Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
20.1.2008 | 16:03
Svolítið um landsins gagn og nauðsynjar
Nú er flestum ljóst orðið að Árni Mathiesen hefur ekki bætt alin við hæð sína með því að skipa Þorstein Davíðsson í tiltekið embætti í dómskerfinu. Þurfti Árni þó sannarlega á því að halda að vaxa að vinsældum frekar en hitt. Sem ráðherra sjávarútvegsmála gat hann sér ekki gott orðspor meðal landsmanna enda virtist hann alla tíð innvígður og innmúraður í kvótabræðralagið.
Það sýnist því enganveginn heppilegt að tefla fram dýralækni þar sem þarf að taka á meinsemdum mannfélagsins. Hann þarf þá í það minnsta að vera af annarri gerð en Árni Mathiesen. Það er sannarlega von mín að Árni þessi verði aldrei formaður Sjálfstæðisflokksins og segi ég það vegna hagsmuna lands og þjóðar. En þar fyrir utan er það nú reyndar mín persónulega skoðun, að menn í umræddri formannsstöðu hafi aldrei verið heildarhagsmunum þjóðarinnar sérlega góðir liðsmenn.
En þó Árni Mathiesen hafi verið fluttur úr sjávarútvegsmálunum á Sjálfstæðisflokkurinn svo sem nóg af mönnum til að halda þar á málum eins og hann gerði. Sá sem þar varð fyrir valinu er dæmi um það og það er skoðun mín að hann muni áreiðanlega gera sitt versta til að feta sem dyggilegast í fótspor Árna Matt.
Nú þegar ályktað hefur verið af hálfu Mannréttindanefndar S.Þ gegn kvótakerfinu talar íslenski sjávarútvegsmálaráðherrann af sýnilegri lítilsvirðingu um " einhverja nefnd út í heimi " og ekki sé hægt að hlaupa eftir því sem hún segi því það geti jafnvel haft slæm áhrif í útlöndum á fiskveiðikerfi þar. Þvílík röksemdafærsla !
Sem sagt, ef menn dreifa ranglætinu nógu víða þýðir ekki að taka upp baráttuna gegn því ? Og maðurinn sem svona talar á að heita Vestfirðingur, en þar hafa margir orðið fyrir blóðugum skaða af kvótakerfis-misréttinu.
Svo er enn og aftur talað um að flestir sem séu í kvótakerfinu núna hafi keypt sér kvóta og því sé ranglátt að taka hann af þeim ! En það gleymist alltaf að umræddir menn keyptu sér kvóta fyrir þá peninga sem kerfið skaffaði þeim með gjafakvótanum. Hinir sem útundan urðu höfðu ekki efni á slíkum kaupum og sátu því skiljanlega eftir.
Svo hafa ræningjarnir setið að ránsfengnum öll þessi ár og velt sér í peningum, fjárfest hér og þar, yfirgefið greinina með fullar hendur fjár o.s.frv., og svo er talað um að það verði að bæta þeim það upp ef taka á ránsfenginn af þeim !
Hafa menn heyrt annað eins ?
Kjarni málsins er auðvitað sá að kvótakerfið innifelur í sér mannréttindabrot frá upphafi því almennt veiðifrelsi Íslendinga var afnumið og afhent ógeðslegri sérhagsmunaklíku sem síðan hefur hegðað sér sem aðall í landinu okkar og blóðmjólkað auðlindina okkar. Danir þóttu slæmir sem valdsherrar hér en þeir tóku veiðifrelsið aldrei af okkur en það gerðu íslensk stjórnvöld með bölvað íhaldið í broddi fylkingar.
Erum við aðilar að Sameinuðu þjóðunum án þess að þurfa að hlíta þeim reglum um mannréttindi sem þar er reynt að hafa í heiðri ? Eigum við bara að vera með þegar það er hagkvæmt fyrir einhverjar mannætuklíkur sérgæðingakerfisins ?
Ég held það hafi verið sá ágæti maður Tryggvi Þórhallsson, sem fyrstur kom fram með slagorðið " Allt er betra en íhaldið " og gerði það landsfrægt á sínum tíma. Það er enn í fullu gildi þó Framsóknarflokkurinn hafi í heil 12 ár, eins og Alþýðuflokkurinn forðum, þjónað undir íhaldið með ömurlegasta móti.
Kjörorð tíðarandans virðist vera " hver er sjálfum sér næstur " eða " troddu skóinn niður af náunga þínum eftir því sem þú getur ", - þá mun þér farnast vel !
Rósberg G. Snædal rithöfundur bjó lengi á Akureyri og kynntist því hvað helst gæti orðið mönnum vegur til frama á vígstöðvum mannlegrar framagirni þar í bæ. Hann sá fyrir sér hver formúlan var og setti hana í stuðlað form með eftirminnilegum hætti :
" Krjúptu fyrir föntum, þjófum,
frímúrurum, Oddfellóvum,
þefaðu uppi þeirra bein.
Krjúptu að fótum KEA valdsins,
kysstu á vendi afturhaldsins,
þannig ertu á grænni grein ! "
Og þeir virðast vera margir sem kjósa að kyssa á vendi afturhaldsins í dag. Ungt fólk frá heiðarlegum alþýðuheimilum fer í framhaldsskóla og telur síðan að besta leiðin til frama sé að ganga á mála hjá íhaldinu og taka undir með þeim sem kyrja Valhallaróðinn sem lofsyngur vaxandi misrétti í þjóðfélaginu.
Og það er skiljanlegt að það ístöðulausara og mergminna af unga fólkinu missi móðinn, þegar það kemst að raun um hvílíkt ægivald bláhandarlýðurinn er orðinn í þessu landi eftir að félagshyggjuvígin hafa mörg hver verið rústuð á Davíðstímanum með undirlægjufullum stuðningi Framsóknar.
En þessi þjóð þarf á félagshyggju að halda, samhjálp og viðurkenningu á manngildi án auðgildis. Okkar lífskjör eru og hafa verið byggð upp til þess að börn landsins geti notið góðs af þeim, en þau eru ekki til orðin fyrir einhvern afætulýð sem kemur erlendis frá til að éta upp það sem við höfum aflað með súrum sveita.
Það á ekki að ala ómennsku upp í neinum en það á að hjálpa þeim sem hjálparþurfi eru. Um það held ég að allir heiðarlegir og sómakærir Íslendingar geti verið sammála.
Við höfum búið um skeið við mjög yfirgangssamt framkvæmdavald, hviklynt og ótraust löggjafarvald og tiltrú okkar á þessum tveim megingreinum ríkisvaldsins hefur beðið talsverðan hnekki. Ef þriðja megingreinin dómsvaldið, fer að glata tiltrú í sama mæli, þá verður ekki björgulegt um að litast til framtíðar í þessu landi.
Almennt, borgaralegt öryggi á Íslandi þarf á drjúgmikilli endurhæfingu að halda og það sem fyrst.
12.1.2008 | 19:49
FRÁ STEINI Í STÓRU-GRÖF TIL NÚTÍÐARMISMÆLA
Flest erum við svo mannleg að okkur verða á mismæli, einkum þegar hugsunin er á hálfum hraða miðað við tunguna. Ég hef löngum verið nokkuð næmur á mismæli annarra en jafnframt talið mig geta tekið því sæmilega þegar mér verður á í þessum efnum. Það vill samt svo til að ég er ekki beinn afkomandi Steins í Stóru-Gröf og því hafa glappaskotin vonandi verið færri en ella.
Steinn var sem kunnugt er orðlagður fyrir mismæli og orti Sigvaldi skáldi um hann þessa þekktu vísu:
Oft ég hlæ að orðum Steins,
er það ljótur siður.
En varla fæðist annars eins
axarskaftasmiður !
En það fæðast margir sem smíða axarsköft með eigin tungu og sumir eru ef til vill ekki síðri en Steinn í Stóru-Gröf hvað snertir þá sérkennilegu málfarsíþrótt sem mismælin stundum framkalla.
Það er býsna oft fróðlegt að heyra hvernig ástkæra ylhýra málið getur vafist fyrir skýrustu mönnum. Ekki alls fyrir löngu var haft viðtal við landskunnan athafnamann í fréttaþætti á Stöð 2. Maðurinn var að segja frá deilumálum og var greinilega ör í skapi. Hann vildi segja að hann væri ekki þægur ljár í þúfu fyrir tiltekinn mann, en svo fór að hann sagði að hann væri ekki þægur þjáll í ljúfu fyrir manninn og skilji það hver með sínu lagi.
Þekkt er sú vitleysa að menn séu að leysa Akkillesarhnútinn hér og þar og einn þjóðkunnur hæfileikamaður talaði á sínum tíma um að leggja krók á lykkju sína. Í annað skipti sagðist sami maður verða að bíta í það súra hundsbit !
Svona tala stundum örlyndir menn og hafa tvennt á lofti í einu. Að leggja lykkju á leið sína og betri er krókur en kelda, verður í slíkri einkamálfræði að krók lögðum á lykkjuna.
Fræg er orðin textahendingin " Hér á landi á ", þar sem tvítekning orðs er notuð til áherslu þvert á alla eðlilega málfræði. En málleysur af slíku tagi geta lifað lengi vegna hins ómálfræðilega frumleika sem í þeim felst.
Ein gömul kona talaði um að tiltekinn sonur væri músíkfalskur eins og pabbinn. Hún hafði aldrei haft mikil kynni af orðinu músíkalskur og fann sína eigin aðferð með þessari tjáningu. Sama heiðurskona sagði um stúlku sem var mikið fyrir að passa börn, að hún væri hin mesta barnagrýla ! Eitthvað hefur sennilega skolast til hjá henni með skilning í því tilfelli. Líklega hefur gæla orðið að grýla.
Kona um þrítugt sagði að sitthvað hefði orðið henni fótur um fjöt þegar hún hefði verið unglingur. Og bráðskýr náungi sagði um tiltekna bragarbót að hún væri allt annar munur. Mædd kennslukona sagði að ekki yrði bókvitið í asnana látið. Þar er komin ný útlagning á gömlu spakmæli og mun hún eflaust falla í kramið hjá sumum sem bóklærðir eru.
En einmitt þetta að við erum stundum svo örlynd, að við búum til ný orð þegar hin gömlu eru ekki alveg á takteinum undireins, sýnir að fyrir hendi er gróska hvað málið snertir. Sum nýyrði sem hafa fæðst inn í íslenskuna með þessu móti, hafa haldið velli og fengið mjög sérstaka túlkunarþýðingu fyrir vikið.
Frá málmenningarlegu sjónarmiði er mjög mikilvægt að við leggjum rækt við gömul spakmæli og tilvitnanir því í þeim felst sérstök málhögun og yfirleitt stendur þar allt rétt í stuðlum.
Það gildir því að fullu sem sagt er, að á íslensku má alltaf finna svör og orða stórt og smátt á lífsins för. Móðurmálið er og á að vera okkur hugstætt og hjartagróið frá vöggu til grafar og við ættum stöðugt að þakka þær perlur sem hafa verið ortar fram á málinu okkar, í hástigsanda Matthíasar, máttugri orðkynngi Stephans G. og hugspeki Einars Ben.
Við getum glaðst yfir snilld Fagraskógarskáldsins, hreintónum Þorsteins og þýðleika Guðmundar skólaskálds. Rammíslensk kvæði Gríms eiga sína sérstæðu grófmeitluðu fegurð og Bólu Hjálmar leikur enn sem fyrr við strengi mannleikans með meistaralegum hætti.
Var einhver að tala um það í fullri alvöru að íslenskan væri deyjandi tungumál ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook
6.1.2008 | 15:26
ÚTRÁSARPISTILL
Við lifum á tímum sem rugla fólk illilega í ríminu gagnvart eigin stöðu og annarra. Viðmiðunaráráttan setur mark sitt á flesta ef ekki alla og enginn vill standa öðrum að baki hvað varðar svokölluð lífsgæði. Baráttan fyrir gerviþörfunum er þegar orðin grimmari en hún var í gamla daga fyrir frumþörfunum. En réttlæting hennar er engin í samanburði við frumþarfabaslið.
Í gerviþarfabaráttu tapast alltaf meira en það sem vinnst, vegna þess að sú barátta byggir á fölskum forsendum og styrkir ekkert sem er mannlegt og gott.
Efnisleg verðmæti hafa verið sett á stall sem aldrei fyrr á kostnað andlegra verðmæta. Auðgildi hafa öðlast tilbeiðslu á ný eins og á tímum rómverska keisaraveldisins og auðvitað á kostnað manngilda. Siðferðisstaðlar hafa verið stórlækkaðir undir yfirskyni frelsis og mannréttinda og með því hefur verið dregið úr styrk löglegra yfirvalda til að halda við stoðum heilbrigðs mannfélags.
Öfugsnúin hugmyndafræði ræður ríkjum í fjölmiðlum og stöðugt er verið að tala máli þeirra sem naga utan af þeim grunni sem þjóðfélag okkar stendur á.
Íslenskir fjölmiðlamenn hafa verið iðnir við að tala máli innflytjenda og það virðist siðvenja þeirra að draga fram einstök dæmi sem eiga að sýna kynþáttahatur landans og illmennsku hans í garð þeirra sem eru sagðir koma hingað til að hjálpa okkur til að vinna störfin sem við viljum ekki vinna. Innflytjandi sem á við einhverja erfiðleika að stríða er óðar kominn í sjónvarp eða útvarp og reynt að afla samúðar með honum en þegar eins stendur á fyrir íslenskum manni er það ekki talið fréttaefni.
Hannes Hólmsteinn, sérfræðingur hægri manna varðandi lífskjör hérlendis, skrifar lærðar ritgerðir um hvað allt hér sé gott og blessað og skýrir allt út frá meðaltali. Það þýðir ekkert fyrir Stefán Ólafsson að benda á dæmi um afturför eða íslenska fátækt, Hannes Hólmsteinn er óðar kominn með meðaltalsútreikninga sína og samkvæmt þeim er engin fátækt á Íslandi. Björgólfarnir og fleiri slíkir geta nefnilega léttilega lyft meðaltalinu upp í hinar gullnu hæðir.
Velferðin á Íslandi hefur t.d. aldrei orðið slík að starfandi ríkisstjórn hafi talið fært að fella niður hið svívirðilega stimpilgjald sem er einn versti ræningjaskattur sem þekkist á byggðu bóli. En meðan stimpilgjöld eru innheimt hér er tómt mál að tala um velferð. Að hugsa sér að ungt fólk sem er að berjast við að eignast húsnæði fyrir nýstofnaða fjölskyldu, skuli við þær erfiðu aðstæður þurfa að borga slíkan skatt til ríkisins. Það er hneisa og hverri íslenskri ríkisstjórn sem situr án þess að taka á því máli til ævarandi skammar.
Af hverju eru húsnæðiskaup, sem er fjárfesting en ekki neysla, skráð inn í neysluvísitölu sem lögð er til grundvallar verðbólgustöðunni í landinu ? Liggur ekki fyrir að verðbólgan sem verið hefur um 5,2 % væri um 1,9 % ef húsnæðiskostnaðurinn væri ekki skráður í neysluvísitöluna ?
Með því að breyta þessu væri með einföldum hætti unnt að færa þeim sem eru að kaupa íbúðir stórfellda kjarabót. Þetta hafa ýmsir bent á en valdaelítan hlustar ekki á eitt eða neitt og fer bara sínu fram í hroka sjálfumgleðinnar.
Og hvernig er með verðtryggingu lána sem þekkist ekki í þeim löndum sem við helst miðum okkur við ? Hvar er viljinn til að leggja hana af ?
Lánafyrirgreiðsla til íbúðarkaupa hérlendis er í svívirðilegu fari vegna þessarar verðtryggingar og hátt í helmingi hærri en víðast annarsstaðar þekkist.
Menn hafa gumað af fjármálasnilli íslenskra bankamanna, það er talað um útrás og fleira. Bankarnir hafa verið einkavæddir, sem þýðir að þeir hafa verið gefnir útvöldum yfirlýstum snillingum, en þessir menn þurfa samt að hafa sérstakar forréttindareglur til að geta rekið þessi fjármálaskrímsli sín.
Meðan þetta verðtryggingar-arðrán heldur áfram á Íslandi er ekki hægt að tala um neina velferð. Vandamálið er að við höfum alltaf aumingja við stjórn í þessu landi. Það eru engir stjórnskörungar við lýði á Íslandi - aðeins litlir karlar þó sumir þeirra séu og hafi verið með stórar bláar hendur.
Konurnar sem ætluðu fyrir 25 árum eða svo að siðbæta íslenska pólitík, þvo burt alla spillingu, gera þjóðfélagið fjölskylduvænna og náttúrugrænna, hafa allstaðar, í öllum flokkum, apað eftir körlunum og eru síst betri en þeir. Þær tala eins og þeir og þræða nákvæmlega í þeirra spor, ekki síst í ósiðunum. Aukin innkoma kvenna í pólitíkina hefur ekki skilað neinu til hagnaðar fyrir þjóðfélagið. Enda var aldrei við því að búast. Sú ímyndun að það sem er á milli fótanna á fólki ráði hugsunargangi þess var náttúrulega og er firra.
Konur eru ekki síður valdagráðugar en karlmenn og hugsanir þeirra hverfast um feril og frama alveg eins og hjá körlunum. Og það virðist ærin þörf að taka það fram varðandi konur að hugsanir þeirra búa í toppstykkinu en ekki fyrir neðan naflann !
Íslensk velferð, bull og kjaftæði ! Þetta borgríki er á hraðri ferð út í vitleysu og hin rómuðu fjölskyldugildi falla eitt af öðru í Mammonsginið sem er að hakka allt í sig við ötulan stuðning stjórnvalda.
Landsbyggðin er að drepast, enda svelt til hins ítrasta. Menningarhúsin verða þar síðustu minnisvarðar þjóðar sem varð að borgarlýð !
Og innflytjendamálin, þvílík reginheimska hefur ráðið í þeim málum síðustu 15-20 árin ! Börnin okkar eiga eftir að þakka okkur fyrir það hvað við sváfum illilega á þeim verði - eða hitt þó heldur !
Nú er svo komið að íslenskir iðnaðarmenn eru ýmsir áhyggjufullir um að verið sé að ráðast að áunnum kjörum þeirra með því að flytja inn erlenda iðnaðarmenn í stórum stíl. Þannig er víða leitast við að þrýsta niður lífskjörum fólks.
En fjölmiðlamenn taka létt á þeim vanda og virðast aðeins vilja fjalla um vandamálin frá sjónarhóli hagsmuna innflytjenda eins og að framan greinir.
Það þyrfti kannski að færa vandann til svo hann brynni á þeirra eigin skinni.
Nú liggur fyrir að fjölmiðlamenn í Austur-Evrópu hafa víða misst atvinnu sína við stórbreyttar aðstæður þar. Það væri því fróðlegt að vita hvernig íslenskir fjölmiðlamenn brygðust við ef við myndum flytja inn svo sem 500 fjölmiðlamenn austan úr álfu og byðum þeim vinnu hér á helmingskjörum miðað við íslenska fjölmiðlamenn. Ég hugsa að þá myndi hljóðið fljótlega breytast í þessu sjálfskipaða varnarliði hins skjámyndaða réttlætis !
Á ekki sýnin til framtíðar að vera þjóðleg hjá þeim sem þykjast vera vörslumenn almannaheilla ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.1.2008 kl. 12:59 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 22
- Sl. sólarhring: 71
- Sl. viku: 591
- Frá upphafi: 365489
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 504
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)