Leita í fréttum mbl.is

Tækifærismennska eða heilög einfeldni ?

Það er mjög furðulegt að hugsa til þess hvað Ólafur Skúlason komst langt á framabraut innan kirkjunnar sem utan, þegar þess er gætt að svo virðist í dag sem enginn hafi stutt hann eða staðið með honum á nokkurn hátt.
Allir þeir sem sleiktu sig upp við Ólaf meðan hann var og hét, hafa nefnilega í seinni tíð verið á harðahlaupum frá öllu því sem tengir þá við hann og reyna sem mest að gera lítið úr samskiptum sínum við hann. Þó hefur það nú komið fram að Ólafur hafi jafnan ráðið sviðinu þar sem hann var hverju sinni og aðrir viðstaddir fruktað fyrir honum.
Ég veit t.d. um prest nokkurn sem heldur úti bloggsíðu og skrifar þar ýmislegt athyglisvert. Viðkomandi maður er með menntagráðu með aðaláherslu á siðfræði frá erlendum háskóla og nefnir það að sjálfsögðu á síðu sinni sér til gildisauka, enda er slíkt ekki lítið veganesti fyrir mann í öllu siðleysinu hérlendis. Prestur þessi mun hafa starfað sem biskupsritari hjá kirkjunni þegar Ólafur Skúlason var þar starfandi biskup. Hann þekkti þó Ólaf Skúlason auðvitað ekki neitt og hafði náttúrulega lítil sem engin samskipti við hann sem biskupsritari - eins og gefur að skilja !
Þessi ágæti maður skrifaði á bloggsíðu sína eftir hið umtalaða sjónvarpsviðtal sl. haust við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, að hann hefði eftir viðtalið fyllst óhug og setið sem lamaður !
" Hvílík skepna hefur þessi biskup verið ! " segir hann svo, en dregur um leið í land, - sennilega fyrir áhrif siðfræðigráðunnar, og talar um að maðurinn hafi verið sjúkur, sem er skynsamlega ályktað. En í lok pistils síns segir viðkomandi svo : " Eftir að ég skrifaði um þessi mál í sumar, höfðu einar fjórar konur samband við mig og sögðu mér hryllilegar sögur úr sinni barnæsku. Ég bað þær um að tala við Stígamót. Hvatti þær til að koma fram. Bið þær um að hringja aftur ef ég get leiðbeint þeim frekar því að nöfn þeirra gleymdust mér ! "
Ég las þessi orð mannsins þrisvar sinnum því ég átti dálítið erfitt með að skilja þau. Hann segir að konurnar hafi sagt honum hryllilegar sögur, allar fjórar, og hann man ekki hvað þær hétu. Hann benti þeim bara á Stígamót ?
En nú við breyttar aðstæður, sér hann að líklega hefði hann þurft að sinna þessu eitthvað meira og hvetur konurnar til að hafa samband aftur, ef hann gæti hjálpað þeim eitthvað...!  
Til hvers skyldu þær nú hafa verið að hringja í hann ef ekki til að fá hjálp ?
Einhvernveginn finnst mér nú að þessi prestur með siðfræðigráðuna sé ekki alveg sannfærandi í málflutningi sínum með þetta og það læðist svona að manni sú hugsun að hann hafi einfaldlega ekki haft mikinn áhuga á því sem konurnar voru að segja og hugsanlega haft það eitt í huga að losna úr símanum sem fyrst.
Ég velti því líka fyrir mér hvort ég myndi gleyma svo létt nafni konu sem hringdi í mig og segði mér hryllilega reynslusögu úr lífi sínu ?
Og þarna var um fjórar konur að ræða sem gleymdust allar hvað nöfnin snertir !
Eins og ég sagði hér fyrr, þá virðast býsna margir hafa gleymt öllum samskiptum sínum við Ólaf Skúlason og hvað þeir hoppuðu í kringum hann hér áður fyrr, hlóðu á hann lofi og mærð og hengdu á hann fálkaorður og fleira upphefðardrasl. Nú vilja þessir fyrri viðhlægjendur hans ekkert við hann kannast á nokkurn hátt og undrast - eins og þeir segja - skepnuskap mannsins. Fálkaorðurnar hafa kannski í hans tilfelli bara verið eins og einhverskonar yfirskilvitleg staðfesting á því - að í kvennahópi hafi hann verið sem fálki innan um rjúpur.
Er það ekki með ólíkindum hvað sumir menn komast langt - einir og óstuddir ?
Og fá fálkaorður án þess að nokkur eigi hlut að máli aðrir en þeir sjálfir !
Ég furða mig eiginlega á þessu en verð þó að segja eitt að lokum.
Jafnvel þó menn gleymi nú Ólafi Skúlasyni og öllum hans ferli, vegna mannlegrar gleymsku og nauðsynja sinna, þá eiga menn nú ekki að gleyma nöfnum fjögurra manneskja sem senda þeim fjórfalt hjálparákall í síma og það ætti útlærð gráða í siðfræði að geta sagt hverjum manni !

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 141
  • Sl. sólarhring: 423
  • Sl. viku: 1550
  • Frá upphafi: 315531

Annað

  • Innlit í dag: 137
  • Innlit sl. viku: 1263
  • Gestir í dag: 136
  • IP-tölur í dag: 135

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband