Leita í fréttum mbl.is

Kjósum með þjóðarvelferð að markmiði !

Það styttist með hverjum degi í kosningar til þjóðþings okkar og fróðlegt er sem fyrr að velta fyrir sér á hvaða forsendum kjósendur velja sér fulltrúa þar ?

Ég er til dæmis ekki í nokkrum vafa um að kröfur í þeim efnum hafi rýrnað að gildi eins og tíðarandinn sjálfur. Þegar siðferðileg gildi falla hefur það auðvitað áhrif um allt samfélagið. Þessvegna sitja að mínu mati allnokkrir á þingi í dag sem hefðu ekki komið til greina sem þingmannsefni fyrir einum mannsaldri eða svo. Nú mætti jafnvel halda að það eina sem menn þyrftu að hafa í veganesti á þing væri bara að vera nógu miklir kjaftaskar - ekki síst í fjölmiðlum !

Menn virðast meira að segja auðveldlega geta orðið ráðherrar út á það eitt að vera kjaftaskar, enda að margra mati nóg dæmin um það í seinni tíð.

Það virðist sem afar fáir spyrji nú til dags spurninga sem eðlilegar þóttu fyrir ekki alls löngu - er maðurinn heiðarlegur, er hann ábyrgur, er hann heill gagnvart landi og þjóð ?

Og ef við gerum æ minni kröfur hvað þetta varðar, verða afleiðingarnar þá ekki  óhjákvæmilega þær, að fulltrúar þjóðarinnar á þingi verða stöðugt flatneskjulegri og ómerkilegri sem slíkir ?

Það hlýtur að gefa auga leið !

Þingið virðist líka orðið í þjóðarinnar augum einhverskonar kjaftaklúbbur þar sem fátt er talið heyra viskunni til og margt til aðhláturs. En þjóð sem velur sér þinglið sem er aðhlátursefni hlýtur að kalla það yfir sig að verða aðhlátursefni sjálf og varla viljum við það ?

En hvernig viljum við þá að fulltrúar okkar á þjóðþinginu séu ?

Þurfa þeir ekki að bera þjóðinni gott vitni, þurfa þeir ekki að vera virðingarverðir menn, vammlausir menn, menn sem skara fram úr og eru jafnvel hæfastir hinna hæfu - eða hvað ?

Nú er það svo að ég er meðal þeirra mörgu sem vilja flestalla þá sem nú sitja á þingi burt ! Það lið sem situr á þingi er að stórum hluta og kannski allt merkt af því sem látið var gerast í kringum hrunið, það er merkt af þeim svikagjörningum á einn eða annan hátt.

Eplin í körfunni þar eru orðin skemmd að mínu mati !

Og skemmd epli bæta ekki heilbrigð epli, þau sýkja út frá sér eins og reynslan kennir. Við þurfum því nýtt fólk með nýja sýn fyrir þjóðlegri samstöðu og velferð. Hamingja okkar veltur á því hvernig við höldum á eigin málum !

Við þurfum fólk á þing sem við getum treyst í stað þess fólks sem reynslan hefur sýnt að við höfum ekki getað treyst. Við þurfum í samfélagslegu ljósi þeirrar bitru reynslu að breyta hér býsna mörgu.

Eitt af því sem þarf til dæmis að gera, er að endurskipuleggja allt dómsmálakerfi landsins. Af hverju ? Af því að þar virðist ekki neitt ganga eðlilega fyrir sig og þekktir lögfræðingar setja þar jafnvel á svið leikrit þegar þeim sýnist svo !

Það þarf að vinna að því að tryggja að valinkunnir einstaklingar geti varið og sótt mál fyrir dómstólunum á grundvelli réttlætis og sannleika, menn sem beita öðru fyrir sig en lagakrókum. Íslensk dómsmálasaga hefur á síðustu árum verið hrein hörmung í flesta staði og mál að þar hefjist almennileg endurhæfing.

Sem almennur borgari lít ég svo á að lögfræðingar landsins hafi í miklum mæli fallið á prófi sem verjendur réttlætisins !

Þeir virðast þjóna núorðið fyrst og fremst undir fjármálavald og auðmenn og eru orðnir allt of dýrkeyptir þjónustuaðilar til að almenningur geti nýtt sér þekkingu þeirra. Þessvegna er hægt að níðast svo mikið á venjulegu fólki, því það hefur ekki lengur efni á að leita sér lögfræðiaðstoðar.

Það er ekki af engu sem svonefndur „ flokkur allra stétta ´´ hefur ekki verið hrifinn af gjafsóknarákvæðum í lögum og reynt að takmarka þau sem mest.

Þar hefur þjónustan við aðalinn í landinu alltaf ráðið ferðinni !

Það hefur heyrst í umræðum manna á milli að ungir lögfræðingar í dag segi að þeim beri bara að fara eftir lögunum en að þeir tali ekki mikið um réttlætið sem frumvaka í málum. Þeir vita sennilega manna best að lagasetning seinni ára á í mörgum tilfellum enga samleið með réttlætinu eða siðferðinu.

Ég hef satt að segja miklar efasemdir um að lögfræðimenntaðir menn í þessu landi hafi í raun heilbrigt hugarfar gagnvart velferð lands og þjóðar ?

„The Welfare of the People is the Supreme Law ´´ eru einkunnarorð Missouriríkis og víðar eru þau notuð sem áminningarorð. Þau eru tekin frá rómverska mælskumanninum Cicero, salus populi suprema lex esto :

Velferð fólksins (þjóðarinnar) eru æðstu lögin !

Þau einkunnarorð virðast hreint ekki hafa verið höfð mikið í heiðri í íslenska dómsmálakerfinu og síst í seinni tíð. Það er löngu tímabært að hefja slíkt viðmið til vegs og virðingar í þessu landi - með eða án aðkomu lögfræðinga !

Velferð þjóðarinnar þarf að vera höfuðmálið í sérhverjum málaflokki, allt þarf að prófast og skoðast í ljósi þess hvort það sé hagkvæmt fyrir þjóðina sem slíka.

Sérhagsmunakerfið verður að víkja með sínum rotna hugsunarhætti og heildarhagsmunir verða að ríkja í kraftbirtingu ærlegra gilda !

Við verðum að skilja það, að við sækjum ekki velferð lands og þjóðar til ráðstjórnarinnar í Brussel eða annarra erlendra aðila. Við verðum að vinna hana sjálf úr gæðum lands og sjávar. Það gerir það enginn fyrir okkur, en þeir úlfar eru til, bæði austan hafs og vestan, sem vilja komast í þá aðstöðu að hirða af okkur gæði lands og sjávar og gera okkur afskipt í þeim efnum.

Kjósum því þingfulltrúa okkar á grundvelli hugsjónar fyrir þjóðarvelferð !

Stöndum vörð um arfleifð okkar og verðum áfram frjálsir Íslendingar í eigin landi !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 38
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 1213
  • Frá upphafi: 316812

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 891
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband