Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Nokkur hugvekjuorð á jólum

Margt hefur stuðlað að því á seinni árum að veikja stöðu kristinnar trúar innan vestrænna samfélaga. Má eflaust finna margar skýringar á því.

Aukið streymi fólks - sem aðhyllist aðra trú - inn í vestræn samfélög, er auðvitað haldbær skýring að hluta til, en margt fleira kemur til.

Svokallað frjálslyndi í kynferðismálum með tilsvarandi hnignun siðferðilegrar ábyrgðarkenndar, setur stöðugt sterkara mark sitt á vestræn samfélög.

Þau viðhorf sem þar ráða vilja skiljanlega lítið hafa með trú að gera sem setur mönnum skorður. Þau bera í sér uppreisnaranda gegn gömlum gildum og guðleysið sem í þeim býr, magnar upp siðlausan tíðaranda sem hallast æ meir að heimskulegri manndýrkun. Það er þekkt staðreynd að eftir því sem fólk menntast meira telur það sig þurfa minna á Guði að halda og afneitar jafnvel tilvist hans.

Þar við bætist sú ömurlega mynd sem fólk hefur verið að fá fram í dagsljósið að undanförnu af framferði fjölmargra kirkjunnar þjóna, hærri sem lægri, hér á landi sem og erlendis. Það er hryllilegt til þess að vita hvað misnotkun á börnum hefur verið mikil innan ýmissa kirkjudeilda og hvað ótrúir þjónar hafa aðhafst þar margt skuggalegt í skjóli sem kennir sig við kristni.

En kirkja sem mannleg stofnun er ekki Guðsríki og þeir sem þar starfa eru sannarlega misjafnir að manngæðum eins og við erum yfirleitt öll.

Að gefa sér það að prestur hljóti að vera góður og sanntrúaður maður bara af því að hann sé prestur, er ekki skynsamleg afstaða. Prestur þarf að prófast af verkum sínum og framgöngu eins og allir aðrir menn. Það eru ekki allir yfirlýstir þjónar kristinnar kirkju af þeim anda sem þeir ættu að vera. Ef svo væri stæði kirkjan ekki í þeim sporum sem hún stendur nú. Það væri vissulega yndislegt ef kirkjan væri í sannleika það sem hún á og ætti að vera - kirkja í þjónustu hins Lifandi Guðs !

En kirkjan er mannleg stofnun og mennirnir innan hennar eru flestir brothættir og breyskir - engu síður en mennirnir utan hennar. En menn sem vilja ganga í kirkjulega þjónustu á þeim forsendum að þeir vilji þjóna Guði, eiga ekki og mega ekki vera breyskir sem aðrir menn. Starf þeirra er köllunarstarf !

Þeir þurfa að helgast þeirri köllun að leiða fólk til Guðs og verða því að vera hreinir farvegir fyrir aðra. Þeir þurfa að vera endurfæddir menn, skírðir í Heilögum Anda, til að starfa í þeim krafti sem frumkirkjan meðtók beint frá naglreknum höndum hins upprisna Krists.

Engin kristin kirkja hefur haft þann eldlega kraft sem frumkirkjan hafði og engin kristin kirkja hefur haft slíkum þjónum á að skipa sem hún.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að illskan í heiminum beinist fyrst og fremst að kristinni trú, - höfðingi myrkursins hamast sem öskrandi ljón gegn Lávarði ljóssins því tími hans til athafna er orðinn naumur og honum sjálfum er það fyllilega ljóst. Það er þegar liðið talsvert á Laodíkeutímann - síðustu kirkjuöldina, það styttist í það að uppskerunni verði safnað saman og komið í hús.

Hvað sem líður manngerðum kirkjum og kirkjudeildum, er kristin trú miklu ofar og hærra því öllu saman. Kristin trú snýst einfaldlega um það hvernig hver maður ræktar skyldur sínar við Skapara sinn - hún er samfélag við hinn Lifandi Guð. Án þess samfélags verður hver maður smám saman sálarkaldur og sviptur blessun eins og flestar kirkjur samtímans virðast vera.

Nú eru mögn lífs og ljóss að byrja að taka við sér - sól fer hækkandi í hinu náttúrulega fari og megi það sama fá að gilda í andlegum veruleika okkar.

Það er nefnilega kjarni lífsmálsins fyrir okkur öll að við lærum að leggja mannlegan hroka okkar niður og náum að skilja þann eilífa sannleika að - Án Guðs Náðar er allt vort traust / óstöðugt, veikt og hjálparlaust.

 

 


Núllstilling ómennskunnar !

Ég hef nokkrum sinnum á lífsleiðinni kynnst mönnum sem viðurkenna ekki framin mistök og sýna forherta breytni með því að verja glataðan málstað.

Það er skoðun mín að þessir menn hafi verið einna lélegustu eintökin af Homo Sapiens sem ég hef komist í kynni við.

Við mennirnir erum auðvitað þannig gerðir að við gerum mistök, það liggur í hlutarins eðli. Við erum ekki fullkomnir og erum klárlega ekki heldur á leiðinni með að verða það. En flestir sem gera mistök viðurkenna þau og læra af þeim.

Það er eitt af því sem getur fleytt okkur áfram rétta þroskaleið.

En þeir sem vilja alltaf berja höfðinu við steininn og þverskallast við öllum boðum réttrar breytni, fara eðlilega á svig við alla siðlega framför og enda oft líf sitt í skuggaheimum skítmennskunnar.

Þegar fortíð slíkra manna er orðin þannig, að þeir þola hana ekki sjálfir, eiga þeir það til að verða ákaflega minnislitlir. Þeir muna ekki eftir ávirðingum sínum og kannast ekki við neitt, hafa ekkert af sér brotið og vilja bara koma fram í ljósengils líkinu eins og hugmyndafræðileg fyrirmynd þeirra er sögð gera.

Þeir núllstilla minni sitt út frá því hvað er hagkvæmast fyrir þá sjálfa og hamra það inn í sig að þeir hafi aldrei gert neitt rangt eða brotið af sér á nokkurn hátt.

Og þessi núllstilling ómennskunnar verður svo þeirra vörn þar til öndin skreppur úr skrokknum og sálin liggur ófleyg eftir - eins og samankuðlað eyðublað fyrir inngöngu á ónefndan stað.

Ég hef kynnst svona mönnum, eins og ég segi hér að framan, en sem betur fer ekki mörgum. Það er nefnilega ekki hægt að upplifa neitt nema hryggð í samskiptum við slíka dauðans vesalinga.

Maður sér ekki hvað síst þá hvað mannlegur aumingjadómur getur orðið mikill þegar fólk vinnur gegn öllum sínum skárri eigindum og eitrar þannig innviði sína með takmarkalausri sjálfselsku.

Stundum er svona núllstilling ekki bara huglægt varnartæki einstaklinga til  samviskuþvottar, þetta getur líka átt við félagslegar heildir, samtök og flokka !

Við þekkjum líklega dæmin um slíkt ? Við eigum að þekkja yfirgengilegt ábyrgðarleysi íslenskra ráðamanna gagnvart almannahag og algera afneitun þeirra á því að þeim hafi orðið eitthvað á, við eigum að þekkja hvernig hagsæld heillar þjóðar var sturtað niður í skítinn, svo að alikálfar einkahyggjunnar gætu áfram blómstrað og blóðsugubankarnir komist aftur á fót.

Við eigum öll að hafa heyrt viðkvæði innmúraðra og innvígðra aðstandenda til varnar siðvilltum brotamönnum : " Þeir brutu engin lög ! " ; þó vitað sé að viðnámi laganna var vikið burtu svo séní frjálshyggjunnar hefðu svigrúm til svívirðilegra auðgunarbrota á kostnað þjóðarinnar.

Við eigum að þekkja þetta allt saman og þá núllstillingu ómennskunnar sem þessu fylgir. Og því er það eðlilegt að menn hafi þá sannfæringu í dag að íslenskum yfirvöldum síðustu tuttugu ára beri engin virðing og traust milli almennings og yfirvalda í þessu landi sé nánast ekki neitt.

Nýlega viðhafði þingmaður úr Stóra Þjóðarógæfuflokknum eftirfarandi orð í sjónvarpi um málefni ríkissjóðs : " Þetta er sjóðurinn okkar allra og okkur ber því að umgangast hann með virðingu ! " 

Virðist ekki augljóst af þessum orðum að þau séu byggð á uppsettri núllstillingu minnis - minnis sem nær greinilega ekki til neins sem gerðist árið 2008 eða fyrir það ?

 

 

 


Why Europe Slept !

Þegar John F. Kennedy var ungur maður, skrifaði hann bók um andvaraleysi Englendinga á uppgangsárum Hitlers. Hann nefndi bókina Why England Slept.

Í bókinni færir Kennedy fram ýmislegt sem skýringar á því hvað sofandaháttur breskra stjórnvalda var mikill gagnvart yfirgangi Þjóðverja - þó að hann sem dæmigerður Bandaríkjamaður, tali kannski enganveginn eins skýrt varðandi meginástæðuna eins og sumir aðrir hafa gert í þessu sambandi.

Hinsvegar er það nokkuð ljóst að hin hægrisinnuðu stjórnvöld í Bretlandi voru svo upptekin af því að Sovétríkin væru óvinurinn og rauða hættan var í þeirra augum svo yfirþyrmandi, að þau gerðu sér enga grein fyrir hvítu hættunni sem var að rísa upp með ógnarvaldi sínu í miðri Evrópu. Breska fjármálavaldið með Englandsbanka í broddi fylkingar hikaði því ekki við að pumpa nazistaveldið upp með ýmsum hætti.

Ráðamenn Englands sáu bara vaxandi afl sem myndi herja í Austurveg  " Drang nach Osten "  - og það var hið besta mál að þeirra mati. Þeir sem öðruvísi hugsuðu á hægri væng breskra stjórnmála á þeim tíma og þeir voru reyndar ekki margir, voru settir út í kuldann og reynt með flestum ráðum að þagga þá í hel. Rétthugsun þess tíma í Englandi gekk út á það að Hitler myndi taka kommana í gegn og ekkert væri að óttast fyrir Breta. Það er eitt það lofsverðasta sem segja má um Winston Churchill, að hann var, þrátt fyrir eitilharða afstöðu gegn Sovétríkjunum til margra ára, tiltölulega snemma fær um að sjá hverskonar ógn var að rísa upp í Þýskalandi- nazismans, fyrir Bretland og allan heiminn.

Nú til dags mætti alveg hugsa sér, að ungur námsmaður í Bandaríkjunum gæti skrifað, ef fer sem horfir, bók eftir svo sem 20 ár, það er að segja ef Bandaríkin verða þá enn til, og bókarheitið yrði - Why Europe Slept.

Í þeirri bók væri höfundur að reyna að koma fram með einhverjar skýringar á því hvernig og hversvegna Evrópa hefði gengið múslimum á hönd í heilu lagi á tiltölulega skömmum tíma !

Rétthugsun stjórnvalda um alla Evrópu hefur nú lengi gengið út á það, að hlynna að fjölmenningu og ýtt hefur verið undir vaxandi áhrif innflytjenda á evrópsk samfélög. Aldagömlum þjóðmenningararfi er kastað kæruleysislega út í horn en innflutt viðhorf framandi menningargilda sett á stall.

Evrópa sefur og skynjar ekki hættuna af fjölmenningar-dýrkuninni !

Og á meðan vex þeim öflum styrkur sem vilja ekki sjá þá Evrópu sem við kynbornir Evrópumenn höfum byggt upp á liðnum öldum og áratugum. Framtíðarsýn slíkra afla er múslimsk Evrópa - kirkjur út og moskur inn !

Í því sambandi stjórnar umræðunni ein rosalegasta rétttrúnaðarhugsun okkar tíma. Það er villuhugsun sem gengur út á linnulausan undanslátt gagnvart þeim öflum sem eru í raun að yfirtaka samfélög okkar innanfrá og gera þau að sínum. Hættan eykst með hverju ári og einnig hér á litla landinu okkar.

Þeir sem vara við hættunni í þessum efnum, eru yfirleitt ásakaðir fyrir að vera fullir fordóma,  þjóðrembu, þröngsýni og skilningsleysis gagnvart kalli nýrra tíma. Það er venjan að beita slíkum ásökunum til að þagga niður í þeim sem vilja vera leiðinlegir - eins og sagt er -  og tala um óskemmtilega hluti.

En draumar eru draumar og veruleiki er veruleiki. Þeir sem lifa í draumaveröld hljóta fyrr en síðar að brotlenda draumafleyi sínu á hrjóstrum veruleikans.

Engin lífsgæði eru sjálfgefin. Það þarf að hafa fyrir öllu og berjast fyrir því sem við höfum, vernda það og vaka yfir hverjum ávinningi, annars verðum við rænd og yfirstigin af öflum sem sitja á svikráðum gagnvart framtíðarheill okkar.

Evrópa sefur enn sínum dauðasvefni og fari sem horfir, að hún vakni ekki til varnar sínum gildum, töpum við álfunni okkar áður en langt um líður í hendur múslima.

Málið er ekki flóknara en það !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 106
  • Sl. sólarhring: 153
  • Sl. viku: 675
  • Frá upphafi: 365573

Annað

  • Innlit í dag: 102
  • Innlit sl. viku: 587
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 100

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband