samt hægt að vera bjartsýnn á þær horfur !

 

 


Sagan endurtekur sig !

 

 

 

Sú var tíðin að Adolf Hitler fékk ótakmarkaðan fjárstuðning til að byggja nazistaflokkinn upp og ná völdum í Þýskalandi. Og hvaðan fékk hann þann fjárstuðning ? Fyrst og fremst frá Bretlandi og Frakklandi og síðan Bandaríkjunum. Og vegna hvers ? Vegna þess að auðvaldsöfl þessara landa óttuðust Sovétríkin og hötuðu kommúnismann. Hitler var byggður upp og fjármagnaður af þessum aðilum til höfuðs Sovétríkjunum !

 

Á sama hátt hafa Vesturveldin á undan-förnum árum unnið markvisst að því að nota Úkraínu sem stökkpall gegn Rússlandi. Hlynnt var í nokkur ár að úkraínskum fasistaöflum, arfleifð Stefans Bandera og hans líka, og síðan var framið valdarán í Kiev 2014. Rússar svöruðu valdaráninu með því að hernema Krímskagann sem réttilega tilheyrði Rússlandi. Það vakti mikla reiði í Kiev og Brussel, en ekki þótti gerlegt að sinni að fara í bein átök við Rússa. Þeim var þó hugsuð þegjandi þörfin, eins og löngum áður !

 

Gífurleg fjárfesting í Úkraínu, af hálfu ESB og Vesturveldanna, hefur gert sitt til að stela landinu frá íbúum þess, sem hafa orðið fátækari með hverju árinu og njóta í engu gæða landsins. Þar kom fram hin nýja nýlendustefna Vestur-Evrópu, engu betri en sú gamla !

 

Síðan var úkraínski herinn efldur sem mest, með það að takmarki að honum yrði beitt gegn Rússlandi í fyllingu tímans, eins og þýska hernum forðum, og allur áróður allra fjölmiðla Vesturlanda miðaður við þá framvindu mála !

 

Það hefur líka komið í ljós, að ýmsir samningar voru gerðir við Rússa á þessum árum, en með það eitt fyrir augum að vinna tíma fyrir meiri eflingu úkraínska hersins. Það var aldrei meiningin að standa við þá samninga. Þeir voru bara blekkingaleikur !

 

En erfitt var að halda aftur af fasistunum í Kiev engu síður en Hitler á sínum tíma. Þeir létu litlu betur að stjórn og vantaði stöðugt svo mikla peninga. Það gengur sjaldnast allt eins og ætlast er til !

 

Líklega hefur meiningin verið sú að vinna mun lengur að undirbúningi hinna ætluðu stríðsátaka, en úkraínsk stjórnvöld fóru hinsvegar í óþolinmæði sinni fljótlega að herja á hina rússnesku íbúa í austurhluta landsins og þrengja að þeim með ýmsu móti. Það leiddi til þess að þeir risu upp sér til varnar, eins og flest fólk gerir !

 

Þannig hófst stríð í austurhéruðum landsins. Íbúar þessara svæða sem voru að yfirgnæfandi meirihluta Rússar, leituðu skiljanlega í framhaldinu stíft eftir hjálp frá Rússlandi. Rússnesk stjórnvöld drógu hinsvegar lappirnar um hríð og reyndu að semja um málin.Þannig liðu nokkur ár. Á þeim tíma héldu þau víst enn að komist yrði hjá átökum, en að lokum sýndi veruleikinn allt aðra stöðu !

 

Það stóð nefnilega aldrei til með að semja um eitt eða neitt. Þegar Rússum að lokum skildist það eftir um 8 ára þóf, ákváðu þeir loks að koma þjóðbræðrum sínum handan landamæranna til hjálpar. En svokölluð innrás þeirra í Úkraínu var beinlínis neydd upp á þá af stjórnvöldum í Kiev samkvæmt fyrirlögðu plani Vestur-veldanna og Nató. Sagan frá heimsstyrjöldinni síðari fór að endurtaka sig með grimmum og miskunnarlausum hætti !

 

Hin uppstillta áróðurshugmynd var alltaf sú, að hin ,,alsaklausa Úkraínustjórn“ ætti að þurfa að verjast rússneskri árás, sem öllum átti sýnilega að vera gerð vegna yfirgangs og ofbeldis ráðamanna í Moskvu. Það átti alveg frá byrjun að liggja fyrir hverjir væru vondu gæjarnir. Það þarf hvorki að kenna CIA eða Nató svikaferli af slíku tagi né samsærisbrögð !

 

Slíkt hefur verið endurtekið nokkuð oft á undanförnum árum um austanverða Evrópu. Þetta virtist samt sem áður allt mjög haglega hannað og undirbúið í brusselískum lýðræðisanda Vesturlanda og allt átti síðan að svínvirka !

 

En það fór bara ekki þannig. Hinar upphugsuðu ráðagerðir fóru að klikka. Úkraínski herinn var alls ekki orðinn nógu sterkur fyrir ætlað verkefni og allt stjórnkerfi Úkraínu var auk þess gjörspillt og miklir peningar að vestan fóru í annað en þeir áttu að fara. Einkavasar ráðamanna í Úkraínu komu þar mjög við sögu og margir auðguðust þar mikið á tiltölulega skömmum tíma !

 

Rússar höfðu svo verið verulega vanmetnir og hernaðargeta þeirra talin stórlega niður. Þeim gekk heldur ekki sem best framan af og virtust ekki vera með neina fasta áætlun fyrst í stað. Það var eins og þeir færu af stað með hangandi hendi !

 

En svo fór björninn í Bjarmalandi að braggast og nú er ljóst að Rússabangsi er búinn að ná vopnum sínum og rúmlega það. Rússar eru ekki í neinum uppgjafarhug. Þeir eru tilbúnir að verja sitt og sína hvað sem það kostar. Það lá líklega alltaf fyrir að svo yrði !

 

Stríðsátök á okkar tímum eru aldrei það sem þau eru sögð vera. Stríð eru jafnvel útfærð þannig að sekasti aðilinn lítur jafnvel út fyrir að vera sá saklausasti. Varnaraðilinn er oft í raun árásaraðilinn. Allt er miðað við að blekkja almennings-álitið með tilstyrk fjölmiðlamafíu og stöðugra áróðursbragða. Gamalt spak-mæli stendur enn fyrir sínu, þar sem segir : ,,Aldrei er logið meira en eftir veiðitúr, í styrjöld og á undan kosningum !“

 

Það liggur því fyrir til dæmis að næsta ár verður óvenju mikið lygaár í Banda-ríkjunum. Lýðskrum mun fara þar í hæstu hæðir þegar líður á árið, meðan valda-gráðug gamalmenni takast þar líklega á um höfuðsætið. Þar verður engin miskunn í boði. Í þeim slag á sennilega margur eftir að hrasa í meira lagi og kunna ekki fótum sínum forráð. Gamalmennin munu gnísta tönnum. Slíkar persónur vilja lengi reyna að halda völdum og kosta þar öllu til !

 

En hvernig málum lýkur í Úkraínu veit enginn nú sem komið er, en það er hinsvegar ljóst að landvinningaáætlanir Bandaríkjanna, Brusselvalds ESB og Nató, munu ekki ganga eftir eins og að var stefnt. Hin mikla norðurþjóð verður ekki sigruð. Rússar munu að öllum líkindum halda sínum hlut og tryggja sitt öryggi eins og þeir telja sig þurfa að gera við þær aðstæður sem nú ríkja !

 

Svo er alltaf sá möguleikinn til og hann fer vaxandi frekar en hitt, að kjarn-orkuflaugarnar fari af stað. Þá getum við líklega kvatt að fullu borgir eins og London, París, Berlín, Brussel, Moskvu, Pétursborg, Washington og New York, auk margra annarra. Heimurinn verður þá fallinn í fullkomið tjón og mannkynið verður ekki svipur hjá sjón. Geislavirknin sér um að drepa flesta þá sem kunna að tóra fyrst á eftir. En er það ekki einmitt sú lokalausn fasistahugsunarinnar, Die Endlösung, sem ruglaðir ráðamenn í Brussel stefna að, eins og sakir standa ?


,,Karlavígin falla !“

 

 

 

Um alllangt skeið hefur hljómað í fjölmiðlum landsins sú sigrihrósandi yfirlýsing sem er fyrirsögn þessa pistils. Og um leið er líklega verið að segja að samfélagið allt græði á því að hin og þessi karlavígi séu fallin. Og víst væri það gott ef svo væri, en spurningin er hinsvegar sú – er það í raun og veru svo ? Tökum dæmi af einum vígstöðvum hins daglega lífs :

 

Fyrir hálfri öld voru kennarar í barnaskólum landsins líklega að miklum meirihluta karlmenn. Í kennaraskólanum voru nemar undir leiðsögn afburðamanna eins og Magnúsar Helgasonar og Freysteins Gunnarssonar. Þeir skiluðu af höndum sér heilum hópum hugsjónafólks, bæði körlum og konum, sem gengu síðan til starfa af þjóðhollustu og skyldurækni. Þá vantaði ekki að börnin lærðu að lesa !

 

Nú er margt breytt. Meðal annars það, að nú eru konur líklega í yfirgnæfandi meiri-hluta kennarar í grunnskólum landsins. Þar var sem sagt eitt karlavígið fallið og margir fögnuðu því trúlega sem áfangasigri í yfirlýstri jafnréttisbaráttu, ekki síst konur. En þó að umræddir skólar séu nú í höndum kvenna hvað kennsluna varðar, hefur lestrarkunnátta barna verið á hraðri niðurleið á undanförnum árum. Það er jafnvel til í dæminu að nemendur klári grunnskólastigið án þess að vera orðnir læsir. Slíkt er auðvitað ekki boðlegt, en hvað veldur ?

 

Það hlýtur eitthvað að vera bogið við kerfið og uppfræðsluna, því varla eru börn Íslands orðin þetta miklu heimskari í seinni tíð, en þau voru þegar karlar voru mikið til einir um að kenna þeim að lesa. Af hverju er stétt sem var karlastétt en er núna orðin kvennastétt, að skila af höndum sér börnum sem kunna ekki að lesa ?

 

Af hverju er þessi mikla afturför orðin á ekki lengri tíma en raun ber vitni ? Er tíðarandinn á móti lestrarkunnáttu ? Ekki virðist hinn stóraukni glæpasagnalestur landans undirstrika það. Hvað er þá að ? Hlutirnir eru greinilega ekki að skila sér !

 

Það getur ekki talist gott að karlavígi samfélagsins falli, ef útkoman verður með þessum hætti. Konur jafnt sem karlar verða að standa sig við það sem þau gera. Það eitt styrkir samfélagið. Margt er rætt um þennan afskaplega nöturlega samfélags-vanda, en sannarlega ekki á þeim nótum sem gert er hér !

 

Grunnskólakennarar hljóta að vera í lykilstöðu varðandi það að kenna börnum landsins að lesa. Þeir hljóta að bera ábyrgðina á því að börnin nái þessu mikil-væga menntunarstigi – að læra að lesa. Þeir gerðu það með sóma áður fyrr, en eitthvað virðist vanta verulega inn í dæmið núna. Vígið hefur verið endurskipað, þar er ný áhöfn til staðar, að miklu leyti konur í stað karla, en af hverju ganga mál ekki eins og þau gerðu áður ?

 

Það kann að felast í einhverjum breytingum sem hafa verið gerðar eða hafa átt sér stað. Og hverjar eru þær ? Af hverju er útkoman svona slæm ? Hvað er vanrækt í þessu sambandi ? Það virðist blasa við, að kennarar í grunnskólum landsins valdi ekki lengur því hlutverki að gera börnin læs. Grundvallarforsenda menntunar virðist þannig vera að gufa upp í höndum þeirra sem eru beinlínis menntaðir til að hún skili sér þjóðinni til farsældar !

 

Og ráðamenn kunna sýnilega engin ráð til að leysa vandann, frekar en vant er, og enginn nefnir það sem kann að vera meginorsök vandans. Að kennarar ráði ekki lengur við verkefnið af einhverjum ástæðum. Þeir eru kannski að sinna einhverju öðru sem þeim finnst standa sér nær og allur slagkrafturinn fer í það, svo sem eigin mannréttindum og launabaráttu !

 

En á hvaða kaupi eiga kennarar að vera sem geta ekki kennt nemendum sínum að lesa ? Það er full ástæða til að spyrja þess ? Það er nefnilega ýmislegt í hættu sam-félagslega séð ef þessi ófarnaðarvandi heldur áfram að versna með hverju árinu. Íslenska bókaþjóðin gæti þessvegna smám saman verið að hverfa - vegna þess að uppvaxandi landslýður sé ekki lengur læs !

