Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

VIÐ ÞURFUM NÝTT OG HREINT ÍSLAND

Þegar rannsóknarskýrsla Alþingis var birt, var almennt talið að hún yrði höfð til grundvallar því hreinsunarstarfi sem þurfti að vinna í þjóðfélaginu. Allir vissu að það þurfti að hreinsa til og þarna var komin úttekt sem átti að vera hægt að byggja verkið á. Það þurfti bara að bretta upp ermar og taka til við þrifin.

En fljótt kom í ljós að ráðamenn voru tvístígandi og alveg í öngum sínum yfir skýrslunni. Þar komu fram margvíslegar upplýsingar um vesaldóm kerfisins og spillingu af hvers konar tagi og þeim fannst þeir vera orðnir allt of berskjaldaðir fyrir dómi almennings. Sumir þeirra bölvuðu örugglega skýrslunni í sand og ösku með sjálfum sér, en þóttust hinsvegar allir af vilja gerðir til að hreinsa ærlega til.

Það virðist þó sem gert hafi verið þegjandi þverpólitískt samkomulag um að láta þessa skýrslu liggja sem mest afsíðis. Það mætti sem best þegja hana í hel á nokkrum árum. Hún var eiginlega allt of óþægilegt plagg !

Sennilega hefur verið hugsað eitthvað á þá leið, að skipa mætti sérstakan saksóknara til að róa almenning og umboðsmann skuldara í þokkabót, en það mætti ekki fara að snúa við hverjum steini í kerfinu. Það væri allt of hættulegt !

Ránsfengur útrásarbófa og alikálfa skyldi áfram vera í þeirra höndum og skuldir afskrifaðar hjá þeim eftir þörfum og bankarnir nýju með " hreinu nöfnin " skyldu starfa í anda gömlu bankanna. Þannig að samtryggingarpólitík  flokkanna ákvað að  engu skyldi í raun og veru breytt eftir bankaránin innanfrá, aðeins gengið í það að blekkja almenning og velta öllum drápsklyfja-reikningum þjóðsvikanna yfir á hann. Að þessum gjörningi stóð í raun öll kerfisklíka flokkanna þó hvergi kæmi fram nein sönnun fyrir því. Sameiginleg varnarþörf knúði valdaelítuna til þess að standa svona að málum, þar sem allir innvígðir fjórflokksmenn voru með einum eða öðrum hætti sekir um misgerðir gegn almannahagsmunum.

Rannsóknarskýrsla Alþingis varð þannig fljótlega dæmd innan kerfisins sem skýrslan sem aldrei átti að vera samin og ráðandi viðhorf að tjaldabaki varð að það þyrfti að koma henni sem fyrst inn í skáp gleymskunnar. En svo hátt hafði hinsvegar verið reitt til höggs með skýrslunni og slíkar væntingar vaktar með afhjúpun þeirri sem þar kom fram varðandi alls kyns fjármálaleg bellibrögð, að það var hægara sagt en gert að draga í land. Pólitíkin gekk samt snarlega út á þá stefnu að það yrði auðveldara að halda í skítinn en hreinsa til. Menn komust að þeirri niðurstöðu að ef það ætti að hreinsa til í kerfinu eins og þyrfti, yrði kannski ekkert kerfi eftir !

Og því vilja margir þungavigtarmenn viðhalda spillingunni - á kostnað þjóðarinnar !

Sáu menn hvernig Samfylkingin hegðaði sér í landsdómsmálinu til að fría sína ráðherra, sáu menn hvernig forusta flokksins og þingmenn hegðuðu sér í því máli ?

Hagsmunir flokksins réðu öllu, hagsmunir þjóðarinnar skiptu litlu sem engu.

Allir vita hvernig Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn hefur hegðað sér þegar þjóðarhagsmunir eru annarsvegar, enda værum við ekki að glíma við afleiðingar hruns ef þar hefði verið haldið á málum út frá þjóðarheill.

Litli Þjóðarógæfuflokkurinn  hugsaði líka um flokksræðið en ekki þjóðræðið.

Vinstri græna flokksforustan hefur heldur ekki vikist vel við þeim þingmönnum sínum sem hafa viljað hafa sjálfstæða skoðun. Flokksræðið er þar lítið síðra en hjá öðrum. Þessi stöðuga viðleitni - að valta yfir þá sem ekki eru sammála flokksvaldinu er ólýðræðisleg og til þess eins fallin að viðhalda spillingu kerfisins. Við þurfum svo sannarlega á öðrum og betri vinnubrögðum að halda !

Við þurfum að finna gömlu gildin aftur og hefja þau til vegs og virðingar á nýjan leik og til þess þurfum við öllu öðru fremur hreint svið.

Við viljum vafalaust flest búa í þjóðfélagi þar sem ríkir traust. Við viljum geta treyst því að þar til kosin yfirvöld vaki trúlega yfir almannaheill. Við viljum sjá fjöregg lands og þjóðar í góðum höndum og siðferðileg viðmið í lagi.

Við viljum að börnin okkar geti átt sér haldbærar vonir um farsæla framtíð.

Þessi heilbrigðu lífsrök voru tekin frá okkur - fyrir tilstilli ábyrgðarlausra yfirvalda - manna sem höfðu völdin í sínum höndum, en notuðu þau gegn eðlilegum hagsmunum lands og þjóðar - í þágu sérvillinga og svikahrappa.

Við þurfum lýðræði þar sem flokksræði er í dag. Við þurfum að losna við allt það fólk af þingi sem á görótta fortíð í spillingu fyrirhrunsáranna !

Við þurfum þing og ríkisstjórn sem hægt er að treysta til góðra verka, við þurfum dómstóla sem dæma út frá réttlætis-sjónarmiðum en ekki annarlegum hagsmunatengslum. Við þurfum samfélag á traustum siðferðisgrunni.

Þegar Ólafur Ragnar hverfur frá Bessastöðum, sem vonandi verður eftir þetta kjörtímabil, þurfum við að kjósa manneskju í forsetaembættið sem hefur flekklausan feril að baki, manneskju sem getur orðið einingartákn fyrir íslenska þjóð. Við megum ekki við því að á Bessastöðum sitji umdeild persóna með tengsl við þjóðvillta útrásarfortíð eða nokkuð af því tagi sem spillt getur talist.

VIÐ ÞURFUM NÝTT OG HREINT ÍSLAND !

 

 

 


SVIKAMYLLAN GEGN ÞJÓÐINNI

Margt bendir til þess að það séu ennþá frekar fáir í þessu landi, sem skilja að hér hefði ekkert hrun orðið ef ekki hefði áður verið farið út í einkavæðingu bankanna. Í skilningsleysi fjölmargra varðandi þetta atriði birtist undarleg og andfélagsleg afstaða. Afstaða sem tekur greinilega mið af flokkspólitískum ástæðum, sem eiga að gera það nauðsynlegt - í ætluðu sjálfsvarnarskyni - að neita staðreyndum.

Einkavæðing gengur fyrst og fremst út á það að afhenda eitthvað arðbært fyrirbæri sem ríki eða sveitarfélög hafa byggt upp, oftast með ærnum tilkostnaði, einstaklingum sem eru í náð valdhafa - svonefndum alikálfum kerfisins.

Yfirleitt er svo í leiðinni reynt að telja almenningi trú um það, oft með miklum áróðri í fjölmiðlum, að með því að einkavæða sé beinlínis verið að hlynna að almannaheill. Markaðurinn verði heilbrigðari við aukna samkeppni og fólk geti keypt alla þjónustu á lægra verði fyrir bragðið. Þetta fer hinsvegar svo til undantekningalaust á þveröfugan veg.

Einkavæðing leiðir nánast aldrei til hagstæðari hluta fyrir almenning !

Samkeppni eykst ekki, en samráð rekstraraðila um verðálagningu eykst hinsvegar gegn hagsmunum almennings. Markaðurinn verður ekki heilbrigðari heldur spillast ærleg viðmið um leið og einkavæðing hefur átt sér stað.

Þjónusta verður ekki betri eða fjölbreyttari, hún dregst saman við einkavæðingu, því þá verður markmiðið ekki að þjónusta fólk, heldur að hámarka arðránið í gegnum fenginn spena.

Frjálshyggjumenn og einkavæðingarsinnar gerðu markaðinn nánast að lifandi veru í allri umræðu eða öllu heldur skurðgoði sem þeir tilbáðu. Þeir töluðu um að markaðurinn hegðaði sér með ýmsum hætti, en hann átti að þeirra mati alltaf að leita jafnvægis. " Við verðum að bíða og sjá hvað markaðurinn gerir " voru t.d. mjög almenn viðbrögð hjá þeim sem voru á háum launum sem upplýstir greiningaraðilar. Allt þjónaði þetta þeim tilgangi að færa ábyrgð frá einstökum auðmönnum og starfandi fjármálafyrirtækjum yfir á markaðinn - þetta óútreiknanlega, alsjálfstæða fyrirbæri.

En staðreyndin var þó engu síður og öllu heldur sú, að markaðurinn hegðaði sér nákvæmlega eins og auðmenn, bankar og aðrir áhrifavaldar fjármálanna létu hann hegða sér. Og tilgangurinn var í öllum birtingarmyndum - þó í blekkingarlíki hiins fegraða forms væru fram settar, - sá að koma meiri og meiri peningum ofan í fyrirfram ákveðna vasa. Hin stýrða leið var því ekki miðuð við að markaðurinn leitaði jafnvægis heldur oftast þvert á móti.

Og þannig var það með fasteignaverðið. Því var stýrt upp úr öllu valdi og ekkert eftirlit haft með því að þar væri haldið utan um hlutina með sanngjörnum hætti.

Markmiðið var nefnilega að arðræna fólk. Yfirvöldin sváfu eins og þau hafa jafnan gert hér á landi þegar um almannaheill er að ræða, og þá ekki síst ef þau eru til hægri. Hinir einkavæddu bankar vissu að þeir gátu leyft sér nánast hvað sem var, því ríkisstjórnin sem setti þá á útsöluna sem aldrei var greidd, var boðin og búin að hleypa þeim um alla koppa og kirnur heimilanna í landinu - til að arðræna þau. Yfirsprengda markaðsverðið á fasteignunum var bara einn liður í svikamyllunni en hann var að vísu mjög stór.

Bankarnir buðu lán sem óðast á meðan athafnir þeirra á öðrum vígstöðvum grófu samhliða undan gjaldmiðlinum okkar. Þeir vissu sem var að þeir áttu ekkert á hættu hvað það varðaði, skuldaverðtryggingin sá um það. Öll lán sem tekin voru á þeim árum sem ofþensla fasteignaverðsins gilti - án nokkurs inngrips af hálfu yfirvalda til að leiðrétta vitleysuna - voru því tekin út á kolrangt og falskt verðmat á eignum. Þannig var stór hluti þjóðarinnar fjötraður í skuldavanda, sem aldrei hefði getað orðið til í þjóðfélagi sem heiðrað hefði réttlátar leikreglur. Ungt fólk sem t.d. var að reyna að eignast heimili í fyrsta sinn, var blóðneglt af níðingahöndum til lífstíðar í þar til kokkaðri skuldasúpu og stjórnkerfis-eftirlitið hraut á meðan.

Öll lán - tekin á þessu algera myrkurtímabili samvisku og siðferðis fyrir hrun, voru þannig í eðli sínu veitt sem blóðsugulán af hálfu bankanna, veitt til að veiða fólk í svikanet og festa það í fjármálalegum vítahring sem það aldrei gæti losnað úr. Eignirnar féllu síðan stórlega í verði er hin uppblásna svikabóla sprakk en skuldirnar ekki. Þær voru látnar margfalda byrðar lántakenda.

Og þessi hrikalegi glæpagjörningur var framkvæmdur með fullkominni blessun yfirvaldanna í þessu landi og er einn mesti þjófnaður sem framinn hefur verið hérlendis gagnvart fólkinu í landinu. Tilkoma kvótakerfisins og framsalsins er líklega það eina sem kemst þar í samjöfnuð að ranglæti til.

Og enn í dag virðast yfirvöldin í landinu síður en svo viljug til að leiðrétta eitt eða neitt fyrir almenning, þó nú segist þau vera til vinstri. Það segir sína sögu um samtryggingarmafíu þessa lands !

Það þarf sjáanlega ekki að flytja inn Economical hitmen frá Bandaríkjunum, til að grafa undan velferð fólksins í landinu þegar stjórnvöldin sjálf haga sér með þessum hætti.

Það er hægt að endurreisa banka sem rændir hafa verið innanfrá, tryggingafélag sem fær sömu meðferð, sparisjóði og stofnanir sem hafa verið tæmdar í gegndarlausu fjárhættuspili sérgæðinganna, borga milljarða á milljarða ofan fyrir útrásarvíkinga og Icesave-þjóðníðinga, en að koma til liðs við venjulegt fólk sem veitt var í spennta sameiginlega gildru fjármálageirans og yfirvalda - nei, það er allt annað mál !

En sannleikurinn talar sínu máli og segir okkur dag hvern í ljósi staðreyndanna hvað gerðist :

Bankarnir sviku lánþega sína - fólkið í landinu, ríkisstjórnin sveik þjóðina, þingið svaf og sveik skyldur sínar ásamt eftirlitsstofnunum og kerfinu öllu og sjálfur hádómstóllinn þagði þunnu hljóði því þá var hann ekki enn kominn í stjórnarandstöðu !

Enginn var að gæta hagsmuna almennings, fólkið var ofurselt svikamyllunni !

Þeir eru margir Íslendingarnir í dag sem seint eða aldrei munu bera traust til yfirvalda - sem þó íslensk þykist vera - eru og hafa verið að eyða landið og landsins hag með ólögum. Hér er ekkert byggt upp lengur - með lögum !

Kerfið þykist kannski vera að byggja upp - í orði kveðnu - en byggingarefnið er sjáanlega enn aðeins sami skíturinn og áður.

Siðleysið er látið viðhaldast og alltaf magnast ólyktin af spillingunni í nösum almennings !

Við þurfum að losna hér við Mubarakana - alla sem einn !

 

 

 

 

 


Enginn yrkir á Þorra

Enginn Allrason kom til mín í gærkveldi og var galvaskur sem endranær. Ég spurði hann frétta og hann svaraði í bundnu máli eins og hann er vanur og var ekki að skafa utan af hlutunum :

Þjóðarbölvun þung og römm

þyngir ferli nauða.

Ég heyri bara um skít og skömm,

skemmdarverk og dauða !

 

og áfram hélt hann :

 

Enn má heyra að klíkur kunnar

keppi að ofurlauna töku.

Skilanefndir skítmennskunnar

skara eld að sinni köku !

 

Og svo bætti hann við :

 

Meðan bölvuð bankaleyndin

bófa landsins stöðugt ver,

finnst af öllu rotin reyndin,

ræningjarnir skemmta sér !

 

Ég spurði hann hvort hann teldi ekki að það myndi nú fyrr eða síðar

fjúka í skjólin fyrir hrunvöldum þessa lands. Hann svaraði þegar :

 

Fortíðardraugarnir heimta sitt hald

og hætta ekki í ætið að gogga.

Smjörklípu aðferða einræðisvald

á ennþá sitt hreiður á Mogga !

 

Svo barst talið að nýjustu heimsatburðum og Enginn svaraði því svona:

 

Spilling velferð þjóða þvingar,

það má sjá og heyra víða.

Egyptar og Íslendingar

eiga við það sama að stríða !

 

Og hann herti á með annarri stöku :

 

Hér er margur Mubarak,

mannréttindi í dái.

Kerfið siðlaust svikaflak,

sori á hverju strái !

 

Hann var spurður um pólitíkina hér heima:

 

Margur klæðist falskri flík,

fátt er gott í Reykjavík.

En sérstaklega er svikarík

Suðurnesja pólitík !

 

Svo vék hann sér að öðru máli og orti:

 

Fylgt er blárri fjandstöðu,

fljúga æstar slettur.

Er í stjórnarandstöðu

aumur hæstiréttur !

 

Að svo mæltu kastaði Enginn kveðju á mig og hvarf út í hríðarmugguna

og ég sat eftir með allan kveðskapinn glymjandi í hausnum á mér.

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband