Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
29.3.2008 | 11:54
Hið mikla geymir minningin
Um þessar mundir eru 30 ár liðin frá því að Vilhjálmur Vilhjálmsson, einn ástsælasti söngvari okkar Íslendinga, lést í hörmulegu bílslysi í Luxembourg.
Það var mikill missir því Vilhjálmur hafði sungið sig inn í hjörtu landsmanna með þeim hætti að hann átti þegar sitt sérstaka rúm þar. Lögin sem hann gæddi svo grípandi yl með sinni hreimþýðu rödd, hljóma enn í hjörtum okkar og eru gleðigjafi öllum sem á hlusta.
Það kom snemma í ljós að Vilhjálmur var, eins og Ellý systir hans, búinn framúrskarandi sönghæfileikum og þau systkinin gáfu af sér svo mikið til annarra í gegnum þessa hæfileika sína, að það er ógerlegt að meta það sem skyldi.
En þökkin til Vilhjálms og Ellýjar mun lifa áfram í íslenskum hjörtum því þau munu sem áður ylja okkur og veita gleði til okkar í dagsins önn. Blessuð veri minning þeirra systkinanna um alla framtíð.
Það hefur oft verið til þess vitnað að Alexander mikli hafi látist 33 ára að aldri og þá verið búinn að sigra hinn þekkta heim. En Alexander sótti sína sigra með sverðinu og blóðsúthellingar fylgdu honum hvert sem hann fór.
Vilhjálmur Vilhjálmsson lést líka 33 ára að aldri, en vegferð hans var með öðrum hætti. Hann sótti sína sigra með rödd sinni og gladdi og yljaði hvar sem hann fór. Hann lagði ekki undir sig lönd og álfur eins og Alexander, en hann vann sér ástsælan sess í hjörtum samferðamanna sinna með framlagi sínu til ávöxtunar góðra hluta.
Hann kom oft eins og huggandi vinur inn í mannlegar aðstæður, þar sem tregi og söknuður, sorg og andstreymi voru fyrir, og breytti með samúðarríkum söng sálarástandi fólks til betri vegar. Hann gerði gleðina í lífinu meiri og sorgina léttbærari. Hann notaði hæfileika sína óspart í þágu annarra og leit á það sem sjálfsagðan hlut en það er siður góðra drengja.
Hann var sannarlega söngvari af Guðs náð og lögin sem hann söng, perlurnar hans, munu lifa og ljóma - okkur öllum til blessunar - um ókomin ár.
Fyrir það er vert að þakka og ég geri það með þessu litla ljóði sem fylgir þessum orðum:
TIL VILHJÁLMS
Þó úr heimi horfinn sértu,
hlýjar perlur minna á sig.
Vinur kær og valinn ertu,
Vilhjálmur - við munum þig.
Okkur gafstu söngvaseiðinn
sem að gildi aldrei dvín.
Það var vinar vænsti greiðinn,
vinargjöfin stærsta þín.
Rödd þín vermir, rödd þín laðar,
röddin þín er öllum kær.
Hún á leið til hjartastaðar
heilsar okkur ljúf og tær.
Hún í okkar hjörtum syngur,
hún ber þennan rétta keim.
Það er enginn Íslendingur
ósnortinn af hljómi þeim.
Þökkum vafinn þjóðar sértu,
þær um framtíð kynna sig.
Vinur kær og valinn ertu,
Vilhjálmur - við elskum þig !
- Vinur kær og valinn ertu,
Vilhjálmur - við elskum þig !
24.3.2008 | 15:41
Um alþjóðasamfélagið svokallaða
Á síðustu árum hefur færst í vöxt að menn tali fjálglega um allskyns vandamál með tilvísun til einhvers alþjóðasamfélags. Það er eins og það sé talin einhver allsherjar lausn á vanda sem upp kemur að tengja hann inn á þetta alþjóðasamfélag sem á víst að vera einhverskonar birtingarmynd af samvisku heimsins.
En hvað er þetta alþjóðasamfélag ? Er það eitthvað sem hægt er að treysta á hvað snertir öryggi fólks í hrjáðum heimi ? Mér virðist það fyrst og fremst ljóst, að þetta alþjóðasamfélag sé ákaflega mismunandi virkt eftir því hver fremur brotin hverju sinni og hvernig hinn pólitíski bakgrunnur málanna er.
Hvað gerir þetta alþjóðasamfélag t.d. varðandi meint mannréttindabrot
Bandaríkjanna á Guantanamo, hvað hefur það gert varðandi ógnaröldina í Darfur í Súdan og ástandið í Kenya, svo eitthvað sé nefnt ?
Þar er varla hægt að merkja að þetta mikla alþjóðasamfélag hafi yfir höfuð nokkurt vægi. En þegar pólitísk nauðsyn og rétthugsun áróðurskeyptra fjölmiðla krefst þess, er tónað hátt um alþjóðasamfélagið, óskilgreint mannréttindavænt fyrirbæri, sem á að geta verndað og varið ef því er að skipta.
Sú var tíðin að Þjóðabandalagið átti að gegna hlutverki nokkurskonar rétthugsandi alþjóðasamfélags. Sú tilraun fór í vaskinn vegna þess að sumir fengu frá byrjun fyrirgreiðslu langt umfram aðra. Allt fór í bullandi mismununar pólitík. Næst var farið í að stofna Sameinuðu þjóðirnar, sem átti líka að vera tilraun til myndunar allsherjar-vettvangs til lausnar deilum, en ekki tókst þar betur til því allt kraumaði þar í pólitík frá fyrstu stund.
Það voru t.d. algjör mistök að setja aðalstöðvar samtakanna niður í Bandaríkjunum og hefði verið miklu skynsamlegra að hafa þær t.d. í Sviss eða Svíþjóð. Svo var stofnun öryggisráðsins strax sönnun fyrir mismununarstefnu, því þar gátu stórveldin haft sitt sérvægi umfram aðra. Það kom t.d. skýrt í ljós þegar farið var að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir afskipti samtakanna af átökum milli þjóða.
Þegar samviska heimsins hefur verið slegin verulega illa og menn hafa séð illar afleiðingar verka sinna, hefur stundum verið rokið í að búa til eitthvað til að sýna og sanna að flestir ráðamenn séu nú í rauninni bestu skinn. Þannig varð Þjóðabandalagið til eftir fyrri heimsstyrjöldina og Sameinuðu þjóðirnar eftir þá seinni. En stofnun hvorttveggja þessara samtaka var aldrei byggð á neinum heilindum, enda komu brotalamirnar býsna fljótt í ljós.
Þó Sameinuðu þjóðirnar séu enn við lýði gagnast sú stofnun ekki lengur. Að margra mati er hún ekki marktæk sem vettvangur fyrir lausn deilumála.
Í dag er aðalritari SÞ svo lítilvæg persóna, að heilu þjóðirnar hafa ekki hugmynd um hvað hann heitir og þaðan af síður að hvaða gagni hann er í veröldinni.
Og einmitt vegna þess hve SÞ er í raun orðið gagnslítið tæki, er gripið til þess að tala um þetta alþjóðasamfélag sem einhverja nýja lausn, einhvern nýjan vettvang, eitthvað nýtt sem hægt er að treysta á............. en eins og að framan greinir fetar það þráðbeint í feigðarspor fyrirrennara sinna !
En af hverju skyldi vera svona erfitt að byggja upp alþjóðlegt öryggisnet til varnar stríði og annarri óáran í þessum heimi ? Meginástæðan er sú að stríð eru háð af valdamiklum aðilum sem eru að færa út vald sitt. Þeir fá stuðning frá öðrum valdamiklum aðilum sem selja vopn og annað sem þarf til stríðs - þar er um að ræða kaupmenn dauðans og auðhringa sem mala gull á óhamingju heimsins. Þessir aðilar vilja ekki haldgott alþjóðlegt öryggisnet, þeir vilja bara markað fyrir vopnasölu sína og til þess að slíkur markaður sé fyrir hendi, verður stöðugt að efna til stríðsátaka.
Þessvegna fór með Þjóðabandalagið eins og fór og þessvegna eru Sameinuðu þjóðirnar þvottatuska í höndum stórveldanna og þessvegna verður alþjóðasamfélags-kjaftæðið aldrei annað en pólitísk blekkingarþula sem fær aðeins að virka í leyfilegum, afmörkuðum tilfellum.
Tuttugasta og fyrsta öldin er því ekki hótinu nær heimsfriði en aðrar aldir hafa verið, því maðurinn hefur ekki bætt andlega innviði sína sem neinu nemur síðustu áratugina og lítið sem ekkert lært af þeirri blóðugu öld sem lauk skeiði sínu fyrir nokkrum árum. Það er í sjálfu sér hræðileg niðurstaða fyrir mannkynið.
Til að eitthvað heilbrigt komi út úr alþjóðlegu samstarfi þarf að byggja starfið á ærlegum, siðrænum grunni, en ekki pólitískri hentistefnu.
Alþjóðasamfélagstilvísunin, eins og hún hefur verið sett fram, er nánast einskisvirði fyrir öryggi okkar og aðeins frekari ávísun á framhaldandi og viðvarandi blekkingarpólitík í öryggismálum heimsins.
17.3.2008 | 15:49
Umgengnin við lífið
Undanfarin ár hafa menn verið að vakna verulega til meiri vitundar um þörfina á því að heiðra náttúruna og hlynna að henni. Áratugabarátta hugsjónaríkra náttúru-unnenda hefur þannig skilað sér inn í þungavigtar-umræður nútímans og er það vel.
Þessi framvinda hefur leitt til þess að stóriðjusinnar, sem yfirleitt tilheyra hægri kanti stjórnmálanna, hafa reynt að koma sér upp hugtaki sem getur gengið í fólk og innifalið slétta og jákvæða mynd af þeim sem náttúruverndarsinnuðum atvinnuvæðingarmönnum. Menn hafa dottið niður á hugtakið hægri grænir, en það hefur þótt hafa ýmsa ókosti. Fyrst og fremst virkar það eins og eftiröpun hugtaksins vinstri grænir og getur líka vakið ýmsar óþægilegar spurningar á grundvelli sögulegra staðreynda.
En góð umgengni um náttúruna er auðvitað aðeins hluti af þeirri mynd sem allir ættu að geta verið sammála um að ætti að hafa forgang í heiminum - ef gengið væri út frá eðlilegum forsendum. Óspillt náttúra er eitt af því sem er manninum nauðsyn til að geta lifað og tekið réttum framförum til þroska, en grundvallaratriðið er þó að við lærum að umgangast lífið sjálft með lotningu og virðingu. Þegar við gerum okkur grein fyrir að við erum þiggjendur að lífi hljótum við jafnframt að skilja að sú gjöf gerir þá kröfu til okkar, að við virðum líf annarra og byggjum þjóðfélagið upp á sammannlegum forsendum. Þá verður líka hugsunin um að varðveita náttúruna sjálfsögð því þá munu heilbrigðir lífshættir eðlilega kalla á þá umgerð sem hæfir.
En umgengnin við lífið er ekki góð og hefur versnað til muna á síðustu árum.
Náungakærleikurinn hefur kólnað og margir virðast orðnir eyland í sínum hugarheimi. Það er hugsað um að taka en ekki að gefa. Græðgin í skammtíma-ávinning efnislegra gæða er orðin svo mikil að mannúðarhugsunin er að hverfa úr samfélaginu. Það er eins og þeir sem mæna á Mammon haldi að þeir lifi til eilífðar og þurfi fjármuni í hlutfalli við það. Á sama tíma og græðgin leiðir þá inn í stöðu blóðsugunnar, glata þeir því úr sálum sínum sem gert hefur þá að mönnum. Umgengnin við annarra líf skiptir slíka sálarleysingja því litlu máli.
En það eru viðhorfin gagnvart öðrum sem segja best til um það hverskonar manneskjur við erum. Það á að vera okkur eðlilegt og skylt að finna til með hverjum þeim sem sorgin nístir og særðir eru. Okkur ber að sýna samferðamönnum í lífinu heilbrigða samkennd.
En náungakærleikurinn hefur dofnað í efnishyggjubrjálæði líðandi stundar. Við getum séð dæmin um það hvert sem litið er. Fósturdeyðingar eru hræðilegt dæmi um köld viðhorf gagnvart lífinu á frumstigi þess og enn ein sönnunin fyrir því hvað menntunarleg upplýsing getur leitt menn afvega þegar siðrænum kjarna samfélagsins er samtímis afneitað.
Að nota fósturdeyðingu sem getnaðarvörn er fullkomið dæmi um ábyrgðarleysi gagnvart lífinu sem enginn ætti að viðhafa. Félagslegar ástæður eiga aldrei að fá að gilda sem aftökuleyfi gagnvart lífi í móðurkviði.
Umhyggja gagnvart aldurhnignu fólki þyrfti líka víða að vera betri því það ber heiðurskórónu mannlífsins. Fatlaðir einstaklingar sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, lifa í ýmsum tilfellum við aðstæður sem ekki eru boðlegar. Margt fleira mætti nefna þó það verði ekki gert hér.
En það er ljóst að hraðinn í nútímasamfélagi er orðinn slíkur, að það er lítill tími til að sinna þeim sem dragast aftur úr. Manneskjulegheitin dvína og kuldi sest að sálunum. Það bitnar svo á þeim sem síst skyldi og erfiðast eiga með að verja sig.
Það læðist oft að manni sá grunur að til séu þeir sem vilja helst setja reglur um það hverjir eigi að fá að lifa og hverjir ekki. Ef svo er, þá er það klár sönnun fyrir því að virðingin fyrir lífinu er ekki til staðar í hugsun slíkra manna.
Þeir eru orðnir aumkvunarverðir þrælar sjálfselskunnar og líf þeirra ber ekki framar neina sanna ávexti. Þeir visna eins og fíkjutréð frá rót og út í greinar.
Sjálfselskufull viðhorf ráða tíðarandanum, enda er vart við öðru að búast þegar valda og áhrifa elítur vestrænna þjóða hamast við að höggva niður stofninn sem öll okkar menning hvílir á - hinn kristna meið !
Annað hafast múslimar að - þeir hamast við að troða sínum trúargildum að í okkar heimshluta og verður drjúgt ágengt, því skjöldur kristninnar ver ekki lengur og fólk sem hefur ekki fastan grundvöll undir fótum hrekst undan hverjum kenningavindi. Það er því ljóst að ef við hirðum ekki um að verja okkar gildi, munu þeirra gildi smám saman taka yfir - með slæmum afleiðingum fyrir okkur öll.
Virðingin fyrir lífinu þarf að sjást og koma fram í umgengni okkar við lífið - jafnt það líf sem er að hefja vegferðina og nýtur enn skjóls í móðurkviði, það líf sem er í fullum blóma og það líf sem senn er á förum - allt líf !
Þannig hlýðum við best þeirri mannskyldu sem á okkur öllum hvílir meðan við tilheyrum þessum heimi.
9.3.2008 | 21:14
Þrælar og þrælahaldarar
Það er inngróið í flesta menn að hafa skömm á þrælahaldi og þrælahöldurum. Símon Legree í bókinni Kofi Tómasar frænda er lýst sem fyrirlitlegum manni í alla staði, en þó munu sjálfsagt hafa verið til verri menn en hann.
Margar þjóðir eiga að baki ljóta sögu varðandi þrælahald og mannréttindabrot. Hræðilegt er að lesa um framferði Belga og Portúgala í Afríku og þóttu þeir jafnvel verri sem nýlendukúgarar en Bretar og Frakkar.
Þegar lesnar eru bækur Thorkild Hansens um þrælahald Dana í Vestur Indíum, ganga sumar lýsingar þar alveg fram af manni. Hollendingar voru heldur ekki barnanna bestir sem nýlenduherrar og reyndust ekki fúsari en aðrir til að sleppa arðránshendi sinni af nýlendum þeim sem þeir hremmdu.
Þurftu þeir þó lengi sjálfir að berjast fyrir sínu frelsi gegn Spánverjum og öðrum, en eftir að þeir komust úr þrælshlutverkinu gerðust þeir þrælahaldarar sjálfir. Margir hafa verið býsna fljótir að gleyma svipunni sem brann á baki þeirra þegar þeir hafa komist í þá aðstöðu að geta beitt svipu á aðra.
Margar kynslóðir Íslendinga voru beittar kúgun fyrr á tímum af nýlenduherrum, fyrst Norðmönnum, síðan Dönum. Fullveldi hlaut Ísland 1918, en konungssambandið stóð til 1944, en þá var konungsvaldi að fullu aflétt á Íslandi og vonandi verður sú bölvun aldrei upphafin hér á ný.
Eftir það var fagnað lýðveldi og í hönd fóru ár sem drógu úr ójöfnuði og mismunun meðal þjóðarinnar. Þróunin stefndi að miklu leyti í rétta átt.
Menn elskuðu sjálfstæði lands síns, íslenska tungu, fánann og þjóðsönginn og já, - jafnvel krónuna. Menn voru sem sagt þjóðræknir á þeim tíma.
En eftir 1980 fór að bera á afturgöngum löngu liðinna tíma með fríhyggjusjónarmiðum manna sem virtust telja sjálfgefið að tilgangurinn helgaði meðalið. Og eftir 1990 komst sú eigingirnis-ófreskja fyrir alvöru á legg, sem hefur síðan étið upp að stórum hluta þann heilbrigða mannfélagsgróður sem var sáð fyrir í von og trú á árunum eftir lýðveldisstofnunina.
Félagsleg uppbygging til almenningsþarfa hefur verið heft með ýmsu móti og sérgæskuöflin hafa með pólitískum yfirgangi látið fjármuni þjóðarinnar renna án afláts í vasa hinna útvöldu.
Misskipting hefur í kjölfarið stóraukist í íslensku samfélagi og verulegar forsendur fyrir þrælahald hafa þannig verið skapaðar að nýju.
Við skulum gera okkur grein fyrir því að þrælahald verður ekki síst til vegna þess að það virðast alltaf til menn sem eru fúsir til að gerast þrælahaldarar.
Þeir hafa þannig innréttingu til sálarinnar að þeir geta vel hugsað sér að láta svipuna ríða á annarra bökum ef það skilar þeim hagnaði.
Enginn maður vill verða þræll og margir vilja sem betur fer ekki heldur vera þrælahaldarar, en þeir sem hafa eðlið til að níðast á öðrum, taka hiklaust að sér slíkt hlutverk þegar aðstæður leyfa.
Og þegar langtíma stjórnvöld taka upp á því að þjóna undir sérklíkur, getur það auðvitað leitt til þess að lýðræðislegt þjóðfélag breytist smám saman í þjóðfélag þrælahaldara og þræla - þjóðfélag svipumanna og sultarlýðs !
Misrétti sem jafnvel er framkallað með lagasetningum er fljótt að margfalda lífskjara og tekjumun sem skiptir svo fólkinu í aðal og eignalaust fólk. Framhaldið leiðir svo smám saman til kúgunar og mannréttindakrafa almennings er síðan bítandi beint neydd út í gjaldþrot !
Er það þetta sem við viljum hafa í okkar þjóðfélagi ? Viljum við að sumir verði neyddir til að gegna þrælshlutverkum í framtíðinni og aðrir verði þrælahaldarar og ofréttindamenn ?
Ekki börðust þjóðfrelsismenn Íslands fyrir slíkri niðurstöðu !
Ég held að við höfum verið að byggja á verulega slæmum blekkingum undanfarin ár. Velferð íslensku þjóðarinnar verður aldrei vel borgið í höndum auðmanna - þeir eru að hugsa um allt aðra hluti en almenna velsæld.
Og það bendir ýmislegt til þess að þeir séu ekki svo fáir á þjóðmálasviðinu sem eingöngu eru þar í hringdansi í eigin þágu. Þjóðin er vissulega með allt of marga slíka alikálfa á sínu framfæri.
Það er von mín að við eignumst einhverntíma stjórnmálamenn sem hafa hjarta fyrir sinni þjóð og vilja til að þjóna henni af alúð og fórnarlund. Mér finnst orðið langt síðan slíkir menn hafa látið að sér kveða í réttinda og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Við þurfum bersýnilega að ala upp menn í krafti þjóðrækinnar hugsunar.
Hver einstaklingur leggur sitt til tíðarandans og þeirra viðhorfa sem skapast á líðandi stund - allir bera ábyrgð í þeim efnum og nauðsyn er að hver skili þar sínu.
Látum ekki gera okkur að þrælum, byggjum ekki undir þrælahaldara, látum þjóðarheimili okkar vera gott athvarf fyrir alla þjóðina, athvarf sem grundvallast á lýðræðislegum jöfnuði og réttlæti.
2.3.2008 | 11:36
Að Fischer gengnum
Mörgum mun hafa þótt Bobby Fischer hverfa með nokkuð skjótum hætti af hinu jarðneska tilverustigi og ekki undruðust menn minna þegar fréttir bárust af útför hans sem vissulega var ekki með venjulegum hætti. Það má því búast við því að ýmsir hafi hugsað með sér að endapunkturinn á ævi skáksnillingsins hafi verið í samræmi við lífsferilinn, sem einkenndist oftar en ekki af óvæntum uppákomum. Það bendir flest til þess að Fischer hafi verið einfari að eðli til og sjaldnast fundið sig vel í fjölda. Hann var því ekki sérlega vel til þess fallinn að spila með fjölmiðlum í einhverskonar ímyndarleik, en samt var honum margsinnis stillt upp í slíku sjónarspili, en það var hinsvegar oft að töluverðu leyti vegna þarfa ráðandi afla varðandi annað svið eða hreint út sagt af pólitískum ástæðum.
Af þeim sökum var verulega gert í því að reyna að pumpa upp vinsældir Fischers og vægi á tímabili. Ríkjandi andrúmsloft kalda stríðsins gerði sína kröfu til þess, en á þeim tíma reyndist Fischer nánast eina mótvægið sem hægt var að finna gegn algerri yfirdrottnun sovéskra stórmeistara í skáklistinni. Mörgum vestrænum valdaaðilum sárnaði mjög þeir yfirburðir sem Sovétmenn sýndu í þessari íþrótt hinnar huglægu baráttu og óskuðu þess heitt og innilega að fram kæmi einhver sem gæti bókstaflega talað skákað sovéska valdinu í þessum efnum.
Og sú ósk rættist vissulega að nokkru leyti með Bobby Fischer. Hann sýndi strax sem unglingur óvenjulega hæfileika í taflmennsku og sótti fram með mikilli snerpu í skákheiminum. Snemma kom reyndar í ljós að hann hafði miklar sérþarfir, en honum var margt fyrirgefið og var yfirleitt reynt að koma til móts við hann eftir því sem unnt var. Þegar hann síðan sigraði Boris Spassky í einvíginu fræga í Reykjavík 1972 og varð þar með heimsmeistari í skák, þótti mörgum kaldastríðsbrenndum mönnum það fela í sér mikinn sigur á sovétblokkinni. Því voru fagnaðarlætin ekki svo lítil hjá sumum.
Það truflaði þó býsna marga að í umræddu einvígi kom Fischer oft rustalega fyrir en Spassky virtist í allri framkomu hinn dæmigerði heiðursmaður. Kom það ýmsum spánskt fyrir sjónir sem höfðu trúað því statt og stöðugt að rússi hlyti að vera hálfgerður barbari í siðum og dagfari. Mátti því segja að þó Fischer hafi sigrað við taflborðið hafi Spassky sigrað utan þess vegna sinnar góðu framkomu. Hefur þessi geðugi rússi jafnan síðan verið metinn mikils á Íslandi sem skákmaður og ekki síður sem maður.
Fischer átti það hinsvegar fyrir sér að missa heimsmeistaratitilinn í skák úr höndunum, aðallega fyrir þvermóðsku og stórbokkaskap, og yfir höfuð virðist sem hans skapgerðargallar hafa komið í veg fyrir að hann gæti notið sín almennilega í lífinu. Það er í sjálfu sér dapurleg niðurstaða því manninum var auðvitað margt vel gefið og vafalaust verður hann alla tíð talinn meðal fremstu hæfileikamanna skáklistarinnar.
Sovétmenn fengu titilinn aftur með Anatoly Karpov og Fischer virtist sökkva eftir það að nokkru ofan í sjálfskapað hugarvíl og einstæðingsskap. Hann kunni að því viðbættu jafnan vel til verka við að fá menn upp á móti sér og sparaði yfirleitt ekki stóru orðin. Samskiptamálin í kringum hann voru því orðin mjög stirð á flesta kanta seinni árin og hann virtist stefna í þá einu átt að eiga sér hvergi friðland.
Þegar flestar dyr voru orðnar honum lokaðar var honum þó sem kunnugt er boðið að koma til Íslands og dvelja hér. Hann þekktist það boð og dvaldi hér síðan það sem hann átti ólifað, sem því miður varð ekki langur tími.
Viðvíkjandi útför hans, hefði mátt telja að best hefði farið á því að hann hefði verið jarðsettur í Grímsey, því þar hefur skáklist löngum verið í miklum heiðri höfð. Þar hefði þessi snillingur taflmennskunnar getað hvílt í fullum friði, norður við heimskautsbaug, fjarri fjöldanum sem olli honum lengst af ógleði, í hljóðlátu samfélagi í grafreit við ysta haf.
Sennilega hefði sú tilhögun mála verið honum skapfelld ef hún hefði komið honum í hug meðan hann lifði. Þess í stað var útför hans framkvæmd með hraði á allt öðrum stað án vitundar viðkomandi sóknarprests. Ekki var hægt að sjá af þeim gjörningi, að hinum látna fyrrverandi heimsmeistara í skák, væri mikill sómi sýndur.
En kannski vildi hann bara hafa þetta þannig og við því verður víst lítið sagt.
Leið og þung var lífsins glíma,
lundin varð af angri hörð.
Þar til Fischer féll á tíma
og fór með hraði í kalda jörð.
Skákmanns hæfnin hugar snjalla
honum fylgdi í djúpa gröf.
Eins að lokum allir falla,
ævi manna er skammvinn töf.
Nýjustu færslur
- ,,Einleikur á Eldhússborðsflokk ?
- Hverju er þjónustan eiginlega helguð ?
- Orðheimtu aðferðin !
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 9
- Sl. sólarhring: 256
- Sl. viku: 1289
- Frá upphafi: 367414
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 1130
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)