21.11.2020 | 14:53
Um ýmsar söguginningar !
Oft hefur það vakið furðu mína hvað sögulegar uppsetningar hafa orðið að föstum viðmiðum í sögu okkar án þess að full vissa sé til staðar hvort um raunverulegar staðreyndir sé þar að ræða. Það er stundum því líkast sem einhver rómantísk hughrif hafi ráðið textanum og svo hefur hver étið upp eftir öðrum og enginn vitað með vissu hvað hann var að segja !
Við höfum alla tíð eignað Snorra Sturlusyni ýmis ritverk þó við höfum ekkert sem sannar það í raun að hann hafi verið þar höfundurinn. Kannski skrifaði Styrmir fróði Kárason sum þessara verka og þá hugsanlega í skjóli Snorra. Snorri er 62 ára gamall eða þar um bil þegar hann er drepinn.
Alla ævi stóð hann í auðsöfnun og veraldarvafstri og maður fær varla séð hvenær hann hefði átt að sinna ritverkum sem hlutu að taka drjúgan tíma. En samt fær hann þennan höfundarstimpil þó enginn viti með vissu hvort hann verðskuldar hann eða hafi yfirleitt getað litið upp frá auragræðginni ?
Ingólfur Arnarson er jafnan skilgreindur fyrsti landnámsmaðurinn þó vitað sé að hann var það ekki. Þar spilar auðvitað inn í dæmið að hann var landnámsmaður Reykjavíkur, en það er ekki það sama. Íslendingar eiga það til að vera miklar ,, höfðingjasleikjur og fyrsti landnámsmaðurinn mátti því ekki vera venjulegur almúgamaður, hann varð að vera eitthvað meira. Náttfari kom því ekki til mála frekar en einhver tómthúsmaður á Blönduósi. En þar varð sá fyrsti auðvitað að vera danskur kaupmaður !
Gunnar á Hlíðarenda gekk á gerða eiða og sneri með þeim hætti aftur. Hann sveik samninga og enginn veit hvað dró hann til þess í raun ? Var hann kannski enn haldinn af girndarráðs-lönguninni til Hallgerðar eftir allt sem á undan var gengið ? Var hún kannski í raun og veru ,,fagra hlíðin hans ?
Við Íslendingar lofum stöðugt hetjuna sem sveik eiða sína, en Kolskeggur bróðir hans sem átti miklu betri og mannsæmdarlegri hlut að málunum er flestum gleymdur. Ég met hann þó meira en Gunnar fyrir orð hans er þeir bræður skildu. En þau voru þessi : ,,Hvorki vil ég á þessu níðast né öðru því sem mér er til trúað o.s.frv !
Við látum líka mikið með sjálfstæðisbaráttu okkar og samt höfum við enn dönsk konungsmerki á alþingishúsinu sem aldrei hafa verið tekin niður ? Hvers vegna í ósköpunum eru slík þrælahaldaratákn þar enn í dag ? Hefðu Benedikt Sveinsson eldri, Skúli Thoroddsen, Bjarni frá Vogi og aðrir þekktir forustumenn sjálfstæðisbaráttunnar viljað sjá það ? Ekki trúi ég því. Spyrja má því : Til hvers var eiginlega barist ? Sjálfsagt hafa eftirsitjandi Danasleikjur í valdastöðum ráðið því að svona var staðið að málum. En slíkt hefði varla getað gerst hjá annarri þjóð !
Kaþólska kirkjuvaldið var að miklu leyti slæmt fyrir þjóðina, einkum þó þegar á leið og Jón Arason var gildur fulltrúi þess á sínum tíma. Hann var enginn þjóðfrelsis-leiðtogi. Hollusta hans var ekki bundin við innlent vald, hún lá öll suður í Róm páfinn var hans konungur í einu og öllu !
Þegar danska konungsvaldið snerist gegn pápískunni, fylgdi Jón ekki með. Hann var sami gallharði páfatrúarmaðurinn til síðasta dags. Síðari tíma yfirgangur konungsvaldsins skapaði svo smám saman þá sögulegu gyllingu fyrir kaþólskuna sem hún átti litla inneign fyrir. Þá var Jón Arason gerður að þjóðfrelsismanni, þvert ofan í allar staðreyndir, og þar við situr !
Gissur biskup Einarsson hefur á sama veg aldrei verið metinn sem skyldi af íslenskri þjóð vegna þess að hann var með siðbótinni og þar með á móti kaþólskunni. Tryggi Þórhallsson sýndi þó fram á í riti sínu um Gissur að hann var miklu þjóðræknari og betri maður en flestir hafa haldið. En það verður líklega seint viðurkennt sem staðreynd í íslenskri sögu !
Margt fleira mætti rekja hér, enda af nógu að taka, en ég ætla að láta staðar numið við þetta. Þeir sem á annað borð vilja skoða og rannsaka geta gert það út frá þessum punktum, en þeir eru vafalaust fáir !
Flestir virðast þeirrar gerðar að gleypa það sem fyrir þá er sett án nokkurra athugasemda og láta sögulegar ginningar og gyllingar sig litlu skipta. En rangfærslusagnfræði er aldrei af því góða, hversu rómantísk sem hún kann að þykja !
4.11.2020 | 11:04
Að hafna heiðurskórónu !
Lífið er almennt skilgreint, eins og það horfir við dauðlegum mönnum, sem tímabilið frá fæðingu til dauða, frá vöggu til grafar. Mannsævin er sögð vera 70 til 80 ár, sumir lifa þó lengur en aðrir skemur. Því miður deyja margir ungir og erfiðast þykir okkur að sætta okkur við það þegar börn deyja og það jafnvel nýfædd !
En við mennirnir höfum aldrei stjórnað örlögum okkar og munum áreiðanlega aldrei gera það. Enda fer líklega best á því að það vald sé ekki í okkar höndum, því það yrði eflaust misnotað af okkur eins og allt annað !
Allir komast að því að þeir verða gamlir ef þeir lifa svo lengi. Og sagt er að með aldrinum fylgi viska og reynsla sem komi sér vel. Og víðast er líka svo kennt að aldur krefjist virðingar og í Orðskviðum Biblíunnar 16 : 31 er sagt : ,, Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana ! Gráa hárið á sem sagt skilið virðingu. Þar höfum við það !
En ekki virðist fólk nú á dögum vera sérlega hrifið af þessari heiðurskórónu. Maður sér það til dæmis hjá blessuðum konunum, sem láta lita hár sitt svo þær sjást ekki með eitt grátt hár þó komnar séu yfir áttrætt. Og svei mér þá ef sumir karlarnir gera það ekki líka !
Ég man eftir ömmu minni sem var komin með svo fallegt hvítt og grátt hár. Hún var svo virðuleg og góðleg, enda þótti mér ákaflega vænt um hana. En svo gekk líklega nýr tími í garð. Einn daginn var blessunin hún amma mín komin með kolsvartan hadd og einhvernveginn strangari á að líta. Mér hnykkti við og fannst breytingin hreint ekki til bóta !
Þá vissi ég ekkert um heiðurskórónu gráu háranna, en fannst einhvernveginn eðlilegra og réttara að aldrað fólk væri gráhært. Mér fannst að tilraunir til að snúa þeim hlutum við væru bara plat. Það væri einhverskonar uppreisn gegn eðlilegri framvindu mála og eiginlega ekki alveg eins og það ætti að vera !
Svo þegar ég fræddist síðar um að gráu hárin væru heiðurskóróna hinna öldruðu, fannst mér það fullkomlega rétt, enda spekin oft nærtæk slíku fólki. Og hér áður þegar unga fólkið vildi hlusta á gamla fólkið, gat viska reynslunnar færst milli kynslóða, ólíkt því sem á sér stað í dag !
En af hverju eru svo margir fúsir til að hafna heiðurskórónunni ? Heldur fólk virkilega að það geti breytt staðreyndum aldurs og ára með hárlitun og öðru blekkingarferli ? Af hverju vill það ekki þiggja þann virðuleika og góðleika sem fylgir kórónunni ?
Jú, skyldi skýringin ekki vera nokkuð augljós. Mannlegt líf er fullt af hégóma, nánast frá vöggu til grafar. Það er alltaf verið að eltast við einhvern sýndarveruleika. Þessvegna er fólk alltaf að reyna að breyta staðreyndum og sýnast annað en það er !
Fjöldi fólks fer því þessa ,,yngingarleið, líklega bara í góðri trú, því tíðarandinn ýtir undir allt slíkt, eins öfugsnúinn og hann er. Jafnvel blessunin hún amma mín fór út í þetta og fékk sér svartan hadd. Eins og hún var nú flott með kórónuna sína !
En konur af hennar kynslóð voru þá byrjaðar á þessu hárlitunarstandi og þannig hefur það líklega smitað út frá sér. Og heldur hefur það nú aukist á síðari árum. En staðreynd málsins er samt óbreytt og verður sú - að heiðurskórónu getur enginn sýnt nema sá sem er með hana !
31.10.2020 | 11:59
Hið ábyrgðarlausa einkaframtak !
Sú var tíðin að menn sem hófu rekstur þurftu að axla mikla ábyrgð. Ef illa gekk eða áraði gátu menn farið á hausinn með allt sitt. Áhættan sem fólst í því að hefja rekstur gerði það því sjálfkrafa að verkum að færri en ella fóru út í slíkt ævintýri. Það var heldur ekki á allra færi og enn síður í þá daga !
Það mátti því gera ráð fyrir að þeir sem tóku áhættuna og hófu rekstur hefðu nokkuð til brunns að bera og þannig vissa hæfni til hlutanna. En það breytti því ekki að ábyrgir urðu þeir að vera !
En þannig var það nú meðan einkaframtakið var miklum mun heilbrigðara en það virðist vera í dag. Nú virðist sem allt einkaframtak sé meira og minna á ábyrgð ríkissjóðs. Ef einhver telur sig verða fyrir áföllum eða tekjutapi í dag verður hann að fá bætur frá ríkinu !
Eigin ábyrgð manna á rekstri virðist þannig gjörsamlega horfin. Henni hefur verið ýtt út af borðinu, að því er virðist til hagsbóta fyrir allskyns ævintýramenn. Skattpeningurinn okkar virðist svo standa þeim til boða í hvert skipti sem þeir telja sig hafa tapað einhverju. Með þessum hætti virðist stór hluti af hinu svokallaða einkaframtaki í landinu vera í raun ríkisrekinn !
Sú staða er með ólíkindum ! Í ferðaþjónustunni virðast menn jafnvel geta heimtað bætur fyrir áætlaðar tekjur sem eru svo skilgreindar tapaðar. Hvernig er hægt að krefjast bóta fyrir eitthvað sem var áætlað fram í tímann, miðað við að allt gengi að óskum ? Hvar er rekstrarábyrgðin, hvar er einkaframtaksaðilinn sem á að bera ábyrgð á eigin gjörðum ?
Er þetta ein afleiðingin af því þegar ehf vitleysan (eigin-hagsmuna-félög) var sett á koppinn vegna hyldjúprar samúðar með sárþjáðum rekstraraðilum af samsálar félögum þeirra í stjórnkerfinu ? Voru menn þá ekki bara leystir frá því að vera ábyrgir gjörða sinna ?
Svipuð er rekstrarvitleysan orðin með fiskinn í sjónum sem er óveiddur, en samkvæmt kvótakerfinu eign tiltekinna útgerðarfyrirtækja. Hér áður fyrr varð að veiða fiskinn til þess að hann yrði skilgreindur sem eign !
Nú syndir þessi fiskur um með merkimiða og tilheyrir greifunum. Svo eru fengnir einhverjir þrælar til að veiða hann fyrir aðalinn og skiptir þá víst litlu hvert heilsufar þeirra er, ef bara er hægt að láta þá vinna !
Margt er sannarlega að hjá okkur, en mér blöskrar þó fyrst og fremst sú staðreynd að það virðist engin eðlileg ábyrgð vera til staðar varðandi rekstur fyrirtækja nú til dags. Ef vel gengur sýnir lífsstíllinn merkin, en ef mínusar koma til verða aðrir að borga og bjarga - skattborgarar þessa lands !
Ég er félagshyggjumaður að eðlisfari, en ég hef alltaf getað virt ærlegt einstaklingsframtak, enda er slíkt hverju samfélagi til styrktar. En mér sýnist ekkert vera að byggja undir slíkt einstaklingsframtak í dag. Núorðið virðast rekstraraðilar meira og minna á spenum hjá ríki og bæjarfélögum. Það er óhugnanleg framvinda mála !
Hvernig er hægt að láta alla þessa rekstraraðila, marga með gjörsamlega óraunhæfar skýjaáætlanir, fá bætur úr ríkissjóði, þegar þeirra ,,dreamworks virka ekki ? Ef það á að hafa hlutina svona, er ekkert framundan nema hrun og það meira hrun en við höfum áður séð, hrun sem enginn jafnar sig á og rústar líklega samfélaginu !
Inn í slíkt hrun stefnum við að öllu óbreyttu og enginn virðist hafa neitt við það að athuga. Það er líklega ,,áhættan við það að búa á Íslandi eins og einn stjórnmálamaður okkar leyfði sér að segja til skýringar á fyrra hruninu.
Við virðumst fljóta sofandi og andvaralaus að feigðarósi í dag, meðal annars undir gunnfánum ábyrgðarlauss einkaframtaks og það er ekkert nema stefna til hruns. Við getum ekki verið með alla rekstraraðila í landinu á framfærslu ríkissjóðs og það eru heldur engin rök sem mæla með því !
En það er svo sem jafnljóst fyrir því, að enginn mun bera ábyrgð á hinu endanlega hruni þegar að því kemur !
26.10.2020 | 11:19
Horfið skjól
Kalt við fætur heims er hjarnið,
horfið augum náðarsvið.
,,Hvar er mamma kallar barnið,
hvergi finnst hún heima við !
Hún er úti öðru að sinna,
auka tekjur, drýgja kjör.
Þekkt er málið, þar er vinna,
þegin leið á hærri skör.
Efnishyggju aðalvörnin
útivinnan heimtar sitt.
Skilar engu að skeina börnin,
skuldastaðan aldrei kvitt.
Því er hafnað gildum góðum,
geisað fram við auraspil.
Ekki hægt að huga að jóðum,
heimavakt ei lengur til.
Lítil hjörtu særð og svikin
sækja ei neina von í hlað.
Réttmæt heill frá hugum vikin
hefnir sín og meira en það.
Kalt við fætur heims er hjarnið,
horfið lífsins náðarsvið.
Hrekst um leiðir lyklabarnið,
lítur hvergi móðurfrið !
Rúnar Kristjánsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook
13.10.2020 | 11:00
Tákn tímanna segja sitt !
Tímarnir sem við lifum á eru sýnilega mjög örlagaríkir. Hraðinn á öllu er orðinn slíkur að greinilegt er að einhver er orðinn í meira lagi tímanaumur og hver skyldi það nú vera ? Það eru þó alls staðar viðvaranir í gangi, en þeim er lítt sinnt og flestir virðast ætla að arka blindandi í feigðarósinn !
Það er líklega að verða búið úr stundaglasinu því framtíð mannkynsins er myrkvuð voðaskýjum. Alls staðar blasa við andlegum sjónum tákn upp á Mene Tekel Upharsin. Hvorki virðist þó iðrun eða afturhvarf í nánd, heldur aðeins meiri og meiri forherðing gegn boðum Skaparans !
Nínive var spillt borg til forna. Hún var ein helsta borg Assýringa, en þeir voru grimmir menn og herskáir. Sagnir um pyntingar þeirra og einstaklega illa meðferð á herteknum mönnum, gerðu þá mjög hataða meðal annarra þjóða og allir óttuðust þá og óskuðu þeim ills !
Þjóðin var hrokafull og yfirgangssöm í meira lagi. En að því kom, að vonska Assýringa og þar með íbúa Nínive, steig upp fyrir auglit Guðs. Þar af gerðist sagan um Jónas spámann. Guð vildi senda hann til að boða íbúum Nínive sinn örlagadóm og gefa þeim færi á að iðrast !
En Jónasi leist ekki á að fara til þessarar vondu borgar og prédika þar iðrun og afturhvarf eins og Drottinn bauð honum. Hann reyndi því að flýja það köllunarhlutverk sitt. En það gat hann ekki og varð að lokum að hlýða Guði eins og reyndar hver maður á að gera !
Hann fór því til Nínive og flutti þar boðskapinn - ,, Að 40 dögum liðnum skal Nínive verða í eyði lögð ! Það var ekki lítið sem átti að gerast með þessa miklu borg, sem var ein af stórborgum þess tíma !
Jónas fór um borgina og flutti orð sín um yfirvofandi eyðingu hennar, en þá brá svo við að íbúarnir trúðu orðum hans. Þeir vissu upp á sig skömmina og fundu í hjörtum sínum að hin hörðu dómsorð voru verðskulduð. Þeir höfðu verið vondir og áttu ekkert gott skilið !
Þeir iðruðust því gjörða sinna og hrópuðu til Guðs um miskunn. Og þegar Guð sá að iðrun þeirra var heil og sönn, og að þeir létu jafnframt af illri breytni sinni, vægði hann þeim og borginni !
En Jónas tók því ekki vel. Honum hefur líklega fundist hann gerður ómerkur orða sinna. Hann fór í fýlu og lagðist fyrir austan við borgina og beið þess sem verða vildi !
En þá kenndi Guð honum dýrmæta lexíu, að einn runni sem látinn var spretta upp honum til skjóls og síðan stunginn niður, væri sannarlega ekki jafnvirði borgar upp á 120 þúsundir manna. Vil ég benda mönnum á að lesa þessa frásögn sem segir sitt um hjarta manns og hjarta Guðs !
Og nú skulum við athuga aðra borg í ljósi þessarar sögu. Ef einhver væri sendur með hliðstæðan boðskap til Reykjavíkur og Jónas til Nínive, myndi enginn taka mark á honum. Hann yrði hafður að háði og spotti. Þar þykjast menn nefnilega sjálfum sér nógir um alla hluti og þar lifa allir á öllum !
En Reykjavík gæti samt alveg orðið fyrir því að eyðast og það jafnvel á einum degi. Það gæti til dæmis orðið jarðskjálfti þar sem myndi hrista öll hrokalæti úr fólki í einni svipan og látið það finna neyð sína að fullu !
Það gæti orðið tífalt Vestmanneyjagos í miðjum bænum eða allt um kring ! Hver veit hvað verður og hvar er öryggi að finna á meintum örlagatímum ?
,,Af hverju hafa þá ekki slíkar hamfarir átt sér stað í höfuðborginni ?gætu sumir spurt í vantrúar rómi, en kannski hefur verið vernd þar til staðar sem ekki er þar lengur ? Slík vernd skapast fyrir raunverulegt andlegt gildi, en hvar er slíkt að finna nú í glanshöllum hégóma, hroka og yfirskins ?
Það skapast hvergi samfélagslegt öryggi við framkomu sem mótast af yfirgangi, græðgi og tillitsleysi við náungann. Það er engin vernd til staðar fyrir samfélag sem lyftir í öllu undir slíkar hneigðir !
Við höfum sjálf í sérgæsku seinni tíðar unnið gegn þeirri vernd sem við fengum í arf frá fyrri kynslóðum. Reykjavík er andlega séð orðin að nokkurskonar Nínive norðursins og yfir borginni er ekki lengur sú blessun sem líklega var í eina tíð. Það veit ekki á gott !
Öllum er þörf á æðri vernd og ekki síst á miklum örlagatímum. Þegar bænavernd fyrri kynslóða fyrir landi og þjóð er einskisvirt og burtu tekin, hvað verndar þá ?
4.10.2020 | 15:21
Sýnum ekki agaleysi !
Menn spyrja gjarnan: ,,Hvernig á að sigrast á Covid 19 ? Og sumir segja að verið sé að vinna að því að finna upp bóluefnið og það hljóti að bera árangur. En er það nú víst ?
Ég tel að eitt mikilvægasta atriðið gegn þessum aðsteðjandi vágesti sé að viðhalda aga. Að fylgja skynsömum reglum og halda út. Það virðist sem margt fólk verði pirrað þegar vandinn dregst á langinn og fari þá að sýna kæruleysi og ábyrgðarskort. Það kann ekki góðri lukku að stýra !
Oft hafa aðkomumenn haft orð á því að Íslendingar séu agalausir og hér sé öllu frekar laustengt samfélag einstaklinga en fastmótað þjóðfélag. Líklega er eitthvað til í þeirri gagnrýni. Við sjáum oft dæmi þess að lögum er ekki sinnt, og stundum virðist íslenskt fólk vera svo upptekið af því - sem það kallar að hjálpa útlendu fólki, að það óvirðir sín eigin lög. Það er heldur ekki af því góða eins og flestir hljóta að skilja. Hversvegna ættu aðrir að virða lög okkar ef við gerum það ekki sjálf ?
Seint verður það líklega sagt um okkar samfélag, að þegar bjóði þjóðarsómi þá sé sálin ein. Oftar virðist það svo að hver höndin sé upp á móti annarri og sundurlyndisfjandinn í fullum gír til staðar. Dæmin eru mörg til um þetta og ættum við fyrir löngu að hafa lært þar okkar lexíu !
En agaleysið kemur víða fram og hefur alltaf slæmar afleiðingar. Í viðureign við drepsóttir og veirur er því ekki gott að hafa óeiningu sem veganesti. Þar eru það orð að sönnu að við erum öll almannavarnir !
Og í víðasta skilningi er það jafnan svo, að því löghlýðnari, reglusamari og réttsýnni sem einstaklingarnir eru, því sterkari er samfélagsheildin. Þessvegna er ekkert erfitt að skilja brotalamirnar sem sýna sig svo oft í kerfinu hjá okkur. Þar er allra handa hyglingapólitík stöðugt í gangi !
Við Íslendingar getum oft verið býsna hrokafullir og fram koma stundum staðhæfingar í fjölmiðlum sem gætu bent til þess að við værum margmilljónaþjóð. Þar er iðulega stórmennskan ein á lofti og kröfum hreint ekki stillt í eðlilegt hóf. En við erum ekki stórþjóð og verðum það seint og mér liggur við að segja sem betur fer !
Við erum bara smáþjóð úti á reginhafi sem á allt sitt undir friði og góðu samkomulagi milli þjóða, ekki síst í okkar heimshluta. Það ber að hafa í minni. Okkur er því hentast að rækta öll samskipti við aðrar þjóðir á grundvelli laga og réttar, heiðarleika og réttsýni !
Hvort sem við drepsóttir, veirur eða valdabrölt stórþjóða er að eiga, er okkur hagur best tryggður með því að fara að þeim reglum sem settar hafa verið okkar þjóð og öðrum þjóðum til velfarnaðar. Stjórn þarf að vera á hlutunum og sigrast þarf á aðkomandi plágum með aga og æðruleysi. Kæruleysi og skortur á ábyrgð getur aldrei orðið annað en ávísun á meiri og hættulegri vanda og við þurfum öll að skilja og meðtaka þá staðreynd !
Samstaða um aga og ábyrgð er ótvírætt leiðin til að sigrast á þessari heimsfjandaveiru og reynum því í öllu með stöðugu hugarfari að ganga þannig fram - að það sjáist og sannist að við skiljum að við erum öll almannavarnir !
26.9.2020 | 10:46
Grímuklæddur lýður !
Við göngum nú með grímur dags daglega mörg hver og sums staðar er það skylda. Óvinurinn er ekki sjáanlegur en við vitum flest að hann er þarna úti og allir í hættu. En svo hefur alltaf verið frá öndverðu !
Óvinurinn hefur alla tíð verið á sveimi okkur mönnunum til ills og bölvunar og ekki batnaði það þegar menn hættu að gera ráð fyrir honum og afskrifuðu hann. Þá fékk hann ótakmarkað athafnafrelsi og gat sett brennimark sitt enn frekar á heiminn !
Fólk gengur með grímur en þannig hefur það líka alltaf verið. Allir hafa verið í feluleik við alla. Enginn vill afhjúpa sig fyrir öðrum. Það hefur því alla tíð viðgengist grímuleikur í mannlífinu sem einstaklingsbundinn varnarleikur, en nú er komin þar gríma utan yfir grímu !
,,Þeir eru jafnvel farnir að ganga með grímur á Alþingi ! sagði einn um daginn. ,,Hafa þeir ekki alltaf gert það ? svaraði annar snarlega. Jú, allir hafa gengið um í felulitum og spilað á samfélagið í sínum grímubúningum.
Og blekkingarnar hafa oftast virkað býsna vel. Þessvegna hafa þær viðgengist svo lengi öllu falsi til framdráttar. Hvenær skyldum við verða þannig að við þorum að sýna hvernig við erum í raun og veru ?
Skyldu sumir hugsa með sér - ,,ég get ekki látið aðra sjá hvernig ég er, þá fá allir skömm á mér ! En er einhver eitthvað merkilegri en annar ? Er það ekki bara grímubúningurinn hans sem virkar þannig ? Og er ekki öll hin upphrúgaða samfélagsheild með goggunarraðar grímur, gegnum smurðar fláræði ? Ég veit ekki betur !
Covid 19 er bölvun sem komin er yfir heiminn og hreint ekki að ástæðulausu. Við erum margsek á nánast öllum sviðum. Raunar væri eðlilegast að Skaparinn sópaði okkur út af borðinu, öllu þessu grímuklædda hrokaliði, sem sperrir sig gegn boðum hans á hverjum degi.
Við hljótum að vera vegin og metin og léttvæg fundin !
Hvernig skyldi þetta veiruferli annars enda ? Táknar það upphafið að Þrengingunni miklu eða er það bara ein af undanfarandi viðvörunum ? Við vitum það ekki í dag en við munum fá að vita það áður en langt um líður !
Það kemur sem koma á og því verður ekki breytt. Einhverntímann rennur upp sú stund er grímurnar falla, allar sem ein, og menn standa frammi fyrir dómara sínum og geta ekki falið neitt. Þá verður mikið uppgjör og sannleikurinn einn fyrir svörum. Skyldi ekki fara að styttast í þá stund ?
22.9.2020 | 09:28
Aldrei Guði gleymdur !
Fáir virðast núorðið vita eitthvað um manninn Smith Wigglesworth, ævi hans og stórkostlega þjónustu hans í þessum heimi fyrir Drottin. Það eru þó til á ensku allmargar bækur sem byggja á prédikunum hans og kennslu í sönnum kristindómi og um hann var og hefur verið sitthvað skrifað !
Eitt lítið kver var þýtt á íslensku á sínum tíma um Wigglesworth og hefði vel mátt halda þar áfram í því verki að kynna meira þennan einstaka Guðs þjón. En þó maðurinn kunni nú að vera mörgum gleymdur í vegvilltum heimi mun hann ekki Guði gleymdur, enda var slík smurning yfir honum að sérstakt má teljast og átti það sér sína skýringu sem sögð er hér á eftir !
Smith Wigglesworth var fæddur 1859 og lést 12. mars 1947. Hann var ómenntaður maður, lærði þó pípulagnir og virtist líklegur til að stunda það starf til frambúðar. En hann brann af einhverju andlegu óþoli sem hann skildi kannski ekki þá, en fólst líklega í því að hann vildi eignast miklu nánara samfélag við Drottin. Og merkilegt er að lesa framvindu þeirrar sögu og hvernig Guð mætti honum í þeirri þörf hans og gerði hann að sterkum stólpa trúar sem var sem logandi kyndill í öllu lífi sínu og starfi !
Guð gaf honum yndislega eiginkonu að nafni Polly Featherstone. Smith var til að byrja með hrjúfur maður og skapmikill, en Polly var ljúflyndið sjálft. Þau náðu samt vel saman og Polly varð honum sönn blessun. Hún kenndi Smith sínum sannarlega margt og mikið meðan þau fengu að vera samvistum. Meðal annars kenndi hún honum að lesa !
En á nýársdag árið 1913 varð Polly bráðkvödd og Smith ætlaði ekki að afbera missinn. En Guð hughreysti hann og reisti hann upp til kröftugrar kristniboðsþjónustu sem hann hafði á hendi allt til síðasta ævidags. Hann fór víða um heim og hélt fjöldasamkomur þar sem stórkostleg kraftaverk áttu sér stað !
Eitt sinn sagði hann í viðtali, með tár í augum, þegar hann var spurður um leyndarmálið við kraftinn sem fylgdi honum og árangur hans : ,, Mér þykir leitt að þú skulir spyrja mig þessarar spurningar, en ég skal svara henni. Ég er niðurbrotinn maður. Konan mín sem var mér allt dó fyrir 11 árum. Eftir jarðarförina fór ég og lagðist á gröf hennar. Mig langaði til að deyja þar !
En Guð talaði til mín og sagði mér að rísa upp og fara þaðan. Ég sagði honum að ef hann gæfi mér tvöfalda smurningu Andans konu minnar og mína, þá skyldi ég fara og prédika fagnaðarerindið.
Drottinn var mér náðugur og veitti mér bæn mína. En ég sigli um höfin einn. Ég er einmana maður og margar stundir get ég ekkert annað gert en grátið !
Wigglesworth gat ásamt Jóhannesi skírara sagt : ,, Hann verður að stækka, ég verð að minnka ! Og sömu hugsun þurfa allir menn að temja sér ef þeir ætla sér að erfa hið óforgengilega líf.
Það gengur ekki fyrir nokkurn mann að vera > Allur í sjálfinu, ekkert í Guði. Hver maður þarf að stefna að því að verða > Minna í sjálfinu, meira í Guði. Eða þar til hann verður > Ekkert í sjálfinu, allur í Guði !
Wigglesworth undirstrikaði jafnan eftirfarandi sannindi : ,, Ef trú er boðuð, mun trú vaxa, ef lækning er boðuð mun lækning verða í kirkjunni, ef velmegun fyrir Guðs börn er boðuð, mun velmegun eiga sér stað !
Smith Wigglesworth fékk aldrei neina formlega menntun, en hann las eina bók, Biblíuna. Og velmenntaðir skólamenn í Biblíufræðum undruðust stórlega þann vísdóm sem hann bjó yfir. Honum var markvisst kennt í gegnum opinberanir Heilags Anda. Hjálparinn var til staðar í lífi hans !
Hvar erum við menn þessarar jarðar staddir nú um stundir ? Við höfum yfirgefið gömlu göturnar og villan ágerist með hverju árinu. Við erum ekki á leiðinni heim, við villumst stöðugt lengra að heiman. Siðvillur breiða sig yfir alla mannlega hugsun nú til dags og þykja réttar svo ratvísin er engin !
Það er varla undarlegt að maður hugsi til manna eins og Smith Wigglesworths á slíkum tímum vökumanna sem vissu alltaf að þeir voru á leiðinni heim, heim til Guðs, og áttu þá gleði í hjarta sínu sem fylgir ávallt þeirri vissu !
Átt þú sem lest þessar línur þá gleði í þínu hjarta ?
13.9.2020 | 19:31
Nokkur orð um tvennskonar líf !
Þar sem fjöldinn fer um, er margt að sjá. Að setjast á bekk í borgargarði á góðviðrisdegi og horfa á iðandi mannlífið allt í kring, er mörgum tamt. Kannski er meira um að eldri borgarar geri slíkt - en þó, unga fólkið er þar líka með. Hver getur verið ónæmur fyrir slíkum margbreytileika lífsins !
Hvað skyldi annars sitjandi fólk á bekkjum vera að hugsa við slíkar aðstæður ? Má ekki hugsa sér að gleðin yfir lífinu sé því ofarlega í huga ? Því vissulega er lífið merkilegt fyrirbæri og ætti að vekja hvern mann til áhuga og umhugsunar, ekki síst um höfund þess Hinn Lifandi Guð !
Eftir svo og svo mörg ár deyjum við eins og við vitum öll. Sumir deyja þá alfarið frá lífinu, en aðrir deyja til endurfæðingar inn í hið raunverulega líf !
Og fyrst þetta jarðneska líf getur sannarlega verið svo yndislegt í gegnum þær góðu stundir sem gefast, hvað skyldum við þá skilgreina öllu gildismeira en það auðvitað hið fullkomna og raunverulega líf ?
Hið raunverulega líf er nefnilega líf án dauða. Það er eilíft líf ! Þannig hefur Skaparinn hugsað sér framtíð barna sinna, þeirra sem vilja fylgja honum og leið ljóssins og þrá hið eilífa líf í skjóli hans. Það getur að sjálfsögðu enginn gefið manninum eilíft líf nema Guð einn !
Menn snúast mikið í kringum svokallaða ljósleiðara í þessu lífi, en þar er kannski verið að bjóða upp á sitthvað sem er ekki sérlega uppbyggilegt fyrir mannssálina. Líklega er þar frekar tilboð um myrkur en ljós. Guð er auðvitað hinn eini sanni Ljósleiðari sem færir manninum þá hvíld og þann frið sem hann þarfnast !
En mannlífsröstin liðast frá ári til árs út og suður og menn eiga það til að missa tímann algerlega frá sér í æstum hita sérgæskunnar. Þeir vilja efnast, græða, njóta svonefndra gæða lífsins eins og þeir kalla það, já, eins og frekast er kostur !
Allt er það efnislegt mat og andinn ræður þar auðvitað engu. Til þessara efnislegu gæða þarf peninga, mikið af peningum. Og í látunum við að eignast peninga, gleyma menn gjarnan eigin sálarheill !
Það er ekki fyrr en á banabeði, við dauðans dyr, að sumir þeirra átta sig á því að náðartími þeirra er liðinn, að dauðinn einn og algjör er það eina sem bíður þeirra. Þeir hafa sjálfir valið að ganga glötunarleið og lokað leið sinni til hins varanlega lífs !
Og nú eru þeir eins og ríki maðurinn í helju. Græðgi augnabliksins er að baki í hugum þeirra, auðgunarhvötin, svo illilega afvegaleiðandi, stjórnar þar ekki lengur, óttinn við dauðann og syndagjöldin er þess í stað orðinn þar allsráðandi. En það er samt engu hægt að breyta úr því sem komið er, engin von lengur. Tækifærið til að höndla hið eilífa líf er horfið !
Allt á nefnilega sinn endatíma, sína lokastund. Meira að segja það sem sumir halda víst í sérgæsku sinni að sé óendanlegt fyrirbæri og bjóði endalaust upp á annað tækifæri hvernig sem menn hegða sér Náð Guðs !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.9.2020 kl. 09:43 | Slóð | Facebook
9.9.2020 | 10:01
Um það sem kann að bera fyrir augu !
Fyrir nokkru kom ég inn á KFC í Reykjavík og var þar þétt setinn bekkurinn. Sá ég þar meðal annarra sitja þjóðkunnan mann, Guðmund G. Þórarinsson. Á móti honum sat skeggprúður og prófessorslegur maður sem talaði í nokkrum ákafa.
Guðmundur hallaði sér aftur á bak í sætinu og virtist nokkuð þreytulegur. Ekki virtist hann svara mikið viðmælanda sínum og kannski var hann bara þreyttur á mælgi hans !
Eins og flestir muna, að minnsta kosti þeir sem skipt hafa sér af skákmálum, var Guðmundur G. Þórarinsson hárfagur maður hér fyrr á árum, en nú er höfuðskrautið að mestu farið því auðvitað hefur maðurinn elst eins og aðrir.
Ég hitti hann einu sinni fyrir um 30 árum heima hjá Jóhanni Þóri hálfbróður hans, en þar var maður sem mér þótti nokkuð vænt um. En nú eru yfir tuttugu ár síðan Jóhann Þórir kvaddi og eiginlega finnst mér að enginn hafi almennilega komið í hans stað. Það er alltaf sagt að maður komi í manns stað, en stundum er nokkuð erfitt að trúa því !
Þegar ég sá Guðmund bróður Jóhanns þarna á Kentucky flaug í hugann þessi vísa :
Hér má líta Guðmund G.
garp með anda sönnum.
Á honum ég aldur sé,
eins og fleiri mönnum.
Svo kvað ég áfram í huganum á leið að borði mínu :
Vel hann skilur skáklegt gaman,
skóp sér frægð með sannleik þeim.
Spassky og Fischer spyrti saman,
spurðist það um allan heim !
Tíminn fer hratt um garð og margt gleymist, en Guðmundur G. Þórarinsson og einvalalið í forustusveit Skáksambands Íslands stóð árið 1972 fyrir einni mestu, víðtækustu og jákvæðustu landkynningu sem Ísland hefur hlotið að mínu mati - með því að halda með svo glæsilegum brag og stíl ,,Heimsmeistaraeinvígi aldarinnar !
Áfram haldi hugans afl
hreinu merkis orði.
Lífið allt er eins og tafl,
ævin skák á borði.
Það var heiður Íslands sem var í öllu útgangs og viðmiðunarpunktur málanna af hálfu þeirra sem forustu höfðu fyrir þeim mikla viðburði sem heimsmeistara-einvígið sannarlega var, og full ástæða er því til að muna það sem vel er gert, ekki síst í þágu þess sem þjóðinni er virkilega til sigurs og sæmdar !
Þessvegna hafði ég ánægju af að sjá Guðmund G. Þórarinsson þarna á Kentucky, þó hann væri nokkuð þreytulegur og vissulega talsvert eldri en þegar fundum okkar bar saman á Meistaravöllum forðum daga, heima hjá Jóhanni Þóri bróður hans, þeim eldhuga driftar og dáða !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Er leiðandi fólk að þjóna þjóð sinni heilshugar ?
- Sérfræðingasúpan ,,naglasúpa allsnægtanna !
- Heiða Björg fær ,,Marshallhjálp !
- Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !
- Gjörbreytt þjóðarásýnd ?
- Erum við undirlægjuþjóð allrar fávisku ?
- ,,Upplausn Bandaríkjanna !
- Hin rangsnúna framvinda ytra og innra arðráns !
- Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !
- Undir alveldi ,,Sölunefndar þjóðarlífseigna !
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 70
- Sl. sólarhring: 87
- Sl. viku: 1186
- Frá upphafi: 397655
Annað
- Innlit í dag: 54
- Innlit sl. viku: 1054
- Gestir í dag: 52
- IP-tölur í dag: 52
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)