Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Íslenska þrælahalds-bankakerfið !

 

 

Bankakerfin á hinum Norðurlöndunum virðast á allan hátt töluvert manneskulegri en íslenska bankakerfið. Í Noregi og Danmörku er bankakerfið að lána fólki til íbúðarkaupa af samfélagslegri ábyrgð en hér virðist bankakerfinu sléttsama hvernig það fer með fólk !

 

Íslendingar sem flutt hafa til Noregs, segja norska bankamenn bara ekki skilja hvernig bankarnir hér fara með fólk. Þeir hafi jafnvel boðið fólki að gera upp skuldir þess við íslenska banka og boðið þeim svo endurfjármögnun á skuldastöðunni í Noregi. Og sú aðstoð býður upp á miklu manneskjulegri fjárhagsaðstæður og meira öryggi. Þarna virðist vera mikill munur á !

 

Í norska bankakerfinu er miklu frekar verið að hjálpa fólki, hér er hinsvegar verið að festa það í óendanlegu arðránskerfi sem er aðeins sambærilegt við blóðsjúgandi þrælahald. Íslenska þjóðin virðist að miklu leyti vera njörvuð föst í ómannlegum og andstyggilegum skuldafjötrum skítugra bankaskrímsla ævina á enda. Átti íslenska sjálf-stæðisævintýrið að fara þannig ?

 

Íslensku bankarnir virðast í flestu vera græðgisfullar mannætur. Þeir byggja ekkert upp í samfélaginu á heilbrigðan hátt og sýna enga jákvæða breytni á samfélagslegum nótum. Þeir draga þvert á móti heilbrigðan þrótt úr samfélaginu með gengdarlausu arðráni sínu. Græðgi þeirra er hömlulaus og kann sér engin takmörk. Þeir eru þegar búnir að steypa samfélaginu einu sinni og það er ekkert sem segir að þeir eigi ekki eftir að gera það aftur, enda engin iðrun verið sýnd vegna ótaldra fjárhagslegra misgerða á liðnum árum !

 

Ef það kæmi norskur eða danskur banki hér, teldi ég kjörið fyrir íslenska viðskipta-vini að skipta við hann og finna hvernig það kæmi út. Það yrði líklega eins og fólk væri raunverulega að skipta við manneskju-legan íslenskan banka, sem hingað til hefur ekki verið til. En slíkt myndi ekki gerast, því norrænu bankarnir myndu ekki kæra sig um að fara inn á einkaslóðir mannætu-hákarla og flækjast í blóðugum hengingarsnörum þar og glíma jafnframt við óvinveitt og mannfjandsamlegt ríkiskerfi !

 

Íslenska bankakerfið er stórlega vanþróað hvað ábyrgð og allan þjóðlegan hugsjóna-metnað varðar. Öll samfélagsleg siðbót á Íslandi gagnar lítið meðan fjármálakerfi þjóðarinnar er jafn gráðugt og siðlaust og það er. Einstakar þjónustupersónur þar eru að vísu stundum látnar ,,stíga til hliðar“ þegar brotin uppgötvast, en kerfið sjálft breytist hinsvegar ekkert og lagast ekki hót !

 

Það þarf umfram allt að koma einhverri siðmenningu inn í bankana og rækta þar upp samfélagslega ábyrgðarkennd. En það væri meira en að segja það að koma slíku í verk, meðan hugarfar þeirra sem stjórna þar er óbreytt. Það þarf því að senda hið bankakerfislega mannætuhugarfar græðginnar sem fyrst aftur til skrattans sem lagði það til !

 

Og auðvitað ættu yfirvöld lands og þjóðar að hafa forustu um manndómslega endur-hæfingu í bönkunum og hvernig gætu þau það ? Þau eru nú þannig að þau þyrftu ekki síður sjálf að endurhæfast og vígjast þjóðlegri dáð. Það dylst engum manni eins og málin horfa við. En hver á að moka allan skítinn út ?

 

Gæti það orðið og er einhver von til þess að þjóðin geti eignast óspillt og frambærilegt forustulið, miðað við hið vægast sagt ömurlega spillingarstig kerfisheildarinnar í dag, sem hlýtur að blasa við hverjum manni sem hefur heila sjón ? Hvaða trú hafa menn á þeim möguleika eins og málin horfa við okkur í tíðaranda dagsins ? Svari því hver fyrir sig ?


Nútími hrokans verður fljótt fortíð gleymskunnar !

 

 

Fyrir allmörgum árum voru mál varðandi söfnun og geymslu muna frá fyrri tíð tekin til meðferðar af áhugasömum einstaklingum hér á Skagaströnd sem og víða annarsstaðar um landið. Margir gáfu muni til varðveislu og mikið af ljósmyndum skilaði sér, enda mátti segja að það ætti sér stað viss vitundarvakning varðandi þennan málaflokk á þessum tíma !

 

En sumir höfðu ekki mikinn áhuga fyrir þessu gamla drasli, sem þeir kölluðu svo, og einhvernveginn fóru mál þannig að hvergi virtist vera til staður fyrir þessa söfnunarmuni svo þeir þvældust í slæmum meðförum árum saman og týndu tölunni. Enginn Þórður Tómasson hélt utan um hlutina, en slíkan mann hefði víða þurft !

 

Margt fór því forgörðum á neyðarlegri hrakhólaferð hinna gömlu muna, týndist og eyðilagðist með ýmsum hætti. Á sínum tíma talaði ég við ráðamenn hér um að kaupa gamla kaupfélagshúsið og gera það að safnahúsi Skagastrandar og byggja þar upp arfleifð hins liðna tíma, enda var við-komandi hús í sjálfu sér merkur safn-gripur. Vel var tekið í þá hugmynd en enginn raunverulegur áhugi sýndi sig þó. Það vill löngum svo fara varðandi málefni almannahags, að góðar undirtektir verða innihaldslausar !

 

Svokallaðir ráðamenn virðast oft vera undarlegur söfnuður. En af hverju eru áhugalausir menn um samfélagsmál að bjóða sig fram til þjónustu fyrir samfélagið ? Skyldu ekki einhver annarleg sjónarmið búa þar að baki ? Gamla kaupfélagshúsið var í fram-haldinu keypt af peningamönnum sem hafa gert það upp með sínum hætti og nýtt það til annarra hluta. Og líklega með all-ríkum stuðningi hreppsyfirvalda varðandi leigumál og notkun !

 

Einkaframtakið gerir sig oftast gildandi þegar ekki er hirt um félagslegar og samfélagslegar lausnir. Hygg ég að víða megi finna hliðstæðan framgang mála varð-andi slíka hluti í landinu. Arfur hins liðna, sagan og geymd hennar, situr oftast við skarðan hlut í hinum dreifðu byggðum, en helst gert eitthvað ef það stendur til að tildra einhverju upp í höfuðborginni. En sá sem ber enga virðingu fyrir eigin sögu, endar með því að eiga enga sögu !

 

Og nú er farið að flytja söguna til með þeim hætti, að minningarreitur sem ætti að vera úti í sveit á réttum stað viðkomandi atburðar, er færður inn í næsta þéttbýlisstað, sennilega í þeirri von að það muni auka á straum ferðamanna þangað. Það er svona svipuð sögutilfærsla eins og að tala um Skagafjörð sem Sturlungaslóð. Sennilega hafa engir landsmenn verið Sturlungum jafn mótsnúnir og fjandsamlegir alla tíð og Skagfirðingar !

 

Öll rangtúlkun söguatburða hittir sig sjálfa fyrir og dregur úr tiltrú á því að rétt sé með farið. Og býsna margir virðast ekki sjá neina sérstaka þörf á því að fara rétt með, ef þeir geta fjölgað einhverjum krónum í rekstrarkassanum :

 

Sitthvað ferlið falska skapar,

frómlegheitin mæta grandi.

Margir verða af aurum apar,

ekki síst í þessu landi !

 

En það vill svo til, að fáum er annt um okkar sögu og ef við sinnum henni ekki sjálf getur hún farið forgörðum á tiltölulega skammri stund. Þetta gamla drasl, sem sumir kalla svo, er tengiliður okkar við fortíðina og það líf sem var lifað í landinu fyrir ekki svo löngu síðan. Þann tengilið þarf að varðveita !

 

Það er ótvíræð skylda íslensku þjóðarinnar að vernda sögu sína og arfleifð sem best og halda þar tengslum. Það kostar alltaf eitthvað fyrir hvern og einn að gera skyldu sína. Ef við lærum ekkert af því liðna og þykjumst standa á toppi allrar fremdar og tilvistar í dag, er jafnvíst að við skilum litlu sem engu til framtíðarinnar og fyrir eftirkomendur okkar í þessu landi !

 

Þá hefur líf okkar ekki haft mikinn tilgang. Kannski ekki neinn ? Líf sem er alfarið þrælbundið þeim hégóma að skemmta sér allar stundir, brennur fljótt út á báli hins hraðfleyga tíma. Það er auðvitað gaman að vera 18 ára, en aðeins 20 árum síðar eru menn 38 ára - að verða miðaldra ..... og kannski ekki búnir að vinna neitt sér til gildis sem þroskaðir menn. Vanitatum vanitas !

 

Heiðrum forfeður okkar og formæður, virðum baráttu þeirra í þágu þess lífs sem okkur hefur verið gefið, göngum vel um allt það sem getur minnt okkur á það sem áar okkar urðu að búa við, og skilum okkar hlutverki af okkur eins heiðarlega og þeir gerðu. Leggjum þeim sem taka við af okkur lifandi arfleifð í hendur !

 

Við erum lítil þjóð og við höfum því miður verið að minnka okkur á síðustu árum. En við getum aukið gildi okkar, ef við höldum tryggð við arfleifð okkar sem er drjúgum meiri en ætla mætti, og þannig skipað okkar sess í samfélagi þjóðanna með fullum heiðri !


Donnahyskið í Alþýðubandalaginu !

 

 

 

Þegar Alþýðubandalagið var endanlega látið taka við af Sósíalistaflokknum, héldu margir að það myndi halda uppi þeim skelegga málflutningi sem einkennt hafði Sósíalistaflokkinn og unnið meiri og betri sigra fyrir íslenskan almannahag en nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur hafði gert og hefur gert !

 

En Alþýðubandalagið var fyrst og fremst útþynnt útgáfa af Sósíalistaflokknum og það kom fljótt í ljós. Hin nýja útgáfa var því aldrei fær um að vinna starf sitt með jafn heilsteyptum hætti og fyrirrennari þess. Alþýðubandalagið gat aldrei unnið neina viðlíka sigra og Sósíalista-flokkurinn. Það hafði ekki burðina til þess !

 

Fyrstu árin eftir flokksstofnunina þótti þó starfsemin nokkuð markviss, einkum í verkalýðsmálunum og nokkrir sæmilega beittir forustumenn virtust vera fyrir hendi í flokknum. En brátt fór einhver samkeppnisandi að spilla þar samstöðu og hugsjónirnar að dvína við ásókn eigin-gjarnra sjónarmiða og framalöngunar. Fyrri og betri samstaða frá tímum Sósíalista-flokksins virtist heyra sögunni til. Þó var reynt að halda horfi, einkum líklega á formannsárum Ragnars Arnalds, en það var samt annar andi kominn í bæinn, sem ekki þótti sérlega góður og olli traustum eldri félögum vaxandi áhyggjum !

 

Skemmst er svo frá því að segja, að flokkurinn færðist á nokkrum árum frá því að vera nokkuð stefnufastur verkalýðs-flokkur í það að verða menntamanna-flokkur, með tiltölulega óskýra stefnu. Sumir fóru að kalla Alþýðu-bandalagið á þessum árum kennaraflokk og vissulega ekki að ástæðu-lausu. Kennarar virtust þar í margra tuga tali og misjafnir að manngæðum !

 

Hefði Alþýðubandalagið getað verið það sem það hefði átt að vera, sannur og trúverðugur arftaki Sósíalistaflokksins, hefði til dæmis maður eins og Ólafur Ragnar Grímsson varla orðið þar formaður og þaðan af síður Margrét Frímannsdóttir. Ólafur var náttúrulega fyrst og fremst bara egóisti eins og hann hefur alltaf verið og Margrét var afskaplega innihalds-laus krati !

 

Ég undraðist alltaf tilvist sumra manna í Alþýðubandalaginu. Ég þekkti þá og vissi hvernig þeir voru. Hvað voru þeir að gera í Alþýðubandalaginu, gallharðir eiginhags-munamenn og sérgæðingar ? Aðild þeirra að flokknum var ekki góðs viti, þeir fluttu ekkert gott með sér inn í flokksstarfið. Þeir voru þar eins og minkar í hænsnakofa og skemmdarverkamenn gagnvart öllum hugsjónum !

 

Stjórnmálaflokkar eru helst eyðilagðir innanfrá. Og Alþýðubandalagið var eyðilagt innanfrá. Það lögðu býsna margir sitt til í það niðurrifsverk. Þó að nokkuð margir þeirra manna færu svo í Samfylkinguna, voru þeir í sjálfu sér engir sam-fylkingarmenn, þeir voru bara ómerkilegir tækifærissinnar. Eins þeir sem hlupu yfir til Framsóknar og þóttust áfram félags-hyggjumenn. Þeir voru það ekki, þeir voru bara á framaveiðum fyrir sjálfa sig !

 

Jónas Árnason segir í skemmtilegri viðtalsbók, að honum hafi fljótt ógnað hvað margir donnar hefðu verið í Alþýðu-bandalaginu. Það voru þessir eigin-hagsmuna-ránfuglar sem voru þar bara á veiðum fyrir eigin hag. Jónas kallaði þá donna. Það var afleiðsluorð af hugtakinu prímadonni, sérgæðingur. Hann sagði að það hefðu að vísu verið til donnar í Sósíalistaflokknum, en þeir hefðu verið fáir og þeir hefðu ekki komist upp með mikið múður þar. En í Alþýðubandalaginu komust þeir upp með allt of mikið og fóru ekki með veggjum. Það voru fyrst og fremst óheilindamenn og óbermi af slíku tagi sem eyðilögðu að lokum flokkinn !

 

Að sjálfsögðu vantaði ekki donnana í hina flokkana, en það þurfti ekki að koma neinum á óvart. Landsfundur íhaldsins hefur alltaf verið mesta donnadýrkunar-athöfn landsins. Hinsvegar var sem fyrr segir ekki mikið svigrúm fyrir donna-sérgæðinga í Sósíalistaflokknum. Þeir sem urðu uppvísir þar að slíkum tilburðum misstu fljótt tiltrú og traust og flæmdust úr flokknum og höfnuðu oftast hjá krötum, þó þar vantaði sosum ekki donnana. Nokkrir munu hafa leitað á náðir Framsóknar en þeir voru ekki margir. Þar var nefnilega meira en nóg af donnum fyrir !

 

Það segir sig sjálft að gráðugir eigin-hagsmunamenn eiga enga samleið með félags-hyggjumönnum og ættu ekki að finnast í þeirra hópi. Og eftir því sem slíkum mönnum fjölgaði í Alþýðubanda-laginu, fjaraði stöðugt undan hugsjónum flokksins, félagshyggjusjónarmiðum hans og allri varnar-stefnu hans fyrir almannahag. Það var mjög ógæfulegt ferli og bar í sér sviksemina og þá uppdráttarsýki sem gekk loks að öllu heilbrigðu dauðu í flokknum !

 

Svo til allt forustuliðið var undir lokin eiginlega orðið donnakyns og stóð ekki lengur fyrir neitt nema persónuleg hags-munaatriði og sífellt meðfylgjandi frama-pot. Hjörleifur Guttormsson reyndi um skeið nánast einn að berja í brestina, en uppskar bara óvinsældir innan flokksins og var sakaður af donnahyskinu um ein-strengingshátt og harðlínuviðhorf í öllum samskiptum. En Hjörleifur var sá bógur að hann varð ekki svo glatt keyrður í kaf !

 

En síðast skriðu flestir forustumenn Alþýðubandalagsins yfir í Samfylkinguna, nema Hjörleifur. Sumir þeirra skömmuðust sín þó eftir á fyrir aumingjaskapinn og yfirgáfu krata-söfnuðinn. Þeir fóru svo nokkru síðar í Vg eða gerðust sendiherrar, jafnvel fyrir atbeina pólitískra fjenda sinna sem vildu ólmir hjálpa þeim til að dvelja sem mest erlendis !

 

Aðrir sem kunnu enganveginn að skammast sín, snöruðu sér beina leið yfir í kapitalismann og frjálshyggjuna, fylltust græðgi og siðleysi, og fóru að moka inn gróða fyrir einkabisniss og allskyns dularfull almannatenglastörf, og gerðust jafnvel gullvægar auglýsinga-raddir fyrir verslunarauðvaldið í Reykjavík. Þar kom best í ljós fyrir hvað hjörtu þeirra höfðu alltaf slegið !

 

Það væri fróðleg lesning, ef gefin væri út bók um feril alls þessa falska donnaliðs, eftir að það sveik Alþýðubandalagið og gekk af því dauðu !

 

 

 

 


Rústum því ekki sem rétt er !

 

 

Erum við sem þjóð að vaxa eða rýrna ? Er þjóðlegt gildi okkar meira í dag en það var um aldamótin síðustu ? Erum við að ganga til góðs til framtíðar ? Erum við að styrkja siðferðilega undirstöðu íslensku þjóðarinnar ? Stöndum við á sterkari grunni en áður ?

 

Ég hygg því miður að öllum þessum spurningum sé ekki hægt að svara öðruvísi en neitandi. Við höfum eyðilagt félags-hyggju viðhorf þjóðarinnar. Við höfum eyðilagt ungmennafélagsandann og þar með heilbrigða íþróttahreyfingu í landinu. Við höfum leitt þar peningaguðinn til alveldis og lútum þar hans boðum. Við höfum sundrað samvinnuhreyfingunni og leyft innanbúðar oligörkum að yfirtaka fjármuni hennar. Og við höfum eiginlega gert alþýðusambandið að einhverju sem enginn veit í dag hvað er !

 

Félagshyggju systurnar þrjár, Ungmenna-félags-hreyfingin, Samvinnu-hreyfingin og Verkalýðs-hreyfingin eru ekki lengur það sem þær voru. Það er engin ræktun lands og lýðs í gangi. Það er bara sérgæska í gangi í þessu samfélagi. Menn sem eiga peninga og hafa eignast þá að mestu eftir svörtum leiðum, rækta bara sinn hag á kostnað samfélagsins. Og samt virðast þeir telja sumir hverjir að þeir hafi mikla samfélagskennd. Ástand þjóð-félagsins sýnir samt að hin miklu áhrif auðmanna á samfélagið hafa gert það ómanneskju-legra, kaldara og eins og því sé spýtt um sviðið út úr gráðugum kjafti Mammons !

 

Kynslóðin sem byggði upp hið íslenska þjóðfélag er nú sem óðast að hverfa, afgangur hennar situr í dag á elli-heimilunum og hugsar með sér : – ,,Ekki var það nú þetta sem við vildum byggja upp, hvernig í ósköpunum gat þetta farið svona ?“ En sérgæskan fékk bara að éta upp samkennd þjóðarinnar og var studd til þess á allan hátt af samskonar öflum erlendis frá, siðlausum og illum !

 

Og nú er svo komið að þjóðin veit ekki lengur hvað hún er. Fullt af fólki virðist bara snúast um sjálft sig og velkjast í vafa um líf sitt og manngildi. Það veit jafnvel ekki lengur af hvaða kyni það er. Og allskyns félagastofnanir eru settar á koppinn, sem sannarlega eru ekki til þess að efla samfélagið. Það virðist hver slíkur hópur vera á sinni einkakrossferð, með sínar kröfur í það, sem er þegar á leið með að verða andlegt og siðferðilegt þrotabú þjóðarinnar !

 

Það góða sem við eigum sameiginlegt virðist sífellt minnka og þar með líkurnar á því að fólk eigi samleið til framtíðar. Það er Mammon sem ræður för og nú er verslað með alla hluti, jafnvel það sem nánast enginn hefði verslað með fyrir hálfri öld. Hvað kostar ein æra, hvað kostar samviska, hvað kostar ein sál !

 

Valdamenn virðast selja allt sem ætti að gera þá að manneskjum fyrir framapotið. Þessvegna njóta þeir ekki virðingar lengur. Allir vita nefnilega hvernig þeir ættu að vera þó enginn þeirra sé það. Og sumir hafa sýnilega selt allt sem áður var talið þeim til gildis, fyrir að fá að halda sinni vegtyllu. Og þegar svo er komið eru aðeins tætlur eftir af þeirri persónu sem eitt sinn þóttist vera. Allar hugsjónir eru farnar, sviknar og seldar og sálin líklega með !

 

Grundvölluð skoðanafesta virðist ekki lengur vera áberandi í íslensku samfélagi og menn sýnast jafnan tilbúnir til að stökkva á eitthvað annað og nýrra sem hugsanlega gæti skilað meiru. Það eru því margir siðskiptafræðingar á ferð um veiði-lendurnar og líklega fæstir með eitthvað gott í huga gagnvart náungum sínum !

 

Sjálf kirkjan er komin í einhverja sjálfumvafna klípu. Biskupan hélt áfram í embætti sínu umboðslaus og skákaði liðinu til og frá, enda kvennavald stofnunarinnar orðið svo til algjört nú á dögum. Prestar eru heldur ekki að ríða um landið á hestum í stórhríðum og stormum eins og forðum, frjósandi fastir í vök til dauða, eins og séra Þorvaldur Bjarnarson í Hnausakvísl 1906. Nú er prests-starfið líklega orðið að mestu notalegt skrifstofustarf og því flæða konurnar svo í guðfræðinámið að karlar eru að hverfa úr stéttinni og presturnar eru alveg að taka yfir, upp í topp. En sú presta sem vermir toppsætið sem biskupa, verður nú samt að hafa umboð til að vera yfirpresta og biskupa jafnvel þó hún sé kona !

 

Þannig sýnir sig agaleysi á öllum stöðum og allir virðast vilja að lög og reglur verði bara eins og þeim hentar. Það er fullkomin uppskrift að upplausn eins samfélags. Enda er alltaf að verða minna um það að fólk virði það sem virða ber. Samfélagskennd er sýnilega á útleið, nema kannski hjá einstaka auðmanni sem heldur að hann fái englasvip ef hann auglýsir sig rækilega sem sérstakan sálareiganda að slíkri kennd !

 

En Íslendingar yppa bara þar fyrir utan öxlum við siðfræðilegum álitamálum og velta sér um hrygg í sandkassasölum hinnar Mammons-smurðu sérgæsku. Þessvegna eru þeir á leið inn í torfkofana aftur !

 

Það eru kannski 50-100 ár í það, en þar lenda þeir með sama áframhaldi og þar eiga þeir kannski fyrst og fremst heima, þegar sérgæskan er búin að rústa öllu því sem rétt er og átti að þjóna heilbrigðu samfélagi !


Um samfelldar andstæður í veltandi veröld !

 

 

 

 

Hvað er frelsishetja, hvað er hryðju-verkamaður ? Getur sami maður verið frelsishetja og hryðjuverkamaður ? Já, í þessum heimi er það víst alveg mögulegt. Hann getur jafnvel verið friðarpostuli líka. En stangast það samt ekki allt á ?

 

Ekki í þessum heimi ! Í þessum heimi geta menn leikið andstæð hlutverk í lífinu eins og ekkert sé. Og fylgismenn skortir ekki þó menn fari í gegnum sjálfa sig og það margsinnis og séu ekki trúverðugir fyrir fimm aura. Af hverju er þetta svona, er það kannski vegna þess að mannleg heimska sé takmarkalaus - eða hvað ? Margt bendir reyndar til að svo sé !

 

Eftiröpunin og endurtekningarnar er líka ömurlegar uppákomur í pólitík því þar verður oftast hver ný útgáfa þeirri fyrri verri. Justin Trudeau er ómerkilegri leiðtogi en Pierre Elliott Trudeau faðir hans og virðist fljóta áfram á lýðskruminu einu. Kanada hefur sett niður í augum heimsins á valdatíma hans, enda virðist dómgreindar-inneignin ekki sérlega burðug hjá þessum leiðtoga sem þrífst sennilega helst á því að vera sonur pabba síns !

 

Og nú er annar Marcos sestur að völdum á Filippseyjum. Ekki var faðirinn góður og varla mikil spurning hvernig sonurinn verður. Hversvegna í ósköpunum kýs fólk svona menn yfir sig ? Er spilling samfélagsins á svona háu stigi, eru ranghugmyndir almennra borgara svona yfirtaks öflugar í því að villa mönnum sýn og blekkja þá ? Hvað veldur því að fólk kýs sérgæskusinnaða valdamenn svo oft og iðulega yfir sig gegn almanna-hagsmunum ?

 

Við Íslendingar skerum okkur ekki mikið úr í þessum efnum, en líklega er aðalmeinið hjá okkur, að atgervisleysið hjá þeim sem vilja vera leiðtogar á Íslandi er svo hrikalegt. Sumir frambjóðendur geta svo sem talað og sykurhúðað hverja setningu, en þar fyrir utan er hæfnin engin og ekkert gefur þar vonir um neina hugsjón eða þjóðlega endurnýjun !

 

Leiðtogahæfni í íslenskri pólitík er þannig nánast engin. Síðustu hálfa öldina hafa engir pólitískir foringjar komið fram, hvorki til hægri né vinstri, sem hafa náð að stökkva yfir meðalmennskuna og tekist að bjóða þjóðinni upp á skýra og heilbrigða framtíðarsýn. Líti menn bara yfir sviðið. Nokkrir framagosar öðluðust að vísu tiltrú á þessu tímabili, en það gerði þeim bara auðveldara um vik að skaða þjóðina og orðspor hennar í óstöðugum heimi !

 

Og við vitum að þegar allt var komið í óefni, vegna vanhæfni og getuleysis stjórnvalda, var eina ráð kerfiskónganna að segja : ,,Guð blessi Ísland“. En auðvitað var ekki hægt fyrir Skaparann að blessa það Ísland sem búið var að sjóða saman úr forhertri fjármálaspillingu og mismuna öllu mannlífi hér í gegnum alls konar mafíutengda kerfisklæki. Og þrælslundin gagnvart erlendu valdi virðist nú hafa drepið niður allan manndóm Íslendinga !

 

Mikið hefði það verið dásamlegt, ef við Íslendingar hefðum getað búið við einhverja mannkostaforustu og haldið tryggð við sjálfstæðis-hugsjónir fyrri kynslóða í þessu landi. Ávaxtað þannig pund okkar með heiðarlegum hætti og notið virðingar annarra þjóða fyrir staðfestu og þjóðlegar dyggðir. En því hefur ekki verið að heilsa. Græðgisfarsótt Vesturlanda settist hér að sem víðar !

 

Allir sem spilla og eyðileggja samfélög, ræna þjóðareignum og hlunnfara almannahag eru hryðjuverkamenn, og slíkir menn hafa sannarlega komið við sögu hér. Margir íslenskir aðilar hafa prédikað frið hér en hafa samt staðið fyrir ófriði um leið, sennilega án þess að gera sér grein fyrir því. Samfellur andstæðna virðast fylgja mörgum hérlendis sem erlendis !

 

En frelsishetjur, þjóðfrelsishetjur, sannir varnarmenn sjálfstæðis Íslands, slíkar persónur virðast hinsvegar ekki sjást lengur á pólitíska sviðinu og finnast sennilega ekki lengur hér. Menn geta líklega verið svo til allt á Íslandi og það jafnvel á mjög andstæðufullan hátt, nema hetjur í þágu hugsjónar sjálfstæðis og frelsis eigin þjóðar. Það verða Íslendingar víst seint héðan af !

 


Afleiðing dreifingar Gyðinga !

 

 

 

Enn á ný hefur eldur blossað upp fyrir botni Miðjarðarhafsins og þar berjast bræðraþjóðir sem fyrr, afkomendur sama ættföðurs. Seint ætlar því óheillaferli að linna með þeim óhemju þjáningum sem því hafa fylgt. Ógæfumenn illsku og haturs blása þar stöðugt að kolum ófriðar og manndrápa og allur heimurinn stendur agndofa gagnvart þeirri holskeflu hryllingsins sem þar minnir á sig enn og aftur öllum til tjóns !

 

Vegna þess að Gyðingar voru á sínum tíma reknir frá landi sínu og bannað að eiga þar heima, eftir skipun hins rómverska valds, dreifðust þeir út um allan hinn þekkta heim. Sú dreifing var afleiðing ofbeldis og Gyðingum var hvergi vært. Alls staðar voru þeir ofsóttir fyrir að vera börn þjóðar sinnar !

 

Vegna þessa ofbeldis og umræddrar dreifingar Gyðinga um heiminn á sínum tíma, hafa þeir orðið borgarar og síðan valdamenn í mjög mörgum löndum, enda er dugnaður þeirra mikill að koma sér áfram, og greindarstig þeirra oftast með því besta sem þekkist !

 

Þeir eru samt víða hataðir og kannski ekki síst fyrir þá hæfni sem þeir sýna jafnan í því að koma sér áfram og eignast peninga. Þá er líklega öfund til staðar hjá þeim sem komast lítið sem ekkert áfram að kjötkötlunum og betri lífsgæðum og vilja kenna öðrum um eigið gæfuleysi. Það er ný og gömul saga í heimi hér !

 

Ófáir eru þeir Gyðingarnir sem hafa orðið valdamenn og verið myrtir vegna haturs manna á Gyðingum og ýmissa heldur innantómra áfellisdóma. Menn eins og Walther Rathenau, George Mandel og margir fleiri hafa þannig verið myrtir. Í flestum ríkjum Evrópu hafa Gyðingar orðið fórnarlömb með þeim hætti. Listinn yfir það gæti trúlega orðið nokkuð langur ef þar væri allt tínt til !

 

Það er alkunna að Gyðingar í þúsundatali gegna valdamiklum störfum í bandaríska ríkiskerfinu. Þeir eru ríkisstjórar, þing-menn, ráðherrar og dómarar og einnig víða mjög áhrifamiklir þjónustu-menn annarra valdamanna. Fólk af mjög mörgum þjóðernum býr í Bandaríkjunum, en Gyðingar hafa algera sérstöðu í því að koma sér inn í ríkiskerfið og verða sér úti um valda-stöður þar. Mikið fjármálavald hefur líka alltaf og stöðuglega fylgt bandaríska Gyðingasamfélaginu og eflt það og stutt á alla lund, og jafnframt verið Ísraelsríki eftir stofnun þess, mikill haukur í horni !

 

Henry Kissinger var gerður að utan-ríkisráðherra Bandaríkjanna 1973 og hafa nú þrír Gyðingar gegnt þeirri stöðu. Kissinger á vægast sagt mjög flekkóttan feril að baki, en hann fékk samt friðar-verðlaun Nóbels á sínum tíma, en reyndar á algerlega fölskum forsendum, eins og svo margir aðrir. Kissinger er enn á lífi, orðinn 100 ára. Kannski vill ekkert máttarvald taka við honum hinum megin. Ekki var Madeleine Albright betri í embættinu og nú er Antony Blinken þar, vígreifur hægrimaður eins og svo margir bandarískir Gyðingar !

 

Gyðingar hafa líka verið valdamiklir í Bretlandi í gegnum tíðina. Disraeli var náttúrulega Gyðingur og Rotchild ættin réð þar löngum miklu í fjármálum á bak við tjöldin. Herbert Samuel síðar lávarður var Gyðingur og fylgjandi Zionisma og svo má nefna í seinni tíð bæði David Cameron og Boris Johnson sem breska valdamenn af Gyðinga-ættum. Frá Frakklandi er sömu sögu að segja, þar má nefna t.d. Mendés France, Leon Blum, Michel Debré, Laurent Fabius, Nikolas Sarcozy, Dominique Strauss-Kahn og George Mandel. Á Vesturlöndum eru Gyðingar svo alla jafna mjög valdamiklir í stór-fyrirtækjum og auðhringum, ekki síst í Bandaríkjunum !

 

Skammt er síðan við Íslendingar áttum forsetafrú sem var og er Gyðingur, og eftir því sem heimildir segja ekki á flæðiskeri stödd fjárhagslega. Fjölskylda hennar mun hafa auðgast mjög á verslun með demanta. Eðlishæfni Gyðinga til verslunar og viðskipta er alveg einstaklega afgerandi og sýnir, að minni hyggju, að þeim sé undarlega mikið gefið og þar komast hreint út sagt engir í nokkurn samjöfnuð. Menn geta svo velt því fyrir sér hversvegna svo er ?

 

Ísraelsríki hefur verið endurstofnað þar sem ríki Gyðinga stóð áður. Þeir urðu sem fyrr segir, að yfirgefa land sitt nauðugir, voru reknir þaðan burt. En þeir týndust ekki í þjóðahafinu eins og svo margar aðrar þjóðir. Þeir varðveittu þjóð-erni sitt en bjuggu þó alls staðar við ofsóknir. Sú saga er ljótari en flest annað !

 

Arabar hafa bent á að ekki séu allir þeir Gyðingar og afkomendur Abrahams sem telja sig til Gyðinga í dag. Þar séu líka afkomendur Khazara, en Khazarríkið í Suður Rússlandi var voldugt í um þrjú hundruð ár, um 650-950, og það á að hafa tekið júdaisma að ríkistrú. Það má vel vera, að einhverjir afkomendur Khazara séu á meðal Gyðinga í dag, en það er tæpast umtals-verður fjöldi fólks !

 

Mikil og aldagömul rangindi voru leiðrétt að hluta til 1948. Gyðingar eignuðust tilvistarrétt í hinu forna landi sínu, en hafa þó þurft að berjast hart fyrir tilveru sinni þar alla tíð. Þeir geta líka verið harðir í horn að taka, enda þurfa þeir líklega að vera það. En ætluð lausn hinna gömlu vandamála svæðisins leiddi strax af sér ný vandamál sem hafa aldrei verið leyst !

 

Hryðjuverk og ógnir af hálfu beggja hinna stríðandi aðila hafa oftast komið í veg fyrir raunhæfa stefnu í friðarátt. En jafnvel verstu óvinir Gyðinga verða þó að skilja, að einhvers staðar verða þeir að fá að vera og Ísrael er ómótmælanlega þeirra forna land, ekki Uganda eða Antarctica !

 

Svo er það nú þannig, að tíu ættkvíslir Gyðinga, allar ættkvíslir Norðurríkisins, týndust við herleiðingu og útlegð á fyrri tímum, svo þeir Gyðingar sem nú þekkjast eru aðeins afkomendur þeirra tveggja ættkvísla sem mynduðu Suðurríkið, Júda og Benjamín. Það veit því enginn lengur hvar afkomendur hinna tíu ættkvísla eru. Þeir sem telja sig til verstu óvina Gyðinga og segjast hata þá í merg og bein, gætu þessvegna sjálfir verið komnir af Gyðingaættum !

 

 

 


Skattheimta skítmennskunnar !

 

 

 

Lengi framan af ævi var ég stuðningsmaður Ríkisútvarpsins. Það má jafnvel segja að ég hafi verið hollvinur þess og talið það nauðsyn fyrir land og þjóð. Það átti meðal annars að kynna okkur sem sjálfstæða þjóð og vaka yfir því að við héldum okkur í þeirri stöðu. Þannig held ég að margir fleiri hafi hugsað á þeim árum !

 

Það var margt gott efni í útvarpinu hér áður fyrr, þjóðlegt efni og þroskandi og tengingin við fólkið í landinu virtist heilbrigð og sönn, þannig að útvarpið virtist vera að skila hlutverki sínu með ágætum. En nú er öldin önnur í þessum efnum - vægast sagt !

 

Mér finnst að á seinni árum hafi útvarpinu eiginlega verið stolið frá þjóðinni. Það er ekki lengur þjóðlegt eða þroskandi. Það er bara orðið ömurlegt fyrirbæri. Sem Íslendingur get ég ekki lengur meðtekið það sem menningareflandi íslenskan fjölmiðil.Dagskráin virðist eiginlega bara meira og minna einhver meiningarlítil menningarsuða fólks sem virðist vera að farast úr fjölmenningarfári og egoisma !

 

Það er eins og einhver áróðursklíka innantómrar sjálfselsku og sérhagsmuna-legra bolabragða hafi tekið yfir allt og dagskráin virðist mér nánast undan-tekningarlaust einómur slíks efnis. Markaðshyggjan er látin valta yfir allt og þjóðlegum viðhorfum er nánast úthýst með öllu fyrir endalausa menningarslepju !

 

Ekki veit ég hver fjandinn stjórnar svona öfugum vinnubrögðum, en ég þykist nú gjörla vita að Ríkisútvarpið mitt gamla sé dautt og meira að segja verra en dautt. Það er orðin ógeðsleg andstæða þess sem það var og átti að vera. Það tók mig nokkurn tíma að trúa því virkilega að hlutirnir væru orðnir svo falskir og ómerkilegir sem þeir eru. En ég gat ekki sætt mig við fréttalygabatteríið lengur !

 

Það er sem sagt orðið fullljóst í mínum huga, eftir illa reynslu af síversnandi hamskiptum fjölmiðilsins, að Ríkis-útvarpið er ekki lengur það sem það var. Það er orðið að umskiptingi þjóðleysu og gervimenningar. Það stendur ekki lengur neinn vörð um sameigin-legan arf okkar Íslendinga. Skyldur þess virðast allar orðnar handan hafs og bera fáu því vitni sem verja ber fyrir okkar hönd !

 

Einhverjir fyrirlitlegir ómenningarhópar virðast nú ráða lögum og lofum í þessu, að mér finnst, úrkynjaða útvarpi og endalaust útlendingadekur og flæði af ómerkilegu bulli virðist nú fylla hverja rás. Og svo erum við öll skattlögð fyrir þennan ósóma, sem er okkur þó ekki lengur þjóðvanda-bundinn á nokkurn hátt og engu íslensku til framdráttar. 20.200 kr. skattur er þar lagður á hvern og einn með valdboði !

 

Ég vildi sannarlega sjá þær krónur fara í eitthvað uppbyggilegt. Þær gera það ekki þarna. Ég vil að menn almennt afneiti þessum skatti sem á engan rétt á sér lengur. Hvernig er hægt að fara svona með hlutina ? Eru Íslendingar að missa allt þjóðlegt úr höndum sér og verða að algerum viðrinum í þessu ríksútvarpslausa samfélagi sem virðist ekki hafa neina heilbrigða stýringu lengur ?

 

Við höfum átt ýmislegt í þjóðlegum skilningi mála frá fyrri tíð, en margt af því virðist sannarlega hafa verið eyðilagt í hamslausri efnishyggju-græðgi síðari ára sem virðist ekki þekkja nein takmörk lengur. Íslenska þjóðin er þar komin fram á ystu nöf !

 

Það virðist hreint út sagt lítil sem engin heilbrigð hugsun viðhöfð í fréttaflutningi þessa skrumskælda fyrirbæris sem nú er kallað Ríkisútvarp okkar Íslendinga, en er það ekki lengur. Fátt undirstrikar að þar sé um að ræða sjálfstæðan fjölmiðil sem ber sjálfstæðu ríki eðlilegan vitnisburð. Sú svikastaða sannleiks-málanna ætti að hreyfa við hugsun hvers sjálfstæðs Íslendings og við slíkar aðstæður óboðleikans ætti fólk að rísa upp gegn ómennskunni og hrópa : ,, Við mótmælum öll !“

 

Til dæmis er öllu efni útvarpað frá vestrænum fréttastofum eins og heilögum sannleika og ekkert sannprófað. Fólk er því ekki lengur að hlusta á fréttir, það er að hlusta á áróður, sem virðist að miklu leyti settur saman úr tómum lygaþvættingi og það út í gegn !

 

Mér ofbauð að lokum svo gjörsamlega hvernig komið var, að ég hætti fyrir rúmu hálfu ári að hlusta á sjónvarpsfréttir og fréttatengda þætti frá þessari endur-varpsstöð Nató, sem hér er nú rekin fyrir íslenskan skattpening og kölluð ríkis-útvarp. Ég fann fljótlega að það gerði mér bara gott og að ég gat notað tímann í miklu þarflegri hluti !

 

Ég þrífst nefnilega ekki á lygum og einhverri fréttamafíu-framleiðslu sem send er á pólitískum færiböndum frá ESB og Nató í Brussel. Enginn ærlegur maður ætti að hlusta á efni sem er honum til vits-munalegs tjóns og gerir hann að lakari manneskju en ella !

 

Sumir starfandi fréttamenn virðast orðnir svo ákafir í að verða frægir fyrir að afhjúpa einhverja hliðstæðu af Watergate spillingarmáli, og ganga svo langt í þeirri löngun sinni, að full ástæða er orðin til þess að gjörðir þeirra sjálfra séu rannsakaðar og afhjúpaðar. Þeir eru þá komnir út fyrir allt velsæmi !

 

Í sumum tilfellum virðast þeir sjálfir búa til spillingarmálin. Ég fæ ekki betur séð en að Páll Vilhjálmsson stórbloggari hafi einmitt bent á ýmsar hættur sem skapast geta í kringum slík mál og hafa þær upplýsingar verið sérlega athyglisverðar og umhugsunar-verðar svo ekki sé meira sagt !

 

Ég vil halda í þjóðlega réttlætiskennd mína, sannleiksást og siðvitund. Ég geri það ekki með tengslum við ónýtt frétta-batterí eins og hið gildisfallna Ríkis-útvarp. Það þjónar nú allt öðrum tilgangi, að mínu mati, en því gamla þjóðlega viðhorfi að halda Íslendingum á heil-brigðum grundvelli mennsku og manndóms og leitast við að segja sannleikann. Þar er um mikla afturför að ræða í öllu siðrænu tilliti. Það er hryllingur að verða vitni að slíku !

 

Þegar ég horfi yfir mjög svo umrætt, en að minni hyggju, mjög svo spillt og eyðilagt svið frjálsrar íslenskrar hugsunar hjá viðkomandi fjölmiðli, renna mér í hug eftirfarandi hendingar :

 

Burt er það sem bætti haginn,

bjargaði mörgu í gegnum daginn.

Enginn lengur yls þar nýtur,

eftir situr bara skítur !

 

 

 


Ríki með örlagadóm yfir sér !

 

 

Hvaða ríki heimsins í dag er í hinum rómversku sporum og hefur verið það í mannsaldur ? Hvaða ríki er í stöðugu stríði við frelsishreyfingar ótal landa, annað-hvort beint eða í gegnum samvisku-lausar undirlægjur sínar ? Hvaða ríki væri ófreskja í augum stofnenda sinna ef þeir sæju framferði þess í dag ?

 

Hvað myndi hinn réttlætissinnaði John Adams segja, eða hinn hugsjónaríki Thomas Jefferson og hvað myndi George Washington segja ? Hann sem lagði ríkinu línurnar til framtíðar í kveðjuræðu sinni og gæti séð í dag að allar þær línur hafa verið þver-brotnar og ríkið sem hann leiddi á legg í byrjun, orðið verra en flest önnur ríki veraldar ?

 

Rómverski kúgunar og drottnunar andinn hefur yfirtekið allt sem var þessu ríki í upphafi til gildis og gert það á seinni áratugum að afskræmingu þess sem það átti að verða. Það hefur allt snúist við í frelsisríkinu gamla og Mammon og mann-vonskan stjórna því ríki núna. Þannig hafa Bandaríkin tortímt öllu því sem hægt var að virða þau fyrir í eina tíð og fyrirgert þar með öllum heiðri sínum !

 

Þvílíkt fall, þvílíkt mennskuhrap ! Það er skiljanlegt að J. William Fulbright hafi sagt um 1970, að svo væri komið, að það væri aðeins á færi geðsjúklinga að skilja utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Og þetta sagði maður sem lengi var formaður utan-ríkismálanefndar Bandaríkjanna og reyndi árum saman að beina málum þar til betri vegar, fyrir Bandaríkin og heiminn allan !

 

En menn eins og J. William Fulbright töluðu fyrir daufum eyrum í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Öll hugsunin þar snerist um að útrýma kommúnistum. Þeir áttu að vera alls staðar í kerfinu. Og nú er svo komið að menn eins og Fulbright eru þar ekki lengur til. Gildisrök þeirra voru gjald-felld að fullu og þar með öll heiðarleg hugsun. Bandaríkin þurftu ekki á slíkum hégóma að halda. Það var nóg að hafa vald sem allir áttu og urðu að hlýða !

 

Frá 1945 varð ekki aftur snúið. Bandaríkin áttu ein allra ríkja kjarnorkuvopn og voru ósigrandi og hroki þeirra hrakti alla dómgreind innan stjórnar bandaríska alríkisins fyrir björg. Mannleg glóra hvarf þaðan að mestu og hefur ekki snúið aftur til nokkurra sýnilegra athafna þar enn þann dag í dag !

 

Þannig sökk ríki Washingtons, Adams og Jeffersons, já og Lincolns, niður í svart-nætti fúlustu miðaldahugsunar og fullrar grimmdar hins rómverska kúgunar-anda. Það góða var þurrkað burt, hið illa sat eftir !

 

Það getur ekkert bjargað Bandaríkjunum framar. Þau hafa af eigin græðgishvötum gengið svo langt að leið til lausnar er ekki lengur til. Ríkiskerfið er spilltara en orð fá lýst, ofbeldisandinn fer ham-förum í öllu samfélaginu og helstu valda-menn virðast algerlega heilsteiktir á leið til helvítis. Það er komið að skuldadögum fyrir stjörnuríkið !

 

Þvílík niðurlæging og skömm ! Þetta ríkjasamband hafði glæsilega möguleika til þess að verða til góðs fyrir heiminn allan. En eftir 1860 tók það stefnuna algjörlega til versta vegar. Síðan hefur ekkert heilbrigt ráðið þar för til lengdar og allt stefnt til glötunar !

 

Þannig hefur uppbygging hins nýja heims skilað sér. Bandaríkin hafa gert hann verri en gamla heiminn sem þó var langt frá því að vera góður. Það kom engin siðbæting vestan að, aðeins spilling og bölvun sem hvolfdist yfir gamla heiminn eins og alefling alls þess vonda sem þar var fyrir !

 

Eftir 80 ára yfirgengilegan valdatíma Bandaríkjanna á heimsvísu, er veröldin jafnvel verri og spilltari og hættulegri sjálfri sér en hún hefur nokkru sinni verið !

 

Sú staða skrifast fyrst og fremst á syndareikning hins stríðsóða bandaríska Rómaveldis í Vesturheimi og þar fer að koma að því að skrifaður verður á veggi örlagadómur hinna hinstu skila. Honum verður ekki breytt héðan af !

 

 


Norður-Atlantshaf og Svarta haf ?

 

 

 

Nató var stofnað í upphafi um lífæðina Norður Atlantshafið, til að tryggja að umrætt hafsvæði yrði óumdeilanlega í höndum Vesturveldanna um ókomin ár. Sumir telja að kafbátahernaður Stór-Þýskalands nazismans í Seinni heimsstyrjöldinni hafi komist nálægt því að hindra að fullu birgðaflutninga með siglingum frá Banda-ríkjunum til Bretlands. Með stofnun Nató átti að koma í veg fyrir að slík örlaga-hætta gæti skapast aftur !

 

Í dag er Natóbandalagið hinsvegar notað sem varðhundur fyrir töluvert miklu meira hafsvæði en Norður Atlantshafið.Banda-lagið virðist til dæmis skilgreina Svarta hafið núorðið innan sinna gæslumarka. Útþensluhugsunin sem í því felst felur í sér beinn yfirgang gagnvart rétti annarra ríkja. Þar er ekki varnarhugsun í gangi heldur árásarhugsun og ágangur á rétt annarra þjóða !

 

Ef Bandaríkin vestanhafs, sem stjórna Nató austanhafs,vilja ráða á Svartahafi, austur í heimi, í annarri heimsálfu, ætti engum að þykja skrítið að Rússland vilji hafa eitthvað um það að segja, stórveldi sem á land að umræddu hafi að stórum hluta !

 

Samt eru stöðugt sendar út fréttir um yfirgang Rússa á þessu svæði, en ekki er minnst á yfirgang Bandaríkjanna og Nató á hafi sem ætti að vera utan þeirra lögsögu. Í vörn sinni fyrir eigin hagsmunum vilja Bandaríkin í raun ráðskast með allan heiminn !

 

Það hefur þýtt og mun þýða viðvarandi stríðsátök víða um heim. Ekkert ríki skapar meiri ófrið í þessari veröld en Bandaríkin og svo hefur lengi verið. Það ættu menn nú að geta séð eftir áratuga reynslu af heimsyfirráðastefnu Pentagon-ríkisins !

 

Hefði Nató verið lagt niður eftir hrun Sovétríkjanna og stefnt ákveðið að friði, væri ástand heimsmála að öllum líkindum mun betra í dag en það er. En Vesturveldin vildu ekki ganga veg friðarins. Þau vildu halda sínum hernaðarmætti óskertum og hafa áfram fulla burði til að deila og drottna um allan heim. Það hefur alltaf verið þeirra meginmarkmið og vegna þess virðast haukar þeirra tilbúnir að hefja ótak-markaða styrjöld og breyta með því heiminum í blóðugan vígvöll og gera alls-herjar ruslahrúgur úr helstu borgum heims !

 

The Secret Military Plan, Operation Unthinkable, hugmynd Churchills í lok síðari heimsstyrjaldar, sem fór í þróun af hálfu breska hersins og Bandaríkjanna strax í maí 1945, er bersýnilega enn til staðar á skoðunarborðum Nató. Sú hugmynd hefur aldrei þýtt annað en að þriðja heimsstyrjöldin verður sett af stað og þessari veröld verður eytt í vítislogum kjarnorkustyrjaldar !

 

Hvernig er með kerfisbatterí Sameinuðu þjóðanna, sem illu heilli var byggt upp í New York ? Hefur það aldrei séð ástæðu til að gagnrýna framferði Bandaríkjanna um allan heim, að bandarísk réttindi séu í forgangi alls staðar. Er allur heimurinn viðurkenndur af æðstu stjórn S.Þ. sem bakgarður Bandaríkjanna ?

 

Af hverju eru lönd eins og Rússland, Kína, Indland og nokkur fleiri, yfirleitt að taka þátt í starfi eða öllu heldur starfsleysu S.Þ. ? Öll yfirstjórnin þar þjónar undir Vesturveldin og hefur alltaf gert og aldrei verið hlutlaus. Aðalritarar S.Þ. hafa aldrei verið neitt annað alla tíð en auðmjúkir skrifstofumenn í pappírs-bákni blekkingar og svika og hneigt sig og beygt eftir húsbóndans vilja !

 

Sameinuðu þjóðirnar hafa þannig aldrei náð því að verða eitt eða neitt. Bandaríkin eyðilögðu alla möguleika samtakanna til að verða mannkyninu að einhverju gagni. Þau voru nánast frá upphafi gerð að ómerkilegu leikfangi í höndum pólitísks rétttrúnaðar á Vesturlöndum. Það ætti umsvifalaust að leggja S.Þ. niður og bygging samtakanna í New York getur þá bara hýst deildir úr Pentagon eða CIA með öðrum svikahætti !

 

Aðalstöðvar slíkra samtaka, ef trúverðug hefðu átt að verða, hefðu miklu frekar átt að byggjast upp í Sviss. Fyrir tíu árum hefði ég kannski freistast til að nefna Svíþjóð að jöfnu, en Norðurlöndin eru nú öll rúin trausti í alþjóðlegum skilningi og öll talin heilaþvegin Natósleikjuríki. Neðar verður varla komist í beinum undir-lægjuhætti gagnvart erlendu valdi !

 

Það er athyglisvert að aukið kvennavald í norrænni pólitík virðist hafa gert Norðurlöndin að hálfu viljugri leikbrúðum í höndum Nató en áður var. Var þó nóg þjónkun að margra mati til staðar í þeim efnum frá fyrri tíð svo stríðsmaskínan gæti fengið sitt !

 

En norrænar konur í valdastöðum virðast finna svo föðurlega vernd hjá Jens Stoltenberg að þær standast ekki sjarma hans.Þarf ekki langt að fara til að sjá dæmin um það. En ærlegur sjálfstæðisbragur viðkomandi landa er því miður orðinn svipur hjá sjón eftir allan undirlægju-háttinn og alþjóðleg gildis-staða Íslands virðist nú skilgreind sem tómt viðhengi viljugustu þjóðar við stríðsstefnu Bandaríkjanna og Nató !


Verstu dæmi vondra þjóða !

 

 

Það er ekkert leyndarmál að svokölluð nýlenduveldi frömdu slíka glæpi í gegnum það illa skeið sögu sinnar, að það er og verður ólýsanlegt í allri mannkynssögunni. Og það eru einmitt þessi ríki sem eru alltaf að siða aðra til og þykjast öðrum fremri á öllum sviðum í góðum og ærlegum samskiptum við aðrar þjóðir !

 

Ég er hér að tala um Bretland, Frakkland, Belgíu, Holland, Spán, Portúgal, Ítalíu og jafnvel Danmörku. Lítum aðeins til Sögunnar. Bretar þóttust alltaf vera að sinna þróunarhjálp í nýlendum sínum, en arðrændu þær hinsvegar og kúguðu með þeim hætti, að þar ætti eiginlega að ríkja eilíft hatur í þeirra garð !

 

Framferði þeirra í Indlandi og hvar sem þeir kúguðu aðrar þjóðir, var endalaus ránskapur og svívirða. Drjúgur hluti af Lundúnaborg var byggður fyrir herfangið. Ferill Frakka og Ítala í norðurhluta Afríku var alveg sambærilegur að öllum viðbjóði og auk þess bættu Frakkar mjög við glæpasögu sína í Indókína, Sýrlandi og víðar eins og kunnugt er !

 

Belgar og Portúgalir óðu fram í mannvonsku sinni sunnar í Afríku og afhöggnar hendur og misþyrmd lík í Kongó, Angóla og Mosambique og hvar sem þeir komu að málum, mörkuðu slóðir þessara yfirgangsþjóða þar. Hollendingar léku sama leikinn í Indónesíu og annarsstaðar þar sem þeir létu til sín taka !

 

Já, Hollendingar segi ég, þeir voru þar sannarlega ekki öðrum skárri, þjóð sem hafði þó lengi þurft að berjast fyrir eigin frelsi gegn utanaðkomandi kúgurum og hefði átt að þekkja sín mörk !

 

Hollendingar höfðu verið frelsisþjóð sautjándu aldar í Evrópu. Þangað flykktist flóttafólk frá þeim löndum þar sem skefjalaust var níðst á minnihlutahópum. Í Hollandi ríkti frjálslynd stefna og þar fékk þetta hrakta fólk skjól og lífs-skilyrði. En Hollendingar reyndust því miður að engu leyti betri en hinar nýlendu-þjóðirnar, þegar þeir lærðu af þeim að fljúga á æti. Græðgin yfirtók þá og þeirra mennskufall gerðist í framhaldi mála mikið og ömurlegt !

 

Spánverjar eiga skelfilega fortíð í Suður-Ameríku þar sem þeir rústuðu ríkjum Inka, Azteka og Maya og drápu og eyðilögðu allt í óþrjótandi gullþorsta sínum og ómann-legri grimmd. Og síðar og víðar hafa þeir skapað sér öfugan orðstír, sem aldrei verður þagaður í hel. Og í gegnum þræla-sögubækur Thorkild Hansens geta menn kynnt sér, að litla Danmörk átti sér líka ljóta sögu í þessum græðgisfulla djöfladansi evrópsku menningarríkjanna í öðrum álfum og heimshlutum !

 

Þessar þjóðir sem hér eru fyrir sökum hafðar, eru mestu hræsnarar heimsins og þykjast alltaf öðrum betri. Þær setja upp dómstóla til að dæma aðrar þjóðir og leiðtoga þeirra fyrir stríðsglæpi og allar vammir og skammir, þær setja upp heiðrunarbatterí sem þjóna engu nema hræsni og hégóma, samanber Nóbels-vitleysuna. En ásamt seinni tíma læri-meistara sínum í ósiðunum, Banda-ríkjunum, hafa þessar sömu þjóðir gengið lengra í glæpsamlegri svívirðu en nokkrar aðrar þjóðir í þessum heimi !

 

Bandaríkin hafa lengi tileinkað sér þá erfð að verða samnefnari allra synda  gamla heimsins. Einkum og sér í lagi Vestur-Evrópuríkjanna. Fólkið sem flýði vestur til nýja heimsins á sínum tíma til að frelsast frá glæpum Evrópu, skilaði afkomendum sínum býsna fljótt inn í samviskulausan heim peningavaldsins. Heim sem hefur ávaxtað glæpasögu og hræsni gamla heimsins með svo yfirgengilegum hætti, að gömlu nýlendu-kúgunarríkin líta öll til Bandaríkjanna í dag sem meistara síns í yfirgangsferli og mannréttinda-brotum gegn öðrum þjóðum !

 

Og þessi ríki verða ekki dæmd af neinum glæpadómstól, þau eru ósakhæf, sama hvað þau aðhafast. Og friðarverðlaun Nóbels falla iðulega í hlut manna sem eru blóðugir til axla í gegnum feril sinn og hefðu aldrei átt að koma þar til greina. Og bókmenntaverðlaun Nóbels falla að sama skapi í hlut lítt þekktra rithöfunda í öðrum löndum, sem hafa unnið sér það oftast eitt til velvildar, að vera þar á móti ríkjandi stjórnvöldum, sem eru þá pólitískir andstæðingar nýlendu-níðinga-þjóðanna !

 

Svo er fólk dregið með í lygaáróðri pólitískra fréttastofa daginn út og inn, og það svarta gert að hvítu og alltaf segja málsvarar níðingaþjóðanna að verið sé að berjast fyrir friði og réttlæti þótt hvorttveggja eigi stöðugt erfiðara um vik í veröldinni. Og helvítis hljómsveitinni stjórnar heimsvaldapólitík Bandaríkjanna með stöðugri tónagjöf illræðisins út um allan heim frá Nató og CIA !

 

Þetta er heimsmyndin ! Þetta er það sem við búum við og trúum að þjóni góðum málstað. Og meðan aðrir heimshlutar eru kúgaðir og arðrændir og smáhluti af arðráninu er gefinn okkur til hlýðni og þagnar, segjum við Vesturlandamenn ákaflega lítið !

 

Við horfum að mestu leyti alfarið framhjá þeim glæpum sem framdir eru í nafni þjóða okkar, en ábyrgðin er samt okkar. Það mun sanna sig þegar öll skil verða gerð upp !

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 675
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 599
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband