Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

HVAÐ VARÐAR MIG

Hvað varðar mig um þjóðfélag sem þrífst á eignaránum

og þreifar sig í blindni að myndinni á skjánum.

Sem siðleysinu fylgir á sviðum öllum núna

og svívirðir það góða og einkum kristnu trúna ?

 

Hvað varðar mig um hrokann sem stjórnvöld stöðugt sýna

og stefnu þá sem þætti ekki bjóðandi í Kína.

Um spillinguna miklu í feitum skálka skrokkum,

um skítmennskunnar eðli í pólitískum flokkum ?

 

Hvað varðar mig um lífið í landi sem er dáið

og liggur úti á klaka sem fölnað sinustráið.

Um glæpina sem lögðu hér hverja von að velli,

um vítissprengju bankanna sem sprakk með háum hvelli ?

 

Hvað varðar mig um allt það sem eitt sinn var til prýði

fyrst endalokin sjást nú í þjóðar minnar stríði.

Fyrst allt er bundið dauða og öllu rænt og stolið

og ekkert lengur til sem í mönnum styrkir þolið ?

 

Hvað varðar mig um kosningar kringum lygi tóma

og klækjarefaspilið sem snýst um falska dóma.

Þá skítalykt sem angar af öllum landsins flokkum

og yfirráðafrekju í spilltum drullusokkum ?

 

Hvað varðar mig um allt það sem eyðilagði ríkið

og óþverrann sem fyllir nú kerfis-syndadíkið.

Það niðurbrot á öllu sem alið var á hreinu

fyrst yfirvöldin sýna ekki bótavilja í neinu ?

 

Ég þjóð og land hef elskað af öllu mínu skyni,

af alúð þeirri er skapast í ræktarfullum syni.

Og þó ég yrki svona ég syrgi og andinn grætur

og sálin í mér þjáist og tregar horfnar rætur.


Nokkur orð um ætlaðan lýðræðishalla í sveitarfélögum !

Það finnst allmörgum bera á verulegum lýðræðishalla víða í sveitarfélögum landsins og er nokkur gagnrýni höfð uppi um slíkt. Þá er gjarnan haft á orði að einhver ákveðin klíka einoki völdin og deili síðan út bitlingum til taglhnýtinga sinna - þeirra sem þægir eru og fylgispakir.

Einnig er talsvert um það rætt meðal almennings, að allskonar hyglingar í þágu skyldmenna og venslaliðs eigi sér stað í sveitarfélögum og margir telja að jafnræðisregla sé afar sjaldan virk til viðmiðunar þegar ætum bitum er úthlutað í sveitarfélögum landsins.

Allt er þetta allrar athygli vert og sennilegt að flestir kannist við eitthvað sem heyrir undir þessar lýsingar. Ekkert varðandi þetta kemur mér a.m.k. á óvart.

Ýmsar útfærslur má eflaust gera af hverri sögu. Ein slík útfærsla gæti verið með því lagi sem hér greinir :

Árið 1994 var svo komið hér á Skagaströnd að ráðamenn töldu varnarstöðu sveitarfélagsins orðna svo mikla, að lífsnauðsynlegt væri að sameina kraftana til sóknar og atvinnuframfara. Þá varð til ákveðið pólitískt fyrirbæri sem enn er við lýði og kallað hefur verið Skagastrandarlistinn - eða í stuttu máli - S-listinn.

Þetta átti sem sagt að vera leið til að samræma krafta íbúa sveitarfélagsins  undir einu sameiginlegu sóknarflaggi. Þeir sem að framboðinu stóðu voru forustumenn Sjálfstæðisflokksins hér og þar til viðbótar Magnús B. Jónsson fyrir hönd - ja, kannski við getum sagt - ótilgreindra Framsóknarmanna.

Þetta bandalag hafði fyrir 3 fulltrúa í sveitarstjórn, tvo frá sjálfstæðismönnum og einn frá Framsókn. Það mátti því ganga út frá því að menn hefðu hreinan meirihluta áfram og myndu þessvegna geta látið hendur standa fram úr ermum. Ýmsir trúðu því í upphafi að framboðið væri í raun og veru nýtt og ferskt og kusu Skagastrandarlistann í því trausti, enda spillti nafnið ekki fyrir.

Það fór því svo að S-listinn fékk 4 fulltrúa kjörna í sveitarstjórn 1994 og fulltrúi krata  mátti sæta því hlutskipti að vera einn í hreppsnefnd fyrir utan hina nýju riddarareglu. Þar sem viðkomandi fulltrúi var og er praktískur maður, sá hann líklega fljótt að við ofurefli var að etja og gerðist því enn meiri samfylkingarsinni en hann hafði talið sig vera og að sumra mati fimmta stoðin undir nýja gangverkinu.

En hveitibrauðsdagarnir stóðu ekki lengi því brátt þóttust menn sjá að þetta nýja framboð væri í raun lítið annað en listi Sjálfstæðisflokksins, þó nafn Magnúsar B. Jónssonar væri þar vissulega ofarlega á blaði.

Sömu vinnubrögðin virtust gilda áfram - sögðu margir - og skyldulið og ættingjar o.s.frv.o.s.frv., áttu áfram að njóta í fyllsta mæli góðs af því sem í boði var hverju sinni. En þótt óánægja færi þannig fljótt að magnast, efldust Sjálfstæðismenn  að sjálfstrausti og sigurvissu þar sem mark þeirra varð alltaf augljósara á framboðinu en Framsóknaráhrifin fjöruðu út að sama skapi.

Og nú er svo komið árið 2010 að helmingur þorpsbúa virðist t.d. ekki lengur hafa hugmynd um það hvort Magnús B. Jónsson sé Framsóknarmaður eða Sjálfstæðismaður ?

Vonbrigðin með þetta sameiningarframboð leiddi svo strax til þess að við kosningarnar 1998 missti S-listinn fjórða manninn og síðan hefur hann aðeins haft það vægi í sveitarstjórn sem hann hafði áður en hann varð formlega til.

Það er að segja þegar á annað borð er kosið !

En að öðru leyti er þó breytingin kannski sú eftir því sem sumir segja, að byrjunin var tveir sjálfstæðismenn og einn Framsóknarmaður, en nú virðist sem vökulli helmingur bæjarbúa telji að sjálfstæðismennirnir séu í rauninni þrír !

Árið 2002 var áhugaleysi gagnvart sveitarstjórnarkosningunum orðið það mikið að þær féllu niður hér á Skagaströnd. S-listinn fékk því fimm menn sjálfkjörna og þeir fengu svo, sennilega að verðleikum, það hlutverk nýkjörnir að undirrita dánarvottorð Skagstrendings, en sá gjörningur var að margra áliti, vísvitandi látinn bíða framyfir kosningarnar, ef til vill vegna ótta sumra við óþægilega ádeilu.

2006 gerðist það svo, að málamynda mótframboð var sett á laggir gegn S-listanum og var þó svo seint af stað farið, að stefnulýsingar voru mjög af skornum skammti og annað eftir því. Tengingarnar milli framboðanna voru svo margar og miklar, að daginn fyrir framlagningu lista var sú spurning ein í gangi meðal væntanlegra kjósenda á hvorum listanum tilteknir frambjóðendur yrðu ?

Mótframboðið var sem sagt svona öllu heldur einhverskonar meðframboð !

En samt fór svo við kosningarnar, að hinn nýi, nánast óskilgreindi listi, fékk tvo menn kjörna og enn sat S-listinn aðeins með sína þrjá menn frá fyrstu tíð.

Telja má nánast öruggt að þeir sem kusu mótframboðið hafi gert það í yfirgnæfandi mæli vegna óánægju með S-listann. Þetta er eina framboðið sem náð hefur tveim mönnum inn í hreppsnefnd fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn, frá því að hefðbundin framboð fóru í gang hér um miðja síðustu öld. Það er mjög athyglisverð staðreynd og mætti sem best skrifa heila ritgerð út frá þeim punkti.

En eins og fyrr var getið, var mótframboðið ekki grundvallað á skýrum línum, enda virðist sem fyrst og fremst hafi verið um styrkleikasýningu að ræða gagnvart þeim valdsmöguleikum sem í boði voru. Eftir kosningarnar virtist svo S-listinn bara sitja áfram í fimmföldu vægi í hreppsnefnd og slitnaði ekki slefan  á milli fulltrúa. Reyndar gaf undirritaður sér það fyrirfram að sú yrði einmitt raunin.

Ekki er samt ástæða til annars en gleðjast yfir því að fólk geti unnið saman, en til hvers að vera með tvö framboð þegar stefnan virðist ein og hin sama ?

Og nú endurtekur sig sagan frá 2002 að ekki mun koma til kosninga á Skagaströnd þar sem aðeins einn listi hefur verið lagður fram sem verður því sjálfkjörinn. Það er dapurleg niðurstaða fyrir stöðu lýðræðisins á Skagaströnd.

Svona er áhugaleysið orðið varðandi þessi mál eftir 16 ára samfelld völd lista sem átti að sögn að hleypa ferskum vindum inn í sveitarstjórnarmálin og efla alla virkni varðandi þau í litla samfélaginu undir Borginni !

Listinn sem nú mun verða sjálfkjörinn er S-listinn gamli, sem nú heitir reyndar H- listinn vegna þess að Samfylkingin hefur víst fengið fullan ráðstöfunarrétt á S-inu í kosningum á landsvísu. Ekki er vitað hversvegna bókstafurinn H var valinn sem listabókstafur, en þess má þó geta að efsti maður listans er Adolf H. Berndsen.

Þessi H-listi mun nú fara með málefni sveitarfélagsins næstu 4 árin og þó að væntingar mínar til hans séu óneitanlega ekki miklar, er það samt einlæg ósk mín að hann standi sig í starfi fyrir sameiginlega hagsmuni Skagastrendinga og hlynni sem best að byggðinni undir Borginni.

Hinsvegar neita ég því ekki að ég hef vissar áhyggjur af meintum vaxandi lýðræðishalla í sveitarfélögum landsins.

Sú var tíðin að allir sem komnir voru til vits og ára á Skagaströnd vissu hverjir sátu í hreppsnefnd. Í seinni tíð virðist þessu hinsvegar mjög á annan veg farið.

Menn virðast bara ekki hafa hugmynd um það hverjir sitja í hreppsnefnd og virðast jafnvel ekki telja það nokkru máli skipta. Ég hef sannreynt þetta með því að spyrja menn sérstaklega um það hvort þeir vissu hverjir sætu í hreppsnefnd. Svörin hafa oft verið með ólíkindum.

Enn er framgjarnt fólk samt að gefa kost á sér til setu í hreppsnefnd, en virðingin sem talin var fylgja því starfi fyrir þrjátíu árum eða svo, virðist eiginlega farin veg allrar.... og hvernig skyldi standa á því ?

Skyldi það geta verið að meintur lýðræðishalli eigi einhvern þátt í því ?

En allt á sér væntanlega einhvern veg til betrunar og mér hefur skilist að samband sveitarfélaga sé með einhvern starfshóp í gangi sem hefur verið að kanna stöðu lýðræðis í sveitarfélögum landsins og hvort þar sé greinanlegur einhver lýðræðishalli ....................?

Með hliðsjón af því að Magnús B. Jónsson er að sögn fremstur meðal jafningja í umræddum starfshópi, geta menn velt því fyrir sér hvort ekki megi þá búast við einhverjum marktækum niðurstöðum úr þeirri átt senn hvað líður...... ?

En hvernig sem fer með það, er ljóst að hið almenna sveitarstjórnar-kosningaár 2010 verður ekki kosningaár á lýðræðis-almanaki Skagastrandar !

Það er heldur leiðinlegt til afspurnar.

 

 


Um siðfræði

Í dag er siðfræði víst bara skilgreind sem námsgrein í skóla. Það virðist ekki lengur vera litið svo á að siðferðisvitund sé manninum meðfædd heldur verði nú að kenna hana ! Og hvernig skyldu menn þá öðlast hæfni til að kenna siðfræði ?

Hvernig verður sú siðfræðiþekking til sem nú er verið að kenna í skólum ?

Hvað með réttlætiskenndina ? Á að fara að kenna hana í skólum ?

Hvað með sannleikann ? Þarf að fara að kenna í skólum út á hvað sannleikurinn gengur ? Verða hér í framtíðinni spígsporandi um menntastéttir landsins prófessorar í siðfræði, doktorar í réttlætiskennd og lektorar í andlygi ?

Á hvaða forheimskuleið erum við eiginlega ? Nú virðast vera að stökkva fram á sjónarsviðið allskonar mannvitsbrekkur úr æðri skólum sem vilja gera sér mat úr hruninu og leggja út af því fræðilega, vísindalega, samfélagslega og sennilega umfram allt - tekjulega !

Hvar var allt þetta sérfróða siðfræðilið þegar gráðugir hákarlar og spilltir pólitíkusar voru að keyra hér allt niður, þegar verið var að eyðileggja samfélagið, hrista það heilbrigða úr því og leggja allar siðfræðireglur sem fórnir á altari Mammons ?

Hvar kom þetta úrvalslið fram til að mótmæla og vara við, hvað gerði það til að bjarga þjóðarskútunni á þeim tíma ? Hvar var siðfræðiþekking þess þá ?

Ég treysti mér svo sem alveg til að svara því.

Þetta fólk var upptekið af því að reyna að mala gull eins og fleiri. Það hafði fallið í sömu gildrurnar og aðrir og reyndi í engu að tala um siðfræði - enda bauð siðfræðispjall þá ekki upp á neina sérstaka tekjumöguleika og reyndar síst af öllu !

Nú er hinsvegar lag, nú er uppi krafa um aukið siðferði og nú sér þetta fólk að það má " þéna á siðfræði " eins og málin standa. Það má skrifa um siðfræði, t.d. í rannsóknarskýrslum, fjalla um siðfræði í fyrirlestrum og á fundum og í skólum sem fyrr segir. Það má í stuttu máli sagt - gera út á siðfræði í dag !

Reyndar er það svo, að taka þyrfti allt skólakerfi landsins til athugunar, einkum hin svokölluðu æðri námsstig, og rannsaka hvernig á því stóð að öll siðfræði hvarf bókstaflega í því menntaumhverfi sem þar var skapað á gullkálfsárunum.

Rétt leiðsögn var hvorki fyrir hendi í stjórnkerfinu, bankakerfinu eða menntakerfinu - og almenningur er að súpa seyðið af þeirri reginvillu í dag.

Stjórnkerfið ber ekki ábyrgðina, bankakerfið ber ekki ábyrgðina, menntakerfið ber ekki ábyrgðina. Þeir sem lögðu línurnar kerfislega segja bara : " Ekki benda á mig ? "

Almenningur á víst einn að bera ábyrgðina og axla byrðar hrunsins !

Þeir sem nú vilja leiða aðra eftir siðfræðibrautum, voru óraveg frá allri siðfræði í hinum villta fyrirhrunstíma og tóku sínar prófgráður í mettuðu Mammons andrúmslofti sem bjó ekki yfir neinni siðfræði heldur aðeins ábyrgðarlausri og botnlausri frjálshyggju samfara siðlausri græðgi.

Ein fyrsta reglan í heilbrigðum siðfræði-lærdómi er krafa um skilning á því að þegar frjálshyggjan kemur inn fer siðfræðin út !

Það er alfarið mín skoðun að siðgæði, réttlætiskennd, sannleiksást og trúmennska við góð gildi séu ásköpuð manninum. Grunnurinn að þessu öllu er lagður við fæðingu hvers manns og þó jafnvel fyrr. Uppeldi sem byggt er á röngum forsendum, getur sveigt margan af réttri leið, en samt er þetta allt fyrir í manninum og þarf ekki að kenna það sérstaklega í skólum, svo einhverjir þar geti fitnað á því sem framfærslukosti.

Siðfræðilegt menntamannakjaftæði er því engin lausn á spillingarmálum samfélagsins. Það þarf til að koma samfélagsleg viðurkenning á því að maðurinn hafi réttar eigindir til að bera og svo þarf að hlynna að þeim á grundvelli þess skilnings.

Það þarf ekki einhverja langskólagengna " siðfræðinga " til að tala niður til annarra varðandi þau efni.

Minna má á að allir þeir sem hruninu ollu voru langskólagengnir menn og væntanlega útlærðir í skólakenndri siðfræði. Sú siðfræði mun hinsvegar ekki hafa verið byggð á uppeldislega heilbrigðum grunni eins og útkoman sýnir og sannar. Það tóku illar hneigðir yfir í sálum leiðandi manna, þrátt fyrir alla menntunina, enda er jafnan við slíku hætt þegar farið er út í það að tilbiðja Mammon án afláts. Og það var hömlulaust gert hér, jafnt af siðvilltum stjórnvöldum og vargakjöftum viðskiptalífsins á öllum Diabolusar-tímanum.

Þar sannaðist það sem Ritningin segir, að ágirndin er rót alls ills !

Háskólarnir sjálfir voru gróðrarstíur frjálshyggjunnar og þaðan breiddist ágirndarpestin út um þjóðlífið. Það munu fáir leggja trúnað á að sömu stofnanir prédiki nú siðfræði í einhverri alvöru. Til þess mun grunnur þeirra sjálfra of rotinn.

Raunveruleg siðfræði þarf auðvitað að koma til inn í samfélagið en hún þarf að fæðast fram í gegnum þjóðlega vakningu. Við þurfum ekki einhverja skólakennda siðfræði frá aðilum sem vita jafnvel upp á sig skömmina af því sem gerst hefur.

Við þurfum ekki siðfræði-kennslu frá einhverjum sem reyna að flýja ábyrgð með því að bjóða fölsk bjargráð, eftir að sjúklingurinn - sem er íslenska þjóðin - hefur verið negldur á skuldaklafa skítmennskunnar í þessu landi af stjórnkerfinu, bankakerfinu og menntakerfinu, hinum raunverulegu ábyrgðaraðilum hrunsins - gjörsamlega án nokkurrar aðkomu siðfræðinnar !

 

 

 


Dómur þjóðarinnar

Nú er búið að handtaka tvo menn sem störfuðu í bankakerfinu íslenska og voru þar háttsettir meðan frjálshyggjan vann í gegnum þá og aðra þvílíka að niðurbroti þjóðfélagslegrar velmegunar á Íslandi. Það má vel vera að eftir sé að handtaka fleiri, en samt er ljóst að þeir verða aldrei sakfelldir fyrir það sem þeir raunverulega gerðu. Þau afbrot verður aldrei hægt að sanna á lögfræðilega vísu og allra síst siðferðilega þáttinn.

Þeir dómar sem kunna að vera kveðnir upp yfir þessum mönnum verða því aldrei það víti til varnaðar sem þyrfti að vera. Það eru nefnilega mjög óljós ákvæði í lögum varðandi samfélagslega glæpi og þessvegna hægt að velkja slíkum málum fram og aftur í jafn réttarfarslega ótryggu kerfi og við búum við.

En fólk ætti nú að vita að frjálshyggjan er mannfjandsamleg stefna, stefna sem gengur út á að einstaklingar sem fá burði til þess, valti yfir samfélagið á skítugum skónum, troði á öllum og brjóti allar siðareglur til að auðgast á kostnað náungans.

Með einkavæðingu bankanna gerðu Davíð og Halldór tilteknum mönnum það fært að hafa burði til slíkrar yfirvöltunar. Þeir voru valdsmennirnir sem hrundu hringekju þjóðarhrollvekjunnar af stað. Þeir voru hinir pólitísku ábyrgðarmenn og flokkar þeirra hlýddu þeim í einu og öllu. Þeir eru margir í þessum flokkum í dag sem eiga ekki nógu sterk úthúðunarorð varðandi útrásarliðið og bankaforkólfana sem brugðust, en verja hinsvegar Davíð og Halldór eins og þeir hafi verið og séu englar með hörpur.

En öll óheillasagan byrjaði með valdasamspili Davíðs og Halldórs og það hefðu ekki orðið neinir útrásarvíkingar ef þeir hefðu ekki búið þá til. Bankaspillingin byrjaði sem pólitísk spilling í ráðandi valdaflokkum.

Þar sem íslenskir dómstólar eru ekki þesslegir að mikils sé af þeim að vænta varðandi sakamál þeirra sem settu hér allt á hvolf, þarf þjóðin að fella sinn dóm. Þar sem það liggur fyrir að þeir menn sem gengu svo hart fram í að auðgast við þær forréttinda-aðstæður sem þeim voru gefnar, að þjóðin er efnahagslega lömuð eftir rányrkju þeirra á þjóðarhag, er eðlilegt að fólkið í landinu hafni öllum samskiptum við þá. Dómur þjóðarinnar þarf að ganga út á að viðkomandi verði  " persona non grata " í íslensku samfélagi allar stundir héðan í frá.

Allir ættu því að sniðganga þá og láti sem þeir séu ekki til - þeir ættu þannig algerlega að vera núllaðir. Það er eina refsingin sem mun verða víti til varnaðar og forða öðrum frá því að ganga í þeirra spor. Íslensk samfélag hefur ekki efni á því að eiga " hvítflibba " afbrotamenn sem eru leiddir til öndvegis af pólitískum verndurum svo þeir geti þjónað lund sinni og rænt banka og fjármálafyrirtæki innanfrá og kippt fótunum undan eigin þjóð.

Sameinumst um það að afskrifa þessa menn og neita að viðurkenna hlutdeild þeirra í íslensku samfélagi - samfélagi sem þeir hafa sjálfir afneitað með gjörðum sínum. Þjóðin þarf að fella sinn dóm því stjórnvöld hér eru yfirleitt þeirrar gerðar að þau verja sérgæðingana en níðast á almenningi. Þessvegna þarf þjóðin alvarlega að hugsa sinn gang því ríkisstjórninni er ekki treystandi til að verja hana gegn kerfinu sem virðist nú algerlega rekið á sérhagsmuna-forsendum.

 

 


Umboðsmannablekkingin

Eitt af því sem á seinni árum hefur verið notað til að sýna fram á að lýðræði hafi aukist í samfélaginu, er skipun og tilkoma hinna ýmsu umboðsmanna.

Það á að þýða að fólk hafi aðgang að ýmsum fulltrúum sem skipaðir séu til að bæta réttarstöðu þess. Að miklu leyti er hér um pólitískar sjónhverfingar að ræða og tilgangurinn fyrst og fremst sá að láta fólk halda að borgaralegt öryggi þess sé alltaf að verða betra. Í rauninni er framvindan þveröfug.

Pólitísk öfl sjá sér hag í því að búa til svona embætti svo hægt sé að nota þau meðal annars til að hygla ýmsum gæðingum. Menn fá skrifstofu og góð laun, koma í fjölmiðla reglulega og tala fjálglega um málin en árangurinn að öðru leyti er enginn og átti aldrei að verða neinn. Fyrst var byrjað með umboðsmann Alþingis sem var og er algjört prumpembætti af þessu tagi. Ég leitaði einu sinni til þess umboðsmanns og niðurstaðan var svo skítleg að ég get varla lýst því. Umboðsmaðurinn var ekki að verja borgaralegt öryggi í því máli - hann var eingöngu og alfarið að verja hagsmuni kerfisins og brot sem höfðu verið framin á þess vegum.

Og það er sama hvort við erum að tala um umboðsmann íslenska hestsins, umboðsmann neytenda, umboðsmann í öryggismálum barna eða hvað þetta allt nú heitir, allt er þetta bara til að sýnast, blekkja almenning og skapa um leið tekjur í tiltekna, útvalda vasa.

Stjórnkerfið getur sett upp embætti í þessum farvegi nánast endalaust, við getum þessvegna átt eftir að fá umboðsmann íslenskrar náttúru, umboðsmann aldraðra, umboðsmann einstæðra foreldra, umboðsmann íþrótta, umboðsmann þetta og umboðsmann hitt. Og alltaf mun púkinn fitna á fjósbitum hyglingarhúsakynna kerfisins. Í mínum huga er þetta fólk sem er að þiggja laun í svona embættum ekki að gera neitt sem máli skiptir í þjóðhagslegum skilningi.

Það bætist bara við afæturnar sem fyrir eru í kerfinu.

Þetta skipulag býður þannig bara upp á viðbót við það fyrirliggjandi prumpfargan sem er í landinu og þó það virki kannski á suma sem andlitslyfting fyrir borgaralegt öryggi landsmanna, dettur mér ekki í hug að láta blekkjast af svona uppstillingum. Sitthvað af þessu tagi hefur verið stundað allt of lengi til þess.

Pólitísk starfsemi á vegum íslenskra stjórnmálaflokka er að miklu leyti á villuvegum og orðin bæði mannfjandsamleg og andfélagsleg. Fólk er orðið verulega þreytt á flokkunum og vesaldómi þeirra og spillingu. Það þarf að jóngnarra allt þetta lið og gera það að umboðsmönnum í einskismannslandi áhrifaleysunnar !

 

 


Hugleiðing á 1.maí - "frídegi fólksins".........!

Ég hitti kunningja minn fyrir nokkru og við ræddum um ástand mála og hvernig stjórnvöld stæðu sig sem verjendur lands og lýðs. Kunningi minn átti bara eitt orð um það. " Þetta eru aumingjar upp til hópa " sagði hann og hrækti fyrirlitlega. "Sjálfstæðisflokkurinn olli hruninu með hundslegri aðstoð Framsóknar og síðar Samfylkingar, það var sama forustuliðið í öllum þessum flokkum, fólk sem skeytti ekkert um almannahagsmuni. Og nú sýnist mér að Vinstri grænir hafi svo til alveg bæst í þennan félega hóp. Þeir eru ekki að sýna sig neitt betri og félagslegar lausnir eru ekki til hjá þeim heldur. Þetta er allt sama pakkið " !

Kunningi minn átti sem sagt til mörg sterk orð um hlutina og það sem ég hef eftir honum hér er bara það allra vægasta. Og hinn nöturlegi veruleiki er að svona eru þúsundir landsmanna farnir að líta á málin. Það er ekkert gert fyrir almenning, enda segja sumir að það sé beinlínis krafa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að yfirvöld komi þar ekki til hjálpar. Það er kapitalísk stefna að almenningur axli kreppugjöldin þegar kapitalisminn hefur siglt öllu í strand.

Ríkisstjórnin öll veit þetta og sættir sig við afarkostina þó að þar sitji nú fulltrúar þeirra flokka sem þykjast vera sjálf félagshyggjuforsjá þjóðarinnar !

En þetta valdalið gerir ekkert til að létta byrðarnar af vítisverðtryggingunni sem liggur þungt á fólki, ekki frekar en bláhandarliðið hefði gert. En sú margföldun skulda sem skapast hefur eftir hrunið er þó alfarið á ábyrgð yfirvalda sem sváfu á verðinum og létu allt fara hér úr böndum fjárhagslega.

Í hugum margra er orðið alveg sama hver pólitíkusinn er, þetta eru yfir línuna væflur og vesalingar og sárt til þess að hugsa að það sé enginn í öllu stjórnmálalífinu sem getur staðið í lappirnar  - nema fyrir sjálfan sig !

Ísland 2010 fer að minna átakanlega á Frakkland 1789, örvænting fólks vex stöðugt og það getur ýmislegt gerst. Og raunverulega má orða það svo, að það ætti ýmislegt að fara að gerast ekki síður en í Eyjafjallajökli, ólgan í fólki er ekki minni en ólgan þar undir jarðskorpunni.

Hvergi hitti ég menn sem segjast bera traust til íslenskra stjórnmálamanna, allir virðast meira eða minna á einu máli um að þeim sé ekki viðbjargandi. Einn maður sagði í mín eyru nýlega, að það væri sín skoðun að þingmenn landsins upp til hópa væru bara ekki samfélagshæfir.

Annar sagðist vilja að settir yrðu upp á Austurvelli 17. júní næstkomandi sirka 63 gapastokkar til sértækra aðgerða !

Hljóðið í fólki er sem sagt afskaplega þungt og þolinmæðin gagnvart sinnulausum stjórnvöldum minnkar sýnilega með hverjum deginum.

Og nú heyrir maður að erlendir fjárfestar séu búnir að fá yfir sig nóg af íslenskum fjármálamönnum - heldur vilji þeir tapa fúlgum fjár en hafa nokkuð saman við þá að sælda frekar. Landkynningin er gæfuleg eða hitt þó heldur.

Og stjórnvöld vaða í villu og svima eins og franska stjórnin 1789. Það er vaðið úr einni vitleysunni í aðra, en að létta almannahag. Nei, það er ekki gert !

Og hvers vegna ? Vegna þess að í augum ráðamanna, hvort sem þeir þykjast vera til vinstri eða hægri, virðast fjármagnseigendur vera þjóðin og þessvegna virðist eina hugsunin vera sú að það verði að pína almenning til að taka við gjöldunum fyrir glæframennsku kerfisins og gullkálfa þess.

Alikálfasukkið skal greitt af almenningi - Punktur basta !

Það er að vísu eitthvað verið að snúast í kringum jeppalánin en hvað með húsnæðislánin ? Í eina tíð var sá skilningur skýr fyrir hendi að allir þyrftu þak yfir höfuðið en jeppar voru síður taldir lífsnauðsyn. Hvernig meta menn málin núna - eitthvað virðist hafa breyst með forganginn á lífsnauðsynjunum.

Núverandi félagsmálaráðherra er þegar búinn að sýna það að hann er í röngum flokki - hann á greinilega heima í Stóra Þjóðarógæfuflokknum með sinn þankagang, en annars er Samtryggingin löngu orðin svo frjálshyggjumenguð að hún er eiginlega bara  útibú frá Valhöll - tengingin við alþýðuna er úr sögunni.

Einn af forsvarsmönnum Bolungarvíkur var að guma af því í útvarpsfréttum nú nýverið að mikill viðsnúningur hefði orðið í fjármálum bæjarfélagsins til hins betra. Hann nefndi þó ekki að Íbúðalánasjóður hefði afskrifað tugmilljóna skuld bæjarins og sett annað eins í frystingu með hugsanlega afskrift í huga síðar.

Nei, nei, fréttin gekk út á það, að ráðamenn á Bolungarvík væru bara búnir að hagræða svona mikið..............!

En þarna var um að ræða 146 milljón króna skuld.

Það er lengi hægt að komast af með rekstur ef skuldirnar eru afskrifaðar - hvenær skyldi almenningi vera boðið upp á slík kjör ?

Þó ekki væri nema kannski upp á afskrift umframkeyrslu skulda miðað við ábyrgð steinsofandi yfirvalda á því sem gerðist............!

Nei, það á bara að sturta öllu svínaríinu niður til almennings, frá ríki og sveitarfélögum, bönkum og hverju sem er. Öll gjöld hækka og atvinnulaus lýðurinn á að borga meira og meira.

Þeir sem fengu engin boðskort í veisluna eiga að borga veislugjöldin !

Ég lýsi frati á íslensk yfirvöld því ég hef ekki í mér nokkurn vott af trausti til svefngenglanna sem ráfa um sali ríkisins, þingsins og dómskerfisins í stöðugri kerfisvímu - án þess að hafa hugmynd um það hvernig þjóðinni líður í þessu glötunarástandi sem henni hefur verið sparkað niður í - ofan frá !

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband