Leita í fréttum mbl.is

Hver eru tákn tímanna ?

Fram eftir öldum þjónuðu eingöngu karlmenn sem prestar í kristnum kirkjum og allt þar til á okkar tímum þótti það ekkert sérstakt misréttismál gagnvart konum.

Þessir prestar voru reyndar ekki allir beinlínis fæddir til þess að inna frambærilega af höndum þá þjónustu sem prestsembætti á að fylgja, en það má heldur ekki gleyma því að fjölmargir prestar hafa verið miklir og góðir menn í hirðisstarfi sínu. Og það má heldur ekki gleymast að þótt konur hafi ekki gegnt embætti sem prestar, var hlutverk þeirra innan kristinna safnaða alls ekki lítið, það mun öllu frekar hafa verið slíkt að það verður seint ofmetið.

Margháttuð mikilvæg þjónustustörf sem konur höfðu með höndum, voru allt frá upphafi unnin innan safnaðanna og flest bendir til þess að kristið æskulýðsstarf hafi lengi framan af hvílt á herðum þeirra. Við getum t.d. séð það í Biblíunni að Tímóteus átti móður og ömmu sem voru mikilhæfar kristnar konur og eru þær báðar nefndar með nafni í Ritningunni.

Við getum merkt það á því og mörgu öðru að hlutverk kvenna í kristnum samfélögum var hreint ekki lítið eða ómerkilegt eins og sumir vilja vera láta, þó þær hafi ekki verið settar til þess að þjóna þar sem prestar.

Kvenprestar voru hinsvegar yfirleitt til staðar í flestum heiðnum trúarbrögðum. Það voru til margskonar hofgyðjur, Vestumeyjar, Bakkantinnur og fleiri afbrigði af því tagi. Ég ætla samt ekki að fjölyrða um það mál að sinni, þó mér þyki rétt að  undirstrika það að kristindómurinn hafði fram á okkar daga þá sérstöðu að vígja eingöngu karla til prestsembætta. Sú tilhögun mála varðar ákveðna hlutverkaskipan sem undirstrikuð er í Guðs Orði.

Nú hefur hinsvegar sú kirkja sem við höfum sem kristna kirkju í dag, látið undan þrýstingi tíðarandans og breytt fyrri hlutverkaskipan. Þar eru nú kvenprestar komnir til starfa og brátt verða konur líklega orðnar í meirihluta í prestastétt.

Ég tel að með þeirri breytingu sé kristin kirkja ekki lengur það sem hún var né það sem hún á að vera. Það er mín skoðun og ég fer ekki af henni  - meðan ég les það út úr Orðinu að hver hafi sitt hlutverk í áætlun Guðs og eigi að halda sinni stöðu.

Við vitum það hinsvegar að nú til dags er oft talað um kvennakirkju og kannski á kirkjan öll eftir að verða slík kirkja, en í henni verður Kristur náttúrulega ekki höfuðið því slík kirkja getur aldrei orðið kirkja hins Lifandi Guðs.

Kannski erum við þá að tala um allt aðra kirkju - kirkju Jessabel-andans !

Við lifum nú á tímum þar sem sjálfsagt þykir að gera uppreisn gegn öllum gömlum gildum, hvort sem þau hafa þótt góð eða slæm, því tíðarandinn er gegnsýrður þeim heilaspuna núlifandi manna að allt þarfnist endurskoðunar vegna þess að nú viti menn allt betur en áður hafi verið vitað.

Þessvegna erum við hætt að ganga gömlu göturnar, þessvegna er margt orðið á annan veg en við kannski kjósum helst - innra með okkur.

Rétttrúnaður trúleysisins ræður málum í dag með meðfylgjandi siðleysi og afneitun á  tilvist Almættisins. Undir blásandi byr hins guðlausa tíðaranda  er svo ýmislegt, sem fyrir aðeins nokkrum áratugum hefði verið talið framgangsmál siðleysis, sett fram sem mannréttindamál í dag.

Svo illa hefur okkur borið af leið hinna réttu siðaboða og það á undra skömmum tíma.

Svokölluð kvenréttindi hafa verið mikið baráttumál í nútímanum, enda búið að sá miklu til þess að svo gæti orðið, bæði í efnisheiminum og andaheiminum. Samfélagsbyggingin er öll að riðlast vegna þess að grunneiningar hennar eru að verða sundurtættar af völdum manna og djöfla.

Hjónaband, heimili og fjölskylda, allt er þetta að leysast upp í óskapnað þeirrar lögleysu sem kallast skal fullkomið frelsi í dag.

Hin aldagamla hlutverkaskipan milli karls og konu er að hrynja, því bæði kynin hafa þar yfirgefið skyldur sínar. Karlmaðurinn er að nálgast það að verða kona og konan að nálgast það að verða karl. Innan tíðar getur hin ráðandi fjölskyldumynd verið orðin svo afskræmd að fæstir munu vita þar lengur hvað er eðlilegt og hvað óeðlilegt.

Og þá mun flest til feigðar stefna, því ekki kennum við börnunum það sem við kunnum ekki lengur sjálf. Hugtök sem við höfum þekkt og haft á hreinu, hugtök eins og faðir og móðir, munu þá heyra sögunni til með þeim skilningi sem tengdist þeim.

Þegar byrjað er að gera hluti sem eru ekki af því góða, tekur það oft langan tíma fyrir fólk að sjá hvað í raun er á ferðinni. Kynslóðin sem hóf niðurrifsverkið er kannski öll fallin í gras áður en afleiðingarnar verða ljósar. Og þó þær verði ljósar munu alltaf finnast nægir hagsmunaaðilar til að verja meinvætti mannfélagsins. Það verður því aldrei neinn gerður ábyrgur fyrir samfélagslegu niðurrifs-verki, að minnsta kosti ekki fyrir neinum jarðneskum landsdómi !

Eins og fram kemur í Ritningunni, sagði Kristur mönnum að vera vakandi og lesa tákn tímanna !

Hver eru tákn tímanna í dag og hvað les fólk úr þeim ?

Hljóta þau ekki að blasa við okkur hvert sem litið er, ef við hættum bara að hegða okkur eins og strútar, og horfum vakandi í kringum okkur ?

Eitt af því sem ætti að segja okkur skýrt hvar við erum stödd í hinum ört fallandi náðartíma er það hvað hin góðu gildi eru lítilsmetin í dag ásamt gömlu götunum. Fáir horfa í trú til Jerúsalem, hinnar helgu borgar, en flestir virðast fúsir til að  lúta Babylon, móður hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar, skækjunni miklu.

Tákn tímanna eru skýr og segja sitt um stöðu mannkynsins og þá jörð sem við höldum áfram að vanhelga og eyðileggja sem dvalarstað lífs og framtíðar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 292
  • Sl. viku: 1273
  • Frá upphafi: 316663

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1001
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband