Bloggfærslur mánaðarins, september 2020
26.9.2020 | 10:46
Grímuklæddur lýður !
Við göngum nú með grímur dags daglega mörg hver og sums staðar er það skylda. Óvinurinn er ekki sjáanlegur en við vitum flest að hann er þarna úti og allir í hættu. En svo hefur alltaf verið frá öndverðu !
Óvinurinn hefur alla tíð verið á sveimi okkur mönnunum til ills og bölvunar og ekki batnaði það þegar menn hættu að gera ráð fyrir honum og afskrifuðu hann. Þá fékk hann ótakmarkað athafnafrelsi og gat sett brennimark sitt enn frekar á heiminn !
Fólk gengur með grímur en þannig hefur það líka alltaf verið. Allir hafa verið í feluleik við alla. Enginn vill afhjúpa sig fyrir öðrum. Það hefur því alla tíð viðgengist grímuleikur í mannlífinu sem einstaklingsbundinn varnarleikur, en nú er komin þar gríma utan yfir grímu !
,,Þeir eru jafnvel farnir að ganga með grímur á Alþingi ! sagði einn um daginn. ,,Hafa þeir ekki alltaf gert það ? svaraði annar snarlega. Jú, allir hafa gengið um í felulitum og spilað á samfélagið í sínum grímubúningum.
Og blekkingarnar hafa oftast virkað býsna vel. Þessvegna hafa þær viðgengist svo lengi öllu falsi til framdráttar. Hvenær skyldum við verða þannig að við þorum að sýna hvernig við erum í raun og veru ?
Skyldu sumir hugsa með sér - ,,ég get ekki látið aðra sjá hvernig ég er, þá fá allir skömm á mér ! En er einhver eitthvað merkilegri en annar ? Er það ekki bara grímubúningurinn hans sem virkar þannig ? Og er ekki öll hin upphrúgaða samfélagsheild með goggunarraðar grímur, gegnum smurðar fláræði ? Ég veit ekki betur !
Covid 19 er bölvun sem komin er yfir heiminn og hreint ekki að ástæðulausu. Við erum margsek á nánast öllum sviðum. Raunar væri eðlilegast að Skaparinn sópaði okkur út af borðinu, öllu þessu grímuklædda hrokaliði, sem sperrir sig gegn boðum hans á hverjum degi.
Við hljótum að vera vegin og metin og léttvæg fundin !
Hvernig skyldi þetta veiruferli annars enda ? Táknar það upphafið að Þrengingunni miklu eða er það bara ein af undanfarandi viðvörunum ? Við vitum það ekki í dag en við munum fá að vita það áður en langt um líður !
Það kemur sem koma á og því verður ekki breytt. Einhverntímann rennur upp sú stund er grímurnar falla, allar sem ein, og menn standa frammi fyrir dómara sínum og geta ekki falið neitt. Þá verður mikið uppgjör og sannleikurinn einn fyrir svörum. Skyldi ekki fara að styttast í þá stund ?
22.9.2020 | 09:28
Aldrei Guði gleymdur !
Fáir virðast núorðið vita eitthvað um manninn Smith Wigglesworth, ævi hans og stórkostlega þjónustu hans í þessum heimi fyrir Drottin. Það eru þó til á ensku allmargar bækur sem byggja á prédikunum hans og kennslu í sönnum kristindómi og um hann var og hefur verið sitthvað skrifað !
Eitt lítið kver var þýtt á íslensku á sínum tíma um Wigglesworth og hefði vel mátt halda þar áfram í því verki að kynna meira þennan einstaka Guðs þjón. En þó maðurinn kunni nú að vera mörgum gleymdur í vegvilltum heimi mun hann ekki Guði gleymdur, enda var slík smurning yfir honum að sérstakt má teljast og átti það sér sína skýringu sem sögð er hér á eftir !
Smith Wigglesworth var fæddur 1859 og lést 12. mars 1947. Hann var ómenntaður maður, lærði þó pípulagnir og virtist líklegur til að stunda það starf til frambúðar. En hann brann af einhverju andlegu óþoli sem hann skildi kannski ekki þá, en fólst líklega í því að hann vildi eignast miklu nánara samfélag við Drottin. Og merkilegt er að lesa framvindu þeirrar sögu og hvernig Guð mætti honum í þeirri þörf hans og gerði hann að sterkum stólpa trúar sem var sem logandi kyndill í öllu lífi sínu og starfi !
Guð gaf honum yndislega eiginkonu að nafni Polly Featherstone. Smith var til að byrja með hrjúfur maður og skapmikill, en Polly var ljúflyndið sjálft. Þau náðu samt vel saman og Polly varð honum sönn blessun. Hún kenndi Smith sínum sannarlega margt og mikið meðan þau fengu að vera samvistum. Meðal annars kenndi hún honum að lesa !
En á nýársdag árið 1913 varð Polly bráðkvödd og Smith ætlaði ekki að afbera missinn. En Guð hughreysti hann og reisti hann upp til kröftugrar kristniboðsþjónustu sem hann hafði á hendi allt til síðasta ævidags. Hann fór víða um heim og hélt fjöldasamkomur þar sem stórkostleg kraftaverk áttu sér stað !
Eitt sinn sagði hann í viðtali, með tár í augum, þegar hann var spurður um leyndarmálið við kraftinn sem fylgdi honum og árangur hans : ,, Mér þykir leitt að þú skulir spyrja mig þessarar spurningar, en ég skal svara henni. Ég er niðurbrotinn maður. Konan mín sem var mér allt dó fyrir 11 árum. Eftir jarðarförina fór ég og lagðist á gröf hennar. Mig langaði til að deyja þar !
En Guð talaði til mín og sagði mér að rísa upp og fara þaðan. Ég sagði honum að ef hann gæfi mér tvöfalda smurningu Andans konu minnar og mína, þá skyldi ég fara og prédika fagnaðarerindið.
Drottinn var mér náðugur og veitti mér bæn mína. En ég sigli um höfin einn. Ég er einmana maður og margar stundir get ég ekkert annað gert en grátið !
Wigglesworth gat ásamt Jóhannesi skírara sagt : ,, Hann verður að stækka, ég verð að minnka ! Og sömu hugsun þurfa allir menn að temja sér ef þeir ætla sér að erfa hið óforgengilega líf.
Það gengur ekki fyrir nokkurn mann að vera > Allur í sjálfinu, ekkert í Guði. Hver maður þarf að stefna að því að verða > Minna í sjálfinu, meira í Guði. Eða þar til hann verður > Ekkert í sjálfinu, allur í Guði !
Wigglesworth undirstrikaði jafnan eftirfarandi sannindi : ,, Ef trú er boðuð, mun trú vaxa, ef lækning er boðuð mun lækning verða í kirkjunni, ef velmegun fyrir Guðs börn er boðuð, mun velmegun eiga sér stað !
Smith Wigglesworth fékk aldrei neina formlega menntun, en hann las eina bók, Biblíuna. Og velmenntaðir skólamenn í Biblíufræðum undruðust stórlega þann vísdóm sem hann bjó yfir. Honum var markvisst kennt í gegnum opinberanir Heilags Anda. Hjálparinn var til staðar í lífi hans !
Hvar erum við menn þessarar jarðar staddir nú um stundir ? Við höfum yfirgefið gömlu göturnar og villan ágerist með hverju árinu. Við erum ekki á leiðinni heim, við villumst stöðugt lengra að heiman. Siðvillur breiða sig yfir alla mannlega hugsun nú til dags og þykja réttar svo ratvísin er engin !
Það er varla undarlegt að maður hugsi til manna eins og Smith Wigglesworths á slíkum tímum vökumanna sem vissu alltaf að þeir voru á leiðinni heim, heim til Guðs, og áttu þá gleði í hjarta sínu sem fylgir ávallt þeirri vissu !
Átt þú sem lest þessar línur þá gleði í þínu hjarta ?
13.9.2020 | 19:31
Nokkur orð um tvennskonar líf !
Þar sem fjöldinn fer um, er margt að sjá. Að setjast á bekk í borgargarði á góðviðrisdegi og horfa á iðandi mannlífið allt í kring, er mörgum tamt. Kannski er meira um að eldri borgarar geri slíkt - en þó, unga fólkið er þar líka með. Hver getur verið ónæmur fyrir slíkum margbreytileika lífsins !
Hvað skyldi annars sitjandi fólk á bekkjum vera að hugsa við slíkar aðstæður ? Má ekki hugsa sér að gleðin yfir lífinu sé því ofarlega í huga ? Því vissulega er lífið merkilegt fyrirbæri og ætti að vekja hvern mann til áhuga og umhugsunar, ekki síst um höfund þess Hinn Lifandi Guð !
Eftir svo og svo mörg ár deyjum við eins og við vitum öll. Sumir deyja þá alfarið frá lífinu, en aðrir deyja til endurfæðingar inn í hið raunverulega líf !
Og fyrst þetta jarðneska líf getur sannarlega verið svo yndislegt í gegnum þær góðu stundir sem gefast, hvað skyldum við þá skilgreina öllu gildismeira en það auðvitað hið fullkomna og raunverulega líf ?
Hið raunverulega líf er nefnilega líf án dauða. Það er eilíft líf ! Þannig hefur Skaparinn hugsað sér framtíð barna sinna, þeirra sem vilja fylgja honum og leið ljóssins og þrá hið eilífa líf í skjóli hans. Það getur að sjálfsögðu enginn gefið manninum eilíft líf nema Guð einn !
Menn snúast mikið í kringum svokallaða ljósleiðara í þessu lífi, en þar er kannski verið að bjóða upp á sitthvað sem er ekki sérlega uppbyggilegt fyrir mannssálina. Líklega er þar frekar tilboð um myrkur en ljós. Guð er auðvitað hinn eini sanni Ljósleiðari sem færir manninum þá hvíld og þann frið sem hann þarfnast !
En mannlífsröstin liðast frá ári til árs út og suður og menn eiga það til að missa tímann algerlega frá sér í æstum hita sérgæskunnar. Þeir vilja efnast, græða, njóta svonefndra gæða lífsins eins og þeir kalla það, já, eins og frekast er kostur !
Allt er það efnislegt mat og andinn ræður þar auðvitað engu. Til þessara efnislegu gæða þarf peninga, mikið af peningum. Og í látunum við að eignast peninga, gleyma menn gjarnan eigin sálarheill !
Það er ekki fyrr en á banabeði, við dauðans dyr, að sumir þeirra átta sig á því að náðartími þeirra er liðinn, að dauðinn einn og algjör er það eina sem bíður þeirra. Þeir hafa sjálfir valið að ganga glötunarleið og lokað leið sinni til hins varanlega lífs !
Og nú eru þeir eins og ríki maðurinn í helju. Græðgi augnabliksins er að baki í hugum þeirra, auðgunarhvötin, svo illilega afvegaleiðandi, stjórnar þar ekki lengur, óttinn við dauðann og syndagjöldin er þess í stað orðinn þar allsráðandi. En það er samt engu hægt að breyta úr því sem komið er, engin von lengur. Tækifærið til að höndla hið eilífa líf er horfið !
Allt á nefnilega sinn endatíma, sína lokastund. Meira að segja það sem sumir halda víst í sérgæsku sinni að sé óendanlegt fyrirbæri og bjóði endalaust upp á annað tækifæri hvernig sem menn hegða sér Náð Guðs !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.9.2020 kl. 09:43 | Slóð | Facebook
9.9.2020 | 10:01
Um það sem kann að bera fyrir augu !
Fyrir nokkru kom ég inn á KFC í Reykjavík og var þar þétt setinn bekkurinn. Sá ég þar meðal annarra sitja þjóðkunnan mann, Guðmund G. Þórarinsson. Á móti honum sat skeggprúður og prófessorslegur maður sem talaði í nokkrum ákafa.
Guðmundur hallaði sér aftur á bak í sætinu og virtist nokkuð þreytulegur. Ekki virtist hann svara mikið viðmælanda sínum og kannski var hann bara þreyttur á mælgi hans !
Eins og flestir muna, að minnsta kosti þeir sem skipt hafa sér af skákmálum, var Guðmundur G. Þórarinsson hárfagur maður hér fyrr á árum, en nú er höfuðskrautið að mestu farið því auðvitað hefur maðurinn elst eins og aðrir.
Ég hitti hann einu sinni fyrir um 30 árum heima hjá Jóhanni Þóri hálfbróður hans, en þar var maður sem mér þótti nokkuð vænt um. En nú eru yfir tuttugu ár síðan Jóhann Þórir kvaddi og eiginlega finnst mér að enginn hafi almennilega komið í hans stað. Það er alltaf sagt að maður komi í manns stað, en stundum er nokkuð erfitt að trúa því !
Þegar ég sá Guðmund bróður Jóhanns þarna á Kentucky flaug í hugann þessi vísa :
Hér má líta Guðmund G.
garp með anda sönnum.
Á honum ég aldur sé,
eins og fleiri mönnum.
Svo kvað ég áfram í huganum á leið að borði mínu :
Vel hann skilur skáklegt gaman,
skóp sér frægð með sannleik þeim.
Spassky og Fischer spyrti saman,
spurðist það um allan heim !
Tíminn fer hratt um garð og margt gleymist, en Guðmundur G. Þórarinsson og einvalalið í forustusveit Skáksambands Íslands stóð árið 1972 fyrir einni mestu, víðtækustu og jákvæðustu landkynningu sem Ísland hefur hlotið að mínu mati - með því að halda með svo glæsilegum brag og stíl ,,Heimsmeistaraeinvígi aldarinnar !
Áfram haldi hugans afl
hreinu merkis orði.
Lífið allt er eins og tafl,
ævin skák á borði.
Það var heiður Íslands sem var í öllu útgangs og viðmiðunarpunktur málanna af hálfu þeirra sem forustu höfðu fyrir þeim mikla viðburði sem heimsmeistara-einvígið sannarlega var, og full ástæða er því til að muna það sem vel er gert, ekki síst í þágu þess sem þjóðinni er virkilega til sigurs og sæmdar !
Þessvegna hafði ég ánægju af að sjá Guðmund G. Þórarinsson þarna á Kentucky, þó hann væri nokkuð þreytulegur og vissulega talsvert eldri en þegar fundum okkar bar saman á Meistaravöllum forðum daga, heima hjá Jóhanni Þóri bróður hans, þeim eldhuga driftar og dáða !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook
7.9.2020 | 17:45
Að stela í tonnatali !
Fyrir nokkru var framinn þjófnaður á Hvammstanga. Stolið var um tveim tonnum af frosinni rækju. Það segir sig sjálft að slíkar gripdeildir eru ekki lítið mál. Þar hlýtur að vera um þaulskipulagt athæfi að ræða og allur útbúnaður sem til þarf mun þá líklega vera vandlega græjaður fyrirfram !
Einnig mun vafalaust hafa verið búið að gera því skil hvernig herfanginu yrði ráðstafað og komið í peninga sem hlýtur að vera tilgangurinn með slíkum ránskap. Aðilar kunnugir markaði mála hljóta að koma við sögu þegar menn fara að verða svona stórtækir í steleríinu !
Skrítið er, ef ekki er hægt að rekja slíka hluti nú til dags, og ná í hnakkadrambið á slíkum lögleysingjum sem þeim sem þarna hafa verið á ferð. Er virkilega hægt að stela framleiðsluvöru með þessum hætti og það í tonntali og láta hana algjörlega hverfa ?
Á síðari árum hefur þótt bera nokkuð á því að þjófagengi hafa komið frá höfuðborgarsvæðinu og stundað ránskap á landsbyggðinni, oft að næturlagi. Stundum er talað um fjármögnun vegna fíkniefnakaupa í því sambandi !
Í slíkum tilfellum virðist sem bæði hafa verið um Íslendinga og erlenda aðila að ræða. Eru slíkar heimsóknir skiljanlega í meira lagi hvimleiðar og bera því glöggt vitni hvernig heiðarleika hefur farið aftur í þjóðfélaginu og ýmisskonar glæpastarfsemi aukist samfara því með ömurlegum og ómannlegum hætti !
Margt algjörlega ólöglegt athæfi virðist nú flokkað af æði mörgum undir réttmæta sjálfsbjargarviðleitni og skilningur fólks á réttu og röngu virðist orðinn blendinn í meira lagi. Það er enganveginn af því góða !
En það eiga að vera lög í landinu og þau eru til þess sett að vernda borgarana og samfélagið, ekki síst fyrir þeim aðilum sem virða engar reglur og halda að þeir geti rænt og ruplað hvar sem er !
Það er því full ástæða til að efla löggæsluna, en það verður þó alltaf að varast að hér verði komið á fót herafla sem gæti orðið einhverskonar ríki í ríkinu, nokkurskonar sérsveit sérsveitanna, grá fyrir járnum !
Sem frjálsastir viljum við Íslendingar jafnan vera, en það verður að tryggja að mannfrelsi og lýðræði sé ekki notað til að fótumtroða lög og rétt í landinu. Þeir sem hegða sér þannig verða að svara til saka fyrir slíka breytni, en fyrst verður auðvitað að hafa hendur í hári þeirra !
Þjófnaðarherferðir þar sem stolið er verðmætum jafnvel í tonnavís, mega ekki viðgangast hérlendis og taka verður hart á slíku framferði svo áfram megi - með íslenskum hætti - samkvæmt réttum lögum, land byggja !
Nýjustu færslur
- ,,Einleikur á Eldhússborðsflokk ?
- Hverju er þjónustan eiginlega helguð ?
- Orðheimtu aðferðin !
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 9
- Sl. sólarhring: 256
- Sl. viku: 1289
- Frá upphafi: 367414
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 1130
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)