Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2021
25.11.2021 | 23:01
Klúður elur af sér aukið klúður !
Það sjá það líklega allir menn, að eina leiðin til að skila fullu lýðræðislegu umboði til kjörinna alþingismanna er að heildarkosning fari fram aftur. Að negla einhverja talningu niður sem þá réttu, eftir það yfirgengilega klúður sem átti sér stað við kosningastörfin í Borgarnesi, er fráleitt. Það getur aldrei gefið fullvissu fyrir því að menn sitji í fullum rétti á alþingi !
Maður hefði haldið að alþingismenn ættu að vera líklegastir til að standa vörð um heilbrigð lýðræðisleg gildi í landinu, enda eiga þeir að vera til þess kjörnir. Þeir eiga ekki að vera undirlægjur framkvæmda-valdsins. En annað virðist vera komið á daginn !
Það á að komast frá klúðrinu með því að staðfesta útkomu sem aldrei getur verið rétt. Þar með er trúverðugleika kosninganna í heild stefnt í tvísýnu, og vinnubrögð viðurkennd varðandi úrslit þeirra, sem aldrei ættu að líðast !
Auðvitað er verið að horfa í peninginn í þessu, enda er dæmið þegar orðið dýrt. En hvað kostar heilbrigt lýðræði ? Við vitum að spillt lýðræði kostar mikið, enda höfum við lengstum búið við það, en líklegt er að heilbrigt lýðræði kosti meira, enda meiru fórnandi fyrir það !
Og heilbrigt lýðræði gerir þá einföldu kröfu að endurtaka verði kosningarnar í heild. Það er eina leiðin til að bæta fyrir mistökin sem gerð hafa verið og tryggja að ekki sé um vafasöm úrslit að ræða. Valdi þjóðarviljans má ekki fórna með kosningaklúðri. Eru ekki lögin til þess að farið sé eftir þeim ?
Við höfum hingað til sloppið undarlega vel við klúður af þessu tagi. Það byggist sennilega á því að oftast hefur verið vandað vel til vals á þeim sem utan um þau mál hafa haldið. En nú gerðist þar nokkuð sem ekki átti að geta gerst og það setur öll kosningamálin í óefni. Það er ekki að sjá annað en vítavert kæruleysi hafi verið viðhaft í varðveislu kjörgagna og óboðleg vinnubrögð hafi verið í gangi. Slíkt má ekki endurtaka sig !
Allt yfirklór verður því aðeins til að auka á klúðrið. Ef niðurstaðan verður ekki sú að kjósa beri aftur um land allt, fara alþingis-kosningarnar 2021 inn í söguna sem það klúður sem þær voru og að því er enginn sómi !
Og jafnframt sést þá að enginn raunverulegur vilji var til staðar hjá stjórnvöldum að gera hreint fyrir sínum dyrum varðandi þetta efni og taka á vandanum. Heilbrigt lýðræði laga og réttar var því látið lönd og leið að tilstuðlan þeirra og með fullri aðkomu þeirra að málinu !
Framkvæmdavaldið og tök þess á þinginu hafa komið þessu til leiðar og framkallað þá falleinkunn lýðræðisins sem við blasir !
Hvernig á að bera virðingu fyrir slíkum stjórnvöldum ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook
19.11.2021 | 20:26
Um tómlætisástand allrar tilveru !
Fólk sem lifir nú á 21. öldinni, reynir eins og það frekast getur að tala um tíma síðustu aldar sem eitthvað sem aldrei komi aftur, hinar blóðugu heimsstyrjaldir og nánast alla atburðarás þess tíma. Það virðist líta á síðustu aldaskil sem kaflaskipti í sögu mannkynsins, hið ljóta sé að baki og betri tíð framundan, en því miður, fátt er fjær sanni !
Maðurinn er nákvæmlega sama siðleysisskepnan í dag og hann hefur alltaf verið. Eða hvað kennir manninum betri siði í dag ? Sennilega enn færra en gerði það áður. Hann er í uppreisn gegn öllum siðalögmálum og vill vera frjáls og undanþeginn öllum boðum og bönnum. En maður sem er haldinn þeirri andfélagslegu hugsun að hann sé sinn eiginn guð er samfélagslega hættulegur og þannig virðast margir vera í dag !
Úrkynjun er alltaf raunverulegur möguleiki í tengslum við mannlífið. Og það sýnir sig glöggt í samtíðinni. Þegar velmegunarstig er orðið það hátt að það gerir litlar kröfur til mannsins um að standa sig, koma fljótt í ljós ýmis úrkynjunar-einkenni. Það þarf ekki að fara víðar en bara smáhring um Norðurlöndin til að sjá þetta.
Við virðumst t.d. ekki vera að skapa neitt í dag í skáldskap og listum sem jafnast á við verk fyrri tíma höfunda, sem börðust nánast við hungurmörk í gamla daga. En það er samt sannarlega látið eins og svo sé !
Hvað myndi Michelangelo segja um stöðuna í dag ? Ég held að honum myndi lítast afskaplega illa á hana. Og hvers vegna ? Einkum vegna þess að aðeins lítill hluti þeirra sem kalla sig listamenn í dag eru trúlega í raun og veru listamenn og tilbúnir að fórna einhverju fyrir listina !
En þess er ekki krafist nú á tímum og velsældarsamfélag svokallaðra listamanna sýnist öllu heldur vera til staðar í dag. Þar virðist fólk þrífast ágætlega með fullan kvið við flottar aðstæður. Það lifir á styrkjum og stuðningi hvern dag og virðist ekki hafa tíma til að skapa neitt !
Og samfélagið borgar fyrir það allt, en svo lítið virðist koma þar á móti að ég held að það framlag sé varla þess virði að á það sé minnst. Íslenskt listalíf virðist svo til allt vera á opinberu framfæri í dag og einmitt þessvegna verður ekkert til sem einhverju máli skiptir og svipað ástand er á allt of mörgum sviðum. Við erum ekki í framför, við erum í afturför !
Það er lifað á ímyndaðri list í svo mörgu og verkin sem stöðugt er talað um að skapa verða aldrei til. Hvað ætti svo sem að þrýsta á sanna listsköpun í yfirstandandi lognmollu nægtanna ? Og líklega eru bara 10% bókaðra listamanna raunverulegir listamenn sem gætu hugsanlega skapað eitthvað ?
Allmargt fólk fæðist auðvitað sem fyrr með mikla listræna hæfileika, en ég held að það sé að stórum hluta eyðilagt með því meðvitundarleysi gagnvart list sem ræður greinilega ferðinni í dag. Það dregst með í hópferð heimskunnar eins og fjármálalífsaðallinn gerði fyrir hrun. Það má ekki skemma skemmtunina þó allt sé á kolvitlausu stími út í svartnætti svikalogns og blindrar sérgæsku !
Og hvert stefnir þjóðarskútan, hún stefnir auðvitað beint inn í skerjagarð skítmennskunnar eins og fyrir hrun. Okkur virðist hreint ekki viðbjargandi vegna þeirra blekkinga sem við beitum okkur sjálf !
Og verst er svo það að við eigum enga frambærilega forustumenn frekar en fyrri daginn. Það er sjáanlega engin bitastæð framtíðarsýn í gangi hjá því liði sem stjórnar !
,,Aha, þjóðfélagið, það lafir (kannski) meðan við lifum ! virðist þetta ferilskráarfasta forustufólk hugsa, ef það hugsar þá, og svo stingur það höfðinu í sand mannhrokans og gerir lítið sem ekkert að gagni !
Og allar mannlegar dyggðir segja með sínum hætti við slíka forustu, yfir öll andleg svið mannshugans : ,,Skammist þið ykkar !
16.11.2021 | 11:46
Gréta og kórinn bla, bla, bla !
Nú græn er hver einasta græningjaspá
því grænleysi er það sem við blasir.
Um grænustu lausnir sig græningjar tjá
með grænleitan horinn um nasir.
Æpt er um þetta og æpt er um hitt
og allt á að vera að hrynja.
Svo blessunin Gréta hún básúnar sitt
er bágstaddar þjóðirnar stynja.
Í áróðurskórnum er auðvelt að sjá
á öskrandi ferð margan glópinn.
Þar grípa menn sérhverja gjörningaspá
með Grétu sem leiðir hópinn.
Og blekkingar eru á fljúgandi fart,
svo fráleitt ég stöðuna ýki.
Og myndræna hliðin svo smellin og smart
með smástelpu úr múslimaríki.
Margt er nú framleitt á markaðsins braut
og mótað til áróðursþrifa.
Og Gréta á frekast að greina þá þraut
sem gerir oss erfitt að lifa.
Menn trúa því Grétu og gefa henni sjans,
hún geisist um kúluna þvera.
Því allt er að fara til andskotans
og enginn veit hvað þarf að gera.
Nema hún Gréta - hún Gréta er svo klár,
og gengið sem út hana sendir.
En reisurnar þýða að reikningur hár
í ranginda dyngjunni lendir.
Þó enginn sé Hans til að spila það spil
sem spútnikin sænska er að kynna,
er grænasta staðreynd að Gréta er til
og Gréta er alltaf að vinna !
9.11.2021 | 21:02
,,Að borga allt of háan skemmtanaskatt ?"
Íslendingar hafa nú fengið yfir sig nokkrar bylgjur af Covid-19 og sumar að talsverðu leyti vegna þess að fólk hefur skort úthald í varnarbaráttunni gegn þessum vágesti. Yfirvöld hafa líka stundum slakað á við hálfan sigur, enda mun þrýstingur fyrir afléttingu á hömlum, einkum frá fjármagns-aðilum, vera töluvert meiri en veruleikinn ætti að leyfa !
Fólki þykir illt að vera undir hömlum, boð og bönn eiga illa við nútímann.Sennilega værum við komin töluvert lengra í baráttunni við Covid-19 ef fólk væri ekki alltaf í svo mikilli þörf fyrir að sletta úr klaufunum sem raun ber vitni !
Allskonar ótímabærar skemmtisamkomur hafa hleypt upp hópsmitum sem erfitt hefur verið að fást við og kveða niður. Það er býsna hár skemmtanaskattur sem þjóðin þarf að borga vegna þess !
Af hverju erum við að taka slíka áhættu ? Getum við ekki setið á okkur þar til hættan er áþreifanlega hjá liðin ? Getum við ekki sýnt heilbrigða skynsemi þegar við stöndum frammi fyrir hættu sem ógnar samfélaginu ? Erum við kannski í gíslingu fjármálaafla sem heimta stöðugt meiri tekjur í kassa sína ?
Við skulum hafa það í huga að alfrelsi er engum gott. Gott samfélag verður aldrei byggt upp í gegnum alfrelsi. Það verða að vera lög og reglur og þeim verður að hlýða. Hvað sagði ekki George Washington : ,, Mannkynið, þegar það er látið sjálfrátt, er óhæft til að stjórna sér sjálft ! Það verður að vera eðlileg stjórn á lífsmálunum, samfélaginu öllu til uppbyggingar og heilla og það verður að vera agi til staðar !
Við höfum margsinnis orðið vitni að því að ótímabær veisluhöld, í kringum svo til óheft skemmtanahald, hafa keyrt Covid-veiruna upp. Það er talað um ná hjarðónæmi en enginn veit í raun hvenær því er náð eða hverju þarf að fórna til þess. Og við skulum hafa í huga, að visst agaleysi í glímunni við þessa farsótt, er að kosta okkur mannslíf !
Óvinur af því tagi sem Covid-19 er, á og verður að kalla á þjóðfélagslega samstöðu. Það er eina leiðin til að sigrast á slíkri vá. Það þýðir ekki að skella skollaeyrum við hættunni og dansa áfram í kringum gullkálfinn.
Það þýðir ekki að einblína á einhvern tekjuauka í stöðu sem þessari. Innvígðir og innmúraðir kapítalistar geta líka dáið. Dautt fólk hefur hvorki gagn né gleði af peningalegum ágóða !
Reynum nú einu sinni að sýna lifandi samfélagskennd og standa okkur á þessu prófi. Það er svo margt í húfi. Það er eiginlega allt í húfi.
Hvaða framtíð koma börnin okkar til með að erfa ef við sigrumst ekki á þessum fjanda ?
6.11.2021 | 13:00
Nútíminn er gerður svo yfirþyrmandi !
Flestallir í nútímanum virðast vera haldnir þeirri hugsun að allt sé núna. Sýn til baka virðist engin vera eða mjög takmörkuð og sýn fram á við í svipuðu fari. Það er bókstaflega rekinn áróður fyrir því að núið eigi að vera allsráðandi. Hvaða áhrif getur svona einsýni haft á fólk ?
Verður fólk sem er tvítugt í dag og telur sig þar með á toppi lífsins, sálarlega samanfallið eftir tíu ár, vegna þess að það er ekki lengur á toppnum og orðið gamalt ? Kemur því til með að finnast lífið einskisvirði fyrst það er ekki lengur tvítugt á toppnum ?
Hverskonar vitleysa er þetta gagnvart ungu fólki sem á lífið allt framundan og þarf að þekkja heildarmyndina, þekkja möguleika þeirrar tilveru sem við búum við ?
Lífið býður upp á ýmis hlutverk og hvert þeirra getur haft sinn sjarma. Hver og einn verður að tileinka sér þá hæfni að læra þessi hlutverk og njóta þeirra !
Tvítuga fólkið í dag á vonandi eftir að eignast sín börn og barnabörn og meðtaka sjarmann sem því fylgir. Þau ævintýri gerast ekki þegar fólk er um tvítugt. Lífið er sem betur fer miklu meira en nakið núið !
En nútíminn er svo yfirþyrmandi, með sölumennsku-viðhorf sín og hagsmunastýringu varðandi alla hluti. Það er hamrað stöðugt á því að fólk sé alltaf að missa af einhverju, lífið sé bara núna, og fólk hleypur fram og aftur í ofboði og keppist við þetta og hitt og gleymir um leið að lifa !
Allt sem áður hefur verið hluti af lífinu er allt í einu sett upp eins og eitthvað sem er að gerast í fyrsta skipti. Jafnvel það að fæða börn verður eitthvað svo ótrúlega stórkostlegt í nútímanum. En forsendan fyrir lífi fólks í dag er nákvæmlega sú sama og hún hefur alltaf verið, sem sé sú - að það hafa fæðst börn áður, og við sem eldri erum en tvítug erum í þeirra hópi. Ef svo væri ekki væri unga fólkið í dag ekki til !
Það er ekki langt síðan konur ólu börn sín heima og engum þótti það neitt undur. En nú í hinu einstaka, uppstrílaða núi, er sem allt sé að gerast í fyrsta sinn. Og það er komið heilt kerfi í kringum það að koma barni inn í heiminn. Lífið er nefnilega sagt vera núna eins og það hafi aldrei verið áður og komi ekki aftur. Lífið virðist þannig lagt undir eitt augnablik mannsævinnar !
Þetta er mannskemmandi kjaftæði. Meðan þú lifir áttu líf, hvort sem þú ert um tvítugt, þrítugt, fertugt eða eldri. Og öllu lífi ber virðing. Meðan þú lifir ertu að kynnast nýjum viðhorfum og læra. Það er ekkert nú sem á að ráða örlögum þínum og taka allt frá þér eftir augnablik. Þú átt líf meðan þú lifir, alveg sama á hvaða aldri þú ert og hvert aldursskeið getur búið yfir sínu ævintýri !
Látum ekki yfirkeyra okkur með markaðsáróðri og svikamenningar-kenningum. Verum heilbrigð og metum sjálf hvað okkur er fyrir bestu. Nútíminn er ekkert merkilegri tími en sá tími sem liðinn er eða sá tími sem á eftir að koma. Gerum okkur grein fyrir því með fullri skynsemi !
En hann er vissulega og verður sá tími sem við eigum yfirstandandi, hvort sem við erum yngri eða eldri. Reynum því að njóta hans með eðlilegum hætti og forðumst að gera hann svo yfirþyrmandi, að hann taki með rangspiluðu öfgaferli augnabliksins lífið frá okkur !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook
3.11.2021 | 15:52
Á Efling að vera vakandi eða sofandi ?
Ég hygg að flestir hugsandi menn hafi gert sér grein fyrir því að Sólveig Anna Jónsdóttir væri að leggja út í ansi mikla baráttu þegar hún bauð sig fram gegn ríkjandi klíkuvaldi innan Eflingar.
Sú spurning leitaði þegar á huga manns stendur hún þann storm af sér eða verður hún flæmd úr starfi ? Svarið við þeirri spurningu virðist nú liggja fyrir !
Það vita allir, að í stofnunum og félagsskap af flestu tagi myndast valdahópar sem læra fljótt að eigna sér ferli mála og jafnframt að bægja þeim frá sem ekki eru taldir æskilegir samstarfsaðilar.
Verkalýðshreyfingin, eins og flest hliðstæð samtök, hefur í sinni sögu þurft að glíma við ýmislegt klíkukyns, sem að líkum lætur. Flest af því tagi hefur yfirleitt orðið heilbrigðu og eðlilegu starfi til skaða !
Sigurður Bessason var lengi formaður Eflingar og allt of lengi, að margra mati. Og mér er engin launung á þeirri skoðun minni, að á hans valdatíma hafi Efling fyrst og fremst orðið að þeim sofandi risa sem félagsheildin óneitanlega var !
Mér fannst Sigurður aldrei vakandi formaður sem slíkur og undraðist hvað hann gat lengi setið án þess að gera neitt að mér fannst. Það var ekki mikil reisn yfir starfsháttum Eflingar á þeim árum !
Á öllum þeim ömurlega deyfðartíma virðist svo einhver samandregin Fróðárhirð hafa hreiðrað um sig í stjórn Eflingar og haft það náðugt, líklega á hinum sæmilegustu kjörum. Sennilega bara sofið vært á dyngjunni ásamt formanninum !
Svo hefur það líklega gerst sem átti ekki og mátti ekki gerast. Skyndilega skall á stormur, hirðin hrökk upp úr velsældar-dvala sínum og áttaði sig á því að það var orðin virkileg hætta á því að tekin yrðu frá henni þau fríðindi sem átt höfðu að vera henni gulltrygg um ókomin ár, samkvæmt fyrri stjórnunarháttum.
Slíkt og þvílíkt var bara óhugsandi fyrir hin innvígðu alidýr og koma varð hlutunum aftur í lag með einhverju móti !
Og upp úr því tel ég að mynduð hafi verið innanfélags andspyrnuhreyfing gegn hinu nýja valdi. Það er bara það sem gerist alls staðar þar sem gömlu og ónýtu valdi er hent út og reynt að hreinsa til.Samsvarandi atburðarás hefur átt sér stað um allan heim oftar en nokkur maður getur talið !
Það er einnig augljóst, að hið nýja vald í Eflingu sem náði með litlum fyrirvara í gegn, með stórfylgi almennra félagsmanna í kosningu, eignaðist samstundis marga óvini utan félagsins líka. Það er ekki erfitt að gera sér grein fyrir því. Það eru nefnilega margir valdaaðilar í þjóðfélaginu sem vilja áreiðanlega að Efling sofi og það sem lengst !
Það hefur að öllum líkindum farið mikill óhugur um allan þann fjandaflokk, þegar Sólveig Anna og félagar náðu völdum í Eflingu og fóru að reyna að vekja það sem átti að sofa !
Kannski fór sú hersing strax á kreik til andstöðu og kannski var farið að stofna til einhverrar fimmtu herdeildar og kannski eru það verk slíkra innherja og útherja sem eru að koma í ljós þessa dagana ? Það verður auðvitað aldrei vitað, þó margt sé hægt að gruna í því sambandi !
En fróðlegt verður að fylgjast með því hverskonar stjórn tekur nú við völdum í Eflingu ? Verður það ný sofendaklíka og ný Fróðárhirð, spyr líklega margur ? En það verður erfitt að koma svo blóðlausu fyrirbæri aftur af stað innan verkalýðsfélags, sem hefur þrátt fyrir allt fengið lífsanda í sig og verið vakandi um skeið. Samanburðurinn verður svo óhagstæður !
Samt munu nógir verða til að reyna að svæfa Eflingu á ný, líklega bæði innanfélags og utan. Róttæk verkalýðsbarátta er eitur í beinum margra í þjóðfélagi okkar, enda búið að gera þar allt að söluvöru !
Það eru býsna margir sem eru hreint ekki frábitnir þrælahaldi, svo framarlega sem þeim sjálfum sé ekki ætlað að vera þar í þrælshlutverki !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 24
- Sl. sólarhring: 73
- Sl. viku: 593
- Frá upphafi: 365491
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 506
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 21
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)