Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Foringjalausi flokkurinn !

Enn einu sinni hefur það sannast að Samfylkingin er svo mikill jafnaðarmannaflokkur að það er engin leið fyrir söfnuðinn að koma sér upp formanni. Þegar manneskja í flokknum býður sig fram gegn sitjandi formannsnefnu án nokkurs undangangandi undirbúnings, svona líklega til þess að lýðræðisleg kosning geti farið fram, koma frambjóðendur út á jöfnu. Skyldi nokkur jafnaðarmannaflokkur í heiminum vera svona jafn yfir línuna ?

Öll þessi ár frá því að Samfylkingin var stofnuð hafa menn verið að basla við að koma sér þar upp sæmilega frambærilegum formanni, en það virðist bara ekki hægt. Enginn hefur náð að höndla embættið með þeim hætti sem þörf er á. Það virðist bara ekki framkvæmanlegt að vænlegt foringjaefni geti komið fram og risið upp úr allri þessari meðaldrægu kratakássu !

Á sínum tíma voru gerðar svo miklar kröfur til Ingibjargar Sólrúnar að það lá fyrir frá byrjun að hún myndi að lokum brotlenda. Hún hefði aldrei getað mætt þeim væntingum með viðunandi hætti sem gerðar voru til hennar, en svo kom hrunið og feykti henni af stallinum.

En þó það hefði ekki komið hrun hefði Ingibjörg hrunið, því hún var komin yfir valdahæðina og farin að hrasa talsvert niður á við hinum megin.

Hún gerði sér líklega grein fyrir því að það væri að falla undan henni og því greip hún í Geir og hélt að með setu í ríkisstjórn myndi hún geta framlengt völd sín og áhrif en það var falsvon.

Hún var í raun orðin fallin stjarna þá þegar og að halda að það væri eitthvað hald í Geir sýnir glöggt að dómgreind hennar var ekki lengur upp á það besta. Það var hrein og klár örvænting sem stjórnaði gerðum hennar þar !

Það fer ekki vel með heilbrigða skynsemi að vera lengi til húsa hjá krötum og það sannaðist á Ingibjörgu Sólrúnu og hefur sannast á fleirum bæði fyrr og síðar og mun halda áfram að sannast.

Árni Páll Árnason er ekki foringjaefni og verður það seint. Til þess er hann of flatur, of sjálfumglaður og of tilgerðarlegur. Hann er ekki afgerandi í málflutningi, hann talar út og suður og kemst sjaldan þannig að kjarna málsins að fólki skiljist hver hann er. Hann hefur ekki skýra sýn fyrir augum hvað beri að gera og hugsjónamaður er hann lítill sem enginn. Hann er meira í þörf fyrir að vera leiddur en leiða.

Það er því í alla staði við hæfi að hann lafi inni sem formaður Samfylkingarinnar á einu atkvæði – sínu eigin atkvæði !

Samfylkingin er eiginlega ekki íslenskur flokkur, þar er miklu fremur um að ræða einhverskonar evrópska samsuðu sem á afltaug sína úti í Brussel og virðist ekki geta séð að Ísland eigi sér aðra framtíð en sem útibú frá ESB ! Það virðast engar lausnir liggja á félagslegu færibandi krata nema í gegnum aðild að ígildi erlends konungsvalds ! Hin þjóðlega reisn innan flokksins er yfirleitt í svo lágum gír að hún nær sjaldnast venjulegri naflahæð !

Sumir halda að Samfylkingin sé arftaki Alþýðuflokksins, en ef svo er, virðist arfleifðin hafa glatast að talsverðum hluta við millifærsluna. Þeir fáu kostir sem Alþýðuflokkurinn gat státað af hafa nefnilega ekki skilað sér svo nokkru nemi, en hinsvegar hefur Samfylkingin flesta af hinum mörgu göllum Alþýðuflokksins hvort sem þeir hafa erfst eða sprottið upp af sjálfu sér í þessari nýju gorkúlu ætlaðrar jafnaðarmennsku. En ef til vill er um arfleifð að ræða sem er enn annarlegri en sú frá Alþýðuflokknum ?

Kannski fluttist yfir í Samfylkinguna einhver görótt fylgja frá Þjóðvaka, einhver afstæð og uppskrúfuð Jóhönnugerjun sem blandar ólyfjan í íslensk stjórnmál ofan á alla þá eitrun sem þar er fyrir ?

Forsendur mála eru að minnsta kosti þannig í pólitísku samhengi hlutanna, að það er varla hægt að búast við því að einhver foringi verði til við þær aðstæður sem ríkt hafa og ríkja enn í þeirri flokksónefnu sem Samfylkingin er. Barnasjúkdómarnir virðast svo miklir og margir innan flokksins að það hálfa væri nóg.

Það má líka vissulega spyrja í fullri alvöru af hverju Samfylkingin sé yfirleitt að reyna að koma sér upp formanni ? Er ekki langheppilegast og best við hæfi fyrir flokk af þessu tagi að formannstöðunni sé jafnað út í þriggja manna nefnd, þar sem sitji einn og hálfur karl og ein og hálf kona ?

 

 


Er gerlegt að segja gleðilegt sumar ?

Þá er dagatalið að segja okkur að vetur sé liðinn ! Það er fagnaðarefni því flest erum við líklega sólskinsbörn í hjörtum okkar. Veðurfarið í vetur hefur óneitanlega verið nokkuð sviptingasamt og heldur þreytandi. Það hafa gengið stöðugar lægðir yfir landið. Það er því flestum farið að lengja eftir sól og blíðu og gott væri að sumarið ætti sem mest af slíku fyrir landsfólkið.

Það eru hinsvegar ýmis skuggaský á himni lífs okkar og margt sem segir okkur að þrátt fyrir mikið tal um miklar auðlindir lands og sjávar sé það enn sem fyrr ákveðin stefna auðvaldsafla landsins að venjulegt fólk eigi ekki að njóta þeirra í neinu. Almennir launþegar virðast nánast eins og þrælar í augum gróðapunga sem hafa erft auð og allsnægtir og hafa aldrei kynnst því hvað það er að heyja lífsbaráttu. Lífskjaralægðir eru því sem löngum fyrr almenningsfylgja á Íslandi.

„Ákvarðanir sem teknar eru á stjórnarfundum eru óafturkallanlegar, þetta er búið og gert,“ sagði nýlega einn úr slíkum gróðapungahópi um tiltekið mál. Það er beinlínis eins og að ætlast sé til að hnötturinn fari út af brautinni að fara fram á eitthvað slíkt. Það er sjáanlegt á öllu að íslenskur hroki stendur erlendum hroka hvergi að baki !

Og fjármálaráðherrann veit nákvæmlega hvað hægt er að skenkja láglaunafólki og hvað landið þolir í þeim efnum, alveg upp á krónu. Þar er um að ræða sama manninn og vissi hvað hann þurfti að skenkja útgerðinni eftir að hann komst til valda og beið ekki boðanna með það. Samt sagðist hann hafa komið að ríkisbúinu í mun verra horfi en hann hefði búist við ?

Hann var bara fúll yfir því að Steingrímur skyldi ekki vera búinn að skíthreinsa ríkisgeirann að fullu eftir sukkið og svínaríið hérna um árið – sem vel á minnst - hverjir stóðu fyrir ?

Það er eins gott að slíkir menn ráða ekki sól og sumri. Ég er hræddur um að almenningur þessa lands sæi ekki mikið af þeim lífshlunnindum ef silfurskeiðungastjórnin ætti að deila þeim gæðum út. Þá yrðu sól og sumar strax gerð að sérhagsmunavöru – fráteknu yndi útvalinna !

En það er hinsvegar ekki gott fyrir fólk að ganga inn í sumarið með allt ástand á vinnumarkaði eins ótryggt og það er nú um stundir. Það er í rauninni hábölvað mál fyrir land og þjóð. En nú er fólki loksins nóg boðið. Nú hefur deigt járn verið brýnt svo það fer að bíta !

Ráðamenn með hugarfari Lúðvíks XVI eru tímaskekkja, meira að segja á Íslandi ! Það er gjörsamlega óþolandi og ómögulegt fyrir almennt launafólk að sitja áfram undir þeirri fyrirlitningu sem því er sýnd með framkomu Samtaka atvinnulífsins og bakhjarls þeirra - ríkisstjórnarinnar. Íspinnastefnan - sem ein virðist í boði – er móðgun við fólk og eins og hráki hrokans á allt sem mennska stendur fyrir. Ef slík stefna á að gilda mun hún granda mun fleiru hérlendis en gott mun þykja !

Samtök atvinnulífsins spila á gamla strengi og reyna enn sem fyrr að hræða fólk með verðbólgutali. Og enn er sagt að verið sé að vinna að því að koma hér upp aðstæðum sem tryggt geti viðunandi kaupmátt ! En þeir hafa sagt þetta í áratugi og aldrei meint neitt með því, enda kemur aldrei neitt út úr þessu jarmi þeirra. Þarna er alltaf verið að vísa til einhvers sem aldrei mun koma fyrir þeirra tilverknað !

Og hvernig á líka að byggja eitthvað heilbrigt upp í landi þar sem engin vitræn fjármálastjórn er til staðar, aðeins sérhagsmuna-fyrirgreiðslupólitík út í eitt !

Það vita áreiðanlega allir almennir launþegar í landinu fyrir hvað núverandi fjármálaráðherra stendur og eins að forsætisráðherrann er ekki fjarri sömu miðum. Það þarf enginn að halda því fram við mig að þessir menn séu með hjarta fyrir almannahagsmunum. Og það er raunköld staðreynd, að aldrei er eins erfitt að semja um mannsæmandi laun við atvinnurekendur eins og þegar þeir vita að andlegir blóðbræður þeirra eru við stjórnvölinn á ríkisfleyinu !

En fólk þarf að hafa eðlileg mannréttindi í þessu landi og það getur verið erfitt fyrir það að njóta sólar og sumars þegar allt annað segir því með bláköldum staðreyndum að engin velferðarstefna í mannfélags-legum skilningi sé til í neinni mynd hjá íslenskum yfirvöldum. Þar stjórni öllu auðklíka sem krefst þess með öllum athöfnum sínum dags daglega að almenningur fái aldrei hlutdeild í auðlindum lands og sjávar.

En við almennir launþegar höfnum íspinnastefnunni og mismununarkerfinu sem enn einu sinni er verið að trekkja upp og krefjumst þess að við okkur verði samið um laun á heilbrigðum grundvelli. Að það sé viðurkennt að við séum manneskjur og að við höfum fyllsta rétt til að njóta sómasamlegra lífskjara í þessu landi – ekki síður en aðrir !

 


Mannfélagsbölvun !

Fjármálastjórnun á Íslandi er mannfélagsbölvun, hvort sem litið er til kerfisathafna í því tilliti eða einkageirans. Markmiðið er óheilbrigt og tekur fyrst og fremst mið af taumlausri ágirnd og skefjalausu arðráni. Það er ekki stefnt að því að byggja upp samfélagið heldur rífa það niður !

Hin gömlu gildi sem byggðust á því að bóndi væri bústólpi, bú væri landstólpi og slíkt ætti rétt á virðingu, eru löngu aflögð og lítils metin á Íslandi. Hér er til dæmis ekki mögulegt að borga lán niður. Fólk borgar og borgar, en lánin hækka bara því milljónir fara í vaxtagreiðslur og ruddahít fjármálakerfisins !

Upphafleg skilgreining á því að taka lán var að það ætti að vera bjargráð, það ætti að vera hjálp að því fyrir fólk í vanda, það ætti að vera leið til lausnar ! En þannig er það ekki á Íslandi. Hér verða lán að drápsklyfjum í lífi fólks. Hér er það arðrán banka og lánastofnana sem hefur algeran forgang í öllu. Um það snýst allt kerfið að blóðsugurnar fái sitt og það með ofurálagi !

Á sama tíma og stækkandi hópur fólks býr við fátækt í þessu auðlindaríka landi, meðal annars af völdum hrunsins og glæpsamlegs framferðis hrunverjanna, fara hagsmunaklíkur í bönkunum enn á ný af stað með kröfur um himinháan launabónus fyrir vel unnin störf ! Hafa menn ekkert lært af reynslunni ? Eru menn enn jafn siðlausir og veruleikafirrtir og þeir voru fyrir hrun ? Hverskonar fólk er það eiginlega sem getur hegðað sér svona ?

Það sem hrunið sagði okkur skýrt og greinilega, var að heil þjóð hefði verið sett á skuldaklafa skæðustu framtíðarógnar ! Arfleifð okkar til næstu kynslóðar var þar stórlega spillt og ávöxtum dugnaðar tveggja kynslóða stolið í gegnum fáheyrt ferli lyga og samviskuleysis. Og um þessa verstu glæpi Íslandssögunnar sögðu varnaraðilar að þar væri enginn sekur, ekkert þyrfti að gera upp, þetta hefði bara farið svona og ekkert væri við því að gera !

Lánaleiðrétting sú sem Framsóknarflokkurinn vann sinn kosningasigur út á, reyndist eins og ég þóttist fyrirfram vita, fyrst og fremst skuldaleiðrétting fyrir hagsmuni banka og fjármálafyrirtækja, ekki fyrir fólkið. Mestur hluti þess fjár sem fór í þessa mjög svo áróðurstengdu leiðréttingu fór í sömu ræningjahítina sem allt hefur gleypt hingað til og auðvitað var fólkið sjálft látið borga hverja krónu með óbeinum hætti. Ef þessi leiðrétting hefði skilað sér fyrir fólkið eins og lofað var og það fyndi fyrir þeirri leiðréttingu með réttum og eðlilegum hætti, væri Framsóknarflokkurinn ekki hruninn að fylgi í skoðanakönnunum !

En Sigmundur Davíð segist vera hissa, sjávarútvegsráðherrann er hissa, Eygló Harðar og Gunnar Bragi eru hissa, en þetta fólk segir samt kokhraust í sjónvarpi að fylgið hljóti að skila sér síðar, þau séu fullviss um það ! En ef allt væri eins og það ætti að vera, ætti Framsóknarflokkurinn að vera á hátindi fylgis síns í dag, með sína miklu lánaleiðréttingu af höndum leysta – eða þannig ! En fólkið finnur lítinn sem engan mun, það finnur bara að allt er nánast við það sama ! Og það er líka að átta sig á því að sumir ætluðu sér bara að verða bjargvættir með því að gefa agnarögn af því sem var stolið ! Svo það þýðir ekkert fyrir Sigmund Davíð að syngja „ Ég kom í hlaðið á hvítum hesti“ þegar beinhörð rök reynslunnar segja okkur að hesturinn hafi verið svartur !

Íslenska fjármálakerfið er mannfélagsbölvun ! Það virkar á hverjum degi sem eitruð innspýting í íslenskt samfélag. Enginn banki í landinu heldur þannig á málum, að hann segi með fyrirgreiðslu sinni við viðskiptavinina, „ við eigum samleið, hagsmunir okkar fara saman í því að við viljum öll byggja upp gott samfélag !“

Nei, hugsunarhátturinn að arðræna kúnnana í gegnum endalaus þjónustugjöld, óheyrilegt vaxtaokur og allskyns álagsgreiðslur ræður öllu. Það er ekki verið að þjónusta og smyrja samfélags-tannhjólin til meiri framfara og velferðar, það er enn verið að hámarka allan gróða með sama græðgisandanum og tröllreið hér öllu á fyrirhrunsárunum !

Og af þessum – ég vil leyfa mér að segja – illa fengna ágóða, á vafalaust að greiða himinháan bónus fyrir vel unnin störf, samkvæmt hugsunarhætti sem ætti að vera útlægur orðinn í þessu samfélagi okkar hér við ysta haf !

Hvernig er það, eru ekki verkföll yfirvofandi og þegar í gangi þar sem fólk er að gera kröfu um mannsæmandi lágmarkslaun, hreint ekki himinháan bónus ? Hvernig mun þeim málum reiða af við þau skilyrði sem mannfélagsbölvun kallar yfir okkur ? Á hin afhjúpandi og afgerandi rannsóknarskýrsla Alþingis áfram að liggja úti í horni og rykfalla þar ? Á hin stóralvarlega sýkingargreining samfélagsins sem þar er undirstrikuð að fá að breiðast út að nýju án þess að nokkuð verði við því gert ? Til hvers gagns er Alþingi Íslendinga eiginlega ?

Ætlum við að búa áfram við þá mannfélagsbölvun sem hér um ræðir ? Ætlum við að láta áfram allt yfir okkur ganga og bíða þannig hinnar endanlegu kollsteypu ?

 

 


"Montprikið Monty" !

Margir hershöfðingjar í mannkynssögunni hafa orðið frægir af litlu tilefni. Sumir hafa orðið það fyrir undarlega duttlunga sögunnar eða kannski vegna þess að þeir hafa átt sterka verndara að. Dwight D. Eisenhower komst til dæmis mjög langt þó sumir bentu á að hann hefði persónulega ákaflega litla vígvallareynslu. Kannski hafði George C. Marshall töluvert að segja varðandi frama hans ?

Og svo er það maður nokkur sem hét Bernard Law Montgomery og varð breskur marskálkur, en hefur líklega aldrei verið neinn afburða herforingi, en öllu heldur frekjudallur af réttum stéttarstofni. Bretarnir eru alltaf samir við sig í snobbmennskunni. Archibald Wavell sem var yfir hermálum þeirra í Egyptalandi var sendur til Indlands og Claude Auchinleck látinn taka við. Hann undirbjó sókn í margar vikur og dró að sér það sem til þurfti, en þegar fór að nálgast að sóknin hefðist var honum skyndilega vikið frá og Montgomery látinn taka við því sagt var að Churchill hefði mislíkað kröfur Auchinlecks um stöðugt meiri tæki og tól.

En Montgomery tók bara við með sömu kröfur og síðan í fyllingu tímans hófst sóknin eins og ráð hafði verið gert fyrir. Og hver varð niðurstaðan ? Jú, Montgomery varð á svipstundu heimsfrægur, en enginn mundi eftir Auchinleck. Lítill vafi er þó á því að útkoman hefði orðið sú sama og aðkoma Montgomerys var ekki það sem skipti sköpum. Bretar voru einfaldlega orðnir töluvert betur búnir fyrir slaginn og Rommel fékk enganveginn birgðir í sama mæli. Montgomery hafði yfirhöndina í krafti aðstæðna en ekki endilega verðleika. Churchill hafði hinsvegar álit á honum en Auchinleck var ekki að sama skapi í náðinni og því fór sem fór.

Eftir El Alamein varð Montgomery svo hrokafullur og mikill með sig að hann varð erfiður í samstarfi og kvörtuðu bandarískir hershöfðingjar síðar í styrjöldinni mjög yfir tilhneigingum hans til að trana sér fram og valta yfir aðra. Hann óð uppi með ýmsar yfirlýsingar og talaði kokhraustur um „að hann ætlaði sér að fara sem fyrst til Berlínar og ljúka stríðinu !“ Reyndar var hann ekki einn um slíkt og mun Patton til dæmis hafa átt það til að tala í líkum dúr, enda hefðu þeir félagarnir verið nokkuð jafnir fiskar í hroka-spyrðu hershöfðingjaleiksins.

Ýmis herfræðiplön þessa alikálfs Churchills sem Montgomery óneitanlega var, munu hafa reynst meira en lítið gölluð og kostuðu líklega fjölda mannslífa. Þar má til dæmis nefna aðgerðina Operation Market Garden í september 1944. Ef til vill er erfitt að vita hvar ábyrgðin liggur í slíkum tilfellum, en það kom skýrt í ljós eftir þá hrakfallasögu að þegar herforingjar eru orðnir mjög háttsettir eru mistök þeirra varin í bak og fyrir.

Síðar á Eisenhower að hafa sagt afsakandi varðandi Market Garden málið, að góð aðgerð hefði þar spillst „vegna veðurs“ ! Líklega hefði hann sagt eitthvað svipað varðandi Normandý ef innrásin hefði mislukkast. Og umsagnir Montgomerys sjálfs um Market Garden eru í raun lýsandi dæmi um hrokkagikkshátt hans og ekki finnst þar bóla á neinni iðrun. Tindátaleikurinn átti hug hans allan !

Montgomery var fæddur 1887 og lést 1976, tæplega níræður, enda hafa drjúgmargir hershöfðingjar á síðari tímum orðið býsna langlífir, menn sem hafa sent tugþúsundir æskumanna út í dauðann, oft af litlu tilefni og takmarkaðri samvisku. Nefna má til dæmis að Douglas MacArthur varð 84 ára, Erich von Manstein 85 ára, Raoul Salan 85 ára, Maxwell Taylor 86 ára, , Omar Bradley 88 ára, Mark Clark 88 ára, Chiang Kai Shek 88 ára, Josip Broz Tító 88 ára, Kliment Voroshilov 88 ára, Semyon Budenny 90 ára, Edmund Jouhaud 90 ára, Arthur „Bomber“ Harris 92 ára, Georges Catroux 92 ára, Jacques Massu 94 ára, Philippe Pétain 95 ára, Alan Cunningham 96 ára, Claude Auchinleck 97, Maxine Weygand 98 ára, Matthew Ridgeway 98 ára og Winston Churchill með „blóð, erfiði, svita og tár“ varð sjálfur 90 ára þrátt fyrir að stunda lengst af heldur óholla lífshætti !    

Það verður sýnilega ekkert svona merkilegum mönnum að bana nema hin háa elli. En fyrir tilverknað þeirra og margvísleg mistök urðu sannarlega býsna margir að deyja ótímabærum dauða. Í því felst mikið fórnartjón en það er sjaldnast talað mikið um það, en hetjudýrkunarbullið iðkað þeim mun meira.

Strax eftir stríð eða 1946 var til dæmis gerð kvikmynd sem byggðist á Market Garden og bar hún nafnið Theirs Is the Glory. Menn geta eiginlega bara séð á nafni myndarinnar til hvers hún var gerð, til að afsaka, fegra og skapa hetjuímyndir í kringum heimskulega hernaðaraðgerð !

1977 var svo kvikmyndin A Bridge Too Far gerð um sömu atburðarás og í henni var ekki farið leynt með það að býsna margt hefði farið í tómt klúður af hálfu bresku herstjórnarinnar, en bein ádeila var þar samt ekki viðhöfð, enda var Montgomery nýlátinn þá og ekki mátti anda mikið á goðsögnina.

En þó margir horfi nú gagnrýnum augum á ýmislegt sem áður var í þagnargildi, er staðreyndin samt sú að stríðsleikjadellan á enn hug margra og margir vilja eflaust sjá sig í þeirri stöðu að tefla öðrum fram á blóðuga vígvelli en sitja sjálfir öruggir í náðum einhversstaðar langt að baki átakasvæða.

Að ástunda það - að senda aðra í dauðann er enn sem fyrr uppáhaldsíþrótt hershöfðingja um allan heim og slíkir menn þjóna sjaldnast málum til góðs. Slík montprik axlaskúfa og einkennisbúninga, hræsni og hroka, uppsleikjarar orðuveitinga og allskonar hefðartitla, eru ekkert annað en viðbjóðsleg birtingarmynd á hlutum sem þyrftu að heyra sögunni til og myndu gera það ef við værum í raun og sannleika eitthvað að þroskast !

 


Sumir virðast helst hrífast af Júdasi !

Sérhver tími er markaður sínum einkennum og hefur sinn tíðaranda. Og sérhver tíðarandi virðist jafnan hafa sína sérstöku leigupenna sem enduróma þær skoðanir sem hæst hrópa hverju sinni. Ég las nýverið pistil í blaði eftir mann sem hefur líklega lengstum þjónað sem slíkur leigupenni. Pistillinn fjallaði um Júdas Ish-Kariot sem hefur nú löngum verið talinn til lítillar fyrirmyndar meðal manna. En eins og að líkum lætur var pistilhöfundur ekki sérstaklega að gera Júdasi skil sem einhverjum gildandi manni - hans vegna, heldur var tilgangurinn sýnilega fyrst og fremst sá að gera lítið úr kristinni trú og afgreiða hana nánast sem bull og vitleysu. Þar þjónar hann vissulega tíðarandanum eins og hann hefur lengstum gert.

Það er hinsvegar nokkuð umhugsunarvert að viðkomandi pistilskrifari, sem getur verið hæfileikamaður í mörgu, skuli hafa það í sér að leggjast svo lágt að sleikja upp ódýrar uppskriftir að óhróðri um kristindóminn í stað þess að sinna einhverju nytsamara verkefni, sem hann ætti að hafa fulla burði til. En það er sýnilegt að það er eitthvað í sálarlífi hans sem býr yfir beiskju og það beiskju sem virðist nokkuð sár. Þessi beiskja liggur yfir textanum eins og rauður þráður einhverra óafgreiddra mála. Hver skyldi vera orsökin að slíkum biturleika ? Hversvegna virðist Júdas höfða meira en Jesú til sumra manna ? Ætti ekki sagnfræðilegur fróðleiksmaður að vera í þeirri stöðu að geta öðrum betur gert sér grein fyrir þeirri blessun sem fylgt hefur sporum Krists í gegnum mannkynssöguna ?

Þó að ætluð saga Júdasar sé höfð sem einhverskonar forgrunnur mála í pistlinum, er það bara sem áður er getið tilbúin forsenda. Hið raunverulega tilefni pistilsins er sem fyrr segir andúð á kristindómnum og nokkuð einbeittur vilji til að lítilsvirða það sem mörgum öðrum er heilagt. Einhver kynni nú að segja að slík breytni bæri ekki vitni um sérlega vandaða innréttingu til anda og sálar, og að ekki væri nú fordómaleysinu fyrir að fara hjá höfundinum. En eins og við ættum að vita, er í þeim elítuhópi sem hann tilheyrir allt í lagi að hafa fordóma, ef þeir eru „rétttrúnaðarfordómar,“ það er að segja fordómar í takt við tíðarandann ! Og það er eitt sem nokkuð víst er - að þessi leigupenni sem hér um ræðir mun líklega alltaf þjóna rétttrúnaði tíðarandans, því hann hefur löngum virst áhrifamesti skapari skoðana hans.

Það ætti heldur ekki að þurfa að koma á óvart, að sumir menn á Íslandi séu dálítið uppteknir af svikurum um þessar mundir og kannski haldnir vissri hrifningu á þeim sem geta svikið allt og alla. En sú afstaða verður seint metin til heilbrigðis og vísar sennilega fyrst og fremst á neikvæða innistæðu í andlegum og sálarlegum skilningi. Sá sem lætur eins og hann fái það helst út úr efni Biblíunnar, að Júdas verði honum hugstæðastur allra manna, hlýtur að lýsa sjálfum sér best með slíku mati.

Menn geta gefið sig út fyrir að vera aðdáendur Júdasar Ish-Kariots og haft vilja til að umskrifa hlutverk hans og tilgang í Ritningunni, jafnvel svo að allt í því sambandi falli að uppreisnargjörnum tíðaranda, menn geta skrumskælt alla skapaða hluti eftir því sem innræti þeirra gerir kröfu til, en slíkir menn breyta aldrei lögmálum réttlætis og sannleika. Leigupennar hafa alltaf verið til og munu alltaf verða til meðan veröld þessi varir. Arftakar Celsusar eru því orðnir margir í aldanna rás. En það að leita til baka í skuggaveröld hindurvitna og hjáguðadýrkunar og halda að með því sé verið að auka ljós og frjálsa sýn í lífi manna, er aðeins til að - auka á villunótt mannkyns um veglausa jörð – og ekki er framför í slíku !

Það verða alltaf til menn sem rísa gegn skikkan Skaparans, beiskir menn og reiðir, menn sem eru oftar en ekki ósáttir við hlutskipti sitt í lífinu og halda í sjálfshyggju sinni að þeir hafi verið sviknir þar um einhverja stóra vinninga, vinninga sem þeir hafi átt að fá vegna einhverra - líklega einstakra - verðleika ! En sjálfið þvælist löngum þvert í götu mannlegrar dómgreindar og mat manna á eigin verðleikum er auðvitað eitt skeikulasta skilningsmat allra tíma og getur aldrei skilað réttri niðurstöðu. En þeir eru samt – því miður - margir sem framangreind lýsing á við.

Ég er ekki frá því, að sá fylgismaður og varnarfulltrúi Júdasar sem hér um ræðir, sé einmitt maður af slíkri gerð !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband