Leita í fréttum mbl.is

Formálsorð.

 

Fyrir nokkru sendi ég eftirfarandi grein til Mbl. sem var andsvar við bréfi sem þar birtist undir nafni Ellerts B. Schram. Taldi ég efni þessa opna bréfs koma öllum Íslendingum við þótt stílað væri það sérstaklega til Sjálfstæðismanna.

Nú hefur maður heyrt að Mbl. setti greinar sem væru svargreinar oft í forgang með birtingu, en því var ekki að heilsa með þessa grein mína. Hún var bara ekki birt.

Ég veit ekki til þess að greinin innifeli neitt sem saknæmt er nema þá hugsanlega  óþægilegar pólitískar umsagnir. Ég ætla því að birta hana hér á síðunni svo þeir sem heyra vilja geti lesið hana og velt því fyrir sér hversvegna hún fékk ekki birtingu í " blaði allra landsmanna " ?

 

Hinn óþjóðlegi kratakór

 Margt er maður búinn að heyra frá skammsýnum pólitíkusum og fjárþurfandi viðskiptalífsfulltrúum um nauðsyn þess að við göngum í Evrópusambandið.

Það gengur stöðugt þessi síbylja um að við getum ekki staðið á eigin fótum og það eina vitlega í stöðunni sé að íslenska þjóðin gerist próventulýður hjá hinu stórkostlega Brussellkompaníi !

Þeir sem hæst hafa galað í þessum efnum, eiga það yfirleitt sammerkt að vera áhangendur Samfylkingarinnar eða nálægt hennar áhrifasviði. Það er því ekkert nýtt að heyra í slíkum " sendiherrum " og oftast lætur maður óþjóðlegt málæði þeirra eins og vind um eyrun þjóta.

Samt er það hvimleitt að heyra fólk af eigin þjóð tala um sjálfstæði landsins sem einhverja skiptimynt, heyra hvernig gjaldmiðill landsins er rakkaður niður af þessu krataliði samhliða því að evran er lofsungin sí og æ. Það er  hamast við það að níða niður þjóðrækin sjónarmið og forusta Samfylkingarinnar virðist óðfús vilja senda fullveldisrétt okkar til Brussell, í þeirri trú að þar sé hagsmunum okkar betur borgið en í höndum íslenskrar stjórnmálaforustu.

Ekki hafa menn þar á bæ mikla trú á eigin hæfileikum eða annarra í íslenska stjórnkerfinu, þegar vilji til slíks valdaafsals liggur fyrir. Ekki er þjóðlegheitunum fyrir að fara í þeim áróðri sem rekinn er af evrusinnum og öðrum fylgjendum erlendrar yfirtöku í sjálfstæðismálum þessa lands.

Kannski er helsti draumur slíkra ráðamanna að fá að vera ábyrgðarlausar undirtyllur á háu kaupi í gervistjórn undir yfirþjóðlegu valdi.

Margt er meira en lítið skrítið í þeim kýrhaus sem kratar þessa lands hafa verið að setja upp í þessum málum og virðist manni oft sem þeim sé ekki sjálfrátt.

Þann 11. mars sl. birtist t.d. í Mbl. sendibréf til sjálfstæðismanna, ritað af Ellert B. Schram, fyrrverandi sjálfstæðismanni og núverandi Samfylkingarþingmanni. Þetta bréf er undarleg ritsmíð og það er eins og ritarinn sé í handalögmálum við eigin samvisku í því sem þar er sett fram. Hann talar um að stutt sé milli hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu og jafnaðarmennskunnar og gæti þar verið að afsaka hringl sitt á milli flokka. Hann talar um tvo frjálslynda og praktíska flokka í einni sæng í ríkisstjórn. Með orðinu praktískur virðist hann meina að málamiðlun megi gera í öllum hlutum. Hann segist líka ætla að láta mannréttindabrotin í kvótakerfinu liggja milli hluta vegna þess að ríkisstjórnin þurfi að sitja sem fastast, en hann verði hinsvegar að benda á útgönguleið fjármálalífsins inn í ESB. Sem sagt mannréttindabrot á Íslandi verða veigalítil í augum mannsins miðað við krossferðarhugsjónina miklu - að koma þjóðinni undir miðstjórnarveldið í Brussell !

Jafnframt talar ritari um að við hættum að hafa vit fyrir öðrum og meinar sennilega að við eigum að fara að láta aðra hafa vit fyrir okkur.

"Leyfum þjóðinni að ráða, " segir hann svo, " erum við ekki öll að beita okkur fyrir auknu frelsi ? " Heitir það nú að beita sér fyrir auknu frelsi að reyna að koma þjóðinni undir erlent vald ?

Ellert segir að aðildin að ESB færi okkur nýjan, stöðugan gjaldmiðil, frjálsan aðgang að stærri markaði, ódýrari neysluvörur og aðgang að ákvarðanatöku.....! Heyr á endemi !

Hver getur tryggt að evran verði stöðugur gjaldmiðill til lengri tíma litið, hver getur tryggt að aðgangur að stærri markaði sé frjáls og verði frjáls, hver tryggir lágt verð á neysluvörum til framtíðar, hver segir að aðgangur okkar að ákvarðanatöku innan ESB skipti máli, þar sem við verðum núll og nix ?

Þingmaðurinn talar eins og hann sé endurómur af mági sínum, segir að við verðum laus úr ánauð ónýts gjaldmiðils með inngöngu í ESB og svo lýkur hann þessu endemisbréfi með því að ákalla sjálfstæðismenn eftirfarandi :  " ESB er í anda ykkar hugsjóna, samtök um frið og öryggi, frjálsan markað og heiðarlega samkeppni !" Þvílíkt bull !

ESB er bandalag um hagsmuni en ekki hugsjónir. Trygging fyrir friði og öryggi er síst meiri þar en annarsstaðar. Frjáls markaður og heiðarleg samkeppni eru þar fyrir utan hugtök sem eru notuð með mjög misvísandi og villandi hætti í veruleikanum.

Sjálfstæðismenn kalla sig svo vegna þess að þeir hafa viljað sýna sig sem verjendur fyrir það sjálfstæði sem við misstum 1262 og aldir tók að endurheimta. Ef þeir bregðast í því hlutverki og taka að sér að beina þjóðinni inn í Brussell-dilkinn, munu margir sannfærast um að þeir standi ekki undir nafni.

Hitt er jafnljóst að Ellert B. Schram er nú orðinn alskveraður krati og hættur að vera sjálfstæðismaður. Það sést m. a. á því að hann telur sýnilega enga ástæðu  til að verja það sem verja ber.

Þó að mér hafi löngum verið lítið um íhaldið gefið, tel ég að breytingin sem orðið hefur á Ellert B. Schram sé ekki til batnaðar, hvorki fyrir hann sjálfan né þjóðina sem hann á að starfa fyrir sem þingmaður.

Ég teldi því fara best á því, fyrir hann sjálfan og okkur öll, að hann skrifaði ekki fleiri svona bréf í Brussell-stíl til sjálfstæðismanna eða annarra, því það virkar á mann svipað og útfararskrá gjaldþrota hugsunar hjá manni sem eitt sinn virtist þó vera maður.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband