Leita í fréttum mbl.is

Forðumst ábyrgðarleysi, stöndum áfram vaktina !

 

Athyglisvert er hvernig tónninn hefur breyst síðustu dagana hjá yfirvöldum gagnvart Covid ógninni og nú er helst að heyra að ekki megi beita hörðum aðgerðum lengur. Það mætti ætla að heilbrigðissjónarmið hafi orðið að víkja fyrir viðhorfum þeirra afla sem vilja bara fá að græða hvernig sem á stendur. Það virðist svona einhver Trump eða Bolsonaro andi kominn í spilið sem ráðandi þáttur. Það boðar sannarlega ekkert gott ef svo er !

 

Og svo eru kosningar framundan. Pólitíkin er farin að lyfta sinni óhreinu krumlu og enginn flokkur virðist vilja tala fyrir hertum aðgerðum á þessum tímapunkti. Það gæti valdið pirringi og gremju meðal ýmissa hópa og leitt til fylgistaps...Ó,ó,ó, það væri nú bagalegt !

 

Svo enginn flokkur þorir að taka á málum eins og á stendur og stefnuleysið bitnar auðvitað á þjóðinni. Reynt er svo að kenna veikleikum heilbrigðis-kerfisins um og talað um að nú sé komið að endanlegum þolmörkum þar. Heggur sá er hlífa skyldi !

 

Það er auðvitað hinn aumasti fyrirsláttur. Heilbrigðiskerfið hefur staðið sig afburða vel í Covid-baráttunni og starfsfólk þar lagt sig fram öllum öðrum betur í stríðinu við veiruna og langt umfram skyldu. Þar hefur þjóðin sannarlega átt frábærlega frækna varnarsveit gegn faraldrinum !

 

En fjársvelt kerfi getur ekki endalaust staðið vaktina í þessu efni og það fyrir skilningslitla þjóð, sem þar að auki er búið að hálftrylla af peningagræðgi og sérhagsmunum !

 

Allt fjármagn á að fara í sérvasa og sem allra minnst til samfélagsmála. Það er viðhorf frjálshyggjuaflanna og hinnar óheftu markaðshyggju. Þjóðin skal alltaf rænd auðlindum sínum hvar sem er og hvernig sem á stendur. Danir hefðu aldrei staðið fyrir hliðstæðu arðráni og viðgengst hér í nafni innlendrar stjórnmálaklíku sem situr í skít upp fyrir höfuð !

 

Og hið pólitíska forustuleysi í málum lands og þjóðar er alvarlegasta meinið eins og á stendur. Enginn vill sýnilega axla ábyrgð á hertum aðgerðum rétt ofan í kosningar. Allir forustumenn eru greinilega að hugsa um flokkinn sinn, ekki þjóðina sem slíka !

 

Sannarlega má því segja : ,,Ekki er fríður flokkurinn” eins og segir í frægri vísu um tiltekna hreppsnefnd. Þjóðleg forusta er það sem vantar hér, eins og reyndar oftast þegar þannig stendur á. Hún er þá hvergi !

 

En það þarf að berjast áfram sem fyrr fyrir öflugum sóttvörnum og allir verða að vera þar með og leggja sitt til. Þó að jafnvel Víðir virðist vera að linast í vörninni og kannski forustan öll, breytir það engu um alvarleika þeirrar stöðu sem við blasir. Við verðum enn og áfram að sinna þjóðlegri skyldu okkar sem felst í að vera – ÖLL ALMANNAVARNIR !


Um sagnfræði pólitísks rétttrúnaðar !

 

 

Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um sagnfræði, en vil helst hafa hana eins trúlega samfara sannleikanum og frekast er hægt. Margar heimildir í sagnfræðilegum efnum hafa þó sýnt mér, að sumir gera ekki miklar kröfur varðandi þá hluti. Menn virðast geta verið margskólaðir og gráðum girtir á þessu fræðasviði, án þess að gera sannleikanum hátt undir höfði í því sem þeir láta frá sér fara !

 

Oftast virðist þá um að ræða menn sem eru haldnir svo harðsoðnum pólitískum anda, að sagnfræðin verður bara eins og vinnukona úti í horni í hugsanagangi þeirra. Þeir vilja sjáanlega koma pólitískum rétttrúnaði sínum að í söguskoðun sinni, og virðast óhikað nota sagnfræðimenntunina sem áherslutæki í þeim efnum. Sagnfræðingar af slíku tagi eru því, að mínu mati, ekki merkilegir !

 

En þeir virðast hinsvegar hreint ekki svo fáir og það er meinið. Að trúverðugleika til, virka þeir þó líklega aðeins á þá sem kynna sér ekki málin og gleypa við flestu. Þeir sem skoða betur það sem sagt er eða fullyrt, sjá fljótt að ekki er vandað til verka og að það sem á að vera sagnfræðilegt heimildarrit er í raun áróðursrit !

 

Fyrir nokkru las ég bók um orustuna við Stalingrad eftir, – að sögn - mjög virtan breskan sagnfræðing. Ég verð að segja að mér blöskraði framsetningin á efninu. Það sem sló mig strax var að mér fannst höfundurinn algerlega á bandi Þjóðverja og hann virtist aldrei setja sig úr færi með að úthúða Rússum í texta bókarinnar !

 

Það virtist skína í gegnum alla túlkun hans, að ef þýsku herirnir hefðu ekki gert svo og svo mörg mistök, hefðu þeir farið létt með að vinna þessa miklu orustu ………..!

 

Það er eiginlega illmögulegt að skilja út frá bókinni, hvernig Rússum tókst yfir höfuð að sigra við Stalingrad, aðrir eins bölvaðir hálfvitar og þeir eru sagðir hafa verið og yfirstjórnin gjörsamlega ómöguleg frá grunni !

 

En bresk stjórnvöld virðast nú hafa skilið úrslitin við Stalingrad nokkuð öðruvísi en höfundur þessarar bókar og þessvegna hefur kóngurinn líklega verið látinn senda Rússum Stalingrad-sverðið sem sérstakt heiðurstákn vegna sigursins þar !

 

En hvað sem annars má um þetta segja, hef ég svo sem oftar fundið til þess að ýmsir sagnfræðingar, og þá kannski ekki síst breskir sagnfræðingar, virðast eiga nokkuð erfitt með að fjalla hlutlaust um mál þar sem pólitík kann að koma við sögu !

 

Mér fundust til dæmis efnistökin í umræddri bók sýna mér það ljóslega að eitthvað annað hlyti að liggja að baki hjá höfundi hennar en að koma réttum hlutum til skila !

 

Mér finnst það samt afskaplega ergilegt að upplifa, að menn sem ættu að hafa hlotið staðgóða menntun til ákveðins hlutverks á fræðasviði, reynist ekki færir um að standa þar vel að verki, vegna eigin fordóma og jafnvel pólitískrar öfgahyggju !

 

Mér er minnistætt að bók feðganna Randolphs og Winston Churchills yngra um Sex daga stríðið hófst eftir inngangskaflann á þessari setningu : ,, Það byrjaði allt með lygi – rússneskri lygi !”

Þar með var strax hægt að sjá, að pólitísk afstaða höfunda til mála myndi ráða textanum, en ekki hlutlaus umfjöllun á sagnfræðilegum grunni. Enda reyndist ritverkið ekki merkilegt !

 

Sumir sagnfræðingar, sem þá eru yfirleitt hægrisinnaðir og öfgafullir sem slíkir, virðast hafa mikla ánægju af því að skrifa um atburðarásina í seinni heimsstyrjöldinni, frá upphafi hennar og fram að árinu 1943. Þá voru nefnilega árásaraðilarnir í sókn og allt líklega eins og það átti að vera !

 

En eftir að Þjóðverjar misstu frumkvæðið í styrjöldinni og voru reknir til baka, alla leið ofan í nazistahreiðrið í Berlín, virðist ekki vera eins gaman af framvindunni. Þá virðist styrjöldin vera komin á ranga braut, að mati slíkra manna, og þar með ekkert varið í málin lengur !

 

Ekki er erfitt að geta sér þess til hverjum slíkir aðilar hafa óskað sigurs í styrjöldinni. Vondur er heimurinn margra hluta vegna, en hvernig halda menn að hann væri, ef hann hefði komist undir ógnarforræði nazista upp úr 1940 og öllu mannlegu þar með ýtt út af kortinu ?

 

Það gæti eflaust orðið fróðlegt að lesa bók sem gerði það mál að höfuðefni, en slíkt ritverk krefðist sannarlega höfundar sem væri eitthvað meira en ómerkilegur og öfgafenginn sagnfræðipólitíkus !


Að hafna hisminu en halda kjarnanum !

 

Ég held að yfirstandandi tími sé á réttum mælikvarða einn mesti auðhyggjutími sem yfir landið okkar hefur gengið. Allt virðist metið til verðs um þessar mundir og auðgildið er látið breiða sig yfir allt manngildi eins og leiktjöld úr neðra. Það virðast hreint engar hugsjónir í gangi, aðeins lýðskrum og lygar !

 

Þetta er mikil afturför í andlegum efnum og sérstaklega er ámælisvert hvað margir virðast í dag telja óheiðarleika eiga að flokkast með sjálfsbjargar-viðleitni. Þjóðin hefur greinilega tekið nokkur skref aftur á bak í siðmennt og vandséð er hvort hún rati aftur inn á vegi dyggða og drengskapar !

 

Mammon er harður húsbóndi og það er orðið allt of margt fólk í þessu landi sem heldur að það eigi peninga en veit ekki að því er öfugt farið. Peningarnir eiga það !

 

Ég hef persónulega haft kynni af mönnum sem voru áreiðanlega að upplagi góðir drengir, en hafa orðið fórnarlömb Mammons vegna þess að þeir sóttust allt of mikið eftir peningum, sem er það sem hann notar mönnum mest til falls. Þeir hafa fallið fyrir skurðgoði efnishyggjunnar !

 

Einu sinni hét dagblað eitt verðlaunum fyrir bestu skilgreininguna á gildi peninga. Verðlaunasvarið var þetta : ,, Það er hægt að kaupa allt fyrir peninga, nema hamingjuna. Og þeir eru aðgangseyrir að öllu, nema himninum !”

 

Norska skáldið Arne Garborg á að hafa ritað eftirfarandi skilgreiningu : ,, Það fæst allt fyrir gull, - eða peninga, segja menn. En það er nú ekki rétt. Það er hægt að kaupa mat en ekki matarlyst, meðul en ekki heilbrigði, mjúkar sængur en ekki svefn, gyllingar en ekki fegurð, glæsileik en ekki unað, skemmtun en ekki gleði, þjóna en ekki trúmennsku, náðuga daga en ekki frið. Í stuttu máli sagt. Menn geta keypt hismið en ekki kjarnann fyrir peninga !”

 

Dwight Moody var eitt sinn spurður : ,, Hvað er lyndiseinkunn ?” Hann svaraði :,,Lyndiseinkunn mannsins lýsir sér í hegðun hans þegar myrkrið skýlir honum !”

 

Jú, ætli það sé ekki svo. Menn gera ýmislegt í leyndum og halda að þeir komist upp með það, en þeir gleyma því að það er alltaf einn sem sér !

 

Ríkidæmi efnishyggjunnar hjálpar engum til að höndla hið endanlega mark. Það ríkidæmi líður undir lok við andlátið. Jafnvel áður en sá ríki tekur andvörpin eru erfingjarnir kannski komnir í hár saman um arfinn.

 

Það er hin ömurlega niðurstaða ævilangrar baráttu einstaklings fyrir eftirsókn eftir vindi !…. Og slík barátta er líklega háð af fleiri Íslendingum í dag en nokkru sinni fyrr !

 

Lífið hér er aðeins skuggsjá hins raunverulega lífs. Hið eilífa líf í veröld Guðs er hið endanlega mark og að því marki ættu allir menn að keppa. Það eitt hefur varanlegt gildi !

 

Allt sem dregur hugsun og hjörtu manna í jarðlífinu frá því marki er falli og dauða vígt – til frambúðar !


Botnlaust ástand !

 

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins hefur löngum verið eldfimt og vandséð hvað getur leyst þar úr málum. Hvort sem við tölum um Ísraelsmenn eða araba eiga hvorir um sig sína öfgamenn sem blása að glóðum haturs og úlfúðar. Ættmennadeilur eru sjaldnast til fyrirmyndar og ættfaðirinn Abraham ætti bara að sjá hvernig afkomendur hans hegða sér enn þann dag í dag !

 

En hatur er ekkert nýtt fyrirbæri í okkar syndum spilltu veröld. Gyðingahatur hefur alltaf verið til og leitt af sér eina mestu ómennskulægð sem mannkynssagan þekkir. Sumir hata semíta yfir línuna og til eru þeir sem sérstaklega eru hatursfullir út í araba og múslima. Ekkert af þessu er líklegt til að bæta heiminn, enda víst ekki verið að stefna að því !

 

Og þeir sem ættu þar helst að bæta úr, eins og forustumenn öflugustu ríkja heims og ýmissa valdamikilla alþjóðastofnana, gera lítið annað en að halda endalausa fundi og rífast. ,,Heimur versnandi fer” segir gamla fólkið enn sem fyrr, og unga fólkið er svo upptekið við að skemmta sér, að það gefur sér engan tíma til að huga að versnandi framtíðarhorfum. ,,Lífið er núna !” segir það í upphafinni sjálfsdýrkunar-dagskrá sinni !

 

En tíminn líður hratt og unga fólkið í dag mun búa við það sem kemur og afleiðingarnar af þeim ákvörðunum sem nú er kannski verið að taka. Þegar þar að kemur verður ábyrgð ekki vísað annað en til þeirra !

 

Þá mun líka vera að vaxa upp ný kynslóð ungs fólks sem skeytir lítið sem ekkert um varnaðarorð foreldra sinna, sem ef til vill hafa loksins lært eitthvað, og sagan endurtekur sig svo í enn verri mæli en áður !

 

Sumir sem eru hatursfullir út í Ísraelsmenn og gyðinga almennt, tala mikið um það, að þeir ættu öllum fremur að hafa lært þá lexíu að forðast ofbeldi ? En hver hefur gert það, og af hverju ættu gyðingar að bregðast þar við öfugt við alla aðra ? Ofbeldi fæðir af sér ofbeldi – hjá öllum !

 

Fjölskyldudeilur eru oft hatrammar og rætur Ismaels og Ísaks munu víst seint vaxa saman. Þær eru ekki af sama meiði þó ættfaðirinn sé sá sami. Andleg samleið er þar ekki til og auk þess á blóð Söru og Hagar enga samleið heldur. Þarna glíma andstæðir pólar og hafa gert frá upphafi !

 

Menn um heim allan taka afstöðu til vandamálanna fyrir botni Miðjarðarhafsins á svo margbreytilegum forsendum að það hálfa væri nóg. Ekki er hægt að segja að eðlileg dómgreind komi þar mikið við sögu. Þeir sem þar hafa viljað ganga veg friðarins að einhverju leyti hafa yfirleitt orðið fyrstu fórnarlömbin !

 

Það eru raunar engar forsendur fyrir lausn þessara mála meðan heimurinn er eins og hann er !

 


Leikur að orðum – um alþýðu og elítu !

 

 

 

Eins og jafnan hefur verið, virðist alltaf tilhneiging til þess hjá sumum að hafa goggunarröð á öllu. Þá eru sett forskeyti á orð sem eiga að lýsa stöðu manna, svona til að undirstrika að um sé að ræða annan flokk og líklega þá óæðri á einhverja vísu. Alltaf virðist þá liggja að baki óhamin umhyggja fyrir eigin sjálfi !

 

Nú er kveðskapur ákveðin íþrótt meðal þjóðarinnar sem margir stunda. En af einhverjum ástæðum er þar um einhverja skiptingu að ræða, það er talað um alþýðukveðskap og svo eitthvað annað, líklega menntamanna-yrkingar, sem á þá sennilega að vera eitthvað miklu merkilegra fyrirbæri !

 

Það er svo sem allt í lagi að einhverjir menntamenn vilji aðgreina sig frá þjóðinni með sinn kveðskap, en þá er líka hið eðlilegasta mál að hann heiti eitthvað afmarkað líka, til dæmis menntamanna-skáldskapur sem fyrr segir eða bara elítuskáldskapur !

 

Hvernig var það annars með Bólu-Hjálmar ? Var hann alþýðuskáld eða þjóðskáld ? Og hvað um Pál Ólafsson, hvernig ber að skilgreina hann ? Og fleiri mætti sosum nefna sem virðast vera læstir þarna í einhverskonar millistöðu. En er ekki nóg að segja bara að umræddir menn hafi verið skáld ?

 

Eigum við kannski að fara að yfirfæra umrædda aðgreiningu á aðrar íþróttir og tala um alþýðugolf, alþýðufótbolta, alþýðuhandbolta, alþýðusund, alþýðuglímu og frjálsar alþýðu-íþróttir !

 

Og svo í framhaldi mætti tilgreina einhverjar uppskrúfaðar æðra stigs íþróttir með tilheyrandi pomp og pragt ? Ég held þó að slík viðtenging á málfræðivísu yrði ekki sérlega vinsæl í daglegu máli eða muni falla í kramið hjá þjóðinni !

 

En hvað kemur þjóðinni annars málið við ? Sú skipting sem hér er gerð að umtalsefni er ekki gerð að tilhlutan þjóðarinnar. Það er sjálfskipuð elíta sem býr slíka aðgreiningu til, væntanlega til þess eins að auka eigið ágæti. Önnur leið til þess er nefnilega ekki til og verður aldrei til !

 

Þegar menn ganga um kirkjugarða, geta þeir séð að aðgreining er þar líka viðhöfð. Þeir legsteinar sem rísa þar hæst eru yfirleitt á grafreitum peningafursta og annarra slíkra goggunarraða-greifa, stundum stærðar björg !

 

Ég held að nógu erfitt muni slíkir eiga varðandi upprisuna, þó þeir séu ekki jafnframt pressaðir niður með grjóti í tonnatali !

 

 


Skagastrandarbyggð eða Skagabyggðarströnd ?

 

 

Ákallið eftir hinu mikla forsjárvaldi hefur löngum viljað verða sterkt í þessum heimi. Það hafa aftur og aftur verið byggð upp öflug ríki á þeim grunni, en þau hafa öll hrunið með skelfilegum afleiðingum. Menn hafa varið þar heilu öldunum í gífurlega fórnfreka uppbyggingu í krafti drauma sinna um síðari velsæld, en það hefur alltaf endað með hruni !

 

Samþjöppun valds er ekki af því góða og verður það aldrei. En allir vilja samt fá hlutina til sín en enginn vill láta taka neitt frá sér. Staðreyndin er hinsvegar sú, að maðurinn verður að geta búið við skikkanlegt frelsi ef honum á að geta liðið vel. En sem vitað er, býr miðstýringarvald alltaf yfir frelsisskerðingum !

 

Frelsisþrá hins mannlega hjarta þarfnast þess sama á nærslóðum sem annars staðar. Súdan og Grímsnesið er enn af svipuðum toga hvað það snertir. Þannig verður það alla tíð !

 

Ef gamli Vindhælishreppurinn tekur upp á því að sameinast á ný, ætti svo sem ekki að vera erfitt að finna nafn á krógann. Þau sveitarfélög sem eru þar innan marka eru bara tvö, Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagabyggð. Samkvæmt fyrirsögn þessa pistils væri líkast til auðvelt að mynda sameiginlegt nafn á getnaðinn út frá fyrri nöfnum þessara sveitarfélaga !

 

En samvinna þessara tveggja sveitarfélaga hefur lengi verið allmikil og góð og í sjálfu sér engin sérstök ástæða til að breyta því sem er. Ef menn kjósa að líta á það sem óhjákvæmilegt lokatakmark að sameina alla austursýsluna í eitt sveitarfélag og hafa alla stjórnsýslu á Blönduósi, má spyrja, af hverju ætti það að vera lokahnykkurinn á sameiningarferlinu, í leitinni að hinum sterka bakhjarli ? Vilja þeir sem þannig hugsa ekki bara fara alla leið !

 

Mætti ekki í framhaldinu sameina sýsluna og Skagafjörðinn og færa svo stjórnsýsluna fyrir allt svæðið á Sauðárkrók ? Myndu Blönduósingar ekki fagna því – eða hvað ?

 

Mætti ekki síðar víkka svigrúm hins rísandi stórveldis svo enn frekar út til austurs og færa stjórnsýsluna á Akureyri ? Skagfirðingar myndu líklega fagna því – eða hvað ?

 

Mætti svo ekki að lokum gera allt landið að einu sveitarfélagi undir nafninu Reykjavíkurhreppur og hafa stjórnsýsluna í höfuðborginni ? Akureyringar myndu trúlega fagna því – eða hvað ?

 

Svo þegar hreppsómagar hinnar takmarkalausu menningarhyggju verða kannski orðnir óþarflega margir, gæti framhaldið orðið að sveitfesta þá út í Brussel, sem hlýtur þá að vera úthugsað lokamarkmið innmúraðra sameiningarsinna !

 

Enda telja þeir hinir sömu þá vafalaust flestir, að þeir séu þar með komnir í aldingarðinn Eden og lengra verði ekki komist í velmegun. En þar var nú reyndar til staðar höggormur !!!

 

 


Hvert liggur leiðin ?

 

Eins og menn hljóta að vita er ekki hátt mat á því í dag sem er hreint. Hið mikla frelsisákall nútímans gerir það að verkum að ekkert á að vera hreint eða má vera hreint. Menn eiga að hafa fullan rétt til að skíta sig út eins og þeim þóknast. Hreinleiki er sagður merki um reynsluleysi og menn eiga að vera sjóaðir og reyndir í þessari tilveru. Annað er sagt aumingjadómur !

 

Í eina tíð voru hreinar meyjar eftirsóttar. Menn vildu eignast hreinar meyjar þegar þeir giftust. Það þótti eðlileg krafa á sínum tíma.

Og þannig virðist hafa verið gengið frá málum varðandi konur að þessu leyti, að líkamlega átti að geta legið fyrir hvort kona var hrein mey eða ekki. Meyjarhaftið sagði til um það meðan það var til staðar. Áður þótti það ljóður á konu ef hún gekk ekki hrein til brúðarsængur !

 

En af hverju voru karlmenn ekki skapaðir með einhverskonar sveinshaft ? Eða máttu þeir bara hafa það eins og þeim sýndist ? Af hverju sagði ekki neitt til um það hvort þeir væru hreinir sveinar eða ekki ? Gat ekki verið að konur vildu að verðandi menn þeirra væru líka hreinir að þessu leyti þegar út í hjónaband var komið ? Eða eru kröfur kvenna til hreinleika miklu minni en kröfur karla ?

 

Maður nokkur sagði eitt sinn, að hann vildi ekki að verðandi eiginkona hans væri eins og hálfétið epli. Það var áður en svokallaður fjölbreytileiki í kynlífsreynslu fór að þykja frelsis ávinningur til meiri þroska og aukins gildis, og allt að því allra meina bót í samskiptum kynjanna !

 

Casanóvar og Messalínur virðast á hverju strái í dag og þykir ekkert tiltökumál. En að hamingja fólks hafi aukist við allt frjálsræði nútímans í kynferðismálum er ekki þar með sagt. Eftir ótal sambönd verður fólk líklega miklu frekar sálarlega og hugarfarslega tætt. Seint verður nefnilega fjöllyndi talið næsti bær við tryggð og dyggð !

 

Það er eiginlega merkilegt á þessum tæknitímum, að fólk skuli ekki vera farið að ganga með teljara á sér varðandi bólfélaga. Svona svipað og taldir eru laxar sem fara upp laxastiga. Það hljóta að aukast líkur á því að viss ruglingur komist á afrekaskrána þegar fjöldinn er orðinn mikill ?

 

Og hver er svo eiginlega ávinningurinn af slíku líferni ? Hætt er við að það skilji sín merki eftir á sál og líkama þeirra sem þannig lifa. Það getur því enganveginn verið æskilegt og heilbrigt á lífsleiðinni að mannfólk verði einhverskonar kynferðislegar umferðarmiðstöðvar ?

 

Margir eyðileggja sig á fáum árum með því að aðhyllast svall og svínarí. Það er kallað ,, að lifa lífinu,” en æði oft endar það hinsvegar með ótímabærum dauða. Gömlu, grísku spekingarnir töluðu um það sem gott lífsmarkmið að stefna að heilbrigðri sál í hraustum líkama, en hvorugt verður lengi til staðar í lífi þeirra sem aðhyllast ofnautnir og hófleysu !

 

Þegar allt kemur til alls, virðast hin gömlu viðmið vera hollari til heilbrigðis og velfarnaðar, en hið mikla frjálsræði nútímans. Þó það veifi sínu afvegaleiðandi Laodíkeu-flaggi af miklum ákafa á heimsvísu, er það í raun og veru að fara með svo margt gott og uppbyggilegt til a……… !

 

 


The Spitfire Master !

 

 

Mitchell the Spitfire Master

was making a plane to go faster,

that was what he wanted to do.

He died on June the eleven,

in nineteen thirty seven,

flew away – only forty two !“

 

Reginald Mitchell var meistari snjall

og margt í hans kolli bjó.

Svo óþreyja mikil í æðunum svall

en ekkert sem bauð upp á ró.

 

Hann horfði til framtíðar – fleygur í sýn,

og fann þar sitt andlega mið.

Því sköpunarþráin var brennandi brýn

og blómstraði um hugarins svið.

 

Hans hugsun var ofar en annarra þá

en enginn það skildi né mat.

En fuglana horfði hann fljúgandi á

og fann hvað hann vildi og gat.

 

Hann skoðaði flug þeirra og fylgdist með þeim

svo fimlega svífa við haf.

Þeir áttu svo víðan og voldugan heim

og vængi sem frelsi þeim gaf.

 

Þar samræmið fullkomna sá hann og leit

og sífellt þar glímdi við þraut,

að færa þá hæfni í fljúgandi sveit

sem flygi við miðbaug og skaut.

 

Hann skapaði flugvél sem leysti hans land

frá lamandi ósigri og neyð,

það vopn sem varð óvina eyðing og grand

en ættjarðar blessun um leið.

 

Hann Englandi veitti það svífandi svar

er sigurinn færði í hlað.

Og fyrstur í hópnum þeim fámenna var

sem fórnaði sér fyrir það !

 

(RK - Fjörusprek og Grundargróður)

 

 


Baskar

 

Saga þeirra er sérstök að flestu leyti,

þeir sóttu lengra um hafið en aðrar þjóðir.

Sú glögga hugsun sem frægði það föruneyti

var farsæl og leiddi þá áfram um gjöfular slóðir.

Þeir lærðu að nýta sér auðlindir ýmsar betur

en aðrir - en færðu þá þekkingu sjaldan í letur.

 

Þeir vildu njóta þess sjálfir með sigrandi hætti

er saman þeir höfðu aflað með dugnaði og þreki.

Sá ávinningur sem afkomu þeirra bætti

var aldrei látinn vera í neinu á reki.

Að kynna hann öðrum var þeim ekki þarflegt í neinu

og það var í skilningi þeirra og vitund á hreinu.

 

Þeir þróuðu verklegar menntir á mörgum sviðum

því mjög var þeim tamt að kynna sér allskyns fræði.

Þeir leituðu víða til fanga á fjarlægum miðum

og fundu og kunnu að nýta sér margskonar gæði.

Þó aðrir brygðust og ynnu sér lítið til sóma

þeir önnuðust garð sinn og létu hann standa í blóma.

 

Þeir báru í sér sjálfum uppsprettur ótal ráða

og efldust að kjarki við þjóðernisfylgjurnar rammar.

Það bjó í þeim harka og hugsun til vinnings og dáða

og heilsteyptur vilji sem aldrei varð sér til skammar.

Í baskneskum heimi var manndómslund meðfæddur arfur

og maður hver trúr og kynfylgju sinni þarfur !

 

(RK)

 

 

 


,,Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur !”

 

 

 

Oft hafa forustumenn sjálfstæðisflokksins verið gleiðir og kampakátir á Natófundum, þó að þeir hafi sennilega aldrei sýnt þar jafnmikla hrifningu og meðvirkni og gömlu alþýðuflokksbroddarnir, sem sjaldnast héldu þar vatni. En nú fer að liggja ljóst fyrir - að Kata slær þeim öllum við !

 

Það er eins og aumingja manneskjan kunni sér ekki læti þegar hún kemur þarna í blessaðan vinahópinn og maður gæti sem best búist við því að hún færi að syngja á sviðinu ,,Ég er komin heim í heiðardalinn” eða eitthvað álíka, svo mikill er sýnilega fögnuðurinn og sælutilfinningin yfir félags-skapnum !

 

Þannig virðist það vera þó annað væri haft uppi við í eina tíð og sé enn, af og til. En svona leikur hagsmunapólitíkin margt fólk og sumir fara nánast í hamskipti fyrir margan fundinn. Og verkin sýna þar sannarlega merkin.

Þegar Kata er á Natóþingi er útgeislunin svo mikil frá henni, að Hiroshima 6. ágúst 1945 kæmist þar varla í samjöfnuð !

 

Ég frétti fljótt að vinur minn Enginn Allrason hefði kveðið vísur af þessu tilefni og þar sem þær vissulega segja sitt, finnst mér rétt að birta þær hér með sjálfgefnu leyfi höfundar :

 

Kata glöð og ánægð er,

undir það má kvitta.

Út með Gulla í ferðir fer,

fær þá marga að hitta !

 

Þó eru alkunn þjóðarslys,

því skal ekki gleyma,

að ýmsir verða erlendis

öðruvísi en heima !

 

Þar er Kata þetta og hitt,

það má sjá og finna.

Innan sviga eðli sitt

er hún þá að kynna !

 

Uppi á sviði sveiflu tók

sæl og glöð hjá Nató.

Virtist orðin íhaldsblók

eins og gamli Cató !

 

Stóð hún þar með Stoltenberg,

stolt að mæta á þingin.

Orðin blá í bein og merg,

- búin að fara hringinn !

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 49
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 1144
  • Frá upphafi: 397580

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1025
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband