Leita í fréttum mbl.is

Að missa forræði yfir eigin málum ???

 

 

Nú stefnir í að staða Skagastrandar verði ákveðin til frambúðar í því miðstýrða fyrirkomulagi sem ákveðið virðist hafa verið syðra. Lýðræðisleg sameining skal það víst heita samkvæmt plönunum, en það er eins gott að fólk kjósi rétt svo refsihönd fyrirgreiðsluleysisins falli ekki á það og kýli það niður. Val er ekki alltaf val þó það eigi að heita svo !


Fólk getur nefnilega líka orðið fyrir því að verða eins og höfn sem er opin í öfugan enda, því ráðsmennskan fyrir sunnan er æði oft öfug líka !


Að minnsta kosti er orðið vel ljóst eftir síðustu þrjá áratugina, að það er engin raunveruleg byggðastefna í gangi. Allt er miðað við borgríkið og við erum hætt að vera þjóðríki, enda æðir auðvaldsstefnan yfir allt !


En er það ekki skrítið, að það sem allt miðast við - Reykjavík, virðist ekki vera nein sérstök heimilisdásemd, því strax og vinnu er lokið á föstudögum, æðir stór hluti íbúanna upp í Borgarfjörð eða austur fyrir fjall í helgar-afslöppun. Það er aðeins hægt að slaka á í sumarbústöðunum – ekki heima. Reykjavík er bara staðurinn þar sem fólk aflar peninganna !


Einhverntíma var sagt að orðtakið – Heima er bezt – væri rétta forskriftin að góðu lífi, en eftir að heimilin hættu að vera skjól fjölskyldunnar og urðu aðeins stoppistöð til að skipta um föt eða sofa blánóttina, er sú stefna úr sögunni. Hún er líka sögð gamaldags eins og allt annað sem ætti að teljast gott og gilt !


Á landsbyggðinni þarf nú, samkvæmt ríkiskastala kenningunni, að byggja upp nokkrar meginstöðvar skrifstofuhalds og stjórnunar, svo auðveldara sé að eiga við þessar fáu hræður sem þar búa. Þessvegna þarf að sameina og sameina úti á landi, en ekki í óðaþéttbýlinu syðra, þar mega smákóngarnir valsa um og vera sjálfstæðir, eins og totubúarnir á Seltjarnarnesinu !


Í austur Húnavatnssýslu er fyrirséð að þessi sameining ef af verður, mun gagnast stærsta þéttbýlisstaðnum fyrst og fremst, því þar verður þá stjórnsýsluhöllin í umdæminu og pappírsflóðið sjálfsagt eftir því. Þá verður líklega til sannkölluð Eyðublaðabraut inn á Blönduós !


Þeir sem geta aðeins séð Sveitarfélagið Skagaströnd sem viðhengi við eitthvað annað og meira, fara auðvitað hlýðnu leiðina og fylgja í því hugarfari sínu. Gætu þessvegna endað í Brussel í einhverskonar samfylkingarlegu framhaldi málanna. En aðrir kunna að hugsa til orða Jóns Loftssonar forðum er hann mælti: ,, Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu ! ”


Skrifræðisvald ríkisbáknsins er alltaf að klóra utan í mannfrelsið og setja því auknar skorður. Það er ekki af því góða og þörf að vera á verði gegn slíku framferði nú og eftirleiðis. Lýðræði er auðvitað fyrst og fremst sú stefna, að fólk hafi raunverulegt frelsi til að velja hvert það vilji fara, að það sé ekki undir neinum þvingunarráðstöfunum varðandi val um leiðir til framtíðar, að sameinaður vilji þess nái fram að ganga !


Megi svo jafnan vera í landinu okkar að stjórnarfarið einkennist af frjálsu lýðræði en ekki baktjaldabundnu haftakerfi, sem á eingöngu að þjóna kerfislímdum sérgæskuöflum sem ekkert eiga skylt við almenna velferð !


Kjósum ávallt með almennu lýðfrelsi en ekki aukinni kerfisbindingu !



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 1235
  • Frá upphafi: 317429

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 939
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband