Leita í fréttum mbl.is

Síðasta mikilmennið ?

Það hefur löngum verið svo, að heimurinn hefur átt einstaklinga sem hafa risið svo hátt með afrekum sínum, hetjuskap, göfugmennsku og fórnarlund, að þeir hafa í augum milljóna orðið táknmynd um sannkallað mikilmenni !

Tuttugasta öldin sýndi okkur allmarga slíka einstaklinga, við getum t.d. nefnt Fritjov Nansen, Albert Schweitzer, Móðir Teresu, Woodrow Wilson, Franklin D. Roosevelt, Winston Churchill, Vladimir Ilitsj Lenín, Mahatma Gandhi, David Ben-Gurion og Nelson Mandela. Allir þessir einstaklingar heyra nú sögunni til og sá þeirra er síðast kvaddi var Nelson Mandela sem lést í lok síðasta árs.

Og við burtför hans af þessum heimi, vil ég spyrja, var hann síðasta mikilmennið ? Hvernig stendur á því að hvergi í heiminum er maður með slíkan eða viðlíka orðstír uppistandandi í dag ? Hvernig eru ráðamenn í Suður Afríku í dag, hafa þeir tekið Mandela sér til fyrirmyndar ? Er Jakob Zuma einhver upprennandi Mandela ? Ég held að fáir myndu svara þeirri spurningu játandi !

Hvað með Bandaríkin, hvernig stendur á því að þar hafa kjörnir forsetar verið meðalmennskan holdi klædd um langt skeið ? Er ekki hægt að skapa frambærilegt mikilmenni í sjálfu heimalandi frelsisins ?

Hvað með gömlu stórveldin í Evrópu ? Þar virðist ekki um auðugan garð að gresja, ekkert virðist vera nema miðlungsmenn og þaðan af verra í forustu þeirra. Getur einhver fundið mikilmenni í þeim hópi, ég hefði gaman að því að vita hver það ætti svo sem að vera ? Og ef við lítum til alþjóðlegs samstarfssviðs þjóða, eru einhverjir þar sem hafa vakið sérstaka athygli fyrir stórbrotin tilþrif í starfi og háleitar hugmyndir um viðgang og heill mannkynsins ? Nei, Nei, Nei, síður en svo !

Asía, Afríka, Suður Ameríka, Ástralía, má finna einhversstaðar í þessum löndum nokkurn þann leiðtoga sem nýtur álits um víða veröld ? Þar virðast allir í hversdagslegum sauðalitum meðalmennskunnar og enginn er þar sýnilegur þungavigtarmaður áhrifa á heimsvísu !

Og Sameinuðu þjóðirnar ? Hvar skyldu þær nú vera á vegi staddar í óstöðugum heimi, þessi mikla von mannkynsins um miðja síðustu öld, sem fædd var fram eftir blóðsúthellingar upp á 50-60 milljónir mannslífa ? Jú, fólk veit ekki lengur hvað aðalritarinn heitir og er slétt sama um það !

Í upphafi  voru þó Sameinuðu þjóðirnar og nöfn fyrstu aðalritaranna Trygve Lie og Dag Hammarskjöld á hvers manns vörum. Allir vissu hvað aðalritari Sameinuðu þjóðanna hét á þeim tímum. En nú er þetta allt gengið svo til baka, að það er enginn að leggja það á sig að muna hvað einhver skrifstofublók vestur í Bandaríkjunum heitir ! Margir líta svo á að þar sé bara enn einn borgaralegur búrhundur til staðar sem er áskrifandi að háu kaupi þó hann geri ekki neitt  og enginn sjái lengur nein merki þess að til þess sé ætlast !

Sameinuðu þjóðirnar hafa fallið á prófinu eins og Þjóðabandalagið undanfari þeirra, og nú er það viðtekin skoðun manna um heim allan, að þar séu bara kerfisdruslur til staðar sem eru hvergi til nokkurs gagns !

Og enn spyr ég, hvar eru mikilmenni jarðar í dag ? Er kvenréttindahreyfingin kannski búin að koma sér upp einhverju mikilmenni ?  Nei, ónei, hvergi fæ ég séð að einhver von sé um slíkt á þeim bæ, þó réttlætisvaktin eigi víst að vera þar til staðar á heimsvísu !

Ísland getur ekki heldur komið heiminum til bjargar varðandi þessa ömurlegu vöntun, þar sem ætlaðir heimsleiðtogar okkar, félagarnir Ólafur Ragnar og Davíð, hafa báðir fallið á prófinu, og eru aðeins skilgreindir sem mikilmenni í dag af ungum sjálfstæðismönnum, sem eru náttúrulega ekki marktækir álitsgjafar !

Svo því miður virðist staðreyndin ómótmælanlega vera sú, að það sé ekkert mikilmenni á lífi og til staðar í þessari veraldarskonsu okkar nú þegar Nelson Mandela er horfinn af sviðinu !

Í heimssögulegu samhengi, er það furðulegt að við ein bestu menntunarskilyrði sem til hafa verið á þessari jörð, skuli ekki hafa verið hægt að skapa eitt einasta mikilmenni á undanförnum árum, mann sem nyti virðingar í dag um allan heim !

Er efniviðurinn virkilega orðinn svona lélegur ?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 393
  • Sl. viku: 915
  • Frá upphafi: 372710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 831
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband