Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
30.7.2010 | 19:30
Líf okkar er kvikmynd
Við sem lifum leikum auðvitað öll okkar hlutverk á heildarfilmu allífsins, en öll eigum við þar líka okkar eigin kvikmynd. Fyrir okkur mannfólkinu er líf hvers og eins okkar nefnilega kvikmyndin okkar, hreyfimyndin okkar, vettvangur afreka okkar og ósigra.
Við erum að sjálfsögðu í stjörnuhlutverkinu í okkar kvikmynd, en engin kvikmynd er samt mikils virði án þeirra sem leika þar stuðningshlutverkin. Fjölskyldan okkar, vinir okkar og hið ómissandi hjálparlið í kringum okkur, það frábæra lið gerir kvikmyndina okkar oftast að einhverju því sem lifandi er í og horfandi er á.
Öll þurfum við okkar " supporting actors " , því við megnum ekki að skapa heila lífskvikmynd ein og sér. Kvikmynd sem snýst alfarið um sjálf einnar mannveru getur tæpast búið yfir þeim kjarna, þeirri upplifun sem getur gagnast okkur og samtíð okkur og orðið til að bæta og blessa líf okkar og heildartilveruna um leið.
Við þurfum því að gera okkur grein fyrir því að eitt það mikilvægasta fyrir okkur í lífinu er að skilja vægi annarra og áhrif samferðarmannanna á líf okkar og meta það sem skyldi. Það er ekki víst að við náum að skilja það nógu snemma og það er alltaf dapurlegt mál ef við erum að glíma við það í lok myndar sem við hefðum átt að meðtaka og skilja miklu fyrr.
Flest höfum við orðið að ganga í gegnum það að missa einhvern úr myndinni okkar sem aldrei fékk virkilega að njóta sín eða heyra lof sitt af okkar munni.
Við erum oft svo upptekin af hlutverkinu okkar að við komum því ekki í verk að taka utan um stuðningsleikarann okkar sem reyndist okkur svo vel.
En allt í einu er hann horfinn frá okkur og myndin okkar búin að missa hluta af aðdráttarafli sínu í okkar eigin augum. Allt í einu er kominn svartur rammi þar sem áður var bjartur baugur elsku og yndis.
Kvikmyndirnar okkar ganga hreint ekki bara út á það hver leikur stjörnu-hlutverkið. Hver lífskvikmynd er í raun samfélagslegt verkefni sem verður þeim mun áhugaverðara og meira gefandi sem heildar-samleikurinn er betri.
Besta myndin er sú mynd þar sem hver leikari skilar sínu með heiðri og sóma og tillitssemi og traust ríkir í öllum samskiptum. Viljum við ekki öll hafa myndina okkar þannig ?
Það er góð lífskvikmynd þar sem enginn er drepinn, allir vinna að góðum hlutum og standa sig þannig að heimurinn okkar verður betri fyrir vikið.
Tökum utan um samleikarana okkar, stuðningsliðið okkar, og verum ekki feimin við að segja hvað tilvist þeirra er gefandi og hvað hún hefur mikið að segja fyrir okkur. Það er engin skömm fólgin í því að sýna að maður hefur tilfinningar.
Því það er eitt sem við verðum alltaf að hafa í huga. Við vitum aldrei nákvæmlega hvenær einhver kveður tjaldið í myndinni okkar eða yfir höfuð hvenær myndinni okkar lýkur. Sú stund getur runnið upp hvenær sem er.
Látum því kærleiksverkin okkar ekki bíða til næsta dags og tjáum vinum okkar og vandamönnum þakklæti okkar NÚNA !
23.7.2010 | 19:30
Um samfélagsleg óþverrastrik einkavæðingarsinna
Það má heyra hlakka í hrægömmum á opinberum stöðum og víðar, yfir því að búið sé að endurfjármagna bankana og keyra þá upp aftur, allt á kostnað okkar skattgreiðenda. Og þetta eru sömu bankarnir sem voru fjármagnaðir af okkur í gegnum ríkið þegar þeir voru settir á fót. Nú skulu á íslenska kerfisvísu enn einu sinni lagðar drápsklyfjar á íslenskan almenning næstu árin til að " leiðrétta glæpina " sem framdir hafa verið.
Fyrst voru bankar þjóðarinnar gefnir sérgæðingum fyrir atbeina vina þeirra í stjórnkerfinu, svo voru þeir eyðilagðir og rændir innan frá, og nú er sem sagt búið að endurfjármagna þá á kostnað almennra borgara í landinu !
Það er því búið að ræna þjóðina í tvígang í gegnum þessa óheilla einkavæðingu bankanna sem átti að skapa hér gull og græna skóga fyrir alla !
Það stóð hinsvegar aldrei til að gæðin ættu að ná til allra, en þannig var talað og þeir voru hreint ekki svo fáir sem ginu við flugunni og gleyptu hana umhugsunarlaust.
En hvað varð um fjármagnið sem var í hinum einkavæddu frjálshyggjubönkum ?
Skyldu hinir snauðustu allra snauðra, Björgólfarnir, Sigurður Einarsson, Bjarni Ármannsson og fleiri útrásargreifar geta svarað því ?
Skyldu þeir sem stýrðu einkavæðingarbönkunum gegn þjóðarhagsmunum Íslands geta svarað því ? Hvar starfa nú þeir sem voru formenn greiningardeilda þessara banka, þeir sem áttu að vera með þeim hætti nokkurskonar öryggismála-ráðherrar þeirra ? Ætli þeir séu ekki meira eða minna í líkum stöðum í nýja kerfinu ? Það mætti segja mér það.
Hvað varð um hina " sígildu kenningu " þeirra sem kalla sig sjálfstæðismenn, þó þeir séu það ekki, að einkavæðing skili sér alltaf til góðs fyrir markaðinn, fyrir neytendur, fyrir almenning ?
Er Síminn miklu almenningsvænni eftir að hann var tekinn herfangi eða Pósturinn ? Hefur þjónustan þar orðið miklu ódýrari og betri eins og lofað var ?
Hefur reynslan ekki orðið þar nokkur önnur en hún átti að verða ?
Það vantaði ekki að blómstrandi jákvæðar yfirlýsingar væru í fullum gangi hjá einkavæðingarliðinu meðan verið var að koma því inn hjá fólki að það myndi hagnast á því að einkaaðilar sæju um þessa hluti. Þáttur fjölmiðla í þeim áróðri var vægast sagt ógeðslegur og almenningsþjónustan á þeim vígstöðvum með því lakasta sem ég hef orðið vitni að um dagana.
Margir hafa eflaust selt Mammoni hlutabréf í sjálfum sér á þeim græðgistímum og tekið fullan þátt í því að afvegaleiða almenning með blekkingartilboðum og allskonar lygaáróðri.
Sannleikurinn er nefnilega sá að einkaaðilar eru allra manna gírugastir eftir gróða. Þeir eru ekki að stunda góðgerðastarfsemi eða þjóðarheillastarf.
Þeir eru flestir svo til eingöngu að hugsa um það alla daga, að ræna almenning ræna þjóðina, beint eða í gegnum ríki og sveitarfélög - með einum eða öðrum hætti. Menn eins og Haraldur Böðvarsson og Einar Guðfinnsson eru ekki lengur á meðal okkar - það er allt annar andi á ferðinni og hann er hvorki hollur Akranesi eða Bolungarvík, landinu eða þjóðinni. Það er andi óheilbrigðrar og eitraðrar einkavæðingar, andi sem ágirnist það sem aðrir hafa byggt upp og gerir ekkert öðrum til góðs. Það er sami andinn og gerði heilu þjóðlöndin að nýlendum á árum áður, svo hægt væri að sjúga úr þeim blóðið og lífið.
Gegn þeim anda ber hverjum ærlegum manni að berjast því hann er ættaður úr helvíti sjálfu og býr í mönnum sem hafa selt sál sína þangað.
16.7.2010 | 19:15
Hvað eru almannahagsmunir ?
Það er full ástæða til að varpa ofangreindri spurningu fram, hvað eru almannahagsmunir ?
Það hugtak virðist nefnilega mjög teygjanlegt og sveigjanlegt að áliti margra.
Ég hef áður nefnt það að einkunnarorð Missouri-ríkis eru orð frá Cicero " Salus Populi Suprema Lex Esto " = velferð fólksins eru æðstu lögin. Það eru og ættu að vera orð að sönnu.
En á Íslandi er það ekki þannig né hefur verið. Hérlendis virðist það nánast íþróttagrein fjölmargra að plokka pyngju almennings - annaðhvort í gegnum ríkið eða sveitarfélögin eða þá hvorttveggja.
Sérhagsmunatilhneigingin og eigingirnin er alveg svakaleg í okkar litla þjóðfélagi. Þeir eru hreint ekki svo fáir sem virðast sækjast eftir stöðum hjá ríki og sveitarfélögum til þess eins að geta komist í kjötkatlaklíkuna og geta haft þar veitingavald bitlinganna.
Á seinni árum hefur mér virst það færast mjög í vöxt að starfsmenn bæjarfélaga sækist eftir því að sitja í hreppsnefndum og bæjarstjórnum. Það þýðir að menn eru í raun að koma málum svo fyrir að þeir séu sínir eigin yfirmenn. Ég tel að það hafi mikið með eiginhagsmuni að gera en lítið almannahagsmuni.
Menn virðast þar vera að tryggja sig og sína afkomu í bak og fyrir. Ef allt þetta fólk sem segist vera að bjóða sig fram til að láta gott af sér leiða fyrir heildina væri virkilega að meina eitthvað með því sem það segir, ætti það fyrir löngu að vera búið að sanna betri almannahag - en því er sannarlega ekki að heilsa, raunveruleikinn er allur annar.
Og þá leitar sá grunur á að þetta allt að því framboðssjúka fólk sé að leita eftir völdum og áhrifum fyrir sig, fyrir eigið sjálf. Að það vilji geta notað almannafé til að hygla sjálfu sér og sínum fylgifiskum. Markmiðin eru þá ekki göfugri en það !
Ég er ekki að segja að þetta sé séríslenskt fyrirbæri. Síður en svo. En það hefur meiri áhrif til spillingar hérlendis en víða annars staðar vegna smæðar þjóðfélagsins.
Það er margt sagt og gert í blekkingarskyni. Ég hef t.d. oft undrast það þegar ungir hægri menn lýsa yfir vanþóknun sinni á því hvernig farið sé með skattpening landsmanna. Það er þá oftast út af einhverri félagslegri aðstoð eða hjálp við lítilmagnann eða þegar á heildina er litið - almenning þessa lands.
En ég hef aldrei heyrt þá kvarta yfir allri þjónustunni við fyrirtækin og sérhagsmunaliðið. Í þá hluti má endalaust dæla fjármagni frá ríki og sveitarfélögum án þess að þessir sérgöfugu frjálshyggjudelar sjái nokkra ástæðu til að gagnrýna það. Þeir þykjast bera almenningshagsmunina fyrir brjósti en breytnin sýnir hvað að baki liggur.
Þeir sjá nefnilega eftir hverri krónu sem fer í það að mæta þörfum venjulegs fólks eða létta því lífið, en skattafríðindi fyrirtækja og endalaus undanskot láta þeir sér í léttu rúmi liggja svo ekki sé talað um kvótakerfið - viðbjóðinn versta.
Eins og hugtökin frelsi og lýðræði er hugtakið almannahagsmunir hræðilega misnotað. Sumir menn eru svo siðvilltir að þeim virðist gjörsamlega fyrirmunað að skilja að almenningur sem heild eigi einhvern rétt.
Þar er oft um að ræða arf ómennskunnar frá afætuhyski liðins tíma. Slík fylgja þvæst ekki úr fólki við hundahreinsun einnar kynslóðar. Það þarf að skrúbba slíkar hrokasálir upp úr klósettskálum almenningssalerna, svo að þær skilji að þær eigi ekki að njóta neinna réttinda umfram aðra.
Almannahagsmunir eru sameiginlegir hagsmunir allra - velferð heildarinnar, og þar verður að byggja á jöfnuði því misrétti kallar alltaf fyrr eða síðar á uppgjör. Slíkt uppgjör verður oft harkalegt og krefst sinna fórna.
Við Íslendingar verðum að standa saman um að byggja hér upp heilbrigt þjóðfélag. Til þess þarf að ryðja burt rústum frjálshyggjukerfisins og segja skilið við Mammonsdýrkun liðinna ára. Almannahagsmunir eiga hvergi heima í myrkviðum misréttis og sérgæðingsháttar.
Lög sem hafa verið knúin í gegn á þingi af útsendurum sérhagsmuna-aflanna og ganga gegn hagsmunum almennings á að afnema sem fyrst. Þau eru afskræming alls þess sem þarf að stefna að og eru í raun tilræði við líf lands og þjóðar.
Munum að velferð fólksins eru æðstu lögin !
9.7.2010 | 18:40
Um lögvarið siðleysi og kerfisbundna kúgun
Af hverju er yfirleitt verið að skipta um ráðherra, hvað gerir Gylfi Magnússon t.d. annað en Björgvin G. Sigurðsson eða Valgerður Sverrisdóttur hefðu gert ? Þjónar hann ekki undir sömu öfl og þau gerðu ? Hvað gerir Fjármálaeftirlitið undir Gunnari Andersen annað en það gerði undir fyrri forstjóra, gætir það ekki hagsmuna sömu klíkuaflanna á kostnað almennings ?
Hvað gerir Már Guðmundsson í Seðlabankanum annað en hver annar kerfiskarl hefði gert í hans sporum ? Af hverju var hann að hlaupa frá hálaunuðu starfi erlendis til að koma hingað og reyna síðan að gráta sér út launahækkun bak við tjöldin ? Þykir það virkilega svona fínt að vera seðlabankastjóri á Íslandi og það sem eftirmaður Davíðs Oddssonar í uppfærðum hrun-seðlabanka !
Hvaða hæfni hafði Már Guðmundsson umfram aðra hugsanlega umsækjendur að stöðu seðlabankastjóra ? Var eitthvað í ferli hans sem sagði að hann væri mjög sérstakur ? Varaði hann kannski við fjármálavitleysunni á árunum á undan hruninu ? Ekki veit ég til þess !
Geir H. Haarde sem var eins lærður og nokkur maður getur verið í efnahagsfræðunum út frá skólagöngu-sjónarmiðinu einu saman, féll algerlega á veruleikaprófinu þegar á hólminn var komið. Hann vissi þá ekki sitt rjúkandi ráð, enda gaf meistari hans lýsinguna af ásigkomulaginu : " Forsætisráðherra situr hér frammi og skelfur eins og lauf í vindi og getur ekki tekið neina ákvörðun !"
Davíð gat trútt um talað því hann tók vissulega ákvarðanir meðan hann hafði völdin til þess. Meinið var hinsvegar að þær voru flestar rangar og sumar beinlínis þjóðhættulegar eins og komið hefur á daginn. En af hverju er verið að skipta um menn þegar nákvæmlega samskonar fuglar eru ráðnir í staðinn ? Jú, það er ein megin ástæða fyrir því - það er verið að friða almenning með því og láta hann standa í þeirri meiningu að eitthvað muni breytast við það.
En auðvitað eru slíkar mannabreytingar bara blekkingar og íslenska ríkiskerfið ræður ekki í háar stöður neina riddara sem berjast fyrir réttlæti, sannleika og jöfnuði.
Það er alltaf séð til þess að einhver klíkuþveginn skósveinn sé ráðinn, einhver sem haggar ekki við sporsluhöll spillingarinnar. Svo er talað um siðvæðingu kerfisins, sem er svona svipað því að talað sé um að taka upp helgihald í helvíti !
Hvar skyldi nú vera svigrúm fyrir siðvæðingu þar sem andi Mammons drottnar ?
Allt kerfis-siðferði á Íslandi er bókað núll og þó að menn þykist vera að margfalda eitthvað til bóta skilar það sér ekki á nokkurn hátt frekar en annað sem margfaldað er með núlli.
Það þarf að afnema siðleysisnúllið eins og eitt aðaltákn þess - verðtrygginguna !
Allt íslenska ríkiskerfið var snemma tekið í þjónustu sérhagsmunanna. Það keyrði bara um þverbak með þá hluti á Davíðstímanum. Hrokinn fór svo langt að menn hættu að hirða um feluleikinn. Og það leiddi til þess að sumir fóru smám saman að sjá veruleikann eins og hann er. En þeir eru líka fjölmargir sem enn eru að nudda augun og segja: " Ég trúi því bara ekki að þetta sé svona !
En spillingin er samt sem áður orðin svo djúprætt í kerfinu að það þarf meira en einfaldar verkjatöflur gegn henni. Það þarf meiriháttar skurðaðgerð !
Og þjóðin sjálf þarf að framkvæma þá aðgerð og skera meinsemdirnar af líkama sínum, öll graftrarkýli spillingarinnar hvar sem þau eru - annars á hún sér aðeins ömurlega framtíð sem réttlaust fórnarlamb í veröld verðtryggðrar glæpastarfsemi og lögvarins þjófnaðar.
Baslari hafði komið til Banka í von um fyrirgreiðslu. Banki tók honum vel og ræddi við hann í föðurlegum tóni um stöðu mála og sagði þar meðal annars :
" Nú, eins og þú veist kannski þá lifum við svona í og með í þjóðfélagi sem getur orðið óstöðugt ýmissa hluta vegna, en þar sem ég er náttúrulega nokkuð miklu stöndugri en þú og ræð auk þess talsvert miklu um það hvernig haldið er á málum, vil ég bjóða þér afbragðs lán til þess að þú getir komið þessu þaki yfir höfuðið á þér og þínum, en áhættuna af hugsanlegum óstöðugleika þjóðfélagsins verður þú auðvitað alfarið að taka á þig. Annað er að sjálfsögðu ekki til umræðu.
Ég verð eins og þú hlýtur að skilja að fá algjöra verðtryggingu fyrir því sem ég lána þér og tel það fullkomlega sanngjarnt. Þú átt þar fyrir utan lítið á hættu því þú veist nú sjálfsagt að ég mun gera allt til að halda hér fullum stöðugleika um ókomin ár og ég ætti nú að geta ráðið einhverju um það, með öll mín áhrif í viðskiptalífinu og kerfinu öllu !"
Baslari hugsaði málið um stund, en sagði svo:
" Ja, mér finnast þetta nú ekki beint réttlát kjör, en ég verð hinsvegar að fá einhvers staðar lán til að koma upp heimili fyrir mig og fjölskylduna. Fasteignaverð er hinsvegar orðið svo hátt að mér finnst mjög erfitt að sjá út úr þeim málum. Eitthvað verð ég samt að gera og ætli ég verði þá ekki að fallast á þetta. En ég geri það nú einkum í tausti þess, að þú munir leggja þitt til að hér verði áfram stöðugleiki eins og þú hefur reyndar margsinnis sagt að þú munir alltaf gera.
Svo hefur þú nú líka verið afskaplega elskulegur og almenningsvænn í öllum skiptum og gott við þig að eiga !"
Banki þakkaði honum fyrir góðar umsagnir og kvaðst viss um að áhættan sem hann tæki á sig með þessum lánakjörum yrði ekki mikil og þegar upp væri staðið myndi hann vafalítið komast mjög vel frá þeim og tryggja sig og sína til frambúðar.
Svo voru þessi viðskipti gerð og Banki og Baslari tókust í hendur og traustið var bara hreint út sagt allsráðandi.................!
Skömmu síðar hrundi einkavædda bankakerfið vegna eigin áhættustýringar, ríkið sem ábyrgðaraðili þess varð skuldum vafið upp fyrir haus og fólkið í landinu þar með líka. Óstöðugleikinn fór upp úr öllu valdi, krónan var gerð að engu og allar leikreglur sviknar og nánast öllu stolið sem hægt var af þjóðinni.
Hafist var samt skjótlega handa innan fjármálakerfis ríkisins eða bandormagryfjunnar, við að afskrifa skuldir hjá stóru skuldurunum og ehf-greifunum, en almenningur var látinn sitja í skítnum og skuldunum.
Samkvæmt forskrift frjálshyggjunnar og auðvaldsins eiga almennir lántakendur nefnilega að bera afleiðingarnar af ráðabreytni þeirra lánardrottna sem keyra allt í kaldakol eins og hér var gert !
Ríkisstjórnin hefur nú sama sem lýst því yfir, að íslenska ríkið hafi ekki efni á því að halda uppi réttlæti. Það sé allt of krefjandi mál.
Aðeins sé hægt að halda sig við ranglætið eins og verið hefur. Því skuli þjófnaður bankakerfisins sáluga standa hvað sem líður nýgengnum Hæstaréttar-dómi og arðrænd alþýðan bera byrðarnar.
Í gömlum sögum var stundum talað um þjófsnauta, en það voru þeir sem samsekir urðu um gripdeildir eða vildu þegja yfir þeim.
Hverjir skyldu nú vera þjófsnautar á Íslandi ?
Undarleg er málafylgja stjórnvalda og greinilegt að þjóðin fær þar enga áheyrn fyrir sígnauði sérhagsmuna-vindanna.
Er það hin ætlaða félagshyggjustjórn sem kosin var til valda fyrir rúmu ári sem stendur þannig að málum eða eru það strengjabrúður Alþjóða gjaldeyrissjóðsins - hirðstjóraklíka svívirðunnar ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:21 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 18
- Sl. sólarhring: 67
- Sl. viku: 587
- Frá upphafi: 365485
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 500
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)