Leita í fréttum mbl.is

Svolítið um landsins gagn og nauðsynjar

 


 Nú er flestum ljóst orðið að Árni Mathiesen hefur ekki bætt alin við hæð sína með því að skipa Þorstein Davíðsson í tiltekið embætti í dómskerfinu. Þurfti Árni þó sannarlega á því að halda að vaxa að vinsældum frekar en hitt. Sem ráðherra sjávarútvegsmála gat hann sér ekki gott orðspor meðal landsmanna enda virtist hann alla tíð innvígður og innmúraður í kvótabræðralagið.

Það sýnist því enganveginn heppilegt að tefla fram dýralækni þar sem þarf að taka á meinsemdum mannfélagsins. Hann þarf þá í það minnsta að vera af annarri gerð en Árni Mathiesen.  Það er sannarlega von mín að Árni þessi verði aldrei formaður Sjálfstæðisflokksins og segi ég það vegna hagsmuna lands og þjóðar. En þar fyrir utan er það nú reyndar mín persónulega skoðun, að menn í umræddri formannsstöðu hafi aldrei verið heildarhagsmunum þjóðarinnar sérlega góðir liðsmenn.

En þó Árni Mathiesen hafi verið fluttur úr sjávarútvegsmálunum á Sjálfstæðisflokkurinn svo sem nóg af mönnum til að halda þar á málum eins og hann gerði. Sá sem þar varð fyrir valinu er dæmi um það og það er skoðun mín að hann muni áreiðanlega gera sitt versta til að feta sem dyggilegast í fótspor Árna Matt.

Nú þegar ályktað hefur verið af hálfu Mannréttindanefndar S.Þ gegn kvótakerfinu talar íslenski sjávarútvegsmálaráðherrann af sýnilegri lítilsvirðingu um  " einhverja nefnd út í heimi " og ekki sé hægt að hlaupa eftir því sem hún segi því það geti jafnvel haft slæm áhrif í útlöndum á fiskveiðikerfi þar. Þvílík röksemdafærsla !

Sem sagt, ef menn dreifa ranglætinu nógu víða þýðir ekki að taka upp baráttuna gegn því ?  Og maðurinn sem svona talar á að heita Vestfirðingur, en þar hafa margir orðið fyrir blóðugum skaða af kvótakerfis-misréttinu.

Svo er enn og aftur talað um að flestir sem séu í kvótakerfinu núna hafi keypt sér kvóta og því sé ranglátt að taka hann af þeim ! En það gleymist alltaf að umræddir menn keyptu sér kvóta fyrir þá peninga sem kerfið skaffaði þeim með gjafakvótanum. Hinir sem útundan urðu höfðu ekki efni á slíkum kaupum og sátu því skiljanlega eftir.

Svo hafa ræningjarnir setið að ránsfengnum öll þessi ár og velt sér í peningum, fjárfest hér og þar, yfirgefið greinina með fullar hendur fjár o.s.frv., og svo er talað um að það verði að bæta þeim það upp ef taka á ránsfenginn af þeim !

Hafa menn heyrt annað eins ?

Kjarni málsins er auðvitað sá að kvótakerfið innifelur í sér mannréttindabrot frá upphafi því almennt veiðifrelsi Íslendinga var afnumið og afhent ógeðslegri sérhagsmunaklíku sem síðan hefur hegðað sér sem aðall í landinu okkar og blóðmjólkað auðlindina okkar. Danir þóttu slæmir sem valdsherrar hér en þeir tóku veiðifrelsið aldrei af okkur en það gerðu íslensk stjórnvöld með bölvað íhaldið í broddi fylkingar.

Erum við aðilar að Sameinuðu þjóðunum án þess að þurfa að hlíta þeim reglum um mannréttindi sem þar er reynt að hafa í heiðri ? Eigum við bara að vera með þegar það er hagkvæmt fyrir einhverjar mannætuklíkur sérgæðingakerfisins ?

Ég held það hafi verið sá ágæti maður Tryggvi Þórhallsson, sem fyrstur kom fram með slagorðið " Allt er betra en íhaldið "  og gerði það landsfrægt á sínum tíma. Það er enn í fullu gildi þó Framsóknarflokkurinn hafi í heil 12 ár, eins og Alþýðuflokkurinn forðum, þjónað undir íhaldið með ömurlegasta móti.

Kjörorð tíðarandans virðist  vera " hver er sjálfum sér næstur " eða " troddu skóinn niður af náunga þínum eftir því sem þú getur ", - þá mun þér farnast vel !

Rósberg G. Snædal rithöfundur bjó lengi á Akureyri og kynntist því hvað helst gæti orðið mönnum vegur til frama á vígstöðvum mannlegrar framagirni þar í bæ. Hann sá fyrir sér hver formúlan var og setti hana í stuðlað form með eftirminnilegum hætti :

 

" Krjúptu fyrir föntum, þjófum,

frímúrurum, Oddfellóvum,

þefaðu uppi þeirra bein.

Krjúptu að fótum KEA valdsins,

kysstu á vendi afturhaldsins,

þannig ertu á grænni grein ! "

 

Og þeir virðast vera margir sem kjósa að kyssa á vendi afturhaldsins í dag. Ungt fólk frá heiðarlegum alþýðuheimilum fer í framhaldsskóla og telur síðan að besta leiðin til frama sé að ganga á mála hjá íhaldinu og taka undir með þeim sem kyrja Valhallaróðinn sem lofsyngur vaxandi misrétti í þjóðfélaginu.

Og það er skiljanlegt að það ístöðulausara og mergminna af unga fólkinu missi móðinn, þegar það kemst að raun um hvílíkt ægivald bláhandarlýðurinn er orðinn í þessu landi eftir að félagshyggjuvígin hafa mörg hver verið rústuð á Davíðstímanum með undirlægjufullum stuðningi Framsóknar.

En þessi þjóð þarf á félagshyggju að halda, samhjálp og viðurkenningu á manngildi án auðgildis. Okkar lífskjör eru og hafa verið byggð upp til þess að  börn landsins geti notið góðs af þeim, en þau eru ekki til orðin fyrir einhvern afætulýð sem kemur erlendis frá til að éta upp það sem við höfum aflað með súrum sveita.

Það á ekki að ala ómennsku upp í neinum en það á að hjálpa þeim sem hjálparþurfi eru. Um það held ég að allir heiðarlegir og sómakærir Íslendingar geti verið sammála.

Við höfum búið um skeið við mjög yfirgangssamt framkvæmdavald, hviklynt og ótraust löggjafarvald og tiltrú okkar á þessum tveim megingreinum ríkisvaldsins hefur beðið talsverðan hnekki. Ef þriðja megingreinin dómsvaldið, fer að glata tiltrú í sama mæli, þá verður ekki björgulegt um að litast til framtíðar í þessu landi.

Almennt, borgaralegt öryggi á Íslandi þarf á drjúgmikilli endurhæfingu að halda og það sem fyrst.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 118
  • Sl. viku: 1180
  • Frá upphafi: 316779

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 884
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband