Leita í fréttum mbl.is

Hið djöfullega íslenska blóðsugukerfi !

Það vita flestir að íslenska verðtryggingarkerfið er eins langt frá réttlæti og nokkurt kerfi getur verið. Það liggur fyrir að ekkert samfélagskerfi í heiminum hefur treyst sér til að taka upp slíkt mismununarfyrirkomulag, þar sem venjulegt fólk þarf að axla alla ábyrgð á fjármálalegum skakkaföllum, efnahagshruni og hverju sem yfir dynur, en auðstéttin, fjármálavaldið, ríkiskerfið og öll heila helvítis yfirhjörðin er alltaf stikkfrí !

Og hverjir valda skakkaföllunum, efnahagshruni og annarri óáran ef ekki þessir sömu ábyrgðarlausu aðilar, sem eru gengistryggðir fyrir öllu í þessu landi og ekki síst eigin afglöpum. Það virðist engin leið að sakfella menn á Íslandi þó allir viti að þeir hafi misnotað heilu milljarðana og steypt þjóðinni ofan í bölvunardjúp sem þegar hefur kostað sitt, eyðilagt hamingju og velfarnað þúsunda manna og framið glæpi sem yrðu taldir í hverju siðferðilega heilbrigðu þjóðfélagi meira en lítið sakhæfir. En hér - hér keppist kerfið við að sýkna þessa menn og velta málskostnaði yfir á bök skattgreiðenda í landinu, ofan á allt annað. Vei slíku kerfi, megi það fara lóðbeint í heilu lagi beina leið á ónefndan stað !¨

Verðtryggingin er bundin brennimarki djöfulsins. Hún er ávísun á hvers kyns bölvun og siðferðilega svívirðu og á sér nánast enga sambærilega hliðstæðu mismununar í þjóðfélaginu nema kvótakerfið sem hefur eins og verðtryggingin enga undirstöðu nema ranglætið. Og hugarfarslegu siðferði landsmanna hnignar jafnt og þétt þegar ranglætið veður þannig uppi og ófáir aðilar hafa hag af tilvist þess. Það er vond staða fyrir sálarlíf hvers manns að verja, fjárhagslegra hagsmuna sinna vegna, það sem hann veit í hjarta sínu að er rangt. En sú staða virðist vera að verða æ þekktari í lífi manna hérlendis og kemur stöðugt harðar niður á heilbrigðum viðmiðum þeirrar þjóðar sem í eina tíð vildi ekkert rangt styðja og hafa réttlætið eitt að leiðarljósi.

En peningaguðinn er ágengur, hann brýtur niður varnir anda og sálar og gerir margan manninn að þræl sínum. Þeir eru ófáir sem þjóna Mammon alla daga og virðast enganveginn gera sér grein fyrir að breytni þeirra er viðurstyggð og leiðir af sér bölvun til lengri tíma litið, fyrir þá, afkomendur þeirra og samfélagið í heild.

Það eru gömul sannindi að menn göfgast í mótlætinu en spillast af meðlætinu. Þannig má segja að allsleysið í gamla daga hafi ekki verið alvont því það gerði ófáa menn að meiri mönnum, en allsnægtir þær sem landlæg spilling býður mörgum upp á í dag, gera þá hina sömu yfirleitt að mun verri mönnum en þeir ella væru.

Þegar einstaklingar eða menn af hálfu fyrirtækja og stofnana tala fyrir verðtryggingu, tala fyrir kvótakerfi, tala um að allt hér fari á hvolf ef hróflað verði við þessum fjármálalegu vítisvélum, athugið þá bakgrunn þeirra sem þannig tala, finnið eiginhagsmunaástæðurnar. Þær eru alltaf fyrir hendi !

Það er ekki af engu sem menn aðhyllast ranglæti, mismunun, spillingu og siðferðilegt gildishrun. Þeir menn sem það gera telja sig og sitt einkavé græða á því ! Eru sáttir ef þeir fá bara vinning út úr viðbjóði. Þegar þeir heyra það nefnt af einhverjum að afnema þurfi ranglætið sem þeir þrífast á, verða þeir eins og brjálaðir og halda því fram að þá fari allt í rúst. Svo samgrónir eru þeir orðnir svívirðunni og ósómanum, að siðferðilega eru þeir orðnir samfélagslegir ódrættir, andlegar rústir, vatnslausar eyðimerkur !

Eftir efnahagshrunið sem var skýlaus sönnun þess að við höfðum verið á alrangri braut með svo margt, bjuggust flestir við að dreginn yrði lærdómur af áföllunum. Til þess héldu menn að rannsóknarskýrsla alþingis hefði verið gerð. En hvað kom í ljós ?

Þegar menn sáu hvað spillingin hafði verið komin á yfirgengilegt stig, hversu víðtæk hún hafði verið orðin, hversu mikillar hreinsunar þurfti við, hraus þeim hugur við tiltektinni. Skýrslunni var stungið undir stól og haldið áfram á hliðstæðri helfararrútuleið. Og hvernig verður hið síðara hrun fyrst ekkert á að leiðrétta ?

Það má ekki hrófla við efnahags-glæpamönnum þessa lands, það má ekki hreyfa við verðtryggingunni, það má ekki breyta kvótakerfinu, það má ekki umbreyta því úr sérhagsmunaófreskju í almannahagsmunablessun. Í stuttu máli, það má ekki taka á spillingunni !

Íslenska samfélagið er rekið á forsendum einkahagsmuna 10% landsmanna, þeirra ríkustu, ekki fyrir þjóðarheill !

Meðan blóðsugukerfi eru við lýði er nefnilega tómt mál að tala um þjóðarheill sem viðmið og takmark. Það er annar andi og verri sem stjórnar kerfinu !

Ætlum við aldrei að þvo af okkur óþverrann ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 1160
  • Frá upphafi: 316846

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 862
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband