Leita í fréttum mbl.is

Wolfowitz siðferðið

Þegar George W. Bush varð forseti Bandaríkjanna hérna um árið, illu heilli, fylgdi honum harðsnúin haukasveit inn í Hvíta húsið og brátt kom í ljós hverskonar lið var þar á ferð. Donald Rumsfeld fékk Pentagon í sinn hlut og hans hægri hönd þar var Paul Wolfowitz. Mörg mistök Bandaríkjamanna í Írak má, að mati ýmissa sérfróðra manna, skrifa beint á reikning Rumsfelds, sem er talinn hrokafullur og yfirgangssamur maður og lítið fyrir að hlusta á aðra.

En þessi mannlýsing er ekki síður talin eiga við fyrrum aðstoðarmann Rumsfelds í Pentagon, fyrrnefndan Paul Wolfowitz. Fyrir tveimur árum var hann gerður að forstjóra Alþjóðabankans, en með þeim gjörningi hefur Bush trúlega hugsað sér að verðlauna þennan alikálf sinn með feitu embætti og jafnframt kannski viljað færa hann aðeins til. Ýmsar harðlínu umsagnir Wolfowitz sem rötuðu til fjölmiðla beint eða óbeint áttu það nefnilega til að vekja upp meiri andúð á stjórn Bush og var þar ekki orðið á bætandi.

Wolfowitz hóf feril sinn innan Alþjóðabankans með því að krefjast tiltektar í flestum efnum og gekk hart fram í því að uppræta spillingu og tryggja í hvívetna siðlega framgöngu starfsfólks bankans. Það var að minnsta kosti yfirlýst markmið hans á þeim tímapunkti. Ekki hirti hann um að hafa samráð við aðra í neinu varðandi þessa tiltekt, enda vanur því að fara sínu fram. Þótti samt sumum í byrjun sem þarna væri ekki svo illa af stað farið og full þörf væri á breytingum til batnaðar í starfsháttum bankans.

En svo fór ýmislegt að koma í ljós sem sýndi svo ekki varð um villst að umræddur Paul Wolfowitz var ekki beint sjálfum sér samkvæmur í þessari  herferð sinni gegn spillingu og siðleysi. Hann réð tvo félaga sína úr Bush-flokknum sem sína helstu ráðgjafa innan bankans og skenkti þeim verulega kauphækkun. Hann sá til þess að ástkona hans, sem starfaði hjá bankanum, fengi heilmikla launahækkun þó hún hætti störfum hjá bankanum og færi til starfa í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Ekki þótti hæfa að hún starfaði áfram hjá bankanum eftir að Wolfowitz tók þar við forráðum, en bankinn tók hinsvegar að sér að greiða laun hennar hjá utanríkisráðuneytinu til næstu 5 ára og þau voru jafnframt hækkuð sem fyrr segir. Wolfowitz sá sjálfur um þessar ákvarðanir og virðist ekki hafa verið smátækur á fé bankans í þessu augljósa hyglingarmáli.

Launahækkunin var slík að á ársgrundvelli virðist hún nema ríflega tvöfaldri launahækkun annarra starfsmanna bankans. Auk þess hefur komið í ljós að snúi blessuð konan aftur til bankans eftir 5 ár, fær hún stöðuhækkun og getur hugsanlega orðið aðstoðarbankastjóri árið 2015. Þess ber ennfremur að geta að hún hefur að öllum líkindum hærri laun í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna en sjálfur utanríkisráðherrann Condoleeza Rice ! Ástkonu Wolfowitz bankastjóra hefur því greinilega ekki verið í kot vísað með kjör og kosti, eins og staðreyndir málsins sýna og sanna.

En Wolfowitz hefur hinsvegar orðið ber að því að viðhafa tvöfalt siðferðismat í afstöðu til mála. Hann herjar á aðra fyrir spillingu en virðist hiklaust brjóta hinar siðferðilegu reglur þegar það hentar honum og hans skylduliði. Fyrir hann og þá sem hann tekur að sér gildir einn rúmur mælikvarði, fyrir aðra þröngur og strangur mælikvarði. “Oh, how American !“, gæti einhver freistast til að segja í þessu sambandi.

Það er í fyllsta mæli undarlegt þegar hálærður haukur á borð við Wolfowitz blæs til sóknar gegn spillingu og þykist vera í einhverskonar krossferð gegn röngum starfsháttum, en reynist svo sjálfur ekki virðingarverðari persóna en þetta. Er maðurinn gjörsamlega dómgreindarlaus ?

Paul Wolfowitz hefur sjáanlega opinberað sína eðlis innréttingu í þessu máli og hún virðist ekki traustlega smíðuð að siðferði, réttlætistilfinningu og sanngirni. Hann virðist vissulega eiga margt og mikið sameiginlegt með þeim Bush og Rumsfeld – það mætti halda að allir þessir menn hefðu það beinlínis að markmiði að koma óorði á Bandaríkin, því þannig hafa verk þeirra komið milljónum manna fyrir sjónir. Bandaríkin þurfa svo sannarlega á leiðtogum að halda sem eru af öðru og betra tagi en þessir menn.

Framganga Wolfowitz hefur verið með undarlegum hætti á ýmsum tímum. Sagt er t.d. að þekktur Bandaríkjamaður sem sat fund með honum, líklega skömmu eftir árásina á tvíburaturnana, hafi eftir á sagst hafa farið að velta því alvarlega fyrir sér hvort hann væri “ really on our side “ !
Dómgreindarbrestur Wolfowitz í því máli sem hér hefur verið reifað er slíkur, að allt virðist mæla eindregið með því að hann verði settur af sem forstjóri Alþjóðabankans. Trúlegt þykir hinsvegar að Bush forseti muni halda verndarhendi sinni yfir þessum samverkamanni sínum fram í bláan dauðann, jafnvel þótt ljóst sé að Wolfowitz hafi ekki komið fram sem heppilegur fulltrúi fyrir Bandaríkin í starfi sínu.

Menn sem ganga fram í nafni tiltekins ríkis í störfum sínum, verða jafnan að skilja það, að athafnir þeirra, ef slæmar eru, varpa rýrð á þann skjöld sem borinn er fyrir þeim. Paul Wolfowitz virðist hinsvegar ekki hafa skilið þann sannleika og því miður er alls konar Wolfowitz siðferði í fullum gangi víða um heim.

Menn geta svo rétt ímyndað sér hvílíkan skaða slíkt framferði vinnur þeim gildum sem allir ættu að virða. Þegar maður veltir þessu máli fyrir sér, fer maður óneitanlega að hugleiða hverju megi búast við af smáfuglunum þegar haukarnir hegða sér með þessum hætti ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 120
  • Sl. sólarhring: 167
  • Sl. viku: 689
  • Frá upphafi: 365587

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 601
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 114

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband