Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

ÁSTANDSVÍSUR - Ortar 9. okt. 2008.

 

Formáli :

 

Eftirfarandi vísur urðu til að gefnu tilefni og fara trúlega að ýmsu leyti nærri þeim hugsunum sem leituðu á þjóðina - fólkið í landinu - á settum tímapunkti, og leitar enn.

Þegar kjörin yfirvöld bregðast skyldum sínum við þjóðina, verður fólk að finna mátt sinn í samstöðunni, en ekki má horfa framhjá því sem gert var.

Við verðum því að nota fyrsta lýðræðislega tækifærið sem gefst til að losa okkur við þá óhæfu forustumenn sem sett hafa alla uppbyggingarstarfsemi þjóðarinnar, - frá því hún hlaut sjálfstæði sitt og frelsi - í skelfilega stöðu.

 

Allt í súginn er að fara,

ástandið er líkt og mara.

Engar lausnir liggja á borðum,

logið samt með fögrum orðum !

 

Nú skal frysta lágu launin,

láta fólkið ganga hraunin.

Sú er alltaf glæpagjörðin

gripin þegar brennur jörðin !

 

Sitja menn við svikaborðið,

saman biðja þar um orðið.

Sérgæðinga sokkinn dallur

settur skal á ríkið allur !

 

Spilavítis spunagaldur

spilltur er að hruni valdur.

Græðgin réði gjörðum öllum,

glatt var þá í Mammonshöllum !

 

Leikföngin nú liggja brotin,

lítið rætt um undanskotin.

Veislan búin - vínið drukkið,

voðalegt þar reyndist sukkið !

 

Þó mun gegnum eril anna

efst á blaði ráðamanna,

að þegar blæs í þjóðarkaunin

þurfi að vernda ofurlaunin !

 

Því skal alla alikálfa

upp í samkórsleiknum þjálfa.

Svo að rati á sama stefið

sakleysið sem þeim er gefið !

 

En það er fals og fyrirsláttur,

frjálshyggjunnar andardráttur.

Megi hann kafna í eigin ælu,

allur vafinn lygaþvælu !

 

Ævintýragengið grófa

gjörspillt var að hætti þjófa.

En þó að brot um boða ólgi

bjarga á hverjum sökudólgi !

 

Fjölmiðlar í fari skökku

fram nú setja í máli klökku,

samúð með þeim seku  ( og ríku ),

sjást þar merki stórrar klíku !

 

Þar má líta vísan vottinn,

væmnislegan kattarþvottinn.

Alin þýin upp til hópa

undir teppin skítnum sópa !

 

Klækjabrögðin varast verður,

víða er illur seiður gerður.

Toga býsn í bláa spotta

bak við tjöldin menn sem glotta !

 

Snúum baki við þeim vörgum,

víkjum ekki að þeirra hörgum.

Fyrirlítum flærð og lygi,

flokksgæðinga- höfuðvígi !

 

Hirðum ekki um hræsnisræður,

horfum ekki í tálsins glæður.

Hlustum ekki á hrunin goðin,

hyllum ekki svikaboðin !

 

Forðumst trú á falska dóma,

finnum aftur veg til sóma.

Reisum fánann upp úr ösku

öll með sóknarbragði rösku !

 

Sitthvað lærir barnið brennda,

burt skal skemmdum eplum henda.

Svo þau eitri ei eðlisgóðar

undirstöður heillar þjóðar !

 

Gleymum aldrei leiknum ljóta,

lygaspili sleipra þrjóta.

Meinsemda þar mælist flokkur,

munum hvað hann gerði okkur !

                                                      

 

 

 

 

 

 

 

 


Útrásarbragurinn


Í gullkálfs ólmum dansi menn gleymdu öllu skyni

og gripu Mammons hönd.

Svo þjóðareignir fuku og fóru í þá vini

sem flokksleg treystu bönd !

 

Og svo var áfram geisað í græðgis anda spilltum

og gráum púðurreyk.

Svo skrattanum var feykilega skemmt í dansi trylltum

og skítmennskunnar leik !

 

Og svikamylluferlið með tálsins tölugaldur

fór tíðum upp í ský.

En nú er veislan búin og veruleikinn kaldur

að vitja manna á ný !

 

Í þjóðarinnar augum

svo eitrað nú er hrapið á þeim,

sem einkavæddu gróðann

en ríkisvæddu tapið og sendu það heim !

 

Og þjóðin eftir meðferð svo magnaða og grófa

er miður sín í dag.

Það reyndist illt að treysta á slíka Bjarnabófa

til bjargar þjóðarhag !

 

Því spilaborgin hrundi því spillingin á hvergi

til spyrnukjarna neinn.

Þó guðfeðurnir reyni að geta þess í ergi

að grunnurinn sé hreinn !

 

Það gengur ekki að ljúga að lýðnum alla daga

og lífga dauðan kveik.

Svo taka verður skrefin til skyldurækni og aga

frá skítmennskunnar leik !

 

Í þjóðarinnar augum

svo eitrað nú er hrapið á þeim,

sem einkavæddu gróðann

en ríkisvæddu tapið og sendu það heim !

 

                                                       


Um ábyrgð sem reynt er að þurrka út

 

Hverjir eru ábyrgir fyrir því efnahagslega hruni sem dunið hefur yfir land og þjóð á undanförnum dögum ?

Hverjir bera ábyrgðina á fjölda harmleikja sem átt hafa sér stað vegna fjárhagstjóns hjá einstaklingum og fjölskyldum í þessu landi ?

Það er mörgum ljóst hvar í flokki þeir standa sem vilja segja með Geir Haarde forsætisráðherra, að ekki megi persónugera vandann. En vandinn er skapaður af persónum og hefur þannig persónugert sig sjálfur.

Allt tal um annað eru einungis tilraunir vissra manna til að forða þeim sem sekir eru undan afleiðingum gerða sinna og kannski sjálfum sér um leið.

Það verður að rannsaka þessa hluti og komast til botns í því sem gerðist og greina frá því hvernig það gat gerst. Við verðum sem þjóð að moka okkur í gegnum skítahauginn og gera málin upp. Annars lærum við ekkert af þessu og sitjum til langframa í öllu svínaríinu, blind og sinnulaus.

Stjórnvöld hafa gefið fyrirheit um einhverja hvítbók, eitthvert sannleiksrit um þessi mál. Það getur aldrei orðið boðlegt, því stór hluti þjóðarinnar treystir ekki stjórnvöldum til að gera þau skil á þessu sem trúverðug væru.

Yfirvöldin eru nefnilega sjálf sek í þessum efnum, sek um sofandahátt, skeytingarleysi og hreint og beint kæruleysi gagnvart heildarhagsmunum þjóðarinnar. Þau munu varla fara að tína það til sem þeim er sjálfum til víta.

Miklu fremur eru þau líkleg til að gera tilraun til að breiða yfir fjölmargt sem ekki þætti gott að yrði opinbert. Sannleiksrit af þeirra hálfu yrði því miklu frekar hvítþvottartilraun en trúverðugt uppgjör mála.

Ég tel að þeir sem voru fremstir manna í því að reisa hina fjármunafreku spilaborg sem nú hefur hrunið, hljóti að þurfa að svara til saka.

Um daginn var í útvarpinu frétt um einhverja konu á skilorði sem var víst staðin að því að hnupla tvennum nærbuxum í búð. Konustráið var náttúrulega sakfelld með það sama fyrir glæpinn. Í þessu sambandi er það hugarkrefjandi mál að velta því fyrir sér, hvernig einstakir fjármálabófar gátu sett heilt þjóðfélag um koll með  framferði sínu, án þess að það bryti í bága við lög, gátu veðsett og skuldfært þjóðfélagið upp fyrir haus með samþykki yfirvalda og horfið síðan af vettvangi með milljarða í vösunum ?

Hafa viðkomandi lög kannski beinlínis verið sett með þeim annmörkum, að slíkir aðilar gætu haft sem mest svigrúm til að arðræna þjóðina ?

Það er kýrljóst að það mun verða reynt til hins ítrasta af vissum aðilum að hvítþvo útrásarvíkingana og hin föllnu fjármálaséní. Sú viðleitni er þegar komin í gang í fjölmiðlum og var reyndar aldrei felld niður þar með öllu.

Í dag segir Mbl. t.d. á forsíðu " Þeir felldu íslensku bankana " og er þar vísað til erlendra seðlabanka ! Tiltekin blaðakona er skrifuð fyrir greininni og enginn þarf að efast um í hvaða herbúðum samúð þeirrar manneskju liggur.

Íslensku oligarkarnir fá enn sem fyrr drjúgt rúm í fjölmiðlum til að tala fyrir sínu máli og auðvitað er allt öðrum að kenna. En ég trúi því aldrei að þjóðin láti blekkjast af skrumi þeirra í annað sinn.

Sagan vill oft endurtaka sig og mér verður hugsað til eins sögulegs dæmis.

Þegar Þjóðverjar höfðu tapað fyrri heimsstyrjöldinni komu þýskir hægrimenn af stað áróðursmaskínu heima fyrir um að herinn hefði aldrei brugðist eða verið sigraður á vígvellinum. Það hefðu verið Gyðingar, sósíalistar og aðrir vinstri menn sem hefðu svikið herinn. Þetta var almennt kallað " rýtingsstungan  ( í bakið ) " (Der Dolchstoss).

Mér finnst sumir landar mínir vilja viðhafa hliðstæð viðbrögð við bankahruninu. Það hafi ekki verið útrásarvíkingarnir sem brugðust þjóðinni heldur hafi erlendar bankastofnanir rekið rýtinginn í bak þeirra á ögurstund. Heyr á endemi !

Og með svona áróðurs sjónhverfingum á að villa almenning og fá hann til að trúa því að enginn hér hafi brugðist, svikið eða féflett aðra. Enginn hérlendis sé ábyrgur fyrir því að svona fór !!!

Svo er talað í hræsnisfullum anda um að við Íslendingar séum og eigum að vera ein fjölskylda, standa saman í mótlætinu, berjast gegn þeim sem eru að ofsækja okkur erlendis frá !

Hvers virði þótti slík samheldni þegar fjármálapúkarnir æddu yfir allt og settu þjóðarbúið og heildarhagsmuni landsmanna í veð fyrir því sem þeir gerðu í græðgisþorsta sínum ?

Hún var ekki til í huga þeirra þá, hún var út í hafsauga !

Margan daginn dr..........

drepa okkar rétt.

En þegar slíkir þarfnast okkar,

þá er talað slétt !

Látum ekki telja okkur trú um að útlendingar hafi bruggað samsæri gegn íslensku þjóðinni. Gerum okkur grein fyrir því að brotalamirnar voru smíðaðar hér heima og þeir sem hömruðu þær til, eiga skilyrðislaust að bera fulla ábyrgð á því hvernig fór. Það má aldrei verða að þeir verði settir upp á punt á ný.

Skömm þeirra þarf að skrifast inn í þjóðarsöguna skýrt og greinilega svo hún verði þar öðrum til viðvörunar um alla framtíð undir yfirskriftinni:

 " Svona má aldrei neinn Íslendingur hegða sér "!

 


Hugleiðingar um ástand mála og innfelldur kreppukveðskapur

 

Menn tala um kreppu og slæmt ástand og það er skiljanlegt. Heimurinn á við erfiðleika að etja í þeim efnum og við Íslendingar virðumst hafa farið flestum þjóðum verr út úr þeim, fyrst og fremst vegna þess að aðgæslan hefur sýnilega verið allt of lítil í málunum hér heima. Menn þóttust svo afskaplega klárir !

Dansinn um gullkálfinn hefnir sín alltaf að lokum !

Frjálshyggjumenn og einkavæðingarsinnar, hægrimenn yfir höfuð, hamra í sífellu á því að það sé heimskreppa og við séum í vanda vegna þess. Þeir virðast nota hvert tækifæri til að undirstrika það að engum sé um að kenna - þetta sé bara ástand sem hafi skollið á eins og þruma úr heiðskíru lofti. Um það mætti þó segja:

Umræðan er fölsk og frek,

fólkið á að gabba.

Yfirstjórnin öll er sek,

einkum liðsmenn Dabba !

Staðan er nefnilega ekki tilkomin eins og afsökunarmenn eru að reyna að segja. Það var ekki heiðskírt loft í efnahagsmálum og þruman hafði verið yfirvofandi, að minnsta kosti í um eitt ár. Það sáu og skynjuðu nánast allir nema greiningardeildir bankanna, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, að ógleymdri ríkisstjórninni !

Við erum sjáanlega fallin stjarna í samfélagi þjóðanna, hnípin þrjú hundruð þúsund manna þjóð sem hefur verið teymd á asnaeyrum fram á hyldýpisbrún !

Hruninn er þjóðar hagurinn,

horfir við mönnum grandið.

Bananalýðveldis bragurinn

breiðir sig yfir landið !

Hvað oft komu allir þessir forsvarsmenn fram í fjölmiðlum og sögðu að ástand mála myndi lagast ?  Þótt öll viðvörunarljós blikkuðu ypptu ráðamenn bara öxlum og sögðu : " Þetta lagast, þetta getur ekki staðið lengi, það er engin hætta á ferðum !"

Bar þó meira á skugga en skímu,

skuldir uxu í hættuleik.

En gullkálfar í gróðavímu

gengu fram í villu og reyk !

Og Útrásar-forsetinn okkar flutti sömu gyllingar-ræðuna um íslensku snillingana aftur og aftur, boðskap sem átti ekki lengur nokkurn samhljóm meðal þjóðarinnar, því almenningur var virkilega farinn að finna að ekki var allt með felldu.

Við skulum nefnilega gera okkur grein fyrir því, að þó það sé erfitt ástand víða á fjármálamörkuðum heimsins, er ástæðan alls staðar að miklu leyti sú sama, ábyrgðarlaust framferði, þar sem menn virðast hafa spilað hreint og klárt fjárhættuspil. Það var gengið út frá því sem náttúrulögmáli, að menn hefðu stöðugan aðgang að ótakmörkuðu lánsfé.

Hér heima varð útkoman þeim mun verri sem ábyrgðarleysið virðist hafa verið meira. Hinir einkavæddu bankar vísuðu umsvifalaust allri ábyrgð á himinhárri skuldasúpunni til ríkisins og þjóðarinnar og fjármálasnillingarnir hurfu af vettvangi, efalítið með sína einkavæddu milljarða í farteskinu eins og kapitalista er háttur við slíkar kringumstæður.

Menn hafa því spilað eins og vitleysingar og á sama tíma var stórveldisbragurinn   yfirgengilegur í einkaneyslu þeirra. Þeir litu á sig sem kónga á fjármálasviðinu.

Það er kannski umhugsunarvert að önnur stórveldi Evrópu, eins og Lichtenstein, Andorra og San Marino, blönduðu sér með engum hætti í þetta hrikalega hættuspil !

Ég fæ ekki betur séð en Morgunblaðið hafi verið nokkuð iðið undanfarna daga við að reyna að gera einhverskonar píslarvotta úr meintum óhappamönnum þjóðarinnar :

Undarleg þar eru skrifin,

út og suður bara gelt.

Forðast er að fara í þrifin,

flestu undir teppið velt !

Blaðið talar um að Lárus Welding Glitnisforstjóri hafi átt margar svefnlausar nætur ! - Ó, aumingja skinnið !

Landsbankamenn hafi reynt sem þeir gátu að verjast ofveðrinu sem skollið hafi yfir ! - Ó, blessaðir mennirnir !

Kaupþingsbankamenn hafi orðið að játa sig sigraða að lokum ( væntanlega eftir hetjulega baráttu ) ! Svona hefur tónninn verið.

Og leiðarar blaðsins hafa verið eggjunarorð um samstöðu þjóðarinnar, um að endurheimta gott orðspor o.s.frv., og allt á það að gerast við óbreytta forustu !!!

Síðast í dag kom svo hástemmd lofgrein í blaðinu um Davíð Oddsson, eftir Baldur Hermannsson, sem er þannig samsett að manni liggur við að æla. Þar virðist það vera talin mesta blessun Íslands, að eiga mann eins og Davíð Oddsson við svona aðstæður !!

Höfundur minnist ekki á Geir Haarde og þaðan af síður á þá staðreynd, að við erum í raun að uppskera afleiðingar stjórnunarverka Davíðs Oddssonar !

Það mætti vissulega halda að það væri rétt sem kom í hugann eftir lestur þessarar yfirgengilegu mærðargreinar :

Topparnir minna á tittlinga í mýri,

trítla þeir þannig um valdanna svið.

Sá gamli er ennþá  með greipar á stýri,

Geir hefur aldrei tekið við !

Heilt opnuviðtal var um daginn í Mbl. við Hannes Hólmstein Gissurarson, þar sem hann talar um að menn megi ekki dæma kapitalismann eftir hegðun kapitalista sem hafi hagað sér illa !

Er þetta ekki maðurinn sem alltaf hefur verið að dæma kommúnismann eftir kommúnistum sem höguðu sér illa ? Merkti hann ekki prívat og persónulega alla þá hjörð eftir einstökum forustusauðum ?

Umrætt viðtal var allt með þeim hætti, að maður gat ekki varist þeirri hugsun að þarna væri skýrt dæmi fyrir hendi um hálærðan asna sem hefði ekkert lært og myndi ekkert læra af því sem nú er að dynja yfir. Mér varð því að orði:

Hannes talar tungum mörgum,

til þess sig hann þjálfar vel.

Eins og genginn út úr björgum,

allar stundir blár sem Hel !

Aftar í viðtalinu talar Hannes um að þeir menn sem hefðu verið að verja Baugsfeðga í umræddu máli, ættu sér þó þá afsökun að þeir væru á launum hjá þeim og hefðu starfað vel fyrir yfirboðara sína, " sá á hund sem elur " segir hann svo, eins og máltækið segir.

Og þetta kemur frá manni sem alla tíð hefur að almanna áliti verið málpípa annarra í tíma og ótíma og starfað fyrir yfirboðara sína:

Mér flaug í hug þessi vísa eftir lestur þessa dæmalausa viðtals :

Hannes fer á hæsta stig,

hitt og þetta telur.

En Davíð brosir sæll með sig,

" Sá á hund sem elur ! "

Það vantar heldur ekki að " réttu mennirnir " eru látnir geisa á fullu í fjölmiðlum, svo að aðrir séu ekki að þvælast þar fyrir sem líklegir væru til að spyrja óþægilegra spurninga og krefjast svara.

En ástandið er grafalvarlegt og það er af mannavöldum:

Hagsældar er horfin trú,

heillir virðast stranda.

Ljótt er um að litast nú,

lítil þjóð í vanda !

Margir hafa talað harðlega um Fjármálaeftirlitið og telja að það hafi alls ekki sinnt skyldu sinni varðandi aðhald að bönkunum. Forsvarsmenn þess bera því hinsvegar við, að þeir hafi unnið eftir þeim reglum sem skylt var. Um það mál má þó kannski kveða eftirfarandi:

Fjármálaeftirlitið leit

litla hættu á ferðum.

Algjörlega á sig sk...

óháð reglugerðum !

En það verður að fara yfir þessi mál öll þegar frá líður og helst sem fyrst, því allt bendir til þess að margt hafi klikkað. Tiltekinn maður reyndi að vera landsföðurlegur í viðtali í tilteknum Kastljósþætti um daginn, en allt kom fyrir ekki. Traustið var einnig fallið þar:

Sumir hafa siði marga,

sýna viðmót þurrt og kalt.

Búa fyrst til brennuvarga

og bölva þeim svo fyrir allt !

Framsóknarmenn ættu líka að fara sér hægt um stundir, því það sem gerst hefur er afleiðing samstjórnar þeirra og íhaldsins. Undirlægjuháttur Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar, varð til þess að Davíð náði hér meirihluta og réði öllu í landinu í heil 12 ár. Á þeim tíma var sáð til þess sem við erum nú að uppskera. Samfylkingin er með hreina sakaskrá í þessum efnum samanborið við Framsóknarflokkinn :

Framsókn ætti að fara hægt,

forðast leik með bröndum.

Því lengi var hún ljúft og þægt

lamb í Davíðs höndum !

Það verður að taka til eftir bruðlið og ábyrgðarleysið. Þeir sem vilja ekki slíka tiltekt hljóta að óttast eitthvað og menn geta þá spurt sig að því hvað það kunni að vera ?   Engin þjóð sem ætlar að byggja á sómatilfinningu í framtíðinni getur látið sem ekkert sé, eftir að það liggur fyrir, að örfáir menn hafi nánast fengið skotleyfi til að rústa þjóðarhag......

Ég legg svo til að kvótakerfið verði lagt niður. Nú er lag til þess !

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ræningjar þjóðarbúsins

 

Það er ljóst þegar litið er til tuttugustu aldarinnar, að hún var öld mikillar félagslegrar framfarasóknar á Íslandi. Ungmennafélögin blésu hverri nýrri kynslóð í brjóst eldmóði til nýsköpunar fyrir land og lýð, samvinnuhugsjónin byggði menn upp til samfélagslegrar þjónustu og verkalýðshugsjónin vann að því að draga úr misrétti og tryggja öllum mannsæmandi líf. Allt miðaði þetta í raun að sama marki, að byggja hér upp þjóðfélag jafnaðar og samstöðu.

Það má segja að vel hafi miðað um skeið og miklir sigrar verið unnir. En engin barátta af því tagi sem hér er verið að minnast á verður háð án fórna.

Heil kynslóð  lagði á sig erfiðustu byrðarnar til að koma þjóðinni upp úr aldagömlu fari og inn í tíma framfara og félagslegra umbóta. " Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá, " er oft sagt þegar vísað er til frumherjanna sem fórna sér fyrir ávinning þeirra sem síðar koma.

Þessi félagslega sókn síðustu aldar fór að fjara út eftir 1970 þegar vaxandi tilhneigingar gætti hjá ýmsum öflum að heimta stöðugt stærri hlut af áunnum gæðum og um 1980 var annar andi að fullu farinn að verka hér, sendur hingað af erlendum Mammons öflum til að kynda undir sérgæskuna sem hér var fyrir. Hin félagslegu öfl brugðust fyrst í stað hart til varnar gegn þessum vágesti sem kynntur var undir nafninu " frjálshyggja." Það vantaði ekki að nafnið á óvættinni væri fagurt.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tjaldaði frjálshyggjunni fyrst í kosningum, undir leiftursóknarformerkjum, var því mætt með slagorðinu " Leiftursókn gegn lífskjörum ! " Þá var fólkið í landinu enn ekki ginnkeypt fyrir fylgjendum gullkálfsins og gætti betur að sínu en síðar varð.

En á bak við tjöldin voru hinsvegar skuggalegir hlutir að gerast. Sérhagsmunaöflin voru að leggja drögin að kvótakerfinu, einu viðbjóðslegasta fyrirbæri Íslandssögunnar. Ávinningi samstæðrar þjóðar í landhelgismálunum átti að koma í hendur hinna útvöldu. Og þegar þetta helvítis kerfi komst á, var lagður grunnur að mestu ranglætismiðstöð sem starfað hefur í þessu landi.

Auðlind þjóðarinnar fór að mala gull fyrir sérhagsmunaöflin og ein afleiðingin varð mismunun í stórum stíl sem leiddi til þess á fáum árum að tvær þjóðir urðu til í þessu landi. Og ranglætið í kvótakerfinu sem gerði svonefnda sægreifa svo forríka, varð til þess að þeir og áhangendur þeirra urðu krónískri siðvillu að bráð. Þeir vörðu ranglætið af hörku af því að það þjónaði efnalegum hagsmunum þeirra. Þannig var margur góður maður afvegaleiddur og eyðilagður af anda Mammons.

Auðsöfnun útvalinna einstaklinga í kringum kvótakerfið, skapaði fjárfestingar af þeirra hálfu hér og þar. Allt í einu voru nokkrir einstaklingar sem ekki höfðu átt bót fyrir boruna á sér, orðnir gífurlega fjársterkir í okkar litla þjóðfélagi og valdamiklir að sama skapi.

Frjálshyggjan óð áfram og félagslegu öflin misstu hvert vígið af öðru í hafsjó hinnar yfirvaðandi einstaklingshyggju sem fylltist óseðjandi græðgi. Þjóðhagsstofnun var lögð niður, enda var hún bara sögð vera fyrir. Flestar varúðarreglur réttarkerfisins voru smám saman sniðgengnar. Hersveit hinna ungu fjármálasnillinga var í svo mikilli sókn að engin leið var að fylgja henni eftir á yfirveguðum nótum.

Ríkisvaldið var í höndum frjálshyggjumanna og þjónaði undir gerðir þeirra í kvótakerfi og öðru. Þannig byrjaði Hrunadansinn.

Spilaborg eftir spilaborg var hlaðið upp og ríkisstjórnin jafnt sem forsetinn dásömuðu snilld hinna íslensku oligarka, sem höfðu þó fengið allt í sínar hendur  á röngum forsendum. Leikföngin höfðu verið afhent þeim úr öryggisforðabúri þjóðarinnar.

Það var ekki svo lítið talað um útrásina á þessum tíma og litlu þjóðina sem var að leggja undir sig heiminn. Og menntunin var dásömuð en ekkert talað um reynsluna sem þarf að styðja menntun einstaklingsins svo hún komi að heilbrigðum notum. Hinir nýju goðorðsmenn voru ekki að hugsa um að byggja upp í kringum sig eins og gömlu hetjukarlarnir, Einar Guðfinnsson, Haraldur Böðvarsson eða Aðalsteinn Jónsson. Nei, þeir voru bara að hugsa um að verða ríkir og enn ríkari. Það virtist skipta þá litlu máli hvernig það ríkidæmi færi með aðra.

Og yfirþjóðin lifði í svellandi sælu gróðavímunnar meðan undirþjóðin barðist við að hafa í sig og á. Ríkisstjórnin snerist af einstakri þjónustulund kringum oligarkana og vildi stöðugt vita hvað hægt væri að gera fyrir þá ?

Forsetinn flaug um allar trissur með auðmönnum veraldar eins og hann væri eilífðarkóngur í Paradís norðurhjarans og glansveldið stækkaði eins og regnbogalituð sápukúla.

En svo varð sprengingin !  - sápukúlan sprakk allt í einu og froðukúfarnir þeyttust í allar áttir, en þeir voru ekki hreinir því óhreinindin innan í kúlunni höfðu verið svo mikil. Glansinn hafði bara verið að utanverðu !

Og þegar svo er komið er allri ábyrgðinni af bruðlinu vísað til undirþjóðarinnar, þá er það hún sem á að bjarga og bæta fyrir afglöp yfirþjóðarinnar.

Nú er þjóðarsáttartalið komið enn einu sinni í umferð og þá á almenningur að borga. Lífeyrissjóðir fólksins eiga að koma í stað milljarðanna sem oligarkarnir hafa sópað að sér og hirt.

Og Geir Haarde, Pétur Blöndal og allur íhaldskórinn syngur sama lagið undir lagboðanum " Það er engum um að kenna / allt fór þetta bara að renna ! " Kreppan í útlöndum er sögð valda öllum vandanum og þannig á að fela óstjórnina, græðgina, yfirganginn og helbláar ránshendurnar hér heima !!!

En málið liggur ljóst fyrir og almenningur veit hvað gerðist. Menn vita hverjir eru ræningjar þjóðarbúsins.

Það er ekki meiningin með þessum skrifum að krefjast þess að einhverjir verði hengdir fyrir alvarleg brot gegn þjóðarhag, en það er nauðsynlegt að það liggi ljóst fyrir hvað gerðist, svo hægt verði í framtíðinni að forðast þjóðhagslegt öfugstreymi af því tagi sem nú er í gangi.

Það verður að láta gullkálfa undanfarinna ára axla ábyrgð sína, ekki síst í sögulegu samhengi. Þeir hafa niðurlægt nafn Íslands og komið skammarstimpli á þjóðfélag sem búið var að koma til manns með ærnum fórnum.

Það á engin yfirþjóð að vera í þessu landi og engin undirþjóð heldur. Hér á að lifa sameinuð þjóð sem þekkir takmörk sín og virðir lög og rétt.

Hin góðu gildi geta aldrei haldið rótum í þjóðfélagi þar sem ranglæti og misskipting er við lýði, þar sem oligarkar eigingirninnar njóta sérkjara á ríkisins kostnað og frjálshyggjan fær að fara sem logi yfir akur.

Látum ekki ræningjana komast upp með meiri gripdeildir - snúum aftur til félagshyggjunnar og höldum áfram því farsæla verki sem hún stóð fyrir í þessu landi.

Ég legg svo til að kvótakerfið verði afnumið sem allra fyrst.

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 21
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 590
  • Frá upphafi: 365488

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband