Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020
24.4.2020 | 23:50
Að fela öðrum fjöregg þjóðarinnar !
Það er alkunna, þó reynt hafi verið að hafa ekki hátt um það, að offjárfestingar í ferðaþjónustugreinum hafa verið miklar hér á landi um allmörg undanfarin ár. Hótel hafa flogið upp um allt land og sum þeirra eru engin smásmíði, allskyns húsnæði annað hefur verið gert upp til að taka á móti ferðamönnum og allrahanda útgerðir settar á fót, bíla og rútufloti til skoðunarferða og peningaflæðið í kringum þetta allt verið með ólíkindum !
En eins og stundum vill verða með blessað einkaframtakið hér á landi og líklega víðar, eiga kostnaðarliðirnir að dæmast á ríki og sveitarfélög, en gróðinn að sitja eftir hjá hinum svokölluðu athafnamönnum !
Aðgengi að náttúruperlunum okkar þarf að vera miklu betra að mati slíkra sérhagsmuna-aðila og ríki og sveitarfélög eiga auðvitað að sjá um það. Það eru nefnilega kostnaðarliðir og Klondike-riddarar vilja sem minnst af þeim vita í sínu einkaframtaki !
Bankarnir hafa lánað býsna mikið í þessi ferðaþjónustumál, en ábyrgðaraðilinn er auðvitað samfélagið, ef illa fer. Þá á þjóðin að borga tapið. Svo hefur græðgin í þessari grein valdið slíkum verðhækkunum á þjónustu að þegar er trúlega búið að skemma talsvert fyrir varðandi áhuga annarra þjóða fólks að koma hingað. Stundum fara ferðaþjónustuaðilar nefnilega heilan hring í áróðri og auglýsingamennsku, og átta sig ekki á því að þeir eru þá farnir að mæta sjálfum sér í gagnstæðum anda !
Hreint land, fagurt land, rímar til dæmis ekki beinlínis við það að selja vatn á flöskum á hótelum í Reykjavík, til að drýgja ágóðann. Svo er sagt aftur og aftur að fólk sé í þessu ferðamennskustandi af hugsjón ..!
Nei, það er engin hugsjón í þessu, það er bara blind gróðahvötin sem rekur þetta fólk áfram. Væru málin rannsökuð ofan í kjölinn er ég sannfærður um að það kæmi skýrt í ljós, að hugsjónir eiga þarna lítinn sem engan hlut að máli. Þetta er bara púra bisniss upp á harðsoðna, ameríska vísu !
Þó að það hafi lengi legið fyrir, að offjárfestingar ferðaþjónustunnar myndu enda með einhverskonar brotlendingu þó Covid-19 kæmi ekki til, er ljóst að hliðstæð útkoma er í sjónmáli vegna afleiðinga veirufaraldursins. Og þá hillir líklega í veisluhöld hjá tækifærissinnum !
Margir rekstraraðilar eru því áreiðanlega nú um stundir, bæði í ferðaiðnaði og í öðrum greinum, að hugleiða hvernig þeir geti kreist fjármuni út úr ríki og sveitarfélögum, í ljósi þeirrar stöðu mála sem blasir við í dag !
Og eins og oft vill verða, er hætta á að margir fái stuðning af almannafé út af þessu ástandi, sem enganveginn ættu vegna ferilsögu sinnar - að fá slíka hjálp, en slíkir aðilar eru löngum líklegastir til að heimta mest !
Þá er um að ræða fyrirtæki sem eru og hafa verið rekin svo illa og ábyrgðarlaust undanfarin ár, að þau hafa verið á leiðinni í þrot - alveg án tillits til veiru-faraldursins. En nú á eflaust að nota tækifærið og fá endurfjármagnaðan rekstur óráðsíu og glapa á kostnað almennings, í gegnum einhvern Covid-19 björgunarpakka frá stjórnvöldum !
Það virðist alltaf vera fullt af fólki í þessu landi, sem hugsar aldrei um það að fjármunir ríkis og sveitarfélaga séu fjármagn þjóðarinnar. Að verja beri þeim fjármunum með ábyrgum og skynsömum hætti í þágu þjóðarheilla. Því miður virðast allt of margir hérlendis temja sér að horfa á allt fjármagn með augum ræningjans. Það er enganveginn rétt viðhorf til velferðar !
Atvinnulíf þjóðarinnar þarf fyrst og fremst að byggjast upp á innlendum iðnaði og nýtingu lands og sjávar. Við þurfum að byggja á okkar eigin forsendum og því að hjól atvinnulífsins séu að fullu í okkar höndum !
Tilviljunarkennd og tískusveifluleg afstaða útlendinga til þess hvort þeir heimsæki landið, getur aldrei orðið trygg undirstaða fyrir varanlega velferð íslensku þjóðarinnar. Þá er fjöregg okkar í annarra höndum !
Þegar útlendingarnir taka upp á því að fara eitthvað annað, sem þeir gera líklega fyrr en síðar, meðal annars vegna þjónustugræðginnar hér, hvað á þá að gera við öll glæsihótelin sem búið er að byggja hér, með herbergi í þúsundatali, í trú á stöðugt og viðvarandi flæði útlendinga hingað ?
Nei, svokölluð uppbygging, sem ræðst alfarið af vilja útlendinga til að koma hingað, verður aðeins sístækkandi tímasprengja, sem springa mun í andlit þjóðarinnar og líklega þegar þjóðin má síst við slíku !
Þar hefur vægast sagt verið kostað miklu til, en framhald á velgengni er hinsvegar að sáralitlu leyti í okkar höndum eða á okkar valdi. Við endum þar á flæðiskeri fáviskunnar !
Útlendingar, sama hvaðan þeir koma, verða aldrei heilbrigð undirstaða að velferð íslensks samfélags og sjálfstæðis. Atvinnulíf þjóðarinnar verður að byggjast á traustum grundvelli, sem að öllu eða yfirgnæfandi hluta verður að vera í þjóðhollum höndum Íslendinga sjálfra !
21.4.2020 | 11:20
Horft til komandi gamalmennaslags !
Sú var tíðin að talað var mikið um að sovéska kerfið væri orðið svo hægfara og íhaldssamt, að ekki kæmust þar á toppinn aðrir en afgamlir skarfar, sem ekkert ættu eftir nema að geispa golunni !
Það var töluvert til í þessu, einkum á seinni árum Sovétríkjanna. En þá var líka búið að binda kerfið í þann fasta hnút sem hengdi það að lokum. Þannig fer yfirleitt fyrir öllu sem maðurinn baslar við að byggja upp !
Mikið var gert úr því á sínum tíma hvað John F. Kennedy væri reffilegur forseti, en þá var Kruchev leiðtogi Sovétríkjanna og rúmlega 20 árum eldri en JFK. Frískleikinn var greinilega Bandaríkjamegin !
Það verður þó að segjast, að Krússi þótti eiginlega óvenju líflegur af Rússa að vera. Hann gat jafnvel brosað af og til, en yfirleitt þóttu sovéskir leiðtogar þungir á brúnina og ekki árennilegir !
En áfram með samanburðinn. Lyndon Johnson tók sig heldur betur út en Brechnev, sem minnti alltaf einna helst á svipþungan gorilluapa og Kosygin var ekki beint hressilegur að sjá. Þó Nixon þætti alla jafna nokkuð skuggalegur á svipinn, hafði hann samt vinninginn þegar hann var borinn saman við Brechnev og þótti engum mikið !
Gerald Ford virtist alltaf nokkuð strangur að sjá, enda var hann aldrei kosinn almennri kosningu til forsetaembættisins. Það hefur kannski valdið honum einhverju sálarlegu harðlífi sem komið hefur fram í svipnum !
Það létti því ekki að ráði til í Hvíta húsinu fyrr en með Jimmy Carter, enda hvíldi enginn Watergate skuggi yfir honum. Auk þess var hann á besta aldri og bauð af sér nokkuð góðan þokka !
En Jimmy greyið fékk nú ekki nema eitt kjörtímabil og honum heppnaðist ekki að ná góðum tökum á embættisstarfinu. Hans tími kom ekki fyrr en löngu eftir forsetaárin og er það nokkuð merkileg saga út af fyrir sig !
En eftir tíð Carters í Hvíta húsinu, fór heldur að versna með hina forsetalegu aldursstöðu, því Ronald Reagan var 70 ára þegar hann tók við og átti samt eftir að sitja áfram sem forseti í heil 8 ár !
Sumir vilja nú meina að hann hafi ekki verið mikið með á nótunum seinna kjörtímabilið, en málin hafi reddast með ,,góðra manna hjálp eins og stundum er sagt - til að fegra hlutina !
En 1982 dó Brechnev og sem betur fer. Hann var þá 76 ára og búinn að vera vitagagnslaus við völd alla tíð. Eftirmaður hans var Yuri Andropov, klár maður á margan hátt, en gamall orðinn og það sem verra var heilsulaus. Áður hafði hann lengi verið við stjórn KGB !
Andropov gat lítið beitt sér, vegna eigin heilsuástands, þó hann hefði líklega haft viljann til þess. Hann dó 1984 eftir 15 mánuði við völd. Þá var kosinn í hans stað Konstantin nokkur Chernenko, sem var orðinn svo gamall og frosinn kerfiskarl, að það sást varla lífsmark með honum, enda dó hann endanlega árið eftir !
En þá brá svo við, að tiltölulega ungur maður Mikhail Gorbasjov, var kosinn leiðtogi Sovétríkjanna og þá var staðan orðin sú - að sá sovéski var nánast 20 árum yngri en sá bandaríski. Dæminu sem sagt alveg snúið við frá Kennedy-árunum og frískleikinn orðinn sovéskur !
Staðan lagaðist þó heldur þegar Bush eldri tók við, en hann var 13 árum yngri en Reagan. En næst gerðist það að Rússar lögðu Sovétríkin niður, enda orðnir svo miklir kapítalistar að þeir gátu ekki verið þekktir fyrir það lengur - í eigin hugsun - að vera kallaðir kommar !
Gorbasjov missti þar með öll völd og hafði ofan af fyrir sér næstu árin með fyrirlestrum á Vesturlöndum, í ýmsum hægri manna klúbbum, sem borguðu vel, en Boris Jeltsin, skírður upp úr vodka, kom fram í staðinn sem forseti Rússlands !
Þegar þarna er komið sögu, er gamli Bush á útleið og Clinton á leiðinni að taka við sem forseti í Bandaríkjunum, maður á besta aldri og sæmilega fjörmikill að sögn. Aftur snerist dæmið við !
Jeltsin sat tvö kjörtímabil við völd, en var orðinn heilsulaus og að sumra sögn heiladauður seinna kjörtímabilið, enda var hann þá orðinn eins og lifandi lík í fjölmiðlum. En aðrir léttu víst undir með honum þá, eins og áður hafði gerst hjá Reagan, og sumir hjálparkokkarnir voru að vestan !
1999 tók svo við hjá Rússum tiltölulega ungur og óþekktur maður Vladimir nokkur Putin, lágvaxinn en snaggaralegur náungi. Sagt er að Jeltsin hafi valið hann og rennir það stoðum undir þá kenningu að hann hafi þá verið orðinn heiladauður !
En Vesturlönd voru nú mjög sátt við Putin þennan í fyrstu, því þau héldu að hann væri þeirra maður og líklegur til almennilegheita. Það var ekki farið að tala um KGB fortíð hans fyrr en slettist upp á vinskapinn síðar. Þá fór Putin nefnilega að fara sínar eigin leiðir og tók engri leiðsögn lengur !
Svo gerðust það undur í Júessei sem enginn gat skilið, að yngri Bush komst til valda. Hann var samt ekki þjakaður af háum aldri, en sumir töldu að greindarvísitalan hjá honum hefði mátt vera hærri eða í það minnsta virk. Hann fékk samt - líklega af stríðsástæðum - 2 kjörtímabil, - en gerði eiginlega sitt besta til að vera talinn með lökustu forsetum Bandaríkjanna !
Eftir hann kom Barack Obama sem þótti afskaplega sprækur maður og líklegur til afreka. Varla hafa meiri væntingar verið gerðar til nokkurs annars forseta þar vestra í háa herrans tíð !
Thorbjörn Jagland rauk meira að segja upp með látum og veitti honum friðarverðlaun Nóbels fyrir ódrýgðar dáðir. En Obama gerði nú ekki neitt stórt, nema þá kannski á ónefndum stað. En hann fékk samt 2 kjörtímabil og fór svo sína leið, enn með ódrýgðar dáðir í farteskinu !
Eftir það varð Donald Trump forseti, orðinn 70 ára og kannski eitthvað kalkaður. Varla hafa stjórnarathafnir annars forseta í Bandaríkjunum orðið jafn umdeildar í allri sögu sambandsríkisins og vandséð hvernig stórfurðulegur ferill viðkomandi manns kemur til með að enda. Líklegast er þó að það verði með einhverri sögulegri brotlendingu !
Og nú er komið árið 2020 og enn er hinn lágvaxni og snaggaralegi Vladimir Putin mestur valdamaður í Rússlandi, eftir rúm 20 ár á toppnum og þó ekki nema 68 ára gamall. Og félagi hans Dimitri Medvedev, sem hann skiptir stundum völdum við svona upp á grín, er bara 55 ára. Klifurgangan á toppinn er greinilega ekki eins langsótt í Rússó og eitt sinn var !
En nú stefnir hinsvegar í það í fyrsta sinn, að forsetakosningar í Bandaríkjunum verði gamalmenna-slagur. Trump verður þá 74 ára og Joe Biden 78 ára. Bernie Sanders sem um tíma virtist geta komið til greina sem mótframbjóðandi Trumps er 79 ára !
Það er greinilega enginn jafni John F. Kennedys í sjónmáli, röskur og reffilegur að sjá. Hvað veldur þessari amerísku ellismella-pólitík ?
Er bandaríska kerfið nú orðið eins staðnað og frosið, eins og það sovéska var áður ? Er nú svo komið að aðeins fólk á áttræðisaldri nær þar á toppinn ? Er Hvíta húsið að verða einhverskonar Dvalarheimili aldraðra pólitíkusa ?
Ég bara spyr ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook
18.4.2020 | 10:39
Innrásir og yfirtökur með fjármálavaldi !
Nú á tímum hafa menn miklu meiri innsýn í fjármálalegt vald og áhrif þess en áður var. Framþróun tölvutækninnar og sú alþjóðavæðing fjármálakerfa sem henni hefur fylgt, hefur breytt svo mörgu að peningavald nútímans þykir nánast takmarkalaust !
Möguleikarnir virðast þar óteljandi til áhrifa og inngripa. Og það væri synd að segja að þeir sem síst skyldu, væru ekki meðvitaðir um það, og það vald sem í því getur falist. Fjármálaleg yfirdrottnun getur skapað sterkara inngrip í mál en nokkurt stríð !
En þar með er ekki sagt, að þetta yfirmagnaða fjármálavald leysi betur úr hlutum eða geri heiminn betri. Staðan er eiginlega bara þannig, að þeir sem áður vildu bjarga málum sér í hag með stríði, geta það núna og gera það miskunnarlaust um allan heim - með efnahagslegum yfirgangi !
Þeim þykir það miklu þægilegra, enda geta þeir þá öllu frekar falið ofbeldið sem þó er síst minna. Fyrir vikið verður miklu minna um andspyrnu og mótmæli en ella - því fólk veit ekki hvað er á seyði !
Margt gerist þannig að tjaldabaki, sem almenningur einstakra landa og almennings-vitundin í heiminum hefur ekki hugmynd um og fær ekkert að vita af. Það er ekki að ástæðulausu að fjármálaheimurinn hefur stöðugt stundað það að brjóta niður öll höft varðandi peningaflæði milli landa !
Til þess að mútur geti gengið á alheimsvísu, verður að vera hægt að senda summurnar út og suður og þar mega engin landamæri hindra eins og í gamla daga. Frjálst flæði fjármagns er því ein helsta auðvaldskrafan á okkar tímum. Klyfjaði úlfaldinn er alltaf á ferð hlaðinn gulli !
Fjármagn þýðir nefnilega vald og þegar hægt er að flytja vald með ótakmörkuðu peningaflæði milli landa, er hætt við að sjálfstæði þjóða hér og þar fari fyrir lítið ef enginn er á verði !
Og þannig er það í nútímanum. Mörg stjórnarbyltingin hefur verið framkvæmd með þessum hætti á undanförnum árum. Einhver hugarfarslegur afkomandi Basils Zaharoffs segir víða í margfölduðum mætti : ,, Ég legg inn á þig og þú sérð svo um framgang mála !
Það þarf enga hernaðarlega innrás, enga tilfærslu tugþúsunda hermanna á breiðri víglínu. Það er bara viðhöfð peningatilfærsla sem virkjar tiltekna fimmtu herdeild á þeim stað þar sem þarf að breyta aðstæðum og skipta um valdhafa. Menn láta kaupa sig til illra verka ár og síð !
Nú þarf ekki einu sinni að hafa til vara áætlanir um hugsanlega notkun nifteindasprengja eins og svartliðar hugleiddu í eina tíð, ef allt færi á versta veg og fólkið yrði alfarið á móti þeim !
Með slíkum vopnum er hægt að koma í veg fyrir allt sálarsvekkjandi eignatjón, eins og þeir hugsa dæmið, og losa sig samt um leið við allt vandræðafólk. Nifteindasprengja er nefnilega hönnuð með þeirri kapítalísku hagkvæmni, að hún rústar ekki húsum, hún drepur bara fólk !
Og það er auðvitað ekki litið á það, af sumra hálfu, sem neitt sérstakt vandamál, heldur miklu frekar sem hluta af lausn einhverskonar hagræðingu. Andlegir afkomendur Zaharoffs eru nefnilega alltaf bölvaldar hvar sem þeir eru á ferð og aðeins sjálfum sér líkir svartir í gegn !
Og eins og einn stórkapítalisti á ónefndum litlum stað sagði eitt sinn af mikilli sannfæringu, er hann þótti ekki sérlega manneskjulega sinnaður gagnvart starfsfólki sínu : ,,Það er alltaf hægt að fá nýtt fólk !
15.4.2020 | 08:49
Reykjavík fyrir rúmri öld !
Mannsævin er í sjálfu sér stutt, jafnvel þegar best lætur. Fólk er kannski rétt farið að læra sæmilega á lífið þegar að kveðjustund kemur, en svigrúminu verður ekki svo auðveldlega breytt. Tilverutímanum virðist vera markaður bás með þeim hætti sem við þekkjum og við það verður að una þó súrt þyki !
Af þessu leiðir auðvitað, að menn hafa ekki sérlega mikla eigin yfirsýn varðandi það sem gerst hefur. Þekking því viðkomandi fæst bara í gegnum þær upplýsingar frá öðrum sem skráðar hafa verið. Hin lifandi upplifun varðandi þá hluti fer með fólkinu þegar það deyr. Það glatast því stöðugt mikil upplifun með hverri kynslóð sem kveður og raunar hverri manneskju sem deyr. Það er eitt af því dapurlega við lífið !
Fyrir rúmri öld var stórborgin okkar Reykjavík ósköp lítið og hrátt bæjarsamfélag. Þar baslaði fólk við að tóra og sumir höfðu það ekki af. Fólk dó þá iðulega úr fátækt og skorti og það þótti svo sem ekki neitt tiltökumál. Aðstæður til lífs og afkomu voru nefnilega oft býsna takmarkaðar. Á þessum tímum var til dæmis notuð talsvert eftirfarandi orðasamsetning um hinar lítt ákjósanlegu lífsaðstæður í sjálfum höfuðstaðnum - ,,grútarbræðslusalernahreinsunarfyrirkomulagið !
Svo var mál með vexti að ýmsum ,,betri borgurum þótti ólyktin frá grútarbræðslunni í Örfirisey alls ekki sæmandi höfuðstað landsins. En Geir gamli Zöega, sem rak grútarbræðsluna, af alþekktum dugnaði og fyrirhyggju, skellti skollaeyrum við allri ádeilu varðandi lyktina, því hann vissi sem var að þarna var bara um peningalykt að ræða. Og Geir hafði vissulega sitt vægi í atvinnulífi bæjarins og gat í mörgu farið sínu fram !
En þar fyrir utan var svo annað vandamál og það var varðandi hreinsun hinna fjölmörgu útikamra, sem var alveg sérstakt skítamál í bænum. Sóðaskapurinn frá kömrunum var nefnilega mikill og ærin þörf úrbóta !
Bæjarstjórnin tók því þau mál í sínar hendur. Réði hún menn þar til hreinsunarstarfa í ákvæðisvinnu, en margir tóku því illa í fyrstu og þóttust eiga sinn skít sjálfir. En samt vann hreinlætisþörfin hægt og bítandi á !
Þetta hreinsunarstarf var yfirleitt framkvæmt á nóttunni. Það voru notaðar hestakerrur við verkið, kassinn var hár og hólfaður í tvennt og lok yfir. Fína fólkið talaði um súkkulaðivagna en almenningur um drulludrossíur. Margt gerðist spaugilegt í sambandi við þessi hreinsunarmál, því gárungar voru auðvitað til þá eins og nú. Má tilfæra hér eina frásögn um það :
Einu sinni þurfti frú ein að kvarta yfir hreinsun, en henni var illa við konu manns þess sem tekið hafði hreinsunina að sér. Hún hringdi og kona mannsins kom í símann. ,,Er þetta drulludrossían ? spurði konan og lagði svo símann á. Hin konan ofsareiddist yfir óforskömmugheitunum og hringdi strax á miðstöð, en þá var ekki búið að slíta sambandinu. Hún spurði : ,,Er þetta miðstöð ? og hin svaraði ,,já. ,, Hvaða númer var að hringja hingað ? spurði sú móðgaða. ,,Það veit ég andskotann ekkert um, svaraði hin sallaróleg og lagði símann á !
Á þessum tíma var Reykjavík sem fyrr segir ósköp hrátt bæjarfélag. Það þekkti grútarlykt og notaðist við heldur ókræsilega útikamra. Lífið í bænum hjá almenningi miðaðist við að hafa í sig og á og stundum náðist það ekki þrátt fyrir þrældóm og basl. Margir áttu verulega bágt. Fátækrafulltrúar voru að störfum á vegum bæjaryfirvalda og var svo langleiðina til 1940, ef ekki lengur ?
Í dag mættu því margir minnast þess í hofmóði sínum og stórborgarstolti, að aðstæður mannlífsins í Reykjavík voru svona og það er ekki svo ýkja langt síðan. Þá var bara að langmestu leyti venjulegt fólk í Reykjavík rétt eins og annars staðar í landinu. Jafnvel svokölluð stórmenni voru ekkert sérlega stór, þegar á allt var litið !
En sumir eru þannig gerðir, að þeir vilja sem minnst af óglæsilegri fortíð vita. Og líklega er það þá slíkum í hag, að vitnin sem upplifðu umræddar Reykjavíkur - aðstæður á þessum tíma, eru að sjálfsögðu öll dauð !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 18
- Sl. sólarhring: 67
- Sl. viku: 587
- Frá upphafi: 365485
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 500
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)