15.6.2021 | 21:53
Er mannkynið enn á dauðaveginum til Stalingrad ?
Í tilefni þess að innan fárra daga eru 80 ár liðin frá einum stærsta voðaatburði síðustu aldar, atburði sem kostaði milljónir mannslífa og gífurlega eyðileggingu í mörgum löndum, skrifa ég eftirfarandi pistil.
Innrás Nazista-Þýskalands í Sovétríkin 22. júní 1941 hófst með beitingu herafla upp á fjórar milljónir manna, þar af rúmlega þriggja milljóna þýskra hermanna. Skriðdrekar voru 3350, fallbyssur 7000, og meira en 2000 flugvélar. Það var búið að villa og trylla þýsku þjóðina svo með linnulausum áróðri og lygum, að flestir virtust halda að sigur yrði í höfn áður en rússneski veturinn gengi í garð !
En bitinn sem átti að gleypa reyndist hinsvegar allt of stór fyrir þýska herveldið. Um miðjan júlí var frumkvæðið í raun ekki lengur í höndum þýsku nasistaherjanna. Þeir gátu einfaldlega ekki sótt í 3 áttir samtímis og mannfall var mun meira en reiknað hafði verið með. Í ágústlok 1941 voru yfir 400.000 fallnir eða særðir. Stór hluti þess mannfalls var úr kjarna þýska heraflans og það skarð var vandfyllt !
Rússar höfðu þá samt orðið fyrir verulegum skakkaföllum, mest út af því hvað þeir höfðu reynst undarlega illa á verði fyrir hinni komandi ógn. Það var aðallega Stalín að kenna. Hann trúði jafnvel ekki nákvæmum upplýsingum njósnarans Richard Sorges um innrásina !
Á fyrstu vikum stríðsins misstu Rússar 3500 skriðdreka, meira en 6000 flugvélar og um tvær milljónir manna, þar á meðal drjúgan hluta af þáverandi hershöfðingjum sínum. Það var auðvitað mikil blóðtaka, en engan bilbug var samt á þeim að finna. Stöðugt var nýjum herjum teflt fram og í desember fóru þeir í fyrsta sinn að ná yfirburðum í lofti !
Sigurganga þýsku innrásarherjanna í Rússlandi varð því ekki ýkja löng þegar á allt er litið og eftir því sem verr gekk, jókst glóruleysið í þýsku yfirherstjórninni uns þar var ekki heil hugsun eftir !
Sovéski T-34 skriðdrekinn reyndist miklu betri en skriðdrekar Þjóðverja og líklega mun hann hafa verið jafnbesti skriðdrekinn sem fram kom í öllu stríðinu. Aðrir hæfari og hertari hershöfðingjar tóku við af þeim sem féllu og seigla og úthald Rússa reyndist miklu meira en Þjóðverjar höfðu reiknað með. Það kom nazistum mjög á óvart, því sumir foringjar þeirra höfðu talið að Sovétríkin myndu fljótlega hrynja eins og spilaborg !
Ivan Stamenov sendiherra Búlgaríu í Moskvu hafði hinsvegar rétt fyrir sér er hann sagði við Molotov í upphafi stríðsins : ,, Þótt þið þurfið að hörfa alla leið til Úralfjalla munuð þið hafa sigur að lokum !
Um sumarið þegar Þjóðverjar voru að framleiða 500 skriðdreka á mánuði, hafði Halder formaður þýska herráðsins sagt Hitler að Sovétmenn framleiddu 1200 skriðdreka á mánuði. Hitler hafði þá barið í borðið og sagði að það væri einfaldlega ekki hægt. En þessi tala var samt allt of lág !
Árið 1942 jókst skriðdreka-framleiðsla Sovétmanna úr 11000 á fyrstu sex mánuðum ársins í 13600 á síðari sex mánuðunum, eða að meðaltali 2200 á mánuði. Smíði flugvéla jókst á sama tími úr 9600 á fyrri helmingi ársins í 15800 á þeim síðari. Verksmiðjurnar sem fluttar höfðu verið austur fyrir Úralfjöll dældu úr sér hergögnunum í ótrúlegum mæli allan sólarhringinn !
Við Stalingrad, sem varð hinn hræðilegi endapunktur sóknar Þjóðverja, urðu þeir svo fyrir sínum mesta ósigri og misstu þar yfir 500.000 manns, um 90.000 voru teknir höndum og þar á meðal 22 hershöfðingjar !
Þar fjaraði þýska sóknin endanlega út og við tók gagnsókn Rússa sem lauk ekki fyrr en með töku Berlínar. Þýskaland nazismans náði ekki Leningrad, náði ekki Moskvu, náði ekki Stalingrad !
Innrásin mikla misheppnaðist algerlega og hið svokallaða Stór-Þýskaland varð að lokum að gefast skilyrðislaust upp, heiminum öllum til heilla !
Hér á eftir læt ég fylgja athyglisverðar umsagnir nokkurra valdamanna nazista-Þýskalands á ýmsum stigum stríðsins. Þær ættu að segja sitt um glóruleysið í þessu öllu saman :
,,Uppræta verður gyðingabolsévismakerfið í eitt skipti
fyrir öll.
Erich von Manstein hermarskálkur, í upphafi stríðsins.
,,Segið þeim í Moskvu að ég hafi verið andsnúinn þessari
innrás.
Joachim von Ribbentrop utanríkisráðherra við sovéska
sendiherrann.
,,Víðáttur Rússlands gleypa okkur !
Gerd von Rundstedt hermarskálkur
,,Þegar stríðið hófst reiknuðum við með um 200 óvinahersveitum, en höfum þegar talið 360 !
Franz von Halder, formaður þýska herráðsins, í dagbók
sinni 11. ágúst 1941.
,,Stríðið gegn Rússlandi stendur aðeins í fjóra mánuði.
Rosenbach-Lepinski majór í þýska hernum, 1941.
,,Hárin rísa á höfði manns, við að sjá til hvaða aðgerða á að grípa í Rússlandi og hvernig kerfisbundið á að yfirfæra herlög á hernumda þjóð til að beita hana stjórnlausri kúgun hreinni skrumskælingu á lögum og reglu. Þetta gerir Þjóðverja að fyrirbærum sem hingað til hafa aðeins verið til í áróðri óvinanna. Herinn mun verða að taka á sig þá kvöð að myrða og brenna sem hingað til hefur verið verk SS !
Ulrich von Hassell fyrrum sendiherra, í dagbók sinni í
apríl 1941.
,,Ef þeir endurgjalda fjórðung af því sem við erum að gera í Rússlandi og Póllandi frú læknir, munum við þjást og eiga það skilið !
Þýskur hermaður í leyfi frá austurvígstöðvunum í samtali við Christabel Bielenberg lækni.
,,Á austurvígstöðvunum er hermaður ekki aðeins sá sem berst samkvæmt þeim reglum sem gilda um stríð, heldur einnig sá sem vægðarlaust heldur á lofti þjóðernishugsjónunum og hefnir alls þess skepnuskapar sem drýgður hefur verið gegn þýsku þjóðinni. Þess vegna verður hermaðurinn að skilja til hlítar nauðsynina á þeim réttlátu en maklegu málagjöldum sem veita verður þeim ómennsku lífverum gyðingum.
Úr tilskipun Walter von Reichenaus hermarskálks til 6. hersins 10. október 1941, studdri af Gerd von Rundstedt.
,,Útrýming á þessum sömu gyðingum, sem styðja bolsévisma og drápsarmi þeirra, skæruliðunum, er sjálfsvörn !
Hermann Hoth skriðdreka-hershöfðingi.
,,Þetta stöðuga vanmat á getu óvinarins er að taka á sig furðulega mynd og verða hættulegt !
Franz von Halder, formaður þýska herráðsins í dagbók
sinni í júlí 1941.
,,Rússarnir berjast alls staðar til síðasta manns. Þeir gefast ekki upp nema stöku sinnum.
Franz von Halder, formaður þýska herráðsins í dagbók
sinni í júlí 1941.
,,Lýsnar eru eins og Rússarnir, maður drepur einn og tíu aðrir birtast í hans stað !
Þýskur skriðdrekahermaður í Stalingrad.
,,Fólkið heima má aldrei fá að vita hvað hér er að gerast !
Þýskur hermaður í lok Stalingrad-orustunnar.
,,Dauðir menn hafa ekki áhuga á hernaðarsögu !
Friedrich Paulus hermarskálkur, orð hans í lok Stalingrad-orustunnar.
Sagan á það til að endurtaka sig. Það er ekkert sem segir að slíkir atburðir geti ekki gerst aftur á okkar dögum og þá í enn hryllilegri mæli. Menn læra aldrei neitt af sögunni og áfram munu milljónir manna fá að gjalda fyrir hliðstæð stríðsæsinga og glóruleysismál ef fer sem horfir !
Enginn veit hvað framundan er. Hvað gerir Nato á komandi árum ? Hvað gera Rússar og hvað gera Kínverjar ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook
12.6.2021 | 09:32
Litríkir bræður !
Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um bræður tvo sem fyrir nokkru eru farnir yfir landamærin, en þóttu miklir hæfileikamenn meðan þeir voru og hétu. Þar á ég við þá Jón Múla og Jónas Árnasyni. Faðir þeirra Árni í Múla var kunnur maður á sinni tíð og þá ekki síður afinn Jón í Múla, sem þótti sérstakur afburðamaður !
Í móðurætt bræðranna, hinu svonefnda Brennukyni, var ekki síður til staðar kjarni seiglu og úthalds, enda talaði Jónas oft um Brennuþráann, sem nánast óyfirstíganlegt fyrirbæri í mannlegu eðlisfari. Munu bræðurnir báðir hafa talið sig hafa fengið sinn skammt af því !
Saman og sitt í hvoru lagi gerðu þeir bræðurnir Jón Múli og Jónas margt í tali og tónum og kveðskap sem mun trúlega lengi lifa. Og víst er um það að þeir glöddu marga með því sem frá þeim kom !
Jón Múli var um tíma kvæntur Þórunni dóttur Einars Thorsteinssonar, sem var á sínum tíma kaupmaður á Skagaströnd. Áttu þau eina dóttur barna. Skömmu eftir að þau skildu kvæntist Jón Múli annarri dóttur Einars Guðrúnu Jónu, og eignuðust þau tvær dætur. Síðan varð Ragnheiður Ásta Pétursdóttir þriðja kona Jóns og áttu þau eina dóttur saman, Sólveigu Önnu, núverandi formann Eflingar.
Jónas Árnason átti Guðrúnu Jónsdóttur og með henni 5 börn, tvo syni og þrjár dætur. Birna systir Guðrúnar var gift Pétri Péturssyni þul með meiru og þeir Jónas og Pétur voru því svilar !
Ragnheiður Ásta var dóttir Péturs þular og Birnu. Þegar hún giftist Jóni Múla urðu Pétur og Birna tengdaforeldrar Múlans og kona Jónasar að sjálfsögðu móðursystir konu Jóns Múla. Allt var þetta því nokkuð skrautlegt enda litríkt fólk þarna á ferð. Er annars einhver sem les þetta kominn með höfuðverk ?
Yfirlýsingar Jóns Múla fóru stundum nokkuð mikið fyrir brjóstið á sumum, enda trúlega til þess ætlaðar. Mun hann hafa haft lúmskt gaman af því að ganga fram af því liði sem fyrir slíkum skeytum hans varð og var hann þá oft ekki sérlega spar á orðgnóttina !
Múlinn var af mörgu kunnur,
magnaður í rauðum anda.
Alltaf djúpur, aldrei grunnur,
enda maður stórra sanda ! (RK)
Jónas var afskaplega sjarmerandi maður þegar hann vildi það við hafa, en hann gat líka verið býsna fúll og þá þótti hann ekki skemmtilegur. Í viðtalsbók þeirra Rúnars Ármanns Arthúrssonar frá 1985 koma kostir Jónasar vel í ljós og beinskeytt gagnrýni hans á ýmis þjóðfélagsmein okkar hefur sannað sig í mörgu síðan þá !
Á saurblað bókarinnar hef ég ritað:
Jónas var Jónas með joði stóru,
Jónas var maður sem hafði glóru.
Húmorinn smurði þar tungu og túla,
trúlega í genum frá Árna frá Múla !
Jónas segir þar meðal annars ,, ég veit ekki hvenær láglaunafólki verður tryggður sá dagvinnutaxti að það geti lifað mannsæmandi lífi. En mér sýnist ýmislegt benda til þess að löngu áður en til slíks komi verði risið tónlistarhús á heimsmælikvarða í Reykjavík ! - Og hvað er komið á daginn ?
Ennfremur segir hann í sömu bók ,, það er tvennt sem setur mestan svip á þjóðlíf okkar Íslendinga, trúarhræsni og rottusprettur eftir hégóma. Það mætti hnýta kúltúrsnobbinu í sama snæri !
Ég held að allir gætu haft gagn af því að lesa umrædda bók, nema innvígðir og innmúraðir sjálfstæðismenn og hugarfarslegir samherjar þeirra í öðrum flokkum. Þar verður auðvitað engri bót við komið !
Ég ætla að ljúka þesari samantekt með eftirfarandi innskoti. Jónas átti yfirleitt í nokkrum vandræðum með bílamálin sín, því oftast átti hann einhvern óttalegan skrjóð. Efnishyggjudekur var honum síst að skapi og bíll var sannarlega ekki stöðutákn í hans augum. Oft þurfti því að glíma við að ýta snobblausri heimiliskerrunni í gang !
Það verkefni varð þá tíðum hlutverk Guðrúnar sem stóð sig auðvitað vel í því sem öllu öðru. Þegar ég var að lesa fyrrnefnda bók þar sem minnst er á þetta basl hjónanna á glettilegan hátt, hrökk út úr mér þessi vísa:
Jónas líktist langri spýtu,
löngum veill í maganum.
Hann var giftur Gunnu ýtu,
gjörþekktri á Skaganum ! (RK)
Það er mikil eftirsjá að þeim bræðrum Jóni Múla og Jónasi því þeir hresstu sannarlega upp á íslenskt þjóðlíf á margan hátt. Jónas mun hafa sagt nokkru fyrir dauða sinn við Jón Múla, ,, að klukkan færi nú senn að glymja þeim og líklegt væri að skemmtikrafta vantaði í efri byggðum ! Og Múlinn hló !
Blessuð sé minning þessara ágætu bræðra !
8.6.2021 | 12:35
Sérgæskan er sálarvíti !
Eftir að félagshyggju-sjónarmið fóru að fara mjög halloka fyrir stóraukinni auðgunarhyggju og vaxandi ásókn seðlasýkingar, gekk mjög til baka sú mannlega hugsun að stuðla bæri að velferð heildarinnar öllum til hagsbóta !
Sérgæskan var pumpuð upp af miklum fítonsanda og frjálshyggjan lagði sitt til að hver hugsaði um sjálfan sig fyrst og fremst og samfélagið sjálft varð útundan og kaldara og kærleikssnauðara fyrir vikið !
Margir líta svo á að stóraukin innræting í framhaldsskólum landsins fyrir sjálfhverfum skoðunum hafi valdið þessu, en trúlega kemur þó mun fleira til. Um allan heim mátti finna fyrir þessari sérgæskubylgju og engu síður í þeim hluta heimsins sem bókaður hafði verið sem kommúnískur !
Ég hef ýmislegt við sérgæðinga að athuga, en sérgæðingar sem tengja sig við kommúnisma eru yfirleitt öðrum verri. Sá sem er ekki sjálfum sér samkvæmur er skiljanlega öðrum ótrúverðugri !
Allar stefnur og ismar virðast hafa sínar dökku hliðar og í sumum tilfellum eru þær svo dökkar að allir menn með heilbrigða hugsun ættu að varast þær. En sumir eru þannig gerðir að þeir dragast að því sem þeir ættu að forðast. Í því felst mörg ömurleg örlagasaga og enn leiðast menn afvega og ánetjast blekkingum um allan heim. Enn eignast peningar menn en ekki öfugt og þar slær buddunnar lífæð í brjóstinu sem aldrei fyrr !
Í skagfirskum æviskrám er stundum tekið svo til orða : ,, Hann var gegnheill félagshyggjumaður ! Það er fögur manndóms-einkunn að mínu mati, en ég held að fáir eigi hana skilið í dag því miður !
Hugsið ykkur muninn þegar viðhöfð eru sem eftirmæli um mann : ,,Hann var algjör eiginhagsmunamaður ! Hvaða manngildi felst í því ? Hverju áorkar maður sem snýst um sjálfan sig og sína hagsmuni alla tíð og sér ekkert annað ég spyr ?
Maður sem innrætir börnum sínum að hafa fjandsamleg viðhorf til samfélagsins og vill hundsa allar lexíur sem mönnum er uppálagt að læra hér í grunnskóla lífsins ? Slíkt lífsmat kallar auðvitað bara á falleinkunn !
Þegar Háskóli Íslands var stofnaður var sagt að hann ætti að vera háborg íslenskrar menningar ! Sumir telja hann nú til dags miklu frekar andstæðu þess. Og vissulega mun hann vera nokkuð langt frá því takmarki sem að var stefnt í upphafi. Áhrifin utanlands frá eru löngu orðin yfirgnæfandi !
Og goggunarröðin er áreiðanlega meira en fastmótuð í allri hinni inngrónu snobbmennsku sem viðgengst í þessari áður ætluðu háborg hinnar þjóðlegu menningar. Þar ganga menn fyrir björg í goggunarröð !
Sleikjuháttur gagnvart útlendingum er ekkert nýtt fyrirbæri á Íslandi. Fyrst var danska slektið sleikt milli hæls og hnakka, svo bretinn og síðast kaninn. Alltaf voru þeir sleiktir mest á hverjum tíma sem reyndust okkur verst þá um stundir !
Við höfum orðið að búa við danska íslendinga, breska íslendinga og íslenska kana, í meira lagi ömurleg mannlífs-eintök, sem aldrei geta tekið þjóðlega afstöðu í neinu máli. En þrátt fyrir það tórir íslenski andinn enn því seiglan þar er sönn og ósvikin !
Verum umfram allt íslenskir Íslendingar ekki skriðdýr í þjónustu erlendra afla !
29.5.2021 | 10:27
Göngum sjálfstæðir til framtíðar !
Skagstrendingar ! Nú nálgast sú stund að okkur verði boðið að verða íbúar í hinni uppteiknuðu, ríkiskapitalísku og suður-sameinuðu Blönduóss-byggð ! Það er ekki slorlegt eða hvað ?
Einhverntíma sagði víst einhver hér á Skagaströnd, í vonbrigðum yfir lélegu stundargengi, að Skagstrendingar hugsuðu ekki um neitt nema slor ! Það er auðvitað nokkuð mikið sagt með því og náttúrulega er staðhæfingin ekki rétt, en hvað er annars að því að stunda sjóinn ?
Hafið gefur enn sem fyrr og víðasthvar yrði menningarblóminn í landinu líklega heldur smár að vöxtum ef ekki væri róið til fiskjar !
Hvert gat fólkið farið þegar sveitirnar voru orðnar yfirfullar og hokrað var á óbyggilegum heiðakotum út um allt land við óbærileg skilyrði ? Auðvitað út að sjónum, þar var bjargræðið og þar er bjargræðið enn !
Hvað er ríkisloppan að skipta sér af okkar frelsi til lífs og athafna ? Af hverju megum við ekki fá að lifa í friði í okkar byggðarlagi og af hverju eigum við að fara að axla skuldabagga sem eru ekki okkar ?
Þó að við höfum óneitanlega búið við skaðlegt forustuleysi í allt of langan tíma hér á Skagaströnd, megum við ekki gefa okkur að svo verði um alla framtíð !
Það eru ekki minni möguleikar á samfélagslegri framfarasókn hér en víða annars staðar, en það vantaði hinsvegar lengstum forustumenn sem gátu séð einhverja möguleika til ávinnings, utan við sinn persónulega hag. Það er leyndarmál sem allir vita !
Sjálfsagt er að hafa víðtækt samstarf við nágranna sveitarfélögin um öll helstu hagsmunamál byggðanna, en við þurfum samt ekki að láta éta okkur út úr eigin tilveru !
Áróðursgyllingar um aukna þjónustu og fjárframlög frá ríkinu hafa löngum reynst innistæðulítil loforð. Það munu þeir finna sem glepjast vilja af slíku tali sem er ekkert annað en lýðskrum !
Látum ekki yfirtaka okkur !
Það í ljósi sönnu sést,
sjá má það og skilja,
að sjálfstæð dafnar byggðin best,
bundin heimavilja !
18.5.2021 | 18:04
Að missa forræði yfir eigin málum ???
Nú stefnir í að staða Skagastrandar verði ákveðin til frambúðar í því miðstýrða fyrirkomulagi sem ákveðið virðist hafa verið syðra. Lýðræðisleg sameining skal það víst heita samkvæmt plönunum, en það er eins gott að fólk kjósi rétt svo refsihönd fyrirgreiðsluleysisins falli ekki á það og kýli það niður. Val er ekki alltaf val þó það eigi að heita svo !
Fólk getur nefnilega líka orðið fyrir því að verða eins og höfn sem er opin í öfugan enda, því ráðsmennskan fyrir sunnan er æði oft öfug líka !
Að minnsta kosti er orðið vel ljóst eftir síðustu þrjá áratugina, að það er engin raunveruleg byggðastefna í gangi. Allt er miðað við borgríkið og við erum hætt að vera þjóðríki, enda æðir auðvaldsstefnan yfir allt !
En er það ekki skrítið, að það sem allt miðast við - Reykjavík, virðist ekki vera nein sérstök heimilisdásemd, því strax og vinnu er lokið á föstudögum, æðir stór hluti íbúanna upp í Borgarfjörð eða austur fyrir fjall í helgar-afslöppun. Það er aðeins hægt að slaka á í sumarbústöðunum ekki heima. Reykjavík er bara staðurinn þar sem fólk aflar peninganna !
Einhverntíma var sagt að orðtakið Heima er bezt væri rétta forskriftin að góðu lífi, en eftir að heimilin hættu að vera skjól fjölskyldunnar og urðu aðeins stoppistöð til að skipta um föt eða sofa blánóttina, er sú stefna úr sögunni. Hún er líka sögð gamaldags eins og allt annað sem ætti að teljast gott og gilt !
Á landsbyggðinni þarf nú, samkvæmt ríkiskastala kenningunni, að byggja upp nokkrar meginstöðvar skrifstofuhalds og stjórnunar, svo auðveldara sé að eiga við þessar fáu hræður sem þar búa. Þessvegna þarf að sameina og sameina úti á landi, en ekki í óðaþéttbýlinu syðra, þar mega smákóngarnir valsa um og vera sjálfstæðir, eins og totubúarnir á Seltjarnarnesinu !
Í austur Húnavatnssýslu er fyrirséð að þessi sameining ef af verður, mun gagnast stærsta þéttbýlisstaðnum fyrst og fremst, því þar verður þá stjórnsýsluhöllin í umdæminu og pappírsflóðið sjálfsagt eftir því. Þá verður líklega til sannkölluð Eyðublaðabraut inn á Blönduós !
Þeir sem geta aðeins séð Sveitarfélagið Skagaströnd sem viðhengi við eitthvað annað og meira, fara auðvitað hlýðnu leiðina og fylgja í því hugarfari sínu. Gætu þessvegna endað í Brussel í einhverskonar samfylkingarlegu framhaldi málanna. En aðrir kunna að hugsa til orða Jóns Loftssonar forðum er hann mælti: ,, Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu !
Skrifræðisvald ríkisbáknsins er alltaf að klóra utan í mannfrelsið og setja því auknar skorður. Það er ekki af því góða og þörf að vera á verði gegn slíku framferði nú og eftirleiðis. Lýðræði er auðvitað fyrst og fremst sú stefna, að fólk hafi raunverulegt frelsi til að velja hvert það vilji fara, að það sé ekki undir neinum þvingunarráðstöfunum varðandi val um leiðir til framtíðar, að sameinaður vilji þess nái fram að ganga !
Megi svo jafnan vera í landinu okkar að stjórnarfarið einkennist af frjálsu lýðræði en ekki baktjaldabundnu haftakerfi, sem á eingöngu að þjóna kerfislímdum sérgæskuöflum sem ekkert eiga skylt við almenna velferð !
Kjósum ávallt með almennu lýðfrelsi en ekki aukinni kerfisbindingu !
7.5.2021 | 15:16
Mannblót
Hvað má segja um eigin ævi
írskur snáði hertekinn ?
Strax í skipi á svölum sævi
sá ég fyrir dauða minn.
Ég var þræll og frelsi firrtur,
fékk að reyna þraut og stríð.
Allar stundir einskis virtur,
allt mitt líf var kvalatíð.
Stöðug þrælkun stakk og særði,
steig ég hvergi vonarskref.
Þrautagangan táp mitt tærði,
tíminn óf mér sáran vef.
Stundum grét ég eins og ærður,
ekkert gafst sem líknar stoð.
Loks var ég til fórnar færður
fyrir blóðþyrst heiðin goð.
Illa mér þau örlög féllu,
engin vægðin bauðst mér þó.
Dreginn ber að beittri hellu,
brjóst mitt eggin sundur hjó.
Blæddi mér þar út og enginn
áleit neitt til vansa þar.
Enginn hirti um unga drenginn
er þar saklaus drepinn var.
Stökkt var mínu blóði úr bolla,
bölvuð goðin fengu sitt.
Þeim var gefið hlautið holla,
hjartasærða lífið mitt.
Glæpur sá um víddir vega
var í öllu mennsku hrap.
Heiðindómsins hryllilega
hrollvekja mig kvaldi og drap.
Von að góðar vættir hljóðni
við þá siði er harma ber.
Þó var mörgum Þór og Óðni
þannig fórnað eins og mér.
Hvergi slíkum buðust bjargir,
botnlaust var hið heiðna dramb.
Enda varð ég eins og margir
illra siða fórnarlamb.
Bið ég þess frá öld til aldar
oft þó röddin mín sé veik,
að aldrei slíkar vítis valdar
venjur ráði á nýjan leik.
Rúnar Kristjánsson fecit
20.4.2021 | 17:09
Sigurður málari
Sigurður Guðmundsson sjúkur lá,
það sannaði glær og tekin brá,
að sá var kominn að sækja hann
sem sýnir ei hlífð við nokkurn mann;
því dauðamörkin ei duldust þar
og dimmt fyrir sjónum þegar var.
Úr tærðum augum þó tignin skein
og tilfinningin svo undur hrein,
sem sýndi hvernig hans sál var gerð,
hann sannaði það á lífsins ferð,
að íslenskur var hann í innsta merg
og alinn við landsins stuðlaberg.
Svo oft hafði líf hans þrautir þekkt,
að það var í sannleika hræðilegt.
En snillinga umfaðmar engin þjóð
svo örlög þeirra eru sjaldnast góð.
Og við höfum okkar séní svelt
og síðast þau mörg úr hungri fellt.
Á hátíð þjóðar í þúsund ár
á Þingvöllum kringum frægar gjár,
var fjöldi manna í frískum móð
og fagnaðarstemmning rík og góð.
Þar skynjuðu allir Íslands lag
sem ómaði í hjörtum þennan dag.
Og Sigurður Guðmundsson glæsta búð
þar gerði með fagurt blómaskrúð,
því listamannshöndin lék við allt
þó löngum andaði um hana kalt.
Og fólkið undraðist fegurð þá
sem fyrir hans verk þar mátti sjá.
Er konungur Dana gekk í garð,
það gjörla sást að hann hrifinn varð.
Hann lofaði snjallan listamann
og landshöfðingjann svo spurði hann:
Er ekki hægt að gera honum gott
því gjörvöll búðin er snilldarflott ?
En Hilmar á konunginn hissa leit
og harðlega svo á vör hann beit,
og svaraði orðum hans seint og kalt,
og sagði þó hvorki hátt né snjallt,
han har ikke fortjent noget !
Så lydede danske sproget.
Í augum konungs var undrun séð
og ekki féll honum vel í geð
að heyra óvildar hreiminn þar
og hugann sem fæddi þetta svar.
En kyrrt lét hann þó - að kónga sið,
sem koma ekki brot á þegnum við !
Rúnar Kristjánsson fecit 2003.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook
13.4.2021 | 13:16
Um einn versta óþverrann í heiminum !
Við Íslendingar erum svo lánssamir að vera ekki með her. Sumir hafa reyndar viljað að við tækjum upp þann ósið, en sem betur fer hefur það ekki fengið framgang. Við erum náttúrulega með lögreglu og satt að segja hef ég ekki verið sérlega ánægður með framgöngu hennar oft og tíðum, en svo eigum við landhelgisgæsluna okkar og björgunarsveitirnar og í því tilliti er varla nokkur þjóð með betra og manneskjulegra varnarlið en við !
Margar þjóðir heims eru með herafla sem þær hafa engin efni á að halda uppi. En eins og örlaði á hérlendis í eina tíð, getur oft verið talsverður vilji hjá yfirvöldum auðstétta til að beita slíkum mannafla gegn eigin borgurum ef út í það fer. Þá er oft stutt í bræðravígin. Svo er herjum sumra smáþjóða haldið uppi með erlendu fé á pólitískum forsendum !
Margt höfum við heyrt um framferði herja í Mið og Suður Ameríku og víðar, þar sem morð og pyntingar á borgurum viðkomandi landa hafa oft verið daglegt brauð og eru sumsstaðar enn. Lýsingar á framferði margra einræðisherra eru slíkar að maður á erfitt með að trúa því að til séu einhverjir sem gerast sekir um svo viðbjóðslega glæpi !
En veruleikinn í þeim efnum er sennilega miklu svartari en flesta grunar. Og enn í dag erum við minnt á það hvað mannskepnan getur lagst lágt. Þegar barist er um auð og völd eru sumir til alls vísir. Engin skepna er þá manninum verri sem margoft hefur sannast !
Herinn í Myanmar virðist vera sérlega ógeðslegt fyrirbæri af þessu tagi og eru þó dæmin mörg. Ég veit ekki hverskonar mannskrímsli það eru sem stjórna þar og láta miskunnarlaust drepa tugi og hundruð saklausra mótmælenda á götum úti, en slík kvikindi ættu hvergi að eiga heima í mannlegu samfélagi. Þeir sverja sig í ætt við Pol Pot og Khieu Samphan og slík ómenni !
Þegar hugsað er um ástand mála í Myanmar sést ljóslega að Aung San Suu Kyi hefur ekki átt sjö dagana sæla við að gera einhverskonar málamiðlum við herinn þar. Það er einfaldlega ekki hægt. Hún reyndi að finna einhverja lausn, en það eina sem hún fékk út úr því var eigin álitshnekkir. Það sást best í kringum meðferð heryfirvalda í Myanmar á Róhingjum !
Herskrímslin í Myanmar geta ekki verið viðsemjendur, valdaklíka sem myrðir eigin þegna og skeytir engu um lýðræði og mannréttindi, er utan við samfélag manna. Engin þjóð ætti að eiga skipti við slík yfirvöld, ekki síst sjálfs sín vegna. Það er mannskemmandi !
Ó, þessar Sameinuðu þjóðir sem aldrei eru sameinaðar þegar þörfin krefur !
5.4.2021 | 15:56
Grundarsystkinabragur
Staðlægt mat úr kvæðakvörn
kýs ei mátann gleyminn,
um hvar Stjána og Boggu börn
brugðu sér í heiminn !
Ómar hóf í Herðubreið
hérvist líkur kólfi.
Bjó þar sjálfur seinna um skeið,
samt á efra gólfi.
Líkt og fyrri árum á
ekki mikið sleginn.
Tagli prýddur, til og frá
töltir æviveginn !
Rúnars önd í fyrstu fleyg
fannst á Akranesi.
Lá hann þá á Litla-Teig,
laus frá öllu vési.
Upphafsstundir allar þær
enn hann kýs að lofa.
Kúrði hann þar í vöggu vær,
vildi bara sofa !
Í Lækjarhvammi Linda var
lífs til dvalar borin.
Sumar alin átti þar
ævi fyrstu sporin.
Þar hún blíða bernsku fann,
blómin tíndi vallar.
Eplakinna rjóð þar rann
rösk um gættir allar !
Día í Skjaldbreið leit sitt lag
lífs við ævirökin.
Festi við sinn föðurdag
fyrstu andartökin.
Eðlið kynnti í æskusmæð
yfirfullt af gáska.
Alin var á efri hæð
eftir góða páska !
Svenni og Drífa sína stund
sáu rétt hjá græði.
Fyrsta sinn í gömlu Grund
gleyptu loftið bæði.
Hlupu þar um heimatún,
hlýddu engum lögum.
Léku sér þar létt á brún
lífs á bernskudögum !
Meðan lifa systkin sex
sýnast myndir blána.
Þeim í huga og hjarta vex
heimur Boggu og Stjána !
RK. Ort 23. sept. 2018.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook
28.3.2021 | 10:45
Hugsað út frá daglegri umræðu
Kári Stefánsson er eftirtektarverður persónuleiki á margan hátt. Og því skyldi hann ekki vera það ? Stefán faðir hans var til dæmis þjóðkunnur maður á sinni tíð og hafði margt til brunns að bera. Ekki vil ég þó meina að þeir feðgar séu beint líkir, en óumdeildir munu þeir samt báðir sem hæfileikaríkir einstaklingar !
Það er yfirleitt gaman að heyra í Kára, hann er vel máli farinn og talar oftast með vitrænum hætti. Nokkuð getur hann verið líkur nafna sínum vindinum, blæs sitthvað um koll með beittum athugasemdum og fer vítt í margskonar umfjöllun mála og fræðir og kennir um leið !
Finnist Kára eitthvað heimskulegt eða vangrundað, segir hann sitt álit á því umbúðalaust og að því er virðist sama hver í hlut á. Slíkt afdráttarleysi er hressandi í umræðu þar sem flestum er falsið nærtækara. Maðurinn virðist því hreinskilinn og ærlegur í allri umfjöllun mála !
Jafnvel doktorar frá Harvard fá að heyra það, ef Kára finnst þeir fara óhæfilega yfir mörkin varðandi það hvað veruleikinn kann að leyfa. Þeir sem telja sig jafnvel færa um að geta lengt ævi manna að miklum mun, virðast að mati Kára, komnir vel yfir þau mörk.
Vísindi í mannlegum möguleika eiga sér auðvitað sín takmörk og Kári virðist hafa það skýrt í sinni hugarsýn að svo sé og sumt sé bara ekki gerlegt. Hann blæs því á allar skýjaborgir og loftkastala sem sumir reyna að byggja sjálfum sér til vegsemdar og frægðar !
Mig grunar að Kári sé maður þeirrar gerðar að vera lítið um almenna asna gefið, en þó held ég að honum líki enn verr við menntaða asna, en það er eitt af því fáa sem við Íslendingar eigum allt of mikið af.
Slíkir asnar hafa jafnan kunnað að hreiðra vel um sig í kerfisgeiranum og fundið sér þar sitt besta skjól. Meðal annars fyrir þær sakir er kerfið líklega eins götótt og gallað og það virðist því miður oft vera !
Sjálfsagt hefur Kári þurft að glíma við ófáa menntaða asna á slóðum kerfisins og því virðist hann oft nokkuð stuttur í spuna þegar slíkir kauðar eiga í hlut. Honum finnst trúlega tíma sínum betur varið í að tala með vitrænum hætti um það hvað vitrænir menn séu að aðhafast hverju sinni, en að ræða um hluti þar sem vitræn sjónarmið virðast býsna oft söltuð og send í útlegð af næstum heiladauðum kerfislubbum !
Kári er án efa mjög vísindalega sinnaður maður og oft talar hann mjög fjálglega um þekkingarleit mannsins og möguleikana á því að ná lengra. En hvað langt skyldi maðurinn annars geta náð og fengið að ganga ?
Fyrir rúmlega einni öld datt víst fáum í hug að við gætum eyðilagt hnöttinn, vistkerfið, náttúruna, eða í stuttu máli sagt, öll lífsskilyrði okkar á þessari jörð ! Nú er það óskemmtileg staðreynd að allt þetta getur gerst fyrir tilverknað okkar mannanna !
Og þegar horft er til þess að vísindin hafa leitt okkur til þeirrar getu, að við erum fær um að tortíma þessu öllu, hvað megna þau þá til að forða okkur frá því og leiða okkur frá hættunum sem við það hafa skapast ?
Sennilega verða þar engin skref stigin til baka. Það er gamalt íslenskt orðtak að auðveldara sé að vekja upp draug en að kveða hann niður !
Vísindin hafa vakið upp margan illskæðan drauginn sem ríður húsum í mannheimi í dag, en hvaða ábyrgð taka þau á því að kveða slík sjálfskaparvíti niður ? Hafa meintir vitrænir vísindamenn eins og Kári Stefánsson einhver viðhlítandi svör við því ?
Er ábyrgðarleysi vísindanna á örlögum mannkynsins ekki eitt af því sem veldur okkur mönnunum einna mestum vandræðum í hrollvekjandi hrunadansi samtímans ?
Nýjustu færslur
- Sérfræðingasúpan ,,naglasúpa allsnægtanna !
- Heiða Björg fær ,,Marshallhjálp !
- Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !
- Gjörbreytt þjóðarásýnd ?
- Erum við undirlægjuþjóð allrar fávisku ?
- ,,Upplausn Bandaríkjanna !
- Hin rangsnúna framvinda ytra og innra arðráns !
- Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !
- Undir alveldi ,,Sölunefndar þjóðarlífseigna !
- Afneitun á íslenskum fjölbreytileika !
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 54
- Sl. sólarhring: 54
- Sl. viku: 1149
- Frá upphafi: 397585
Annað
- Innlit í dag: 35
- Innlit sl. viku: 1027
- Gestir í dag: 30
- IP-tölur í dag: 29
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)