Leita í fréttum mbl.is

Um sáttmála samleiðar og gildi Guðs Orðs !

Þjóðfélag verður til þegar fólk sem á í öllum meginatriðum samleið, kýs að gera sáttmála sín á milli um þau grundvallarmál sem það kýs að heiðra. Meðan trúnaður varir gagnvart gildum sáttmálans er fólk áfram á sömu göngu í gegnum lífið, en þegar sá trúnaður er rofinn gerist það vegna þess að einhver eða einhverjir vilja fara aðra leið. Stundum er eins og sumt fólk fái leið á öllu með tímanum, sama hvað gott það er eða hefur verið og vilji fá breytingar breytinganna vegna !

En þegar vegið er að rótgrónum siðagildum og reynt að brjóta þau niður með allskonar áróðri í ræðu og riti, er hætt við að hrikti í mörgum þjóðfélagsstoðum. Þá getur margt farið forgörðum sem átti kannski ekki að glatast, en þegar menn höggva tréð en vilja halda í greinarnar verður niðurstaðan skiljanlega með þeim hætti. Ég veit heldur ekki til þess að þeir sem að slíkum hlutum standa, séu að boða okkur einhvern fastari grunn til að standa á. Þeir virðast vera of önnum kafnir við að rífa niður til að huga að slíku. Það eina sem virðist fast í hugum þeirra er að herja á þann siðferðilega og trúarlega grunn sem þjóð okkar hefur haft til að standa á um aldir og viðleitnin sýnist öll í þá veru að brjóta hann niður. En hvað skyldi eiga að koma í staðinn ?   

Það er nú það !  Oftast er það svo með þá sem vilja ekkert með Guð hafa, að þeir vilja hefja manninn á stall „í öllu sínu veldi!"  Í staðinn fyrir Guðsdýrkun vilja þeir standa fyrir manndýrkun !  Oft á þessi afstaða samleið með mönnum sem eru orðnir það sem ég vil kalla oflærðir. Þeir fá ekki meðtekið á sínum lærðu forsendum þá skilgreiningu sem Biblían gefur fyrir trú. Þar segir nefnilega „ trú er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá !"

Samkvæmt vísindalegum rannsóknarforsendum nútímaviðhorfa er ekki hægt að meðtaka svona boðskap. Þar sem  lærdómsspekingar háskólasamfélaga hafa hvorki möguleika á því að setja mælistiku fræða sinna á Guð né Orð hans, virðist sú lausn nærtækust hugsun þeirra að loka á þetta hvorttveggja og úthýsa því úr mannlegu samfélagi. Guð er samkvæmt hugsun slíkra aðila ekki til og þar af leiðandi ekkert Guðsorð heldur. Biblían er í hugum oflærðra bara samanhrúgað mannasetningarit og engin ástæða til að taka hana alvarlega. En á móti þessari oflærðu afstöðu kemur inn í dæmið önnur afstaða sem er kannski ekki svo ýkja lærð, en virðist alltaf búa í miklum styrkleika í mannlegum sálum, en það er sú staðreynd að maður án trúar er varla til. Allir virðast þurfa sinn átrúnað. Þeir sem villst hafa frá Skapara sínum og þykjast guðlausir og náttúrulega að sama skapi víðsýnni en aðrir, hafa til dæmis margir Mammon fyrir sinn guð, jafnvel án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. Og þau geta orðið mörg skurðgoðin í lífi manna sem vita ekki að Guð sem er sannur Guð verður aldrei búinn til af mannahöndum eða huga.

Þeir sem standa á móti kristnum gildum í samfélagi okkar og eru þar andlega séð bandamenn, herja í raun á aldagamlan trúarlegan bakgrunn þjóðarinnar og vilja skipta honum út og fá eitthvað sem hentar þeim betur í staðinn. Þeir vilja ekkert með afskiptasaman Guð hafa, Guð boða og banna, Guð sem segir þeim hvernig þeim ber að breyta og heimilar þeim ekki að gera allt að eigin vild. Slíkur Guð er í þeirra augum bara guð sem er til vandræða !

Og hinir háværu minnihlutahópar þeirra uppreisnarafla í samfélaginu sem vilja annaðhvort þurrka kristindóminn út eða þynna hann niður í gildisleysi, hópar sem eru í raun bandamenn í sókn að slíku marki, fara nú á dögum með miklum gný um þjóðfélagið og þykjast þar meðal annars höfuðverjendur allra mannréttinda. Í þeim umræðufarvegi sé ég ekki betur en að til dæmis Siðmennt og Samtökin ´78 séu sem í einum anda, þegar öllu er á botninn hvolft. Afneitun á kristindómi og vilji til útþynningar kristindóms niður í gildisleysi, er í raun það sama !

Íslenskt samfélag hefur þroskast í gegnum aldirnar við geysilega mikinn samruna sögu, menningar og trúar. Grundvallarþættirnir í haldreipi þjóðarinnar fyrir lífi og velferð eru ofnir úr andlegum kjarna þessarar þrennu. Ég held að þar verði ekki eitt skilið frá öðru nema með hrikalegum afleiðingum. Ég fæ ekki séð að nokkur sómakær Íslendingur vilji í alvöru afskrá hið liðna með þeim hætti, jafnvel þó ég persónulega þekki menn sem virðast hafa vilja til að höggva tréð en halda lífi í sumum greinum þess.

Frá mínum bæjardyrum séð, myndi heiðingi sem væri samkvæmur sjálfum sér, vera öllu virðingarverðari en nokkur af þeim sem vilja smækka kristindóminn niður í persónulega vasaútgáfu eigin vellystar, en svo heiðarlegan heiðingja hef ég aldrei hitt til þessa og geri varla ráð fyrir því að svo verði héðan af. Ég get hugsað mér að slíkir heiðingjar hafi verið til fyrir kristnitöku, til dæmis Runólfur goði í Dal, en í dag eru þeir sem amast við kristinni trú, að mínu áliti, menn af allt öðru og lakara sauðahúsi. Þar er dansað við tíðarandann, dansað við sjálfið og eigið ágæti, og ekkert viðurkennt sem því æðra að gildi !

Það er til fólk, bæði hérlendis og erlendis, sem telur sig ekki hafa neitt til Jesú Krists að sækja ; ef til vill telur það sig of menntað til þess eða þá of gáfað, en það er greinilegt að hluti af boðskapnum til safnaðarins í Laódíkeu í Opinberunarbókinni á við þá sem þannig er ástatt með, en þar stendur : „ Þú segir : „Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis. Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn. Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl til að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi !"

Laodíkeu-andavaldið leikur lausum hala í dag og það er nákvæmlega eins og Ritningin sagði fyrir að það myndi verða. En þegar allir guðleysingjar samtímans verða orðnir að dufti og ösku, mun Orð Guðs sem þeir ætluðu að tortíma, halda velli heilt og óhaggað sem fyrr. Enginn mannlegur máttur stendur til lengdar gegn Guði og framgangi áætlunar þeirrar sem hann hefur með þennan heim !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 1175
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 882
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband