Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015
29.7.2015 | 20:06
Biðjum Jerúsalem friðar !
Margir menn, ekki síst nú á dögum, virðast þannig gerðir að það er eins og ekkert andlegt búi í þeim. Þeir virðast eins vélrænir í hugsun og róbótar í fjósi. Og það er eins og þeir séu efnishyggjan sjálf holdi klædd. Að tala við slíka menn um andleg mál er eins og að reyna að tala við steina. Maður sem hatast við sína eigin trúarvitund og heldur henni niðri, reynir að kæfa hana með öllu móti, er maður sem velur sér það hlutskipti að vera dauð sál !
En við erum hér til þess að þroskast sem lifandi sálir. Það er andlegur tilgangur með lífi okkar hér á þessari jörð. Sá sem sér ekkert nema efnið fer því á mis við það sem á að þroska hann til nýrrar víddar í veruheimi Skaparans. Efnishyggjan leiðir engan heim í skjólið eina !
Við lifum í órólegum heimi. Við lifum í heimi sem er fullur af ofbeldi og svívirðu. Og af hverju skyldi það vera ? Stór hluti vandans er hvað margir leiðast af efnishyggju og sérgæsku og hugsa um það eitt að metta sína hít. Friður ríkir ekki þar sem græðgi fer hamförum !
Að biðja Jerúsalem friðar er bænarákall sem allt kristið fólk ætti að hrópa út á hverjum degi. Og af hverju ? Vegna þess að Jerúsalem er andlegur miðpunktur heimsins og þannig bein ávísun á ástand hans á hverjum tíma. Sá sem biður Jerúsalem friðar er því í raun að biðja um frið í þessum heimi !
Ástand mála í Jerúsalem er og hefur alltaf verið táknmynd fyrir ástandið í heiminum. Þessvegna segir Heilög Ritning að Jerúsalem sé aflraunasteinn fyrir þjóðirnar. Þessvegna hafa margir hruflað sig þar til blóðs og þessvegna eru örlagastraumar Jerúsalem örlagastraumar heimsins !
Menn hafa löngum furðað sig á þeim suðupotti átaka og deilna sem lengstum hefur verið fyrir botni Miðjarðarhafsins, en það er á engan hátt undarlegt að svo hafi verið og sé. Þar er sem fyrr segir sá miðpunktur sem allt annað hverfist um. Bylgja sem rís þar hefur sín áhrif út um allan heim. Þau andlegu öfl sem takast á um yfirráðin í Jerúsalem takast á um veröld alla !
Það ætti að vera skiljanlegt hverjum andlega hugsandi manni að það vald sem vill ráða í konungshöllinni vilji einkum og sér í lagi ráða í hásætissalnum. Þessvegna er mikil þörf á því að biðja Jerúsalem friðar því Jerúsalem er einmitt sá hásætissalur í andlegum skilningi !
Við eigum að hafa allar forsendur til að feta réttan veg. En óhlýðnin er mikil og sjálfið er í uppreisn gegn lögmáli Guðs eins og löngum fyrr, en nú er hinsvegar tíminn til yfirbótar senn á enda. Hraðinn á atburðarásinni er orðinn svo geigvænlegur, að það sannar best að sumir eru komnir í mikla tímaþröng. Eyðingaröflin fara því hamförum um heiminn í dag !
Á undanförnum árum hafa skammsýnir menn reynt andlega talað að endurreisa Babelsturninn. En það var vonlaust verk frá byrjun. Sú bygging riðar nú til falls víðar en í Grikklandi. Þegar menn ætla sér að sameina það sem ekki á saman sundrast áætlanir þeirra og verða að engu !
Maðurinn ráðgerir margt en vilji Guðs hlýtur að hafa sinn framgang !
Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum andlega vakandi manni hverju ber að fylgja á lífsleiðinni. Til þess kom Kristur í heiminn að fullnægja öllu réttlæti. Það vald sem friðinn færir er hið guðlega og góða vald sem eitt fær endurstillt sálarástand heimsins og komið öllu í sátt !
Friður í Jerúsalem er forsenda friðar um allan heim !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook
26.7.2015 | 17:09
Pírata-púðurkellingin !
Það hefur sýnt sig á undanförnum vikum að þreyta kjósenda á ómerkilegum pólitíkusum og spilltum flokkum er sívaxandi vandamál í lýðræðislegum skilningi á Íslandi. Nú er svo komið að skoðanakannanir sýna pírata með yfirgnæfandi fylgisaukningu og virðist klárt mál að þeir hagnist á vantraustinu sem kjósendur bera til hinna flokkanna. Þarf víst engan að undra þó það vantraust sé til staðar eftir allt það sem á undan er gengið !
En af hverju skyldi fólk telja pírata frambærilegan valkost í stjórnmálalegum skilningi ? Hvað hafa þeir til þess unnið að fá slíka fylgisaukningu ? Því verður að svara eins og sannleikurinn býður, að verðleikarnir til þess eru hreint ekki miklir !
En líklega snýst þetta ekki mikið um gildi pírata, heldur öllu fremur um djúpstæðan leiða kjósenda á fjórflokknum alræmda og öllum flokksbrotum hans og pólitískum birtingarmyndum. Það sem gerðist í borgarmálunum í kringum Jón Gnarr er líklegast bara að sýna sig í þjóðmálunum og auðvitað gegna píratar þar hlutverki Jóns !
Menn hafa komið fram á undanförnum árum með miklum lýðskrumshætti og boðað til dæmis Bjarta framtíð og hverjir eru þeir, jú, hlaupakettir og framagosar úr Framsókn og Samfylkingu sem hafa nákvæmlega ekkert nýtt til málanna að leggja !
Þó einhver kunni að geta vísað til þess að hann hafi átt föður og afa sem hafi verið forsætisráðherrar, segir það ekki neitt um eigin hæfni viðkomandi manns til verka. Og lýðskrum er aldrei endingargott veganesti í pólitík jafnvel ekki með Marshall-hjálp !
Sigmundur Davíð og Bjarni Ben eru þegar fallnar stjörnur. Þeir munu þó líklega hanga við völd út kjörtímabilið en meginhluti fólksins í landinu hefur nú fengið skömm á þeim og það að verðleikum. Þessir menn töluðu hátt fyrir síðustu kosningar og þóttust ætla að kippa flestu í lag og hafa ráð til þess. Þeir hafa þó fyrst og fremst komið til móts við þarfir sinna líka, þeirra ríkustu í landinu !
Ferill þeirra byrjaði, samkvæmt því sem fyrir liggur, á því að endurgjalda einni verstu auðklíku landsins stórfelld framlög í kosningasjóði og samt sögðust þeir hafa búist við því að koma að betra búi en orðið hafi. Þeir sögðust sem sagt hafa gert ráð fyrir að Steingrímur og Jóhanna hefðu verið búin að laga betur til eftir fyrri valdatíma flokka þeirra sem skildu þá við allt í rúst !
Ég er ekki viss um að Skallagrímur og Grákolla hafi fengið öllu meira hrós en þetta þó það hafi auðvitað ekki verið meint sem slíkt. En mönnum sem er mikið niðri fyrir, verður það stundum á að segja sannleikann óvart þó þeir hafi ekki iðkað það mikið áður !
Álagningarseðlar fólks sem nú eru að skila sér í hús segja sitt um skattastefnu Bjarna Ben & Co, hvernig allt þyngist á þeim sem minna hafa meðan hyglingarstefnan eykst þegjandi og hljóðalaust í þágu auðvaldsins í landinu. Og víst er það þyngra en tárum taki að almenningur skuli hafa kosið þetta blóðsugulið yfir sig í síðustu kosningum í von um vænni hag !!!
En Píratar, hverskonar fyrirbæri er það eiginlega ? Er þar um að ræða einhverskonar alþjóðlegan frelsisflokk varðandi eitt og annað sem í sjálfu sér er kannski mikið til ótengt íslenskum ríkisbúskap og þjóðlegum velfarnaði ? Hvað hugsa píratar annars um íslenskt samfélag eða hugsa þeir eitthvað um það ? Eru þeir ekki bara að fimbulfamba eitthvað í útópíulegri hnattrænudellu ? Eru píratar líklegir til að leysa einhver af þeim samfélagslegu vandamálum sem eru til stórrar bölvunar á Íslandi í dag ? Vita menn til þess að birgittulegt blaður hafi lagt þar eitthvað marktækt til mála ?
Vissulega þarf nýtt blóð í íslensk stjórnmál, en fyrst og fremst hreint blóð og óspillt. Rennur slíkt blóð um æðar pírata, hafa þeir einhvern brennandi áhuga fyrir því að leysa þjóðleg vandamál okkar og axla þá ábyrgð sem til þess þarf ? Ég hef því miður ekki séð eða heyrt neitt til þeirra sem segir mér að þeir séu viljugir til að vera vökumenn þjóðlegs frelsis og velferðar í þessu sísjúka efnahagsvandræðalandi !
Þó ég geti tekið mig til dæmis sem mann sem hefur fengið margfalda skömm á Sigmundi Davíð og Bjarna Ben, sé ég samt ekki nokkra glóru í því að fara að kjósa pírata til að staðfesta það. Ég vil enga pírata á þjóðþingi Íslands, hvorki þá sem kalla sig það eða þá sem eru það í raun en kalla sig eitthvað annað. Mætti ekki færa römmustu rök fyrir því að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben séu báðir píratar og blóðbræður verstu sjóræningja Íslandssögunnar ?
En þær hafa verið nokkuð margar púðurkellingarnar í íslenskri stjórnmálasögu hingað til sem sprungið hafa með hvelli og svo ekki söguna meir. Skyldi pírata-uppmælingin ekki bara vera enn ein púðurkellingin, enn einn hvellurinn sem engu skilar ? Ekki hef ég trú á því að frá herbúðum þeirra renni upp dagur fyrir framgang Íslandsmála !
Skyldu kjósendur ætla að dansa áfram í blindni með fjöregg frelsis og manndáða í þessu landi og henda því áfram í ábyrgðarleysi út og suður ?
Lítið virðist lærast enn sem fyrr af reynslunni !
24.7.2015 | 20:14
Að vera lifandi steinn !
Í Heilagri Ritningu er vísað til Jesú Krists sem hins lifandi hyrningarsteins og Orðið segir að sannir fylgjendur Krists eigi að uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús. Að vísa til lifandi steina er merkilega sterkt líkingamál því steinar eru yfirleitt harðir og kaldir, - dauðir hlutir !
Þegar steinninn lifnar við, hlýtur því eitthvað óvenjulegt að vera að gerast. Og sannarlega er það mikil umbreyting þegar andlega lífvana maður, sambærilegur við dauðan stein, verður að lifandi steini fyrir snertingu Guðs og gengur til síns köllunarverks !
Við búum hinsvegar í heimi sem er yfirfullur af dauðum steinum og býsna margir þeirra virðast harðir á því að vera í því ásigkomulagi til endadægurs, sjá enga ástæðu til að breyta því og sinna því helst að hrækja á allt sem andlegt er og meta það einskis !
En hvernig myndi það nú verða ef allir þessir dauðu steinar yrðu að lifandi steinum ? Yrðu að því sem Ritningin talar um ? Sæjum við þá ekki býsna breyttan heim, betri og kærleiksríkari en þann sem við augum blasir í dag og hefur ekki alltaf verið full þörf á slíkri ummyndun ?
Á sínum tíma fæddist maður sem fann í sér þá köllun er fram liðu stundir, að fara sem kristniboði til Afríku. Þetta var maður af því tagi sem kallast getur Lifandi steinn og þar sem Guð er hreint ekki laus við glettni og getur minnst á rúsínukökur og fleira, þá bar þessi maður í raun og veru nafnið Livingstone. Og hann stóð líka undir því nafni !
Þegar Davíð Livingstone lést 1. maí 1873 í Ulala í Afríku hafði hann starfað um þriggja áratuga skeið sem kristniboði og landkönnuður í álfunni. Andaður líkami hans var síðar jarðsettur í Westminster Abbey, en hjarta hans var grafið undir tré í Afríku. Borinn af trúum höndum yfir land og sæ, er ritað á legstað hans !
Súsí og Chuma, vinir hans og samferðamenn, báru nefnilega lík hans um 2000 km leið til strandar á erfiðu ferðalagi sem tók níu mánuði. Þar vantaði ekki trúmennskuna og virðinguna gagnvart minningu hins látna. Og víst er, að meðan einhver göfgi verður til, mun Davíð Livingstone verða talinn meðal bestu manna Bretlandseyja !
Með lífi sínu og starfi og þar með talið dauða sínum, vakti Livingstone fjölmarga til vitundar um þörfina á því verki sem hann hafði helgað líf sitt og margir fylgdu á komandi árum í fótspor hans og urðu lifandi steinar og blessunarvaldar fyrir þúsundir manna í Afríku. Má í því sambandi nefna þýska göfugmennið og mannvininn Albert Schweitzer !
Að vera lifandi steinn, hæfur sem byggingarefni í andlegt hús, ætti að vera markmið í lífi hvers manns. Þá er sannarlega til einhvers lifað. En hver sem ætlar eingöngu að lifa sjálfum sér, fer illa með gjöf Guðs í lífi sínu. Talentur hans munu því ekki skila sér til góðs !
Enginn getur í raun og veru séð það sem lífssigur að hafa eingöngu og alfarið bundið ævi sína við efnislegan ávinning verðmæta sem mölur og ryð fær grandað, en það sem gert er til hjálpar í annars þágu er himneskur ávinningur í lífi hvers manns og óforgengileg blessun !
Vonandi finna sem flestir rétta tóninn í gangverki lífs síns, sem er að vakna til þess hlutverks að verða lifandi steinar í andlegu húsi og til sannrar uppbyggingar í heilbrigðu, mannlegu samfélagi !
16.7.2015 | 18:31
Austrið og vestrið !
Tveir gamlingjar sátu á bekk í vorblíðunni hér um daginn, en raunar var nú engin vorblíða heldur bölvaður garri að norðan. En þessir karlar voru þannig gerðir til sálarinnar að það beit ekkert á þá og síst af öllu íslenskur kuldi.
Þeir höfðu þekkst alla tíð og höfðu aldrei getað orðið sammála um nokkurn skapaðan hlut.
Annar var yfirlýstur sjalli og helblár í þeim efnum, líklega frá barnæsku, og hinn var almennt álitinn eldrauður bolsi, trúlega frá sama tíma.
Hann hafði verið svo langt til vinstri á fyrri dögum, að hann hafði ekki getað verið í Alþýðubandalaginu vegna þess að það var ekki nógu róttækt fyrir hann.
Og satt að segja virtist hann ekki hafa breyst mikið í þeim efnum.
Þarna húktu þeir á bekknum, auðvitað á sitt hvorum endanum og höfðu hæfilegt Framsóknarbil á milli sín. Rússahúfan á bolsanum var fastbundin undir kverk og sjallinn hafði keyrt amerísku skyggnishúfuna sína niður á kuldablá eyrun. Hvorugum datt lengi vel í hug að yrða á hinn þótt báðum þætti gaman að spjalla.
Loks var þögnin orðin svo löng að sjallinn sagði hæðnislega :
Jæja, þarna hrökklaðist þessi vinstri stjórn frá völdum við lítinn orðstír og sem betur fer !
Hún sat þó út kjörtímabilið og ríflega það, rumdi í bolsanum, þið hægri lufsurnar hafið alltaf sagt að engin vinstri stjórn sæti út heilt kjörtímabil, það var nú ein lygin ykkar sem hefur nú verið afsönnuð. En stjórnin þín frá 2007 entist nú ekki nema út janúar 2009 og skildi við allt í rúst !
Það fauk í sjallann og hann hvæsti fram á milli samanbitinna tannanna:
Ég er að tala um það sem hefur verið að gerast núna ! Alltaf ferð þú aftur í fortíðina og röflar um það sem liðið er !
Bolsinn hló við og sagði nepjulega : Já, þú ert eins og formaðurinn þinn og vilt ekki tala um hrunið. Það er svo sem skiljanlegt, en aldrei munið þið geta þvegið þá óværu af flokksnefnunni ykkar, sama hvað þið reynið !
Þessi ummæli fóru ekki vel í sjallann og hann sagði vonskulega : Þú ert alltaf sami Stalínistinn og hangir enn í rússaheimskunni !
Bolsinn hló við kuldalega og sagði hæðnislega : Hver er nú kominn aftur í fortíðina ?
Það varð þögn um stund.
Svo byrjaði sjallinn aftur, enda fannst honum sem hallað hefði á hann: Ég hef fulla trú á því að efnahagsmálin verði núna tekin föstum tökum af nýju stjórninni og leyst almennilega úr þeim vanda sem þar er !
Jæja, sagði bolsinn, ég veit ekki betur en efnahagsmálin hafi verið í höndum sjálfstæðismanna í næstum tvo áratugi samfleytt og það endaði með hruni !
Sjallinn ansaði þessu ekki og sagði eins og við sjálfan sig : Sjálfstæðismenn hafa alltaf kunnað best að fara með fjármálin !
Já, er það, sagði bolsinn, Þeir voru svo sem nógu kappsfullir við það að selja eigur ríkisins, en ekki þóttu þeir nú að sama skapi sérlega áhugasamir við að innheimta söluverðið. Þannig var nú fjármálasnilldin þar !
Sjallinn ók sér óþolinmóðlega á bekknum og sagði: Það kann nú aldrei góðri lukku að stýra að ríkið sé mikið að vasast í rekstri, við höfum alltaf viljað setja við því skorður !
Já, heyrt hefur maður það, gegndi hinn, en þið hafið alltaf viljað fá þann rekstur í hendurnar, helst fyrir ekki neitt, þegar búið er að kosta öllu til af almannafé !
Sjallinn stappaði niður hægri fætinum og sagði í hvössum tón: Þú skilur ekki út á hvað frelsið gengur. Þið kommúnistarnir hafið aldrei skilið frelsið !
Bolsinn leit hornauga til síns fjarlæga sessunautar og svaraði í svipuðum tón:
Nei, það er eflaust rétt hjá þér, við róttækir vinstri menn höfum aldrei skilið eða meðtekið þetta frelsi sem gengur út á það að menn megi kúga og arðræna aðra í krafti auðs og valda !
Sjallinn yggldi sig og endurtók orð sín, en nú á lægri nótunum: Þú skilur þetta ekki !
Svo stóð hann upp, það var eins og einhver skjálfti færi snöggvast um hann, en svo arkaði hann af stað vestur götuna, burt frá bekknum, án þess að kveðja.
Bolsinn horfði á eftir honum um stund, en stóð svo á fætur og hélt sinn veg, í andstæða átt !
10.7.2015 | 21:58
Á kínverskum nótum !
Það er ekki lítil saga á bak við kínversku þjóðina. Þegar flestar aðrar þjóðir voru á barbarastigi og sinntu fáu virðingarverðu, var Kína í miklum menningarmálagír og andans menntir stundaðar þar með frábærum hætti á margvíslegan hátt. Múrinn mikli var til þess gerður að halda óþjóðum frá Kína og verja hið kínverska menningarríki fyrir villimannlegum ágangi þeirra.
En öll saga á sér sína stórbrotnu kafla og sín lágstemmdu skeið. Á síðustu öldum sökk Kína djúpt í stjórnarfarslegum vanmætti og mætti ýmsum erfiðleikum af þeim sökum. Kínverjar urðu illa fyrir barðinu á gráðugum nýlenduríkjum Evrópu á nítjándu öld í ópíumstríðum og öðru og stöðugt var gengið á rétt þeirra með alls kyns hætti og hervaldi ef annað dugði ekki til.
Það er ljót saga því illa var þá farið með þessa miklu þjóð á margan hátt. En sumir vissu að risi var til staðar þó ástand hans væri ekki gott í núinu og Napóleon á að hafa sagt eitt sinn: Við skulum leyfa Kína að sofa, sá tími kemur að það mun vakna og heimurinn allur mun fá að vita af því !
Og nú virðist Kína sannarlega hafa vaknað því það hefur um hríð haft mikil umsvif á veraldarvísu. Það er með ólíkindum hvað hefur verið ráðist í mikil verk þarna austurfrá og allt virðist þar á ferð og flugi. Sumir virðast líka hafa fylgst vel með því sem hefur verið að gerast og nú eru margir á höttunum eftir kínversku fjármagni og vilja hafa Kínverja með sem samstarfsmenn í þessu og hinu. Jafnvel í Húnavatnssýslu og á Skagaströnd renna menn hýru auga til hins kínverska gulls og vilja ólmir tjalda gulu.
Einn var sá heimamaður hér sem var þónokkuð á undan ráðamönnum á svæðinu að gera sér grein fyrir mætti og mikilleika Kína. Og sá maður lét ekki þar við sitja en lét hendur standa fram úr ermum. Þar er ég að tala um Finn Kristinsson vélstjóra sem hætti áratugalöngu starfi á togaranum Arnari fyrir nokkru og dreif sig austur í dýrðina til að taka þátt í kínverska efnahagsundrinu. Þar dvelur hann nú í góðu yfirlæti hjá kínverskum vinum og horfir hress og glaður inn í heiðgula framtíð.
Vegna framsýnnar hæfni stórhuga manns, dugnaðar og dirfsku hans við að gera kínverska drauminn að ævintýri lífs síns, sá ég ástæðu til að kveða um hann léttan og glettnislegan brag sem ég læt fylgja hér á eftir og vona ég að allir sem lesa hann sjái að ekki er verið að yrkja um neitt smámenni þar sem Finnur okkar er.
Gerið þið svo vel :
Einn lítill bragur um Finn Kínafara og ævintýri hans -
Nú Finnur okkar farinn er
og floginn út til Kína.
Hann vildi ei lengur vera hér
með verkkunnáttu sína.
Því stóra drauma dreymdi hann
um dásemd Austurlanda.
Í Kína allir meta mann
sem má á fótum standa.
Og Finnur stendur fótum á
með fjölvirkasta hætti.
Og gefur skít í gula vá
sem geigur fylgja ætti.
Hann hræðist ekki skáeygð skil
í skini drauma sinna.
Og þykist hafa á hendi spil
sem hljóti í öllu að vinna.
Og þó hann kanni kjörlönd ný
og kjósi þar að vera.
Hann veit að konan veldur því
sem verður heima að gera.
Því Guðbjörg styrkur stöðugt er
og styður förunautinn.
Og hún og Finnur hugsa sér
að hafa salt í grautinn.
Og hérna þekkja flestir Finn
sem félaga og bróður.
Hann eykur stöðugt orðstír sinn
sem alltaf var þó góður.
Hann geðprúður og glaður er
og glæðir fjör um vegi.
Þá birtu jafnan ber með sér
sem bjargar hverjum degi.
Og nú í Kína kýs hann dvöl
við kostavistir glaðar.
Því orðin var það versta kvöl
að vera annars staðar.
Hann þráði náðug nægta skil
á nýjum kosta velli.
Svo strax og bauðst að breyta til
á burt hann fór í hvelli.
Og Arnarsmála yfirklór
hann ekkert hugsar meir´um.
En hress í Kína bergir bjór
og brosir út að eyrum.
Þar varla er hans vitund fróð
um vottinn ömurlega,
að eftir situr áhöfn góð
sem er að deyja úr trega !
Því lítt hann skoðar liðna tíð
svo langt í burtu héðan.
Og allra síst er veröld víð
hann vefur faðmi á meðan.
Hjá Kínverjum hann alsæll er
og innileikinn ræður.
Þar nokkuð marga menn hann sér
sem minna á Víknabræður !
Hann leggur í það líf og sál
að læra nýja rullu.
Og étur núna Kínakál
með Kínverjum á fullu.
Hann eins og fleiri fer í hring
með fjölmenningarhjarta.
Og elskar sérhvern útlending
en einkum gula og svarta.
Og því er sálarfriður Finns
með flest í góðum vonum.
Því lítið mál er litur skinns
hjá ljúflingi sem honum.
En eins hann líka lipur kann
að líta á innistæður.
Með sjóði á vöxtum semur hann
við sína gulu bræður.
Þeir borga honum bestu laun
og bjóða ýmsa sénsa.
En þó hann sæll þar sé í raun
hann saknar stundum Ensa.
En tár hann strýkur strax af brá
og stillir sig með prýði,
þó tryggðin sú er tengdi þá
sé talin enn við lýði.
En mörgu Finnur fórna hlaut
svo fengist draumur þráður.
Og nú í Kína á kostabraut
hann kallast maður dáður.
Því verkkunnáttan örugg er
og eðlilegt að dá ´ann.
Og segja má að maður hver
þar mæni hrifinn á ´ann !
Þar situr hann í sælli ró
er síst frá honum víki.
Og kannski hann njóti Kidda Jóh
í kommúnistaríki !
Því gamlar taugar tryggja skil
sem tíminn ekki brýtur.
Og mörgum þjóna þarft í vil
svo þeirra margur nýtur.
Ef kínverskt álver kemur hér
sem kostur á er gerður,
að flestra mati fullvíst er
hver forstjóri þar verður !
En við sem búum hér við hor
á hungurlaunasvæði,
við fetum aldrei frægðarspor
þó Finnur hreppi gæði !
oooOooo
(RK fecit 2015)
4.7.2015 | 07:53
Málamynda sjálfstæði !
Það er alkunna að menn eru misjafnlega gerðir og það svo að í mörgum tilfellum geta menn verið afskaplega ólíkir. En eitt er nokkuð sameiginlegt með flestum mönnum, og það er að vera viðkvæmir og hörundssárir fyrir eigin sjálfi. Þessi veikleiki sést auðvitað einna best í fari manna sem eru mikið í sviðsljósinu. Það getur til dæmis í allmiklum mæli átt við fólk í menningarlífinu og listageiranum og þá sem eru í pólitík !
Nú er það svo, að í pólitík verða oftast til einhverjir flokksforingjar. Og þeir geta verið með ýmsu móti eins og við vitum, en sumir þeirra virðast þó vera með það afskaplega mikið á hreinu innra með sér að þeir séu foringjar. Og líklega er það þessvegna sem það hendir þá stundum að tala niður til annarra - og ekki síst náinna samstarfsmanna !
Slíkir stórforingjar virðast ekki gera sér nokkra grein fyrir því að þeir sem ganga þeim næst að völdum, þurfi á því að halda sjálfs sín vegna að það sé tekið eitthvert tillit til þeirra, jafnvel þó það sé kannski bara til málamynda og að þeir vilji umfram allt að málamynda-sjálfstæði þeirra sé virt einhvers. Tillitsleysið er stundum svo mikið að það leiðir oft til mikilla sárinda og þau sárindi geta dregið dilk á eftir sér. En foringjar sem eru alræðissinnaðir í eðli sínu eru vanastir því að valta yfir allt og alla og taka það ekki til sín að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.
Við þekkjum líkast til ýmis dæmi úr íslenskri pólitík varðandi þetta efni. Og sambærileg tilfelli erlendis eru legio. Það eru auðvitað ekki allir stjórnmálamenn stórrar gerðar, reyndar held ég að þeir séu afar fáir, en jafnvel menn sem ekki eru afgerandi að innviðum til, vilja samt að aðrir haldi að þeir séu það og að þeim sé sýnd einhver virðing. Það er svona viss aðferð til að lyfta sjálfinu upp á við og reyna að halda áskapaðri minnimáttarkennd niðri um leið.
Sumir sem eru í pólitík og vita að þeir hafa aldrei haft þá innri burði sem þeir þyrftu að hafa, myndu samt seint viðurkenna að það eina sem þeir hefðu til brunns að bera væri liðugur talandi. Slíkir menn hafa mikla þörf fyrir það að látast vera sjálfstæðir þó þeir viti allra manna best að þeir eru það ekki. Sumir flokksforingjar virðast samt hafa skilið þetta vandamál manna að einhverju leyti og svo virðist til dæmis hafa verið með Halldór heitinn Ásgrímsson !
Það var eiginlega merkilegt hvað hann sem flokksformaður kippti sér lítið upp við það þó Guðni Ágústsson væri með ýmsar yfirlýsingar oft og tíðum sem hefðu þó átt að koma illa við hann. En kannski var ástæðan fyrir afslappaðri framkomu Halldórs sú að hann hefur alveg vitað hvar hann hafði Guðna. Já, kannski vissi hann að Guðni þyrfti bara að viðra svolítið sitt málamynda-sjálfstæði, en það fælist engin raunveruleg ógn í þeirri uppsetningu. Kannski vissi Halldór alveg fyrirfram að Guðni myndi alltaf láta undan og éta allt ofan í sig sem hann hefði áður sagt. Kannski var Halldór Ásgrímsson bara töluverður mannþekkjari á bak við allan þumbaraskapinn ?
En svo eru aðrir foringjar - eins og fyrr segir, menn af allt annarri gerð. Þeir eru svo miklir foringjar að þeir þola mönnum ekki einu sinni málamynda-sjálfstæði og síst af öllu eigin undirmönnum. Þar er um að ræða ákveðna manngerð, sem við getum til hægðarauka kallað D gerðina Drottnaragerðina ! Menn sem tilheyra þeirri gerð eru svo vissir um eigið ágæti að skilaboð þeirra til annara eru einfaldlega : Ég er kóngurinn og þú hlýðir eða hefur verra af !
Það er eflaust erfitt hlutskipti að vera undirmaður slíks foringja. Hann krefst nefnilega svo mikils. Hann leyfir ekki lítilsigldum undirmönnum að vera með og viðhafa eitthvert málamynda-sjálfstæði, hann lítur á það sem ótvíræða uppreisnartilburði, hann verður reiður og segir: Ég líð þetta ekki, svona gerum við ekki ! Og vesalings greyið sem ætlaði að auka tommu við ímyndað gildi sitt með því að tuða eitthvað, verður þess í stað að gjalti !
Og það er alkunna að foringjar sem eru svona miklir foringjar, halda áfram að vera foringjar þó aðrir séu kosnir í þeirra stað. Hollusta fjölmargra flokksmanna virðist límd við slíka stórforingja. Þess eru jafnvel dæmi að eftirmenn þeirra nái aldrei fótfestu á stjórnmálasviðinu vegna þess að skuggi hins stóra fyrirrennara byrgir þeim sýn í allar áttir, stendur þeim stórlega fyrir þrifum. Þeir verða jafnvel enn minni en þeir þyrftu að vera, vegna þess að í eigin hugsun eru þeir ekki búnir að taka við foringjahlutverkinu heldur eru þeir enn í viðjum undirgefninnar gagnvart stóra fyrirrennaranum. Slíkir menn geta ekki einu sinni sýnt málamynda-sjálfstæði, þeir hafa verið kúskaðir of mikið sem undirmenn til þess að geta risið frá því !
Og kannski er ráðríki og valdsmennska sumra í íslensku samfélagi orðin svo mikil fyrir kvótagull og hverskyns kerfishyglingar undanfarinna ára og áratuga, að þörfin fyrir málamynda-sjálfstæði sé að margfaldast meðal þjóðarinnar. Má ekki sjá þess merkin vítt og breitt ?
Hvað með almenna sjómenn, hvert skyldi nú sjálfstæði þeirra vera gagnvart kvótagreifunum og útgerðarvaldinu, skyldi það vera raunverulegt eða bara málamynda-tilraun til uppréttrar stöðu ?
Er persónulegt sjálfstæði manna og mannréttindi þeirra á uppleið í þessu landi eða niðurleið ? Er valddreifing að aukast eða minnka, er misskipting að vaxa eða minnka ? Er réttur manna og geta til sjálfstæðis á Íslandi meiri í dag en fyrir 25 árum ?
Er fólk í miklu meiri mæli að ánetjast hinu minnimáttarháða málamynda-sjálfstæði í dag en það var áður fyrr ? Ég er á því að réttu og sönnu svörin við þessum og þvílíkum spurningum séu samfélagi okkar til lítils sóma !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 51
- Sl. viku: 570
- Frá upphafi: 365468
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 486
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)