Leita í fréttum mbl.is

"Skuldaniðurfellingin mikla !"

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þykist nú líklega hafa staðið við sín stóru orð og „upprisa íslensku millistéttarinnar" á að standa fyrir dyrum að hans mati. En hin margupphafna skuldaniðurfelling er í þeim mæli að aðeins virðist hægt að segja um hana, að fíll hafi tekið jóðsótt og fætt mús !

Það segir sína sögu, að allir þeir aðilar sem aldrei hafa fagnað því að almenningur fengi eitthvað í sinn hlut, fagna nú. Og af hverju skyldu þeir fagna ? Þeir geta ekki leynt ánægju sinni með það hvað skammt er farið. Þeir voru nefnilega farnir að verða hræddir við hið gagnstæða, sem þó aldrei þurfti að óttast ! Niðurstaðan er hinsvegar fullkomlega í anda hinnar mögnuðu sannindavísu:

Til að öðlast þjóðarþögn

þegar þeir aðra véla,

gefa sumir agnarögn

af því sem þeir stela !

Ég var alla tíð sannfærður um að lítið myndi koma út úr þessu bjargráðalýðskrumi. Ég veit nefnilega að silfurskeiðungar koma ekki til móts við þarfir venjulegs fólks. Þeir arðræna það og einmitt vegna þess er þessi skuldavandi til staðar !

Fólk var blekkt í stórum stíl, haft af því fé, og það fé varð ekki alveg að engu. Það er áreiðanlega enn í talsverðum mæli í höndum þeirra sem ódáðirnar frömdu ! En það hefur löngum virst svo sem ekki megi snerta við þeim aðilum. Þeir hafa virst njóta fullkominnar friðhelgi innan lögsögu hins íslenska lagakerfis. Þeir virðast varðir í bak og fyrir, þessir óhappamenn sem fengu fyrir hrun - frá pólitískum lagsbræðrum sínum - nánast ótakmarkað skotleyfi á almenning !

Nú eru að vísu einhver tilþrif í gangi, lægra dómstig virðist hafa sýnt nokkra festu og samborgaralega ábyrgð, en hvað gerir Hæstiréttur ? Þeir eru ófáir sem virðast trúa því að hann muni snúi þeim dómum við sem nú hafa verið felldir, og komi þannig fram sem einhver verndari valdamikilla samtryggingarafla í þjóðfélaginu ? Ég veit ekki hvernig þar verður á málum tekið, en ég verð að segja það fyrir mig, að í ljósi atburðarásar undanfarinna ára, ber ég ákaflega lítið traust til Hæstaréttar og því miður er hann ekki í mínum augum það sem ég tel að virðingarverður Hæstiréttur eigi að vera !

En við skulum sjá hvað setur !

Ég hef tekið eftir því að nú eru bankaskrímslin byrjuð að þylja gamla áróðurinn um sparnað ! Af hverju skyldi það vera, skyldi það ekki vera til þess að hægt sé að hirða sparnaðinn af fólki þegar hann er orðinn að álitlegri fjárupphæð ?

Það er svo miklu erfiðara að ná fé af fólki sem sparar ekki og eignast ekki neitt ! Svo það verður að hvetja fólk til þess að spara. Það er sama gamla leikfléttan sem auðvald heimsins hefur beitt gagnvart almennum einstaklingum öld af öld, - þú átt að vinna, vinna mikið, skapa verðmæti, spara, spara, reyna að eignast eitthvað ! Og svo er hugsunin á bak við, - og þegar þú ert búinn að basla og þræla, skapa verðmæti, spara og leggja fyrir, þá ætlum við að koma og hirða það af þér !

Afstaða silfurskeiðunga-stjórnarinnar til almenns fólks í þessu landi kom í ljós þegar vaxtabætur voru skornar niður við trog í sumar. Voru þær ekki ákvarðaðar á sínum tíma af fyrri stjórn til þess að bæta fyrir mistök fyrirhruns-stjórnvalda í eftirlitshlutverkinu með fjármálagjörningum síðustu ára ? Höfðu fyrri stjórnvöld ekki sagt að það væri réttlætismál vegna þeirra mistaka ?

Árið 2012 voru vaxtabætur veruleg hjálp fyrir margt fólk í greiðsluvanda vegna stökkbreyttra lána, en 2013 var allt skorið niður í lúsarlíki og sennilega hefur núverandi stjórn þá verið að byrja að safna í það verkefni  að láta fólkið sjálft borga brúsann fyrir „skuldaleiðréttinguna miklu"!

Hið mikla kosningaloforð Framsóknar um réttlæti í þessu máli hefur þegar snúist upp í andhverfu sína, niðurstöðurnar eru með ótvíræðum Valhallarfnyk og sýna glöggt að annar sérgæðaflokkur hefur haft mikið um útþynningarþátt málsins að segja  og haft þar sína stóru bláu krumlu á bagga !

Það er viðbjóður að horfa upp á menn hreykja sér og berja sér á brjóst fyrir smáskammtalækningar af þessu tagi. Ég þóttist vita að loforðið mikla yrði aldrei haldið, en það virðist stefnt að því einu að svíkja það með svo ísmeygilegum og lúmskum hætti að undrun sætir og er maður þó orðinn ýmsu vanur frá íslensku stjórnmálamafíunni. Þaðan er einskis góðs að vænta fyrir venjulegt fólk !

Ég óska þess af heilum hug, að allir þeir sem komið hafa að tilurð þessarar blekkingarleikfléttu, taki það út á sjálfum sér sem þeir hafa gert þjóð sinni og heimilunum í landinu með þessum margútþynnta músargjörningi ! Það er alltaf gott að vita hver andstæðingur manns er, en versti andstæðingurinn er alltaf hinn svikuli bandamaður, sá sem þykist vera með okkur en er í raun á móti okkur !

Það var stolið miklu af fólki fyrir hrunið, svo miklu að margir hafa misst sinn lífssparnað, en „réttlætis-skilagjörð" silfurskeiðunga hljóðar upp á vesæla agnarögn af ránsfengnum og í raun sýna hugsaðar tilfærslur fjármuna að það á að láta fólkið sjálft borga sína skuldaleiðréttingu !

Þegar bóndinn datt í flórinn forðum, gerði hann sér undireins fulla grein fyrir ástandi sínu og því hver staðan var og honum varð því að orði: „Nú er sannarlega skítalykt af mér !"

Ég geri mér engar vonir um að íslenskir ráðamenn, hvort sem er í ríkisstjórn, á þingi eða í öðrum valdamiklum stofnunum, muni nokkurntíma mæla slík orð, þó þeir margir hafi sokkið upp fyrir haus í mesta skítahaug Íslandssögunnar - haug efnahagshrunsins ! En í mínum huga er bóndinn sem datt í flórinn sinn hreinn í samanburði við þá og virðing mín fyrir svokölluðum yfirvöldum þessa lands er því miður ekki líkleg til að lyfta sér upp fyrir núllið í fyrirsjáanlegri tíð !

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 1188
  • Frá upphafi: 316787

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband