Leita í fréttum mbl.is

Ein þjóð - eða tvær þjóðir ?

Íslenska þjóðin er ekki stór að höfðatölu, en þjóðlegt gildi getur tekið mið af mörgu öðru en mannfjölda. Við sem lifum í þessu landi höfum lengst af átt  samleið í blíðu og stríðu og talið okkur íslensk til anda og eðlis.

Á síðustu 25 árum eða svo, hefur þó risið upp vá sem hefur ýtt undir þá umræðu að það séu í raun tvær þjóðir í landinu, annarsvegar þeir sem búi á Stór-Reykjavíkur-svæðinu og hinsvegar svokallaður landsbyggðar-lýður ! Önnur skilgreining varðandi þetta er að efnaleg mismunun sé orðin slík í íslensku samfélagi, að það ástand sé að skapa hér tvær þjóðir sem ekki komi til með að eiga samleið mikið lengur. Sú skilgreining á reyndar töluverðan samhljóm með fyrri skilgreiningunni.

Kvótakerfið ásamt mjög víðtækri fjármálaspillingu í viðskiptalífinu hefur sett sitt brennimark á margt í þjóðlífinu og það brennimark þarf að skera burt sem fyrst. Þetta er þekkt vandamál og hefur lengi verið vitað, en ekki er brugðist við því á nokkurn hátt, enda hafa stjórnvöld í sérhagsmunaþjónustu leikið lykilhlutverk í því að skapa þær aðstæður.

Að sjálfsögðu er umræðan varðandi þetta að mestu leyti til komin vegna þess stjórnmálalega forustuleysis sem þjóðin hefur búið við um alllangt skeið. Það hefur æ sjaldnar verið slegið á þjóðlega strengi af hálfu ráðamanna eða tekið á málum með tilliti til þjóðarhags. Sérhagsmunir einstakra svæða og þjóðfélagshópa hafa í þess stað verið látnir ráða að mestu leyti varðandi afgreiðslu mála og slíkt hefnir sín þegar kemur að skuldadögunum.

Það hafa all lengi verið til staðar miklar mótsagnir milli þess sem hiklaust má kalla Reykjavíkur-auðvald og svo framleiðsluatvinnuveganna úti á landi.Á seinni árum hafa nánast öll völd í þjóðfélaginu verið dregin undir það fyrrnefnda og kann það ekki góðri lukku að stýra þjóðhagslega séð og með tilliti til áframhaldandi samstöðu og einingar meðal þjóðarinnar.

Þessi valdaeinokun Reykjavíkur-auðvaldsins, bæði pólitískt og fjármálalega séð, er hættulegt fyrirbæri og elur af sér mjög slæmar fylgjur fyrir okkar litla samfélag. Það myndast gjár í mannlegum samskiptum og beiskja og hatur getur auðveldlega sest að í slíkum gjám. Ákveðnir valdahópar í Reykjavík eru þegar orðnir að skotspónum haturs af hálfu þeirra sem arðrændir hafa verið af þeim og svokölluðum yfirvöldum, sem þjónað hafa undir þá. Hrunið hefur víða skilið eftir blæðandi sár sem seint munu gróa. Umrætt hatur er því skiljanlegt og það fer vaxandi, enda er lítið sem ekkert gert til að draga úr því.

Efnahagshrunið sem var alfarið gjörningur af mannavöldum, var fyrst og fremst framkallað af Reykjavíkur-auðvaldinu sem hafði komið sínum mönnum að í öllum helstu valdastöðum þjóðfélagsins og réði þannig þrískiptingu valdsins algjörlega. Alikálfar þessa auðvalds veifuðu fánum frjálshyggjunnar og kunnu sér ekki læti þegar þeir fengu allt sviðið fyrir sig, enda auðguðust þeir svo á skömmum tíma að þess eru engin dæmi í allri Íslandssögunni.

Svo hrunið gerði ekki alla fátæka - þeir sem þar voru ómótmælanlega gerendur að mörgu því sem miður fór, urðu margir hverjir miklu ríkari en þeir höfðu áður verið, enda refirnir til þess skornir, og leikið af hálfu valdakerfisins algerlega í þeirra þágu.

Almenningur var hinsvegar skilinn eftir úti í kuldanum í þessum manngerðu Móðuharðindum og hatrið sýður því í fjölmörgum út í spillta pólitíkusa og blóðsugurnar í bönkunum, út í ræningjana sem fóru eldi um þjóðarbúið !

 Og hatur getur orðið sterkt þegar ranglæti og mismunun er stöðugt viðhaldið og það mun sannast ef ekki verður breytt um siði og það fyrr en síðar.

Reykjavíkur-auðvaldið og þjónkun yfirvalda við það, er löngu orðið að andfélagslegu meini í okkar samfélagi og ígerðin grefur um sig. Það þarf að hleypa óþverranum út úr þeim kýlum áður en þjóðarlíkaminn verður einhverskonar alkauna holdsveikis-fyrirbæri.

Traust er í algeru lágmarki í samfélaginu og verður það líklega um árabil.

Ætla yfirvöldin í landinu að halda áfram að stuðla að andfélagslegu atferli í þágu sérhagsmuna og hundsa alla viðleitni til þjóðhagslegrar stefnu ? Á hvergi að vinna ærlega að styrkingu einingar og samstöðu meðal þessarar þjóðar ?

Á að láta þessi mál svo til ganga, að umtalsverður hluti þjóðarinnar geti á komandi árum litið svo á  - að eftirfarandi kvæðisorð séu beiskur sannleikur - sem túlki með réttu viðhorf þess fjölda - að fullu og öllu :

 

Við hötum þessa höfuðborg

með hungurklærnar óðar,

því hún er Mammons markaðstorg

og meinsemd vorrar þjóðar.

Hún rýfur toga tryggðabands

og tæmir byggðasjóði.

Hún drekkur ólm úr æðum lands,

fær aldrei nóg af blóði !

 

Við hötum þessa höfuðborg

sem heiður allan myrðir,

og hirðir ekki um hjartasorg

en hrokann einan virðir.

Hún treður niður gildi góð

og gegnir hverjum fjanda.

Hún læðir eitri í líf og blóð

með ljótum græðgisanda !

 

Við hötum þessa höfuðborg

og hennar illu rullu,

með Babylonar böðla torg

og blóðsugur á fullu.

Hún stefnir öllu stíft til grands,

þar stjórna tómir gammar.

Hún spillir eðli ættarlands

og er til stærstu skammar !

 

Á að skapa að fullu tvær þjóðir í þessu landi, þjóðir sem koma síðan til með að hatast við hvor aðra ? Á höfuðborgin að vera miðstöð andfélagslegra athafna eða flaggskip þjóðlegra gilda ? Á landsbyggðin að vera arðrænd nýlenda Reykjavíkur-auðvalds eða gróskumikill mannlífs-vettvangur ?

Þetta eru spurningar sem eiga fullan rétt á sér og svörin munu skila sér á komandi árum, annaðhvort með þjóðlegri vitundarvakningu til nýrrar framtíðar eða áframhaldandi för sofenda að feigðarósi !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 1175
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 882
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband