Leita í fréttum mbl.is

Umgengnin við lífið

 

 Undanfarin ár hafa menn verið að vakna verulega til meiri vitundar um þörfina á því að heiðra náttúruna og hlynna að henni. Áratugabarátta hugsjónaríkra náttúru-unnenda hefur þannig skilað sér inn í þungavigtar-umræður nútímans og er það vel.

Þessi framvinda hefur leitt til þess að stóriðjusinnar, sem yfirleitt tilheyra hægri kanti stjórnmálanna, hafa reynt að koma sér upp hugtaki sem getur gengið í fólk og innifalið slétta og jákvæða mynd af þeim sem náttúruverndarsinnuðum atvinnuvæðingarmönnum. Menn hafa dottið niður á hugtakið hægri grænir, en það hefur þótt hafa ýmsa ókosti. Fyrst og fremst virkar það eins og eftiröpun hugtaksins vinstri grænir og getur líka vakið ýmsar óþægilegar spurningar á grundvelli sögulegra staðreynda.

En góð umgengni um náttúruna er auðvitað aðeins hluti af þeirri mynd sem allir ættu að geta verið sammála um að ætti að hafa forgang í heiminum - ef gengið væri út frá eðlilegum forsendum. Óspillt náttúra er eitt af því sem er manninum nauðsyn til að geta lifað og tekið réttum framförum til þroska, en grundvallaratriðið er þó að við lærum að umgangast lífið sjálft með lotningu og virðingu. Þegar við gerum okkur grein fyrir að við erum þiggjendur að lífi hljótum við jafnframt að skilja að sú gjöf gerir þá kröfu til okkar, að við virðum líf annarra og byggjum þjóðfélagið upp á sammannlegum forsendum. Þá verður líka hugsunin um að varðveita náttúruna sjálfsögð því þá munu heilbrigðir lífshættir eðlilega kalla á þá umgerð sem hæfir.

En umgengnin við lífið er ekki góð og hefur versnað til muna á síðustu árum.

Náungakærleikurinn hefur kólnað og margir virðast orðnir eyland í sínum hugarheimi. Það er hugsað um að taka en ekki að gefa. Græðgin í skammtíma-ávinning efnislegra gæða er orðin svo mikil að mannúðarhugsunin er að hverfa úr samfélaginu. Það er eins og þeir sem mæna á Mammon haldi að þeir lifi til eilífðar og þurfi fjármuni í hlutfalli við það. Á sama tíma og græðgin leiðir þá inn í stöðu blóðsugunnar, glata þeir því úr sálum sínum sem gert hefur þá að mönnum. Umgengnin við annarra líf skiptir slíka sálarleysingja því litlu máli.

En það eru viðhorfin gagnvart öðrum sem segja best til um það hverskonar manneskjur við erum. Það á að vera okkur eðlilegt og skylt að finna til með hverjum þeim sem sorgin nístir og særðir eru. Okkur ber að sýna samferðamönnum í lífinu heilbrigða samkennd.

En náungakærleikurinn hefur dofnað í efnishyggjubrjálæði líðandi stundar. Við getum séð dæmin um það hvert sem litið er. Fósturdeyðingar eru hræðilegt dæmi um köld viðhorf gagnvart lífinu á frumstigi þess og enn ein sönnunin fyrir því hvað menntunarleg upplýsing getur leitt menn afvega þegar siðrænum kjarna samfélagsins er samtímis afneitað.

Að nota fósturdeyðingu sem getnaðarvörn er fullkomið dæmi um ábyrgðarleysi gagnvart lífinu sem enginn ætti að viðhafa. Félagslegar ástæður eiga aldrei að fá að gilda sem aftökuleyfi gagnvart lífi í móðurkviði.

Umhyggja gagnvart aldurhnignu fólki þyrfti líka víða að vera betri því það ber heiðurskórónu mannlífsins. Fatlaðir einstaklingar sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, lifa í ýmsum tilfellum við aðstæður sem ekki eru boðlegar. Margt fleira mætti nefna þó það verði ekki gert hér.

En það er ljóst að hraðinn í nútímasamfélagi er orðinn slíkur, að það er lítill tími til að sinna þeim sem dragast aftur úr. Manneskjulegheitin dvína og kuldi sest að sálunum. Það bitnar svo á þeim sem síst skyldi og erfiðast eiga með að verja sig.  

Það læðist oft að manni sá grunur að til séu þeir sem vilja helst setja reglur um það hverjir eigi að fá að lifa og hverjir ekki. Ef svo er, þá er það klár sönnun fyrir því að virðingin fyrir lífinu er ekki til staðar í hugsun slíkra manna.

Þeir eru orðnir aumkvunarverðir þrælar sjálfselskunnar og líf þeirra ber ekki framar neina sanna ávexti. Þeir visna eins og fíkjutréð frá rót og út í greinar.

Sjálfselskufull viðhorf ráða tíðarandanum, enda er vart við öðru að búast þegar valda og áhrifa elítur vestrænna þjóða hamast við að höggva niður stofninn sem öll okkar  menning hvílir á - hinn kristna meið !

Annað hafast múslimar að - þeir hamast við að troða sínum trúargildum að í okkar heimshluta og verður drjúgt ágengt, því skjöldur kristninnar ver ekki lengur og fólk sem hefur ekki fastan grundvöll undir fótum hrekst undan hverjum kenningavindi. Það er því ljóst að ef við hirðum ekki um að verja okkar gildi, munu þeirra gildi smám saman taka yfir - með slæmum afleiðingum fyrir okkur öll.

Virðingin fyrir lífinu þarf að sjást og koma fram í umgengni okkar við lífið - jafnt það líf sem er að hefja vegferðina og nýtur enn skjóls í móðurkviði, það líf sem er í fullum blóma og það líf sem senn er á förum - allt líf  !

Þannig hlýðum við best þeirri mannskyldu sem á okkur öllum hvílir meðan við tilheyrum þessum heimi.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 1192
  • Frá upphafi: 316791

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband