Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018
24.2.2018 | 11:34
Það hefnir sín !
Sú tíska að veita verðlaun
er vandi hér á jörð,
því fljótt kann flest að gerast
sem fellir slíka gjörð.
Því verðleikarnir víkja
er veruleikinn fer
að vitna um eitthvað verra
en verðlaunandi er !
Að heiðra hina og þessa
sem hafa ei trausta gerð,
það hefnir sín og heggur
sem hættumikið sverð.
Svo illt er að veita verðlaun
og vita ekki hvað
verðlaunahafinn vinnur
til vansa eftir það !
Það þekkjast þannig dæmi
sem þolað fá ei ljós,
sem snúa öllu öfugt
og æpa á gefið hrós.
Þá dyggð er dregin niður
í daunillt glæpasvað.
Þá hefnir sín sá heiður
sem hitti á rangan stað !
Í Myanmar nú mannfólk
er myrt að grimmum sið.
Þar ræður andi ríkjum
sem rýfur allan frið.
Og Róhingar það reyna
hvað römm er dauðans þraut.
Þar varnar sú ei voða
sem verðlaun forðum hlaut !
17.2.2018 | 14:32
Klikkaða kynslóðin, pælingar ?
Við mennirnir höfum yfirleitt stutta viðdvöl í þessum heimi því jafnvel full mannsævi er skammur tími. Þó að mörgum kunni að finnast samtíðin stórkostleg hverfur allt hennar æði fljótt og bráðum munu líklega fáir minnast þeirra sem nú eru uppi !
Ef til vill verður okkar sem nú lifum kannski helst minnst fyrir það síðar meir að hafa verið vitleysingar sem fóru illa með gullin tækifæri til að láta gott af sér leiða fyrir hag barna okkar og komandi kynslóða. Skyldum við fá frá þeim sem koma á eftir okkur eftirmælin - ,,klikkaða kynslóðin?
Ef við lítum svolítið til baka má sjá að ,,hin allt-umlykjandi Evrópa var nú ekki endilega það merkilegasta í heiminum fyrir skitnum 2000 árum. Norðurhluti álfunnar var þá enn á svokölluðu barbara-stigi, en suðurhlutinn kominn á úrkynjunarstig hins rómverska sællífis. Þannig var það þá og þannig er það enn í villuráfandi heimi !
Villimennskan og úrkynjunin héldust í hendur alveg eins og nú á tímum. Siðferðilegar framfarir eru því varla mælanlegar - með trúverðugum hætti - á þessu umrædda tímaskeiði allt fram á daginn í dag !
Flestar þær þjóðir sem til eru í Evrópu í dag voru ekki til sem slíkar fyrir 2000 árum. Þær sem enn bera nöfn þjóða sem þá voru til eru alls engin staðfesting á því að þar sé um fólk af sama stofni að ræða. Grikkir og Búlgarar nútímans eru til dæmis allt önnur fyrirbæri og Ítalir nútímans eru engir Rómverjar þó enn sé lifað og búið í Róm !
Fyrir 2000 árum voru engir Norðmenn, Danir eða Svíar til, ekkert norrænt var komið til sögunnar sem slíkt og villiþjóðir einar sagðar lifa um norðanverða Evrópu. Ekki voru Írar heldur komnir til sögunnar, svo litla stórþjóðin,við Íslendingar,hin stökkbreytta og mjög svo fjölskrúðuga blendingsútgáfa af Írum og Norðmönnum, vorum auðvitað ekki komnir á kortið !
Og Norðurþjóðin mikla, Rússar voru meira að segja ekki til þá sem slíkir. Að hugsa sér, hverjum hafa menn eiginlega bölvað þá ? Hinir ,,siðmenntuðu og úrkynjuðu rómversku ,,menningarvitar sunnan Alpafjalla hafa líklega bölvað Kimbrum og Tevtónum og öðrum slíkum í sand og ösku við veisluborð allsnægtanna í Róm og víðar, en þá sem endranær hafði það ragn lítið að segja gegn síbreytilegri rás tímans !
Fyrir 2000 árum voru Gyðingar hinsvegar til sem slíkir þó þeir væru svo sem ekki mikið á ferð í Evrópu eða búnir að gera sig gildandi þar. En þeir voru vissulega til þá - jafn sérstæðir og sjálfum sér líkir og þeir hafa alltaf verið - og líklega eina þjóðin sem er það enn að mestu í dag sem hún var þá. Af hverju skyldi það annars vera ?
Hversvegna hefur þessi sí-ofsótta þjóð staðið allt af sér og haldið velli þó allar aðrar þjóðir hafi hnigið í gras og horfið ? Það skyldi þó ekki vera vegna þess - að þrátt fyrir allt sé hún varðveitt vegna þess sem á eftir að verða og verður - ef til vill innan tíðar ?
Hinir rómversku heimsdrottnarar eru horfnir, það vald er þrotið sem bannaði Gyðingum á sínum tíma að búa í landi sínu !
Bandaríkin sem eru á margan hátt handhafar rómverska valdsins í dag og deila og drottna á svipaðan hátt og Rómverjar gerðu, hafa enn ekki rekið neina þjóð með sama hætti úr landi sínu og bannað henni að halda þar til.
Hætt er við að slíkt þætti ofríki mikið, en á sínum tíma var þetta gert og þessvegna urðu Gyðingar að hverfa að mestu burt úr landi sínu. Þeir voru reknir þaðan burt með fullkomlega löglausum hætti af ríkjandi heimsdrottnum þess tíma !
En Gyðingar hafa snúið aftur eftir margar aldir ofsókna og sest að í landinu sem þeir voru reknir frá. Hvað ætti það að segja okkur ? Líklega er þar önnur ráðsályktun að baki en nútíminn kærir sig um að skilja. En það skiptir minnstu hvað mennirnir skilja, allt mun fara að Skaparans vilja að lokum !
Við mannfólkið erum sem sandkornin á sjávarströndinni, ekki nafli alheimsins. Það er löngu kominn tími til að við hættum að ofmeta gildi okkar, en það höfum við gert fyrst og fremst á kostnað gildis Skapara okkar !
Við komum í heiminn, hversvegna ? Ekki getur tæknin upplýst okkur um það ? Við erum hér skammvinnt æviskeið, til hvers ? Allt upplýsingaflæði nútímans gagnast okkur ekki neitt varðandi það ? Við deyjum og hvað verður þá ? Ekki fáum við neitt svar við því og förum því flest líklega illa óundirbúin og með lágar einkunnir úr þessum jarðlífsskóla !
Hvað segir það okkur ? Segir það okkur ekki heldur napran sannleika ?
Þann sannleika að við erum í raun og veru stödd þar sem við höfum alltaf verið stödd, í veröld sem tekur framförum í öllu nema því sem mest um varðar, þeim meginatriðum tilverunnar sem snerta sálarheill okkar allra þessa heims og annars !
Erum við þá að tala um að um einhverjar raunhæfar manndómslegar og göfgandi framfarir hafi verið að ræða á umræddu tímaskeiði þegar allt kemur til alls ?
Kom Ljósið ekki inn í heiminn fyrir 2000 árum og er ekki staðreyndin sú að við mennirnir höfum ekki enn tekið við því er ekki heimurinn sem einn samfelldur vígvöllur afleiðing þess ? Hvar erum við að feta veginn til góðs ?
Eitt megum við mennirnir vita, að það fer að styttast í endalokin !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook
14.2.2018 | 13:59
TIL ATHUGUNAR FYRIR ALMENNA BORGARA !
Það er orðið nokkuð langt síðan Ásgeir Einarsson frá Þingeyrum fór suður á Alþingi með strandferðaskipi og hafði með sér að heiman skrínukost svo að hann borðaði ekki á leið til þings á kostnað þjóðarinnar. Þá voru þjóðhollir þingmenn til á Íslandi og siðvitund manna sannarlega í allt öðrum farvegi en nú er !
Sumir sem sitja á þingi núorðið telja greinilega að þeir séu þyngdar sinnar virði í gulli fyrir þjóðina og rekstrarkostnaður þeirra sem starfandi þingmanna sé því aukaatriði. Slíkir skörungar sitja náttúrulega ekki við skrínukost og mikilvægi þeirra á sjálfsagt að vera öllum kostnaðarliðum mikilvægara. Það er hinsvegar vont mál þegar slíkt mat er eingöngu hugarfóstur þeirra sjálfra og að litlu hafandi í heimi veruleikans !
Glöggir bloggarar hafa bent á framferði þingmanna sem kunna sér ekki hóf varðandi útgjöld og virðast halda að þeim leyfist allt gagnvart þeim sem borga laun þeirra, almennum borgurum í þessu landi.
Einn athyglisverður bloggari hefur dregið saman ýmsar þær upplýsingar sem koma hér á eftir og vakið hafa athygli mína enn frekar á misbresti þeim sem virðist vera á eftirliti með opinbert fé :
Á árinu 2017 voru 66 þingfundardagar á Alþingi, 14 dagar að auki undir nefndarfundi. Árið var óvenjulega lítið starfsár í almennu þingstarfi. Það voru stjórnarmyndunarviðræður, stjórnarslit, kosningar, langt páskafrí, langt jólafrí og þar að auki nokkuð langt sumarfrí. Allt stuðlaði það að því að þingstörf urðu ekki mikil á árinu. Það hefði átt að þýða að rekstrarkostnaður væri í flestum liðum óvenju lágur !
En, nei, ekki var það nú svo í öllu, því þrátt fyrir framangreindar aðstæður tókst Ásmundi Friðrikssyni einhvernveginn að keyra 47.644 km á árinu vegna starfs síns sem þingmaður fyrir Suðurkjördæmi. Þingmaðurinn er búsettur í Garði á Reykjanesi, ekki svo ýkjalangt frá Alþingi, en virðist vera talsvert miklu meira úti að aka en aðrir þingmenn. Hann skráði fyrrnefnda keyrslutölu og fékk hana greidda frá ríkinu. Alls nam endurgreiðslan 4,6 milljónum króna eða um 385.000 kr. á mánuði !
Keyrslan er eins og hann hafi ekið hringinn um landið nærri 36 sinnum !!!
Ef einhver ætlaði að keyra þessa vegalengd án þess að stöðva, tæki það hann 22 sólarhringa ef keyrt væri á hámarkshraða, 90 km á klst. !!!
Einnig er komið fram að endurgreiðslu-upphæðin er miklu hærri en allur rekstrarkostnaður bílsins sem er talinn vera í kringum 2 milljónir króna á ári !!!
Þingmenn fá rúmlega 1,1 milljón í laun á mánuði, en margir hafa ýmsar viðbótar-sporslur fyrir nefndarstörf o.fl. Allir þingmenn fá greiddar 30.000 kr. á mánuði í fastan ferðakostnað og 40.000 kr. í svokallaðan starfskostnað !
Ásmundur Friðriksson ætti samkvæmt því að fá 1.360.000 kr. á mánuði í heildarlaun. Þegar við það bætast 385.000 kr. vegna aksturskostnaðar eru heildarlaun hans orðin 1.745.000 kr. á mánuði !
Lágmarkslaun á Íslandi eru skilgreind 280.000 kr. á mánuði !
Það er greinilegt að himinn og haf skilur að hugsunarhátt Ásgeirs bónda á Þingeyrum og Ásmundar Friðrikssonar og svipuð víðátta virðist vera milli kjara þingmannsins og almennings í landinu !
Hvar erum við eiginlega á vegi stödd með það fólk sem situr á þingi fyrir þjóðina og virðist satt að segja í sumum tilfellum ekki hugleiða mikið að ábyrgð verði að fylgja því valdi sem því er falið ? Hvað með alla umræðuna á þingi um að efla skilning og traust o.s.frv. ?
Traustið fór á botninn eftir hrunið og manni virðist hreinlega sem það sé farið að bora sig neðar en það í seinni tíð. Þetta broddborgaralið á Alþingi virðist algerlega sambandslaust við almenning í landinu þjóðina sjálfa !
Að lokum vil ég geta þess - þó það ætti auðvitað að vera þarflaust, að Ásmundur Friðriksson situr á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook
10.2.2018 | 09:47
,,Lýs á milli tveggja nagla !
,,Svo er margt sinnið sem skinnið segir máltækið og víst eru það orð að sönnu. Ég hef líklega komið eitthvað illa við suma með pistlum mínum um núverandi stjórnarsamstarf. En ekki hyggst ég nú draga neitt þar til baka enda engin þörf á því. Það sem þar hefur verið sagt er byggt á sannfæringu minni og stendur sem slíkt !
Sumir virðast þekkja lítið sem ekkert inn á hugsjónalegan bakgrunn og lýsa skoðun sinni í ljósi augnabliksins sem er að líða. Slík afstaða kom skýrt fram í byrjun varðandi það stjórnarsamstarf sem hér um ræðir. En afstaða af slíku tagi byggist á mjög þröngri viðmiðun og leiðir menn oftar en ekki á undirstöðulausar villigötur væntinganna. Og mér sýnist að væntingavíman sé þegar farin að renna af ýmsum !
Aðrir vilja hafa á takteinum sögulegar forsendur og nefna Nýsköpunarstjórnina sem hliðstæðu. Það er jafn fráleitt því sambærileikinn í þeim efnum er nánast enginn. Vinstri græn eru ekki Sósíalistaflokkurinn á neinn hátt og komast ekki í hálfkvisti við hann að félagslegu, stjórnmálalegu og þjóðvarnarlegu gildi !
Sósíalistaflokkurinn var meira en að hálfu leyti með afl sitt í verkalýðshreyfingunni, en Vinstri græn eru það hreint ekki. Þar er fyrst og fremst um menntamannaelítu að ræða sem stökk sér til bjargar á grænu lestina eftir að Alþýðubandalagið dó úr uppdráttarsýki vegna þess að þar var engin forusta lengur til sem stóð undir nafni !
Að bera forustufólk Vg saman við þjóðskörunga eins og Einar Olgeirsson, Sigfús Sigurhjartarson og slíka menn er aðeins á færi manna sem vita ekki hvað þeir eru að segja og er alveg sama hvort þeir eru að fara með sannindi eða ósannindi. Tilgangurinn helgar meðalið hjá slíkum ,,sögutúlkendum!
Einar og Sigfús börðust fyrir því sem kalla má sigurbraut fólksins. Almannahagsmunir voru þeirra leiðarljós og þeir hvikuðu aldrei frá þeim ljósvita. Þeim og öðrum sósíalistum tókst að gera Nýsköpunarstjórnina að virku og öflugu framkvæmdatæki sem verulega bætti hag alþýðufólks til sjávar og sveita sem ekki var vanþörf á eins og staðan var orðin eftir undangenginn kreppu-áratug !
Það var háð mikil barátta í lífsbjargarmálum þjóðarinnar á þeim árum og sú saga hefur raunverulega aldrei verið sögð með þeim hætti sem hefði átt að gera. Og enn er mörgum ekkert um það gefið að hún verði sögð því sannleikur þeirrar sögu hefur enn sitt bit að geyma gegn þeim sem hafa alla tíð reynt að falsa hana !
Brýna þörf bar til þess árið 1944 að nota uppsafnað inneignarfé Íslendinga á stríðsárunum í þágu alþjóðar og það mátti ekki bíða vegna þess að hákarlar samfélagsins voru á leiðinni með sína opnu græðgiskjafta til að gleypa það. Eins og löngum fyrr og síðar varð allt að fara í hákarlskjaftana. Sósíalistaflokkurinn sá hættuna, gerði það sem gera þurfti og það tókst að nota þetta fjármagn að miklu leyti í almannaþágu. Slíkt hefur aldrei gerst með viðlíka hætti á Íslandi !
En það stóð tæpt með að koma Nýsköpunarstjórninni á laggirnar. Ólafur Thors fékk sig nánast fullsaddan af viðbrögðunum í sínum eigin flokki við þeirri stjórnarmyndun í upphafi. Og eftir kosningarnar í júní 1946 þar sem stjórnin hélt velli, hugðist hann jafnvel láta Bjarna Benediktsson vera í forsæti hennar í sinn stað og viðhalda stjórnarsamstarfinu með þeim hætti. En þá sagði Einar Olgeirsson honum skýrt og skorinort að þá gæti ekkert orðið af áframhaldi þess !
Stjórnarmyndunin og samstarfið í stjórninni byggðist nefnilega á vissu persónulegu trausti milli manna. Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason báru til dæmis visst traust til Ólafs Thors og Péturs Magnússonar á þessum tíma, en sósíalistar yfir höfuð báru ekki traust til Bjarna Benediktssonar og höfðu heldur enga ástæðu til þess !
Uppbygging atvinnuvega, endurnýjun fiskveiðiflotans og margt annað beið knýjandi úrlausna á þessum tíma og Sósíalistar voru með klára stefnu varðandi það allt eins og sést á hinni yfirgripsmiklu Nýsköpunarræðu Einars Olgeirssonar frá þessum tíma.
Þeirri ræðu væri áreiðanlega hampað í dag ef annar hefði flutt hana, en allar götur síðan hafa margir til hægri viljað þegja hana í hel. Og í því framferði felst engin þjóðleg reisn eða frjáls hugsun íslenskrar sjálfstæðisvitundar !
Vinstri græn munu að minni hyggju aldrei vinna nein afrek í almannaþágu í líkingu við þau sem Sósíalistaflokkurinn vann og ástæðan er skýr og augljós. Það voru hugsjónamenn sem stjórnuðu Sósíalistaflokknum, en ekki tækifærissinnar með augun sífellt á eigin ferilskrá, fullir af þeirri sérgæsku sem slíku framferði fylgir !
Vinstri menn vissu fullgjörla árið 1946 að Bjarna Benediktssyni var ekki treystandi en forusta Vg sem yfirlýsts vinstri flokks telur sýnilega í dag að nafna hans og frænda, varðgæslumanni nákvæmlega sömu sérhagsmuna, sé treystandi og það meira að segja fyrir fjármálaráðuneytinu!
Það er munur á viðhorfum þá og nú og þá var viskan ólíkt meiri !
Svo eru vinstri græn með hvorttveggja íhaldið á bakinu í þessari stjórn, en Framsóknaríhaldið var sem betur fer ekki í Nýsköpunarstjórninni !
Sennilega hefði hún þá fengið nafnið Vansköpunarstjórnin !
Sjálfstæðisíhaldið var þá í flokki sem átti til borgaralegt frjálslyndisafl sem í dag er ekki að finna í flokknum. Síðasti foringi þess var Gunnar heitinn Thoroddsen. Nú ræður tvennt í flokknum, íhald og frjálshyggja, hvorttveggja eiturslæm og óþjóðleg fyrirbæri, sem þjóna sérhagsmunum auðhyggjunnar út í eitt !
Við skulum ekki falla fyrir neinum gyllingum, hvorki varðandi nútíð eða fortíð en halda okkur aðeins við staðreyndir. Staðreyndir eru staðreyndir og breytast ekki sem slíkar, jafnvel þó menn fáist ekki til að viðurkenna þær og neiti að átta sig á veruleikanum.
Og staðreyndin er sú og veruleikinn sá - að núverandi ríkisstjórn er lítið annað en afsláttarstjórn vinstri hugsjóna !
Þessi uppsleikta Kötustjórn er því hreint engin Nýsköpunarstjórn. Vinstri græn eru þar bara og verða þar líklega um tíma en aðeins sem lýs á milli tveggja nagla !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook
3.2.2018 | 09:24
,,Bandaríski Kínamúrinn !
Sú var tíðin, endur fyrir löngu, að kínverskur keisari ákvað að byggja múr til verndar ríki sínu, halda óþjóðum utangarðs og tryggja varnir ríkisins !
Það var kannski ekki svo vitlaus hugmynd þá, enda löngu fyrir daga flugsins eða þeirra eldflauga sem þotið geta heimshorna á milli með ógn og voða eins og þekkist í dag. En eitthvað hefur það nú kostað að byggja þennan múr og þar á meðal líklega ótöluleg mannslíf, en keisarar hafa nú löngum lítið skeytt um slíkt !
Á seinni tímum hafa múrar ekki verið sérlega vinsælir og nægir þar að nefna Berlínarmúrinn. Það er í sjálfu sér ekki langt síðan Ronald Reagan deildi á tilvist hans og það gerðu fleiri vestrænir ,,frelsispostular á sínum tíma. Það var líka fullkomlega réttmætt þó tilgangurinn hafi löngum verið sá að klekkja á því valdi sem lét reisa múrinn, en ekki endilega að berjast fyrir frelsi frelsisins vegna !
Bandaríkjamenn hafa alltaf talið sig eiga frelsið síðan þeir fóru að skilgreina sig sem þjóð. Á sautjándu og átjándu öld litu margir vel megandi Evrópumenn svo á að það væri gott að losna við fólkið sem fór vestur. Evrópsku forréttindamennirnir grettu sig margir hverjir og hafa líklega sagt að þetta væri nú bara að mestu skítaholulýður sem væri best geymdur þarna vestur í þessu rassgati !
En það leið ekki á löngu þar til sá skítaholulýður fór að líta nokkuð stórt á sig. Já, það fór bara að myndast ráðandi forréttindastétt innan hans sem hlóð undir sig og sína með svipuðum hætti og samskonar blóðsugur höfðu áður gert austanhafs. Og brátt vildi sú klíka kalla eftir sjálfstæði fyrir sitt skítaholulið sem sérþjóð ! Samkvæmnin í breytninni var á því stigi ekkert betri en hjá gömlu evrópsku forréttindaklíkunum !
Til þess að gefa nýju sérgæskunni áferðarfallegt yfirbragð var ritsnjall sérhagsmunamaður sem taldi sig hugsjónamann, en var auðvitað úr forréttinda-klíkunni, fenginn til að rita flott sameiningarplagg frelsis og manndáða. Þar var meðal annars sett fram fjálgleg viðurkenning á frelsisréttindum allra manna. En falsið var nú slíkt þrátt fyrir öll fögru orðin, að sá er samdi plaggið átti þá sjálfur þræla frá Afríku í tugatali - prívat og persónulega, svo skilningur hans á almennum mannréttindum var vægast sagt einkennilegur !
En þannig er líka sýn Bandaríkjamanna á flesta hluti enn í dag. Þeir segja alltaf í gegnum allar athafnir það gildir eitt fyrir ykkur, annað fyrir okkur !
Þar á meðal segja þeir: Þegar aðrir byggja múra eða veggi, er það vont fyrir frelsið, en þegar við byggjum múra eða veggi er það gott fyrir frelsið !
Og þegar Bandaríkjamenn tala um frelsi er bara eitt frelsi til umræðu þeirra frelsi ! Þeirra frelsi til að ráðskast með heiminn, þeirra frelsi til að arðræna allar þjóðir, þeirra frelsi til að vera frjálsir í heimi þar sem engir aðrir eiga að fá að vera frjálsir !
Menn verða að skilja að almennt frelsi er eitt en bandarískt frelsi er annað !
En við hljótum að vita að múrar eru reistir með ýmsum hætti. Auðvaldshringar Vestur-Evrópu komu Evrópusambandinu á fót sem efnahagslegum múr og ætluðu þannig að halda viðskiptavaldi í stórum stíl í sínum höndum. Áður og síðar hafa tollamúrar verið við lýði landa á milli til allskyns viðskiptalegra þvingana.
Einokunarverslun Dana á Íslandi var til dæmis ekkert nema kúgunarmúr til að koma í veg fyrir frelsi landsmanna til verslunar og viðskipta. Kóngurinn varð sem aðrir hans líkar að fá að fitna og allir kóngar fitnuðu á kostnað annarra, ekki síst almennings. Valdsmenn eru alltaf og alls staðar í sama hlutverkinu, að hefta frelsi annarra og til þess hafa verið og eru notaðir raunverulegir sem huglægir múrar með ýmsum hætti !
Núverandi forseti Bandaríkjanna hamraði á því í kosninga-baráttu sinni að hann ætlaði að láta reisa múr á suðurlandamærunum sem liggja að Mexíkó. Sú fyrirætlun virtist falla verðandi kjósendum hans vel í geð. Þar var verið að tala um raunverulegan múr, byggðan á miðaldavísu, eins og um kastalaborgir lénsskipulags-tímans. Og þeir sem kusu Trump kusu hann auðvitað margir af sérgæskufullum ástæðum : ,,Ef lokað er á aðra hef ég meiri möguleika !
Kannski á þessi Mexíkó-múr eftir að verða eitthvað sem kann að gera hinn alræmda Berlínarmúr að litlu meira fyrirbæri en sögulegu garðbroti. Hugmynd Trumps er að byggja og tryggja rétta umgerð um ,,bandaríska frelsið að sunnanverðu og koma í veg fyrir innflytjendaflóð þaðan inn í Bandaríkin frá skítaholuþjóðunum sem hann segir lifa þar fyrir sunnan. Hann hefur látið það skýrt í ljós að til þess verði múrinn byggður !
Þegar slíkur múr eða veggur verður kominn upp að sunnan mun líklega koma að því að tryggja verði betur landamærin að norðan. Þá mun nefnilega hættan á því aukast að skítaholulýður muni reyna að finna sér leið inn í fyrirheitna landið þeim megin frá. Það þýðir þá líklega að byggja verði vegg frá Kyrrahafs-ströndinni yfir að vötnunum miklu og svo þaðan og austur úr. ,,Kínverski keisarinn í Washington mun líklega hugsa sér að einangra sig til fulls gegn öllu því veraldarpakki sem í kringum hann er og vill komast inn í ,,Guðs eigið land !
Er þetta það sem er að gerast og koma á ? Eru núverandi yfirvöld Bandaríkjanna virkilega komin inn á það að reisa verði raunverulega múra milli þjóða, að koma á aðskilnaðarstefnu í risastíl til að vernda bandaríska þjóðarhagsmuni, einhverskonar US frelsis apartheid-stefnu ?
Og hvað með innra öryggið, á svo kannski síðar að slá múr utan um spænskumælandi hluta Bandaríkjanna og gera fólkið þar að sérhjörð með cirka hálfum mannréttindum ? Er það rómverska patrísea-kerfið sem á að endurvekja svo auðstéttin geti unað sér hér eftir, alveg aðgreind frá plebejunum, með völd sín og allsnægtir ? Hvar enda menn eiginlega sem byrja að hegða sér með slíkum hætti ?
Bandaríski Republikanaflokkurinn er að verða eins og rómverska öldungaráðið á keisaratímanum, þröng sérhagsmunaklíka sem hefur enga grasrótartengingu og fyrirlítur venjulegt fólk. Óeðlilegt ríkidæmi og átrúnaðarkenndar en innantómar hefðir eru það eina sem heldur slíkri klíku saman - þar til að skuldadögunum kemur !
Oft felst hinn raunverulegi skítaholulýður einmitt á bak við slíkt hegðunarmynstur hrokaháttar og úrkynjunar !
Nýjustu færslur
- Arfleifð Francos !
- Í kringum kosningasirkus hégómans !
- Innflutningur á ófriði og ofbeldisbreytni !
- Um óraunhæfar væntingar !
- Á skelfilegt skítkast í kosningum að leiða til Gullaldar ?
- Félagshyggjuna upp örvæntinguna og vonleysið niður !
- Er Ísland utanríkispólitískt núll ?
- Um valdaspil að tjaldabaki !
- Að komast yfir Rússland !!!
- Áskorun til kjósenda : Sendum Vg afleggjaratusku íhaldsins ...
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 130
- Sl. viku: 809
- Frá upphafi: 356654
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 641
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)