Leita í fréttum mbl.is

Innihaldslausir fulltrúar fjórða valdsins ?

 

 

Þeir eru orðnir nokkuð margir, fulltrúar fjórða valdsins, sem hafa notfært sér þá kynningu sem þeir hafa fengið sem fjölmiðlamenn og gerst pólitískir framagosar. Ekki verður þó séð á nokkurn hátt af ferli þeirra að þeir hafi reynst öðrum betri eða færari sem stjórnmálamenn. Enda ekki við því að búast !

 

Við getum nefnt marga sem hafa valið sér þá leið til frama, að vinna sér fyrst nafn sem fulltrúar fjórða valdsins, en hafa svo við fyrsta tækifæri hlaupið yfir í pólitískar herbúðir og viljað verða þingmenn, ráðherrar, sendiherrar og yfirleitt hvað sem titlatog þessa heims býður upp á !

 

En hvað hefur þá fjórða valdið verið í augum slíkra manna ? Kannski bara tilvalinn stökkpallur yfir á hið bitlingaríka, pólitíska markaðssvið verðlagningar allra hluta ? Var þá bara græðgi og framagirnd viðkomandi manna drifkraftur alls í þeirra framgöngu, engar hugsjónir til staðar ?

 

Var sem sagt aldrei nein alvara á bak við yfirlýsta baráttu þeirra sem talsmanna fjórða valdsins ? Voru þeir bara falskar raddir í flærðarhjúp ?

 

Það er þekkt í Sögunni að einstakar manneskjur hafa náð að rísa hátt í dyggðum sínum, en öllu fleiri eru samt dæmin um það hvað margir geta lagst lágt. Enginn botn virðist geta verið til staðar hvað það snertir !

 

Að vera tvöfaldir í roðinu, og koma fram í öðru líki en því sem raunverulega er til staðar, virðist mörgum býsna eðlislægt. Og margir vilja sýnilega óþreyjufullir komast hærra upp í mannfélags-stigann og aðferðin skiptir þá slíka kannski ekki svo miklu máli. Tilgangurinn helgar löngum meðalið, ekki síst hjá hástökkvurum hræsninnar !

 

Slíkar staðreyndir eru og hafa lengi verið ljósar, en jafnljóst er það, að traust getur enginn unnið sér í siðuðu samfélagi með því að troða niður dyggðir og það sem heilbrigt má teljast í dagfari þjóðarheildarinnar !

 

Menn sem hafa gefið sig út fyrir að vera fulltrúar fjórða valdsins, fulltrúar almenningsheilla, samgæsku og ærlegrar upplýsingaskyldu, verða því miður sjaldan góðir fulltrúar fyrir andstæð öfl !

 

Framaleið til valda, sem vill oft fela í sér óhreinar viðmiðanir og falskan anda, skilar sér aðeins í röngum ávöxtum og hugsanlega samviskubiti í einstaka tilfellum !

Íslenskir kjósendur, gætið jafnan að réttindum ykkar og frelsisfjöreggi og kastið ekki atkvæðum ykkar, perlum ykkar,fyrir svín !

 

 


Íslenskt lýðræði í vanhæfu formi !

 

 

 

Enn sjáum við þá birtingarmynd sem nýafstaðnar kosningar staðfesta, hvernig hið íslenska lýðræði er að verða. Framboðslistar sýna að mjög víða er lýðræðið ekki lengur sett fram á almennum forsendum, heldur er þar um að ræða spillt og falskt elítu-lýðræði !

 

Slíkt lýðræði er læðingur lyga og svika. Það byggist á sérhagsmunavaldi þröngra hópa sem skáka í skjóli menntunargráða, eignastöðu-áhrifa og klíkusambanda. Það er ekki lýðræði sem stendur undir nafni og enganveginn byggt á lýðræðislegum jafnræðis grundvelli !

 

Eitt af því sem skekkir myndina ekki svo lítið, er að starfsmenn ríkis og bæja eru farnir að vera mjög áberandi á framboðslistum. Þeir vilja líklega tryggja atvinnu sína og vera sínir eigin yfirmenn !

 

Þar rekur gamla sérhagsmunatíkin trýni sitt fram sem oftar. Hún segir að það sé ekki nógu hagsmunalega öruggt að sitja bara öðrum megin við borðið. Menn verði að fá að sitja báðum megin við það og jafnvel allt í kringum það. Og við slíkar græðgiskröfur riðlast öll fagleg regla !

 

Mikið óskaplega væri það nú gott, að einhverjir gæfu kost á sér í framboð sem væru að fara fram til að gera eitthvað fyrir aðra. Einhverjir sem vildu styrkja samfélagið og heildarhag en ekki bara eigin hagsmuni !

 

Það má auðvitað færa full rök fyrir því að sterkari og betri samfélagsheild stuðli best að því að bæta hag allra – og það á jöfnum forsendum. En því miður virðast undarlega fáir vera að hugsa um jafnar forsendur...!

 

Og af hverju skyldi það vera ? Af hverju er manngildið miklu minna metið en auðgildið í þessu landi ? Af hverju er auðvald farið að ráða öllu lífi þjóðarinnar ?

 

Það er auðvitað vegna þess að allt of margir í okkar samfélagi eru farnir að fylgja eigingjörnu lífsstefi sérgæskunnar – Ég - um Mig - frá Mér - til Mín – Punktur, basta !

 

Slíkir samfélagsaðilar reyna í öllu að sjá til þess að íslenska þjóðfélagsgerðin verði ekki neitt annað en einskonar Litla Ameríka, auðvaldsþrungið fyrirbæri, fullt af græðgi og yfirgangi – ekki síst gagnvart réttindum þeirra sem standa höllum fæti ?

 

Íslenskt lýðræði er á villigötum ! Það snýst ekki lengur um almannaheill.Það snýst í æ meiri mæli um ógeðug og sérgæskufull gæluverkefni lýðskrumara og eiginhagsmuna-potara, einhverskonar bragga og baðhúsapólitík !

 

Það er allt of mikið af fólki í forustu í valdastöðum í þessu landi sem myndi við heilbrigðar aðstæður hvergi vera í slíkum stöðum. Það er þeirrar gerðar að það er einfaldlega ekki til þess hæft !

 

En við, sjáanlega illa ábyrgir borgarar þessa lands, látum slíkt óheilindalið vaða uppi og gjörspillt vinnubrögð þess yfir okkur ganga eins og við séum algerlega heilalaus viðrini. Slík framvinda er algjör þroskahefting lýðræðishugsunar í þjóðlegum skilningi og okkur kjósendum til háborinnar skammar !

 

Sönn samfélagsleg verðmæti eru sniðgengin í flestum greinum og fjármunum heildarinnar er sóað af ábyrgðarleysi út og suður. Og slíkum gjörningi stjórna yfirlýstir lýðræðislegir fulltrúar sem í vaxandi mæli eru kjörnir á alröngum forsendum og misnota í flestu aðstöðu sína !

 

Ég vil bara segja, til hvers hefur verið barist til velferðar í þessu landi, ef slíkt svikafargan verður í æ meiri mæli niðurstaðan ?


Að ganga ,,óbundinn" til kosninga !

 

 

 

 

Hvað skyldi nú þessi yfirlýsing þýða sem er fyrirsögn þessa pistils ? Þessi yfirlýsing sem er svo algeng fyrir kosningar og á víst að tákna í munni þeirra er svo mæla - óskaplega víðsýna og frjálsmannlega afstöðu ?

 

En nei, þarna er nú ekki neitt af því taginu. Slík yfirlýsing er ekkert nema ómerkilegt pólitískt klókindabragð þar sem framboðsaðilar áskilja sér rétt til að semja við hvern sem er – til að ná völdum. Inni í þeim gjörningi felst meðal annars það að svíkja hugsjónir eigin flokks og stefnu – fyrir völd !

 

Menn þurfa ekki annað en að líta á núverandi ríkisstjórn, sem situr með mjög vafasamt umboð frá kjósendum eftir stórgallaðar kosningar. Þar er ömurlegt dæmi um það hvernig völd eru tekin framyfir yfirlýsta stefnu og meintar hugsjónir. Og gildandi lög verða að gjalti í skollaleiknum. Þar er skýrt dæmi um það hvað það þýðir þegar framboðsaðili segist ganga óbundinn til kosninga !

 

Sú yfirlýsing felur fyrst og síðast í sér svik við væntanlega kjósendur. Framboðsaðilar þora ekki að segja hvað þeir eru með í huga, þeir telja sig verða að fara á bak við kjósendur, af því að þeir ganga ekki fram af heilindum. Það er óhreinleikinn og falsið sem ræður för hjá þeim !

 

Sá flokkur býr yfir heilindum ef einhver gerir það, sem segir hreint út hvað hann ætlar að gera eftir kosningar, hvernig hann ætlar að standa að málum. Menn afla sér trausts með heilindum en falla að gildi er þeir beita svikum !

 

Vinstri græn hafa tapað þremur þingmönnum eftir eitt kjörtímabil sem taglhnýtingur íhaldsins. Það tók þrennar kosningar við sömu skilyrði að þurrka Alþýðuflokkinn nánast út af þingi. Vinstri græn eru nú á þeirri svikabraut. Þau fylgja ekki lengur stefnu eða hugsjón, þau gangast bara fyrir völdum án nokkurra annarra markmiða. Eru orðin þrælar valdsins !

 

Flokkar sem sitja á svikráðum segjast ganga óbundnir til kosninga. Það á ekki hvað síst við um vinstri flokka. Þá eru þeir með það í huga að mynda stjórn með íhaldinu. Þessvegna þora þeir ekki að segja sannleikann gagnvart kjósendum sínum. Sannleikurinn á aldrei samleið með svikum en lygin er þar gróin við gerðirnar !

 

Þegar flokkar haga sér með slíkum hætti eru þeir í raun og veru að segja :

 

Flokkurinn með felldum gildum

fæst við sína eigin hagi.

Óbundinn af öllum skyldum,

ekki í neinu mannfélagi !

 

Framsókn gengur alltaf óbundin til kosninga og er alltaf opin í báða enda. Þessvegna er flokkurinn fyrir löngu orðinn viðskila við þær hugsjónir sem komu honum á framfæri við þjóðarsálina á sínum tíma. Þar er ekkert eftir sem gefur veganesti til framtíðar þegar á allt er litið !

 

Íhaldið svíkur ekki stefnu sína því hún er inngróið fyrirbæri og vond sem slík og verður alltaf holdgetinn hryllingur. Sú stefna sem auðvaldið fylgir á fulla samleið með eigingirni og sérgæsku mannseðlisins, ekki síst þar sem það er fundið spilltast fyrir !

 

Stefna íhalds og auðvalds höfðar til alls þess sem dregur mannsandann niður og villir alla heilbrigða sýn til þjóðfélagslegra gilda. Efnishyggjan rústar þar öllu því sem andlegt er. Eftir því sem íhaldið verður öflugra í landinu eftir því verður samfélagið snauðara að mannfélagslegum gæðum !

 

Það skilst því hvað er í gangi þegar flokkar sem segjast standa fyrir almennum mannréttar sjónarmiðum vilja ganga í takt við sérgæskuöflin í þjóðfélaginu. Það er hin óhreina valdasýki sem hefur náð tökum á þeim og forustu þeirra. Þeir vilja ekki vera heftir af hugsjónum og stefnufestu !

 

Þeir vilja skoða markaðinn og taka besta ,,boðinu“ sem þar fæst – boði Mammons sem alltaf er andstætt hagsmunum samfélagslegra gilda og allrar alþýðu í landinu. Þeir eru þannig merktir Kölska í bak og fyrir !

 

Að segjast ganga óbundinn til kosninga undirstrikar því tækifærissinnuð sjónarmið úrkynjaðrar flokksforustu sem situr á svikráðum við allt það sem hún þó þykist standa fyrir. Ekkert getur réttlætt framgöngu af slíku tagi !

 

Slík málsmeðferð er fyrirlitleg í alla staði og ætti eðlilega hvergi að hljóta stuðning fólks sem er annt um samfélag sitt og lífið í landinu og ekki síst eigin sjálfsvirðingu !

 

 

 

 


Klofbeldi !

 

Hugtök þurfa að vera fyrir hendi svo fólk geti vitað hvað við er átt þegar skoðanaskipti eiga sér stað. Og þá skiptir miklu hvernig hugtökin eru smíðuð, og hvort þau séu eitthvað sem sátt geti verið um milli andstæðra póla, í þeim búningi sem þau eru sett fram í. Í stuttu máli sagt, er hægt að nota þau sem slík ?

 

Ég hef til dæmis aldrei verið sáttur við hugtakið – fóstur-eyðing, það hefur allt of mikla líkingu við hugtakið sorp-eyðing. Að losa sig við eitthvað sem ekki er æskilegt. Ég vil nota hugtakið fóstur-deyðing, sem undirstrikar þaö sem á sér stað og nefnir kjarnaatriðið sem er - að lífi er fórnað !

 

Eitt mál sem mikið hefur verið til umræðu lengi vel, hefur ekki fengið sjálfstætt hugtak sem hentugt er og því er alltaf talað um kynferðislegt ofbeldi í því sambandi. Ég vil taka þar upp hugtakið klofbeldi !

 

Beldi er raunverulega orðtak sem vísar á óþekkt og yfirgang, á það að farið sé yfir eðlileg mörk í samskiptum. Og forskeytið segir sitt, það er ekki bara beldi í gangi, sem er í sjálfu sér óæskilegt, heldur of-beldi. Þegar við notum hugtakið klofbeldi, vísum við sem fyrr á beldi sem áníðslu-umsögn, en jafnframt á það hverskonar beldi er í gangi með forskeytinu, og að hverju það beinist !

 

Með því að nota þetta hugtak sem er ólíkt þjálla en orðasambandið kynferðislegt ofbeldi, mun það skila meiningu sinni fljótt og vel og nýtast í málinu sem það hugtak sem það er. Ætti þá enginn að þurfa að velkjast í vafa um það um hvað er verið að tala !

 

Við þurfum þannig að vera markviss í notkun hugtaka og geta tjáð okkur með skilvirkum hætti. Með því að viðhafa beinskeytt hugtök erum við á þeirri leið að gera það öruggara að skilningur sé fyrir hendi milli aðila máls. Og er það ekki einmitt það sem þarf að vera til staðar svo vel fari ?

 

Allt sem heitir ofbeldi

elur bölvun skæða.

Og klárlega er klofbeldi

kyrking allra gæða !


VG - Vinstri Glötun !

 

 

Það mun sannast í fyllingu tímans, að persónuleg framagirni Katrínar Jakobsdóttur verður dæmd sem drjúgt tillag í útfararsögu þess flokks sem hún hefur verið í forsvari fyrir, allt frá því að Skallagrímur andaðist í pólitískum skilningi, í þjónustu krata, árið 2011 !

 

VG skammstöfunin stendur nú líklegast einna helst fyrir Vinstri Glötun, þar sem flokkurinn hefur þverbeygt svo frá sínum helstu stefnumiðum í formannstíð Katrínar Jakobsdóttur að það má heita með ólíkindum !

 

Enginn hefði getað ímyndað sér að hún myndi halda á málum eins og hún hefur gert. Með athöfnum sínum og undirlægjuhætti gagnvart sameinuðu íhaldi þessa lands hefur hún unnið afgerandi eyðileggingarstarf á hugsjónum flokksins – og það aðeins í þágu eigin metnaðarhyggju !

 

Hún er að leiða og hefur verið að leiða það lið sem fylgir henni á þessari pólitísku helfarargöngu – fyrir björg. Það er þyngra en tárum taki fyrir marga vinstri menn að horfa upp á þau svik sem þar hafa verið höfð í frammi. En sumir eru nú hreint ekki eins og þeir ættu að vera. Þessvegna er nú heimurinn eins rotinn og hann er !

 

Lélegri flokksformaður en Katrín Jakobsdóttir er að minni hyggju, vandfundinn. Hún er jafnvel lakari en Bankasölu baróninn, sem þó hefur aldrei þótt sérlega frambærilegur sem foringi, og sennilega síst af eigin flokksmönnum. Hann hefur lafað vegna þess að aðrir vænlegri kostir virðast ekki hafa verið í boði. Þar má segja hið fornkveðna, nú er úlfshali einn á króki !

 

Það er að vísu ekki neinn stjórnmálaflokkur á Íslandi með sérlega boðlegan formann í dag, og allra síst í þjóðlegu tilliti, en það fer ekki á milli mála að Katrín í Vinstri Glötun er þar þó aumust allra. Mikið lifandis ósköp hefur manneskjan gert sig litla á vegferðinni síðustu árin !

 

Að ein manneskja skuli geta dregið - í persónulegum metnaði sínum heilan ( og þó vanheilan ) stjórnmálaflokk með sér í mótsetta átt við stefnumál sín og hugsjónir, er svo ömurleg staðreynd að engu tali tekur. Sú niðurstaða sýnir í raun á hvað veikum grunni stjórnmála-kerfið í landinu hvílir. Og líklega hefur alþingi aldrei verið skipað lakara liði en í dag !

 

Hjá Vinstri Glötun eru ekki lengur neinar forsvaranlegar lýðræðis forsendur fyrir hendi. Það er alveg ljóst. Ein manneskja hefur verið sett þar á stall og persónudýrkun virðist á vaxandi siglingu í flokknum, innan fámennrar, ómerkilegrar flokkselítu sem myndi skammast sín ef hún kynni það. En því er náttúrulega ekki að heilsa !

 

En það var í raun aldrei við miklu að búast af Katrínu Jakobsdóttur og allra síst eftir að hún var gerð að formanni flokksins. Til þess forustustarfs hefur hún nefnilega aldrei haft þá burði sem nauðsynlegir hljóta að vera !

 

Núverandi ríkisstjórn tók til starfa með undirstöðu úr sandi. þingkosningar þær sem á undan gengu voru svo lýðræðislega gallaðar að þurft hefði að endurtaka þær. Það hefði verið gert ef ærleg viðhorf hefðu ráðið för. Ríkisstjórnarflokkarnir höfnuðu þeirri leið og kusu þess í stað að leggjast fyrir í auknu spillingardíki kerfislega séð !

 

Þar hefst ríkisstjórnin nú við undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Sú er nú upphefðin hennar og svei því öllu. Ekki er forustan beysin !

 

Enn sem fyrr verður allt Íslands óhamingju að vopni !

 


Hið hersetna hugarfar !

 

 

Fram um miðja síðustu öld voru Íslendingar líklega með réttu tiltölulega frjálsir í hugsun og yfirleitt mjög þjóðlegir í afstöðu sinni til allra umræðumála. Hér þótti því vaxandi þjóð á ferð á þeim tíma !

 

Ungmennafélagsandinn bjó enn í samfélagsgerðinni með sín hollu áhrif og Samvinnuhreyfingin jók líka á jákvæð félagsleg sjónarmið. Einnig voru margir með sterkar rætur í Verkalýðshreyfingunni og studdu baráttu hennar fyrir mannsæmandi lífskjörum. Allt félagshyggjufólk á þessum tíma hafði, ekki síst af þessum ástæðum, ríkan og þroskaðan skilning á þörfinni á auknu gildi mannfrelsis í víðsýnu samhengi innan samfélagsins !

 

En sem sagt, Íslendingar bjuggu þá enn að því frelsisdáða hugarfari sem var arfur frá sjálfstæðis-baráttunni um og eftir aldamótin 1900 og langþráðum fullveldis-sigrinum 1918. En fjöreggi okkar var samt ýmis hætta búin og svo hefur gengið alla daga síðan !

 

Fljótlega eftir 1930 fór að bera á því að Íslendingar tileinkuðu sér ýmsa ósiði í hugarfarslegum skilningi. Menn fóru að ánetjast allt of mikið erlendum stefnumálum sem gerðu óþjóðlegar kröfur til þeirra með ýmsum hætti. Hið þjóðlega viðhorf var dæmt þröngsýnt og hundaþúfulegt og þrýst var á til hægri og vinstri að við skoðuðum málin í víðara samhengi !

 

Sumir tileinkuðu sér andlega innspýtingu frá bandarískum kapítalisma, aðrir kommúnísk viðmið frá Sovét-Rússlandi og enn aðrir þýskan nazisma. Ekkert af þessu fól í sér heilbrigðan hugsjónagrundvöll fyrir þjóð sem var nýbúin að öðlast sitt fullveldi og var að finna sér stöðu í veröldinni !

 

En það vantaði ekki að allir þessir aðilar teldu sig hafa fundið hinn stóra sannleika og svo fóru þeir hamförum um samfélagið í boðun ætlaðra sanninda. En þeir leituðu langt yfir skammt. Besti sannleikurinn lá fyrir hendi hér innanlands þó þeir gerðu sér ekki grein fyrir því. Að hver maður þjónaði landi og þjóð á ærlegum, íslenskum forsendum !

 

Eftir 1950 – eða ætti ég kannski að segja 1949, var það fyrirbæri orðið hluti af mjög beiskum íslenskum veruleika, að fjölmargir menn gengu um með hersetið hugarfar. Þeir voru ekki lengur Íslendingar ungmenna-félagsandans. Þeir voru orðnir hugarfarslegir málaliðar erlendrar hernaðarhyggju !

 

Þjóðleg frelsishyggja var þeim ekki lengur neitt sem bjó í anda og æð. Þeir voru forritaðir erlendis frá fyrir lífstíð. Sjaldan hef ég fundið fyrir meiri mannspillingu en hjá slíkum aðilum. Sá sem týnir þjóð sinni og réttum rótum hefur glatað helftinni af því manngildi sem hefði átt að vera hans !

 

Þeir eru margir sem hafa þannig glatað heilbrigðum innviðum og sumir finna ekki einu sinni til þess. Þeir eru orðnir svo fjarhuga og slitnir frá andlegum verðmætum eigin ættsveitar, að þeir finna ekki til vöntunar sinnar á þeim genetísku frelsiseiginleikum sem eiga að vera mönnum í blóð bornir. Þeir hafa orðið innrætingu vesalmennskunnar að bráð !

 

Þrælsleg undirgefni hefur kæft þá og hugarfarið er þannig yfirtekið af andleysi aumingjans. Það er hersetið af illum öndum og menn í slíku ástandi eru orðnir af-íslenskaðir sérgæðingar, landvilltir þjóðleysingjar, vélræn viðrini !

 

Það er meira en himinn og haf á milli þeirra manna sem varðveita heilbrigð hugarfarsleg tengsl við land sitt og þjóð annarsvegar og þeirra sem hinsvegar ganga um í þoku gjörninga sem keyptir þrælar með hersetið hugarfar !

 

 


Um þríflokkslega flokksleysu !

 

 

 

Sumir stjórnmálaflokkar landsins virðast þannig úr garði gerðir, að þeir séu hreint ekki stofnaðir til að bera fram nokkra frambærilega stefnu varðandi íslensk þjóðmál. Það er sýnilega eitthvað allt annað sem ræður tilvist þeirra og allri framgöngu. Samfylkingin, Píratar og Viðreisn eru að mínu mati þannig flokkar !

 

Til hvers eru þeir, fyrir hvað standa þeir ? Eru þeir sannir varnaraðilar fyrir heilbrigðan þjóðarhag og ganga þeir fyrir einhverjum trúverðugum forsendum varðandi þjóðleg og söguleg menningargildi okkar Íslendinga ?

 

Ekki get ég fundið það á málflutningi þeirra og því sem ég vil kalla ábyrgðarlausu lýðskrumi þeirra og dæmalausum undirlægjuhætti þeirra gagnvart allri erlendri ásælni !

 

Mér sýnist sem umræddir flokkar séu fyrst og fremst það sem kalla mætti flokka innflytjenda. Þeir virðast hlaupa upp til handa og fóta þegar þeir telja að verja þurfi einhvern útlendan gervasoni og þá á að ausa peningum úr ríkissjóði til allra þarfa slíkra aðila. Það er stundum eins og litið sé svo á að ótakmarkaðir fjármunir séu til og með öllu þarflaust að gæta þar hófs !

 

Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfkrafa. Hann er enganveginn boðlegur. Í þjóðlegum skilningi er hann fyrir neðan allar hellur. Íslensk mannréttindi eru líka nokkuð sem þarf að verja og ef við landsmenn sjálfir gerum það ekki gerir það enginn. Við þurfum ekki flokka hér á öðrum forsendum en þeim sem þjóna íslenskum þjóðarhagsmunum með heilbrigðum hætti.

Umræddir þrír flokkar eru að mínu áliti illa hæfir til að taka þátt í ríkisstjórn með ábyrgum hætti fyrir land og þjóð !

 

Hjörtu þessara flokka virðast ekki slá hérlendis. Kannski eru þau innsigluð til sláttar í Brussel eða öðrum sambærilegum valdapólum erlendis ?

Ég veit það ekki, en ég þykist hinsvegar vita að þau séu ekki þjóðfélagslega lifandi tákn hér innanlands og víst er að þjóðleg viðmið skora ekki hátt hjá þessum flokkum. Það þykir mér alveg augljóst mál !

 

Í mínum huga sýna umræddir flokkar aðeins afvegi lýðræðisins, enda finnst mér að þeir fylgi slíkum afvegum og bæti ekki lýðræðið á nokkurn hátt. Lýðskrum og fyrirlitlegur tækifærissinnabragur einkennir hinsvegar að mínu mati allt þeirra atferli. Þar er ekkert sem getur gert kröfu til virðingar á eðlilegum og frambærilegum forsendum !

 

Íslensk þjóð væri, að minni hyggju, sannarlega betur komin án þessara villuráfandi vanhyggjuflokka !

 

 


Glansmyndaserían um landnám Íslands !

 

Það hafa aldrei legið fyrir öruggar og haldbærar upplýsingar um landnám Íslands og þaðan af síður greinargóðar upplýsingar um landnámsmennina sjálfa, hverskonar menn þeir voru og hvernig þeir héldu á málum !

 

Að mestu leyti höfum við orðið að leggja trúnað á þær fáu heimildir sem til eru, þó við höfum engar áreiðanlegar forsendur fyrir réttmæti þeirra. En lengstum hafa menn viljað treysta því að þar væri rétt frá málum greint !

 

En hönd valdsins hefur löngum verið nærri þegar saga hefur verið rituð og mat lagt á hvað eigi að segja og hvað megi segja. Sumir vilja meina að Ari fróði hafi nú ekki verið alveg frjáls að því hvernig hann ritaði um landnámið og kannski væri sú frásögn merkilegust sem þar fékk ekki að vera með. Ritskoðun af hálfu valdamanna hefur tíðkast frá fyrstu tíð !

 

Vegna heftingar á ritfrelsi telja því sumir að Ari hafi sagt að menn skuli hafa það sem sannara reynist, í þeirri von að menn yrðu einhverntíma frjálsari að því að rita um landnámið en hann var. Við getum til dæmis gefið okkur að Kolskeggur Ýrberason hefði sagt söguna með allt öðrum hætti, ef hann hefði fengið færi til þess, en það var þaggað niður í honum !

 

Ég hef trú á því að keltneskt landnám hafi verið hér til staðar í miklu meiri mæli en almennt er talið. Og það landnám hefur trúlega byggst á samstarfi og sátt í kristnum anda, enda hefur fólk flúið hingað til þess að fá að vera í friði fyrir ofbeldismönnum og ræningjum, en slíkir hafa líklega þegar verið búnir að eyðileggja fyrri heimkynni þess. Meðan ,,útrásarvíkingar” voru ekki á landinu, átti öllum að geta liðið hér vel á jöfnum forsendum !

 

En svo komu hinir norrænu yfirgangsmenn hingað, sennilega aðallega eftir ósigurinn í Hafursfirði, lögðu undir sig hinar friðsælu byggðir Kelta hér, hertóku allan búsmala, drápu þá sem ekki létu kúgast og gerðu hina að þrælum. Og það mátti ekki greina frá þeim hervirkjum sem gerð voru !

 

Jónas Hallgrímsson lýsir aðstæðum áreiðanlega á öfugan hátt í kvæði sínu um Ísland farsælda Frón. Þar er allt látið vera í gullnum ljóma frelsis og manndáða. En sú mynd sem túlkuð er þar er ekkert nema glansmynd og draumsýn skálds í uppheimum óraunveruleikans !

 

Þegar átti að skrá sögu landnámsins, vildu afkomendur ræningjanna ekki að glæpir forfeðranna væru opinberaðir. Hér átti allt að hafa verið ónumið land og frelsi ríkt frá fjöruborði upp til fjalla. Þannig skyldi sögunni verða lýst fyrir komandi kynslóðum !

 

Og allt sem var valdstéttinni og höfðingjunum til vansa, og það var reyndar nokkuð margt, var þannig þaggað niður og ekki minnst á dráp og gripdeildir hins ,,norræna landnáms”. Þeirri ,,hreinsun” fylgdi að keltnesk saga var þurrkuð út eins og hún hefði aldrei verið til !”

 

Allir helstu atburðir í sögu okkar virðast þannig hafa verið byggðir á lygi og ranghugmyndum, þar sem hver kynslóðin af annarri hefur gleypt við glansmyndinni um ,,feðranna frægð !” Þjóðin hefur þannig verið svikin um sögu sína allt fram á þennan dag !

 

Og enn er jafnvel reynt að segja sögu nýliðinna áratuga á annan veg en hún gerðist, ekki síst af hálfu þeirra sem íklæddust hersetnu hugarfari um miðja síðustu öld og hafa ekki losnað frá því hugarfari enn og verða seint !

 

Gráðum prýddir fræðingar eru keyptir til þess enn í dag að sleikja upp lík dauðra drullusokka í því skyni að búa til glansmynd af skítugum ferli þeirra. Það er og hefur alla tíð verið ógeðslegt athæfi !

 

Það er full ástæða - nú sem fyrr, til að vera á verði fyrir öllum slíkum tilraunum siðlausrar framsetningar, sem ávallt er hugsuð á keyptum nótum - til þess eins og sér í lagi - að skrumskæla sannleikann !

 

 

 


Svarti víkingurinn – þrælahaldari Íslands og arftakar hans nú á tímum !

 

 

 

 

Í mjög svo athyglisverðri bók sinni “ Leitin að svarta víkingnum” dregur Bergsveinn Birgisson saman mjög athyglisverða sögu og styður hana með fjölbreytilegum hætti. Það er mikil upplifun fólgin í því að lesa þessa bók hans og hafi hann þökk fyrir ómælt framtak sitt við samningu hennar !

 

Hygg ég að saga þessi geti orðið sterkur grunnur að sögurannsóknum sem beinast kunna í sömu átt á komandi árum, óháðar þeim takmörkunum sem áður hafa gilt !

 

Raunar finnst mér að höfundur hafi með þessari bók sinni opnað mjög athyglisverða sýn á það líf sem lifað var á Íslandi á fyrstu áratugunum eftir landnámið !

 

Og ef til vill er sú sýn öllu nær sannleikanum en sú fegraða túlkun sögunnar sem hingað til hefur verið látin ráða ?

 

Í þessu riti Bergsveins virðist mér undirstrikuð miklu stærri og magnaðri þýðing þrælahalds á Íslandi en áður hefur verið talin rétt og bent er á stór-efnahagslega nauðsyn þessa þrælahalds fyrir hina valdagráðugu höfðingja landnámstímans !

 

Veiðistöðin Ísland gekk fyrir þrælahaldi þá eins og hún er farin að gera aftur á okkar tímum !

 

Geirmundur heljarskinn virðist samkvæmt því hafa verið réttnefndur þrælahöfðingi landsins. Athafnir hans hafa steypt lífshamingju fjölda fólks í glötun og allt framtak hans hefur sýnilega miðað að því að auka stöðugt fjárheimtur sínar á kostnað annarra !

 

Hundruðir hertekinna manna og kvenna urðu að þræla undir veldi hans. Allt það fólk varð að lifa við stöðuga áþján og kvöl uns dauðinn sótti það heim. Ógeðslegheitin við ráðslag þrælahaldarans eru yfirþyrmandi !

 

Það sem höfundur bókarinnar segir um Hjörleif Hróðmarsson er réttmæt ádeila á þann mann, að mínu áliti, en á þó ekki síður við um svarta víkinginn sjálfan og í miklu stærri mæli !

 

Geirmundur heljarskinn hefur verið mun verri og hættulegri maður en venjulegir víkingar, því hið fjármálalega vald sem hann hafði var svo ógnvænlegt í alla staði. Því virðist líka hafa verið beitt af mikilli hörku og fullkomnu miskunnarleysi ekki síður en í Wall Street á vorum tímum !

 

Títtnefndur göfugleiki þessa þrælahaldara virðist þannig eingöngu byggður á aristókratískum ættarveldis viðmiðum samtímans sem voru skiljanlega kolröng og vægast sagt ómanneskjuleg. Slík ,,göfgi” er auðvitað einskis virði þegar eðlileg mannréttarleg sjónarmið eru lögð til grundvallar. Kóngar hafa aldrei flutt neina blessun að landi okkar !

 

Maðurinn Geirmundur heljarskinn er þannig ógeðfelldur í hæsta máta, og séu kenningar Bergsveins Birgissonar réttar um feril hans og athafnir, er fátt við hann að virða.

 

Best hefði verið, allra hluta vegna, að hann hefði aldrei til Íslands komið !

 

Nú á tímum er margt að varast og full þörf á að verja hinn almenna mannrétt eins og löngum áður. Þar er fjármálavaldið sem fyrr einna hættulegast. Nú er til dæmis samansafnað fjármagn í eigu almennings í landinu notað í stórum stíl gegn almannahagsmunum.

 

Þar má sannarlega segja að andi Geirmundar heljarskinns og hans nóta svífi yfir vötnunum í siðblindu arðráni og kúgun eins og fyrr á dögum !

 

Helst eru sambærileg við þennan ógeðfellda svarta víking landnámstímans, þau heljarskinn nútímans, sem fá að beita sér ómælt í gegnum siðlaust kvótakerfi, og hliðstæða löghelgaða forréttindastöðu, fyrir atbeina pólitískrar mismununar gjörspillts valdakerfis óþjóðlegra flokka !

 

Þau svörtu heljarskinn fleyta þannig rjómann ofan af öllu í íslensku samfélagi og standa hér öllum heilbrigðum gildum fyrir þrifum, enda eru þau fullkomlega andstæð íslenskum frelsisanda !

 

Hvað lengi skal þeim líðast að níðast á öllu því sem gott er og rétt ?


Brussel-samfylkingin !

 

 

Í flestum löndum Evrópu finnast hagsmunahópar sem hafa það að markmiði að hefja einhverskonar samfylkingargöngu til Brussel. Seint verður þó talið að slíkir hópar gangist fyrir þjóðlegum hugsjónum og oftast mun einhver eiginhagsmunatenging liggja að baki áróðri þeirra og fyrirgangi. Slíkir sérgæskuhópar gangast aldrei fyrir almannaheill !

 

Sú var tíðin að ómerkilegur fasistaforingi í Evrópu stóð fyrir mikilli baráttugöngu til höfuðborgar lands síns og náði völdum eftir það. Sjálfur mun hann þó ekki hafa gengið langt, en smeygt sér í hópinn undir lokin.

 

Allur ferill mannsins var ein mistakaslóð en samt hélt hann völdum í um 20 ár. En ljót var slóðin sem hann skildi eftir sig að leikslokum. Það er mjög umhugsunarvert hvað einn maður getur lengi dregið heila þjóð á asnaeyrunum út í hyldjúpa eymd og botnlaust svínarí !

 

Enn í dag er það svo að mörgum er hætt við blekkingum. Enn í dag þykjast menn sjá paradís í pólitískum sérgæskudraumum um farsældaríkið mikla, sem skenkja á fylgjendum sínum allt sem tryggir þeim áhyggjulaust líf !

 

Enn falla menn unnvörpum flatir fyrir síbyljuáróðri um ágæti hinna ýmsu mustera fjármagnsguðsins. Mammon er iðinn við kolann og glepur glóru manna á ýmsa vegu. Það á sér margar birtingarmyndir í nútímanum !

 

Margir eru þeir Íslendingarnir sem vilja taka þátt í samfylkingargöngu til Brussel og halda sig geta lifað eftir það í vellystingum, sennilega á ríflegum kommisara-kjörum. Hjáguðadýrkun verslunar og viðskiptalífs leikur ekki lítið hlutverk þar. En sem betur fer eru þeir Íslendingar mun fleiri sem gjalda varhug við öllum blekkingum og vilja halda vöku sinni !

 

Á Íslandi eru vissulega til litlir hákarlar sem synda um í manngerðu innhafi spillingar kvótakerfis og einokunar og þeir eru svo sem nógu slæmir. En stóru Brussel-hákarlarnir yrðu fljótir að ganga frá þeim, eða gera þá að hundslegum fylgjurum sínum, ef þeir næðu að komast hér inn !

 

Og það mun gerast ef samfylkingargangan til höfuðstöðva Mammons í Evrópu ætti sér stað eins og sumir stefna að, ef Ísland yrði innlimað og gert að arðránsnýlendu blóðsugugreifanna í Brusselkastalanum !

 

Ég hef oft orðið þess var að sumir Íslendingar hata svo ranglæti og mismunun kvótakerfisins að þeir vilja jafnvel fá stóru hákarlana út í Evrópu í spilið bara til að sjá bölvaða smáhákarlana hérna verða étna !

 

En við Íslendingar megum ekki hugsa þannig. Við höfum möguleika á að bylta veldi litlu hákarlanna og þá afsiðun réttlætismála sem þeir hafa staðið fyrir í landinu okkar, en stóru hákarlarnir í Brussel eru miklu hættulegri og þeir munu fjötra okkur og frelsi lands okkar um ófyrirsjáanlega tíð. Það má aldrei gerast. Göngum aldrei inn á glötunarveginn þann !

 

Fylkjum okkur gegn hinni ætluðu Samfylkingargöngu til Brussel, látum engin landráð svipta okkur fjöreggi íslensks þjóðfrelsis. Ef við hættum að ganga upprétt og tökum á okkur þrælshlutverk í eigin landi, erum við ekki lengur Íslendingar á virðingarverðum forsendum !

 

Þjóðlegar skyldur okkar hljóta að gera þær kröfur til okkar á hverjum tíma að við sýnum í anda og sannleika að við viljum vera frjálst fólk í eigin landi. Kjörorð okkar verði nú og ætíð lagt fram í anda Jóns Sigurðssonar – ALDREI AÐ VÍKJA !

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 168
  • Sl. viku: 1095
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 992
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband