Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
29.9.2011 | 19:46
Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða
Íslenska lögreglan, og þá sér í lagi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, hefur löngum fengið orð fyrir það að vera mjög hægrisinnað fyrirbæri og mjög fylgispakt ríkisvaldinu þegar þegnarnir hafa sýnt óánægju með kjör sín og aðbúnað. Nú er það auðvitað svo að skylda lögreglunnar er að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu, samanber einkunnarorðin " með lögum skal land byggja ", svo lengi er nú hægt að halda því fram að lögreglan sé bara að gera skyldu sína, hvernig sem hún annars hegðar sér. Það eru alltaf til menn sem bera slíku við og afsaka harkalegt framferði og oft er býsna auðvelt að sjá hversvegna.
En allt hefur nú sín takmörk og stundum hefur nú blessuð lögreglan gengið allmiklu harðar fram en nokkru hófi gegnir.
En þar fyrir utan er það vafalaust svo, að þjóðin mun almennt vera samhuga því fornkveðna, að með lögum skuli land byggja, en þar segir líka " en með ólögum eyða !"
Þjóðarógæfuflokkurinn stóri vann að því í valdastöðu sinni um mörg undanfarin ár, að setja hér lög sem tryggðu ýmum hagsmunahópum sérréttindi sem voru yfirleitt veitt þeim á kostnað heildarhagsmuna og almannaheilla.
Slíkt var stundum gert þvert ofan í fyrri lög og náttúrulega gegn öllum siðlegum viðmiðunum. Í því sambandi má t.d. nefna kvótakerfið og ehf svikakerfið.
Þegar þannig er staðið að málum af stjórnmálalegum mafíum og ríkisvaldið notað purkunarlaust til að mismuna þegnunum, þá er klárlega um ólög að ræða.
Þá er verið að setja lög sem engum ber að hlýða og þá er sjálfsagt að mótmæla slíku til hins ítrasta.
Búsáhaldabyltingin svokallaða og önnur mótmæli almennings hafa ekki komið til af engu. Ástæðan fyrir því að fólk rís upp er alltaf sú sama, að það er verið að brjóta á rétti þess, að það er verið að ræna fólk réttmætum ávinningi af striti sínu og lífsbaráttu. Og þegar stjórnvöld gera slíkt eru þau bara þjófar gagnvart almenningi og svikarar við skyldur sínar, hvað sem líður þeim lögum sem þau þykjast vera að setja. Æðstu lög hvers heilbrigðs þjóðfélags byggjast á því að standa vörð um velferð fólksins.
Stjórnvöld sem hegða sér þvert gegn þeim lögum eiga að sjá sóma sinn í að fara frá. Það er engin furða þótt fólk sé óánægt með kjör sín, þegar alikálfa-óreiðunni frá fyrri árum hefur verið hellt yfir landslýðinn ; þegar honum er ætlað að borga syndagjöldin, þegar búið er að afskrifa allt hjá skíthælunum sem ollu hruninu og endurreisa bölvaða bankana til sömu óþverraverka og áður.
Þegar stjórnvöld hafa brugðist skyldum sínum, hefur venjan verið sú, að þau ætla lögreglunni að verja þau fyrir réttmætri reiði borgaranna.
En nú ber svo við að stjórnvöld eru orðin svo naum í útlátum við lögreglumennina sjálfa, sem af mörgum eru kallaðir varðhundar kerfisins eða valdsins, að þeir eru farnir að finna til svipaðrar óánægju með kjör sín og almenningur.
Lögreglumenn, sem sjálfir eru að reka heimili og eiga fjölskyldur, spyrja því sjálfa sig þessa dagana: " Af hverju eigum við að standa í þessu og hætta jafnvel lífi okkar og limum, fyrir valdaelítu sem stendur sig ekki betur !"
Og er það ekki kjarni málsins - af hverju á að halda hendi yfir hyski sem er búið að spila sitt hlutverk og það mjög illa fyrir þegna þessa lands ?
Lögreglumenn segjast nú ekki lengur geta búið við ofríki yfirvalda gagnvart launamálum sínum og almenningur hefur einmitt verið að krefjast leiðréttinga af yfirvöldum gagnvart reikningslegum glæpagjöldum hrunsins sem öllum hefur verið hrúgað á hann. Hagsmunir lögreglunnar og fólksins í landinu fara því saman - báðir aðilar þurfa að verjast ofríki yfirvalda sem halda þrjóskufullan vörð um sérréttindapakkið og fjármálamafíuna og skella skollaeyrunum við aðdynjandi sterkviðri !
Og gegn hverjum skyldi lögreglan eiga að verja yfirvöld, ríkisstjórn og þing þessa lands ? Hver er óvinurinn, er það þjóðin sem hefur verið svikin og arðrænd af þeim sem áttu að gæta fjöreggs hennar og voru til þess kjörnir ?
Ríkisstjórn landsins, sem gæti þessvegna heitir Hörpuútgáfan, virðist eiga til nóga peninga þegar um menningartengd gæluverkefni er að ræða, en varðandi það að hjálpa fólki út úr svikagildrunni sem það var hneppt í af stórspilltu og glæpsamlegu fjármálakerfi, með fullri blessun yfirvalda, er hún búin að sýna sig ónýta með öllu. Hún er ekki að laga neitt fyrir almenning í landinu !
Steingrímur J. Sigfússon sem einu sinni var hrópandinn í eyðimörkinni gegn öllu því fargani sem fylgdi frjálshyggjunni í valdastólana, hegðar sér nú eins og pólitískur umskiptingur og kapitalisminn virðist runninn honum í merg og bein.
Jóhanna Sigurðardóttir sem einu sinni barðist öðrum stjórnmálamönnum fremur fyrir hagsmunum almennings og virtist þá vilja vekja fólk til vitundar um kjör sín og réttindi, er nú forsætisráðherra vinstri stjórnar sem gerir allt sem hægri stjórn myndi hafa gert - skeinir fjárfesta og alikálfa hrunsins af mikilli natni og sýnilegri velþóknun. Þetta fólk virðist beinlínis vera að hrækja á allan sinn fyrri feril og hafi það skömm fyrir !
Og lögreglan - hvað með hana, hvort er hún í þjónustu fólksins í landinu eða óhæfra stjórnvalda sem hafa gert sig ber að því að vinna gegn velferð og hagsmunum þjóðarinnar ?
24.9.2011 | 09:30
Eitt dæmi um lítilsvirðingu gagnvart fólki
Þann 26. ágúst síðastliðinn mun forseti Íslands hafa fylgt forseta Litháens til Þingvalla í kvöldverðarboð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þetta boð var víst til heiðurs þessum aðkomna þjóðhöfðingja.
Þegar forsetarnir komu svo að austan, vonandi vel mettir, voru leðurgallaðir lögreglumenn á bifhjólum trillandi í kringum farkosti þeirra - mitt í öllum löggæsluskortinum. Gengu þessir laganna verðir að sögn hart fram í því að hreinsa veginn af almennu umferðarrusli svo höfðingjarnar kæmust sína leið truflunarlaust.
Góðkunningi minn, - en ekki lögreglunnar - var þarna á ferð með fjölskyldu sinni í bíl sínum og blöskraði honum sýnilegur hrokaháttur löggæsluliðsins gagnvart almennum vegfarendum. Mönnum var skipað að víkja út í kant og æddu lögreglumennirnir á hjólum sínum upp að bílum fólksins og örguðu á það að koma sér af veginum. Kunningi minn varð svo undrandi og reiður yfir þessu framferði að það sauð enn á honum þegar hann hitti mig nokkrum dögum síðar. " Hafa menn ekki lengur rétt til þess að aka um á vegum þessa lands ", spurði hann stórhneykslaður ? Nei, svo virtist ekki vera.......
Það voru nefnilega patrísear á ferð, prúðbúið yfirklassahyski sem átti víst allan rétt, svo að varðhundar valdakerfisins vildu greinilega sjá til þess að einhverjir plebbar væru ekki að flækjast fyrir !
Og viðkomandi lögreglumenn virtust ganga svo upp í hlutverkum sínum sem lífverðir og heiðursfylgd, að þeir örguðu á ökumenn bíla að haska sér út í kant sem fyrst og vera ekki fyrir purpuraslektinu. Fólk vissi ekki hvað var eiginlega að gerast, því þetta var náttúrulega á Íslandi en ekki í Írak eða Afghanistan.
Sumir héldu fyrst í stað að það hefði orðið eitthvað alvarlegt slys, en eina slysið í þessu máli reyndist það, að viðkomandi lögreglumenn misbuðu mannréttindum almennra vegfarenda til að þóknast hátignunum.
Og það er svo sem nógu alvarlegt mál með tilliti til stjórnarskrárboðinna borgaralegra réttinda. En lögreglufylgdin virtist greinilega stödd í einhverjum öðrum veruleika en á að gilda í vestrænu lýðræðisríki í byrjun 21. aldar !
Svo brunuðu glæsibílarnir sína leið með hina vörpulegu vélhjólakappa allt í kring. Punktur, basta !
" We have the power, we are the champions of the Roads ".
Það vantaði ekki kóngastælana og hrokagikksframferðið við þessar aðstæður. Lögreglumennirnir hegðuðu sér eins og þeir töldu víst að snobbtopparnir í bílunum vildu að þeir gerðu, því eftir höfðinu dansa limirnir.
En hvers eiga íslenskir ríkisborgarar að gjalda, ef það á að sópa þeim út og suður af þjóðvegum landsins þegar svona " yfirborgaraslekti " er á ferðinni ?
Af hverju skyldi vera talað um þjóðvegi ? Er það ekki vegna þess að þjóðin á vegina og hefur borgað þá úr eigin vasa !
Hvað heldur lögreglan að hún sé, er hún ekki í vinnu hjá okkur - borgurum þessa lands ?
Það þýðir lítið fyrir Stefán Eiríksson, okkar viðkunnanlega lögreglustjóra, að labba um götur í höfuðborginni og vera alþýðlegur við fólk - til að bæta ímynd lögreglunnar, ef undirmenn hans haga sér með þessum hætti.
Kunningi minn fór ekki dult með það álit sitt að svona " lögreglumenn " væru greinilega búnir að horfa á allt of margar bandarískar myndir. Og ekki er ólíklegt að svo sé.
Og ef Ólafur Ragnar er kominn svona óralangt frá því sem hann þóttist vera upp úr 1970, þegar hann taldi sig vera að tugta til spillta pólitíkusa í sjónvarpinu, til að gera þeim skiljanlegt hverjar væru þjóðlegar skyldur þeirra, þá er hann ekki hæfur til að vera forseti okkar Íslendinga.
Við viljum ekki hafa hér uppstrílað kóngafólk og forréttindahyski sem vill vaða yfir almenning og það með tilstyrk lögreglunnar. Við viljum hafa forustufólk sem veit um skyldur sínar gagnvart landslýðnum og virðir þær, svo stjórn fólksins, á fólkinu byggð, fólksins vegna til, megi viðhaldast með sæmd.
Hér er eitt dæmi sem skýrir hversvegna álit lögreglunnar hefur verið í lægri kantinum hjá fólki um langt skeið. Það er nefnilega iðulega svo að lögreglan virðist þjóna valdamönnum á kostnað almennra mannréttinda.
Framkoma lögreglumanna virðist oft síður en svo almenningsvæn eða mótuð af þeirri prúðmennsku sem þeim ber að sýna borgurum þessa lands.
Er ekki kennt og lögð áhersla á það í Lögregluskólanum að menn eigi að hegða sér virðulega og koma fram af tillitssemi gagnvart fólkinu í landinu ?
Ég trúi ekki öðru en svo sé, en hinn ágæti og prúðmannlegi lögreglustjóri Stefán Eiríksson, á sjáanlega enn talsvert starf fyrir höndum með að gera lögregluna að þeirri starfsheild sem til sóma er fyrir land og þjóð !
18.9.2011 | 11:58
RÆFLAR HÉR OG RÆFLAR ÞAR !
Um daginn sagði einn kunningi minn við mig með beiskju í röddinni : " Nú eru ræflarnir í þinginu farnir að tala um ræfilinn á Bessastöðum ! "
Og það var svo sem ekkert undarlegt að hann skyldi segja þetta og enn síður undarlegt að hann skyldi segja það með beiskjubragði. Það er nefnilega alls ekki ásættanlegt að þjóðin þurfi að búa við ráðsmennsku allra þeirra ræfla sem virðast fara með mál hennar í yfirstandandi tíma. Við höfum sýnilega ekkert nema aumingjum á að skipa, og til dæmis er öll Samfylkingarforustan, eins og hún leggur sig, búin að skrúfa sig frá öllum hugmyndum um þjóðlegt sjálfstæði og vill bara vera í kommissara-hlutverkum fyrir Brusselvaldið.
Samfylkingin er svo aumur flokkur að enn í dag hefur hún engum sæmilega frambærilegum manni á að skipa í formanns-stólinn. Þegar Ingibjörg Sólrún, sem var stallsett goð flokksins á sínum tíma, gaf upp andann pólitískt talað, varð að grípa til Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var að undirbúa brottför sína úr pólitík vegna aldurs !
Það var enginn kostur annar til í stöðunni en að gera nær sjötuga kerlingu, sem var að setjast í helgan stein, að formanni. Og Jóhanna sem hefur nú aldrei verið metnaðarlaus fyrir sína hönd, stóðst auðvitað ekki freistinguna þegar þessi þráði biti var réttur að henni. Hún kokgleypti hann og gott ef hún melti hann ekki áður en hún kingdi eins og Ögmundur gerir !
Það er hinsvegar greinilega löngu liðin tíð að Jóhanna hafi einhvern áhuga fyrir að vekja þjóðina til vitundar um stöðu sína og réttindi. Þau áform hennar hafa snúist upp í andstæðu sína. Nú vildi Jóhanna áreiðanlega helst svæfa þjóðina svo þing og stjórn geti sem mest fengið að vera í friði. Hún vill eflaust helst geta verið forsætisráðherra og jafnframt setið í friði fyrir kvartandi þjóð sem trúlega skemmir bara gleði hennar yfir uppfærðri ferilskránni !
Jóhanna gamla úr Þjóðvaka er þannig ekki lengur til sem slík og nafna hennar á stóli forsætisráðherra verður varla héðan af talin til merkra forustumanna þessarar þjóðar. Raunar virðist ekkert af því liði sem situr nú á þingi eða í ríkisstjórn vera af merkara taginu. Kunningi minn talaði um ræfla í því sambandi og hver tekur ekki undir það ?
Jóhanna og Katrín Júlíusdóttir hafa báðar sagt í fjölmiðlum að íslenskt regluverk sé svo sterkt að engu skipti þó útlendir auðmenn kaupi svo og svo mikið af Íslandi. Íslensk lög munu alltaf hafa yfir þeim að segja ! Eru þær stöllurnar að tala um regluverkið sem hrundi fyrir þremur árum með gífurlegum ógæfu afleiðingum fyrir land og þjóð ? Eru þær að tala um eftirlitskerfið sem brást algerlega sínu hlutverki í ætlaðri varðstöðu fyrir hagsmunum lands og þjóðar ?
Svona málflutningur sver sig í ætt við annan flokk og er þar fátt á milli skinns og skammar. Grímsstaðatorfu-viðskiptin gætu því auðveldlega orðið ávísun á réttindalegan ófarnað fyrir íslenska þjóð þegar til lengri tíma er litið.
Nú sýnist augljóst að hrunsliðið í sjálfstæðisflokknum sé stöðugt að hreiðra betur um sig í þingflokknum og því spyrja menn enn í forundran :
" Steinunn Valdís fór, en hvað með Guðlaug Þór ? "
Hvað með Þorgerði Katrínu og Illuga, já og fleiri - Bjarna Benediktsson til dæmis ? Er þetta virkilega þingliðið sem sjálfstæðisflokkurinn telur frambærilegast úr sínum röðum og best hæfa þjóðþinginu ?
Á ekkert að gera upp við Davíðstímann, hvenær verður 20. flokksþingið haldið hjá sjálfstæðisflokknum ? Hvenær verður tekið á málum af ábyrgð gagnvart því sem aflaga fór og þeim vinnubrögðum ráðamanna sem settu þjóðfélagið á hausinn ?
Ættu menn á þingi ekki að tala sem minnst um forsetaræfilinn, - það hefur hingað til verið talið heimskulegt að kasta steinum úr glerhúsi, - þeir steinar verða bara að boomerangi ræfildómsins og hitta menn sjálfa fyrir.
Mikið vildi ég annars að það sæti einhver á þingi sem hægt væri að bera virðingu fyrir, þó ekki væri nema svolitla !
10.9.2011 | 10:17
Lofsöngurinn um lygina og umgengnin við sannleikann
Stundum vilja menn ná marki sem þeir telja gott og göfugt í sjálfu sér, en gleyma sér svo í hita leiksins að þeir fremja glæpi til að ná því. Þá eru þeir komnir út úr sjálfum sér og fjandinn leikur lausum hala við stjórn sálarskips þeirra. Sérhver sigling undir slíkri stjórn endar síðan á fárboðum helvítis.
Það er ekki hægt að ná neinu hreinu takmarki með sóðalegum hætti. Það er ekki hægt að göfgast í gegnum græðgi eða vinna ærlegan sigur með óhreinum vinnubrögðum. Það er ekki hægt að byggja líf á lygi !
Eitt af því erfiðasta sem hinn skapaði maður hefur glímt við á þessari jörð frá upphafi vega, er að vera sjálfum sér samkvæmur í dyggðugu og sönnu dagfari.
Og eitt mikilvægasta atriðið í því að vera það, er að halda sig ætíð við það sem maður veit sannast og réttast. Í lífi manns sem vill vera trúr og sannur, vill vera sjálfum sér samkvæmur á vegi réttlætis og góðra gilda, skiptir sannleikurinn höfuðmáli. Það er ekki af engu sem Jesús Kristur samsamar sig sannleikanum og segir í guðspjallinu : " Ég er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið " !
Vegurinn til lífsins er að þjóna sannleikanum en lygin er vegur dauðans.
Gömul íslensk vísa um Frelsarann undirstrikar þetta með einföldum hætti:
Sannleikurinn sagður hreinn
sigrar falska dóma.
Honum þjónað hefur einn
himni og jörð til sóma.
Sá sem þjónar sannleikanum, fylgir því sem hann veit sannast og réttast, er á veginum til lífsins, en sá sem gerir lygina að leiðarmarki sínu endar í vegleysu.
Lygar hafa aldrei verið stundaðar jafnmikið á Íslandi eins og á undanförnum árum og í yfirstandandi tíma. Fjöldi manna byggði alla tilveru sína á lygum fyrir hrun og margir gera það enn. Að ljúga og svíkja var orðin viðurkennd aðferð til að öðlast frama. Sannleikurinn var settur út í horn.
Fjármálakerfið þreifst á lygum, stjórnmálaflokkarnir þrifust á lygum, menntakerfið þreifst á lygum. Íslenskt samfélag setti lygina í hásætið en sannleikann í skammakrókinn. Og leiðarvísir lyginnar kom úr efstu lögum þjóðfélagsins, ekki frá almenningi. Lygin kom niður goggunarröðina - frá lygurunum á toppnum sem sáu glæsta framtíð fyrir þjóðina þegar hrunið var að bresta á. Yfirlýst sýn þeirra til framtíðar var lygasaga því þeir gátu ekki séð neitt með réttum hætti. Þeir höfðu aldrei haft sannleikann í för með sér og vildu aldrei neitt af honum vita. Lygin var haldreipi þeirra og því fór sem fór.
Samfélag sem hampar lygi lendir óhjákvæmilega í þeirri stöðu að setja lygara í valdastólana. Þar þjónaði enginn sannleikanum, þar lugu menn bara hver í kapp við annan því lygarinn mesti hlaut að lenda í efsta valdasætinu. Svo hrundi lygakerfið, það hrundi í bönkunum, það hrundi í stjórnmálaflokkunum og í menntakerfinu og hvar sem það hafði hreiðrað um sig.................!
Og þá hófst björgunarstarfið, björgunarstarfið mikla !
Menn fóru að bjarga lyginni. Menn fóru að byggja upp og byggingarefnið var ný lygi. Í stað þess að ganga í sig og viðurkenna glöp sín fylltust menn forherðingarvilja og enginn af forustusauðum lygakerfisins lét sér til hugar koma að sýna iðrun og játa ranga breytni. Yfirhyskið var þvert á móti ákveðið í því að endurreisa blekkingamusterin og halda áfram á sömu braut - vegi dauðans !
"Sannleikurinn skyldi áfram fá að sitja í skammakróknum - þar væri hann best geymdur " , hugsuðu ráðamenn til hægri og vinstri. Og þegjandi og hljóðalaust samþykkti öll stjórnmálamafían í landinu að haldið skyldi áfram að þjóna lyginni og byggja ofan á gömlu úr sér gengnu lygarnar nýjar lygar - og nú eru þær jafnvel orðnar vinstri grænar !
Það skyldi þó aldrei fara svo, að boðskapur nýrra lygatíma hljómi brátt fyrirhrunslega úr valdastólum á Íslandi, út yfir alla heimsbyggðina - með sameiningarákalli sínu frá hægri " Krjúpum fyrir konungsvaldi lyginnar " og sameðla ákalli frá vinstri " Lygarar allra landa - sameinist !"
5.9.2011 | 19:16
Markaðshyggja er andstæða lýðræðis
Markaðshyggja er í raun andheiti við lýðræði því hugsunin á bak við hana er einfaldlega að tryggja þeim sem meiri fjárráð hafa aðstæður til að valta yfir aðra.
Sömu sjónarmið eru á bak við ýmis önnur hugtök eins og frjálshyggju.
Frelsið sem þar er talað um er frelsi hinna auðugu til að kúga smælingjana.
Oft er erfitt að vita í raun hvað felst á bak við hugmyndafræðileg viðmið, þar sem blekkingar geta ráðið þar miklu og hugtökin virðast oft svo jákvæð.
Um 1960 voru í gildi bæði á Íslandi og hinum Norðurlöndunum ýmis lagaákvæði sem gengu út á tryggingu þjóðarréttar. Þar var bundið í lög að auðlindir væru friðhelgar sem eign viðkomandi þjóðar og þær ættu ekki að ganga kaupum og sölum. Þær væru í raun líftryggingar velferðar fólksins.
En þegar hægri stjórnir fóru að komast að völdum í þessum löndum um og upp úr 1980 eða þá hægrisinnaðar vinstri stjórnir, sem höfðu glæpst inn á vegi markaðshyggju og annarra villuboða gagnvart heildarhagsmunum, fór margt að breytast. Smátt og smátt var farið að fjarlægja lagafyrirmælin sem settu yfirgangshneigð auðvaldsins skorður.
Það fór ósköp hljóðlega fram eins og þegar fjandanum er réttur litli fingurinn.
Úlfar sérhyggjunnar voru ólmir í að komast í feitt og umrædd stjórnvöld fóru að ganga erinda þeirra meir og meir í stjórnkerfunum. Afleiðingarnar þekkjum við nú hér á Íslandi af napurri reynslu og löngu er tími til kominn að læra af þeim mistökum. En þó að margföld landráð hafi verið framin, hika menn ekki við að segja að engin lög hafi verið brotin.
Þeir sem báru ábyrgð á hruninu áttu ekki að hafa brotið nein lög. Það væri svo sem eftir öðru að svo hefði verið. Úlfabræðurnir í stjórnkerfinu voru kannski þegar búnir að sérhanna lagaumhverfið fyrir bófana svo að ekkert yrði þeim til hindrunar við yfirtöku þeirra á þjóðareignum og auðlindum.
Var þá sem sagt svo komið að íslenska þjóðin bjó við þær aðstæður að lifa án þess að vita það - í þjóðfélagi sem tiltölulega fámenn auðvaldsklíka gat sett á hausinn án þess að brjóta nokkur lög ;
- í þjóðfélagi þar sem hægt var að fremja landráð án þess að nokkur refsing væri skilgreind fyrir slíkum glæp ;
- í þjóðfélagi þar sem almannahagsmunir voru utan gátta í öllu stjórnkerfinu ?
Já, því miður virðist hafa verið svo komið. Frjálshyggjuliðið í Stóra þjóðarógæfuflokknum og samverkamenn þess í öðrum flokkum, á því þjóðarþingi, sem virðist alveg hætt að sinna því hlutverki að vera þjóðarþing, hélt áfram löngu eftir hrun að mjálma sama afsökunarstefið fyrir frjálshyggjuna :
" Það voru ekki brotin nein lög " !
En æðstu lög siðaðs samfélags eru fólgin í því að verja og viðhalda velferð fólksins, að tryggja þjóðlegt öryggi og almannahagsmuni.
Ef sett eru lög með öðrum formerkjum, eru það ólög sem að engu eru hafandi. Þá er löggjafarvaldið farið að þjóna einhverjum annarlegum sjónarmiðum einkahagsmuna og byrjað að svíkja skyldur sínar. Slíkt á engin þjóð með sjálfsvirðingu að láta yfir sig ganga eða þola með neinum hætti.
Mér er sagt að sumir lögfræðingar segi nú til dags, að þeirra hlutverk sé ekki að greina hvað sé rétt og hvað rangt, heldur að skilja lagabókstafinn og framfylgja honum. Ef svo er, hafa sannleikur og réttlæti greinilega ekki það vægi í dómsölum samtímans sem áður þótti skylt og eðlilegt.
Það er vegið að almenningsrétti á Íslandi í dag með margvíslegum hætti. Pyngjuvaldið er í sókn gegn áunnum mannréttindum liðinna áratuga.
Fólk þarf að halda vöku sinni og skilja enn á ný að samtakamáttur fjöldans er eina vörnin gegn markaðshyggjunni, frjálshyggjunni, afturhaldinu og peningavaldinu sem er að brjóta niður velferð fólksins í landinu.
Það var ekki meiningin með stofnun hins íslenska lýðveldis að tíu prósent þjóðarinnar lifðu við allsnægtir en hin níutíu prósentin við skarðan hlut og sumir við skort á lífsnauðsynjum.
Það þarf með vökulum hætti að verjast þeim árásum sem gerðar eru jafnt og þétt á lífskjör fólksins og standa vörð um þá félagslegu uppbyggingu sem hér var gerð á fyrstu áratugum lýðveldisins með þjóðhagslega réttlætis hugsjón fyrir augum. Stöndum saman fyrir velferð okkar allra og gegn þeim sem vilja nægtastöðu fárra útvaldra á kostnað okkar hinna !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 21
- Sl. sólarhring: 70
- Sl. viku: 590
- Frá upphafi: 365488
Annað
- Innlit í dag: 18
- Innlit sl. viku: 503
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 18
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)