Leita í fréttum mbl.is

AÐ LOKNUM KOSNINGUM

Fyrir kosningar hefur það verið föst venja pólitískra forsvarsmanna að lýsa því yfir að þeir gangi óbundnir til kosninganna. Það gefur þeim auðvitað mesta svigrúmið til komandi leikbragða. Það er talað fjálglega um að þjóðin felli sinn dóm og þeim dómi verði skilyrðislaust að hlíta o.s.frv.

Síðan er kosið og svo byrja menn að lesa sitt út úr tölunum. Og þá kemur oftast í ljós að allir telja sig hafa unnið einhvern sigur. Þeir sem hafa augljóslega bætt við sig varðandi atkvæðamagn eða þingmannatölu, tala hástemmt um sigur, hinir sem hafa tapað fylgi eða mönnum, tala um varnarsigur. Enginn talar um ósigur nema þá fréttamenn sem eru að reyna að fá fram afgerandi viðbrögð.

Með öðrum orðum, þá er iðulega forðast að tala um hlutina eins og þeir eru. Þegar veruleikinn býður aðeins upp á eitthvað óskemmtilegt er æði oft reynt að gera hann skemmtilegri með tilkomu lyginnar. En slíkt er engum til sóma.

Nú liggur fyrir að úrslit kosninganna skila ótvíræðum ávinningi til vinstri grænna og sjálfstæðismanna, frjálslyndir standa í stað, Samfylkingin tapar og Framsókn geldur afhroð. Hver eru þá skilaboðin ?

Stjórnin er fallin í þeim skilningi að hún hefur minnihluta atkvæða á bak við sig og getur ekki haldið áfram nema með því að ganga þvert gegn þeim vilja sem kemur fram í úrslitunum. Þjóðin vill skýlaust að Framsókn fari í endurhæfingu.

Hinsvegar er ekki hægt að neita því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið endurnýjað umboð frá þjóðinni til þátttöku í landsstjórninni. Mér er það enganveginn geðfellt að líta þá stöðu mála en þannig er hún engu að síður.

Samstjórn sjálfstæðismanna og vinstri grænna er það sem þjóðarviljinn kallar eftir í þessum kosningum. Það er ekkert vafamál !

Hinsvegar þarf nokkuð til að þessir flokkar fari í samstarf og vandséðar góðar lausnir í þeim efnum, þó að nokkurt traust kunni þegar að vera til staðar milli helstu foringjanna.

En hitt er á tæru, að Samfylkingin vill ákveðið fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og er trúlega til í að kosta nokkuð miklu til. Þar er mikið hungur eftir stjórnarstólum þó vonin um forsætisráðherrastólinn sé vafalítið úr sögunni.

Flokkurinn fékk enganveginn þá útkomu sem vonast var eftir, en Ingibjörg Sólrún greip auðvitað til þess gamla ráðs að tala um “ varnarsigur “ og nokkuð viðunandi sigur miðað við það sem komið hefði fram í óhagstæðum skoðanakönnunum einhverjum vikum fyrir kjördag.

Þar viðhefur hún auðvitað ekkert nema fyrirsláttartal, því Samfylkingin tapaði í þessum kosningum og niðurstaðan elur enn á heift margra í flokknum gegn vinstri grænum, sem alltaf hafa verið álitnir svikarar við einingarmál vinstri manna. Þeir eru margir í Samfylkingunni sem geta bara alls ekki áttað sig á því eða viðurkennt á nokkurn hátt að vinstri grænir eigi tilverurétt.

Forusta Samfylkingarinnar var því örugglega aldrei með það í huga að taka heilshugar þátt í myndun þriggja flokka vinstri stjórnar. Ætlunin var sennilega að láta umræður stranda á afstöðu frjálslyndra til innflytjenda, þó í raun væri ástæðan einfaldlega sú að Samfylkingin vill ekki samstarf við vinstri græna.

Samfylkingin mun því áreiðanlega reiðubúin til að ganga langt til móts við íhaldið til að forða því að það reyni stjórnarmyndun með vinstri grænum.

En það breytir ekki þeirri staðreynd, að skýrustu skilaboðin sem lesa má út úr niðurstöðu kosninganna, er einmitt að reynt verði að koma á samstjórn Sjálfstæðisflokks og vinstri grænna

Þannig er það - hversu ógeðfellt sem okkur mörgum hverjum kann að finnast það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 9
  • Sl. sólarhring: 261
  • Sl. viku: 1289
  • Frá upphafi: 367414

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1130
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband