Leita í fréttum mbl.is

Bandaríska vandamálið !

 

Donald Trump er sýnilega vaxandi vandamál í bandaríska stjórnkerfinu og erfitt er að sjá fyrir hvað gerst getur í komandi tíð varðandi það efni. Trump er nefnilega í flestra augum alveg óútreiknanlegur maður !

 

Vandamálið með Trump er til dæmis það, að hann hegðar sér ekki eins og forseti, hann hegðar sér eins og forstjóri í fyrirtæki. Hann talar niður til annarra og virðist helst vilja reka hvern og einn sem ekki er að hans skapi. Það er eins og ekkert nema eldur og ofsi ráði för !

 

Maðurinn þykir ekki hegða sér í samræmi við þá virðingu sem forsetaembættið hefur yfirleitt fært handhafa sínum og nýtur því enganveginn þeirrar virðingar sem það ætti að geta skilað honum. Líklega þekkir hann ekki spakmælið gamla - að vandi fylgi vegsemd hverri !

 

Trump virðist einfaldlega ekki kunna sig og klúðrar hinu og þessu í samskiptum. Jafnvel þegar hann talar við aðra þjóðarleiðtoga er eins og hann leiki sér stundum að því að vera strákslegur og ókurteis. Það er eins og það eigi að vera eitthvað fyndið eða sýna hvað hann sé svalur og hvað hann fari létt með það að taka aðra í gegn !

 

Það er eins og maðurinn hafi bara ekki höndlað þá staðreynd enn með vitsmunalegum hætti að hann sé forseti Bandaríkjanna og það feli í sér skyldur varðandi framgangsmáta. Kannski hefur hann einfaldlega ekki þá vitsmuni sem þarf til þess að sinna þessu háa embætti með tilhlýðilegum hætti !

 

Bandaríska stjórnkerfið er eiginlega illa undir það búið að taka við manni eins og Trump í æðsta embætti þjóðarinnar. Flestir þeir sem áður hafa gegnt því hafa getað tekið tilsögn reyndra ráðgjafa, en Trump virðist hreint ekki á því að hann þurfi neina leiðsögn. Hann fer bara fram með sínum hætti og sá háttur er oft þannig að hann þykir ekki boðlegur og dregur virðingu embættisins niður í augum margra !

 

Í yfirstandandi tíma, þegar konur eru að rísa upp og krefjast þess að karlar sýni þeim fulla virðingu og lýsa yfir samstöðu sinni gegn kynferðislegu áreiti, er það eiginlega algjör þversögn að maður eins og Trump sitji í einu valdamesta embætti heimsins og sé nýkjörinn til þeirrar stöðu. Hann virðist nefnilega búa yfir mörgu því sem konur deila hvað harðast á í fari karla. Hvað voru þær konur að hugsa sem kusu slíkan mann til valda ? Aldrei hefði hann náð kjöri ef þær hefðu staðið sameinaðar gegn því !

 

Það gat í sjálfu sér ekki þjónað neinu góðu að maður í beinum tengslum við viðsjált viðskiptalífið og á kafi í allskyns málum þar og jafnvel málum af mjög misjöfnu tagi, yrði kosinn forseti Bandaríkjanna. Það hlaut að draga dilk á eftir sér og sú hefur líka orðið raunin !

 

Það er mikið talað um að litli einræðisherrann í Norður-Kóreu sé hættulegur fyrir heiminn allan, en hvað um Trump í þeim skilningi ? Er hann ekki þeim mun hættulegri fyrir veraldarfriðinn sem kjarnorkustríðs-hnappurinn er stærri sem hann gumar af ?

 

Mun bandaríska stjórnkerfið standast það álag sem maður eins og Trump í embætti forseta leggur á það ? Ýmsar spurningar sem áður hafa trúlega lítt verið hugleiddar virðast nú eiga greiða leið upp á yfirborðið. Og það er líklega vegna þess að ákveðinn vandi er kominn fram í stjórnkerfinu vegna þess hvað forsetinn er óútreiknanlegur !

 

Hvernig mun þingið axla ábyrgð þegar forsetinn gerir það ekki og vill fara óæskilegar leiðir í örlagaríkum málum ? Hvernig mun dómskerfið bregðast við ýmsum vafaatriðum sem upp kunna að koma í náinni framtíð varðandi stjórnarskrárbundinn rétt forsetans til ýmissa athafna ? Hvernig mun alríkisvald forsetans reynast í höndum slíks forseta gagnvart sjálfstæði og rétti hinna einstöku ríkja innan ríkjasambandsins ?

 

Og varðandi samskiptin við erlend ríki ! Mun bandaríska stjórnkerfið láta það viðgangast að forsetinn valdi margvíslegum skaða á samskiptum við önnur ríki með óheppilegum yfirlýsingum í tíma og ótíma og jafnvel aðgerðum sem mælast illa fyrir og virðast í ýmsum tilvikum verulega vanhugsaðar ?

 

Yfirvöld í sumum þjóðríkjum virðast vera farin að hugsa mál þannig að þau verði bara að reyna að halda sjó þar til Trump fer úr embætti. Og margt virðist benda til að Trump muni síðar verða talinn í hópi lökustu forseta Bandaríkjanna. Það þarf eitthvað sérstakt að gerast til þess að það mat verði öðruvísi. Forstjórinn í Hvíta húsinu virðist ákveðinn í því að gera allt sem hann getur til þess að eftirmælin um hann í embættinu komi til með að verða sem allra verst !

 

Valdhroki mannsins er orðinn slíkur að menn setur hljóða ! Ef Trump forseti telur sig varnarmann fyrir það sem ef til vill mætti skilgreina sem bandarískar dyggðir, þá er vörn hans í þeim efnum með því ömurlegasta sem hægt er að hugsa sér !

 

Mynd hans verður örugglega ekki höggvin í neitt fjall á meginlandi Norður-Ameríku, en hann sjálfur virðist vilja höggva á margt sem menn hafa hingað til talið að ætti og þyrfti að fá að standa óhaggað. Ekki bara vegna þjóðarhagsmuna Bandaríkjanna heldur hagsmuna allrar veraldarinnar !

 

Heimsfriðurinn byggist oft ekki hvað síst á því að réttir menn séu í lykilstöðum og færri og færri virðast trúa því að Trump sé slíkur maður. Hið lýðræðislega bandaríska stjórnkerfi stendur því frammi fyrir einni mestu þolraun sem á það hefur verið lagt og enn virðist mikil óvissa í þeim málum og raunar alveg óvíst hvernig sú prófraun muni fara ?

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 126
  • Sl. viku: 1179
  • Frá upphafi: 316778

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 883
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband