24.9.2021 | 20:36
,,Íslensk spilling er síst betri en önnur !
Það dylst ekki neinum Páli og Pétri
sem pretti lítur,
að íslenskur skítur er engu betri
en annar skítur !
Er verið að taka landið frá þjóðinni ? Einkaaðilar eru og hafa verið undanfarin ár að markaðssetja helstu perlur þjóðarinnar sér til ábata og enginn gætir hagsmuna almennings, allra síst ríkið sem virðist hafa orðið á síðari árum að sérstöku aðstöðuhreiðri græðgisfullra sérhagsmunahópa !
Eins virðast sveitarstjórnir hafa verið yfirteknar víða um landið af einkaaðilum sem hafa plantað sér inn á þær á þann máta, að þær virðast ekki lengur geta haldið á málum með heilbrigðum hætti. Spillingin ríður húsum hér og þar og allt of mikil völd virðast komin þar sem þau eiga ekki að vera og lýðræðið mælir ekki með !
Það virðist núorðið vera haft eftirlit með öllu, einkum til þess að almennir borgarar á Íslandi njóti ekki neins góðs af hlunnindum lands og sjávar. Sægreifar og landgreifar eiga að vera í sérréttinda-aðstöðu varðandi alla hluti. Þeirra skal vera hið margrómaða land tækifæranna !
Slíkir aðilar virðast eiga að fá að selja útlendingum landið og stinga öllum ágóða í eigin vasa. En hvar sem einhverjum mínusliðum bregður fyrir í dæminu, á þjóðin að borga þá almenningur þessa lands !
Landið og landhelgin öll virðist eiga að vera undirlögð þeirri ógeðslegu valdaklíku sem þarna er á ferðinni. Þessi blóðsuguklíka virðist vera varin af kjörnum fulltrúum fólksins í bak og fyrir í öllum flokkum og hagsmunir hennar látnir ganga fyrir í öllu !
Hversvegna í ósköpunum kjósum við aftur og aftur óhæfa frambjóðendur á þing sem hafa lítið sem ekkert til brunns að bera ? Er það af því að ekkert annað er í boði og af hverju er þá ekkert annað í boði ?
Fólkið í landinu er látið borga allan kostnað sem fylgir arðráninu á því sjálfu. Þrælahald og mismunun virðist í bullandi vexti og arðránsböðlarnir sitja sem feitar blóðsugur í Reykjavík og drakúlast þar allar stundir !
Kolsvart andavald hins gamla kúgunarofríkis kaupmanna og stórbænda virðist komið aftur, íslenskum þjóðarhagsmunum til mestu bölvunar, eins og löngum fyrr. Það virðist eiga að vera ávinningur 100 ára sjálfstæðis okkar og nærri 80 ára lýðveldis að allt sé á kafi í spillingu !
Milljarðatæki eru notuð til að passa upp á það að þjóðin njóti ekki neins góðs af eigin auðlindum. Þyrlur eru látnar svífa með ströndum landsins til að tryggja það að arðránsöflin haldi sínu. Öll veiði skal þjóna þeim. Þjóðin borgar hinsvegar bensínreikninginn að sjálfsögðu !
Þetta er veruleikinn í dag ! Varðhundar eru sendir út um allt með tilheyrandi kostnaði. Eftirlit kallar á eftirlit, innra eftirlit fylgist með ytra eftirliti og allt stefnir í enn eina útgáfuna af lögregluríki, þar sem allir verða undir smásjá. Er þetta virkilega það sem verða á og líðast skal ?
Það eru settar upp stofur þetta og hitt og safnað þar arðránsvaldi. Spillingarandi Stóra Bróðurs virðist alveg farinn að ráða kerfinu. Eftirlitsmálaráðuneytið bólgnar út með hverju árinu !
Það er enginn kommúnismi sem er að skapa þetta ástand. Kommúnista-valdamenn síðustu áratuga voru fæstir kommúnistar að lífssýn, bara að nafninu til. Þeir klifruðu að vísu til valda eftir stiga kommúnismans, en hefðu annars notað hvað sem var sem hentað gat þeim til þess að komast á toppinn. Þannig hafa skítmenni hegðað sér á öllum tímum !
Þessir svikakommúnistar lærðu af kapitalistunum og konungs og keisarasinnunum sem á undan þeim fóru, þeir lærðu að elska valdið og fórna því öllu. Þeir voru verri en hinir því þeir sviku fólkið enn verr, fólkið sem þeir þóttust alla jafna bera svo mjög fyrir brjósti !
Og alltaf er sama prógrammið í gangi hjá öllu svona óþverraliði, að halda fólkinu niðri, að halda gæðunum frá alþýðu manna, að sjá til þess að valdastéttin sé og verði hin sama og njóti alls á kostnað almennings !
Sú breytni á sammerkt við það sem sagt var um skattpening hér fyrir nokkrum árum, af einum innvígðum klíkufélaga, sem þó var af alþýðuættum : ,,Fólkinu kemur ekkert við hvað gert er við þessa peninga !
21.9.2021 | 16:25
Gömlu sósíalistarnir ,,nýju sósíalistarnir !
Ljóst er að Sósíalistaflokkurinn gamli átti sér að flestu leyti merkilega sögu, enda var hann í raun og veru skjól og skjöldur alþýðu manna lengi vel. Forusta flokksins var lengst af í höndum manna sem voru alveg gegnheilir hugsjónamenn og brugðust aldrei í neinu. Þar byggðist ekkert á hentistefnu. Þar gengu fremstir meðal jafningja Einar Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason og Sigfús Sigurhjartarson !
Þau afrek sem þessi ágæti flokkur vann fyrir almenningshag verða hinsvegar seint eða aldrei viðurkennd innan þess sérgæskufulla samfélags sem byggt hefur verið upp í þessu landi, ekki síst á síðari árum. Enginn þarf heldur að búast við því !
Sú öfugþróun hefur auðvitað átt sér stað fyrir tilstyrk þeirra afla sem alltaf hafa nítt niður hugsjónir jafnaðar, félagshyggju og réttlætis og spillt öllu því sem gott er og göfugt. Það er gömul og ný sorgarsaga, en slík framvinda hefur alltaf stuðst við lægstu og ómerkilegustu hvatir og eigindir mannskepnunnar. Auðvald hefur alltaf byggst á græðgi !
En afrek Sósíalistaflokksins gamla lifa samt áfram í minningum fólks í ræðu og riti og meðal heilbrigðari hluta þjóðarinnar, umvafin virðingu og þakklæti. Þau munu aldrei verða þöguð í hel !
Og nú er kominn fram nýr flokkur sem telur sig geta komið fram í nafni sósíalismans og hugsjóna gamla flokksins. Það er nú svo, að þar er miklum arfi að lyfta og ekki mun mörgum gefið að geta axlað það hlutverk með sóma. Það er sannarlega ekki á allra færi að standa heilir undir stóru nafni !
En með mikilli fórnfýsi og óeigingirni má þó vafalaust enn vinna afrek og sigra fyrir alþýðu landsins, ef menn hafa styrkinn og rétta hugarfarið til þeirrar miklu baráttu sem það mun kosta !
En þegar ég lít yfir framboðslista þessa nýja flokks sem hér um ræðir, bregður mér heldur í brún. Í okkar litla samfélagi þekkir fólk mikið til hvers annars og ég fæ ekki annað séð en svipaðir sérgæðingar og sjá má á öðrum framboðslistum, séu víða í framboði fyrir þennan nýja flokk !
Ég sé ekki endilega fólk þar sem þekkt er af heilbrigðri samfélagskennd, fórnfýsi og óeigingirni. Ég sé þar fólk sem hefur sýnt sig með allt öðrum hætti. Hvað er slíkt fólk að gera í röðum sósíalista ? Veit það nokkuð fyrir hvað það stendur eða á að standa ?
Er kannski rétt eina ferðina enn verið að reyna að klifra veg til eiginhagsmuna og sérgæskustöðu í gegnum flokksnafn sem á sér tiltölulega hreinan skjöld og orðstír ? Það hefur svo sem áður verið gert !
Ég veit ekki hvað er þarna í gangi, en hef miklar efasemdir um að það sé af eins hreinum hvötum og látið er í veðri vaka. Og ég minnist þess, að enginn flokkur er betri en fólkið sem í honum er og sérgæðingar verða seint að hugsjónamönnum !
Ég velti því fyrir mér um tíma hvort ég ætti að styðja þá tilraun sem þarna virðist vera á ferð, en í ljósi þeirra upplýsinga sem fram eru komnar um það hverjir eru frambjóðendur flokksins, treysti ég mér ekki til að trúa því, sem manni er líklega ætlað að trúa, að þarna séu full heilindi á ferð !
Að mínu mati eru forsendurnar fyrir trúverðugleikanum allt of veikar til þess að það sé hægt. Nýju sósíalistarnir eru svo gjörólíkir þeim gömlu, að þeir vekja því miður enga tiltrú hjá mér og falla þar í öllum samanburði !
En frómt frá sagt - mikið væri það annars gott fyrir allan almannahag ef gömlu sósíalistarnir eða jafnokar þeirra - væru komnir aftur !
19.9.2021 | 09:56
,,Helgarmenning höfuðborgarinnar !!!
Það er ekki skemmtilegt að hlusta á helgarfréttir útvarpsins um mannlífið í höfuðborginni. Nánast um hverja helgi virðast meira og minna alvarleg ofbeldistilfelli eiga sér stað. Þau gerast á götum borgarinnar, einkum í miðborginni, og eiginlega ekki síður í heimahúsum. Og það gerist á sama tíma og hávær umræða fer fram á samfélagsmiðlum gegn beitingu ofbeldis !
Við skulum hafa það í huga að ofbeldi er ofbeldi hvort sem það beinist gegn konum eða körlum. Þessi síendurteknu ofbeldistilfelli sýna okkur hvert stefnir. Við erum alls ekki á réttri leið. Ef fer sem horfir, verða lögreglumenn landsins líklega farnir að ganga með vélbyssur eftir áratug eða svo !
Að minni hyggju á sér stað mikil innræting ofbeldis í landinu. Sjónvarpsrásir dæla út ofbeldis-mettuðu efni alla daga og það er verið að nauðga, drepa og misþyrma fólki í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og hverskonar framhaldsefni daginn út og inn. Heldur fólk að þessi stöðuga, dagskrárbundna sýnikennsla á ofbeldi hafi ekki nein áhrif ?
Margt af þessu efni er framleitt undir þeim formerkjum að það sé eiginlega bara verið að sýna hvernig vernda þarf samfélagið og upplýsa glæpi. Lögreglan sé að berjast við undirheimalýðinn og öll á þessi framleiðsla því að flokkast undir það að verið sé að halda uppi lögum og reglu !
En sorinn sem flýtur yfirleitt með svona myndefni er hinsvegar alveg yfirgengilegur og hreint ekki boðlegur sæmilega heilbrigðu fólki. Það ætti flestum að vera ljóst. Og með þessum hætti og öðrum fær ofbeldið að sístreyma inn í stofurnar okkar og valda þar sínum skaða !
Þegar hömlulaust áhorf á ofbeldismyndir fer saman við óhóflega áfengisneyslu manna, er mjög hætt við því að margir fari yfir mörkin. Þá geta atburðir gerst sem geta kallað á iðrun eða forherðingu eftir atvikum. Og það getur átt við um allar stundir í lífi viðkomandi fólks þar á eftir. Eyðilegging á hamingju heilla fjölskyldna getur þar orðið afleiðingin !
Það má alveg ganga út frá því að þau eitrunaræxli sem virðast þenjast út í mannlífi höfuðborgarinnar, muni dreifa sér út um allt landið í auknu magni á komandi árum. Það er ekki uppörvandi framtíðarsýn !
Einn af neðri endum skolpræsis allrar ómenningar Evrópu virðist nú meðal annars vera staðsettur í miðborg Reykjavíkur og ausa þar úr sér viðbjóðnum yfir þjóð sem var fyrir tiltölulega skömmu laus við slíka ,,fjölmenningu !
13.9.2021 | 10:12
Alveg íslenskur Erlendur !
Erlendur F. Magnússon smiður og útskurðarmeistari með meiru, varð nýlega áttræður. Hann hefur lagt gjörva hönd á margt um dagana og sitthvað kraumar enn í kolli hans með krafti sköpunargleðinnar !
Menn geta enn fengið að gleðjast yfir handaverkum hans á Hótel Geysi og víðar og margir muna eflaust eftir fjölbreyttum útskurði hans í Eden í Hveragerði meðan sá staður var og hét !
Erlendur er sonur heiðurshjónanna Magnúsar Finnbogasonar smiðs og hugvitsmanns og Laufeyjar Jakobsdóttur, ömmunnar góðu í Grjótaþorpinu. Ættargenin eru austfirsk að stofni til og standa auðvitað vel fyrir sínu !
Snemma á þessu ári sendi ég þessum hugmyndaríka hagleiksmanni eftirfarandi kveðju í bundnu máli.
Erlendur með afli og dug
áralanga glímu
hefur við sitt hugarflug
háð sem kappi í rímu.
Snemma varð af snörum móð
snilldar sinnar kenndur.
Fram um brattar brautir óð,
beit í skjaldarrendur.
Þankalagði þetta og hitt,
þyrsti í fræðslu alla.
Fann í öllu eðli sitt
eftir sköpun kalla.
Áfram vaxa afrek hans
yfir tímans móðu.
Líf í huga listamanns
lofar alltaf góðu.
Hann mun efla eigin skil,
uns hin fornu regin,
toga hann í Tröllagil
tímans hinum megin !
Svo bætti ég við - til frekari áherslu utan á boðskapinn :
Þessi bæn er þér til handa,
þannig verði hún líka heyrð.
Lifðu heill í eðli og anda
alveg þangað til þú deyrð !
Þó að við lifum í arðrænandi og andstyggilegu milliliða-samfélagi, þurfti Erlendur ekki neinn millilið til að skilja kveðju þessa og þakkaði innvirðulega fyrir. Sjá mátti að austfirsku genin í honum sendu honum samstundis glampa í augu og glott á vör. Það er nefnilega engin sálarflatneskja ríkjandi í Erlendi F. Magnússyni !
Margt spjöllum við félagarnir er við hittumst og skreppum þá gjarnan í huganum til Orkneyja eða skosku hálandanna og veltum fyrir okkur sögusviðinu þar fyrir rúmu árþúsundi.
Ég held að okkur finnist báðum miklu skemmtilegra að gera slíkt, en forpokast í hundleiðinlegri framvindu samtímans !
Megi Erlendur F. Magnússon halda haus sem lengst í þessari vídd og fljúga þöndum vængjum sálar sinnar inn í þá næstu þegar þar að kemur !
1.9.2021 | 14:58
Ekki er þetta uppskeran sem að var stefnt ?
Fyrir um það bil 20 árum heyrði ég til frammámanns í íþróttahreyfingunni í viðtali í ríkisútvarpinu. Umræddur maður sagði margt og mér fannst ekki íþróttamannslega talað. Hann sagði að það ætti ekki að vera að eyða fjármunum og fyrirhöfn í fólk sem aldrei myndi geta neitt !
Það ætti þess í stað að styðja þá sem hefðu það í sér að geta orðið afreksmenn og gera þeim kleyft að verða enn meiri afreksmenn. Í því lægju fyrst og fremst möguleikarnir til meiri árangurs og aukinna tekna, að gera vel við þá einstaklinga sem eitthvað gætu !
Ég stóð og hlustaði á þetta og gerði mér þegar ljóst að verið var að jarða ungmennafélagshugsjónina um ræktun lands og lýðs. Hún var greinilega ekki lengur það leiðarstef sem hún hafði verið. Ungmennafélagsandinn var ekki að tala þarna. Það var annar andi að ryðjast til valda innan íþróttahreyfingarinnar andi Mammons, andi peningahugsunar, efnishyggju og sérgæsku !
Og hversvegna var svo komið ? Nú, það var búið að leggja allt samfélagið með pólitískum hætti undir óheftan kapitalisma og auðvitað hlaut íþróttahreyfingin að fylgja þar með ? Það átti að hámarka ávinninginn eða gróðann þar eins og allsstaðar annars staðar. Henda öllum aumingjum út og gera út á væntanlega afreksmenn og ekkert annað !
Og þannig virðist hafa verið staðið að málum síðan innan íþróttahreyfingarinnar og kannski ekki síst innan KSÍ. Nú erum við að sjá hluta af þeirri uppskeru sem þessi stefna hefur gefið af sér !
Við höfum sýnilega ýtt undir kapp manna til sigrandi framgangs en án siðmenningarlegra gilda og viðmiða. Við höfum alið upp afreksmenn, en því miður líka hrokagikki. Við virðumst hafa einbeitt okkur að því að skapa sérgæðinga úr tiltölulega góðum drengjum !
Og þegar mönnum hefur orðið á og þeir hafa gert eitthvað sem aldrei hefði átt að líðast, virðist vandinn sem skapast hefur við það, við ranga framkomu ætlaðra gulldrengja, hafa verið þaggaður niður vegna þess að afreksmenn hafa átt í hlut. Einhverjir virðast þannig hafa farið að gera út á þá stöðu að þeir væru fyrir ofan lög og rétt. Það er enganveginn ásættanlegt framgangsferli !
En þetta hefði aldrei gerst innan KSÍ ef samfélagið allt væri ekki gegnsýrt sama andanum. Hann datt ekki niður yfir KSÍ eitt og sér, hann hefur plantað sér um allt hið íslenska samfélag með hugarfarsbreytingu sem hefur spillt og raskað heilbrigðum gildum þess !
Græðgishugsun og allt of mikil peningahyggja getur eyðilagt sérhverja íþróttahugsjón og gert hana að einhverju sem hún á alls ekki að vera og snúið gildi hennar á haus. Þeir sem fylgja röngum viðmiðum geta aldrei fengið rétta útkomu úr dæminu. Mínusarnir verða fljótt allt of margir !
Ef krafa dagsins er siðbót innan KSÍ, verður að spyrja - hvernig í ósköpunum á knattspyrnu-sambandið eitt að halda heilbrigðum velli í óheilbrigðu samfélagi ? Hvernig á að standa að siðbót á einni smágrein heildarmeiðsins í siðbótarlausu þjóðfélagi ?
Er ekki staðreyndin sú, að ráðamenn eru alltaf að hygla þeim - sem þeir telja að standi sig - á kostnað annarra í þessu samfélagi okkar ?
Ein grein á sýktum stofni verður ekki tekin og læknuð og siðbætt. Það verður að lækna og siðbæta allt tréð samfélagið allt !
27.8.2021 | 17:25
Verum trú í því smáa !
Margir eru því marki brenndir að ganga með of háar hugmyndir um sjálfa sig. Jafnvel allt of háar. Það er ekki uppbyggilegt fyrir einn eða neinn og allra síst þegar menn eru einir um það viðhorf !
Hégómleiki sjálfsins er alkunnur og engum til aukins gildis. Þegar menn eru sífellt að upphefja sjálfa sig, er ástæðan oft dulin minnimáttarkennd sem brýst út með slíkum hætti !
Það er því löngum styttra milli minnimáttar-kenndar og stórmennsku-brjálæðis en margur hyggur. En þrátt fyrir allar mannlegar takmarkanir er samt hver maður sérstök sköpun og einstakur sem slíkur !
Og það sem hver maður þarf umfram allt að læra í lífinu er að ávaxta sitt eigið pund, því öðru pundi er ekki til að dreifa. En það gera menn ekki með merkilegheitum heldur með hógværð og aga !
Lítilmennska er auðvitað engum gildisauki, en lítillæti er jákvæður þáttur í persónuleika hvers þess manns sem það hefur. Það má ávaxta til mannlegrar sálargöfgi og hver sá vinnur sjálfum sér vel til þroska sem það gerir. Við tökum engin ávöxtunarpróf í þessu lífi í gegnum sérgæskuna !
Til hvers erum við hér ef ekki til að þroskast og verða betri manneskjur ! Það verða hinsvegar engir sem alltaf eru í því að hygla sjálfum sér og vilja fylla samfélagið af sérgæsku. Fari svo er heilbrigt samfélag búið að vera !
En ef við erum trú í því smáa erum við á réttri leið fyrir okkur sjálf og samfélagið. Erum við annars ekki í skóla í þessu jarðlífi, erum við ekki í grunnskóla hins æðra lífs ?
Þó að enginn sé sérlega áhugasamur fyrir því að vera af venjulegri manngerð, erum við það samt flest. Margir vilja trúlega vera óvenjulegir, en það er alls ekki öllum gefið og reyndar fáum þegar á heildina er litið !
Margir hafa eflaust velt því fyrir sér hversvegna flestir séu, þegar allt kemur til alls, bara venjulegir menn ? Svarið við því er kannski ekki svo augljóst ...og þó ! Kannski var það einmitt Abraham Lincoln sem gaf rétta svarið við því !
Maður nokkur sem var með það í huga að gera lítið úr Lincoln, sagði eitt sinn við hann, að það væri ekki annað sjáanlegt en hann væri bara ósköp venjulegur maður. ,,Vinur minn, svaraði Lincoln góðlátlega, ,, Guð hefur mest dálæti á venjulegu fólki. Þessvegna hefur hann skapað langmest af því !
24.8.2021 | 11:09
Aðgreiningar-andi sérgæskunnar !
Það er með ólíkindum hvað manninum er gjarnt að kenna öll verk við einstaklinga hvort sem einhver rök liggja til þess eða ekki. Meira að segja má sjá þess merki í Biblíunni sjálfri. Opinberunin er kennd við Jóhannes þó hún sé opinberun Jesú Krists eins og segir í upphafi bókarinnar !
Lúther mælti sjálfur gegn því að nokkur kirkja væri við hann kennd. Hann sagði : ,, Ég bið yður að blanda ekki mínu nafni í málið. Þér megið ekki kalla yður lúterska, heldur kristna. Hver er Lúther ? Mín kenning er ekki mín. Ekki hef ég látið krossfestast fyrir neinn !
Ekki vildi Páll láta neina kenna sig við Pál eða Pétur, heldur Krist. Hvernig sæmdi mér þá, sem er ekki annað en vesalt duft og aska, að gefa börnum Krists nafn mitt ?
Hættið, vinir mínir, að hanga í þessum flokksnöfnum og vera með þessar aðgreiningar .. burt með það allt saman ! Vér skulum kalla oss kristna, eftir honum sem vér höfum kenninguna frá !
Þannig talaði Lúther, en þrátt fyrir þessi orð hans eru mótmælendakirkjur enn í dag kenndar við hann og talað um Lútherstrú. En það er engin Lútherstrú til sem slík. Boðun Lúthers fól í sér kröftug andmæli innan kristinnar kirkju gegn kenningarlegum rangfærslum sem þar voru farnar að ráða lögum og lofum. Mótmæli Lúthers og annarra leiddi til siðbótarvakningar innan kirkjunnar sem ekki var vanþörf á. Siðbótarkenningin er Krists !
John Wesley stofnaði ekki til neinnar nýrrar trúar. Hann var vakningar-prédikari innan kristninnar, innblásinn Guðs maður. Eftir lát hans varð Meþódistakirkjan til sem síðan setti fram sín aðgreiningaratriði !
Þannig er það um allan heim kristninnar. Jafnvel hvítasunnusöfnuðir viðhafa ýmsar aðgreiningar og hefði maður þó talið að þannig söfnuðir ættu að vita betur. En allir söfnuðir virðast haldnir af þeim anda, að vilja undirstrika einhverja kenningarlega sérstöðu sína, líklega til að eigna sér með mannasetningum kenningarlegt vald. Sú afstaða er ekki af því góða !
Að treysta Guði er örlagamál í lífi hvers manns. Savonarola segir í einni prédikun sinni af funandi andagift : ,, Hugsaðu aldrei, að frestun Guðs þýði neitun. Haltu áfram ! Haltu fast við þitt ! Gefstu ekki upp ! Þolgæðið er ómetanlegt. Ef enginn er óvinurinn er enginn bardaginn, ef enginn er bardaginn, er enginn sigurinn, ef enginn er sigurinn er engin kórónan !
Hvar vilja menn taka sér stöðu ? Hverju vilja þeir fylgja ? Er það ekki spurningin mikla ? Allt of margir láta draga sig inn í eitthvað sem fer með þá að lokum þangað sem þeir vilja ekki fara. Þá eru þeir komnir undir utanaðkomandi vald og þar með orðnir þrælar annarlegs hugarfars. Þá hafa þeir glatað samviskufrelsi sínu !
Það gildir varðandi alla hluti í lífinu að menn þurfa að varðveita eigið hugarfrelsi. Allir menn þurfa að gæta þess að halda því frelsi sínu á lífsleiðinni og gefa það í engu undir vald annarra. Engar mannasetningar eiga að fá að leggja það í kenningarlega fjötra !
Við erum ekki fædd til að verða þrælar. Við erum fædd til frelsis !
19.8.2021 | 14:20
Biden bull og Nató della !
Joe Biden er líklega hvorki betri eða verri en Bandaríkjaforsetar eru vanir að vera. Það er jafnvel hugsanlegt að hann geti orðið meðal þeirra skárri þegar allt verður talið. En eins og sumir þeirra hafa verið, er hann stundum illa upplýstur. Og það er slæmt mál þegar forseti Bandaríkjanna á í hlut !
Biden virðist engu betur upplýstur um málin í Afghanistan en John F. Kennedy var á sínum tíma um Svínaflóa innrásina, sem varð Bandaríkjamönnum mikill álitshnekkir á fyrsta valdaári hans. Þá lærði Kennedy líklega þá lexíu sem fæstir Bandaríkjaforsetar hafa lært - að CIA er í flestum tilvikum afleitur upplýsingagjafi !
Það var heldur neyðarlegt að heyra Biden forseta tala um afghanska herinn sem bardagahæfan og öflugan her upp á 300.000 manns, og hinar nýþjálfuðu og sterku sveitir sem kæmu til liðs við hann, og að þessi herafli ætti alveg að hafa í fullu tré við talibana sem væru um 75.000 talsins !
Á sama tíma og forsetinn var að bera fram þessa veruleikafirru, var afghanski herinn að leysast upp í skipulagslausan skara og hætta að vera her. Nýþjálfuðu sveitirnar gufuðu svo upp í framhaldinu eða samtímis og Bandaríkin og Nató sátu eftir með sárt ennið og svarta Pétur einan á hendi .. Það er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem það gerist !
Og á svipuðum tíma flutti afghanski forsetinn ræðu með áskorun um að nú þyrftu menn að standa saman og berjast fyrir því sem væri í veði, en á meðan var hann sjálfur að undirbúa flótta sinn frá landinu. Og heimildir herma að hann hafi ekki beinlínis farið tómhentur !
Hvernig stendur á þessum aumingjahætti öllum saman ? Jú, Bandaríkjamenn og forustumenn Nató virðast aldrei hafa skilið hugsunarhátt Afghana eða afghanska þjóðfélags-hætti yfir höfuð. Þeir ætluðu bara að búa til eitthvað nýtt þjóðfélag í Afghanistan líklega einhverskonar vestrænt Afghanistan !
En það var engin undirstaða til fyrir slíkt í landinu. Ættflokkakerfið er þar nánast allsráðandi og hollusta manna tengist flestu öðru fremur en ríkisreknu miðstjórnarkerfi. Kabúl hefur verið eitt og landsbyggðin annað, eins og við Íslendingar þekkjum til dæmis í gegnum margan vandræðaganginn hér. Spillt höfuðborgarmafía á auðvitað ekki að ráðskast með alla hluti, - hvorki í Kabúl né Reykjavík !
Og það er sama hvað her er vel vopnum búinn, ef hann veit ekki fyrir hvað hann á að berjast og hefur enga bitastæða forustu. Það hefur margsannast í hernaðarsögunni. Franski herinn sýndi það til dæmis 1940 að hann var merglaus og forustan engin. Enda hrundi hann við fyrsta högg !
Þá var reyndar líka sagt að Rauði herinn myndi hrynja á sama hátt við innrás, en það var nú eitthvað annað. Rússar hafa alltaf sýnt að þeir eru ódeigir við að verja land sitt. Menn verða að vita í huga sínum og hjarta fyrir hverju er verið að berjast !
Afghanir vissu það hreinlega ekki, enda er ríkishugtakið, sem fyrr segir, ekki sérlega sterkt í þeirra hugsanagangi, og þarlendir menn ekki aldir upp við það að þjóna slíku fyrirbæri. Auk þess var vaðandi spilling samfara valdinu í Kabúl og valdamenn flestir að reyna að græða á ástandinu - prívat og persónulega !
Nú er líklega allur vopnabúnaður hins mikla afghanska hers og nýju sveitanna kominn í hendur talibana og má því segja að Bandaríkin og Nató hafi lagt þeim allt það herfang í hendur. En hergögn frá Bandaríkjunum sem farið hafa til Pakistans hafa nú kannski líka ratað í hendur talibana ?
Ekki er ólíklegt að Biden forseti velti því nú fyrir sér, svipað og Kennedy forðum, hverskonar gögn það séu sem hann er látinn fá í hendurnar um framvindu mála. Og líklega er hann bara hundfúll. Það þykir sjálfsagt engum gott að standa frammi fyrir fulltrúum fjölmiðla heimsins og bulla !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook
15.8.2021 | 15:44
Um tindátaleik táls og svika !
Þegar Vesturveldin, undir forustu Bandaríkjanna, fóru inn í Afghanistan fyrir 20 árum, að eigin sögn, til að hreinsa til, var veldi talibana þar, að margra mati, að hrynja. Landsmenn voru að stórum hluta búnir að fá nóg af hemjulausum yfirgangi þeirra og öfgahyggju !
En viti menn, það færðist fljótlega nýtt líf í hina fylgishrakandi hreyfingu. Og á 20 árum, hvorki meira né minna en fimmtungi aldar, hefur sýnilegasta afleiðingin af veru hinna erlendu hersveita í landinu verið - stöðug aukning á styrk talibana. Hvernig víkur því við ?
Jú, hinar erlendu hjálparsveitir hafa fært talibönum fullt af nýjum liðsmönnum, mönnum sem voru reyndar margir hverjir ekki ýkja hrifnir af talibönum áður. En loftárásir ,,góðu gæjanna á fjallaþorp og dreifðar byggðir í landinu hafa drepið fjölda fólks !
Maður sem stendur uppi einn eftir að eiginkona hans og tvö börn hafa kannski verið drepin með slíkum hætti, á ekki nema einn valkost. Hann gengur í lið með talibönum til að hefna dauða fjölskyldu sinnar !
Við brottför erlenda herliðsins hefur verið sagt frá því að nýjar hersveitir afghana hafi verið þjálfaðar til liðveislu við stjórnarherinn, en eitthvað er nú skrítið við þann gjörning. Talibanar virðast nefnilega valta yfir stjórnarherinn og þessar nýju liðssveitir eins og ekkert sé !
Héraðshöfuðborgirnar hafa fallið ein af annarri í hendur þeirra og tuttugu ára vera erlendra hersveita í landinu er ekki að skila neinu. Ætti góður málstaður ekki að geta sannað gildi sitt á 20 árum ? Jú, ef hann hefur verið góður, en niðurstaðan sýnir að þar hefur fátt verið sem skyldi !
Björgunarherinn mikli fer með skít og skömm frá Afghanistan. Það ætti að vera öllum ljóst. Brottför hans líkist engu öðru en flótta. Það er ekki hátt ris á hetjunum þegar þær snúa heim. Þar hafa menn sýnilega ekki ráðið við ætlað verkefni frekar en sovétmenn á sínum tíma !
Eftir alla hreinsunina og hjálpina er staðan verri en hún var í byrjun. Skipulagsleysið og aumingjaskapurinn hefur verið með ólíkindum !
Þeir fóru til að bjarga Írak, en gerðu þar allt verra. Þeir fóru til að bjarga Lýbíu og sama gerðist þar, og nú hljóta þeir þriðja skipbrotið í Afghanistan. Reyndar eru dæmin fleiri ef út í það er farið !
Talibanar hafa fitnað eins og púkinn á fjósbitanum við öll afskipti vesturveldanna í Afghanistan. Þeir virðast hafa fullt af vopnum og hvaðan fá þeir þau ! Það væri sannarlega fróðlegt að vita ?
Og nú virðist liggja fyrir að afghanska þjóðin verði enn og áfram að þola kúgun og harðræði öfgasinnaðra múslima, manna sem hata ekkert meira en vesturveldin !
Og sennilega verður meðferðin á þjóðinni miklum mun harkalegri vegna afskipta vesturveldanna af innanlandsmálunum á þessum síðastliðnum tuttugu árum. Hefndarhugur talibana mun þar ráða ferðinni !
Það verður líklega enn og aftur hreinsað til með öfugum hætti. Aftökur verða líklega ekki svo fáar á fólki sem hefur unnið með andstæðingunum og þar með framið landráð að mati talibana. Það er hryllilegt að hugsa til þess sem getur gerst þarna á næstu mánuðum !
Sjálft Almættið forði sérhverri þjóð í þessum heimi frá slíkum ,,hjálparher, frá slíkum ,,björgunarmönnum, sem skilja við ástandið eins og það er og hafa verið þar hinir verstu orsakavaldar !
Einskis góðs var að vænta af þessu ruslaraliði erlendis frá, sem virðist ekkert hafa vitað hvað það átti að gera í Afghanistan og hefur eyðilagt miklu meira en það þykist hafa bjargað. Hvenær ætla menn að læra af reynslunni ? Hver er í þörf fyrir hjálp slíkra Vandala ?
Nató hefur nánast verið eins og strákur á stuttbuxum í samskiptum sínum við talibana. Þeir hafa sýnilega leikið sér að forustu þessa mikla varnarbandalags vesturlanda og haft ráðamenn þar að algjörum fíflum !
Loks virðist líka hafa verið svo komið að ekkert hafi heyrst annað á skrifstofum Nató en uppgjafarvælið eitt og tómt : ,,Komum okkur burt úr þessu helvíti !
Og nú flýr herafli Nató landið og skilur alla þá sem stóðu með honum eftir varnarlausa, til að verða fórnarlömb talibana. Og helvítið sem þeir tala um, hefur að miklu leyti verið búið til af þeim sjálfum, í gegnum allt þeirra öfugsnúna verklagsferli í Afghanistan, í heilan aldarfimmtung !
Hin ömurlega uppskera fer þar sannarlega eftir sáningunni. Hafi Nató skömm fyrir skilin !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook
13.8.2021 | 17:51
Ósiðirnir koma alltaf aftur !
Fíknin gamla gildis þunn
geldir heilsu fríska.
Nikotín í nef og munn
nú er aftur tíska !
Þegar ég var að alast upp á Skagaströnd var tóbaksnotkun mikil og reykingar þóttu flottar. Þetta var á þeim tíma þegar kvikmyndastjörnur voru varla myndaðar öðruvísi en reykjandi og slíkar myndir voru í öllum blöðum og tímaritum. Þaðan var stíllinn sjálfsagt tekinn !
Á þessum tíma var nokkuð um fólk sem bæði tók í nefið og vörina. Að mestu leyti var þar um eldra fólk að ræða, aðallega karlmenn, en þó voru til konur sem voru ekki síður hneigðar fyrir tóbaksnotkun með þessum hætti því þessi ósiður hafði vald á mörgum !
Mér er enn í minni hvernig þetta blessað fólk leit út, einkum sumir karlarnir. Það var alltaf útferð úr nösunum á þeim og tóbakslækir runnu úr báðum munnvikjum. Ekki verður sagt að þetta útlit hafi verið fólki til prýði, en því virtist alveg sama. Fíknin réði !
Svo leið að því að þetta háttalag lagðist mikið til af. Gamla fólkið sem stundaði það mest dó og líklega heldur í fyrra lagi af þeim sökum og aðrir tóku ekki við. Reykingar minnkuðu að vísu ekki, en þessi sóðalega tóbaksnotkun fór að miklu leyti að heyra til liðinni tíð. Og mikið var það gott !
En ósiðirnir koma alltaf aftur ! Á síðustu árum hefur þessi tóbaksnotkun blossað upp á ný og nú hjá ungu fólki. Tóbak er tekið í nefið og vörina og ungir strákar hafa þar forustuna og eitthvað er um að stúlkur geri þetta líka. Aldrei hefði mig órað fyrir því að slíkt gæti gerst !
Það háttalag sem helst mátti sjá til gamalla sveitakarla hér áður fyrr, er sem sagt komið aftur og það er ungt fólk í blóma lífsins, sem hefur tekið upp á því að ástunda það. Svo undarlega hefur tekist til, þrátt fyrir alla fræðslu í skólum og víðar um ótvíræða heilsufarslega skaðsemi tóbaks !
Það undirstrikar það líklega, að þroskaferli mannsins í þessum heimi, er í raun eins og einhver síbjánaleg framhaldssaga sem fer hring eftir hring í framvindu sinni og skilar aldrei marktækum ávinningi þegar til lengdar er litið. Við lifum þannig óaflátanlega í meintri hringrás heimskunnar !
Hver ný kynslóð sér til þess, í hofmóði ungdóms síns, að vekja upp aftur mistök og ósiði hins liðna, í stað þess að læra af reynslunni og gera betur !
Nýjustu færslur
- Sérfræðingasúpan ,,naglasúpa allsnægtanna !
- Heiða Björg fær ,,Marshallhjálp !
- Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !
- Gjörbreytt þjóðarásýnd ?
- Erum við undirlægjuþjóð allrar fávisku ?
- ,,Upplausn Bandaríkjanna !
- Hin rangsnúna framvinda ytra og innra arðráns !
- Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !
- Undir alveldi ,,Sölunefndar þjóðarlífseigna !
- Afneitun á íslenskum fjölbreytileika !
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 37
- Sl. sólarhring: 75
- Sl. viku: 1132
- Frá upphafi: 397568
Annað
- Innlit í dag: 30
- Innlit sl. viku: 1022
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)