 

Í mínum huga skiptir það engu hvort svonefnd vígi samfélagsins séu skipuð körlum eða konum. En ég ætlast til þess, sem ábyrgur borgari í þessu landi, að þessi vígi skili sér með skyldur þær sem þau eiga að inna af hendi fyrir sam-félagið. Það er frumskilyrði þess að mál gangi eins og þau eiga að gera !

 

Konur verða jafnt sem karlar að axla þá ábyrgð sem því fylgir að verja vígið. Vígið þarf að skila sinni vörn og sinni grunnþjónustu út í samfélagið. Annars er það ekki að standa sig. Og í þessum vanda sem við blasir, virðist ljóst að einhverjir eru ekki að standa sig. Það þarf því að rannsaka þetta vandamál með einbeittum vilja til að leysa það. Það dugir ekki að vera alltaf að hugsa um það að hlífa öllu og öllum í leiðinni. Sú nálgunaraðferð leysir ekki neitt !

 

Kerfið og þeir sem þjóna þjóðarskyldum, í gegnum menntakerfið, heilbrigðiskerfið og önnur kerfi samfélagsins, verða að vera færir um að skila því sem skila ber – og axla þá ábyrgð sem í því felst. Aðeins með þeim hætti fær þjóðfélagið haldið velli til frambúðar !


Aumingja Noregur !

 

 

Það er meira en dapurlegt að velta fyrir sér stöðu Noregs sem ríkis nú á tímum, ekki síst með hliðsjón af þeirri virðingu sem borin var fyrir Norðmönnum á heimsvísu, fyrir ekki svo ýkja löngu. En jafnvel allt frá stríðslokum 1945 virðist álit Norðmanna jafnt og þétt hafa verið að minnka að gildi, og nú eru Norðmenn ekki taldir neinir sérstakir hugsjónamenn góðra gilda, eins og þeir voru eitt sinn álitnir vera, og líklega má færa nokkuð frambærileg rök fyrir þeirri breytingu þó sumir haldi kannski að ekkert hafi breyst !

 

Norðurlandaþjóðirnar bjuggu við lof og heiður fyrir 50 árum eða svo. Svíar hafa nú nánast eyðilagt sitt eigið land og allan frið innan þess, með arfavitlausri fjölmenningarstefnu kratismans til fjölda ára. Þeir sjá nú ekkert til ráða lengur annað en það að sameinast Nató. Það eitt sannar algjört gjaldþrot stefnu þeirra !

 

Hlutleysi Svía gagnvart stórveldaslagnum, sem gaf þeim 208 ára frið, er nú glatað mál vegna heimsku þeirra og hroka og staðfestir þeirra stærstu skömm. Við skulum þessvegna ekki hafa mörg orð um Svíþjóð. Sænska ríkið er nú aðeins skugginn af því sem það þótti vera og það á enga frambærilega stjórnmálamenn lengur og kemur heldur ekki til með að eignast þá sem undirlægja Nató !

 

Danmörk er að mörgu leyti merkilegt samfélag og líklega hefur því verið stjórnað best af þessum ríkjum, enda er þjóðin skynsöm og lætur ekki svo auðveldlega blekkjast. En samt hefur hún bæði ánetjast Nató og ESB og er þar af leiðandi enganveginn eins frjáls og hún var áður en þeir fjötrar komu til. Danir hefðu þurft að búa við færeyska stjórnun og hefðu þá komist enn betur frá málum !

 

En Noregur hefur þó sokkið miklu dýpra í Natópyttinn en Danir, þó enn hafi ekki verið bitið að fullu á öngul ESB. En eins og á Íslandi er norska stjórnkerfið eiginlega gengið í ESB þó þjóðlega staðfestingu þess vanti. Þannig eru norskir leiðtogar síst betri en druslurnar sem teljast stjórna á Íslandi og því er stöðugt verið að auka reglugerðaráþjánina frá Brussel í báðum þessum löndum. ESB fylgir forriti skrattans og tekur litla fingurinn fyrst og síðan afganginn í innleiðandi orkupakkaskömmtum !

 

Það er nánast með eindæmum hvað norska kerfisheildin er mikil Natósleikja og það tel ég meginástæðuna fyrir álitsfalli hennar í alþjóðlegum skilningi. Í Noregi hefur ekki komið fram bitastæður leiðtogi til fleiri ára. Líklega þarf að fara alla leið aftur til Einars Gerhardsens til að finna verulega virðingarverðan norskan leiðtoga. Þó hafði hann samt sínar takmarkanir sem slíkur !

 

Norðmenn hafa allt frá stofnun Nató verið að rýrna að virðingu í samfélagi þjóðanna. Þeir sjá ekkert annað í málum en að fylgja Bandaríkjunum í blindni. Enda eru þeir lofsungnir um öll Bandaríkin sem hin traustasta vinaþjóð og tryggustu fylgismenn Nató. Jafnvel Íslendingar falla þar í skuggann !

 

Norðmenn tryggðu Barack Obama friðarverðlaun Nóbels fyrir ódrýgðar dáðir, sem ekki hafa verið unnar enn og verða það seint. Það var í fyrsta sinn sem fangabúðastjóri fékk þessi vestrænu snobbverðlaun. Norðmenn eru líka hafðir fyrir sökum fyrir að hafa aðstoðað Kana við að sprengja Norður-straumsleiðslurnar í Eystrasalti samkvæmt upplýsingum bandaríska fréttamannsins Sy Hersh. Varla hefðu margir tekið að sér slíkt hlutverk af fullri þægð við ofurvaldið, en Norðmenn virðast hafa gert það. Vesturlönd hafa síðan hindrað alla rannsókn á þessu mengunar-hryðjuverki !

 

Það er þannig ekki af engu sem það þykir henta að hafa norskan dindil í forsvari fyrir Nató. Líklega væri það fátt sem Norðmenn myndu veigra sér við að gera ef bandarísku vinirnir bæðu um það. Norska ríkiskerfið er svo mikil undirlægja Nató og Bandaríkjanna að sumir myndu hiklaust efast um að það gæti talist á eigin vegum og sjálfstætt sem slíkt. Noregur virðist eiginlega orðinn eins og fimmtugasta og fyrsta ríkið í botnlausu hræsnissambandi hinnar bandarísku helgislepju !

 

Í síðari heimsstyrjöldinni reyndi mjög á manndóm norsku þjóðarinnar og þá komu fram margar hetjur sem börðust fyrir ættjörð sinni af fyllstu dáð við erfiðustu skilyrði. Menn eins og Gunnar Sonsteby, Claus Helberg, Morsetfeðgar í Selbu, Gunvald Tomstad á Hellu, Jan Baalsrud og ótalmargir fleiri sem geymast í þakklátu þjóðarminni meðan norskur manndómur er og verður til !

 

En svikararnir voru líka margir, afskaplega margir. Norskir föðurlandssvikarar voru til svo gjörsneyddir dyggðum og heiðarleika, að maður trúir því varla. Og maður spyr sig eiginlega furðu lostinn, hvaðan kom þessi illska sem í þeim bjó inn í norskt þjóðlíf ? Það er ekki af engu sem alþjóðlegt nafn yfir slíka menn, ef menn skyldi kalla, er tekið frá Noregi, af höfuðsvikaranum þar Quisling. Að vera kvislingur er í raun að vera ærulaus maður og þjóðarskömm sem slíkur !

 

Sú var tíðin að Vidkun Quisling majór var hermálafulltrúi við norsku sendisveitina í Leningrad. Hann mun hafa kvænst hvítliðakonu og störf hans í Sovétríkjunum voru af mörgum talin skuggaleg og gagnbyltingarlegs eðlis. Árið 1927 er breska stjórnin sleit stjórnmála-sambandi við Sovétríkin var majór Quisling, þá ritari við norsku sendisveitina í Moskvu, settur til að gæta hagsmuna Breta í landinu. Það sýnir berlega að það vantaði ekki að manninum væri treyst af breskum ráðamönnum þess tíma !

 

Fyrir þá hagsmunagæslu var Quisling síðar veittur breskur heiðurstitill og hann gerður að Honorary Commander of the British Empire. Eitthvað skyldi það nú heita. Síðar átti Quisling eftir að verða hermálaráðherra Noregs en endaði svo feril sinn sem nazisti og föðurlandssvikari af verstu gerð. Ekki var nú innrætið betra þegar það kom í ljós !

 

En hvað lærðu Norðmenn svo af seinni heimsstyrjöldinni ? Að best væri að skríða sem fyrst inn í hernaðarbandalag, að farsælla væri að þjóna hernaðarmarkmiðum en  friðar-markmiðum ? Og svo var Trygve Lie gerður að fyrsta aðalritara S.Þ. líklega vegna hins góða orðspors Norðmanna á alþjóðavísu á þeim tíma. Það átti líklega að tryggja eitthvað !

 

En Trygve Lie þjónaði þar bara á einn veg og vann sér því aldrei traust sem sá fulltrúi sem hann hefði þurft að vera, heimsins vegna. Því fór sem fór og S.Þ. varð smám saman lítið annað en málpípa bandarískra sjónarmiða og nú eru samtökin nánast einskis virði og búin að vera sem slík !

 

Stærstu þjóð veraldar var til dæmis haldið utan við samtökin í um aldarfjórðung og örlítið brot af henni fékk að leika þar hennar hlutverk allan þann tíma. Allt samkvæmt fyrirmælum bandarískra stjórnvalda og Noregur litli brást þar ekki stóru vinaþjóðinni. Heldur einhver skyni borinn maður að pólitísk bolabrögð af slíku tagi hafi verið í þágu heimsfriðarins ? Nei, S.Þ. klikkaði strax á fyrstu árum sínum, undir fyrsta aðalritara sínum !

 

Norðmenn sem ég ber ósvikna virðingu fyrir, auk virkra föðurlandsvina í seinni heimsstyrjöldinni, eru yfirleitt allir fyrri tíðar menn. Menn eins og Hans Nielsen Hauge, Fritjov Nansen, Roald Amundsen, Otto Sverdrup, Kristofer Brun, Hendrik Ibsen og nokkrir fleiri. Jafnar slíkra karaktera virðast ekki prýða Noreg nú á tímum. Þjóðlegur undirlægjuháttur stuðlar ekki að því að slíkir menn komi fram !

 

Læt ég svo úttalað um Noreg þó mér finnist dapurlegt hvað norska þjóðin hefur smækkað sig á seinni árum og kokgleypt auðvalds-hyggjuna og gleymt sínum fyrri félagshyggju hugsjónum, sem hennar bestu menn studdu og leiddu fram til sigurs, til fullra hagsbóta fyrir almannahag. En sú úrkynjunarbölvun er líklega sameiginleg nú til dags með Íslandi og Noregi !

 

Græðgin ein virðist nefnilega öllu ráða núorðið í báðum þessum löndum. Það virðist ekkert vaxa þar lengur nema peningavaldið eitt í öllum lífsgróðri í þjóðlífi þeirra beggja, - og að því er virðist - við næstum fullkomið manndómsleysi !

 


Peningagræðgi hefur enga samfélagskennd !

 

 

 

Mörg undanfarin ár hefur það færst í vöxt að íslenskir ráðamenn gangi mjög langt í því að vilja skora hátt í útlöndum. Því er gleymt að við erum smáþjóð úti í hafi, sem eigum allt undir því að það sé friður í heiminum og að við getum átt góð samskipti við aðrar þjóðir. Í þessum efnum má segja að það finnist mörg dæmi um klára minnimáttarkennd sem brýst út eins og stórmennskubrjálæði og veldur þjóðinni vansa á margan hátt !

 

Ólafur Ragnar sagði á sínum forseta-embættisárum sem alræmt er : ,, You Ain´t seen nothing yet !“ Hann hélt víst að hann væri þá toppmaður heimsins sem forseti Íslands og að fjármála-snillingarnir hans væru að leggja undir sig veröldina. Þá vantaði ekki belginginn í alkunnan egóista. Kata Kobba sperrir sig á Natóráðstefnum eins og Ísland haldi úti milljón manna her, gráum fyrir járnum, og sálufélagi hennar Dísa D er þar engu skárri !

 

Margir utanríkis-málaráðherrar landsins hafa lengi leikið sig stóra í Brussel og víðar og haldið sig þar í miklu stærra hlutverki en raun ber vitni. Það má því hiklaust segja að þessi íslenska egó-ómennska sé sívaxandi ógeð í augum allra þeirra sem reyna að halda í glóru sína í glóruleysi tíðarandans !

 

Við þetta bætist, að svo virðist sem Auðmannasamfélag Íslands, sem er að mati margra öfugt og andfélagslegt ASÍ, hafi gert skattaskjól aflandseyja nánast íslensk með undanskotaþátttöku sinni !

 

Sama lið virðist einnig vera að leggja undir sig Teneriffe og heilu íbúðahverfin í spænskum borgum, með fasteigna-kaupum. Það virðast nógir peningar hjá mörgum á Íslandi, en svo er sannarlega ekki hjá öllum, því innviðir samfélagsins, einkum þeir sem snúa að almennri velferð, eru víða komnir að þolmörkum !

 

Einkabisnissinn heldur áfram að brjóta niður heilbrigðiskerfið, þvert á vilja landsmanna með pólitískum stuðningi markaðsmóra, frjálshyggjugaura og hags-munataglhnýtinga þeirra sem finnast víða !

 

Sú niðurrifsstarfsemi sem það oligarka-hyski stundar, er farin að skaða vel-ferðarkerfið sem eitt sinn var, meira en lítið. Enda er hugsun þessa sérgæskuliðs sú ein - að velferð eigi alls ekki að vera fyrir alla – heldur bara hina útvöldu !

 

Auðvaldið á Íslandi er ekki að neinu leyti þjóðlegt í eðli sínu. Það er alþjóðleg óþurftarveira sem berst um allt á græðgisrásum verri hluta mannkynsins og eyðir öllum heiðarleik sem það mætir !

 

Hér hefur það alltaf verið til, en hefur komið fram á síðari árum í endurnýjuðum ofsa og margfaldri ágirnd frá öðrum löndum, sem hafa pumpað það upp gegnum það takmark að útrýma sem mest almannaheill. Það er ill framvinda, enda er auðvald að öllu leyti illt fyrirbæri og byggt á ómanneskjulegum forsendum !

 

Verst er þegar lýðræðislega kjörnir fulltrúar fólksins falla hver um annan þveran fyrir auðvaldinu í egóisma eigin græðgi, og fara að hegða sér með þeim hætti að þeir eyðileggja allt sem þeir hafa verið kosnir til að verja, hvort sem það heitir heilbrigðiskerfi eða annað !

 

Það sýna margir slíka breytni í dag, menn sem virðast halda að litla samfélagið okkar muni þola hvað sem er og því sé öllu óhætt. En svo er ekki. Auð-valdsgræðgin mun tortíma allri íslenskri velferð, ef menn með raunverulega samfélagskennd búast ekki til varnar í tíma !


Tímasprengjan í Truman City ?

 

 

Lengi hafa stórstyrjaldir Evrópu orðið með þeim hætti að reynt hefur verið að þrengja að Rússlandi með ágengni úr vestri. Napóleon reyndi það, Vilhjálmur II reyndi það og Hitler reyndi það. Og Nató hefur verið að basla við að reyna þetta að undanförnu í gegnum aðra, en Rússar verja sitt heimaland og verða því illvígari sem meira er að þeim sótt. Og vopnabúr þeirra er sannarlega ekki tómt !

 

Bandaríkjamenn eru ekki í vörn fyrir sig í Úkraínustríðinu, þeir tilheyra annarri heimsálfu og ættu að láta sér það nægja. Heimsveldisstefna stjórnvalda þeirra er orðin hreinasta andstyggð í augum 80% þjóða heimsins. Aðeins evrópski Nató-kjarninn er heilalímdur við Washington-valdið sem á síðustu áratugum hefur orðið slík ófreskja í verkum sínum að það er nafni og minningu Georg Washingtons til hinnar mestu skammar !

 

Hvað sagði Washington ekki í kveðjuræðu sinni : ,, Stundið frið og og samhreimi við allar þjóðir !“ Það er eins og bandarísk stjórnvöld hafi frá stríðslokum 1945 einsett sér að gera allt öfugt við boðskap Washingtons. Þeir ættu að breyta nafni höfuðborgar sinnar og nefna hana Truman City. Það væri miklu nær þeim sannleika sem felst í ófriðarstefnu þeirra síðasta mannsaldurinn !

 

Bandaríkin þola ekki ríki sem standa upp í hárinu á þeim. Þau vilja einn helsta lánardrottin sinn Kínverska alþýðu-lýðveldið feigt og þau vilja Rússland feigt, þau vilja Íran feigt og þeim er ekki um Indland gefið. Og fleiri ríki eru þeim þyrnir í augum !

 

Þar ræður rómverska yfirvaldshneigðin sem kraumar í ríkis-kerfinu í hinni réttnefndu borg Trumans. Ríkið sem fyrir skömmu var næstum því búið að missa sitt eigið þing í hendurnar á fasistísku uppreisnarliði, er að ráðskast með stjórnarfar og þingræði út um allan heim, en ræður ekki við að stjórna málum sínum heimafyrir, með forustulið beggja stóru flokkanna í næstum því lamaðri lýðræðiskreppu  !

 

Framtíðin er ekki björt fyrir Bandaríkin. Skuldadíki ríkisins er orðið svakalegt og valdaöfl um allan heim eru sem óðast að leysa sig frá afleiðingum dollaravaldsins ef Bandaríkin verða gjaldþrota. Lönd og ríki hafa of lengi veðjað á eilíft gengi Bandaríkjanna, en það gengi rýrnar með hverju árinu. Efnahagsstyrkurinn minnkar stöðugt þó hervaldsstaðan sé ennþá nokkuð sterk !

 

Þannig var það líka í Sovétríkjunum undir það síðasta. Þau hrundu út af veiklaðri efnahagsstöðu og innri svikum, en hefðu getað beitt miklum herstyrk gegn öðrum við þær aðstæður. En það gerðu Rússar ekki. Spurningin er því, munu Banda-ríkjamenn gera það þegar þeir koma til með að standa í sömu sporum ?

 

Ekki treysti ég stjórnvöldum í borg Trumans til að taka rétta ákvörðun á þeirri örlagastund. Frekar munu þau steypa öllum heiminum ofan í kjarnorkueldinn en að beygja sig fyrir staðreyndum. Ekkert ríki veraldar er heimsfriðnum hættulegra í dag en Bandaríkin, eina ríkið sem hefur beitt kjarnorkusprengjum gegn almennum borgurum í varnarlausum borgum !

 

Gamalmennið í Hvíta húsinu er enganveginn fært um að valda sínu embætti. Það er nógu erfitt fyrir það að standa á fótunum. Samt þykist það ætla að bjóða sig fram aftur. Og þar fyrir utan er annað gamalmenni æst í völdin, sem stefnir að endurkomu og uppgjöri við núverandi valdaklíku í borg Trumans. Það er óskemmtilegt glæfraspil framundan og enginn veit hvað verður !

 

Þannig er birtingarmyndin af bandarískri valdabaráttu heimafyrir í dag. Hún er ekki glæsileg, hvorki fyrir heiminn né Banda-ríkin. Í þeim komandi átökum getur falist það sem splundrað getur öllum hlutum. Enginn veit hver mun taka við völdum í Bandaríkjunum í janúar 2025, það gæti þessvegna orðið sjálfur Antikristur !

 

Spurningarnar um óvissumálin geta verið margar. Verða Tyrkir knúðir í kærleiks-bandalag við Svía innan Nató ? Sættir Þýskaland sig við það til lengdar að hafa verið kúgað til að una afleiðingum Norðurstraums-hryðjuverksins, sem stór-skaðaði efnahag þess ? Fer Frökkum ekki að finnast fara nokkuð illa um sig í kærleiksfaðmi Nató. Eða er allur sjálfstæðisandi de Gaulle frá þeim horfinn ?

 

Það eru margir brestir í svokallaðri samstarfseiningu Vesturlanda innan Nató. Þeir brestir hafa verið að aukast, enda eiga sumir erfitt með að skilja, að varnarþörf vegna Norður-Atlantshafsins þurfi að valda stríði austur við Svartahaf ?

 

Valdhafar í Póllandi, Ungverjalandi og víðar eru farnir að ókyrrast vegna þess að þeim er bara ætlað að þegja og hlýða. Og það er þeim enganveginn að skapi. Þeir vilja eðlilega ráða sínum málum. En fyrrum austantjaldsþjóðir eiga greinilega bara að vera ,, second class" innan Nató !

 

Staðan í Nató er eins og hún hefur alltaf verið. Ekkert heldur því heimshættulega stríðsglæpabatteríi saman nema óttinn við Rússa !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 138
  • Sl. sólarhring: 184
  • Sl. viku: 707
  • Frá upphafi: 365605

Annað

  • Innlit í dag: 134
  • Innlit sl. viku: 619
  • Gestir í dag: 134
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband