Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Um meðferð yfirvalda á lýðræðinu !

 

Í eina tíð var eftirfarandi vísa ort á Íslandi og gott ef hún passaði ekki ágætlega við húnvetnskar aðstæður á þeim tíma :

Lýðræðið er sem ljós í vindi,

lítið er þar um skjól og vörn.

En þó eru mikil mannréttindi

ef maður þarf ekki að kjósa Björn !

Þessi einfalda vísa getur sagt okkur ýmislegt ef við skoðum hana nánar. Í fyrsta lagi er lýðræðið ekki mikils virði ef það hrekst til og frá fyrir hverjum kenningarvindi. Það þarf skiljanlega að vera til staðar sem stöðugt og traust stjórnarfyrirkomulag og veita skjól og vörn fyrir samfélagið.

Og lýðræðið þarf náttúrulega að geta boðið upp á raunhæfa valkosti þegar kosið er. Menn þurfa að vera í þeirri stöðu að geta kosið aðra en Björn   -  ef þeim sýnist svo. Lýðræðið snýst nefnilega um það að hafa val. Stundum festist ákveðin fulltrúaskipan svo í sessi til langs tíma, að valið verður í hæsta máta umdeilanlegt, og það ættum við til dæmis að þekkja hér á Skagaströnd.

Eitt sinn var ort til forna:

 

Áttak næsta völ

nýtra drengja.

Nú er úlfshali

einn á króki.

 

Og þegar úlfshalar eru einir á króki, þá er fátt um fína drætti í lýðræðismálum, hvort sem við ræðum um Skagaströnd eða önnur samfélagsumdæmi.

Þeir sem kosnir eru fulltrúakosningu sem umboðsmenn lýðræðis þurfa  að vera færir um að starfa í lýðræðisanda. En það er því miður mikið um það, að fjöldinn allur af mönnum virðist alltaf sækjast eftir að fá umboðið en ekki til að starfa í þeim anda sem því á að fylgja. Aðrar hvatir liggja oft að baki eftirsókninni og sumar þeirra eru vægast sagt langt frá allri lýðræðishugsun. Æði oft snýst málið sýnilega - fyrst og fremst um það - hvað viðkomandi geti fengið í sinn hlut og hvernig hann geti grætt sem mest á valda-aðstöðunni.

Með það í huga getum við farið að ræða um margvíslegt misrétti sem skapast af mannavöldum og leiðir oft til mikillar rangtúlkunar á eðli lýðræðisins. Sumum ráðamönnum er nefnilega býsna gjarnt að grípa til slíkrar rangtúlkunar þegar þeir neyðast til að verja vafasamar gerðir sínar opinberlega.

Eitt af því sem oft er gripið til í slíkum tilfellum, er að kalla til sérfræðinga til að mata almenning. Þá er sagt að verið sé að kynna faglegar staðreyndir og upplýsa fólk um stöðu mála. Og það er eins og ekkert liggi að baki nema löngunin til að bera sannleikanum vitni.

Oftast kemur þó í ljós þegar grannt er að gáð, að hinir tilkvöddu upplýsingagjafar eru beinharðir hagsmuna-aðilar sem eru eingöngu að tala fyrir þeim framgangi viðkomandi máls sem þeir vilja að eigi sér stað. Að baki liggja þá leyndar auðgunarvonir og  útþensluáform einstaklinga eða fyrirtækja.  Hagsmunir almennings eru þar yfirleitt víðs fjarri, en mjög oft notaðir sem yfirvarp.

Sveitarstjórnarlög og önnur varnartæki heildarhagsmuna eru iðulega sniðgengin þegar sérhagsmunirnir kalla með áleitnum einkaþörfum.

Þekkjum við ekki öll ýmis dæmi um vinnubrögð af þessu tagi ?

Og svo verð ég auðvitað að nefna það, að í nafni lýðræðislegra stjórnarhátta hefur verið byggt upp afar stórt og þurftarmikið afætukerfi í þessu landi. Með ýmisskonar pólitískum sjónhverfingum hafa verið hengdir utan í lýðræðið allskonar kostnaðarliðir sem í raun eru hreint ekki til komnir fólksins vegna, heldur til að hygla ýmsum einstaklingum og aðilum sem stjórnvöld hverju sinni vilja hlaða undir.

Allt er slíkt samt gert í nafni lýðræðisins og sagt til þess gert að styrkja það, en í raun veikir það undirstöður þess og þjónar síst af öllu almannaheill.

Sem dæmi um slík vinnubrögð má nefna tilhneigingu alþingis til að skipa sérstaka umboðsmenn fyrir þetta og hitt. Eins tilhneigingu annarra yfirvalda með útnefningu svonefndra sviðsstjóra í tugatali, ýmissa eftirlitsaðila og allra handa sporslurakka í hin og þessi verkefni. Margar af þessum starfslegu uppstillingum eru hreint út sagt gervistörf í þjóðfélaginu og viðbótarfylling í afætukostnað þess.

Þetta háttalag gefur valdamönnum færi til þess að setja ýmsa gæðinga sína í vel launuð embætti og verðlauna þá þannig fyrir fylgispekt við flokk og elítu. Með slíku ráðslagi hefur meira að segja sjálfri menningargyðjunni verið umsnúið svo, að hún er mikið til hætt að sinna sínu höfuðhlutverki, að sjá til þess að menningin spretti fram í mannlífinu fyrir eigin krafti. Í dag er menningargyðjan nefnilega orðin að framfærslufulltrúa í kerfinu og gerir ekki meira en að framfleyta öllum þeim sem hanga utan á henni og hafa sogið sig þar fasta. Þar á býsna margt orðið lítið skylt við menningu nú til dags.

Við hljótum líka að vita að það hafa hreint ekki svo fáir handhafar framkvæmdavaldsins verið harðir hyglingarmála-ráðherrar og snarað ótæpilega út bitlingum til sinna alikálfa. Svo er reynt að telja almenningi trú um að slíkt og þvílíkt sé gert til að tryggja hagsmuni hans, en svo er auðvitað ekki og fjarri öllum sanni.

Þessir umboðsmenn eða talsmenn sem settir hafa verið á laggirnar á síðustu árum, eru skiljanlega vita gagnslausir og bara til þess að sýnast. Þeim er veifað framan í almenning í fjölmiðlunum eins og skrautfjöðrum lýðræðislegra stjórnarhátta, en í raun og veru eru þeir bara sérvaldir kerfispúkar, sem fá velþóknunarleyfi valdsmanna til að fitna á fjósbitum stjórnkerfisins, og kostnað við uppihald þeirra og nægtastöðu er almenningur látinn greiða.

Í þessum efnum er um hreinan blekkingarleik að ræða og lýðræðið gert að leiksoppi loddara. Það sitja býsna margir Heródesar og Pílatusar á skrifstofum ríkiskerfisins á Íslandi í dag og skipa fólki fram og aftur um rammflóknar eyðublaðaslóðir Stóra-Bróður og oft er viðmótið hjá þessum hreiðurfuglum kerfisins talsvert annað en það ætti að vera. Fúsleiki slíkra manna til að þjóna lýðræðinu og gildum þess er því áreiðanlega í besta falli umdeilanlegur.

Rangtúlkun og misnotkun á lýðræði hefur oft leitt af sér hörmungar, sem eru ígildi náttúruhamfara, á sviði hins mannlega samfélags. Þá eru stundum unnin verk sem eru - bókstaflega talað - efnahagsleg hryðjuverk gagnvart velferð almennings og slík verk eru gjarnan unnin af ósakhæfum stjórnmálamönnum og þeim sem vaða í vellystingum í skjóli þeirra.

Það hefur líka komið skýrt í ljós að undanförnu að mjög erfitt er, og virðist reyndar nánast ógerlegt við núverandi aðstæður, að sækja mál gegn stjórnmálamönnum hérlendis sem - til dæmis - eru taldir hafa sofið á þeirri öryggisvakt sem þeir áttu að standa fyrir þjóðarheill. Þar hefur samtrygging ráðamanna komið fram í svo ógeðfelldri mynd að hún er beinlínis hrollvekjandi þegar hugsað er til lýðræðisins og  velferðar almennings hér í þessu landi.

Einn hópur í þjóðfélaginu talar mikið um " virðingu alþingis " og það eru þeir sem þar sitja. Aðrir sjá ekki ástæðu til að tala mikið um það sem þeim finnst hvergi sýnilegt. Það má samt vel vera að virðing alþingis sé einhversstaðar til, í einhverju formi, en hún er áreiðanlega ekki mikið í umferð innanlands og kemur þar af leiðandi lítið við sögu í hugsanalífi landsmanna.

Þingmenn virðast því flestir hafa áttað sig á því að ef virðing alþingis á að vera hugtak og gildandi í einhverri umræðu, þá verði það bara að vera þeirra á milli. Svo óskemmtilega hefur löggjafar-samkunda þjóðarinnar fallið í áliti þjóðarinnar og sett niður á síðustu árum, að virðing hennar er orðið óþekkt hugtak utan þingsalarins.

Innanríkisráðherra sagði í útvarpi um daginn, varðandi endurupptöku þingsins á landsdómsmálinu, líklega til að skýra undarlega afstöðu sína í því máli : " Ég ákvað að ganga í lið með samvisku minni !"

Hvernig ber að túlka þessi orð hans ?

Var hann ekki í liði með samvisku sinni áður ? Er hann stundum í öðru liði en hún vill að hann sé ? Hvaða leiðarmerkjum fylgir maðurinn eiginlega ?

Svona orðskrípisháttur er mjög algengur í þeim frösum sem frá stjórnmálamönnum okkar koma og sýna hvað þeim verður stundum hált á því að verja tækifæris-sinnuð viðhorf sín.

Þar vaða þeir svo elginn að þeir fara stundum heilu hringina í afstöðu til mála í sömu ræðunni og virðast samt ekki sjá neitt athugavert við það sem þeir eru að segja. Og lengst af eru þeir í feluleik við lýðræðið.

En á hátíðastundum, í upphafinni veldisvímu, tala kannski þessir sömu menn um þörfina á opnu lýðræði, virðingu fyrir andstæðum sjónarmiðum  og að allt þurfi að vera gagnsætt og hreint !!!

Svona eru nú þessir svokölluðu ráðamenn okkar og það í flestum tilfellum  - ábyrgðarlausir bullukollar................!

Við munum það væntanlega mörg að núverandi forseti Íslands bauð sig fram á sínum tíma til að vera öryggisventill milli þings og þjóðar. Hann talaði oft um það á þeim tíma, að þjóðin þyrfti að vita sem gleggst um mál og málatilbúnað og ráðamenn þyrftu að tala skýrt og hreinskilningslega til almennings um nauðsynjar lands og þjóðar hverju sinni.

Í nýársræðu sinni til þjóðarinnar nú um áramótin, talaði hann þó ekki skýrar til þjóðarinnar en það varðandi það hvort hann ætlaði að gefa kost á sér áfram, að enginn maður vissi á eftir hvað honum bjó í huga. Hann var nefnilega bara eins og hann hefur alltaf verið - hinn óræði og slungni pólitíkus !

En þetta er að sjálfsögðu ekki hreint framferði af hans hálfu - hvorki gagnvart þjóðinni né gagnvart þeim sem hugsanlega hafa verið með það í huga að gefa kost á sér í kosningum til embættis forseta Íslands á þessu ári.

Fyrri forsetar hafa mér vitanlega talið sér skylt að segja þjóðinni hreint út í nýársávarpi aðkomandi kosningaárs, hvort þeir hygðu á frekara framboð til embættisins eða ekki. Það er því í meira lagi skrítið að maður sem haft hefur mörg orð um það að ráðamenn eigi að vera skýrir og afdráttarlausir í orðum sínum þegar þeir ávarpi þjóðina, skuli hafa talað með þeim dularfulla hætti sem forseti gerði um síðustu áramót.

Af hverju skyldi hann hafa valið að tala svona óskýrt um mál sem hefði þurft að setja fram með skýrum og skilmerkilegum hætti ?

Við skulum nefnilega gera okkur fulla grein fyrir því að það hefur verið gert vitandi vits og ákveðinn tilgangur legið á bak við þann gjörning.

Og það þarf svo sem ekki að vera erfitt að átta sig á því hvað valdið hafi þessum ólíkindalátum forsetans. Með þessu er hann sennilega að reyna hið ómögulega - að vera sjálfum sér samkvæmur.

Forseti hefur nefnilega látið orð falla um það í liðnum tíma, að sextán ár í embætti forseta væri langur tími, og margir hafa því álitið að hann myndi láta þar við sitja, en nú er staðan einfaldlega sú að aumingja manninn langar til að vera lengur á Bessastöðum !

Og þá er leiðin þessi, að fá gamla vini og áhangendur til að safna undirskriftum til að skora á hann að gefa kost á sér áfram. Og Mikki mús og margir fleiri eru - eins og fram hefur komið - tilbúnir að styðja hann !

Það þarf svo sem ekki að kenna Ólafi Ragnari Grímssyni neitt í svona málum. Hann þekkir þetta allt saman og veit alltaf hvað hann á að gera til að tolla á sviðinu meðan leikritið er í gangi. Í framhaldinu getur hann svo sagt hálfpartinn afsakandi : " Ja, ég ætlaði nú að hætta, en vegna hins mikla fjölda áskorana sem komið hafa fram, get ég ekki annað en orðið við beiðni svo stórs hluta þjóðarinnar og gefið kost á mér áfram !"

Það verður ekki af Ólafi Ragnari skafið að hann er fléttumeistari mikill í stjórnmálataflinu, en hann er það fyrst og fremst fyrir sjálfan sig en ekki íslensku þjóðina. Og eins og ráða má af nýárs-ávarpi hans, þá virðist lýðræðishugsun greinilega ekki aðalatriðið í þankagangi hans, frekar en margra annarra ráðamanna okkar, heldur öllu frekar ferilskráin - og það sem kalla má - óhófleg metnaðarlöngun til valda og áhrifa.

Það verður líklega dauflegt fyrir Ólaf Ragnar að lifa þegar Bessastaða-tími hans er að baki, því það hlýtur nú að koma að því að hann hætti þó hann hætti ekki núna. En lýðræði verður vonandi til á þessari jörð og í þessu landi eftir hans dag, þó hann hafi ekki lagt því sérlega mikið lið - að mínu mati - meðan hann hafði sín góðu tækifæri til þess.

Það sama má reyndar segja um stjórnmálamenn þessa lands, sem virðast tækifærissinnar upp til hópa og seint verður sagt að hugsjónirnar flækist fyrir þeim. Fæstir þeirra virðast ná því að rísa  yfir meðalmennskuna og það er vissulega sárt til þess að vita. Ísland á sannarlega skilið betra forustulið en það sem nú situr á þingi og virðist einkum gera sér far um að lifa fyrir ofan þjóðina, án þess að láta sig  nokkru skipta örlög mannkjarnans í landinu.

En fyrir hetjulega barátta liðinna kynslóða erum við Íslendingar hér enn og við þurfum að standa okkur í vörn þjóðlegrar samstöðu, svo verk kynslóðar foreldra okkar og kynslóðar foreldra þeirra, verði ekki rifin niður að fullu og sett í eld sérhagsmunahítar þeirrar yfirstéttar sem sköpuð hefur verið og hlaðið linnulaust undir í landinu síðastliðinn aldarfjórðung eða svo.

Þegar frjálshyggjan var kynnt hér á landi um 1980, sannaðist fljótt að þegar sérgæskan fer upp fer manngæskan niður. Frjálshyggja er útfarin hægri stefna sem þjónar eigingirni og sérhagsmunum út í æsar.

Heitið er auðvitað sérvalið í blekkingarskyni, en boðar í raun frelsi fárra til að kúga marga, frelsi hinna auðugu til að fara sínu fram og standa ofar lögunum. Frjálshyggja er því andheiti lýðræðis og ógnun við það. Efnahagskollsteypan var skilgetið afkvæmi frjálshyggju-stjórnarfarsins sem réði hér svo lengi fyrir 2008 og leiddi af sér þá   miklu ógæfu fyrir land og þjóð sem hrunið var og er.

Mannkynssagan sýnir okkur að þegar miklir ólgu og erfiðleikatímar fara um þjóðfélög, er tiltölulega algengt að upp rísa mikilmenni meðal þjóða, menn með sýn fyrir nýja framtíð, menn sem taka að sér að leiða þjóðir sínar í gegnum fár og hörmungar yfirstandandi tíma og verða viðurkenndir leiðtogar lands og lýðs. Slíkan mann áttum við í Jóni Sigurðssyni en síðan hefur enginn risið með slíku atgervi til vegs og virðingar í þessu landi.

Hvernig skyldi standa á því ? Ekki ætti menntunina að vanta, þegar það liggur fyrir að ungt fólk, svo þúsundum skiptir,  er útskrifað sem langskólagengnir sérfræðingar á svo til öllum sviðum samfélagsins, með meistaragráður í þessu og hinu. Svo það er von að maður spyrji, hvar er atgervið, hæfnin og sigurviljinn til þjóðlegrar umsköpunar og lýðræðislegra framfara ?

Ég held að það vanti dálítið mikið í þetta gerilsneydda gráðusafn sem er haft fyrir menntakerfi hérlendis. Mér sýnist við aðallega vera í því að skófla fólki í gegnum það - án þess að hirða um eða athuga hvort hæfileikar séu með í för.

Ég held, því miður, að það vanti alveg sálina í íslenskt menntakerfi !  Við sendum langskólagengið fólk í þúsundatali út í þjóðfélagið, en það virðist fá litla sem enga siðfræðilega undirstöðu í skólunum, enga þjóðlega framtíðarsýn. Því virðist bara innprentað að það sé komið með lærdómsgráður og eigi því að geta spjarað sig í lífinu - öðrum betur - prívat og persónulega. Það sé það eina sem skipti máli.

En slíkt hafurtask yfirborðsmennskunnar er ekki nægilegt veganesti fyrir einn eða neinn. Hugarfarsleg hollusta við raunhæf gildi er þar í sálrænu lágmarki. Menntun og reynsla þarf að haldast í hendur og nám sem einskorðast við sjónarmið efnishyggju og sérgæsku án andlegra hugsjóna er kjarnalaus niðurstaða.

Við þurfum að breyta þessu, við þurfum að fella niður hin lágkúrulegu viðmið sem gilt hafa og hefja andann ofar efninu, hefja hann til vegs og virðingar í þjóðlegri hugsjón fyrir góðu, mannlegu samfélagi.

Íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum margt - við Íslendingar höfum orðið að þola hafísa og eldgos, hungur og kuldavetur, svartadauða og stóru bólu, kirkju og konungsvald, Móðuharðindi og mikinn landflótta, spánsku veikina og spillt ríkiskerfi, kvótakerfi sérhagsmuna og auðsöfnunar fárra útvaldra, frjálshyggju og efnahagshrun.

Nú þurfum við að standa saman gegn arðráni og sérhyggju, standa saman í nafni lýðræðis og eðlilegra mannréttar sjónarmiða og byrja að byggja upp heilbrigt samfélag,  - samfélag sem treystir tilveru sína á öllum þeim góðu gildum sem hafa gert það að verkum að íslensk þjóð er - þrátt fyrir allt - ennþá til !

 

Flutt í Kántrý-útvarpinu nýlega í þættinum - Á lýðræðisnótum - við mikla andstöðu tæknipúkans, sem gerði mér og útvarpsstjóra lífið leitt.

 

 

 

 

 


Nokkur orð um meint hitasóttar-hugarfar á Skagaströnd

Að undanförnu hefur nokkuð verið talað um að sitthvað hafi breyst við efnahagshrunið á Íslandi, en alveg eins og ekki síður mætti tala um hvað margt hefur ekki breyst sem þurft hefði að breytast. Eitt af því sem ég tel að þurft hefði að breytast er til dæmis hugarfar ráðamanna á Skagaströnd og víðar gagnvart almannahag.
Það er stundum eins og menn í opinberum stöðum geri sér litla sem enga grein fyrir því hvaða áhrif ákvarðanir sem þeir taka hafa á afkomu fólks og aðstæður eða hvenær heppilegur tími sé til að ráðast í þetta og hitt með tilliti til þeirra hluta.
Til margra ára fyrir hrun voru ráðamenn hér á staðnum greinilega mikið að hugsa um hitaveitu og það svo mikið að það hefði mátt halda að þeir sumir hverjir væru komnir með hitasótt af völdum þess.
Og þó að stórveltutímar gullkálfsáranna skiluðu sér almennt lítið til Skagastrandar, voru menn býsna hátt uppi varðandi þessi mál og sáu víst margt í hillingum.
Það var eins og hugsun þeirra væri alveg heltekin því draumsæis viðhorfi að íbúafjöldi Skagastrandar færi lóðstrikið upp í hæðir, ef það bara tækist að koma hér upp hitaveitu. Þeir virtust sjá fyrir sér í hillingum þúsund manna byggð undir Borginni, þar sem allir veltu sér í ylnum frá hágæða hitaveitu, sem leidd yrði í gegnum Blönduós til Skagastrandar, og kostnaðurinn við inngönguna í þetta hitabelti væri hreint aukaatriði miðað við ávinninginn !
Fólk gæti bara flatmagað í funhitanum - og þótt það væri kannski atvinnulaust og ætti við ýmislegt að stríða, þá væri því að minnsta kosti ekki kalt !
Svona virtist staðan vera máluð upp fyrir hrun og var ekki laust við að sumir borgarar blinduðust hálfpartinn af þessari glansmynd og lygndu augunum af vellíðan þegar þeir hugsuðu til komandi sælutíma.
En svo breyttist margt býsna snögglega við að risavaxin spilaborg spákaupmennskunnar í fjármálageiranum hrundi, en henni hafði verið hrúgað upp af bönkum og bröskurum í gráðugri auðsöfnun, sem ekkert raunhæft eftirlit var haft með af hálfu þeirra sem stýrðu ríkinu.
Síðan hefur afleiðingum þessa mikla hruns verið sturtað yfir almenning með margvíslegum hætti og það ætti auðvitað ætlað réttargæslulið fólksins gjörla að vita, það er að segja, þeir einstaklingar sem sitja í sveitarstjórnum vítt og breitt um landið.
Eftir hrun hefði því mátt búast við því að raunsærri hugsanir hefðu tekið yfir hjá ráðamönnum og draumsýnir dofnað að sama skapi, en því virðist ekki að heilsa. Enn virðist viðhorfið það sama hjá ráðamönnum hér varðandi skuldaveituna, svo ekki er sjáanlegt að efnahagshrunið hafi á nokkurn hátt slegið á hitasóttina.
En kostnaður við fyrrgreindar draumsýnir er líklega þegar orðinn allmikill og efnaleg staða almennings orðin talsvert önnur en hún var fyrir hrun og er breytingin sannarlega ekki til batnaðar.
Það er líka ekki öllum gefið að reka hitaveitu svo vel sé og dæmi eru til fyrir því að bæjarfélög hafi selt hitaveitu sem átti að vera gullhúðuð í upphafi og þótt víst betra að reka hana ekki á eigin vegum.
Svo ýmsir hitaveitudraumar hafa nú endað með nokkuð öðrum hætti en vonir stóðu til í byrjun. Það er nefnilega enganveginn fullvíst að ávinningurinn einn sé framundan þegar farið er út í svona hluti.
Að mörgu þarf að gæta og margt er að varast  og þegar gylling mála fer að verða óþægilega mikil eru líkurnar ekki minni fyrir því að menn reki sig á - eins og dæmin sanna.
Skemmst er að minnast verðbréfanna sem bankarnir með sína sérfræðinga ráðlögðu fólki að kaupa og ekki átti að vera hægt að tapa á. Svo urðu þau skyndilega verðlaus vegna fjárhættuspils þeirra sem ætluðu að ávaxta þau svo ríkulega fyrir skjólstæðinga sína og fjöldi fólks tapaði aleigunni. Enginn bar þó neina ábyrgð, jafnvel ekki þeir sem áður höfðu sagt að þeir væru á háum launum vegna hinnar gífurlegu ábyrgðar sem hvíldi á þeim. Allir þóttust með hreinan skjöld. En afleiðingarnar eru þær, að síðan er traust milli aðila orðið nokkuð sem enginn þekkir lengur í þessu þjóðfélagi !
Traust til forseta, ríkisstjórnar, þings og dómsvalds, allra yfirvalda - þar með talið sveitarstjórna í landinu, er sem sagt í algerri núllstöðu !
Fyrir skömmu var sagt í ríkissjónvarpinu, að þau heimili sem ættu erfitt með að ná fjárhagslega endum saman í þessu þjóðfélagi væru fleiri en nokkru sinni fyrr. Og mestanpart væri sú ömurlega staða tilkomin vegna séríslenskrar kreppusköpunar. Svona upplýsingar myndu nú einhversstaðar teljast segja sitt um ástand þjóðfélagsmála.
En samt virðist sveitarstjórnin á Skagaströnd sitja við sama keip og hún gerði fyrir hrun, og jarðsamband hennar við almenning á staðnum og efnahagslegar aðstæður manna, sést kannski best á því hvernig hún hefur farið skýjum ofar í þessu máli.
Sumir borgarar hér á Skagaströnd segjast jafnvel ekki vera vissir um það hvort sveitarstjórnin hér sé raunverulega að vinna fyrir Skagaströnd í þessu máli, því öllu heldur mætti halda út frá ýmsu að hún væri þar frekar að þjóna undir hagsmuni Blönduóssbæjar !
Og kannski á það líka sínar skýringar ef svo er. Kannski er þetta hitaveitumál fyrsta skrefið að vissum hlutum sem hafðir eru í sigtinu og eiga fram að ganga innan tíðar ?
Þeir sem hafa viljað fara hægt í sakirnar varðandi þetta hitaveitumál, hafa gjarnan fengið það á sig frá ráðamönnum að þeir væru á móti framförum. Slík viðbára hefur oft nægt til að þagga niður í mönnum, því fæstir vilja sitja undir því að þeir séu á móti framförum, jafnvel ekki hörðustu íhaldsmenn.
En hér er spurningin ekki um það hvort menn séu með eða móti framförum, heldur hvort meintar framfarir séu raunverulega í réttum gír með tilliti til efna og aðstæðna hjá fólki. Framfarir eiga að vera í þágu fólks og velferðar þess, en ekki eitthvað sem kemur til með að valda því fjárhagslegum erfiðleikum og það á tímum þegar meira en nóg er um slíkt.
Við núverandi aðstæður óvissu og kreppu í þjóðfélaginu, ætti þetta hitaveitumál sannarlega ekki að vera neitt forgangsmál og sumir gætu jafnvel sagt að það væri ábyrgðarleysi og ævintýramennska að ana út í slíka hluti eins og horfir við í málum í dag.
En þegar menn eru sjáanlega komnir með hitasótt í meðgöngu mála, er mjög hæpið að þeir taki réttar ákvarðanir, og satt að segja hefur mér oft fundist sem réttar ákvarðanir ættu undarlega litla samleið með ráðamönnum á Skagaströnd.
Í mínum huga eru nefnilega réttar ákvarðanir yfirvalda eitthvað sem á að vera hinum lifandi almenningi í hag, eitthvað sem kemur fólki í dag til góða, eitthvað sem gerir lífsbaráttuna léttari fyrir fólk, en ekki eitthvað sem þyngir skuldaálögur á fólki og það - eins og fyrr segir - á tímum þegar nóg er um slík áföll sem líka eru tilkomin - af mannavöldum !
Nú hefur það verið kunngjört alla leið niður til almennings, úr hásölum höfuðskepnanna, að sveitarstjórn hafi skrifað undir samning við RARIK um lagningu hitaveitu til Skagastrandar. Sá gjörningur mun hafa verið undirritaður 30. desember sl. og virðist sem miklu hafi skipt að koma þessu máli frá fyrir áramót og kunna að vera vissar skýringar á því og það jafnvel lagalegar. Eftir það var boðað til opins kynningarfundar 5. janúar - líklega til að upplýsa almenning um þær byrðar sem búið væri að ákveða að leggja á hann.
Annmarkar fulltrúalýðræðisins koma skýrt fram í þessum vinnubrögðum og á þeim sést hvað forræðishyggja er orðinn mikill og leiðandi þáttur í ákvörðunum sveitarstjórnar á Skagaströnd.
Einn ágætur samborgari sagði við mig, að sveitarstjórnin væri svo meðvituð um það að hún væri staðsett mitt í " villta vestrinu " að hún skyti fyrst og færi svo að kanna málið.
Kannski er það svo, að minnsta kosti er ljóst að þegar sveitarstjórn fer að skjóta með þessum hætti - hverfur lýðræðið af sjónarsviðinu.
Ég efast mikið um réttmæti þessarar hitaveituframkvæmdar, sérstaklega út frá þeim tímapunktum sem framkvæmdin miðast við. Það hefði að minni hyggju átt að slá þessum málum á frest í 3 - 4 ár, eða þangað til að hugsanlega og vonandi væri séð fyrir endann á efnahagslegum þrengingum fólks. Það eru nefnilega ekki allir með þau launakjör sem sumir sveitarstjórnarmenn á Skagaströnd hafa.
Það hefði því margra hluta vegna átt að bíða um sinn með þetta mál og þó einkum með tilliti til þeirrar staðreyndar - að tímasetning framkvæmda virðist bókstaflega miðuð við að þeim sé hellt yfir fólk við verstu efnahagsaðstæður sem skapaðar hafa verið í þessu landi frá lýðveldisstofnun.  
Ég tel líka að leit að heitu vatni í nágrenni Skagastrandar hafi verið  handahófskennd á sínum tíma og enganveginn sé fullreynt að ekki sé hægt að finna heitt vatn hér á næstu grösum. En það er eins og sumir hafi oft meiri áhuga á því að sækja vatnið yfir ána.
Það er ekki hægt að ætla annað út frá framvindu mála, en að ráðamenn sveitarfélagsins séu búnir að gleyma þeirri óþægilegu staðreynd að hér varð efnahagslegt hrun fyrir rúmum 3 árum og svo virðist sem þeir hafi enga hugmynd um það hvernig umrætt hrun hefur leikið heimilin í landinu og almannahag.
En ég þykist líka vita að svo geti verið, að það sé í raun og veru RARIK sem heldur um taumana í þessu máli og sveitarstjórnarmenn á svæðinu sitji bara sem hver önnur þægðarskinn aftan til í áætlunar-vagni sem knúinn sé af þrýstingsvaldi kerfiskarla fyrir sunnan !
Það gæti svo sem vel verið, enda er það ekkert nýtt að málum úti á landi sé fjarstýrt meira eða minna með slíkum hætti og ráðamenn hér heima séu í rauninni engir ráðamenn þegar allt kemur til alls.
Og sjálfsagt er oft erfitt að standa gegn ýmsum kröfum að sunnan, enda þörf á vaskri forustu þegar þannig viðrar og verja þarf hagsmunafley almennings. Litlir leiðtogar ráða auðvitað ekki við slíkt eins og dæmin sanna.
En eitt er að minnsta kosti ljóst varðandi þessa hitaveituframkvæmd sem nú á að fara í gang, og það er að hún er sjáanlega -  eins og hún mun vera hugsuð af yfirvöldum yfirvaldanna, á bak við tjöldin, -  veigamikið skref að þeim fullnaðar gjörningi að sameina Blönduós og Skagaströnd í eitt sveitarfélag !

Flutt í Kántrý-útvarpinu 19. jan. sl. í þættinum Á Lýðræðisnótum

                                          

 
 

Eru pólitíkusar á Íslandi ofar lögum ?

Nú virðist ljóst orðið að það ná engin lög yfir íslenska pólitíkusa hvað svo sem þeir gera af sér. Landsdómur er sem sagt bara steindautt lagaákvæði sem aldrei hefur verið ætlunin að framfylgja með einum eða neinum hætti.
Ég þóttist reyndar strax vita það vegna óhreinleika yfirvaldanna, að það myndi aldrei koma neitt út úr ákærumálinu gegn Geir Haarde. Það var bara verið að halda ákveðna leiksýningu til að kasta ryki í augu almennings og láta menn halda að lögin í landinu næðu yfir alla.
Það stóð aldrei til að draga neinn til ábyrgðar fyrir hin stórfelldu efnahagslegu afbrot sem voru framin í bönkum og fjármálastofnunum landsins í skjóli aðgerðarleysis stjórnvalda.
Það má nefnilega ekki gleyma því að útrásargreifar og aðrir þjóðarógæfumenn störfuðu í því skjóli sem pólitískir valdamenn sköpuðu þeim og skapa þeim enn.
Þessir pólitísku bakhjarlar fjárglæframannanna eru því mestu þjóðar-bölvaldarnir því ábyrgðin er fyrst og fremst þeirra. Þeir voru kosnir á öryggisvaktina fyrir þjóðina og sváfu þar á verðinum. En vegna spillingar-samtryggingar pólitíkusa allra flokka eru þeir greinilega hafnir yfir lög og engin ábyrgð nær til þeirra sama hvað þeir brjóta af sér. Blákaldur veruleikinn blasir við með þeim hætti í dag.
Fyrir heimsstyrjöldina síðari var Stanley Baldwin forsætisráðherra Bretlands í nokkur ár og talinn af mörgum mikill þjóðskörungur, arftaki hans sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins var Neville Chamberlain.
Þessir menn sváfu á verðinum fyrir öryggi Bretlands. Þeir sleiktu Hitler upp og trúðu hverju hans orði. Boðsmiðinn frá Hitler að styrjöldinni miklu var í augum Chamberlains trygging friðar og þessi yfirgengilegi skynskiptingur sagði með tárin í augunum eftir heimkomuna frá Munchen : " Sjá, ég færi yður frið um vora daga ! "
Þessir tveir leiðtogar óðu í villu og svima með þeim hætti að blinda þeirra er og verður sagnfræðingum og ekki síður sálfræðingum endalaust viðfangsefni.
Pólitískir samherjar reyndu um skeið að halda einhverju á lofti þessum félögum sínum til afbötunar, en það dugði skammt því frammistaða þeirra dæmdi þá sjálfkrafa í augum þjóðarinnar. Þeir áttu sér ekki viðreisnar von.
Almenningur þurrkaði þessa menn burt úr vitund sinni. Venjulegt fólk talaði ekki um þá og hafði ekkert við þá að virða. Þeir voru mennirnir sem sváfu á öryggisvaktinni fyrir Bretland og eftirmæli þeirra hurfu í vindinn eins og annað sem er einskis virði. Þó að pólitísk samtrygging væri auðvitað fyrir hendi í Bretlandi eins og hér, hafði hún ekkert að segja varðandi þetta, því almenningsálitið hafði þegar fellt sinn endanlega landsdóm yfir þessum spilltu gæslumönnum sérhagsmunanna. Eins mun sagan skilja við málin hér.
Þó að tiltekinn forsætisráðherra hafi af mörgum verið talinn skörungur hér á árum áður, átti hann mestan þáttinn í því efnahagshruni sem hér varð og arftaki hans færði okkur ekki frið um vora daga, heldur hrun, féflettingu og gjaldþrot.
Við getum í gegnum þessa líkingamynd séð að við höfum átt okkar Baldwin og Chamberlain. Og pólitísku samherjarnir eru í óða önn að bera í bætifláka fyrir þá og útvega þeim aflátsbréf frá hinni gjörspilltu samtryggingarelítu allra flokka.
En almenningur lætur ekki blekkjast. Landsdómur almenningsálitsins mun hafa sinn gang og honum verður hvorki hnekkt eða áfrýjað.
En hann mun ekki bara gilda fyrir þá sem fyrir sökum eru hafðir, eins og í pottinn hefur verið búið. Hann mun um leið gilda sem áfellisdómur yfir  alla pólitíkusa landsins, þennan yfirgengilega sérhagsmunahóp sem hefur sett sig ofar lögum, með því að ákveða að sjá til þess að enginn úr hópnum geti verið dreginn til ábyrgðar fyrir meintar sakir gegn þjóðarhagsmunum.
Lýðræðisfyrirkomulag lands þar sem þjóðþingið hegðar sér með slíkum hætti sem í þessu máli, hlýtur að vera orðið mjög vanþroskað fyrirbæri. Löngu er því orðið tímabært að almenningur taki sér það verkefni fyrir hendur að hreinsa skítinn af skildi lýðræðisins í landinu og koma á fót virðingarverðu alþingi !

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband