Leita í fréttum mbl.is

Andavald Rómar segir til sín !

 

 

Ef gengið er út frá því að sitjandi forseti Bandaríkjanna sé - þrátt fyrir allt - andlega heill, sem reyndar er nokkuð erfitt að hugsa sér, má telja nokkuð víst að hann hafi ætlað sér eitthvað sérstakt með hópgöngunni að þinghúsinu en það hafi bara ekki gengið eftir. En hvað vakti þá fyrir honum með þeim vanhugsaða gjörningi ?

 

Hélt hann kannski í uppskrúfuðu oflæti sínu að hann gæti með einhverju móti náð völdunum aftur með þeim hætti ? Snúið framvindu mála sér í hag, lagt þingið undir sig með fjölmenni sem tróð á öllum góðum gildum ?

 

Nei, þannig gat nú enganveginn farið. Maðurinn hefur einungis fælt frá sér mikilvægan stuðning og nú eru líklega aðeins harðsoðnir hægri öfgamenn eftir sem óbreyttir fylgismenn hans, lið sem enginn getur hrósað sér af !

 

Þegar Trump sá afleiðingarnar af þinghúsgöngunni hefur honum sennilega ekki litist á blikuna, svona fyrst í stað. Hann dró úr öfgayfirlýsingum sínum og fór að tala með vægilegri hætti en áður, en það þarf enginn að ímynda sér að hann hafi séð að sér eða hafi vitkast eitthvað. Menn af hans tagi vitkast ekki, þeir reyna alltaf að réttlæta gerðir sínar fram í rauðan dauðann, sama hversu vitlausar þær hafa verið !

 

Það er ekki gott þegar slíkir menn eru kjörnir til þvílíkra valda sem hér um ræðir. Þá er allt í voða. Það segir sig sjálft. Málflutningur slíkra manna höfðar aldrei til dómgreindar eða heilbrigðrar umræðu. Þar eru ósannindi og sleggjudómar allsráðandi. Þar er ekki hægt að virða neitt !

 

Ólíkindatól í líkingu við hinn sjálfskipaða Æðsta-S-Trump mega því ekki ná ofurvöldum í þessum heimi. Veröldin og mannkynið hafa ekki efni á slíku áhættuspili !

 

Maðurinn er í fyrsta lagi enginn lýðræðissinni, hann er yfirgangsmaður. Hann er vanur að ráða og vill ráða hvað sem lög og reglur segja. Þeir sem fylgja honum verða að beygja sig undir það eða verða reknir ella. Maðurinn kann heldur ekki mannasiði og er mesti ruddi í framkomu við aðra. Það vaxtar því enginn orðstír sinn í samfélagi við Trump & Co !

 

Demókratar verða þó að þrauka þessa daga fram til 20. janúar. Ekkert svigrúm er til annars, þó að illt sé til þess að vita að óhæfur maður sitji að völdum í Hvíta húsinu fram að valdaskiptum !

 

En allir þurfa að læra sitt af þeim brestum í bandarísku stjórnarfari sem þarna komu óneitanlega í ljós. Koma þarf í veg fyrir, með skýru aðhaldi laga og réttar, að slíkt geti endurtekið sig. Annars mun illa fara síðar og annað eins eða jafnvel eitthvað verra geta átt sér stað !

 

Hinn nýfasíski hluti bandarísku þjóðarinnar, sá hluti hennar sem Trump virðist iðulega hafa höfðað til með málflutningi sínum, er ofbeldisfullt lið þar sem hver æsir annan til óhæfuverka. Þar er mannfjandsamleg hugmyndafræði nazista víða talin til fyrirmyndar !

 

Velferð Bandaríkjanna og heimsins alls veltur á því að slíku liði verði haldið til aga og laga, og auk þess þarf að koma vitrænu lagi á yfirgengilega vopnaeign landsmanna sem kallar ekki á neitt annað en dráp og blóðsúthellingar !

 

 


Nú hlýtur flestum að vera ofboðið ?

 

Nýafstaðnir atburðir í Washingtonborg sýna svo ekki verður um villst hverskonar maður fráfarandi forseti Bandaríkjanna er. Hann svífst einskis og virðir engar reglur. Þeir sem hafa stutt hann til þessa, en þykir nú meira en nóg komið, fá kaldar kveðjur frá honum. Allir eiga að vera að svíkja hann !

 

Hann stefnir fólki saman og espar það upp, kallar það til höfuðborgarinnar og til hvers ? Ábyrgðin er hans og alfarið hans af öllu þessu fáránlega sjónarspili !

 

Og þegar eitt best varða hús heims að sögn, sjálf lýðræðisvagga Bandaríkjanna, reyndist galopið fyrir æstum múg af götunni, vildi forsetinn eftir því sem best er vitað, ekki kalla þjóðvarðliðið til !

 

En hann sagðist elska þá sem þarna voru á ferð og endurtekur enn sem fyrr rakalausar fullyrðingar sínar um víðtækt kosningasvindl og ófrægir stjórnkerfi lands síns með slíku tali í sífellu !

 

Hverskonar fólk er það eiginlega sem styður svona mann ? Er það þetta fólk sem vill gera Ameríku mikla aftur og á það að gerast undir slíkri leiðsögn og með svona aðferðum ?

 

Donald Trump er búinn að skrifa nýjan kafla í sögu Bandaríkjanna og sá kafli verður honum síður en svo til vegsauka. Það verður að öllum líkindum vitnað til hans hér eftir sem fyrirbæris sem hafi komið framvindu af stað sem aldrei aftur megi endurtaka sig í sögu lands og þjóðar !

 

Ég ætla rétt að vona að öryggisgæslan um líf verðandi forseta sé betri en hún var um þinghúsið. Það er misjafn sauður í mörgu fé og þar sem ofbeldið er alltaf nærtækt mönnum getur ýmislegt gerst.

 

Vonandi getum við öll andað sýnu léttar eftir 20. janúar þegar Trump hrollvekjunni er lokið ásamt því eindæma glóruleysi sem henni hefur fylgt !


Fer að koma að sögulokum ?

 

 

Hvar eru Ammonítar og Móabítar í dag ? Hvar eru Filistear og Amalekítar ? Hvar eru Amorítar og Hetítar ? Hvar eru Jebúsítar, Peresítar, Hevítar og Anakítar ? Þessar þjóðir voru herskáir ógnvaldar í eina tíð en eru ekki lengur til. Og hvar eru Rómverjar, svokallaðir heimsdrottnarar síns tíma ? Þeir eru líka horfnir með allt sitt vald og yfirdrottnun og heimurinn þarf ekki að harma það !

En sú þjóð sem átti eitt erfiðasta hlutskiptið um margra alda skeið undir ýmsum stórveldum og eins á hávaldatíma Rómverja, er enn á meðal okkar – Gyðingar !

 

Hvað segir það okkur eða ætti í það minnsta að geta sagt okkur ? Þjóðin sem reis harðast upp gegn Rómverjum og var brytjuð niður í kjölfarið, þjóðin sem var útlæg gerð og rekin burt úr eigin landi og mátti ekki vera þar, þjóðin sem dreifðist út um allan heiminn og var ofsótt hvarvetna á öllum hinum myrku öldum er enn á meðal okkar, og meira að segja komin aftur heim í landið sem hún var rekin frá !

 

Hvað veldur þessu ? Hvað veldur því að sú þjóð sem orðið hefur fyrir hvað mestum ofsóknum skuli hafa lifað af ? Við getum nefnt margar fleiri þjóðir, en fyrr greinir hér frá, sem voru voldugar um tíma, en eru núna bara nafn í sögubókum !

 

Ég spyr enn, af hverju eru þær allar horfnar, en Gyðingar ennþá til sem þjóð í dag ? Tímarnir ættu að geta sagt okkur ýmislegt í gegnum þá framvindu. Er það tilviljun eða guðleg ráðstöfun ?

 

Flestar þjóðir Evrópu hafa á einhverjum tímaskeiðum ofsótt Gyðinga og sumar þeirra eiga þar mjög ljóta sögu. Gyðingar voru til dæmis reknir frá Spáni og rændir um leið.

Þeim var skipað að yfirgefa landið en máttu ekki taka eignir sínar með !

 

En ekki dafnaði spænska ríkið á þeim ránsfeng heldur hrakaði hag þess jafnt og þétt, enda löngum sagt að illur fengur illa forgangi. Fjöldi landflótta Gyðinga frá Spáni settist að í Hollandi sem var þá frjálslyndasta ríki Evrópu. Margir telja þá hagsæld sem þar fór í hönd á komandi tímum að hluta til þeim að þakka !

 

Hvað sem menn vilja álíta um sögulega framvindu, er það staðreynd að Gyðingar voru reknir frá landi sínu vegna frelsisbaráttu sinnar, útlægir gerðir úr eigin landi, og eru nú komnir heim í það aftur !

 

Sú framvinda var löngu fyrirsögð í Biblíunni á mörgum stöðum og nú hefur hún komið fram í veruleika. Þá er líka talið að styttast fari í það að heimurinn í núverandi mynd líði undir lok. Og finnst einhverjum það ótrúlegt eins og málin ganga ?

 


Að fylgja sannfæringu sinni !!!

 

Það er oft gert nokkuð mikið úr sannfæringu manna, ekki síst þegar kjörnir þingmenn af flokkslista kjósa að segja skilið við flokk sinn. Það eina ærlega sem menn geta gert og eiga að gera þá, er að segja af sér þingmennsku svo varamaður, kosinn á sömu forsendum, geti tekið við !

 

En er það gert, nei ekki aldeilis, þá rís hin hágöfuga sannfæring viðkomandi þingmanns yfir allan rétt og heldur stöðunni. Og fer í mörgum tilfellum með hana inn í annan flokk eða jafnvel aðra flokka. !

 

Kjósendur sem kusu viðkomandi mann af þeim flokkslista sem hann var á, eru þar með sviknir og allt í nafni sannfæringar sem virðist fara létt með það að skipta um flokk eða flokka og þykjast samt alltaf hin sama !

 

Ég kann ekki að meta slík vinnubrögð eða yfir höfuð nokkuð það sem byggist á sviksemi. Og athæfi af þessu tagi er sviksemi að mínu mati. Ef menn treysta sér ekki lengur til að vera fulltrúar þess flokks sem þeir voru kosnir á þing fyrir, eiga þeir að víkja. Undir þeim fána fóru þeir fram !

 

Þeir buðu sig fram sem hluti af ákveðinni heild og ef þeir vilja yfirgefa þá heild, þá segja þeir af sér. Það er það eina heiðarlega í stöðunni. Flokkslistinn á atkvæðin sem féllu á hann !

 

En það virðist oft býsna erfitt að gera það sem ærlegt er og þá er blessuð sannfæringin kölluð til svo allt geti nú litið þokkalega út og þannig sé hægt að bjarga málinu. En rangur gjörningur er rangur gjörningur hvernig svo sem reynt er að skeina yfir hann og réttlæta hann !

 

Þegar fólk sem vill gjarnan láta það heyrast að það gangi fyrir hugsjónum og er svo kosið á þing sem slíkt, segir svo skilið við flokkinn út af einhverjum meintum eða tilbúnum ágreiningi, trillar um stund á eigin vegum og gengur svo í annan flokk, hvað verður þá um hinar mjög svo dýrmætu hugsjónir þess, hver er grundvöllur þeirra þegar allt kemur til alls. Ég held að egóið sé oftast mjög ofarlega og ráðandi í þeim kokkteil ?

 

En auðvitað þykist fólk í þessari stöðu hafa fengið uppljómun og uppgötvað, að sjálfsögðu í gegnum hina fastmótuðu sannfæringu sína, að nýi flokkurinn passi betur við þessar gullvægu hugsjónir og þar sé best að vera og vinna þeim framgang ? Hver trúir slíku endemis bulli ? Þarna er bara pólitík á ferð og hreint ekki geðsleg að mínu mati !

 

Það sem kemur í ljós, er að hugsjónirnar miklu halda ekki vatni. Þær byggjast ekki á fastri sannfæringu heldur miklu frekar á óstöðugu tilfinningaróti og það kemur oftast nokkuð fljótt fram. Um slík tilfelli mætti sem best yrkja eitthvað á þessa leið :

 

Rósa oft af reiði brann,

ruggaði mála fleyi.

En fann þó loksins Loga þann

sem lýst fékk hennar vegi.

 

Og ennfremur mætti kannski kveða :

 

Býðst í engu braut til sátta,

bresta vonir einfarans.

Andrés stendur utan gátta,

eins og forðum nafni hans.

 

Nei, fólk sem tekur sér stöðu undir flokksmerki þarf að hugsa vel sinn gang áður en það tekur sér þá stöðu. Og verði það kosið á þing sem slíkt, á það að gera sitt besta til að standa í þeirri stöðu sem það er kosið í. Ef það treystir sér ekki til þess, á það að segja af sér !

 

 

Það getur svo í framhaldinu boðið sig fram utanflokka ef því sýnist svo, og þá kemur væntanlega í ljós hvaða fylgi það hefur eitt og sér, - á heiðarlegum og réttum forsendum !


Hver verður framvindan ef fer sem horfir ?

 

 

 

Það er talað um að hafa öðruvísi jól í ár og vissulega verða þau öðruvísi. Ekki vegna þess að við höfum endilega ákveðið það, heldur vegna þess að aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Það ætti að segja okkur eitthvað !

 

Mikil þörf er orðin á því fyrir okkur að endurmeta lífsgildin og hafa betri hluti að leiðarljósi en það eitt að fjölga krónunum og deyja svo frá öllum auðnum og fara blessunarlaus úr þessum heimi !

 

Hvað sagði Andrew Carnegie á sínum efri árum ? ,, To die a wealthy man is a digrace !” Hann fann þá að það sem hann hafði eltst við alla ævina hafði bara verið eftirsókn eftir vindi. Raunveruleg lífsgildi fólust í öðru !

 

Það er ekki bara Covid-faraldurinn sem segir okkur hvað margt getur farið úrskeiðis og það á heimsvísu, heldur erum við stöðugt minnt á það á landsvísu að margt getur gerst og valdið áföllum !

 

Yfirgengileg græðgi og efnishyggjufár hefur einkennt samfélag okkar í allt of langan tíma. Það er bókstaflega hryllingur að upplifa hvernig er verið að eyða allri siðrænni ábyrgðarhugsun úr þjóðinni. Sú afstaða til mála virðist ráða mjög víða að það sé sama hvaðan gott komi, og þá er yfirleitt verið að höfða til peninga, hvernig tekna sé aflað. Jafnvel yfirlýst háborg íslenska menntakerfisins virðist tala fyrir slíkum sjónarmiðum sem og talsmenn alkunnrar mannúðarhreyfingar !

 

Ég sé á slíkum viðbrögðum að gildin hafa verið færð niður. Á endanum verður kannski allt leyfilegt ef það er hægt að græða á því. Og fólk segir til að afsaka græðgis gerðir sínar : ,,En þetta er fyrir gott málefni !” Já, er það ? Ef að hluti af ágóðanum fer í að græða sárin eftir skaðann sem unninn hefur verið, er þá allt í lagi ? Samanber það þegar brennivínssala á vegum ríkisins leggur einhverja aura í byggingu meðferðarstofnana. Ég spyr, er búið að senda alla raunverulega siðfræði í útlegð frá þessu landi ?

 

Hvernig á einhver blessun að geta fylgt samfélagi okkar þegar heilbrigð og rétt gildi eru troðin undir fótum dags daglega vegna yfirgengilegrar ágirndar ? Þurfum við ekki að standa saman um eitthvað gott og uppbyggilegt ? Getur fólk í þessu landi ekki leiðst af neinu öðru en hroka og sérgæsku ? Erum við ekki minnt á það ár eftir ár að eitthvað er að ? Af hverju eru hamfarir stöðugt að dynja á okkur ? Er það ekki hrein og klár ábending um að eitthvað sé ekki í lagi ?

 

Ég spyr, hvar eru vísbendingar um að við séum undir vernd ? Höfum við ekki verið að hrekja þá vernd frá okkur með háttalagi okkar ? Hvaða afstöðu hefur hinn almenni íslendingur til Guðs í dag ? Er yfirleitt einhver maður að velta því fyrir sér hvort gerðir hans kalli á blessun eða bölvun ? Gæti verið að almenna afstaðan til Guðs sé - ,, ég hef ekki neinn tíma fyrir þig, sérðu ekki að ég er að græða !”

 

Er dansinn um gullkálfinn það eina sem skiptir máli nú ? Að afla efnislegra fjármuna sem mest á kostnað allra góðra gilda ? Svo virðist líka sem íslenskir gullkálfar flytji stöðugt meira af misjafnlega fengnu fjármagni til útlanda og eigi sér önnur heimili og aðsetur þar. Þar er eiginlega bara um sumardvalarfólk að ræða í þjóðlegum skilningi, fólk sem er hér bara yfir blíðasta og besta tímann af árinu og varla það, fólk sem sumir myndu líklega kalla að væru bara hálfir Íslendingar !

 

Það ber að hafa í huga, að það getur oft verið stutt milli blessunar og bölvunar og ég býð ekki mikið í íslenskt samfélag ef græðgin á að stjórna því áfram á komandi árum eins og hún hefur gert síðustu þrjátíu árin eða svo. Það er tími sem hefur spillt miklum þjóðlegum gildis verðmætum !

 

Ég lít svo á, og kannski gera það fleiri, að með óbreyttu gildismati verði allt þurrkað út að lokum sem hefur blessað land og þjóð til þessa !

Hvernig skyldu jólin okkar annars verða að ári ?

 

 

 

 


Sumir kunna ekki að tapa en tapa þó !

 

Það er vel þekkt atriði, að verðandi forseti Bandaríkjanna sver eið að því að framfylgja stjórnarskrá ríkisins og þeim gildum sem hún er byggð á þegar hann tekur við embætti. Auðvitað hefur sumum forsetunum orðið hált á því að standa þar við stór orð, en fram til þessa hafa þeir ekki beinlínis grafið undan þeim gildum sem þeim er ætlað að verja !

 

Það er hinsvegar margra mat að fráfarandi forseti hafi þar farið að þolmörkum og rúmlega það. Stundum virtist hann bara vera að stjórna eigin fyrirtæki en ekki samfélagi lýðræðislegra gilda !

 

Það hefur alltaf verið talinn drengskaparháttur að viðurkenna ósigur og sætta sig við úrslit mála þegar svo er komið. En að neita að viðurkenna ósigur og kasta á allan hátt rýrð á lýðræði eigin lands og kosningaskipulag þess, er eitthvað sem enginn forseti hefur áður leyft sér að gera !

 

Það er bara eins og afdankaður forstjóri sé í fýlu vegna þess að hann er látinn fara. Það er sannarlega ekki lítið egó sem býr á bak við slíka hegðun. Og flokksmenn hans margir hverjir virðast litlu skárri og éta upp sömu rökleysurnar og hann hefur í frammi !

 

Þó Biden og demókratar lofi stjórnkerfið fyrir styrk og staðfestu, og telji að lýðræði Bandaríkjanna hafi staðist ákveðið próf í gegnum þetta fargan allt og sé jafn traust og áður, er ég ekki á þeirri skoðun !

 

Ég held að ef svo væri, hefði hinn undarlegi skollaleikur eftir kosningarnar aldrei átt að geta komið upp. Það ferli sýnir einmitt veikleikana og hvað einn maður getur komist langt á engum forsendum og hvað margir dragast með honum, sumir áreiðanlega gegn betri vitund !

 

Gamla rómverska rægiaðferðin virðist duga víða enn, farðu nógu oft með lygina eða staðleysuna þar til menn fara að trúa þér. Lýðræði er ekki traust þegar menn eins og fráfarandi forseti leyfa sér að hegða sér gagnvart gildum þess eins og hann hefur gert !

 

Greinilegt er að skýrara orðalag og skilvirkari reglur þarf um sumt í lögum svo menn geti ekki túlkað mál með villandi og afvegaleiðandi hætti. Og það er vissulega þörf á því víðar en í Bandaríkjunum !

 

En þegar Bandaríkin eiga í hlut, skiptir mjög miklu máli um allan heim hvernig hlutirnir eru látnir ganga. Þessi umrædda ríkjasamsteypa vestanhafs hefur einfaldlega það mikið vægi á heimsvísu, hvað sem mönnum kann að finnast um það !

 

Það er því sannarlega ekki sama hver situr þar við völd og hvernig hann heldur á málum. Það ættu flestir að geta gert sér grein fyrir því. Það er til dæmis ekki gott ef þar situr ólíkindatól sem enginn botnar í !


Um stórsöguleg heimskustrik !

 

 

Napóleon Bonaparte hefur löngum verið talinn til mikilmenna Sögunnar, en slóð hans er öll líkum þakin. Hann var ábyrgur fyrir dauða hundraða þúsunda manna vítt og breitt um Evrópu og stráði óhamingju og bölvun yfir alla álfuna. Valdagræðgi hans og yfirgangshneigð átti sér engin takmörk. Hann var Korsíkumaður og þóttist þó holdi klæddur mikilleiki Frakklands. Það er ekki nýtt að leiðtogar af slíku tagi byggi hugmyndir sínar og stefnu á fölskum forsendum !

 

Hitler var Austurríkismaður en þóttist vera þýskastur allra Þjóðverja. Stalín var Georgíumaður en þóttist rússneskari en nokkur Rússi. Alls staðar viðhafa slíkir ógæfuleiðtogar blekkingar og svik til að halda völdum og ráðskast með líf annarra manna af ótakmörkuðu kæruleysi !

 

Napóleon háði stríð um alla Evrópu til að leggja undir sig lönd sem aðrir áttu og voru fjölbyggð. Hann virtist ekki gera sér neina grein fyrir því að Frakkland taldist eiga gífurlegt landflæmi í Vesturheimi og hefði hann bara flutt franska landnema þangað í stórum stíl og byrjað að nýta það land, gat hann aukið veldi og viðgang Frakklands margfaldlega án styrjaldar og stórfelldra blóðsúthellinga.

 

Þannig hefði hann getað unnið landinu, sem hann þóttist vilja allt hið besta, meira gagn en nokkur annar !

 

En menn eru bara menn og þarna gerði Korsíkumaðurinn sín stærstu mistök. Hann virtist algjörlega blindur á þá miklu útþenslu möguleika sem franska ríkið átti í Vesturheimi. Hann var hugarfarslega negldur við Evrópusviðið og vildi heldur standa þar í styrjöldum upp á óljósan ávinning. Kom ekki hugsun sinni í víðara samhengi og því fór sem fór !

 

Thomas Jefferson Bandaríkjaforseti sá hinsvegar hið gullna tækifæri sem þarna bauðst þegar Napóleon vantaði fjármagn til frekari stríðsreksturs og keypti af honum lönd Frakka í Ameríku árið 1803 !

 

Sá gjörningur er hið svokallaða Louisiana Purchase. Um var að ræða svo mikið landsvæði að það var í raun ekki hægt að verðleggja það. Hin ungu Bandaríki fengu þarna 828.000 fermílur lands sem náði til 15 ríkja eins og þau eru nú, og tveggja landsvæða í Kanada að auki, fyrir skitnar 15 milljónir dala !

 

Bandaríkin næstum því tvöfölduðust að stærð við þetta og ávinningurinn fyrir þau var stjarnfræðilegur í öllu tilliti. Rúmum áratug síðar hafði Napóleon spilað öllu úr höndum sér og endaði síðan ævidagana sem fangi Breta á Elínarey. Skömm er óhófs ævi !

 

Árið 1867 keypti svo Bandaríkjastjórn Alaska í heilu lagi af rússnesku keisarastjórninni fyrir 7,2 milljónir Bandaríkjadala. Það vantaði víst meiri pening fyrir óhófslíf yfirklassans í Pétursborg !

 

Kaupin voru talin svo vitlaus af almenningi í Bandaríkjunum sjálfum að almennt var talað þar um Seward-vitleysuna, en William Seward utanríkisráðherra var helsti hvatamaður kaupanna !

 

Það kom svo í ljós síðar að Alaska er þvílík gullkista að auðlindagæðum að þar verður seint hægt að koma verðstimpli við. Rússar léku þar slíkan glóruleysis afleik í milliríkjasamskiptum að hann er aðeins sambærilegur við fyrrgreint heimskustrik Napóleons !

 

Það er alltaf þjóðum tap að eiga rotin stjórnvöld og afleita forustusauði !


Nokkur orð um íslenskuð Biblíunöfn !

 

 

Erfitt er að segja hvaðan nöfn manna koma, hvert upphaf þeirra er. Í raun er líka alltaf verið að búa til ný nöfn með einhverjum hætti. En það fer auðvitað oftast þannig að sum festast í sessi en önnur detta fljótlega út. Margt er sérkennilegt við nafnagerð og þjóðlegar hefðir þar mjög sérstæðar. Til dæmis er ólíklegt að menn fengju nafnið Jóhannes skírari hér, en í Frakklandi hafa ótaldir menn fengið það nafn – Jean Baptiste !

 

Athyglisvert er samt, að þrátt fyrir það sem margir vilja kalla afkristnun þjóðarinnar, virðast nöfn úr Biblíunni alltaf nokkuð vinsæl hver sem ástæðan kann að vera. Hjá okkur eru nöfnin Adam og Eva til, ekki síður en Askur og Embla, og geta menn velt vöngum yfir því hvað þar er um áþekk nöfn að ræða. Líklega tengjast þau sitthvorri útgáfunni af sama upphafinu !

 

Oftast virðist nú sem fólk hafi heldur kosið að láta heita eftir nöfnum hinna betri manna úr Ritningunni, má þar nefna nöfn eins og Enok, Nói, Ísak, Samúel, Daníel, Jónatan o.s.frv., en það er þó ekki einhlítt. Ekki hefur nafnið Abel til dæmis náð festu hér, en önnur nöfn orðið nokkuð algeng svo sem Jakob (hælhaldari), Aron, Davíð og Benjamín. Sérlega algengt hefur nafnið Jósef orðið, enda voru þeir menn sem það tengist helst í Biblíunni miklir mannkostamenn !

 

Aronsnafnið hefur orðið mjög vinsælt á seinni árum og miklu algengara en nafnið Móse (s). Kannski að það sé vegna þess hvað margir virðast helst af öllu vilja steypa og tilbiðja gullkálfa í dag ? Aron var auðvitað enginn leiðtogi eins og Móse og að því er virðist heldur veikur fyrir tíðarandanum. Það er því ekkert undarlegt þó nafni hans sé hampað nú á tímum.

 

Spámannanöfn eru nokkur þekkt hérlendis, Elía (s), Jóel, Jónas, Daníel, Hósea (s), Natan, Sakaría (s), og nöfn engla eins og Mikael og Gabríel !

 

Ekki höfum við tekið upp nöfnin Sem og Kam ( eða Ham), en Jafet höfum við hinsvegar vakið til lífs hér. Synir Jakobs eða Ísraels eru til í nöfnunum Leví, Jósef og Benjamín (Sonur Suðurlandsins, hamingjusonur). Sá síðastnefndi var reyndar nefndur Benóní (hryggðarsonur) af deyjandi móður sinni og það nafn höfum við líka meðtekið !

 

Nöfn guðspjallamannanna eru öll til í okkar nafnaflóru, en nafnið Lúkas er þó einna sjaldgæfast. Við höfum reyndar lagt út nafnið Jón á fleiri en einn veg, svo sem Jóhann og Jóhannes. En nafnmyndin Jón hefur þó orðið langsamlega algengust hérlendis af þeim útfærslum !

 

Hafa þeir sem heitið hafa Jón, og jafnframt verið Jónssynir, verið svo margir á Íslandi til þessa, að stundum hefur það valdið ættfræðisinnuðu fólki töluverðum erfiðleikum að greina þar á milli manna !

 

Nöfn postulanna eru sum alþekkt á íslenska vísu svo sem Símon og Pétur, Andrés, Jóhannes, Jakob, Tómas, Filippus og Páll. Önnur Biblíunöfn eru svo til hér, misjafnlega algeng þó, Salómon, Elí, Betúel, Bóas, Esra, Jósafat, Gamalíel, Job, Tímóteus, Samson, Metúsala (Methúsalem), Ebeneser (hjálparhella), o.fl. Nokkrir menn hafa fengið nafnið Abraham, en það hefur aldrei orðið algengt nafn á Íslandi !

 

Allmörg kvenmannsnöfn hér eiga líka að öllum líkindum rætur að rekja til Biblíunnar og þar ber nafnið María hæst. Einnig má nefna nöfnin Eva, Sara, Rebekka, Rakel, Rut, Marta, Ester, Anna, Hanna, Elísabet, Debóra o.fl. Nafnið Salóme er líka þekkt hérlendis !

 

Það þykir augljóslega öllu vinsælla á Fróni að halda uppi nafni Söru en Abrahams. Rakel er líka orðið nokkuð algengt nafn hér en Leu er nánast hvergi getið. Alltaf virðist hún blessunin sett hjá. Margt er hægt að hugleiða í þessum efnum út frá hverju nafni fyrir sig !

 

Líklegt má telja að um eða yfir 50 karlmannsnöfn hérlendis séu komin úr Ritningunni og sennilega um 20 kvenmannsnöfn. Mestur hluti þeirra nafna á sér hliðstæður í öðrum kristnum löndum á sömu forsendum !

 

Í arabískum heimi eru ættfeðranöfnin líka mjög algeng, Ibrahim, Ishaq, Yaqub, Yussef, enda uppruni þjóðanna sá sami þó friðsamlegra mætti vera innan þeirrar stórfjölskyldu. En máltækið segir víst ,,frændur eru frændum verstir ” og er það víst eitthvað sem flestir þekkja – því miður.

Með þeim orðum læt ég svo þessum pistli lokið !

 

 

 


Drottinn er vor hirðir !

 

Flestir hljóta að vera farnir að sjá að allt er á hverfanda hveli í þessum veruheimi okkar. Við mannanna börn erum öll sem strá í sterkum vindi hinnar óhjákvæmilegu framvindu. Þar verður engu breytt. Við eigum í raun aðeins eina vörn, en hún nægir, ef menn játast undir hana !

 

Sú vörn felst sem fyrr í því að leita hælis og athvarfs hjá Drottni, Skapara himins og jarðar - að fá að halda í hans klæðafald. Að trúa því að upp úr djúpi dauða, Drottins renni fagrahvel, eins og Matthías segir í hinu stórbrotna kvæði sínu um hafísinn. Án Guðs Náðar er nefnilega allt vort traust farið og dauðadjúpið það eina sem tekur við okkur !

 

Allur tími endar ! Allt deyr og eyðist og hverfur og verður að engu. Allar hinar fögru byggingar heimsins og öll mannanna verk eiga eftir að molna niður og líða undir lok. Þar verður engin arfleifð lengur til staðar. Jafnvel himinninn sjálfur á eftir að vefjast saman eins og bókfell. Allt mun bráðna í eldi og ógnarhita þegar þar að kemur !

 

En til er það sem þolir slíkan eld og heldur velli. Shadrach, Mesach og Abednegó áttu þá vörn í sálum sínum sem varið gat þá gegn slíkum eldi. Þeir treystu Guði og vernd Hans. Menn virðast ekki trúa á slíka vernd í dag eða treysta á forsjá Drottins, en því er til að svara að Hinn Lifandi Guð er Hinn Sami í dag og Hann hefur alltaf verið. Þær forsendur hafa ekki breyst og munu ekki breytast og geta ekki breyst !

 

En lífið mun rísa í nýjum veruleika eftir það sem koma skal og sólbrunnar auðnir munu þá verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Drottinn hefur allt í Hendi Sinni og hið illa verður endanlega sigrað. Þau úrslit hafa alltaf verið ljós. Sá sigur var að fullu staðfestur á Golgata !

 

Hver sá sem eyra hefur, eyra sem heyrir, veit þetta og getur fagnað yfir því í hjarta sínu. Að því kemur að Brautin helga mun bíða þeirra sem endurleystir verða við lok daganna. Og gleðin sem mun leika yfir höfði þeirra verður eilíf !

 

Er það einhver spurning fyrir okkur mannanna börn að fela tímanlega og eilífa velferð okkar í hendur Hans sem gaf okkur lífið, Hans sem er eina vörnin við þeirri eldraun sem framundan er ?

 

Við hljótum að verjast allri óáran, hvort sem það er núverandi ógn eða þær sem á eftir koma. En gerum það með réttum hætti. Leitum verndar þar sem vernd er að hafa. Hjá Guði vors lands !

 

 

 

 


,,Saman byrðar berum við !”

 

Það ætti ekki að dyljast neinum eftir reynslu undanfarinna mánaða, hvað mannlegt samfélag er orðið berskjaldað á margan hátt fyrir hættulegum sóttkveikjum og veirum, eins og líka umferðin er orðin um allan heim !

Sú staðreynd undirstrikar í öllu þá miklu nauðsyn að hver einstaklingur axli sína skyldu sem trúr og ábyrgur samfélagsþegn !

 

Við höfum þegar misst allmarga einstaklinga, sem hefðu átt að eiga friðsælt ævikvöld í návist vina og vandamanna, en hafa þess í stað orðið að láta lífið af völdum þessa illskæða heimsfaraldurs og það jafnvel vegna hópsmits á sjúkrahúsi. Það er dapurt til að vita !

 

Og þó að fólk um allan heim bindi miklar vonir við væntanlegt bóluefni, er erfitt að segja um það hvernig þeir hlutir muni ganga fyrir sig þegar þar að kemur. Lyf hafa aldrei verið það ódýrasta á markaðnum !

 

Mörg ljón kunna enn að vera á veginum þar til þessi vágestur er sigraður en það er um að gera að halda samstöðunni og fylgja þeim reglum sem réttkjörin heilbrigðisyfirvöld ráðleggja hverju sinni!

 

Við erum að upplifa það sem fæstir hefðu getað ímyndað sér fyrir skömmu að gæti gerst. En sérhver sameiginleg hætta á að þjappa okkur saman og auka samstöðu og samheldni. Við erum íbúar þessarar jarðar og getum ekkert annað farið !

 

Allir þurfa því að leggja sitt til í baráttunni, hver og einn í sínu landi. Hvert land er hluti af jörðinni og hver þjóð er hluti af mannkyninu. Við erum öll á sama báti í þessu efni hvar sem við lifum og hver sem við erum.

 

Við höfum skyldur hvert við annað meðan við erum hér. Það hljótum við Íslendingar að vera búnir að læra í gegnum okkar þjóðarhörmungar, allt frá Svarta dauða og Stóru bólu til Covid í dag !

 

Saman byrðar berum við,

bægjum neyð og grandi.

Almannavarnir erum við

öll í þessu landi !

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 1121
  • Frá upphafi: 397590

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1004
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband